Leita í fréttum mbl.is

Glöggt er gests auga

Anne Sibert skrifar grein á fræðivefnum Vox, þar sem hún bendir á ýmsa veikleika sem hún telur vera hættumerki fyrir okkur Íslendinga.  Mér virðist sem sumir Íslendingar eigum erfitt með að samþykkja eða meðtaka ábendingar sem til okkar berast frá henni.  Auðvitað er það rétt, að þjóð þarf að vera af ákveðinni stærð til að geta verið sjálfstæð.  Hagkerfið þarf að vera af ákveðinni stærð til að geta borið sjálfstæðan og fljótandi gjaldmiðil.  Þetta er heilbrigð skynsemi.  Af hverju geta menn ekki bara tekið þessi ummæli hennar sem innlegg í umræðuna í staðinn fyrir að fara í blússandi vörn.  Við verðum að geta farið í naflaskoðun.

Ég lærði það í mínu námi að mikilvægustu spurningarnar eru "hvað ef" spurningar.  "Hvað ef þetta gengur ekki upp?"  "Hvað ef þetta bregst?"  "Hvað ef forsendurnar eru rangar?"  Þetta er það sem ég er að fást við í dag.  Áhættugreining, áhættumat, áhættustjórnun, grípa inn í ferli, brjóta þau upp, finna úrræði, leggja til úrlausnir.  Ef við erum ekki tilbúin að rengja gögnin, storka því viðtekna, neita að sætta okkur við hið vitlausa, þá rúllum við bara niður brekkuna og þurfum að byrja upp á nýtt.

En það er einmitt þetta sem mér virðist hafa skort hvað mest undanfarna mánuði og ár.  Það er að vefengja upplýsingar, storka hinu viðtekna, velta fyrir sér hvað gæti farið úrskeiðis og núna eftir að allt fór úrskeiðis, þá vantar að menn viðurkenni að þeir hafi gert vitleysu.  Nei, Kaupþing gerði allt rétt.  Davíð gerði ekkert rangt.  Landsbankinn fór rétt að öllu.  Björgólfarnir gerðu allt óaðfinnanlega.  Miðað við þetta, þá er bara furða að við allt hafi hrunið.  Það axlar enginn ábyrgð.  Það gerði enginn mistök.

Ég held að það gæti verið gott, ef Anne Sibert segði sig úr peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands svo hún gæti sagt okkur meira.  Gæti komið fram með meiri gagnrýni og fleiri ábendingar.  Við þurfum fleiri eins og hana, sem geta horft á alla flækjuna úr fjarlægð án þess að vera tilfinningalega tengdir vitleysunni hérna.


mbl.is Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég tek undir þessi sjónarmið og tel það hafa legið fyrir nokkuð lengi að Davíð hafi aldrei átt að taka að sér stöðu Seðlabankastjóra. Hann skortir þekkingu eins og Anne Sibert bendir réttilega á.

Þar að auki er hann þannig skapi farinn að hann hefur ekki þá hlutlausu sýn að málin og virðist eiga bágt með að meta málin kalt og yfirvegað. Það sem frá honum hefur komið í fjölmiðlum og á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki verið fágað diplómatatal, nema síður sé.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.8.2009 kl. 01:44

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hárrétt. Umræður um ýmis mál, eins og ICESAVE, virðast byggja á vafasömum forsendum.

Hættulegasta forsenda ICESAVE tengist því hvort við getum borgað eða ekki. Ég sé ekki betur en að miklar líkur séu á að við getum það ekki, enda hrundi efnahagskerfi okkar nýlega, og þar sem enginn hefur játað mistök, enginn hefur gerst sekur um glæpi, þá er afar mikil hætta á að sagan endurtaki sig, en í næsta sinn án þess að við eigum okkur nokkuð val.

Flott grein hjá þér. Tek heilshugar undir hana.

Hrannar Baldursson, 10.8.2009 kl. 07:14

3 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Þar sem enginn hefur játað mistök og ekkert uppgjör fer fram þá er það líkleg ástæða fyrir því að Icesave-samningurinn er á okur-kjörum. Af hverju ættu lánveitendur að treysta lítilli þjóð með þessa forsögu?

Góð skrif Marinó eins og venjulega.

Margrét Sigurðardóttir, 10.8.2009 kl. 07:23

4 identicon

Þessi umræða hér er á skynsamlegum og yfirveguðum nótum og þakkarvert að eiga þess kost að lesa slíkt, miðað við margt annað, sem á Netinu sést. En maður spyr sig; hver er ástæða þess að við létum fara svona með okkur? Af hverjum var ekki einhversstaðar spyrnt við fótum? Við því eru sjálfsagt mörg svör og margskonar nálgun þarf til að finna réttu svörin. En meðal þess sem manni kemur í hug er, hversu mjög við sem þjóð (ef það er hægt að kalla þennan hóp fólks þjóð), höfum verið kúguð og barin til hlýðni frá því á þrettándu og fjórtándu öld. Það fólk, sem fer hér og hefur farið á hverjum tíma með embættisvald, hefur komist upp með að haga sínum störfum - og starfa ekki - eftir sínum hentugleikum. Þannig að ef það hentaði þeim betur að taka við einhverju sem sumstaðar væru kallaðar mútur fremur en gæta almannahags, þá er það bara einfaldlega gert þannig. Þannig að það fólk, sem á að beta aðhaldi í þágu almannahagsmuna, gerir það ekki vegna þröngra, persónulegra hagsmuna. Nóg um það, en annað ekki síður mikilvægt er skortur á góðri menntun og menningarlegur bakgrunnur. Hér hefur löngum þrifist heimóttarskapur, nærður á þjóðrembu og minnimáttarkennd í sérkennilegri blöndu, þar sem sá hefur þótt bestur sem minnst gæfi sig að því að opna gluggana til annarra landa og menningarheima og vildi minnst af öðrum þjóðum læra. Í þessu felst einnig sú staðreynd, að þrátt fyrir hugmyndir okkar um annað, erum við afskaplega illa á vegi stödd varðandi það að geta tjáð okkur við aðrar þjóðir á þeirra eða alþjóðlegum tungumálum. Það er til dæmis staðreynd, að hér í Evrópu er sá sem kemur fram sem fulltrúi sinnar þjóðar á einhverjum vettvangi og getur t.d. ekki tjáð sig skammlaust á frönsku, ekki álitinn vera menntaður einstaklingur og því verður fólk sjálfkrafa utangarðs. Sama má segja um það tungumál, sem við höldum í fávísi okkar að okkur sé tamara öðrum tungumálum, enskuna. Það vantar svo óskaplega mikið á það að t.d. stjórnmálafólk geti notað hana sér og þjóðinni þar með að gagni. Að maður tali nú ekki um þessi faglegu alþjóðasamskipti, þar sem við erum nánast eins og börn og látum fara með okkur sem slík.

Ráðgarður (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 18:49

5 identicon

Sæll Marínó.

 Já það er ekki hægt annað en að vera sammála því sem þú setur á blað.  Þú átt heiður skilið fyrir hversu vel þú kemur málum á framfæri og hversu rökfastur þú ert. Endilega ekki gefast upp að fylgjast með málum áfram og setja á prent fyrir okkur hin.

En hvað varðar bankahrunið þá er það víst rétt að "enginn" gerði nein mistök.  Það var bara utanaðkomandi slys að hér fór allt á hausinn eða að almenningur keypti flatskjá og hjólhýsi.  Er það ekki?? Miðað við að sömu vinnubrögð og klíkuskapur virðist endalaust halda áfram og er þar skemmst að taka innheimtubréf sem lögfræðiskrifstofu formanns skilanefndar var falið að innheimta fyrir nokkrar millur á meðan formaðurinn fór og fékk sér kaffi.  Ég sé hann í anda skreppa fram og segja hinum að ljúka þessu á meðan.  Hvernig geta menn leyft sér þetta.? Er þetta nýi aðallinn sem hagnast á brunarústunum? Að mínu viti ættu menn að tipla á tánum til að gæta sín á að bjóða ekki réttmætri gagnrýni heim. Hvað varð eiginlega um nýja Ísland þar sem nýjar siðareglur áttu að gilda? 

Er það annars umhugsunarvert að þarna er talað um að  innheimtukostnaður sé 1%.  Eru einhverjar reglur þar að lútandi þar sem innheimtukostnaður verður svona lágur í prósentum þegar skuld er há.  Ég hef ekki séð annað en að venjulegur kostnaður lögfræðiskrifstofu til meðaljónsins sé upp á nokkra tugi prósenta af skuld.

Svanborg E. O. (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 19:09

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég las grein Anne Sibert á vefnum og fannst hún vera rökföst og vel skrifuð af fræðimanni sem vissi hvað hann var að tala um.  Mér fannst hún rekja mjög vel það sem gerir litlar einingar og fábreyttar erfiðar í rekstri.  Þetta er dæmið um eggin og körfurnar.  Smáríkin hafa fá egg í fáum körfum meðan stærri ríki hafa fleiri egg í fleiri körfum og þola því betur ef einhver veltingur er á þjóðarskútunni.  Íslendingar hafa verið að ganga í gegnum þetta undanfarna áratugi með sameiningu sveitarfélaga og öðrum breytingum til hagræðingar.  Þetta er líka ein ástæðan fyrir ríkjasamböndum eins og EU, Norðurlöndunum og samvinnu þeirra o.s.frv.

Hún bendir líka, mjög réttilega að mínu mati, á það hvað smæðin gerir erfitt fyrir um að finna hæft fólk í ákveðin störf, sem er ekki skylt eða tengt einhverjum og gerir hæfnina þar með erfiðari og getur auðveldlega leitt til vanhæfni.  Þetta sjáum við vel á Íslandi í dag þar sem allir þekkja alla og allir eru tengdir eða skyldir og þetta gerir erfitt fyrir um að finna nokkurn sem er ekki vanhæfur ef vel er að gáð til að taka að sér rannsóknarstörf vegna hrunsins. 

Ég held að þú hafir alveg rétt fyrir þér að íslendingar eigi mjög erfitt með að taka gagnrýni.  Held að ég sé þar engin undantekning;) en eftir að hafa búið erlendis lengi, þá breytist þetta viðhorf svolítið. 

Þú hefur líka hárétt fyrir þér að nú verða menn að skoða störf sín og annarra hlutlaust og finna hvað fór úrskeiðis.  Ekki endilega til þess að hengja einhvern sökudólg, heldur til að læra af mistökunum bæði eigin mistökum og annarra.  Þetta á við um alla, ekki bara þá sem voru í eldlínunni eftir hrunið eða í störfum hjá bönkunum, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum eða hvaða annarri stofnun eða fyrirtæki sem kom að þessu beint eða óbeint.  Ef enginn gerði neitt rangt, þá þarf samt að finna hvað fór úrskeiðis og læra af því.  Ef ekkert er lært þá er þjóðin að borga óhemju fjármagn fyrir nákvæmlega ekki neitt.  Ef eitthvað jákvætt á að koma út úr þessu, þá hlýtur það að vera sá lærdómur sem draga má af bankahruninu.  Ég sá það einhversstaðar að það er mikill áhugi á meðal háskóla til að fá upplýsingar um hrunið og hvernig Ísland er að vinna úr þessum málum til þess að reyna að draga lærdóm af þessu.  Ef erlendir skólar geta lært af þessu, þá hljótum við að geta það líka!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 11.8.2009 kl. 05:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband