Leita í fréttum mbl.is

Hvað getur verið verra en..

Það hafa dunið á okkur ýmsar slæmar fréttir á síðustu mánuðum.  Svo ég fari á hundavaði yfir þetta, þá eru þessar helstar:

  • Fall bankanna
  • Greiðsluþrot Seðlabanka Íslands
  • Að því virðist ótrúleg svikamylla í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi
  • Afskriftir til elítunnar
  • Sjálftaka eigenda bankanna á hundruðum milljörðum, ef ekki þúsundum
  • Ótrygg útlán til elítunnar upp á hundruð milljarða, ef ekki þúsundir
  • Icesave, Icesavesamningurinn og Icesavehótanir
  • AGS, AGS-samningurinn og AGS hótanir
  • Yfir 40% heimila í reynd gjaldþrota
  • Yfir 30% heimila með neikvætt eigið fé
  • Erlendar skuldir þjóðarinnar, þ.e. þessar sem við komumst ekki hjá að greiða, óbærilegar (líklegast yfir 6.000 milljarðar) og jafngilda þjóðargjaldþroti
  • Svik og prettir einstaklinga og fyrirtækja
  • Uppgjöf og/eða úrræðaleysi þriggja ríkisstjórna
  • Lygar, lygar og aftur lygar stjórnvalda, stjórnmálamanna, embættismanna, bankamanna og fjárfesta

Hvað getur verið svo vont, að það er verra en þetta?  Þó nefndi ég bara örfá áberandi atriði.  Ég hefði líka getað nefnt:

  • Atvinnuleysi
  • Landflótti
  • Aðför að velferðarkerfinu
  • Bandorminn
  • Gríðarlega hækkun lána
  • 216 milljarða halla ríkissjóðs
  • Skattahækkanir
  • Skjaldborgina sem aldrei kom
  • Hroka ráðherra í garð þjóðarinnar
  • Siðrof
  • Skort á iðrun
Ef Páll býður betur, þá hlýtur það að vera verra en vont, verra en afleitt.   En ég vil fá að vita hvað það er sem verra en allt vont.  Svartara en allar svartskýrslur hingað til.  Ég vil fá að vita hvað það er og svo vil ég að menn verði teknir í kippum og dregnir til ábyrgðar.  Líka stjórnmálamenn.  Og ráðherrar fyrrverandi og núverandi.  Páll gefur það í skyn að einhverjir ráðherrar hafi gert slík afglöp að horfa þurfi til ráðherraábyrgðar.  Mér koma strax til hugar Geir, Ingibjörg, Björgvin og Árni, en hugsanlega þarf að fara bæði fram og aftur í tímann.  En þessi fjögur stóðu í eldlínunni í 15 mánuði fyrir hrun bankanna, annað hvort fávís eða lugu að okkur.  Ég veit ekki hvort er verra.  Kannski var betra að þau vissu en gátu ekki sagt sannleikann, en að vita ekki sannleikann.  Bankastjórnendur, eigendur bankanna og sérstaklega starfsmenn greiningadeildanna geta ekki borið fyrir sig fávísi.  Kannski vanhæfi, yfirlæti, sjúklegu sjálföryggi, vanmáttarkennd, en líklegast tóku þessir aðilar bara þátt í sjónarspilinu að blekkja allt og alla.  Sjálfa sig þó mest.  Íslandi var fórnað á altari græðginnar.  Hvers vegna?  Jú, vegna þess að það var hægt.  Það var enginn sem sagði hingað og ekki lengra.  Það var enginn sem vildi hinkra við og skoða málið betur.  Það var enginn sem hafi dug og þor til að stoppa hringekju dauðans.  Það var nefnilega búið að múlbinda alla og líf þeirra valt á því að spila með.  Ef Páll kemur með eitthvað svakalegra en þetta, þá verður það vont og ég vil fá að vita um það.
mbl.is Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ætli þessi vonda frétt snúist ekki um það að sjálftökuliðið, kúlulánafólkið, stjórnmálamennirnir og embættismennirnir hafi ekki brotið lög.  Og alllir stikk frí???  Það kæmi mér ekki á óvart. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.8.2009 kl. 01:21

2 identicon

Maybe that they have to say the truth.......All those jeeps, caravans, mobile homes, 3.5 ton american "PallBilar", new summer houses, the quad bikes, the new flats and big glass office building (Still empty and how do we fill them)....summer houses, the property in spain, the trailer tents, the Range Rovers, the Audi jeeps, the Bmw´s, the Lexus cars.........The Porch cars, The Volvo cars  and Trailer tents..........Where did the money come from????........Easy!!! it was stolen from Holland and the UK ?????    THINK!!!! Stop moaning and THINK!!!!

Fair Play (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 04:11

3 identicon

On second thoughts, I like the way you think Jóna

Fair Play (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 05:09

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Ég sagði konunni minni frá þessu í dag þegar við vorum á helgarbíltúrnum niður til Silverdale og hennar orð voru eitthvað á þá leið að hvernig gæti eitthvað verið verra en það sem á undan er gengið.  Mér er alltaf minnisstætt þegar ég ræddi við gamlan Norðfirðing sem flutti til Reyðarfjarðar fyrir margt löngu, Höskuld Stefánsson, sem nú er látinn.  Hann fór mikinn vegna þess sem honum fannst vera afleitt hugarfar frænda sinna á Neskaupstað, að mig minnir út af fiskeldishugmyndum.  Hann orðaði það þannig að "Svo keyptu menn sér nýjar skjalatöskur og svo nýja bíla og svo fóru menn bara á hausinn!"  Þessi setning Höskuldar hefur setið í hausnum á mér síðan og hún hefur æði oft komið upp á yfirborðið undanfarið.  Hún lýsir því sem hefur skeð undanfarin 10 ár eða svo og hún lýsir líka ákveðnu hugarfari. 

Annað sem hefur setið í mér undanfarið er þáttur sem ég sá fyrir um mánuði síðan um Exxon Valdez slysið og hvernig það fór með Cordova í Alaska sem var nánast í miðju olíumengunarinnar.  Eftir 20 ár komst hæstiréttur loks að niðurstöðu í málinu og lækkaði fjárbætur úr 5 milljörðum dollara niður í 500 milljónir.  Þegar dómurinn var kveðinn upp var hagnaður Exxon-Mobile sem samsvaraði 162 milljónum dollara á dag!  Exxon og síðar Exxon-Mobile högnuðust um yfir 25 milljarða á því að hafa þessa 4.5 milljarða til handargagns í þessi 20 ár sem "réttvísin" tók sér til þess að komast í gegnum málið.  Íbúar Cordova misstu megnið af tekjum sínum af lax og síldveiði sem var undirstaða bæjarins.  Þeir biðu og vonuðust eftir skjótri meðferð þessa máls.  Það eru enn hundruð tonna af olíu frá Exxon Valdez á ströndum Alaska og hana er að finna langt niður eftir ströndum Kanada.  Það eru enn efni að losna úr fjörum og meðfram ströndum sem hafa áhrif á fiskgengd og það er álitið að þessi efni verði að losna um ókomin ár og áratugi.

Þetta situr í mér vegna þess að ég er hræddur um að íslendingar eigi eftir að bíða lengi eftir "réttvísinni" í þessu máli, ef hún verður einhvertíma einhver og ef hún kemur þá er ósennilegt að um nokkurskonar fjárhagslega þýðingu fyrir Ísland verði að ræða.  Þ.e. ég get ekki sé að neitt í þessu bankadæmi komi til með að "redda þessu" fyrir íslendinga, hvernig sem því er velt.  Ég er hræddur um að það eigi eftir að taka langan tíma fyrir íslendinga að vinna sig út úr þessu, ekki bara fjárhagslega, heldur líka andlega fyrir fólkið í landinu, eins og það hefur tekið fyrir íbúa Cordova, sem eru langt frá því að vera komnir yfir þetta.  Sálfræðingar og geðlæknar sem hafa fjallað um ástand íbúa Cordova segja að það sé svipað og fórnarlamba nauðgunar nokkrum mánuðum eftir að nauðgunin átti sér stað.  Ég hef trú á að líkt sé farið með mörgu fólki á Íslandi og það verður ekki einfalt mál að taka á því í framtíðinni og leysa úr öllu því hugarangri sem efnahagshrunið hefur þegar valdið og á eftir að valda um ókomin ár.  Utan frá finn ég að það er gífurleg reiði, sárindi og vanlíðan á meðal þjóðarinnar.  Fólki finnst því algjörlega misboðið.  Fólki finnst að traðkað hafi verið á því og því sem það stendur fyrir.  Nafn Íslands er nú með samasemmerki við svik og pretti. 

Orðtæki segir að lengi geti vont versnað, en ég held það séu takmörk fyrir því hversu mikið svartara svart getur orðið.  Mér finnst að fólk eigi rétt og heimtingu á því að vita hver staðan er, þó svo að nefndin eigi ekki að skila af sér fyrr en 1. nóvember.  Ef þeir eru strax farnir að þeyta dómsdagslúðra þá sé ég ekki að það sé eftir neinu að bíða!

PS:  Ef þú finnur sjálfan þig allt í einu landlausan þá er ég með gestaherbergi;)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 9.8.2009 kl. 06:44

5 identicon

Ætli þetta tengist ekki einhverjum leyni-reglum og ósnertanlegum "topp-mönnum" samfélagsins.

Allir múlbundnir og verða að spila með (Eins og þú orðar það)

= Allt eða ekkert?

Án þess að hægt sé að negla neitt niður í þessu sambandi.

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 09:14

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Hópur úrtölufólks og aumingja stækkar orðið ansi hratt.
Nú síðast skrifar Ann Siebert, einn fulltrúi í efnahagsnefndinni sem stjórnar stýrivaxtarákvörðunum, að Ísland sé of lítið til að vera sjálfstætt.
Mín ályktun er sú að áróðursfé ESB sé komið í umferð á spilaborðinu. Nú verður allt sett undir með að draga úr okkur kjarkinn, undirstrika smæð okkar og hreinlega hræða úr okkur líftóruna vegna "slæmra framtíðarhorfa".
Við verðum að horfa upplitsdjarfari fram á við en síðustu mánuðir hafa leyft. Við megum ekki gefast upp ALDREI !
Megi þeir sem taka undir í þessum landráðakór visna upp og fjúka burt frá okkar ströndum sem allra fyrst.

Áfram Ísland, Ekkert ESB, ekkert AGS, ekkert risalán og enga aumingja !

Haraldur Baldursson, 9.8.2009 kl. 15:39

7 identicon

Haraldur:  Við vitum það flest hér að stærð íslands / fjöldi íbúa hefur tiltölulega lítið að gera með hrunið; málið varðar hlutföll.

Umsvif óreiðumannanna í útrásinni og bankakerfinu voru orðin margföld stærð hagkerfisins.

Þessi staðreynd staðfestir lögbrotin sem unnin voru, en sem enginn vill viðurkenna: 1. að séu til; 2. að hafa brotið neitt af sér.

Baktryggingin var eigur almennings, húsnæði, lausafé, sparifé, lífeyrissjóður, framtíðartekjur, nú og svo auðlindir landsins.

En þetta er nú óðum að renna upp fyrir "ábyrgðarmönnunum" = almenningi.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 17:36

8 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Felst ekki tvennt í raun gott og nauðsynlegt í þessu:

1)  Rannsóknarnefndin birtir staðreyndir og dregur ekkert undan.

2)  Allir, jafnt háir sem lágir, sem ataðir eru spillingarpestinni og sukkinu, verða dregnir til ábyrgðar!

 Í mínum huga er um að ræða hina raunverulegu svartbók sem nauðsynlegt er að birta til að endurreisa samfélagið úr rústunum og byrja uppbygginu Nýs Íslands.

Því maðkabæli sem Ísland var orðið verður lýst. 

 Því sýnist mér ég muni fagna niðurstöðu nefndarinnar þegar þar að kemur, fremur en hitt.

Eiríkur Sjóberg, 9.8.2009 kl. 17:47

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Arnór, það er best að útiloka ekkert.  Kannski gæti gestaherbergið komið að góðum notum

Marinó G. Njálsson, 9.8.2009 kl. 23:47

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ef mið er tekið af félagsskapnum sem Össur valdi til utanlandsferða þá tel ég nokkuð viss að hann sé meðal þeirra ráðherra sem mætti bæta við listann þinn og svo hef ég velt Jóhönnu mikið fyrir frá því í haust. Það sem vakti fyrst og fremst tortryggni mína í hennar garð var þögnin... og enn er það þögn hennar sem viðheldur þeirri trú að hún sé viðriðin eitthvað sem hún vill síður að verði dregið fram...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 00:18

11 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Það er nátturlega argasti dónaskapur við þjóðina að segjast sitja á upplýsingum um eitthvað hrikalega slæmt en ekki ætla að segja frá því fyrr en 1. nóvember!

Á þjóðin núna að hýrast með stein í maganum í þrjá mánuði milli vonar og ótta og taka stórar ákvarðanir um lán og ólán og margt annað án þess að vera upplýst?

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 10.8.2009 kl. 00:20

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nákvæmlega Þorsteinn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 01:23

13 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Er semsagt einhver von um að eitthvað raunhæft komi út úr starfi þessarar nefndar? 1. nóvember rennur út stöðvun á uppboðum sýslumanna. Kannski Páll komi um leið með eitthvað svo magnað að maður fatti ekki að kofinn hafi verið seldur. Sem ég hef enga trú á meðan verið er að einblína á hrunið ekki einkavæðinguna og hvernig hún var framkvæmd.

Ævar Rafn Kjartansson, 10.8.2009 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 218
  • Frá upphafi: 1679913

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 196
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband