Leita í fréttum mbl.is

Sterkustu rökin gegn Icesave

Í þessari litlu frétt mbl.is koma fram sterkustu rökin sem hægt er að færa fram gegn Icesave samkomulaginu.  Bankinn sjálfur er best til þess hæfur að greiða til baka innistæðurnar!  Fram kemur í fréttinni að Heritable bankinn, sem var í eigu Landsbankans, sjái sjálfur um að greiða innistæðueigendum innistæður sínar.  Það gerist ekki bara si svona heldur taki lengri tíma.  Áður hefur komið fram að Kaupþingi var gefinn kostur á að greiða út innistæður á KaupthingEdge og það gekk bara vel.  Því hlýtur að vakna sú spurning:  Af hverju fékk Landsbankinn ekki sama tækifæri?  Af hverju þurfti strax að blanda íslenskum stjórnvöldum inn í málið áður en búið var að láta reyna á greiðslugetu Landsbankans?

Ég hef haldið því fram í nokkurn tíma, að Icesave samningurinn sé óþarfur.  Á Íslandi eru lög um það hvernig á að bera sig að geti banki ekki greitt út til innistæðueigenda og svo er það tilskipun ESB.  Við fall Landsbankans fullyrtu forráðamenn bankans að eignir bankans dygðu til að greiða út allar innistæður.  Málið er að bresk stjórnvöld fylltust óðagoti og gripu til þess að frysta eigur bankans og það sem meira var, að Bretar og Hollendingar tóku upp á því hjá sjálfum sér að greiða út innistæðurnar. 

Grundvallarmálið er að enginn bað Breta og Hollendinga að greiða út innistæðurnar í Icesave eða hvað? Þjóðirnar tóku það upp hjá sjálfum sér að gera það án þess að gera Landsbankanum sjálfum fyrst kleift að greiða og síðan íslenska innistæðutryggingasjóðnum.  Með þessu fóru þjóðirnar á svig við innistæðutryggingatilskipunina, en þar er tekið fram að fyrst eftir að fullreynt er að innlánsstofnunin getur ekki greitt kemur að viðkomandi tryggingasjóði að greiða.  Þar segir ekkert um það að einhver annar tryggingasjóður geti gripið inn í. Að bresk stjórnvöld hafi fryst eigur Landsbankans réttlætir heldur ekki inngrip breskra og hollenskra stjórnvalda. 

Bretar og Hollendingar telja að inngrip þeirra hafi gert það að verkum að greiðslur þeirra umfram EUR 20.887 séu jafnréttháar sem forgangskröfur og krafa íslenska tryggingasjóðsins.  Íslensk stjórnvöld ætla að kokgleypa viðhorf Breta og Hollendinga til málsins.  "Fyrst að Bretar og Hollendingar segja að þetta sé svona, þá hlýtur það að vera rétt" má lesa í skjölum sem birt voru á netinu í gær.  Þetta getur ekki staðist.  Þessar þjóðir geta ekki troðið sér framfyrir í kröfuröðinni og rýrt þannig stöðu íslenska tryggingasjóðsins með því að borga meira en ESB tilskipunin segir til um. 

Íslensku lögin eru mjög skýr.  Innlánsstofnunin skal greiða eins mikið og hún getur áður en tryggingasjóðurinn tekur við.  Eftir að lögbundnu lágmarki (þ.e. EUR 20.887) er náð skal halda áfram að greiða upp innistæðurnar uns annað að tvennu gerist, að innistæðurnar hafa verið að fullu greiddar eða að eignir eru uppurnar.  Það þýðir að kröfur Breta og Hollendinga lenda á eftir kröfum íslenska tryggingasjóðsins, en ekki samhliða.  Eins og Breta og Hollendingar túlka lögin, þá gætu þessar þjóðir stofnað 20 tryggingasjóði sem skiptu milli sín að greiða innistæðueigendum.  Allir sjóðirnir myndu þá fá sama forgang og íslenski sjóðurinn.  Þannig fengi sá íslenski fyrstu krónuna og síðan þá 22. (tuttugustu og aðra).  Það sér það hver heilvita maður að slíkt gengur ekki upp, en lögfræðilega er það samt leyfilegt, ef túlkun Breta og Hollendinga stenst. 

Í mínum huga er ekkert vafamál, að Landsbankanum ber að greiða út innistæðurnar á Icesave eftir bestu getu.  Nái bankinn ekki að greiða allar innistæður, þá ber íslenska tryggingasjóði innistæðueigenda að greiða það sem upp á vantar upp að EUR 20.887.  Þ.e. upphæðir umfram EUR 20.887 eru ekki tryggðar af innistæðutryggingasjóðnum íslenska.  Dugi eignir Landsbankans fyrir öllum innistæðum upp að EUR 20.887, þá tekur bankinn næst við að greiða út til þeirra sem eiga umfram þá upphæð og það sem meira er íslenski innistæðutryggingasjóðurinn er laus allra mála.  Tekið skal fram að vextir falla ekki undir forgangskröfur og því er eingöngu um útgreiðslu höfuðstóls að ræða.  Falli einhver hluti Icesave krafnanna á íslenska tryggingasjóðinn, þá gæti komið til þess að íslenskar innlánsstofnanir þurfi að leggja sjóðnum til meira fjármagn, en í lögum um sjóðinn og í ESB tilskipuninni er ekkert sem segir skattgreiðendur eigi að borga brúsann nema í besta falli ákaflega óbeint eftir að fjölmargar varnir hafa fallið.

Icesave-samningurinn, sem ég kenni við Svavar Gestsson, er í raun og veru algjörlega óþarft plagg og til þess eins gerður að tryggja Bretum og Hollendingum meira en íslensk lög og tilskipun ESB segja til um.  Ég skil vel að þessar þjóðir vilji veita þegnum sínum aukna tryggingu, en slíkar auknar tryggingar skuldbinda okkur Íslendinga ekki neitt.  Ef ég kaupi hús í Hollandi sem hrynur í óvæntum jarðskjálfta, þá get ég ekki borið fyrir mig íslenskri byggingareglugerð og krafist bóta frá byggingaaðilanum.  Þetta er nákvæmlega það sem Bretar og Hollendingar eru að gera.  Þeir sem lögðu inn á þessa reikninga vissu (eða máttu vita) að innistæður umfram EUR 20.887 voru ekki tryggðar og að vextir af innistæðunum voru ekki tryggðir.  Af hverju eiga þá kröfur umfram EUR 20.887 að vera jafnréttháar í kröfuröð og þær sem eru undir EUR 20.887?  Svavarsnefndin samþykkti þetta, einhverra hluta vegna, algjörlega að óþörfu.

Landsbankinn stendur frammi fyrir því viðfangefni að greiða út Icesave innistæður eftir bestu getu.  Einhverra hluta vegna hafa menn viljað gera þetta að vandamáli íslenskra stjórnvalda og þar með íslensku þjóðarinnar.  Fyrir því eru ekki nein lagaleg rök og engin stoð fyrir því í tilskipun ESB um innistæðutryggingar.  Með því að samþykkja Icesave-samning Svavarsnefndarinnar, þá erum við að taka ábyrgðina af Landsbankanum og við erum að bjarga Bretum og Hollendingum frá eigin klúðri.  Þess vegna og aðeins þess vegna verður Alþingi að hafna samningnum eða fara fram á nokkrar veigamiklar breytingar á honum í formi fyrirvara.  Stærstu atriðin eru að Landsbankanum verði gefinn eðlilegur tími til að greiða úr málinu, að hinn íslenski tryggingasjóður hafi forgang að eignum Landsbankans áður en kemur að því að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum, að hafnað verði kröfu Breta og Hollendinga um greiðslu vaxta og að sett verði þak á þær árlegu greiðslur sem hugsanlega gætu lent á ríkissjóði ef til þess kæmi að eignir Landsbankans dygðu ekki fyrir innistæðum upp að EUR 20.887.  Best væri í mínum huga að hafna samningnum og Alþingi samþykki einhliða yfirlýsingum um það hvernig staðið verði að málum af Íslands hálfu í samræmi við það sem að ofan er ritað.


mbl.is Kantaraborg fær endurgreitt frá Heritable bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mæltu manna heillastur.

Kveðaj að norðan.

Arinbjörn Kúld, 5.8.2009 kl. 15:15

2 identicon

Þetta er sennilega besta skýringin sem ég hef lesið.

Segjum að þú klessir bílinn þinn og mér þykir rosalega vænt um þig og borga þér fullt verð bílsins. Þá er tryggingarfélagið þitt ekki allt í einu komið í nauðungarstöðu gagnvart mér um að endurgreiða mér. Hvað þá að það greiði mér upp vexti sem á falla á tímanum sem tekur að afgreiða málið hjá tryggingarstofnuninni.

Tryggingarfélagið endurgreiðir einfaldlega metið verð bílsins, samkvæmt skilmálum tryggingasamnings, og á þeim fresti sem eðlilegur er.

Þetta Icesave mál er að miklu leiti fljótfærni og múgæsingur breta sem við berum ekki ábyrgð á.

En svo mögulega er þessi dæmisaga ógild vegna neyðarlaganna. Þar var ákveðið að tryggingarfélgaið greiddi öllum íslenskum bíleigendum allt strax í topp en bretar sátu uppi með verðlausar kröfur.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 15:34

3 identicon

Sannarlega umhugsunarvert. Frábær greining og röksemdarfærsla.

Rómverji (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 15:47

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

Góð samantekt og rökin halda.

Haraldur Baldursson, 5.8.2009 kl. 15:58

5 identicon

Ég tel að hugsunin að baki innistæðutryggingum, sé sú að hin tryggða upphæð sé sérstæð og lúti alls ekki hefðbundnum skilalögum. Þannig eigi ekki að greiða innistæðueiganda hlutfallslega eftir upphæð kröfu hans heldur eigi að greiða öllum lágmarkið 20 þús evrur og síðan dreifist afgangur ef einhver er hlutfallselga á kröfuhafa.

Doddi D (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 16:03

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil taka það fram að rökin halda þá og því aðeins að íslenskir ráðherrar hafi ekki klúðrað hlutunum í haust og samið af sér.  Ég óttast helst að það hafi gerst og þess vegna séum við í þessu bulli.  Hitt er alveg dagljóst, að Bretar og Hollendingar eru að reyna að fá okkur til að greiða meira en okkur ber samkvæmt tilskipun ESB. 

Við skulum hafa í huga að neyðarlögin hafa ekki áhrif á ábyrgðarsvið tryggingasjóðsins.  Þau breyttu kröfuröðinni sem á móti léttir álaginu af tryggingasjóðnum.  Standist neyðarlögin ekki fyrir dómi, þá gætu Icesave skuldbindingarnar lagst af fullum þunga á tryggingasjóðinn og ekki bara þær skuldbindingar heldur allar skuldbindingar vegna innistæðna í öllum íslenskum innlánsstofnunum sem teknar hafa verið yfir af FME.  Þá erum við að tala um reikning upp á um 1.500 milljarða króna.

Marinó G. Njálsson, 5.8.2009 kl. 16:07

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Frímann, það breytir ekki því að bankinn (útibú eða dótturfélag) fékk fyrst tækifæri til að greiða út.  Landsbankinn fékk aldrei það tækifæri vegna notkunar Breta á ákvæðum í andhryðjuverkalagabálkinum.  Eignarform og staðsetning eru ekki það sem hefur áhrif.

Doddi D, það væri mismun innistæðueigenda ef sumum væri greiddar EUR 10.000 af EUR 100.000 inneign, en aðrir sem sömu inneign fengju EUR 15.000.  Þess vegna er hverjum og einu greitt jafnt þar til að búið er að greiða viðkomandi upp eða peningurinn er búinn.  Þess vegna á ekki að byrja að greiða upp í viðbótartryggingar Breta og Hollendinga fyrr en búið er að gera upp allar upphæðir upp að og undir EUR 20.887 og án vaxta.

Marinó G. Njálsson, 5.8.2009 kl. 16:14

8 identicon

Hér blandar þú saman innistæðum einstaklinga og sveitarfélaga.  Svart og hvítt.

Svo lætur þú líta út fyrir bresk stjórnvöld hafi greitt út í óþökk íslenskra.  Í ljósi þess Geir Haarde sendi sérstakt þakkarbréf til Brown af því tilefni, þykir mér það dálítið ósanngjarnt.

Reyndar finnst mér þessi stöðugi flótti margra, frá fyrri orðum og heitstrengingum þjóðkjörinna fulltrúa, frekar dapur.

Hvað frystingu eigna varðar, held ég "óðagotið" hafi verið gott og rétt. Miðað við hvað við höfum fregnað síðustu vikur, af íslenskum peningasugum, má velta fyrir sér hvort einhverjar eignir væru yfirhöfuð eftir í Landsbanka ef ekki hefði verið fryst.

Hitt skal ég viðurkenna, að á mér eru tvær grímur varðandi skiptingu eigna.  Þar hefði ég gjarnan viljað sjá meiri sveigjanleika hjá breskum og hollenskum stjórnvöldum, miðað við þær upplýsingar sem ég hef í dag.

Á móti kemur, að ég hefði viljað sjá eins og eina handtöku á Íslandi, áður en sá sveigjanleiki yrði sýndur.
Því það er með fullkomnum ólíkindum að sjá hálfkákið þarna.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 16:38

9 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Málið er Maínó að ef þessi leið hefið verð farin þá hefði þrotabú Landsbankans væntanlega orðið að selja allar eigur bankanas strax og fengið nánast ekkert fyrir þær eigur. Og í framhaldi hefði innistæðutryggingarsjóður orðið að bæta öllum 20 þúsund evrur skv. tilskipuninni og þá ríkið í framhaldi því að skv. tilskipuninni bar Íslandi að sjá til þess að til staðar væru kerfi, sjóðir sem tryggðu að einstaklingar fengju greiddar 20.880 evrur. Þetta kerfi sem við höfðum komið upp dugði ekki og því bar okkur að styrkja þetta kerfi.

Og því má reikna með að þrotabúið heði kannski skila nokkrum tugum milljarða ef eignir hefðu verið seldar upp í innistæður og síðan hefðum við þurft að leggja til það sem ávantaði kannski 4 til 500 milljarða. Sem og að allir sem áttu innistæður hér á landi hefðu verið undir sömu reglum og því ekki getað hreyft sínar innistæður.

Magnús Helgi Björgvinsson, 5.8.2009 kl. 16:45

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, þú ert að lesa eitthvað í mínum orðum sem er ekki þar.  Með Icesave er Landsbankanum gefin 7 ár til að greiða til baka.  Kannski þarf hann ekki 7 ár.  Kannski þarf hann bara 18 mánuði eða 2 ár.

Tilskipunin var biluð í upphafi og hún hefur ekki verið löguð.  Tilskipunin gat aldrei virkað á Íslandi.  Það sjá allir sem vilja.  Menn geta ekki lagt 1% í tryggingafé og ætlast til að það dekki innistæður í einum, hvað þá þremur, bönkum á Íslandi.  Ef útfærslan á Íslandi hefði átt að geta staðið undir falli Glitnis, þá hefði tryggingafjárhæðin þurft að vera nær 25%.  Kerfið var því gallað frá upphafi.  Meira að segja í Bretlandi, þar sem eru ansi margir bankar, þá dugði tryggingasjóðurinn ekki þegar NorthernRock féll.

En þetta snýst ekki um tryggingasjóðinn.  Þetta snýst um eðlilegt verklag samkvæmt íslenskum lögum.  Fyrst fær bankinn tækifæri til að greiða, svo tekur tryggingasjóðurinn við, ef það dugar ekki, þá samkvæmt íslenskum lögum eiga þær innlánsstofnanir sem eru aðilar að sjóðnum að greiða.  Það er ekki fyrr en ljóst er að allt þetta bregst sem tryggingasjóðurinn getur tekið lán til að standa undir skuldbindingum sínum og hugsanlega þá gæti komið til ríkisábyrgðar.  Það segir hvergi í íslenskum lögum að ef einhver kaupir kröfurnar á hendur bankanum, eins og tryggingasjóðirnir í Hollandi og Bretlandi hafa gert, að þá geti sá hinn sami innheimt hærri upphæð en ábyrgð íslenska sjóðsins nær til eða krafist vaxta.  Þess vegna eigum við annað hvort að hafna Icesave samningnum eða tryggja að þessi tvö atriði verði felld út úr samningnum.

Baldur, ég er ekki að blanda þessu saman heldur benda á aðferðafræðina.

Marinó G. Njálsson, 5.8.2009 kl. 17:06

11 identicon

Ég er sammála þér Marinó. Það sem ég er að segja er einfaldlega að ljóst má vera að tryggingasjóðurinn hlýtur að eiga forgang í eignir Landsbankans. Þegar hann hefur uppfyllt skyldur sínar (20 þús EUR ca), þá gilda venjuleg skilalög um það sem eftir stendur.

Doddi D (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 17:33

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Doddi D, besta mál.  Ég misskildi þá orð þín að ofan.

Marinó G. Njálsson, 5.8.2009 kl. 17:48

13 Smámynd: Maelstrom

Hjartanlega sammála öllu sem Marinó hefur sagt hér. 

Við þurfum bara að semja nýjan samning sjálf sem uppfyllir allar skyldur sem á Íslandi hvíla.  Bjóða þann samning síðan um leið og við höfnum núverandi samningi á Alþingi.  Segja bara "Take it or leave it" og taka síðan afleiðingunum.

 Eini gallinn sem ég sé við það er að íslenskir innistæðueigendur fengu sitt 100% út úr þrotabúi Landsbankans, á undan íslenska tryggingarsjóðnum.  Það fækkar svolítið samningsmöguleikunum sem við getum boðið í staðinn fyrir núverandi ICESAVE-samning, eða hvað?

Maelstrom, 5.8.2009 kl. 18:12

14 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Skynsamlegustu rök sem ég hef séð gegn Icesave samningnum, til þessa.

Þorri Almennings Forni Loftski, 5.8.2009 kl. 18:30

15 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Fín samantekt Marínó, hafðu þakkir fyrir.

Frosti Sigurjónsson, 5.8.2009 kl. 18:48

16 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

takk fyrir góða og fræðandi færslu. Ég er sömu skoðunar og þú í þessu IceSave máli.

Það verur mjög spennandi að fylgjast með viðbrögðum AGS/UK/Hollands þegar við verðum búin að samþykkja ríkisábyrgðina. Ef þeim mislíkar hugsanlegir fyrirvarar hvernig munu þeir bregðast við? Mun ríkisábyrgðin verða send aftur til Alþingis með fyrirmælum um samþykkt án fyrirvara?

Gunnar Skúli Ármannsson, 5.8.2009 kl. 21:30

17 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sumir hér hafa fallið í lágmarks-gryfjuna og kemur ekki á óvart, eftir það moldvirði sem Icesave-stjórnin er búin að þyrla upp. Ég hef séð nýlega úttekt hjá ESB um innistæðu-trygginga-kerfi Evrópska efnahags-svæðisins. Þar kemur fram, að EKKERT Evrópsku trygginga-kerfanna hefði staðist það 80-90% kerfishrun sem hér varð.

Samkvæmt útektinni myndi ekkert kerfanna standast 3.24% bóta-þörf, sem var þyngsta álag (high impact) sem skoðað var. Til gamans má nefna, að meðal álag (medium impact) gerir ráð fyrir 0,81% bóta-þörf og það stóðust trygginasjóðir 6 ríkja. Léttasta álag (low impact) var 0,035% og það stóðust allir trygginga-sjóðirnir.

Þetta segir okkur ekki að innistæðu-trygginga-kerfi EES séu gölluð, heldur að þau eru eðlileg !

Tryggingasjóðir sem þjónusta ótakmarkaðan fjölda tryggingataka, geta ekki veitt lágmarkstryggingu því að annars væru þeir í heildina að bera ótakmarkaða bótaábyrgð. Lágmarkstryggingin getur einungis átt við þegar um minniháttar og eðlileg/venjuleg áföll er að ræða.

Allt tal um að ríkið hefði átt að koma með greiðslur inn í Tryggingasjóðinn á einhverjum tímapunkti, er misskilningur á tryggingafræðilegri starfssemi. Það voru innlánastofnanirnar (bankarnir) sem áttu að standa undir iðgjöldunum, en ríkinu var eðlilega bannað að vera með bakábyrgð. Hugsið málið með bifreiðatryggingar í huga !

Bakábyrgð innistæðu-trygginga eru bannaðar til að tryggja eðlilega samkeppni á banka-markaði. Þeir bankar sem hafa sterkastan bakhjarl og hæsta tryggingu gætu lokkað alla viðskiptavini til sín ! Þess vegna bannar Tilskipun 94/19/EB ábyrgðir ríkjanna og þetta staðfesti Evrópski Seðlabankinn í mörgum sínum skýrslum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 5.8.2009 kl. 21:31

18 identicon

Einmitt. Það stenst engin rök að utanaðkomandi aðili geti upp á sitt eindæmi ákveðið að veita innistæðueiendum aukna tryggingu og með því rýrt hlut hins lögbundna tryggingasjóðs úr þrotabúinu.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 21:37

19 identicon

takk fyrir mjög fróðlegan pistil og umræður

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 21:56

20 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Málið er Maínó að ef þessi leið hefið verð farin þá hefði þrotabú Landsbankans væntanlega orðið að selja allar eigur bankanas strax og fengið nánast ekkert fyrir þær eigur.

Það er hvergi tekið fram að það þurfi að greiða til baka innan ákveðins tíma, svo landsbankinn hefði getað tekið sinn tíma við að selja eignir til að eiga fyrir endurgreiðslum (Ekki gott fyrir innistæðueigendur viðurkenni ég alveg).

Og í framhaldi hefði innistæðutryggingarsjóður orðið að bæta öllum 20 þúsund evrur skv. tilskipuninni og þá ríkið í framhaldi því

Það er þín skilgreining á þessum lögum, önnur skilgreining er sú að ríkið er ekki ábyrgt eftir að það er búið að koma á stoð tryggingasjóði sem rukkar banka um ákveðið gjald, þessi tryggingasjóður var settur upp samkvæmt ESB reglum og er því Íslenska ríkið ekki ábyrgt fyrir restinni. 

að skv. tilskipuninni bar Íslandi að sjá til þess að til staðar væru kerfi, sjóðir sem tryggðu að einstaklingar fengju greiddar 20.880 evrur.

Og var það gert samkvæmt reglugerð ESB. 

Þetta kerfi sem við höfðum komið upp dugði ekki og því bar okkur að styrkja þetta kerfi.

Þetta kerfi er nákvæmlega eins og öll önnur tryggingasjóðakerfið í evrópu og samkvæmt þeirra reglum sem við tókum upp með EES, þá er að þegar þetta kerfi er komið á, þá ber ríkinu ekki að styrkja, tryggja eða bera ábyrgð á því.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 5.8.2009 kl. 22:34

21 Smámynd: Þór Jóhannesson

Þetta stæðist allt ef ríkisstjórn Geirs Haarde hefði ekki samið af sér í haust - en auðvitað finnst fávísum almúganum það ekki skipta máli núna og leita allra leiði til að kenna ríkjandi valdhöfum um (m.ö.o. lýskrumið í Framsóknar og Sjálfstæðishundum skiptir meira máli en sú staðreynd að allt sem þú segir í þessari fínu færslu er um seinan þar sem Geir samdi af sér í haust - en sótsvörtum almúganum er skít sama um það).

Þór Jóhannesson, 6.8.2009 kl. 00:02

22 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þetta stæðist allt ef ríkisstjórn Geirs Haarde hefði ekki samið af sér í haust - en auðvitað finnst fávísum almúganum það ekki skipta máli núna og leita allra leiði til að kenna ríkjandi valdhöfum um (m.ö.o. lýskrumið í Framsóknar og Sjálfstæðishundum skiptir meira máli en sú staðreynd að allt sem þú segir í þessari fínu færslu er um seinan þar sem Geir samdi af sér í haust - en sótsvörtum almúganum er skít sama um það).

Ingibjörg Sólrún samdi allt af okkur í nafni blautra ESB drauma samfylkingarinnar.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.8.2009 kl. 00:13

23 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þór, það er akkurat fyrirvarinn sem ég set við minn rökstuðning.  Sömdu Sjálfstæðismenn og Samfylking svo illa af sér í haust, að ekki verður aftur snúið.  Hafa skal þó í huga að Alþingi samþykkti aldrei þá niðurstöðu og hefur ekki ennþá samþykkt Svavarssamninginn.  Hvað sem öllu líður, þá er það löggjafinn sem hefur síðasta orðið.

Ég hef hvergi í mínum málflutningi kennt einum eða neinum um, bara bent á að samningurinn sé líklegast óþarfur vegna þess að íslensk lög og tilskipun ESB taka ágætlega á því hvernig leysa eigi úr svona málum.

En segðu mér, Þór, hvaða niðurstöðu vilt þú sjá í málinu?

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 00:14

24 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þór,

ég kann illa við viðurnefnið sem þú klínir á mig "fávís almúgi". Afsökunarbeiðni væri við hæfi.

Gunnar Skúli Ármannsson, 6.8.2009 kl. 00:18

25 Smámynd: Þór Jóhannesson

Gunnar ef þú tekur það til þín ertu greinilega sekur - afsökun er fráleit.

Satt best að segja er ég á bandi Birgittu Jónsdóttur í þessu IceSave máli og því sem hún bendir á í að samþykkja hann með fyrirvörum. Þú getur séð bloggið hennar og þó athugasemdakerfið sé fullt af fíflum sem hróða og kalla án ábyrgðar að þá hefur hún mikið til sín í því sem stendur í upphaflegu færslunni.

Þór Jóhannesson, 6.8.2009 kl. 00:22

26 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar Skúli, ekki hafa áhyggjur af orðavali.  Menn taka bara svona til orða.  Svo má heldur ekki líta framhjá þeirri staðreynd að undanfarna 10 mánuði hafa stjórnvöld verið á fullu í svepparæktinni, þ.e. "keep them in the dark and feed them shit", gagnvart landslýð.  Varla hafa nokkrar upplýsingar fengist nema maður sé "innvígður og innmúraður" eða að þær hafi verið togaðar út með töngum.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 00:25

27 Smámynd: Þór Jóhannesson

Ég elska röksemdafærslur sjálfstæðishunda á borð bið Dodda - það er alltaf tekinn sá póll í hæðina að Samfylking sé nú líka ekkert saklaus (sem ég er sko fyllilega sammála) þegar verið er að réttlæta glæpi auðvldsflokkanna.

Nokkurn veginn eins og að réttlæta það að Jeffery Dhamer hafi myrt og limlest fjölda manns með þeim rökum að einhver annar hafi orðið manni að bana í ölæði. Sama lógík þar að baki!

Þór Jóhannesson, 6.8.2009 kl. 00:47

28 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Það er hvergi tekið fram að það þurfi að greiða til baka innan ákveðins tíma, svo landsbankinn hefði getað tekið sinn tíma við að selja eignir til að eiga fyrir endurgreiðslum"

Eigi rétt.  Langt í frá.  Það er stuttur tími.  Eftir það hefur Tryggingarsjóðuinn 3 mán. til að greiða út.  En getur í undantekningartilfellum framlengt um 3. mán. og eftir það tvisvar aftur með samþykki Ríkisins.  (það hefur samt ekkert með bið eftir eignum þrotabúss að gera)

Eg veit ekki hvað mönnum getur dottið í hug.

Í umræddu tilfelli var augljóst að hvorugur aðili gat nokkuð greitt. Banki á haus og tómur sjóður.

"Eins og Breta og Hollendingar túlka lögin, þá gætu þessar þjóðir stofnað 20 tryggingasjóði sem skiptu milli sín að greiða innistæðueigendum.  Allir sjóðirnir myndu þá fá sama forgang og íslenski sjóðurinn.  Þannig fengi sá íslenski fyrstu krónuna og síðan þá 22."

Held ekki.

Indriði H þorláksson, sá afar vandaði embættismaður, segir:

"Í samningum íslenska tryggingasjóðsins við tryggingasjóði hinna erlendu ríkja er í samræmi við
framangreinda afstöðu samið um að það fé sem rennur úr þrotabúi LÍ skiptist á milli sjóðanna í
hlutfalli
við þær kröfur sem þeir hafa leyst til sín frá innstæðueigendum."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.8.2009 kl. 01:13

29 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ég elska röksemdafærslur sjálfstæðishunda á borð bið Dodda - það er alltaf tekinn sá póll í hæðina að Samfylking sé nú líka ekkert saklaus (sem ég er sko fyllilega sammála) þegar verið er að réttlæta glæpi auðvldsflokkanna.

Og hvar er ég að réttlæta glæpi? ég held að þú ættir aðeins að róa þig áður en þú svara athugasemdum þar sem það er alger óþarfi að henda til og frá uppnefningum.

Ómar : Eigi rétt.  Langt í frá.  Það er stuttur tími.  Eftir það hefur Tryggingarsjóðuinn 3 mán. til að greiða út.  En getur í undantekningartilfellum framlengt um 3. mán. og eftir það tvisvar aftur með samþykki Ríkisins.

Ómar þú mátt endilega benda mér á hvar þessi klausa er.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 6.8.2009 kl. 10:36

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, það er náttúrulega auðvelt fyrir Breta að segja ða Landsbankinn hafi ekki verið fær um að greiða, enda voru allar eignir bankans frystar af þarlendum stjórnvöldum.  Kaupþing byrjaði ekki að greiða KaupthingEdge til baka fyrr en 6-7 mánuðum eftir fall.  Bankinn er núna að greiða til baka hjá KSF.  Það segir hvergi í tilskipuninni eða íslensku lögunum að endurgreiðslum skuli vera lokið innan þriggja mánaða.  Þær mega taka mörg ár.  Það er áætlunin um endurgreiðsluna sem þarf að liggja fyrir og bankinn á að greiða eftir henni.

Hvorki íslensku lögin né tilskipunin gera ráð fyrir að fjármálastofnun sé beitt því ofbeldi sem Bretar beittu Landsbankann.  Það er nefnilega gert ráð fyrir að framkvæmd laganna/tilskipunarinnar gangi óhindruð fyrir sér.  Það er heldur ekki gert ráð fyrir í tilskipuninni eða lögunum að einhver annar tryggingasjóður hafi sjálfdæmi um að stíga inn í ferlið.

"Held ekki"  eru ekki rök.  Samkvæmt tilskipun ESB má stofna marga tryggingasjóði í hverju aðildarríki.  Á þvi eru engin takmörk.  Það segir heldur ekkert um að fjármálastofnun megi ekki vera aðili að mörgum tryggingasjóðum.  Það eru því engar lagalegar hindranir fyrir því sem ég lýsi.  Ég er að fjalla um fræðilegt atriði, ekki hvernig hlutirnir myndu vera í reynd.  En út frá þessu, þá gætu ríkin haft marga sjóði, segjum 10 hvort, sem skiptu á milli sín ábyrgðinni á endurgreiðslu eftir upphæð innistæðu.  Einn sjóður tæki fyrstu 10.000 EUR, annar sjóðurinn næstu 10.000 EUR og svona koll af kolli uns sá síðasti tæki allt umfram 90.000 EUR.  Samkvæmt túlkun Breta og Hollendinga ættu allir þessir sjóðir jafnan forgang í eignir Landsbankans. Þannig væru þeir sem áttu milli 70-80 þúsund að fá greitt inn á þá inneign þó svo að þeir fengju ekki að fullu greitt inn á 30-40 þús. EUR inneignina.  Út á þetta ganga rök Breta og Hollendinga.  Þessar þjóðior ætla að fá endurgreitt inn á viðbótartrygginguna með eignum Landsbankans, þó svo að ekki takist að greiða upp í grunntrygginguna með eignunum. 

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 11:04

31 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristinn, það er göfug og réttlát ósk að fá einhvern til að meta skaðann sem Bretar ollu Landsbankanum og þjóðarbúinu með hryðjuverkalögunum.  Því miður þá held ég að ekki finnist neitt "virt" matsfyrirtæki lengur í heiminum.  Þau eru öll meira og minna flækt í þessi mál.  Það voru þau sem tóku þátt í undirmálslánasvikamyllunni með bandarískum fjármálafyrirtækjum og það voru þau sem gáfu út heilbrigðisvottorð á skuldabréfaútgáfur fjármálafyrirtækja um allan heim, skuldabréf sem nú eru verðlaus.  Matsfyrirtækin eru svo djúpt sokkinn í þetta svindl að ég treysti engu þeirra.

Ég væri aftur til í að fá einhvern virtan háskóla í Bandaríkjunum til að gera svona úttekt og ég held að svona úttekt væri mjög nauðsynleg í málsvörn okkar, þegar og ef allt fer á versta veg.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 11:10

32 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Skiptir engu máli hve margir sjóðirnir væru.  Því eins og Indriði segir "það fé sem rennur úr þrotabúi LÍ skiptist á milli sjóðanna í
hlutfalli við þær kröfur sem þeir hafa leyst til sín"
 

Þessvegna gekk þetta dæmi þitt ekki upp um 22 sjóði og hver fengi  krónu og svo koll af kolli.

Sá íslenski hefur kröfu innstæðueigenda uppá um 20.000 evrur.

Hann fær úhlutað úr þrotabúinu í hlutfalli við það. 

Að gera þetta öðruvísi, td. á þann hátt að ísl. sjóðurinn hefði ofurforgang, stagast á við evrópulög, íslensk lög, hollensk lög og bresk lög og í þessu tilfelli klárt brot á EES reglum.

Það að ísl sjóðnum bar skylda til lagalega að greiða lágmarksupphæð samkv. evrópsku rammalögunum,  veitir á engan hátt ofurforgang í eignir þrotabúss.  Þetta eru beisiklí tvö aðskilin mál.  Innstæðutryggingin samkv. ramalögunum og forgangur í eignir þrotabúss.

Þetta skýrir Indriði Þorláks. allt afar vel út.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.8.2009 kl. 13:23

33 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, það getur vel verið að það sé túlkun Indriða á textanum og það sé eitthvað munnlegt samkomulag um framkvæmdina.  Í samningnum sjálfum, þá segir að allur peningur sem komi inn skuli greiðast jafnt annars vegar inn á lán Breta og Hollendinga til íslenska tryggingasjóðsins og hins vegar til tryggingasjóða Breta og Hollendinga.  Þar sem ég sat ekki við samningaborðið og ekki hefur verið birt skjal sem sýnir þessa túlkun Indriða, þá hef ég ekki annað í höndunum, en þau skjöl sem hafa verið gerð almenningi aðgengileg hér á landi.  Þessi lýsing Indriða er burt séð frá öllu öðru gjörsamlega fáránleg, þ.e. að ekki eigi fyrst að greiða upp skuldir vegna trygginga milli 0 - 20.887 EUR áður en farið er að greiða upp í skuldir vegna trygginga yfir EUR 20.887.  Segjum að Icesave skuldin sé 100 hæða hús í byggingu og samkvæmt þessari aðferðafræði ætla menn að byrja á hæðum 20 og yfir áður en búið er með allar hæðirnar þar fyrir neðan.

Annars staðfestir þú algjörlega rökstuðning minn fyrir þessu með sjóðina 20.  Ef sjóðirnir væru 10 í Hollandi og 10 í Bretlandi, þá fengi einmitt hver og einn sama forgang í eignir Landsbankans.  Ég byggði minn málflutning á forgangskröfurétti, nákvæmlega eins og Indriði segir.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 13:57

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars eru viðbótartryggingar Breta og Hollendinga hugsanlega brot á samkeppnistilskipun ESB.  Með því eru Bretar og Hollendingar að veita þarlendum fjármálafyrirtækjum samkeppnislegt forskot fram yfir fjármálafyrirtæki í öðrum löndum ESB.  Þannig hefur írska stjórnin þegar verið klöguð fyrir að veita 100% tryggingu í írskum bönkum.  Rökstuðingurinn fyrir kærunni var að um ólöglega ríkisstyrki væri að ræða.

Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti því að Bretar og Hollendingar fái allt sitt fé til baka, en lít svo á að með athæfi sínu, þá séu þeir að breyta kröfuröðinni.  Áður átti hver innistæðueigandi rétt á því að fá endurgreitt í samræmi við inneignir sínar (hlutfallslega eða ekki veit ég ekki).  Ef eignir Landsbankans dugðu ekki fyrir öllum inneignunum, þá bar að greiða fyrst öllum út upp að hámarki EUR 20.887 til að dekka útborgunarskyldu tryggingasjóðsins.  Væri eitthvað eftir þá dreifðust peningarnir jafnt á þær innistæður sem eftir væru.  Ef eignirnar dygðu ekki fyrir því greiða lágmarkið EUR 20.887 hjá þeim sem á annað borð áttu slíka upphæð, þá kæmi tryggingasjóðurinn til bjargar og borgaði það sem upp á vantar.  Það sem í reynd gerðist er að Bretar og Hollendingar keyptu kröfur innistæðueigenda á hendur Landsbankanum í samræmi við innistæðutryggingar sem gilda í þeim löndum.  Kröfurnar standa samt áfram sem sjálfstæðar kröfur sem lúta ákvæðum um annars vegar íslenskar innistæðutryggingar og hins vegar um kröfuröð.  Það skal því greiðast inn á innistæðurnar eins og um sjálfstæðar innistæður sé að ræða.  Hollendingar og Bretar telja aftur að þeir hafi sameinað kröfurnar með því að greiða innistæðueigendunum og það sem meira þeir telja sig geta fært helminginn af kröfunum framar í forgang með því að kljúfa þær í tvennt, þ.e. annars vegar hlutann sem íslenski tryggingasjóðurinn ábyrgist og hins vegar viðbótartryggingar erlendu tryggingasjóðanna.  Það bara stenst ekki.  Hafi einhver innistæðueigandi átt 50.000 EUR á einu reikningi, þá er bara byrjað að greiða inn á þá kröfu neðan frá.  Þessi innistæðueigandi getur ekki gert tvær kröfur, aðra upp á EUR 20.887 og hina upp á EUR 29.113, og ætlast til að fá jafnt greitt inn á báðar á kostnað þeirra sem eru með kröfur upp á innan við EUR 20.887.  Þannig virkar kröfuréttur ekki að ég best veit.  Hafi viðkomandi átt innistæðurnar á fleiri en einum reikningi, þá er hver reikningur sjálfstæð krafa.

Að Svavarsnefndin hafi fallið fyrir þessu trikki Breta og Hollendinga, skil ég bara ekki.  Og það er sama hvað þú segir, Ómar, ég mun aldrei fallast á það, að krafa Breta og Hollendinga vegna upphæða umfram íslensku trygginguna sé sjálfstæð krafa í eignir Landsbankann.  Þetta er ein og sama krafan sem er með viðbótartryggingu hjá íslenska tryggingasjóðnum.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 14:32

35 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í hinni evrópsku tilskipun 94/19 EB um innstæðutryggingar segir meðal annars, í inngangi (bls. 3): "Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun." Einnig í 3. gr. 1. hluta: "Kerfið má ekki felast í tryggingu sem aðildarríkin sjálf eða héraðs- og sveitastjórnir veita lánastofnun."

Þetta tekur Ríkisendurskoðun undir í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings 2007 þar sem kemur fram það álit að fella eigi sjálfseignarstofnunina Tryggingasjóð Innstæðueigenda úr D-hluta ríkissjóðs og er það rökstutt og áréttað með eftirfarandi hætti, á bls. 9 og bls. 57: "Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans."

Til að fjármagna ríkisábyrgð ef á hana reynir þyrftu stjórnvöld að leggja skatt á íslenskan almenning, en þar sem engin lagaheimild var til þess þegar Landsbankinn hrundi væri um afturvirka skattheimtu að ræða sem er beinlínis bönnuð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 77. gr. 2. mgr.: "Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu."

Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa, bæði almennings sem og viðsemjenda í IceSave deilunni, að farið sé með lausn málsins í samræmi við íslensk lög og gildandi tilskipanir á evrópska efnahagssvæðinu. Ljóst er að þau skilyrði verða ekki uppfyllt með núverandi samningi eins og hann liggur fyrir.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.8.2009 kl. 17:00

36 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er góð athugasemd Guðmundur. Í þessu sambandi er nýjung fyrir mér bannið við afturvirkri skattheimtu í Stjórnarskránni. Hvert ætlar Icesave-stjórnin að beina skattheimtu vegna Icesave-samningsins ?

Ég sting upp á, að Icesave-stjórnin verði flutt til Kolbeinseyjar og hún fái þar að halda Íslands-nafninu og auðvitað skuldunum. Við hin stofnu nýtt lýðveldi á meginlandinu með nafninu Forisland.

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.8.2009 kl. 17:30

37 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, þetta er góð greining og þarfar upplýsingar sem sýna fáránleika Icesavesamningsins ennþá betur.

Loftur, ég held að bankahrunsstjórnin ætti að fylgja með, þar sem ábyrgð hennar á því sem gerðist hér í aðdraganda þessa máls er gríðarleg.

Marinó G. Njálsson, 6.8.2009 kl. 17:48

38 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Marinó, ég vil ræða við þig um orsakir efnahagshrunsins eftir 5 ár. Við breytum ekki fortíðinni, en við getum haft mikil áhrif á framtíðina. Viðfangsefni dagsins í dag og á morgun eru það sem við verðum að glíma við af fullri einurð og heiðarleika. Hvorugt er Icesave-stjórnin að gera.

Við sáum fjármálaráðherrann í sjónvarpinu rétt áðan. Hann er frosinn í sömu sporum og hann var þegar hann tók við embættinu. Á sama tíma hefur allur almenningur öðlast nýja sýn á öll atriði Icesave-málsins, svo dæmi sé tekið af mikilvægu máli.

Um 75% þjóðarinnar hafnar ábyrgð á Icesave-samningnum og Steingrímur talar um að setja einhverja fyrirvara við hann. Hvers konar þursar hafa tekið stjórn í landinu ? Er hvergi í stjórnkerfinu að finna alvöru fólk, með metnað fyrir hönd þjóðarinnar ?

Ef ábyrgð á Icesave-samningnum fer í gegnum þingið, mun taka þjóðina 100 ár að þvo af sér skömmina af þessari auðmýkingu. Efnahags-áhrif samningsins munu vara jafn lengi.

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.8.2009 kl. 20:38

39 identicon

Gaman væri ef drengirnir hjá datamarket hefðu bætt þeim fítus inn í Icesave-reikninn (http://mbl.datamarket.net/icesave/) að skoða niðurstöðuna ef tryggingunni umfram 21.000 evrur væri skipt t.d. upp í fjórar, nú eða tíu, sjálfstæðar kröfur, í stað þeirra tveggja sem eru nú. Það myndi sýna svart á hvítu fáránleika þess að skipta hverjum reikningi upp í fleiri ein eina kröfu.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 20:43

40 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ágætis lesning og innlegg Guðmundar varðandi skatta og hver borgar er einkar áhugaverð. Mér finnst samt þetta hérna aðal málið:

"Sömdu Sjálfstæðismenn og Samfylking svo illa af sér í haust, að ekki verður aftur snúið.  Hafa skal þó í huga að Alþingi samþykkti aldrei þá niðurstöðu og hefur ekki ennþá samþykkt Svavarssamninginn.  Hvað sem öllu líður, þá er það löggjafinn sem hefur síðasta orðið."

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki getað skuldbundið Íslendinga til þess að greiða þennan pakka. Það samkomulag ef eitthvað var hefur aldrei verið lagt fram á Alþingi og því er allt þetta blaður í stjórnarflokkunum um að búið sé að ganga þannig frá hlutum og að ekki verði nokkru breytt algerlega út í bláinn.

Hrunið er búið og gert. Það skiptir engu hver gerði hvað. Hvað ætlar þessi blessaða nauðungarstjórn eiginlega að gera??? (hún var jú nauðug til þess að taka við eftir kosningar, skv. fulltrúum þeirra flokka sem sitja í henni í dag). Hún þarf í það minnsta að hætta að horfa í baksýnisspegilinn í leit að sökudólgum. Það leysir ekki vandamálið.

Sindri Karl Sigurðsson, 6.8.2009 kl. 22:09

41 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Góð grein að vanda.  Hins vegar er barnið löngu dottið ofaní brunninn.  Við verðum að eiga við raunveruleikann eins og hann er en ekki eins og við vildum hafa hann og hann gæti hafa orðið ef aðrar ákvarðanir hefðu verið teknar öðruvísi.

Við þurfum að spyrja okkur hvort stjórnarkeppa sé æskileg í þeirri stöðu sem við erum í?  Ef við viljum endursemja um Icesave, hversu líklegt er að við fáum betri samning og hver er fórnarkostnaðurinn, því tíminn er peningar. Svo vilja Breta líklega fá einhverja tryggingu fyrir því að nýir samningamenn hafi umboð þingsins til að semja. Annars eru þetta tímasóun, ekki satt?

Hvað gerist ef við náum ekki samkomulagi?  Fer þetta þá fyrir dóm, hvaða dóm?  Hvað tekur það langan tíma og er hægt að setja alla uppbygginu á "hold" á meðan?  Er ekki hætta á að óþolsmæðir Íslendingar flytji út landi á meðan? Og hvað gerist ef við töpum málinu fyrir dómi og neyðarlögin verða úrskurðuð ógild?  Það er möguleik sem við verðum að gera ráð fyrir og undirbúa okkur undir. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.8.2009 kl. 10:14

42 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Góður pistill og umræðurnar líka.  Þjóðarsálin er orðin ormétin af þessu máli og það verður að koma því frá sem fyrst.

Ævar Rafn Kjartansson, 7.8.2009 kl. 10:19

44 identicon

Takk fyrir góðan pistil Marínó.  Þetta hlýtur að liggja í hlutarins eðli eins og  með önnur lán.  Ef ég tek lán upp á t.d. 15 millur til 10 ára, sem er frekar hátt lán fyrir einstakling miðað við niðurgreiðslutíma, þá hlýt ég, sem venjulegur launamaður að vita, að þótt ég eigi "bara" að borga vextina fyrstu árin að ég er ekki að fara að geta það. 

 Jafnvel þótt ég reikni með allri mögulegri yfirvinnu sem ég get fengið á tímabilinu (sem er ómögulegt að segja til um hvað verður á nokkrum árum, saman ber vöruskiptajöfnuð hjá ríkinu)  kem ég aldrei til með að geta borgað þetta lán. Þar sem ég sé að þótt ég búist bara við góðum hlutum, mikilli yfirvinnu , að ég geti selthúsið mitt á rosalega fínan pening og svo framvegis, er boginn bara spenntur alltof hátt og ég GET EKKI borgað þetta lán! 

Þess vegna væri ég asni að láta ýta mér út i að skrifa undir samning um lánið, bara til að friðþægja einhvern tímabundið sem finnst ég skulda sér pening, þótt ég jafnvel geri það ekki.

Það er ekki rétt sem kemur fram hérna fyrir ofan að það sé of seint að gera eitthvað í IceSave, þar sem það hefur ekki verið skrifað undir neitt (alla vega ekki sem við vitum ?)hlýtur að vera hægt að fara einhverja aðra leið.  

Við bara þurfum ekkert að samþykkja þennan samning þrátt fyrir þær sögur um að við verðum útskúfuð úr  Evrópskum lánakerfum, við erum það hvort eð er núna og ekkert sem bendir til þess að það breytist meðan við erum að borga IceSave. 

Er fólk í alvörunni tilbúið að nota alla framlegð af útflutningi, hækka alla skatta, minnka þjónustu, skerða heilbrigðiskerfi, lögreglu og félagslega kerfið, á svona knöppum spretti eins og IceSave er, án þess að vita nokkuð hvort við getum þetta yf?r höfuð?

Nei takk.

Eva Lára (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 18:09

45 identicon

Sæll Marinó,

Ég var alltaf á þeirri skoðun að vissulega bæri okkur að greiða Icesave. Eftir þennan lestur þá er ég ekki ennþá með sömu skoðun. Góð rök og sett fram á mjög skiljanlegan máta. Takk fyrir það.

Kveðja,

 Agnar Guðmundsson, fyrrum nemandi þinn.

Agnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 18:45

46 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sendiboðar Icesave-stjórnarinnar og Gordon Bulldon Grown halda því stíft til streitu, að hluti af viðfangsefni aðildar-ríkja EES við að koma á innistæðu-trygginga-kerfum, hafi verið að búa innistæðu-trygginga-sjóðinn svo úr garði, að hann gæti leyst samtímis út alla innistæðu-eigendur með 21.000 Evrum. Þetta er fáránleg fullyrðing, sem stendst enga skoðun.

Fyrir það fyrsta þá segja textar Tilskipunar 94/19/EB á meira en tíu tungumálum að þetta er ekki rétt. Það er ekki leyfilegt að taka setningu með 50 orðum og skera hann niður í 5 orð, þannig að útkoman verði það sem maður óskar sér. Þar að auki er eðlileg merking viðkomandi setningar staðfest af Seðlabanka Evrópu.

Í öðru og þriðja lagi koma til stuðnings samkeppnis-ákvæði ESB-réttar og eðlileg tryggingafræðileg-ákvæði. Eðlilega eru það því ekki aðildarríki EES sem eiga að standa undir tryggingum heldur innistæðu-trygginga-kerfin. Reglur Evrópusambandsins segja skýrt og greinilega, að VIÐ EIGUM EKKI AÐ GREIÐA Icesave trygginguna. Þessar reglur Evrópusambandsins byggja á traustum grunni og eru engin mistök. Grundvöllurinn er eftirfarandi:

  1. Samkeppnis-ákvæði. Til að vernda samkeppnis-umhverfi á fjármálasviði, er nauðsynlegt að hindra ríkis-vald aðildarríkjanna í að veita bönkum eigin lands tryggingar og ríkisstyrki.
  2. Tryggingafræðileg-ákvæði. Trygginga-byrði verður að vera skilgreinanleg, svo að vit sé í iðgjöldum og rekstri tryggingafélaga. Án skilgreinanlegrar trygginga-byrði væri tryggingastarfsemi einfaldlega fjárhættuspil.

Þessi tvö atriði valda því að í Tilskipun 94/19/EB er lagt blátt bann við ábyrgðir aðildarríkjanna á fjármögnun innistæðu-trygginga-kerfanna. Það eru bankarnir sjálfir sem verða að bera þær byrðar. Seðlabanki Evrópu hefur við mörg tækifæri staðfest framannefnda tilskipun, enda væri hann annars að vinna gegn samkeppnisreglum ESB og einnar grundvallar reglu tryggingarfræðinnar.

Tryggingasjóðir sem þjónusta ótakmarkaðan fjölda tryggingataka, geta ekki veitt lágmarkstryggingu því að annars væru þeir í heildina að bera ótakmarkaða bótaábyrgð. Lágmarkstryggingin getur einungis átt við þegar um minniháttar og eðlileg/venjuleg áföll er að ræða. Allt tal um að ríkið hefði átt að koma með greiðslur inn í Tryggingasjóðinn á einhverjum tímapunkti, er misskilningur á tryggingafræðilegri starfssemi. Það eru innlánastofnanirnar (bankarnir) sem eiga að standa undir iðgjöldunum og tryggingasjóðirnir undir bótunum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 7.8.2009 kl. 20:41

47 Smámynd: Sævar Einarsson

Svona er að senda útbrunna pólitíkusa til að gera einhverja samninga, nær hefði verið að senda senda þeim víraklippurnar góðu með slaufu utan um og kort sem á hefði staðið "Remember the Cod War? best regards from Iceland"

Sævar Einarsson, 7.8.2009 kl. 21:11

48 identicon

 Sælir Marínó,

 Við höfum ekki hist í nokkurn tíma, en ég hef verið að fylgjast með þér hérna á blogginu síðustu mánuðina.  Góðar greiningar hjá þér.

Ég sá eftirfarandi comment hjá þér hérna að ofan: 

 "Þar sem ég sat ekki við samningaborðið og ekki hefur verið birt skjal sem sýnir þessa túlkun Indriða, þá hef ég ekki annað í höndunum, en þau skjöl sem hafa verið gerð almenningi aðgengileg hér á landi."

Það gæti verið að Indriði hafi verið að vísa í svokallaðan "Settlement Agreement" sem Gunnar Tómasson "lak" í síðustu viku.  Sjá skjalið settlement_agreement.pdf og góða greiningu á honum frá Gunnari á:

 http://www.vald.org/greinar/090728.html

 Það er vísað í þennan samning nokkrum sinnum í hinum upprunalega breska "Loan Agreement" með tilvísuninni "Financial Documents". 

Ein skrautlegasta klásúlan í "Settlement" samningnum, er 4.2(b), sem segir í stuttu máli að jafnvel þótt TIF (Íslenski Tryggingasjóðurinn), fái forgang samkvæmt íslenskum lögum, þá skuli renna SAMA hlutfall til FSCS, sem verði síðan gert upp seinna með VIDBÓTARGREIDSLU á milli sjóðanna.

Við höfum nokkrir Íslendingar verið að rökræða þetta og önnur atriði varðandi IceSave síðustu vikur við ýmsa Breta og aðra útlendinga á Icenews.is, sjá til dæmis:

http://www.icenews.is/index.php/2009/07/29/more-members-of-parliament-against-the-icesave-deal/comment-page-2/#comment-87014

Bjarni Kristjánsson (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 03:44

49 Smámynd: Sævar Einarsson

Lífleg umræða þarna, best að hella sér upp á kaffi og byrja að lesa þetta eftir 2 - 3 kaffibolla.

Sævar Einarsson, 8.8.2009 kl. 11:39

50 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Bjarni, hlutfallslega - og það gengur í báðar áttir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.8.2009 kl. 12:39

51 identicon

 Rétt Ómar, en einhvern vegin efast ég um að það sé nokkur fræðilegur möguleiki á að FSCS muni nokkurn tíma fá greitt meira hlutfallslega frá Landsbankanum, heldur en TIF.  Aftur á móti er góður möguleiki, miðað við  Íslensku gjaldþrotalögin, að TIF fái greitt hærra hlutfall.

 Bretarnir og Hollendingarnir hafa líklega fengið þetta atriði í gegn í samningaviðræðunum, einmitt með því að setja það upp sem "sjálfsagða" jafnræðisreglu og okkar menn fallið fyrir því, en ég þekki það nátturulega ekki beint. 

Bjarni Kristjánsson (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 13:44

52 Smámynd: Sigurjón

Hvað skyldi Guðmundur Kærnested segja um þetta allt saman?  Ekki fallegt get ég ímyndað mér...

Sigurjón, 9.8.2009 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 28
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 225
  • Frá upphafi: 1679920

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 202
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband