Leita í fréttum mbl.is

Hótanir úr öllum áttum

Þetta eru alveg stórfurðuleg ummæli hjá talsmanni Fitch Ratings.  Ef við höfnum að taka á okkur meiri skuldbindingar en við teljum okkur standa undir, þá lækkar matseinkunn Íslands líklega!  Ég hefði haldið að þetta ætti að virka í hina áttina.  Staðfesta Íslendinga gegn því að taka á sig of miklar byrðar ætti að leiða til hærri matseinkunnar.

Mér finnst að Alþingi eigi að fresta frekari umræðu um Icesave uns AGS hefur afgreitt næsta hluta lánsins til Íslands og Norðurlöndin hafa staðið við það að veita lánin sem búið er að lofa.  Það er óþolandi að yfir höfðum okkar hangi þessar hótanir um að þessi lán verði ekki veitt nema Alþingi samþykki Icesave.  Ef það er málið, þá er algjör óþarfi að þykjast vera með þingræði á Íslandi. Við getum bara fengið fulltrúa AGS á Íslandi til að segja okkur hvað hefur verið ákveðið.  Síðan er hægt að spara heilmikinn pening með því að leysa Alþingi upp, þar sem það ræður hvort eð er engu.

Það er augljóslegt að fullt af aðilum úti í hinum stóra heimi telja sig geta sagt Alþingi fyrir verkum.  Ég skil að Bretar og Hollendingar vilji fá tiltekna lausn mála, en þegar undirmálslánaklúðrarar á borð við Fitch Ratings eru farnir að skipta sér af vinnu Alþingis, þá held ég að best sé að fresta þingstörfum fram í september og sjá hvort himnarnir hrynji nokkuð yfir okkur í millitíðinni.  Komi í ljós, að AGS afgreiðir ekki næsta hluta lánsins og aðrir halda líka að sér höndum, þá fáum við það svart á hvítu að allt hangir á Icesave, þvert á það sem AGS og Norðurlöndin segja.

Það er enn einn stór kostur við að fresta Icesave umræðunni.  Hann er að meiri líkur eru en minni að búið verði að fjármagna nýju bankana.  Það hlýtur að skipta máli varðandi greiðsluhæfi ríkissjóðs til lengri tíma hvort ríkissjóður þarf að leggja 270 milljarða í bankana eða 198 milljarða.


mbl.is Telja að ljúka verði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ímyndaðu þér 19 ára krakka sem tekur 6 milljón króna yfirdrátt og neitar síðan að borga hann til baka. Slík er ímynd okkar erlendis og með réttu.

Staðreynd 1: Án erlends fjármagns er Ísland búið að vera.

Staðreynd 2: Ef við borgum ekki Icesave verður ekkert erlent fjármagn. Fjárfestar munu einfaldlega vita betur en að púkka upp á Ísland.

Þetta eru ekki hótanir frá neinum. Þetta er bara sú staðreynd að þegar fólk borgar ekki lánin sín, þá sé því ekki treystandi fyrir lánum. Það er auðvelt að telja sér trú um að Ísland sé svo æðislega sterkt og frábært að það geti lifað án erlends fjármagns, en svo er ekki raunin. Við stólum á erlent fjármagn til að halda landinu á floti og án þess er erfitt að ýkja afleiðingarnar.

Við munum borga og ef ekki, þá er Ísland búið að vera. Það er hinn kaldi raunveruleiki og tal um óréttlæti mun aldrei breyta því.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 18:16

2 identicon

Hér er farsæl lausn á icesave:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1292243 

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 18:47

3 Smámynd: Arnar Guðmundsson

MER FINNST LJOTT AÐ GERA SVONA

Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 19:43

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helgi Hrafn, þó nokkrir 16 ára bankakrakkar hafi farið geyst á yfirdrættinum, þá réttlætir það ekki að allir aðrir 16 ára krakkar eigi að líða fyrir það.  Ef menn eru ekki faglegri en svo að gera ekki greinarmun á Sigurjóni Þ. og Halldóri og svo öllum hinum, þá eiga menn bara að vinna við eitthvað annað.

Ég skil ekki hvað Fitch Ratings er að skipta sér að Icesave málinu og alls ekki með þeim formerkjum sem þarna eru sett fram.  Við skulum aldrei gleyma því að þetta fyrirtæki er að hluta ábyrgt fyrir fjármálakreppunni í heiminum vegna skorts á faglegum vinnubrögðum á undanförnum 8 árum.  Í mínum huga hefur þetta fyrirtæki ekkert creditability eftir að það gaf bandarískum "ástarbréfum" AAA-einkunn, þegar CCC-einkunn var nær lagi.

Marinó G. Njálsson, 21.7.2009 kl. 21:43

5 identicon

Tryggingafélag bætir ekki tjón samkvæmt ábyrgðartryggingu ef sá sem veldur tjóninu hefur

a) Verið undir áhrifum eiturlyfja

b) Sýnt af sér vítavert gáleysi

c) Brotið lög

 Þannig að það er ekki einsog þetta sé borðleggjandi. Hugsanlega á þetta allt við. Þetta er standard í tryggingum, líka hjá Lloyds og búið að vera í aldaraðir. Látum ekki bjána sem þykjast vita hvernig "allir hugsa í útlöndum" setja okkur útaf laginu.

Doddi D (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 23:12

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Doddi D! Þetta er bara ekki svona auðvelt! Því ef við miðum við dæmið þitt þá er tryggingarfélagið búð að samþykkja að bera ákveðin hluta af tjóninu og samþykkt að annað tryggingarfélag sæi um útborgun á því. Og það er búið. Nú er verið að rukka um þann hluta upphæðarinnar sem búið var að samþykkja að greiða! Og starfsmenn tryggingarfélagisns búnir að semja um greiðslutilhögun. Nú eru það við sem erum eigendurnir að tryggingarfélaginu [tryggingarsjóð innistæðna] sem verðum að samþykkja hvort við erum tilbúin að ábyrgjast að þessi samningur verði uppfylltur og greitt til baka það sem þegar er búið að greiða tjónþolum.

Eins var það okkar að koma í veg fyrir vítavert gáleysi Landsbankans

Síðan væri gott fyrir þig að hugsa út í það að Bretar og Hollendingar gætu ekki með nokkru móti látið okkur komast hjá því að borga þessar icesave skuldir. Og sér í lagi ekki úr þessu. Bendi þér t.d. á að þó það séu fleiri íbúar í Bretlandi og Hollandi þá eru þetta upphæðir sem þeir virkilega finna fyrir. T.d. má benda á að í þessum löndum búa um 70.000.000 og miðað við að lánið sé um 700.000.000.000 Sem gerir um 10 þúsund krónur á hvern einasta íbúa í þessum löndum. 

Því held ég að þessar þjóðir rukki þetta inn af hörku ef við göngum ekki að samninginum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 21.7.2009 kl. 23:41

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Marínó! Er talsmaður Fitch Ratings ekki að horfa til þess að á meðan að ósamið er við IceSave þá er ástandið svo óöruggt hér með þessar eða hærri upphæðir sem líklega skella á okkur ófrágegnar og því óvíst með greiðslubirgði okkar næstu árin. Sem og vitandi að líkur eru á því að þetta gæti hamlað öllum erlendum fjárfestingum hér sem og fjármögnun og lánum frá útlöndum?

Magnús Helgi Björgvinsson, 21.7.2009 kl. 23:47

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, samkvæmt þeim gögnum/upplýsingum sem ég hef skoðað í tengslum við erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins m.a. af vef Seðlabankans, þá skipta Icesave skuldirnar nánast engu máli.  Við erum á bólakafi hvort sem við erum 6 fet undir eða 7 fet.  Stað þjóðarbúsins er skelfileg og hún batnar ekki við að bæta 700 milljörðum frá Icesave við eða að opna lánalínur til útlanda.  Það þarf að senda okkur í "greiðsluaðlögun" eða "greiðslujöfnun" svo ég noti tvö hugtök sem orðið hafa til á síðustu mánuðum.  Og jafnvel það mun ekki duga.

Stærstu upphæðirnar sem eru ófrágengnar í augnablikinu eru í tengslum við gömlu bankana.  Áttar fólk sig ekki á því, að þó skuldir þeirra falli ekki á ríkinu eða skattgreiðendum, þá falla þær á gjaldeyrisforða okkar.  Ef innheimta á 2-4 þúsund milljarða af útlánum bankanna hér á landi og greiða þessar upphæðir til erlendra kröfuhafa, þá þarf gjaldeyri.  Bankahrunið byrjaði sem gjaldeyriskreppa og við erum ennþá í gjaldeyriskreppu.  Eina leiðin til að leysa málið er að koma í veg fyrir óþarfa útflæði gjaldeyris.  Breta og Hollendingar verða því að sætta sig við það sem kemur út úr erlendum eigum Landsbankans og meira er ekki til skiptanna.  Það er stóri sannleikurinn í málinu.  Kröfuhafa gömlu bankanna verða á sama hátt að sætta sig við að fá eingöngu það sem felst í erlendum eignum gömlu bankanna.

Þegar við Haraldur Líndal Haraldsson fórum sem fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna á fund fjárlaganefndar fyrir 2 vikum, þá virtust fáir fatta að kreppan okkar snýst að miklu leiti um að við eigum ekki nægan gjaldeyri til að greiða erlendar skuldir okkar.  Sigmundur Ernir bað um greinargerð/minnisblað Seðlabankans með við vorum á fundi nefndarinnar.  Og hvað kom síðan fram í minnisblaðinu?  Það vantaði heildarsýn á greiðsluflæði gjaldeyris.  Þetta var bara 40-60% af myndinni.

Marinó G. Njálsson, 22.7.2009 kl. 00:07

9 Smámynd: Arnar Guðmundsson

RITSKODUN RITSKODUNN Á MOGGABLOGGINU 11.,,

Arnar Guðmundsson, 22.7.2009 kl. 00:21

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Eigum við ekki bara að samþykkja með það í huga að engin þjóð hefur nokkru sinnni borgað skuldir sínar?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.7.2009 kl. 01:54

11 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef einhver tekur á sig skuldbindingu sem er langt umfram greiðslugetu ef litið er til síðustu áratuga og meðaltal framlegaðar þjóðarbúsins skoðuð, ligur fyrir að slík þjóð GETUR EKKI  orðið góður skuldari á meðan hún er í ófærunni (að greiða af þeim skuldum sem hún ekki ræður við) og því hlýtur virði slíkrar þjóðar að LÆKKA til samræmis við greiðslu,,getu".

Spurningin er miklu frekar sú.

HVERS VEGNA ERU BRETAR EKKI AÐ STEFNA KANANUM VEGNA FALLS ÞIERRA BANKA Í HVERJUM ÍBÚAR BRETLANDSEYJA OG ANNARRA EVRÓPULANDA ÁTTU MILLJARÐA PUNDA/EVRA/DOLLARA Í OG FÁ EKKI ÚR ÞEIRRA ÞROTABÚUM SVOMIKIÐ SEM GATAÐ CENT?

Hugsið það ögn áður en þið farið að verja Nýlendukúgara!!

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 22.7.2009 kl. 09:37

12 identicon

Andstæðingar Icesafe eru búnir að gíra sig svo upp að þeir eru orðnir algerlega blindir á augljósar staðreyndir. Lánshæfismatið endurspeglar ekki aðeins upphæð skulda þjóðarbúsins heldur einnig möguleika ríkisins til að greiða skuldir sínar. Einstaklingur sem skuldar lítið en hefur engar tekjur og neitar að greiða skuldir sínar hefur minna lánstraust en sá sem skuldar mikið en stendur í skilum. Það hefur margsinnis komið fram að ef Íslendingar samþykkja ekki Icesafe þá eru öll lánaviðskipti landsins í uppnámi. Ef það gerist þá fellur íslenskt efnahagslíf einfaldlega saman og við getum ekki greitt þau lán sem við þegar höfum tekið og fáum engin ný. Þeir sem tala hæst um landráð, Iceslave, kúgun, o.s.frv. ættu að hafa þetta í huga þegar þeir hvetja til þess að samningurinn sé felldur.

Gunnar (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 10:58

13 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég tek undir með þér Marinó, eftir því sem skuldir okkar eru meiri, þeim mun lægra er lánshæfimatið og eftir því sem við skuldum minna ætti lánshæfimatið að vera hærra. 

Því er ljóst að verið er að beita Fitch Ratings fyrir sér gegn okkur, hvort það er AGS, Bretar, Hollendingar eða allir til samans.  Þetta er þeim til minnkunar og sýnir enn betur en nokkuð annað hversu óforskammaðir þeir eru, það sýnir okkur ennfremur hversu nauðsynlegt það er okkur að hafna Icesave-þvinguninni.

Tómas Ibsen Halldórsson, 22.7.2009 kl. 12:19

14 identicon

Marínó, ef þetta er rétt að við séum á hasnum (skuldir ~200% af GNP og IceSave 2/5 til 3/5 af því?). Er það skýlaus réttur okkar að ráða hvað við borgum og í hvaða röð, eða hafa lánadrottnar eitthvað um það að segja?

Í tilfelli unglingsins sem nefndur var sem dæmi hér fyrir ofan, þá tekur bankinn væntanlega það sem hann getur af honum og ábyrgðarmönnum lánsins. Restin er svo "afskrifuð" en hún fellur í raun á aðra viðskiptamenn bankans ekki satt? Í vaxtagjöldum er innbyggð einhver tala sem metur meðal-afskriftarþörfina þannig að við sem stöndum í skilum erum alltaf að "borga skuldir óreiðumanna" - um hver einustu mánaðarmót.

Varðandi þessa gagnrýni á Breta og Hollendinga, sem eru svo ljótir að blanda saman óskyldum hutum, þá finnst mér persónulega að þetta sé einhver barnalegasta gagnrýni sem ég hef heyrt lengi. Þetta gera allar þjóðir alltaf, við líka, þingmenn okkar gerðu þetta í miklum mæli fyrir viku síðan. Þetta er pólítík. Ekkert meira, ekkert minna, bara venjuleg pólitík.

Það tók okkur ekki langan tíma sl. haust að "flasha" Rússa-kortinu þegar við fengum ekki einu sinni áheyrn hjá vinum okkar fyrir vestan. Ef herinn hefði ekki verið farinn hefðum við að sjálfsögðu hótað að reka hann samstundis. 

Bjarni (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 15:04

15 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það sem ég hef verið að benda á er að það hvort B og Holl breita sér gegn aðildarumsókn Ísland í ESB er ekki að halda vöku fyrir þeim sem þurfa að fást við AGS og hlýða skipunum hans. ÞAR RÁÐA bretar miklu meiru en í ESB. Aðildarumsókninga má tefja en það hefur ekki nein þau áhrif í skammtímanum að við þurfm að hræðast það.

Fjármálalífið hefur ekki breyst svo mikið í hruninu að ímynd og trúverðuleiki skipti ekki gríðarlegu máli. Ef matsfyrirtækin sameinast um þessa skoðun Fich Ratings er það mun óþægilegra en tafir í aðildarviðræðum.

Hvernig væri nú að fólk hætti smörklípu pólitíkinni og fari að hugsa rökrétt og meta stöðuna af skynsemi og raunsæi

Sævar Finnbogason, 22.7.2009 kl. 16:00

16 Smámynd: Haukur Nikulásson

Kærleikur ESB þjóðanna í okkar garð ætti að vera búinn að sýna okkur að láta það eiga sig að sameinast þessu liði. Það er valdagræðgi sem ræður hér förinni en ekki manngæska.

Við eigum að staldra við í þessu máli og gefa okkur betri tíma og betri menn til að skoða þetta mál og lausnina á því.

Ég er persónulega ekki tilbúinn að ábyrgjast að borga lán sem ég tók ekki og svo er um flesta íslendinga, svo einfalt er það. Við eigum alveg nóg með restina af öllu svindlinu sem dundi á okkur.

Haukur Nikulásson, 22.7.2009 kl. 17:27

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Finnar borguðu skuldir sínar, og eru stoltir af því"

Færeyingar líka.  Á sama tíma minnkaði þjóðarframleiðsla um þriðjung hjá þeim og greiðsla bara í vexti voru umtalsverð prósenta af landsframleiðslu árlega í mörg ár.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.7.2009 kl. 18:59

18 Smámynd: Sævar Finnbogason

Því er ljóst að verið er að beita Fitch Ratings fyrir sér gegn okkur, hvort það er AGS, Bretar, Hollendingar eða allir til samans.

Tommi þetta er bara smá viðvörun vinum okkar í AGS sem enn bíða með að afgreiða hluta 2 af lánasamningnum.

Sævar Finnbogason, 22.7.2009 kl. 20:55

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðjón, í hverju liggur ábyrgð mín á bankahruninu í orðum mínum?  Ég gagnrýni efnahagsstjórn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og úrræðaleysi Seðlabankans og nú ber ég meðábyrgð á hruni bankanna.  Kannksi það sé mér að kenna að Lehman Brothers féll vegna þess að ég gagnrýndi matsfyrirtækin.  Ég hef séð ýmis furðuleg ummæli, en ég held að þessi toppi allt, Guðjón.  Ef eitthvað er, þá held ég að ég hafi hitt naglann á höfuðið með eftirfarandi orðum mínum:

Það er alveg sama hvert litið er efnahagsstjórnun ríkisstjórnarinnar og peningamálastefna Seðlabankans undanfarin ár er að nauðga allri þjóðinni þessa daganna.  Það er náttúrulega út í hött að Seðlabankinn, sem standa á vörð um gjaldmiðil landsins, er gjörsamlega úrræðalaus.  Hvar í hinum vestræna heimi liðist það að gengi gjaldmiðils lækkaði um 40% á innan við 6 mánuðum án þess að seðlabanki viðkomandi lands væri búinn að grípa inn í með aðgerðum.  Það getur vel verið að krónan hafi verið of hátt skráð og það getur vel verið að lausafjárkreppa sé í gangi á alþjóðlegum fjármálamarkaði, en að sitja hjá með hendur í skauti er grafalvarlegur hlutur.  Það er sagt að með illu skal illt út reka, en þegar lækningin er farin að valda meiri skaða en sjúkdómurinn, þá er kominn tími til að skipta um lækni og fá einhvern sem kann til verka.

Marinó G. Njálsson, 23.7.2009 kl. 10:44

20 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

þeir sem hafa stjórn á fjármagni heimsins stjórna líka AGS, matsfyrirtækjunum og öðrum stofnunum sem koma að þessum málum. Aðalatriðið er að þeir vilja lána og lána til að innheimta vexti. Því munu þeir stilla af vaxtarbyrði okkar þannig að við rétt skrimtum. Þetta mun gerast. Spurningin er bara hversu margir munu búa á landinu til að greiða vextina.

Gunnar Skúli Ármannsson, 23.7.2009 kl. 21:59

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, erlend skuldabyrði þjóðarinnar er komin út fyrir þau mörk sem þjóðin getur borið.  Það er því miður staðreynd.

Guðjón, mikið er gaman að sjá að einhverjir lesi greinar mínar af athygli.  Það hefur ítrekað komið fram á undanförnum mánuðum, að skuldatryggingaálag banka og ríkissjóða um allan heim átti ekki við nein rök að styðjast.  Varðandi íslensku bankana á alveg eftir að koma í ljós hvort kom á undan eggið eða hænan.  Við höfum ekki hugmynd hvort bankarnir hefðu staðist áraunina, ef Seðlabankinn hefði staðið sig í stykkinu á árunum 2003-2008 eða ef Seðlabankinn hefði tekið erlent lán á vordögum 2008 til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn eða ef Lehman Brothers hefðu ekki fallið.  Við munum aldrei vita það og því eru tilvísanir þínar í skrif mín dæmgerð besserwisser viðbrögð, sérstaklega þegar haft er í huga að þú mótmæltir sjálfur 500 milljarðar láninu sem samþykkt var að Seðlabankinn gæti tekið, en finnst núna sjálfsagt að borga Icesave upp í topp sem 30-40% hærri tala.

Marinó G. Njálsson, 23.7.2009 kl. 23:10

23 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðjón, með fullri virðingu, þá var Icesave briliant hugmynd.  Það var útfærslan sem var meingölluð.  Matsfyrirtækin mæltu með þessari leið og hrósuðu Landsbankanum fyrir.  Flestir aðilar hér á landi, þar á meðal Seðlabanki og ríkisstjórn, lofuðu Landsbankann fyrir.  Það datt engum í hug á þeim tíma að hið óhugsandi gæti gerst að bankarnir féllu. 

Icesave málið væri ekkert vandamál, ef reikningarnir hefðu verið stofnaðir í dótturfyrirtækjum Landsbankans í stað útibúa.  Icesave hefði heldur ekki verið neitt vandamál, ef sömu takmarkanir væru í íslensku tryggingasjóðslögunum, eins og mér skilst að séu í þeim bresku, þ.e. þeir einir geta stofnað reikning sem tryggingin nær til, sem hafa heimilisfestu á Bretlandi.  Þannig hefur fjöldi Breta, sem búsettur er erlendis, ekki getað stofnað reikninga í breskum bönkum í Englandi, Skotlandi, Wales eða Norður-Írlandi, heldur þurft að eiga viðskipti við útibú þeirra á Ermasundseyjunum eða á Mön, en eyjarnar eru utan innistæðutryggingakerfisins breska. Með þessu tryggja Bretar að fjármagnstekjuskatturinn renni þó a.m.k. í ríkissjóð.

Marinó G. Njálsson, 24.7.2009 kl. 11:45

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Varðandi klúður Seðlabankans, þá byrjaði það fyrir löngu.  Hvernig datt mönnum t.d. í hug 2001 að setja krónuna á flot í 7-8% verðbólgu og þegar stýrivextir höfðu verið yfir 11% í þó nokkurn tíma?  Þetta er eins og að kenna barna að synda í haugasjó, en úps við erum því miður búin að nota allan björgunarbúnaðinn.  Árið 2003 kom næsta klúður, þegar saman fór lækkun bindiskyldu og lækkun á áhættustuðli við útreikning eiginfjárhlutfalls.  Þetta tvennt opnaði fyrir útlánaþensluna sem þá hófst.  Árið 2004 hefði Seðlabankinn átt að hækka bindiskylduna til að slá á útlánaæði bankanna.  2005-2006 hefði Seðlabankinn átt að lækka stýrivexti hratt og selja krónur til að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar, í staðinn hækkaði hann stýrivexti og bjó til skilyrði fyrir vaxtaskiptasamninga (jöklabréf) og óeðlilega styrkingu krónunnar. Höfum í huga að það er hlutverk Seðlabankans að tryggja stöðugleika og eðlilega skráningu krónunnar.  Hann brást í báðum þessum þáttum.

Nú FME tók þátt í hrunadansinum og varð uppvíst að alls konar klúðri.  FME leyfði bönkunum hluti sem voru m.a. í andstöðu við vilja löggjafans, sbr. að veita lán með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Í athugasemd með frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur segir beinum orðum að óheimilt sé "að tengja íslenskar fjárskuldbindingar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Það var hlutverk FME að fylgjast með þessu.  FME brást algjörlega í eftirlitshlutverki sínu og virtist ýmist ekki hafa getu til að standa uppi í hárinu á fjármálafyrirtækjum eða aðferðafræði þeirra var svo fyrirsjáanleg að auðvelt var að blekkja stofnunina, sbr. Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogsbæjar.  (Þetta síðasta kom mér ekkert á óvart, þar sem ég hafði orðið vitni að vinnubrögðum FME og fannst þau ekki upp á marga fiska.) Mesta kklúður FME (sem ég tileinka líka Seðlabankanum) er frá 2. mars 2007, þegar áhættustuðull vegna útreiknings veðlána í eiginfjárhlutfalli var lækkaður úr 0,5 í 0,35, daginn eftir að ríkisstjórnin hafði gripið til aðgerða til að draga úr verðbólgu.  Ég hef aldrei getað skilið þessa aðgerð á miðju þensluskeiði.  Sá sem ákvað þetta olli gríðarlegu tjóni fyrir þjóðarbúið.  Með þessari einu aðgerð var opnað fyrir frekari útþenslu efnahagsreikninga bankanna, þegar brýnt var að þeir drægju saman seglin.

2008 varð að því hamfaraári sem raun ber vitni vegna þess að margir aðilar gerðu fullt af vitleysum.  Almenningur tók meiri lán en skynsamlegt var, enda var þeim otaði að fólki eins og sælgæti.  Fyrirtæki tóku meiri lán en skynsamlegt var, enda leit út fyrir að hér væri búið að finna upp hið endalausa góðæri.  Bankarnir þöndu út efnahagsreikninga sína í þeirri trú, að þeir hefðu uppgötvað leyndarmálið um öran vöxt sem enginn annar banki í heiminum vissi um (hinir vissu að sígandi lukka er best).  Bankarnir köstuðu fyrir róða eðlilegri varkárni og áhættustjórnun virtist ekki hafa verið til staðar.  Og það voru ekki bara bankar á Íslandi sem féllu í þá gryfju að slaka á í áhættustjórnun.  Það gerðist víða á Vesturlöndum.  Ég búinn að lýsa klúðrinu hjá FME og Seðlabankanum.

Marinó G. Njálsson, 24.7.2009 kl. 12:27

25 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll aftur,

ef AGS minnkar allan innlendan kostnað með því að lækka kaup um 50%, skera niður heilbrigðis- og menntamál um 50% þá ættu endar kannski að ná saman. Ef ekki dugar þá getum við selt einhverja auðlindina.

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.7.2009 kl. 18:03

26 Smámynd: Sævar Einarsson

Icesave er ekkert vandamál, í pappírstætara með það og lofa Bretum og Hollendingum að sækja þessa peninga dómstólaleiðina og málið dautt.

Sævar Einarsson, 24.7.2009 kl. 20:51

27 Smámynd: Sævar Einarsson

En þeir vilja það ekki, hafa hafnað því ... kannski vegna þess að þeir vita að þar myndu þeir tapa því ?

Sævar Einarsson, 24.7.2009 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband