5.7.2009 | 23:57
Álögur á heimilin þyngjast stöðugt - Framtíðarhorfur eru dökkar
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna erum orðin nokkuð þreytt á úrræðaleysi stjórnvalda þegar kemur að skuldavanda heimilanna. Við auglýsum því eftir hagspá fyrir heimilin, þar sem hagstærðir eru mældar sérstaklega með hagsmuni heimilanna í huga.
Ég hef sjálfur skoðað sérstaklega nokkrar lykiltölur og það er sama hvaða atriði eru skoðuð, allt bendir í sömu átt. Skuldir og skuldabyrði er að aukast umfram aukningu ráðstöfunartekna og eigna. Hér fyrir neðan skoða ég nokkur atriði, en mun fleiri þarfnast greiningar.
1. Þróun skulda heimilanna við lánakerfið
Staða í milljörðum króna í lok tímabils | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008,3 |
Skuldir heimila við lánakerfið, alls | 877 | 1.083,6 | 1.323,4 | 1.546,9 | 1.890,4 |
Bankakerfi | 306,7 | 544,4 | 707,5 | 834,6 | 1.029,6 |
Ýmis lánafyrirtæki | 407,3 | 369,2 | 421,8 | 493,1 | 593,9 |
Lífeyrissjóðir | 86,8 | 92,5 | 109,2 | 129,7 | 156,0 |
Tryggingafélög | 13,5 | 8,9 | 7,2 | 4,5 | 10,9 |
Lánasjóður íslenskra námsmanna | 62,7 | 68,6 | 77,7 | 85,1 | 100,1 |
Þessar tölur eru unnar upp úr gögnum Seðlabankans. Áhugavert er að sjá, að af rúmlega 1.000 milljarða skuldaaukningu á þessum 4 árum, þá eru 723 milljarðar eða 72% tilkomnir vegna aukningu skulda við bankakerfið, þ.e. Landsbanka, Glitni, Kaupþing og Sparisjóðina. Þetta jafngildir auk þess 235% aukningu útlána bankakerfisins við heimilin á meðan útlánaaukning ýmissa lánafyrirtækja var eingöngu 46%. Inni í þessari tölu er m.a. Íbúðalánasjóður, en einnig nær öll bílalánafyrirtækin og síðan Frjálsi fjárfestingabankinn. Vægi ÍLS er því sáralítið í þessum tölum.
2. Þróun skulda heimilanna, eignamyndun samkvæmt fasteignamati og breytingar á eiginfjárhlutfalli
Staða í milljörðum króna | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | Áætlað 2008 |
Fasteignamat húsnæðis | 1530,7 | 2032,7 | 2311,4 | 2770 | 2894,1 |
Skuldir heimila við lánakerfið, alls | 877,0 | 1.083,6 | 1.323,4 | 1.546,9 | 2.017,0 |
Eiginfjárhlutfall % | 42,7% | 46,7% | 42,7% | 44,2% | 30,3% |
Hér eru skuldir skoðaðar í hlutfalli við fasteignamat húsnæðis. Ástæðan fyrir því að skuldir við lánakerfið 2008 eru hærri hér en í næstu töflu fyrir ofan er að hér er miðað við áramót, en áður við 30. september 2008. Eiginfjárhlutfallið hrapaði á síðasta ári og hefur haldið áfram að lækka hratt á þessu ári. Höfum í huga að samkvæmt tölum Seðlabanka eru um 42% heimila með neikvætt eiginfjárhlutfall eða með mjög takmarkað eigið fé. Það er því ljóst að eignum er mjög misskipt meðal þjóðarinnar.
3. Þróun skulda í samanburði við breytingu á ráðstöfunartekjum
Staða í milljörðum króna | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | Áætlað 2008 |
Ráðstöfunartekjur | 460,1 | 522,7 | 620,2 | 701,4 | 750 |
Skuldir heimila við lánakerfið, alls | 877,0 | 1.083,6 | 1.323,4 | 1.546,9 | 2.017,0 |
Skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum % | 191% | 207% | 213% | 221% | 269% |
Hér sjáum við að skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa vaxið um 40% (78 prósentustig) á aðeins fjórum árum. Þessi þróun má ekki halda áfram. Það sem meira er, henni verður að snúa við. Heimilin eru komin yfir mörkin sem Alþjóðagjaldeyrissjóður setur Íslandi vegna erlendra skulda. Þessi skuldastaða er orðin það alvarleg að heimilin standa ekki undir henni.
Framtíðin er ekki björt
Niðurstaðan er einföld. Allt hefur þróast í vitlausa átt. Heimilin eru sífellt að verða skuldsettari, greiðslubyrðin eykst með hverju árinu og heimilin eiga minna eftir því sem tíminn líður. Stjórnvöld virðast ekki skilja þennan vanda og hafa ekki gert neitt til að takast á við hann. Það er enginn greiningaraðili sem virðist kæra sig um að skoða vandann, hvað þá finna lausn á honum. Ef það er mat fremstu sérfræðinga, að með erlendar skuldir upp á 250% af þjóðarframleiðslu eigi Ísland að lýsa sig gjaldþrota, hvað segir það okkur um stöðu heimilanna. Skuldir heimilanna voru um áramót komnar upp í 269% af ráðstöfunartekjum. Já, 269% af ráðstöfunartekjum. Vissulega er dreifingin misjöfn milli heimila, en það segir okkur bara að staða mjög margra er mjög slæm.
En hver er ástæðan fyrir þessari þróun? Er hún bara hrun krónunnar á síðasta ári að kenna og verðbólgunni sem á eftir fylgdi? Nei, vandamálið er mun djúpstæðara. Staðreyndin er að í fjölda mörg ár hefur meðalframfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar verið umtalsvert hærri en meðalráðstöfunartekjur. Samkvæmt greiningu Arneyjar Einarsdóttur í grein í Morgunblaðinu 16. júní sl., þá vantar vísitölufjölskylduna sem nemur 8 mánaðalaunum eins aðila til að ná endum saman. Hvernig fer fólk þá að því? Jú, það tekjur lán. Þannig ná heimilin endum saman. Eitt lán leiðir af öðru. Skuldabyrði upp á 191% verður að 207%, 213%, 221%, 269%. Og hvað svo næst 300% eða 320%? Hver verður skuldabyrðin eftir 5 ár, 10 ár eða 15? Hvaða áhrif hefur Icesave reikningurinn á afkomu heimilanna? Bara vaxtabyrði Icesave nemur um 10% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Ætli það sé til eitthvað annað land í heiminum sem greiðir jafn hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum íbúanna í vexti af einu láni og Íslandi er ætlað? Ég efast um það.
Það er sama hvernig litið er á það, heimilin í landinu eru komin með bakið upp við vegg. Hér stefnir í fjöldagjaldþrot. Samkvæmt greiningu minni á tölu Seðlabanka Íslands eru 54% heimila með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði. Þetta er umtalsvert meira en þau 23% sem Seðlabankinn telur í þessari stöðu. 44% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnu Hagsmunasamtaka heimilanna meðal félagsmanna töldu frekar litlar eða mjög litlar líkur á því að geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar heimilisins næstu 6 mánuði meðan 33% töldu frekar miklar eða mjög miklar líkur á því. 61% svarenda sögðust vera gjaldþrota eða á leið í gjaldþrot, safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman, meðan aðeins 10% sögðust geta safnað svolitlu (9%) eða talsverður (1%) sparifé.
Hvað þarf þetta að ganga langt áður en stjórnvöld telja sig knúin til að bregðast við vandanum? Hvað þurfa mörg heimili að fara í þrot áður en Jóhanna og Steingrímur bregðast við? Áttar fólk sig ekki á afleiðingum þess að 10, 20 eða 30% heimilanna fari í þrot?
Viðbót: Ég reiknaði að gamni mínu hver greiðslubyrðin af óverðtryggðu 40 ára láni með 5% vöxtum væri, ef skuldin væri 269% af ráðstöfunartekjum. Það kemur í ljós að mánaðarleg greiðsla af slíku láni er 1,3% af ráðstöfunartekjum eða 15,6% á ári. Sé lánið til 30 ára er greiðslubyrðin 1,45% á mánuði eða 17,4% af ráðstöfunartekjum á ári. En sé lánið til 20 ára er greiðslubyrðin komin í 1,78% á mánuði eða 21,36% af ráðstöfunartekjum á ári. Nú segir einhver, að ráðstöfunartekjur muni fara hækkandi á næstu árum. Málið er að ekkert bendir til þess. Helmingur heimila í landinu er með innan við 250 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuði og bandormurinn sem samþykktur var um daginn, hann innifelur víst í sér 90.000 kr. viðbótarálögur á hvert heimili í landinu. Það bendir því flest til þess að ástandið eigi eftir að versna verulega áður en það byrjar að batna, nema farið verði í verulega leiðréttingu/eftirgjöf lána Síðan á eftir að bæta Icesave skuldbindingunum ofan á. Vissulega koma þær ekki til greiðslu fyrr en eftir 7 eða 8 ár, en það væri lítil fyrirhyggja að byrja ekki að safna strax. Segjum að það séu 30 milljarðar á ári í 15 ár, þá jafngildir það eitthvað um 300.000 á hverja fjölskyldu á ári. Ég sé bara ekki hvaðan peningarnir eiga að koma eða hvernig heimilin eiga að komast af.
Vilja hagspá heimilanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 52
- Frá upphafi: 1681299
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Komdu sæll.
Fjórði dálkurinn er falinn undir tenglunum. Samhengið næst þó.
Er ekki rétt hjá mér að "skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum" eru heildarskuldir á ákveðnum punkti (áramót) deilt með heildarársráðstöfunartekjum?
Kveðja,
Billi bilaði, 6.7.2009 kl. 00:45
Þarna vantaði á setningu hjá mér:
"... deilt með heildarráðstöfunartekjum heils árs?"
Kveðja,
Billi bilaði, 6.7.2009 kl. 00:46
Billi, ég er búinn að laga þetta.
Jú, það er rétt skilið. Skoðaðar eru ráðstöfunartekjur ársins og þær bornar saman við skuldastöðu um áramót.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2009 kl. 01:11
Takk fyrir samantektina. Þessi raunveruleiki sem þú dregur upp þarna er því miður ekki raunveruleiki ríkisstjórnarinnar. Það sögðu mér hjón um helgina sem eru með samtals 310 þús á mánuði, hann á lágmarksbótum, frá samskiptum sínum við bankann og ráðgjafastofu. Þau er 5 á heimili með elsta barnið 19 ára. Hann er í menntaskóla og fær enn meðlag. Þar með telst hann ekki með inni í fjölskyldumyndinni. Þau eru með lánin fryst og ætla að sækja áfram um frystingu meðan það er hægt. Eftir það skila lyklunum og flytja jafnvel erlendis. Þetta er svipuð hugmynd og hjá mér og fleirum. Það er nefnilega eitt að missa eigið fé í húsnæðinu. En að skulda jafnvel 50-60 milljónir í 30 milljón króna eign er svo absúrd að þeim pakka verður ekki troðið í kokið á neinum manni.
Ævar Rafn Kjartansson, 6.7.2009 kl. 11:36
Ef ég þarf að heyra "Icesave" eða "heimilin í landinu" mikið oftar, þá held ég að ég muni bókstaflega kasta upp.
Arngrímur (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 18:02
Marinó, hvernig fór með greiðsluverkfallið sem verið var að kjósa um hjá HH fyrir stuttu?
Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 6.7.2009 kl. 19:11
Arngrímur, þá er bara kominn tími á að setja tappa í eyrun.
Kolbrún, það er allt í ferli. Verið er að velja fók í verkfallsstjórn og síðan verður málum fylgt eftir eins og gert er í verkföllum á vinnumarkaði.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2009 kl. 19:40
Marinó, ég held að fjöldi fólks íhugi núna flutninga burt úr Okurlandi eins og Ævar að ofan. Það sé bara búið að gefast upp.
Elle_, 6.7.2009 kl. 21:13
Sæll Marinó.
Mér fannst á umræðunni hjá þér við sjónvarpið að láglaunafólkið, þ.e.a.s. með undir 350 á mánuði muni missa íbúðir sínar innan tíðar vegna þess að það fólk muni ekki standa undir húsnæðislánum sínum.
Í rauninni öfugt við það sem áður hefur gerst í fyrri kreppum, því þá ar það gjarnan fólk sem var yfir miðlungstekjum sem var að missa húsnæði sitt
En nú vantar félagslega húsnæðiskerfið sem var við lýði. Ert þú að kalla eftir félagslegu húsnæðislánakerfi? Ég er eindregið á þeirri skoðun að nú er veruleg þörf á slíku lánakerfi og skilyrðin mætti vera með öðrum hætti mættu vera með allt öðrum hætti en áður var og einnig öll vinnubrögði varðandi úthlutun slíkra lána. Þá geta lánakjörin hæglega breyst eftir batnandi efnahag.
Kristbjörn Árnason, 6.7.2009 kl. 22:00
Ég var bara að velta fyrir mér í sambandi við kaflan sem heitir viðbót hjá þér.
Þegar þú talar um "269% af ráðstöfunartekjum" þá ert þú væntanlega að tala um tekjur eftir skatt? Ef við reiknum með að einhver fjölskylda hafi um 5 milljónir á ári í heildarlaun. Þá er ráðstöfunartekjur væntanlega um 3,9 milljónir [nenni ekki að reikna það]. Skv þessu þá ert þú að tala um lán upp á rúmar 9 milljónir. Það kaupir engin íbúð fyrir það. Held að mér hafi verið sagt að kostnaður við öflun eigins húsnæðis mætti ekki fara mikið yfir 30% af ráðstöfunartekjum en svo hefur aldrei verið hér á landi. Þannig að ef að eins og ég heyrði þig segja í fréttum í kvöld að allur húsnæðiskostnaður eigi skv. viðmiðum erlendis ekki að vera meiri en 30% af ráðstöfunartekjum þá hlýtur húsnæðisverð að hrapa niður skv. þessu viðmiði ef það kemst á. Því að annars þyrfti fólk að eiga fyrir meira en helmingi kaupsverðs áður en það gæti keypt sér íbúð.
Magnús Helgi Björgvinsson, 6.7.2009 kl. 22:26
Marinó, bara staðfesting á auknum millilanda-flutningum:
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item288814/
Elle_, 6.7.2009 kl. 22:37
Kristbjörn, ég talaði í sjálfu sér ekkert um hverjir kæmust í þrot, bara að tekjulægri hóparnir hefðu ekki sama svigrúm til að nota 20-40% af ráðstöfunartekjum sínum í fastar afborganir lána og þeir sem hafa hærri tekjurnar. Hitt veit ég að af þeim, sem eru með ráðstöfunartekjur upp á 0-150 þúsund, eru einungis 10% að nota 0-10% af ráðstöfunartekjum sínum í fastar afborganir lána. Af þessum tekjuhópi eru því 90% með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði að mínu mati.
Varðandi viðmiðun þína upp á 350 þúsund sem láglaunafólk, þá erum við að tala um ráðstöfunartekjur, ekki laun fyrir skatta (svara þinni spurningu, Magnús). Inn í þessar tölur vantar, eins og ég skýri að ofan, líka allar skattfrjálsar bætur, s.s. barnabætur og vaxtabætur. En aftur að 350 þúsundunum. Um helmingur heimila eru með 0-250 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuði. Með það í huga, verður seint sagt að einstaklingar með meira en meðaltalið í tekjur séu láglaunahópur.
Magnús, þetta er meðaltal allra. Heimili með 10 milljónir í ráðstöfunartekjur á ári væri þá með 26,9 milljónir í heildarskuldir. Við erum ekki að horfa til greiðslu heldur stöðu höfuðstóls lánanna. 30% sem þú ert að vísa til er sá hluti af árlegum ráðstöfunartekjum sem fara í árlegan húsnæðiskostnað, þ.e. afborganir lána, vexti, skatta, tryggingar og rekstur. Ég hef skoðað þessar tölur frá nokkrum stöðum og þar hefur talan verið ábilinum 28-32%. Þú segir að húsnæðisverð eigi eftir að lækka til að koma kostnaðinum í 30%. Við skulum hafa í huga, að höfuðstóll lána hefur hækkað mjög mikið síðustu 20 mánuði eða svo. Verð það leiðrétt, þá lækkar hlutfall skulda miðað við ráðstöfunartekjur kannski ofan í 200-210% sem er skömminni skárri tala. Allt er betra en 269%, en málið er að ekkert bendir til annars en að þetta eigi eftir að versna áður en það batnar.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2009 kl. 23:15
Marinó, mig langaði að forvitnast um annan pistil sem þú skrifaðir um daginn. "Dropinn holar steininn - Bankar og þingmenn hlusta á HH". Þar segir þú frá úrræðum sem Kaupþing býður varðandi húsnæðislán og einnig hvernig ónafngreindur banki hagar sínum málum varðandi skuldara.
Ég spyr þig: Hvar kemur þessi yfirlýsing sem þú vitnar í fram á vef Kaupþings og hver er hinn bankinn sem er byrjaður að aðstoða skuldara? Þá var ég einnig að velta því fyrir mér afhverju Kaupþing er ekki búið að auglýsa þessa aðstoð og ef hún er almenn væru þá ekki fréttastofurnar búnar að slá þessu upp?
Þórhallur (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:17
Þórhallur, ég var á fundi með Finni Sveinbjörnssyni og Helga Bragasyni, lánastjóra, og þeir sýndu okkur þetta með þeim orðum að þetta væri þegar komið í gang. Ég hef svo sem ekkert verið að fylgjast með því frekar. Snúðu þér til þjónustufulltrúa þíns og spurðu út í þetta.
Líklegasta ástæðan fyrir því að Kaupþing auglýsir þetta ekki er að þeir vilja hafa stjórn á þeim fjölda sem fer í gegn í einu. Mér dettur ekkert annað í hug.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2009 kl. 23:36
Takk fyrir þetta Marinó en veistu hver hinn bankinn er?
Hvernig skyldi standa á því að fréttamiðlarnir hafa ekki fengið veður af þessum gjörningi Kaupþings, sérstaklega vegna þess að einmitt þessi mál eru þau sem brenna hvað helst á vörum landsmanna?
Þórhallur (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:49
Marinó. Þú ert alltaf að halda því ranglega fram að stjórnvöld hafi ekkert verið að gera til að aðstoða skulsett heimili. Það er einaldlega rangt. Þó þau fari ekki þær leiðir, sem þú villt fara þá er það ekki þar með sagt að ekki sé verið að gera neitt.
Eins og þú sjálfur bendir á þá gera hækkaðar skattaálögur fjölskyldum ekki auðveldara fyrir við að ná endum saman. Það þarf hins vegar að hækka skatta til að ríkissjóður nái endum saman ef vaxtabyrði ríkissjóðs á ekki að verða sífellt erfiðari fyrir skattgreiðendur.
Þar kem ég að kjarna þess, sem vantar inn í þinn málflutning. Ef farið verður út í flata eftirgjöf skulda eða "leiðréttingu skulda" eins og þú vilt kalla það þá eykur það skuldir ríkissjóð um hundruði milljarða króna. Það eru meira að segja líkur á að það muni auka skuldir ríkissjóðs meira heldur en Icesave dæmið. Slíkt mun óhjákvæmilega leiða til enn meiri skattahækkana til að fjármagna greiðslubyrði ríkisins af þeim skuldum.
Það leysir engan vanda að láta skattgreiðendur greiða almennt hluta lánanna fyrir lántaka. Það leiðir bara til skattahækkunar á móti lækkaðri greiðslubyrði. Það þarf því að fara aðrar leiðir þar, sem aðstoðinni er beint sérstaklega til þeirra lakast settu en þeir betur settu látnir greiða sín lán sjálfir. Það er sú braut, sem stjórnvöld eru að fara þó vissulega mættu þau ganga lengra á sumum sviðum. Það er einfaldlega ekki einfalt mál að ná þjóð upp úr kreppu eins og við erum í núna og það verður ekki gert með hókus pókus lausnum eins og almennri niðurfellingu skulda. Það leysir engan vanda.
Gleymum því ekki að slík niðurfelling eða "leiðrétting" gagnast ekki þeim allra lakast settu. Þeir geta hvort eð er ekki greitt af sínum lánum þrátt fyrir slíka lækkun og enda því hvort eð er í gjaldþroti eða greiðsluaðlögun þar, sem þeir standa uppi með 110% skuldsetningu að henni lokinni. Þeir lenda hins vegar í því að greiða hærri skatta vegna kostnaðarins við það að létta skuldum af þeim, sem geta greitt sínar skuldir. Staða lakast settu heimilanna mun því versna ef þessi niðurfellingar eða "leiðréttingarleið" er farinn og því mun slík aðgerð fjölga gjaldþrotum heimila en ekki fækka þeim.
Það er þess vegna, sem engin ábyrg ríkisstjórn getur farið þessa leið. Það eru aðeins stjórmálaflokkar, sem ástunda lýskrum til atkvæðaöflunnar, sem tala fyrir leiðum eins og þessum, sem hljómar vel en þegar betur er að gáð gerir ástandið enn verra en það annars yrði.
Sigurður M Grétarsson, 7.7.2009 kl. 18:33
Sigurður, þú ert með þína skoðun á þessu máli og ég mína. Ég er ekki að reyna að sannfæra þig um mína skoðun og þó þú segir mér af þinni þúsund sinnum, þá kaupi ég hana ekki. Auk þess leggur þú mér ítrekað í munn alls konar hluti sem ég hef aldrei sagt. En ég ætla ekki að elta ólarnar við rangfærslurnar hjá núna frekar en áður.
Þér er tíðrætt um "kostnað skattgreiðenda". Segðu mér hvor kostnaðurinn er hærri: 1) að færa lán niður hjá núverandi eiganda eða 2) selja nýjum kaupanda eignina á lægra verði sem nemur niðurfærslunni?
Segðu mér annars, Sigurður, jók það skuldir ríkissjóðs um 1.170 milljarða að verja allar innistæður í bönkunum?
Marinó G. Njálsson, 7.7.2009 kl. 21:35
Sigurður, ég taldi líka tillögur Framsóknar lýðskrum og kosningarvíxil. En þegar í alvöru er verið að velta fyrir sér milljarðaniðurfellingu skulda útrásarvíkinga og verðbólga og vaxtarstefna Seðlabankans setja á nokkrum mánuðum hundruðir ef ekki þúsundir heimila á vonarvöl er ástæða til að staldra við. Þessi ríkisstjórn veður áfram með skattahækkanir og auknar byrðar á landsmenn en hefur hingað til bara boðið þeim sömu lengingu í ólinni eða aukafjölskyldumeðlim sem á að ráðstafa tekjunum. Hverslags úrræði eru það að mega skulda af íbúðinni fram á grafarbakkan eða vera með kommissar ríkisins inn á gafli?
Ævar Rafn Kjartansson, 7.7.2009 kl. 22:02
1.170 Milljarða til að lítill partur þjóðarinnar héldi nú alveg öruggla og rúmlega það sínum lífskjörum óbreyttum í einhverri mestu kreppu sem var að fara að skella á landinu. Svo neitum við icesave og undirstikum þar með að vera mestu drullusokkar um víða veröld.......
Ef ekki kemur til sambærileg gjöf á þeas 1170 milljarðar í leiðréttingu skulda væri þá ekki hægt draga 'Islenska ríkið fyrir Mannréttinda dómstól fyrir að mismuna þegnum landsins stórlega?????
Segi nú bara svona.
Jón bróðir (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 22:35
Kannski getur Jón bróðir komið með sterkari rök fyrir ábyrgð fólksins á kol-falli gengisins og óðaverðbólgu? Og líka fyrir ábyrgð ríkisins á Ice-save? Get útvegað Jóni bróður fjölda slóða á rök gegn ábyrgð ríkisins á Ice-slave.
Segi nú bara si-svona.
Elle_, 7.7.2009 kl. 22:55
Góð og vönduð samantekt hjá þér Marínó að vanda. Þetta er því miður hræðileg staða og merkilegt að fólk virðist núna loksis vera að uppgötva í hvaða skít við íslendingar búin að róta okkur út í. Þú lýsir eftir aðgerðum frá ríkisstjórn en ég held að það sé sáralítið sem ríkisstjórnin geti gert eins og ég hef skrifað ótal oft áður held ég að það komi engin hjálp önnur en þessi tímabundnu gjaldeyrishöft. Ríkið hefur meira en nóg að halda sjó, ná hallalausum fjárlögum, styðja við atvinnuvegi landsins og tryggja áframhaldandi gjaldeyrissköpun og forðast algjört hrun og reyna að byggja upp fjármálakerfi landsins úr rústum en þetta virðist ætla að vera einhver "lite" útgáf af fjármálakerfi með tæpum 300 miljörðum íslenskra sem er um það bil 1 miljarður evra. Síðan er að springa þessi gríðarlega fasteignabóla með stórum hvelli, þar sem fólk í miklum mæli hefur síðustu ár fjármagnað sína umframeyðslu inn í fasteignalánið og það hefur gengið meðan fasteignaverðið var stöðugt að hækka.
Nei þetta lítur ekkert sérstaklega bjart út.
Gunnr (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 23:05
@ EE elle
Bara svona til að hafa það alveg á hreinu þá finnst mér ekki að við eigum að borga icesave út frá mörgum forsendum.
En ég er líka að hallast að því að það verði ekki icesave heldur hin íslenska 100% ábyrð á allar innstæður + hlutbréfasjóði sem eigi eftir að vega þingst á Ríkissjóði.
Evróputilskipunin sem leidd var í lög 1999, kveður á um lágmarkstryggingu á sparifjárinnistæðum. Þessi lágmarksinnistæðutrygging skal nema 20.887 evrum. Var það ekki bara nægilegt ?
og maður spyr sig var það nauðsynlegt fyrir ríkissjóð með hagsmuni ALLRA landsmanna í huga að ábyrgast 100%. Hef ekki séð nein alvöru rök fyrir því, hversvegna þetta var nauðsinlegt eða hvaða gagn það í raun gerði.
Endilega vísa á þau.
Jón bróðir (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 23:46
Já Marinó, það er alveg rétt að það mun kosta íslenska skattgreiðendur stórar upphæðir að hafa tryggi íslenskum innistæðueigendum sínar innistæður 100%. Enda voru það stór mistök. Það er engin ástæða til að gera álíka mistök aftur.
Hvað varðar afskriftir ýmissa fyrirtækja þá er það mikill munur á að afskrifa fé, sem er hvort eð er tapað og því að afskrifa fé, sem hægt er að ná inn. Annað er aðeins viðurkenning á staðreyndum en hitt er ákvörðun um að leggja út í meiri kostnað en orðinn er.
Það versta við flata niðurfellingu skulda er að það gerir stöðu þeirra verst settu enn verri. Það eru aðeins þeir, sem hefðu getað greitt meira en þeim verður gert að greiða eftir niðurfellingu, sem hagnast á þeirri aðgerð. Þó það kunni að virðast þversögn við fyrstu sýn þá mun flöt niðurfelling því fjölga gjaldþrotum heimila en ekki fækka þeim vegna þeirra skattahækkana, sem hún leiðir óhjákvæmilega af sér því það er verið að færa hluta skulda lántaka yfir á skattgreiðendur með slíkri aðgerð.
Sigurður M Grétarsson, 8.7.2009 kl. 00:28
Sigurður, þú hangir á þessum orðum "flöt niðurfelling skulda" eins og þú sért að hafa eitthvað eftir mér. Einu tilfellin þar sem ég hef notað þessi orð er í tengslum við tillögum Framsóknar.
Segðu mér: Hvað mun það kosta skattgreiðendur, ef 20-30% heimila fer í þrot og missa húsnæðið sitt? Hvað mun það kosta þjóðfélagið, ef 20-30% heimila mega ekkert eiga í 10 ár eða lengur? Veistu að sá sem er í vanskilum eftir árangurslaust fjárnám fær ekki einu sinni debetkort hjá bankanum sínum, þó viðkomandi hafi samið um og standi í skilum með allar afborganir vegna vanskilanna?
Bandormurinn kostar samkvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir fréttastofu Stöðvar 2 kr. 90.000 á mánuði á hverja fjölskyldu í landinu (meðaltal). Auðvitað dreifist það ekki jafnt á alla, en ef haft er í huga að 49% heimila voru með 250 þúsund eða minna í ráðstöfunartekjur í febrúar (samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum) plús óskattskyldar tekjur (s.s. barnabætur og vaxtabætur). Segjum að talan sé 30 þús. fyrir lægsta tekjuhópinn, 60 þús. fyrir þann næsta og svo koll af kolli. Það þýðir að hópurinn með 0-150 þús. verður 0-120 þús., næsti 120-190 þús., svo 190-260 þús, 260-380 þús, 380-500 þús. og loks yfir 500 þús. Hvernig eiga heimilin, eftir að hafa tapað 20 - 25% af ráðstöfunartekjum sínum að hafa efni á afborgun lána nema með því að skera ennþá frekar niður neysluna? Og hvað gerist þá? Jú, veltuskatttekjur ríkisins lækka. Ég nenni ekki að halda áfram, framhaldið er í mínum huga augljóst. Verið er að stefna öllu meira og minna í þrot.
Marinó G. Njálsson, 8.7.2009 kl. 00:58
Ég hvet Sigurð M. Grétarsson til að kynna sér tillögur HH. Þær eru aðgengilegar á www.heimilin.is
Ég hvet hann líka til að lesa ræðuna hennar Sigrúnar Elsu Smáradóttur. Hana er að finna hér:
http://www.heimilin.is/varnarthing/about/vidburdir/328-raeea-sigrunar-elsu-smaradottur-a-austurvelli-23-mai-2009
,,Verðtrygging lána, beinlínis tryggir að byrðar falla með afar ójöfnum hætti á skuldara og fjármagnseigendur. Með verðtryggingu er tjónið af hruni krónunnar lagt á skuldarann, en verðgildi fjármagns heldur fölsku góðærisverðgildi fyrir fjármagnseigandann. Þetta eru ekki sanngjörn skipti og þau eru ekki eðlileg. Það þekkist hvergi, svo mér sé kunnugt, að litið sé á skuldastöðu heimila sem eðlilegan grundvöll þess að skipta tilfallandi byrðum í samfélagi; að hafi fjölskylda efni á að skulda 20 milljónir geti hún allt eins skuldað 24, skuldi hún 10, hljóti hún að getað skuldað 12. Þetta þekkist hvergi vegna þess að þetta er afspyrnu ósanngjörn leið til að skipta byrðum, ef þetta þætti góð aðferð þá mætti alveg eins nota skuldir almennings sem sérstakan skattstofn og skattleggja fólk í réttu hlutfalli við skuldir fjölskyldna. Allir hljóta að sjá, að slíkt er fráleitt."
Þórður Björn Sigurðsson, 8.7.2009 kl. 03:14
Rök gegn ICE-save, Jón bróðir:
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/899700/
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/903812/
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/908389/
http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/909468/
http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/908908/
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/909890/
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/910116/
Elle_, 8.7.2009 kl. 12:31
Þórður og Marinó. Ég er margbúinn að lesa yfir tillögur HH og veit því alveg hvað ég er að tala um. Hér er ég hins vegar að fjalla um afmarkaðan hluta þeirra, sem fellst í flatri niðurfellingu skulda en það að skrúfa aftur vísitölur er ekkert annað en flöt niðurfelling skulda. Marinó spyr mig hvað það kosti þjóðfélagið að 20-30% heimila fari í þrot. Það kostar mikið og staðreyndin er sú að flöt niðurfelling eða afturskrúfun vísitölu fjölgar gjaldþrotum heimila en fækkar þeim ekki.
Þetta stafar af því að verst settu heimilin hagnast ekkert á þessu vegna þess að þau geta eftir, sem áður ekki greitt lán sín að fullu. Þau heimili sitja hins vegar jafnt og önnur uppi með mikla skattahækkun vegna kostnaðar ríkissjóð við niðurfellingu skulda til þerra, sem eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum. Þetta leiðir því til fjármagnsflutninga frá hinum verst settu til hinna betur settu.
Hvað varðar aukna neysluskatta þá er hægt að ná sömu áhrifum með því að lækka greiðslubyrði meðan kreppan varir án þess að lækka höfuðstólinn. Gleymum því ekki að þessi aðgerð leiðir til minni innkomu í bankana og þar með minni getu þeirra til útlána til húsnæðiskaupa eða atvinnuskapandi starfsemi og það, sem verra er minni getu þeirra til að veita þeim greiðslufresti, sem á þurfa að halda. Það er því ekki verið að auka fé í umferð hér á landi með þessu heldur aðeins verið að færa fé úr einum vasa í annan. Þessi aðgerð mun því ekki auka neyslu hér á landi umfram aðrar aðgerðir, sem þó kosta ríkissjóð mun minna. Auknir skattar, sem leiða að kostnaði ríkssjóðs vegna þessara aðgerða munu síðan á móti draga úr neyslu og þar með veltusköttum.
Flöt niðurelling skulda eða afturskrúfun vísitölu mun því ekki gera neitt annað en að dýpka og lengja í kreppunni. Skuldirnar hverfa ekki við þetta þær færast bara yfir á aðra og þar í langflestum tilfellum á skattgreiðendur.
Sigurður M Grétarsson, 8.7.2009 kl. 15:36
Sæll Marinó,
Eitt sem vekur athygli mína er hækkun fasteignamats frá 2004 til 2008 út 1530,7 milljörðum í 2894,1 milljarða. Hér er um nánast tvöföldun fasteignamats að ræða á aðeins 4 árum. Nú þekki ég ekki mikið til fasteignamarkaðarins á Íslandi en mér finnst þetta vera merki um verulegt ofmat á fasteignum og úr samhengi við raunverulegt söluverðmæti eignanna, sérstaklega núna. Ég get ekki ímyndað mér að það sé stórkostlegur gangur í fasteignaviðskipum þessa dagana og markaðurinn hlýtur að vera í lægð.
Því virðist mér að fasteignamat ætti nú að vera lækkandi, sem þýðir að eiginfjárhlutfall er sennilega komið nálægt núlli eða jafnvel orðið neikvætt, því skuldirnar hafa haldið áfram að aukast og hrunið hefur hert á þeirri þróun eins og þú hefur marg bent á. Og jafnvel þó fasteignamatið sem slíkt geti verið svona hátt, þá get ég ekki séð hvernig markaðurinn gæti borið það, sem þýðir að fólk verður neytt til að selja fasteignir undir matsverði. Þessar tölur fyrir daginn í dag hljóta því að vera mun ískyggilegri en þær sem þú hefur í töflu 2.
Er ekki bara komin tími til að stokka allt upp og gefa upp á nýtt? Afskrifa eignir og skuldir að ákveðnu marki, hver og einn fær að halda sínu húsnæði, restin gengur upp í höfuðstól fyrir Ísland 2.0 og Ísland 1.0 verður parkerað? Bretar or Hollendingar geta fengið uppfærsluna gegn niðurfellingu Icesave skulda<g>
Kveðja,
Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 06:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.