Leita í fréttum mbl.is

Það er til betri leið

Ég tel mikla annmarka vera á leið Sjálfstæðismanna sem gerir hana ófæra.  Það er hvernig á að halda utan um af hvaða iðgjöldum á að greiða skatt og af hvaða iðgjöldum er ekki búið að greiða skatt.

Ég hef hér á blogginu mínu ýjað að annarri leið og raunar rætt hana við fólk í kringum mig.  Þessi leið felst í því að lækka í 3-4 ár mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð og hækka tryggingagjald sem því nemur.  Hef ég nefnt að mótframlagið lækki til fyrra horfs, sem var 6% í stað 8% núna (samsvarandi lækkun yrði að verða hjá ríkinu).  Á almenna vinnumarkaðnum þýðir þetta að 1/6 af iðgjöldum 3-4 ára rynni til ríkisins í formi tryggingagjalds í staðinn fyrir að fara í ávöxtun hjá lífeyrissjóðunum.

Mun þetta hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga?  Ég efast stórlega um það.  Flestir sjóðfélagar greiða í lífeyrissjóði í 30 ár eða meira.  Gefum okkur að iðgjöld þeirra og mótframlag atvinnurekenda nemi 12% af upphæð launa á hverju ári, þá greitt fyrir hvern og einn 360% af árslaunum.  Við þá aðgerð, sem ég legg til, lækkar þessi upphæð í 352% sem er vissulega ríflega 2% lækkun en ég er sannfærður um að hún skiptir ekki máli.

Mun þetta hafa áhrif á lífeyrissjóðina?  Að sjálfsögðu hefur það áhrif.  Þeir missa 16,6% af iðgjöldum sínum (LSR tapar minna), en ef leið Sjálfstæðisflokksins er farin, þá tapast allt að 35%.  Áhrifin eru því minni á lífeyrissjóðina.  Ég er ekki með á hreinu upphæðina, en miðað við að Lífeyrissjóður verzlunarmanna tók inn eitthvað í kringum 15 milljarða í iðgjöld á síðasta ári (16,6% gerir þá um 2,5 milljarða).  LiVe var síðan með um 16% af öllum eignum lífeyrissjóða um síðustu áramót og ef við gefum okkur að sjóðurinn sé líka með 16% af öllum iðgjöldum, þá verða tekjurnar af þessu rúmlega 15 milljarðar á ári eða 60 milljarðar á 4 árum.  Með því að hækka skerðingu í 3%, þá yrðu tekjurnar 22,5 milljarðar á ári eða 90 milljarðar á 4 árum.

Hér er virðist örugglega einhverjum að deilan snúist um keisarans skegg, þ.e. mín útfærsla og útfærsla sjálfstæðismanna, en svo er ekki. Munurinn á aðferðunum er umtalsverður.  Vissulega leysir aðferð sjálfstæðismanna líka vanda sveitarfélaganna (ef við gefum okkur að þau fái útsvarshlutann til sín), en á móti kemur flókinn útreikningur á því hvernig gera á upp framtíðarskatt á iðgjöld.  Mikil hætta er á því að ómögulegt verði að reikna úr skatt af lífeyristekjum í framtíðinni og því verði einfaldasta leiðin valin, sem er tvísköttun.  Mín aðferð kemur alveg í veg fyrir tvísköttunina.  Aðferð sjálfstæðismanna kalla líka á að þessi aðferð við skattheimtu verði tekin upp um aldur og ævi, þ.e. að ekki verði breytt til fyrra horfs.  Mín aðferð felur svo sem þann möguleika í sér líka, þ.e. að tryggingagjald verði ekki lækkað aftur til fyrra horfs.  Málið er að hér væri að hluta til um kjarasamninga tengda aðgerð, þ.e. að hækka mótframlag launagreiðenda aftur í 8%, meðan aðferð sjálfstæðismanna er skattkerfisaðgerð.

Allt hefur sína kosti og sína galla.  Ég held að þessi hugmynd mín um að flytja hluta af lífeyrismótframlagi launagreiðenda yfir í tryggingagjald, sé einföld og ódýr aðferð sem auðvelt er að hrinda í framkvæmd.  Hún hefur lítil framtíðaráhrif og skilur ekki eftir möguleikann á tvísköttun.  Ég legg til að hún verði skoðuð betur áður en henni verður ýtt út af borðinu.  Stærsti kosturinn við hana (líkt og tillögu sjálfstæðismanna) er að launafólk verður ekkert vör við hana í útborguðum launum sínum og hún hefur ekki áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með fjárskuldbindingar landsmanna.

Ég geri mér grein fyrir að þetta falli ekki í góðan jarðveg hjá öllum, en ég held að þetta sé sársaukalítil aðgerð sem auðvelt er að hrinda í framkvæmd.


mbl.is Greið leið gegnum vandann en dýrkeypt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Mjög athyglisvert.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 13.6.2009 kl. 12:58

2 identicon

Tillaga þín, Marinó, þýðir á mannamáli að þú vilt þjóðnýta hluta af lífeyrissparnaðinum. Í reynd má fullyrða með ákveðnum rökum að leið sjálfstæðismanna sé einnig ákveðin þjóðnýting á sparnaðinum.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 13:05

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Varnarveggir um Lífeyriskerfið eru þarfir. Það er hins vegar á það að líta að fullt af krónum við starfslok gagnast lítið ef landið er sokkið. Uppsafnaður lífeyrir gagnast best í landi sem er risið úr öskunni að nýju. Að trúa því að lífeyriskerfið standi af sér algert efnahagshrun (sem vel að merkja er enn ekki orðið) er ekki vel ígrundað.
Hugmyndir þínar Marinó ,ásamt hugmyndum xD bjóða upp á möguleika sem ekki hafa verið reifaðir nægjanlega. Það að til staðar sé svigrúm sem þetta býður upp á leiðir.

Haraldur Baldursson, 13.6.2009 kl. 14:45

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, tillaga mín er tilraun til eins sársaukalausra aðgerða og hægt er til að loka gatinu.  Það þarf að sækja þessa peninga á einhvern hátt.  Með þessu leggst þetta jafnt á alla launþega í landinu án þess að hækka álögur á illa sett atvinnulíf.  Við skulum hafa í huga að þetta eru peningar sem í flestum tilfellum koma ekki til útborgunar fyrr en eftir áratugi.

Þessu til viðbótar er hægt að setja hátekjuskatt og hækka fjármagnstekjuskatt, en við verðum að líta til þess að sá skattur er ekki staðgreiðsluskattur, heldur greiðist eftir á og þá fyrst 1. ágúst 2010!

Marinó G. Njálsson, 13.6.2009 kl. 20:02

5 identicon

Marinó, ekki misskilja mig enda hef ég í töluverðan tíma velt fyrir mér hvernig unnt væri í fyrsta lagi unnt að rétta af lánstöðu heimilana í landinu en ekki síður koma atvinnulífinu í gang.

Það er ekki skynsamlegt að hækka skatta núna. Það er hægt að gera þegar við sjáum að við erum að komast á beinu brautina. Það er betra að þeir sem eru aflögufærir haldi kerfinu gangandi á meðan. Ríkið fær hvort eð er þessa peninga með einum eða öðrum hætti.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 21:03

6 identicon

Mér finnst þessar hugmyndir góðar.  Hins vegar þá sé ég það ekki sem neinn sérstakan galla á tillögu D að halda þurfi utan um það að sumar lífeyrisgreiðslur hafa verið skattlagðar og aðrar ekki.  Ég minni á að þannig er lífeyrissjóðskerfi dana uppbyggt, þ.e. hluti af lífeyrirsgreiðslum er skattlagður strax og hluti ekki. Fólk getur þannig valið að hvort það lætur skattleggja lífeyrirsgreiðslur strax eða ekki.  Danir líta á það sem sjálfsögð réttindi að hafa val í þessum efnum.

Ef lífeyrissjóðirnir okkar eiga erfitt með að sætta sig við þessa lausn þá þýðir það væntanlega það að þeir telja sig þurfa á þessum peningum að halda til þess að rétta kerfið af eftir hrunið.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 12:09

7 identicon

Einn af göllunum við leið xD er að skatthlutinn er ekki í varðveislu sjóðanna á inngreiðslutíma sjóðfélaganna og fær því aldrei ávöxtun í sjóðunum. Það má segja einnig, að við eigum svo sem ekki neitt víst í því efni, að lífeyrir verði ekki tvískattaður, fyrir því höfum við dæmin. Lengi framan af voru launatekjur skattlagðar áður en lífeyrisiðgjald var dregið frá og því verða þau iðgjöld tvísköttuð í raun. Á móti kemur að lengst af þeim tíma voru tekjuskattar eftir á reiknaðir. Lífeyrissjóðir hafa flestallir farið illa út úr hruninu til skamms tíma litið allavega að hluta til og að sumu leyti til langframa einnig. Þeir eru nú unnvörpum að skerða lífeyri og eiga flestir eftir að skerða hann enn meira en þegar er orðið. Ástæðan fyrst og fremst sú, að fæstir þeirra eru búnir að afskrifa þær af fjárfestingum sínum, sem óljóst er um hvaða afdrif fá. Það má því reikna með að þeir verði að skerða lífeyri um 10 - 18% a.m.k. samtals á árunum 2010 til og með 2012. Eignastaða þeirra, eins og hún er kynnt nú, er því að hluta til blekking, sem  að nokkru leyti stafar af því að margir hlutir eru enn óljósir og ófyrirséð hvernig þeim reiðir af og því ekki hægt og líklega ólöglegt að afskrifa margt af því sem trúlega eru glatað. Margir líta samt til eigna lífeyrissjóðanna með það í huga að nota þá til að greiða hluta "stríðskostnaðar" þjóðarinnar vegna hrunsins. Menn verða að fara mjög varlega í þau mál öll, því miklar skerðingar sjóðanna leiða til þess að framfærslu aldraðra og öryrkja verður í vaxandi mæli að fjármagna í gegn um skattkerfið um langa framtíð. Slíkt gegnumstreymiskerfi sjá menn nú fyrir sér að muni setja lönd eins og t.d. Þýskaland á hliðina fjárhagslega í framtíðinni. Fyrir nú utan að slíkt kerfi getur seint talist réttlátt, er brýnt að koma þessum málum þannig fyrir að hver kynslóð fjármagni sína framfærslu sjálf með sjóðsmyndun. Það er meginhugmyndin bak við lífeyrissjóðskerfi okkar.  

Postulinn (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 15:38

8 Smámynd: Birnuson

Kærar þakkir, Marínó, þetta er snilldarhugmynd.

Birnuson, 15.6.2009 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband