Leita í fréttum mbl.is

Stefán Ólafsson fer með fleipur

Ég get ekki á mér setið og verð að svara orðum Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði, sem koma fram í helgarblaði DV.  Í frétt DV, sem birt er á Pressunni segir:

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, segir niðurfærslu skulda dæmigerða frjálshyggjukenningu ættaða frá Bandaríkjunum.

Mig langar að svar þessu þannig til, að ég kom fyrstur fram með þessa tillögu í færslu hérna 28. september 2008.  Þar segi ég:

[Ríkið] getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.

Þetta var áður en Glitnir féll og hugmyndin byggir ekki á neinni kenningu frá einum eða neinum.  Mér fannst þetta þá og finnst þetta nú vera skynsamlegt. Ég hef aldrei kynnt mér "frjálshyggjukenningar ættaðar frá Bandaríkjunum" og á ekki von á því að ég sæki kenningar þangað.  Það vil bara svo til að þessar kenningar fara saman við mína skoðun.  Auk þess hefði ég haldið að þetta ætti skylt við eitthvað allt annað en frjálshyggju og hef alltaf haldið að þetta væri félagshyggja.  Sýnir það hvað ég veit lítið um þessar "hyggjur".

(Það skal tekið fram að í þessari sömu færslu setti ég fram hugmynd um "breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo".)

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hafði samband við mig og óskaði eftir leyfi að fá að nota þessa hugmynd í tillögum sem hann ætlaði að senda félagsmálaráðherra nokkrum dögum síðar.  Gaf ég honum góðfúslegt leyfi til þess. Auk þess bað hann mig um að vera tilbúinn, því hann átti von á því að félagsmálaráðherra myndi óska eftir fundi.  Þetta var 1. október. Tillögur Gísla fóru inn í ráðuneyti 7. október og voru þær sem hér segir:

  • Gengi erlendra lána verði fest varanlega í tiltekinni gengisvísitölu sem samrýmist meðallangtímagengi sem neytendur hefðu mátt vænta við lántöku.
  • Þau lán sem um ræðir verði tekin inn í Íbúðalánasjóð sem samkvæmt heimild muni lækka þau til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið, sbr. ummæli viðskiptaráðherra á www.dv.is þann morgun.
  • Gengistryggð lán verði yfirtekin á tilteknu gengi til bráðabirgða en hinn hluti lánsins frystur þar til betur árar.
  • Greiðslubyrði lána verði fastsett tímabundið í tiltekinni krónutölu miðað við ákveðna gengisvísitölu.

Það er lítill vandi og líklega skynsamlegt að annað hvort tengja gengisvísitöluna á einhvern hátt við vísitöluneysluverðs eða klippa af vísitöluuppfærslu verðtryggðra lána.

Þar sem mér fannst Gísli ekki útfæra tillögu mína nægilega vel, þá setti ég mína útfærslu fram í bloggi  9. október.  Þar segir:

Í fullri lengd (en þó ekki að fullu útfærð) þá gengur tillaga mín út á eftirfarandi:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.
Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.

Í færslu 4. nóvember skýri ég mína hugmynd svo nánar:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.

Ég held ennþá að þetta sé ein af fáu raunhæfu leiðum út úr þeirri klemmu sem við erum í.  Auðvitað þarf að skoða útfærsluna nánar og brjóta hana frekar upp.  Forsendur breytast algjörlega, ef dómstólar komast að því að gengisbundin lán eru ólögleg eða að forsendubrestur hafi orðið varðandi verðtryggðu lánin.  Spurningin sem lánveitendur hljóta að vilja spyrja sig er:  Hvort er betra að bíða eftir dómsniðurstöðu og tapa málinu hugsanlega eða að setjast niður með lántakendum og finna lausn á þessu? 

Í þeirri fræðigrein, sem ég lagði stund á, þ.e. aðgerðarannsóknir, þá er tekið á þessu í undirgrein sem heitir leikjafræði (Game Theory).  Klassískt dæmi í henni heitir Valklemma fangans (Prisoner's Dilemma).  Hún gengur út á að tveir fangar eru í yfirheyrslu.  Báðir frömdu glæp en lögreglu gengur illa að fá fram játningu.  Hún heldur þeim aðskildum og býður hvorum um sig sama samninginn:  Greina frá staðreyndum og sleppa með vægari dóm eða taka sjensinn á að hinn kjafti frá og fá þá þyngri dóm.  Það eru tveir möguleikar í viðbót.  Annar er að báðir kjafti og fá þeir sama þunga dóminn eða að hvorugur kjafti, þá geta þeir hugsanlega sloppið.  Hvað á hvor fangi um sig að gera?

Ef við stillum stöðu bankanna upp í slíkt líkan, þá eru bankarnir öðru megin en dómstólar hinum megin.  Dómstólamegin eru tveir kostir dæmt er með eða á móti bönkunum.  Bankamegin eru tveir kostir, að semja eða ekki.  Versta niðurstaðan fyrir bankana er að þeir semji ekki og dómstólar dæmi þeim í óhag.  Besta niðurstaðan er að semja ekki og dómstólar dæmi þeim í hag.  Hinir kostirnir liggja á milli.  Þó er ljóst að verði samið, þá þarf ekki dóm, en það er samt hægt að gera tölulegan samanburð.  Í leikjafræði byggir lausnin á að finna það sem er kallað besta versta lausn.  Þá er kostnaðurinn við allar leiðir reiknaður út og tekin sú sem gefur bestu útkomu, ef mótaðilinn velur verstu útkomu.  Í þessu tilfelli er verra valið sem dómstólar geta tekið, er að dæma bönkunum í óhag.  Betri kosturinn fyrir bankana í því tilfelli er líklegast að semja. Leikjafræðin segir því að bankarnir tapi minna á því að semja strax!  Síðan má einnig setja þetta upp í ákvörðunartré og meta líkur á að hvert atvik eigi sér stað.  Ég stilli því kannski upp síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marinó !

Það er að koma aftur og aftur í ljós hvað hrokin er mikil i opinbera kerfinu !

Hrokin er ekki bara þar, hvað hefur þú heyrt frá hagfræðingum ASÍ varðandi einhverjar tillögur ?

Forseti ASÍ kemur og bla. bla. bla . bla  !

Ekkert af viti !

JR (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 01:22

2 identicon

Mér finnst þetta alveg út úr karakter hjá Stefáni. Kannski of mikið flokkslojalitet.

Tel ekki enn hafi komið fram rök gegn hugmyndum þínum.

Mín skoðun er reyndar sú að hefði vextir verið settir niður í 0 í október og verðtrygging gerð ólögleg, værum við í minni vandamálum í dag og engum vandamálum eftir sex mánuði.

Doddi D (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 01:26

3 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Ok, var að skoða þetta:

5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.

6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Þessi sjóður er þá fjármagnaður af lántakendum? Ég tók ekki lán á þessum tíma (losaði mig við allt sem heitir lán s.s yfirdráttur og raðgreiðslur en sit enn með námslán sem flýgur upp) vegna þess að ég sá strax í mars 2006 hvert stefndi. Ég hef engan áhuga að leggja í sjóð svo aðrir geti tekið yfirdrifin lán sem þeir munu ekki ráða við.

Staðan hjá mér er sterk og eigið fé í plús. Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur, en það eru margir í þjóðfélaginu sem tóku ekki lán á þessum tíma og þvertaka fyrir að aðilar sem tóku lán umfram getu fái þau niðurfelld að einhverju leyti.

"Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót."

Ok, og hvað ef krónan styrkist þannig að gengi síðustu áramót verður lántakanda í óhag? Á þá að finna nýtt viðmiðunargengi? Ég gerði 3 miljarða framvirka samninga við bæði Alusaf og Alcan 1998-1999 (opnaði raunar fyrir beint trade in ZAR/ISK sem hafði aldrei verið hægt áður) og að festa gengi er tvíeggjað sverð.

Grundvallaratriði er þetta:

Gjaldeyrisbrask er aðeins á færi sérfræðinga á því sviði; aðrir eiga að láta það eiga sig.  Bankarnir hvöttu viðskiptavini að taka erlend lán (eða löttu þá ekki) sem er vítavert. Er ekki viss hvernig málum er háttað hér, en í USA eru sallir samningar sem gerðir eru við aðila sem ekki hafa nægilega þekkingu á innihaldi hans, kvöðum og áhættu ógildir. Ég er á þeirri skoðun að flest gjaldeyristengd lán haldi ekki fyrir rétti.

"Leikjafræðin segir því að bankarnir tapi minna á því að semja strax!"

Raunveruleikinn segir að þá fari þeir á hvolf og hagkerfið með þeim. Ég er sannfærður um það að þeir geta ekki samið, enda eru allar líkur á því að þeir muni tapa þar sem þeir ráðlögðu ekki viðskiptavinum þeim í hag pg brutu þannig þá skilgreiningu sem þeir starfa undir: fjármálaþjónusta.

Það sem vantar á Íslandi er 'class action suit'.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 9.5.2009 kl. 06:21

4 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Missti af þessu með að sjóðurinn sé fjármagnaður af 'af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir'.

Kemur í sama stað út; þeir sem þurfa þennan sjóð greiða í hann; semsagt álag ofan á lántöku sem þyngir greiðslubyrði. Þetta fellur ekki undir almannahag heldur einstaklingshyggju og fellur undir svipaða skilgreingu og bifreiðaskattur: sá sem á bíl borgar aukalega.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 9.5.2009 kl. 06:24

5 identicon

Skoðun Stefáns var fyrirsjáanleg.

Hann skoðun er í gegnum pólítisk gleraugu, ekki fagleg.

Styðja skal skoðun Samfylkingarinnar, hún er hið eina rétta.

Ekki ónýtt að geta tengt þessa skoðun frjálshyggjunni.

Stefán er ekki enn búinn að ná sér eftir viðtalið við Milton Friedmann hér um árið.

Andrés Ingi (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 10:04

6 identicon

Ég tók erlent lán árið 2004 og íslensk lán eru farin að narta í hælana á því láni þrátt fyrir gengisfall uppá 100%. Ég á eftir að njóta lægri vaxta í 35 ár til viðbótar og vil því ekki að hreyft verði við mínu láni, auk þess sem ég geri ráð fyrir að gengið styrkist nokkuð á næstu árum. Ég er ánægður með þetta lán. 

Dæmi um lán frá Íbúðarlánasjóði (Íls)mv. 5,4% vexti

Íls lán uppá 10.000.000 til 40 ára og 2,5% verðbólgu = 41 milljónir

Íls lán uppá 10.000.000 til 40 ára og 3,5% verðbólgu = 52 milljónir

og hvenær hefur verðbólga verið 2,5%? = aldrei

í öllu falli vil ég ekki sjá íslensk lán á mínu heimili þakka ykkur fyrir.

Ingvaldur (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 11:14

7 identicon

En kannski styrkist gengið ekki. 
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/07/dollarinn_ekki_undir_100_kronum/


Og þeir sem tóku gengislán um mitt ár 07 koma mikið verr út en lýst er næst að ofan: Ingvaldur.  Fólk ætti þó að hafa val um hvort það gerir þetta eða ekki.

EE elle

. (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 12:27

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Snorri og Ingvaldur, þetta voru tillögur settar fram í október 2008 og margt hefur komið í ljós síðar.  Ég held samt að þetta séu ennþá þær tillögur sem flestir gætu sætt sig við sem málamiðlun. 

Í dag mundi ég setja fram kröfu um að fólk gæti valið um að breyta gengisbundnum lánum í krónulán frá útgáfudegi og að verðbótaþáttur lána yrði leiðréttur afturvirkt vegna forsendubersts.

Ingvaldur, ég er alveg sammála þér að samanburður á gengisþróun og verðþróun frá 2003 eða 2004 leiðir í ljós að vart má á milli sjá hvort er betra.  Og ég er á því að til langstíma, þá verða gengisbundnu lánin hugsanlega betri.  En hvað ef þú færð að breyta þessu yfir í krónur frá útgáfudegi og halda LIBOR vöxtunum.  Það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar þá!

Marinó G. Njálsson, 9.5.2009 kl. 12:37

9 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Alveg á því að eigi að umbreyta erlendum lánum yfir í íslensk. Hverskonar röksemdafærsla var það hjá bönkunum að veita fólki lán sem miðar við sveiflur í japanska hagkerfinu? Það fyndnasta er að ég varaði kunningjafólk við þessi strax í upphafi en það tók þrátt fyrir það lán í JPY í ársbyrjun 2008. Bankinn hreinlega sannfærði þau um að þetta væri betri kostur þar sem vextir væru lægri sem mér finnst hreint ótrúlegir viðskiptahættir. Fólk tók erlend lán til þess að sniðganga vaxtaokrið; flýði semsagt öskuna og lenti í eldinum.

Samt sem áður, gengismál geta snúist hratt. Vandamálið er að þar sem eignir eða tekjur eru ekki í sömu mynt og lán er ekki hægt að stjórna fjárhag heimilanna. Þessvegna er öllum í hag að þessi lán flytjist sem fyrst yfir í ISK.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 9.5.2009 kl. 13:41

10 identicon

Minn punktur var í raun sá að aðgerðir yfir línuna eru ekki nógu góðar, svo sem 20% af öllu. Ég vil fremur sjá að bankarnir allir (ríkis og hinir) bjóði uppá valmöguleika eins og þá sem þú bendir á í grein þinni.

Ef það væri í boði að breyta láninu í krónulán á Libor vöxtum myndi ég taka því, enda er þetta í raun krónulán þar sem bankinn fjármagnaði sig ekki sérstaklega fyrir þessum erlendum lánum nema til skamms tíma og nú er sennilega búið að afskrifa þessi lán. Semsagt þetta var í raun íslenskt lán með gengistryggingu í erlendri mynt.

Meginverkefni er að gera þetta strax því vituð staða er besta staðan, hver svo sem hún er

Ingvaldur (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 15:12

11 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég hef ekki rekið mig á að Stefán Ólafsson fari með "fleipur". Hann getur hins vegar verið ósammála einhverju að og það er bara llat annar hlutur. Stefán er vel þekktur fræðimaður sem getið hefur sér gott orð, en hann er líka örugglega með sínar skoðanir og það eru fleiri.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.5.2009 kl. 18:13

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jú, Hólmfríður, hann fer með fleipur þar sem hann gefur sér að hugmyndin sé uppruninn einhvers staðar frá sem hún er ekki.  Þetta snýst ekki um að vera sammála eða ósammála hugmyndinni heldur er hann að fjalla um uppruna hennar.

Marinó G. Njálsson, 9.5.2009 kl. 19:02

13 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Já Marínó!

Því miður hefur þú rétt fyrir þér að Stefán (af öllum fræðimönnum) fer villir vegar og "klisjar" - til að þóknast Jóhönnilínunni.

Ræði það síðar við þig og á opnum vettvangi hvað er í gangi . . . . .  er ekki tímabært fyrr en eftir morgundaginn.

Benedikt Sigurðarson, 9.5.2009 kl. 19:19

14 identicon

Þessir orð Stefáns koma mér mikið á óvart.  Ég held ég verði bara taka undir þau orð að hér sé Stefán á "pólitískum" villigötum.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 22:59

15 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, er Stefán ekki að gagnrýna hugmyndirnar eins og þær voru settar fram af Framsóknarflokknum og Tryggva Þór Herbertssyni í kosningabaráttunni? Það voru klassískar brauðmolakenningar úr vestri sem voru að hluta til sambærilegar því sem þú settir fram í haust. Þannig skildi ég amk. orð Stefáns.

Snorri, hvernig sem allt snýr, þá munu fjármagnseigendur og þeir sem skulda ekki neitt bera auknar byrðar vegna hrunsins. Enginn verður "stikkfrí" hversu mikla hagsýni sem þeir sýndu á bóluárunum.

Ég persónulega tók engin lán nema fyrir námi mínu, horfi enn á mitt túbusjónvarp með heimabíóstækjum sem ég keypti á sama tíma, leigði bíl á rekstrarleigu í 14 mánuði og skilaði honum að þeim tíma loknum (tek strætó núna), keypti íbúðina mína í lok árs 2000. Tók sem sagt með engum hætti þátt í "vitleysunni". Ég á meira en ég skulda (ef LÍN er ekki talið með :)), þó ég skuldi helling (enn meira ef LÍN er talið með).

Þrátt fyrir allt þetta veit ég fyrir fullkomlega víst að vegna þess að ég hef ágætar tekjur í dag, stend í góðum skilum og vinn að því hörðum höndum að lækka mínar skuldir, þess vegna mun ég þurfa að bera stærri byrðar en margir aðrir sem skulda meira en þeir eiga, hafa mun lægri greiðslugetu, eru atvinnulausir, eru í námi, eða af einhverri annarri ástæðu eru ekki í eins góðum málum og ég.

Ég er jafn hundfúl yfir því hversu mikið lánin mín hafa hækkað og hversu blóðugt háa vexti ég þarf að greiða af þeim skammtímalánum sem ég er með. Ég er hins vegar jafnaðarmaður og ég trúi því að það sé í mínum verkahring núna að standa straum af því sem ég get, til þess að aðrir sem eru í verri stöðu, geti fætt börnin sín og klætt. Á meðan ég var í námi var ég á hinum enda þessarar línu, ég þáði en greiddi lítið til samfélagsins. Ég var mjög þakklát fyrir það stuðningskerfi sem í samfélaginu var þegar ég þurfti á því að halda og ég mun alltaf leggja mitt af mörkum til þess að aðrir geti leitað stuðnings hjá samfélaginu þurfi þeir á því að halda.

Við sem getum, verðum að leggja okkar af mörkum til þess að aðrir komist í gegnum þetta.

Elfur Logadóttir, 9.5.2009 kl. 23:57

16 identicon

Elfur,

þar sem þú segist vera svo mikill "jafnaðarmaður" þá ættir þú að geta sætt þig við að þær þúsundir af fjölskyldum sem eru greinilega í verri stöðu en þú fái leiðréttingu á höfuðstóli þeirra húsnæðislána sem þær tóku á allra síðustu árum í góðri trú um að ráðgjöf banka stæðist, sem reyndar varð ekki í raun og fjölskyldur sitja í súpunni.  Ef það er aðeins "pólitísk" blinda þín sem ræður þínum skrifum þá gef ég lítið fyrir þau.    Skrítið að þetta "óréttlæti", varðandi skuldir heimila, skuli að mestu vera ættað frá Samfylkingunni.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 08:11

17 identicon

"Skrítið að þetta "óréttlæti", varðandi skuldir heimila, skuli að mestu vera ættað frá Samfylkingunni".

Já, skrítið.


Almennur borgari (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 12:52

18 Smámynd: Elfur Logadóttir

Páll, þú misskilur jafnaðarmennsku ef þú heldur að hún gangi út á flatar leiðréttingar þvert á fjárhagslega stöðu.

Jafnaðarmennska gengur út á að jafna stöðu manna með því að veita þeim meiri stuðning sem þurfa meira á því að halda.

Þess vegna er forgangsraðað í verkefnavinnu ríkisstjórnar sem hefur jafnaðarmennsku að leiðarljósi og þeim fyrst hjálpað sem þurfa mest á því að halda.

Síðan stöndum við nú frammi fyrir því að fjárhagur ríkisins er afar slæmur og þess vegna er ekki víst að það séu til fjármunir til stuðnings fleirum en þeim sem mest þurfa á aðstoðinni að halda.

Í öllu falli, á meðan stormurinn stendur yfir eigum við að einbeita okkur að því að halda sjó, halda skuldum í skilum með þeim aðferðum sem okkur bjóðast og verja fjölskylduna eins og við getum.

Vonandi, þegar storminn lægir skapast svigrúm til þess að tækla leiðréttingar, niðurfellingar eða annars konar breytingar sem hægt er að gera, til þess að lagfæra stöðu þeirra sem á þurfa að halda.

Elfur Logadóttir, 10.5.2009 kl. 17:25

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, það verður ekkert eftir til að bjarga, ef bíða á með aðgerðir fyrir heimilin þar til síðar.  Það verða heldur engin fyrirtæki.  Þetta er ákaflega einfalt mál og ég get sagt þér í trúnaði, ef þú ferð ekki með það lengra, að þeir fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem við hittum eru alveg sammála greiningu Hagsmunasamtaka heimilanna.  Hún er þessi:

Við höfum tvær leiðir:

A.  Sú leið sem við erum á.  Þ.e. leið samdráttar, minnkandi einkaneyslu, atvinnuleysis, minnkandi tekna ríkissjóðs og fjöldagjaldþrota.  Ástæðan fyrir þessu er að sífellt stærri hluti tekna heimilanna og atvinnulífsins fara í fjármagnskostnað og afborganir lána sem eru komin út úr öllu samhengi við þær forsendur sem menn skrifuðu upp á þegar lánin voru tekin.  Þessi leið endar með þjóðargjaldþroti á haustmánuðum, ef ekki fyrr.

B.  Leið aukinnar neyslu heimilanna, veltu aukningu hjá atvinnulífinu, meiri atvinnu, hærri skatttekna.  Við getum valið að fara þessa leið, en þá verður að leggja til hliðar alla þá hækkun sem hefur orðið á höfuðstóli lán heimila og framleiðslu- og þjónustufyrirtækja sem orðið hefur frá áramótum 2008.  Það verður líka að lækka vextir um 1/2 - 2/3.  Stýrivextir verða að fara niður fyrir 5%.  Við höfum u.þ.b. 1 mánuð til að gera það, því eftir það er ég hræddur um að ekki verði aftur snúið (point of no return eins og það heitir).

Marinó G. Njálsson, 10.5.2009 kl. 17:43

20 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, það er ekki verið að bíða með aðgerðir fyrir heimilin, það er ekki rétt. Niðurfelling á höfuðstól er ekki bráðnauðsynleg í dag, ef greiðslubyrði er viðráðanleg.

Ef greiðslubyrðin er ekki viðráðanleg þá eru til aðferðir til að tryggja það.

Elfur Logadóttir, 10.5.2009 kl. 23:09

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, nú verð ég að vera gjörsamlega ósammála þér.  Ég er eiginlega svo hissa á orðum þínum að mig skortir orð.  Er það virkilega svo, að greiðslubyrðin ein skiptir máli?  Það er rugl.  Það er ekki síður eignarmyndun fólks í fasteignum sínum og hve lengi fólk er að greiða sem skiptir máli.  Það er að verja eigið fé fólks, en setja það ekki í skuldaklafa um aldur og ævi.  Að koma greiðslubyrðinni niður er skammtímalausn.  Að leiðrétta höfuðstólinn er langtímalausn og réttindamál.  Eða eins og félagi minn í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna orðaði það í kvöld: 

Við þurfum að koma stjórnvöldum og bönkunum  í skilning um það, að heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fjármálafyrirtækja og slæmrar efnahgasstjórnunar.

Þeir sem vilja ekki leiðréttingu sinna mála þurfa ekki að þiggja eðlilega, sjálfsagða og réttláta leiðréttingu.  Við hin krefjumst hennar og munum einnig þiggja það sem þið viljið ekki.  Við ætlum ekki að láta þá sem láta flokkspólitíska rétthugsun blinda sér sýn stöðva okkur í leit okkar að réttlæti.

Þó svo að greiðslubyrðin hafi með fálmkenndum úrræðum ríkisstjórnarinnar verið lækkuð til skammstíma, þá munu langtímaáhrifin verða mikil.  Ef einstaklingur/heimili þarf að borga milljón á ári (á núvirði) tíu árum lengur en ella, þá skerðir það neyslu getu viðkomandi þessi tíu ár.  Það heldur aftur af hagvexti, fjárfestingum og atvinnusköpun og dregur úr tekjum ríkisins, velferðinni í þjóðfélaginu og lífsgæðum fólks.  Hvernig væri að hugsa eitthvað lengra en bara að næstu afborgun lána?

Nú ert þú lögfræðingur.  Getur þú út frá þinni lögfræði þekkingu lagt mat á hvort hafi orðið forsendubrestur varðandi verðtryggð lán með tilvísun í 36. gr. laga nr. 7/1936?  Getur þú á sama hátt lagt mat þitt á greinar 13. og 14. í lögum nr. 38/2001 og athugasemd við þær greinar í frumvarpinu að lögunum og sagt mér hvað þar er sagt um bindingu íslenskra skuldbindinga við dagsgengi erlendra gjaldmiðla? Getur þú líka skoðað gr. 9 í lögum nr. 46/2005?  Og fyrst þú ert á annað borð að skoða lög, þá fékk ég þennan lista einu sinni sendan:

Lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins:

 II. kafli. 5. + 6. gr.

 III. kafli. 9. gr. 

Lög um fjármálafyrirtæki:

 III. kafli. 19. gr.

Lög um neytendakaup:

 IV. kafli. 15. gr. liður b + 16. gr. liðir a og b.

Lög um neytendalán:

 11. kafli.  5., 6. og 15. gr.

 III. kafli. 16. gr.

Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga:

 III. kafli. 30. og 31. gr.

 IV. kafli. 38. gr.

Síðan má nefna alþjóðlegar siðareglur bankamanna, sem (að því mér skilst) telja það ósiðlegt að bjóða húsnæðislán í öðrum gjaldmiðli en tekjur viðkomandi eru í.

Eflur, þetta mál hefur aldrei verið pólitískt.  Þetta snýst ekki, eins og margir virðast halda (þú ert ekki í þeim hópi að ég best veit), að koma  Sjálftökuflokknum aftur til valda.  Þetta snýst um að bæta lífskjör almennings til langframa.  Þetta snýst um að verja eignahlut fólks í heimilum sínum.  Þetta snýst um að þýfinu verði skilað.

Marinó G. Njálsson, 11.5.2009 kl. 00:13

22 identicon

Það þarf að færa niður vísitölu lánanna, bæði gengis- og vísitölutryggðu. Það er eina heiðarlega leiðin.  Við sættum okkur ekki við að borga fyrir gömlu glæpabankana og glæpamennina.  Og við munum ekki sætta okkur við það.  Það verður bara bylting fólksins.  Punktur.

EE elle

. (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 00:21

23 identicon

Marinó, svarið þitt var ekki komið þegar mitt fór í loftið.  Vissi ekki að þú værir að skrifað um þýfi á meðan ég var að skrifa um glæpabanka og glæpamenn.  Finnst það þó lýsa kúguninni nokkuð vel.  Og hvað er svona flókið?

tee hee

EE elle

. (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 00:44

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

EE elle, þú sást að ég notaði efnið sem þú sendir mér á sínum tíma.

Marinó G. Njálsson, 11.5.2009 kl. 00:57

25 identicon

Já, ég sá það eftir að svarið mitt (00:21) fór í loftið.

EE elle

. (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 01:02

26 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, ég sagði alls ekki að greiðslubyrðin ein skipti máli. En hún skiptir höfuðmáli. Eignastaðan skiptir litlu þegar þú ræður ekki við greiðslubyrðina.

Það er þess vegna frumskilyrði að stilla af greiðslubyrði fólks þannig að það ráði við að gera bæði í hverju mánuði, greiða af lánum og greiða fyrir nauðþurftir. Það er að mínu viti sú bráðaaðgerð sem allra mikilvægust er, til skamms tíma.

Ég minni á að ég sagði "Niðurfelling á höfuðstól er ekki bráðnauðsynleg í dag." Það þýðir að sjálfsögðu ekki að það eigi aldrei að íhuga neina niðurfellingu í framtíðinni. Þú talar um skammtíma- og langtímalausnirog það er alveg rétt að huga þarf að báðu á sama tíma.Skammtímalausnirnar verða að koma fyrst og þær hjálpa fólki yfir þennan tíma neikvæðs hagvaxtar, niðurskurðar, skattlagningar og hvaðeina annað sem mögulega þarf að gera til að koma ríkinu í gegnum næstu þrjú ár. Kostnaðarsamar langtímalausnir verða hins vegar að bíða þar til ríkið hefur efni á þeim.

Málið er nefnilega, ef við komumst í gegnum þessi þrjú ár, þá er ljós við enda ganganna. 

Marinó, þú ert nógu gamall til þess að muna fyrri tíð. Þá ertu líka nægilega gamall til þess að átta þig á að það sem ríkið er að gera núna fyrir skuldsett heimili er meira heldur en hefur áður verið gert við sambærilegar aðstæður. Ég minni á hvernig gengisfellingar, gengisbreytingar og misgengi launa og lána lék fólk grátt á fyrstu árum níunda áratugarins. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir að slík staða skapist aftur.

Ég er ekki að gera þetta mál pólitískt. Ég er hreinlega ofurraunsæ. Ég sé eins og er að við erum með fjárlagagat uppá 160 milljarða, jafnvel 170. Þetta fjárlagagat þarf að hverfa á þremur árum, annars fáum við ekki þá lánsfjárveitingu sem okkur stendur einungis til boða í gegnum samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Kostnaður við breytingar á höfuðstól skulda er að mati Seðlabankans 250 milljarðar króna og hvar sem breytingin verður gerð, þá mun alltaf einhver hluti - líklegast stór hluti - falla á ríkið, beint eða óbeint. 

Við tölum um brimskafla, stórhríð, ólgusjó og hvaðeina annað vegna 160 milljarða niðurskurðar á þremur árum, hvernig í ósköpunum ætlarðu að leggja á klyfjaða þjóð að standa straum af þessum höfuðstólsbreytingum á þessum sömu þremur árum.

Þess vegna segi ég að næstu þrjú árin eigum við að einbeita okkur að því að tryggja að greiðslubyrði allra sé á þann veg að þeir ráði við hana og nýta til þess þau úrræði sem sett hafa verið fram. Það getur vel verið að höfuðstóls "vandinn" verði einhverju stærri fyrir vikið þegar að því kemur að eitthvað verður hægt að gera, en það verður bara að hafa það. Hann verður það ekki hjá öllum, því tíminn verður að sjálfsögðu notaður til þess að leysa mál þeirra sem á þurfa að halda þegar þau tilvik koma upp.

Stórskuldug þjóð getur ekki gert allt og verður að forgangsraða í sínum ranni. Þá hlýtur það að vera mikilvægast að koma fólki í gegnum tímabilið þannig að allir lifi það af.

Elfur Logadóttir, 11.5.2009 kl. 09:42

27 identicon

Við viljum bara þýfið bætt.  Og ég tók eftir að vandinn var skrifað svona að ofan:"vandinn".  Vandinn er enginn vafi.

EE elle (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband