27.4.2009 | 10:37
Lausnin er utanþingsstjórn
Ég vil óska Samfylkingunni til hamingju með að hafa steypt landinu í stjórnarkreppu innan við sólarhring eftir að niðurstöður kosninganna voru kunnar. Mér finnst alveg með ólíkindum að flokkurinn ætli að setja ESB-aðild á oddinn, meðan heimilunum og atvinnulífinu blæðir út. Haldi þeim áfram að blæða, þá verður þetta ekki spurning um inngöngu í ESB eða ekki, heldur hvort við verðum hérað í Noregi, Danmörku, Bretlandi, Kanada eða Bandaríkjunum. Síðan ræðst það af því hvaða land hirðir upp leifarnar af íslenska lýðveldinu hvar við endum.
Það er ljóst að hér verður ekkert stjórnhæft stjórnvald meðan stjórnmálamenn rífast um hvort túlka megi niðurstöður kosninganna sem vilja kjósenda um aðildarviðræður eða ekki. Ég legg því til að komið verði á utanþingsstjórn hæfra einstaklinga. Hana má setja á fót í samráði við Alþingi eða án samráðs við það. (Betra að gera það í samráði og með stuðningi þess.) Hér verði því fram að næstu kosningum ópólitískir ráðherrar sem hafa ekki neinn annan starfa, en að sinna þeim brýnu úrlausnarefnum, sem liggja á borðum stjórnvalda. Umræðan um ESB eða ekki verður þá ekki til að trufla vinnu þeirra og alla blaðamannafundi, spjallþætti og viðtöl sem þessir aðilar veita. Stjórnmálamennirnir (lesist Samfylkingin) hafa þá nægan tíma til að velta fyrir sér hvort túlka megi niðurstöður kosninganna á þann hátt sem þeir vilja.
Ástæðan fyrir því að ég legg þetta til er í mínum huga nokkuð augljós. Hér hefur orðið stórslys. Atvinnulífið og heimilin lentu í efnahagslegu hópslysi. Sjúkraliðið sem sent var á vettvang er ekki alveg með á hreinu hvað á að gera. Hluti liðsins segir þetta ekki þeirra vandamál. Þetta gerðist ekki á þeirra vakt. Aðrir hafa meiri áhuga á hátæknisjúkrahúsinu sem til stendur að reisa, enda fullvissri um að nýja tæknin sem kemur með hátæknisjúkrahúsinu bjargi öllu. Aðrir geta ekkert gert vegna þess að stjórnendur hópsins eru að rífast um það hvort byrja eigi á hátæknisjúkrahúsinu strax eða ekki. Menn fara nú ekki að taka fram fyrir hendurnar á yfirmönnum á slysstað. Bráðaliðar hafa þó sett plástra á nokkra af hinum slösuðu, en hvorki losað þá út flaki Íslandsrútunnar, sem allir voru í, né hugað að svöðusárum, beinbrotum, blóðmissi, öndunarfæraerfiðleikum eða höfuðhöggum sem flestir hafa fengið. Nokkrir hafa látist eftir að sjúkraliðið koma á vettvang. Það er vissulega búið að kalla út nokkra sérfræðinga, en þeir eiga að rannsaka hvernig slysið vildi til.
Heimilunum og atvinnulífinu mun blæða út á næstu dögum, vikum eða mánuðum nema hendur verða látnar standa fram úr ermum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði næstum ekki neitt fyrir þessa aðila. Sama gilti um ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þjóðin hefur ekki efni á að bíða lengur. Hún hefur ekki efni á því að dýrmætur tími fari í þjark stjórnmálamanna og fjölmiðla um að það hvort túlka beri niðurstöður kosninganna á einn eða annan hátt varðandi vilja þjóðarinnar til ESB. Við þurfum stjórn sem getur unnið óháð slíku dægurþrasi. Utanþingsstjórn er eina lausnin.
Hugsanlega næst sama niðurstaða með því að mynda stjórn án Samfylkingarinnar, en ESB umræðan mun samt taka upp allan tíma þjóðkjörinna fulltrúa. Ég verð að viðurkenna, að ég er búinn að fá nóg eftir einn dag.
Það má ekki túlka orð mín þannig að ég sé á móti ESB-aðild. Það bara hefur allt sinn tíma. Síðustu tvær ríkisstjórnir hafa því miður sannfært mig um að stjórnvöld ráða ekki við að hugsa nema um eitt mál í einu. Núna þurfum við að leysa efnahagsvandann og þess vegna þarf ESB-umræðan að bíða betri tíma.
Ljóst að kjósendur óska eftir aðildarviðræðum við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Ég er algjörlega sammála þér. ESB má ekki vera forgangsmál, björgum heimilanna verður að koma fyrst.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.4.2009 kl. 10:48
Já, kannski við verðum bara að stefna aftur á Austurvöll ef við fáum ekki hrein svör í dag. Jóhanna og Steingrímur gáfu okkur loforð fyrir kosningar þeim ber að efna það.
María Kristjánsdóttir, 27.4.2009 kl. 11:01
Já, María, kannski þarf að fara aftur niður á Austurvöll. Varðandi loforðið, þá man ég ekki eftir að ESB hafi verið þar ofarlega á blaði.
Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 11:07
Forgangsröðun mála er röng. Heimilin eru þjóðin heimilin hafa haldið þessari þjóð á lífi, heimilin hafa haldið fyrirtækjum gangandi, heimilin hafa haldið hagkerfinu gangandi.
Það er ekki hægt að lifga þessa þjóð við með dauðum heimilum. Það er ekki hægt að halda fyrirtækjum gangandi með dauðum heimilum, það er ekki hægt að halda hagkerfinu gangandi með dauðum heimilum
Ég hef hingað til haldið að stjórnmálamenn vissu þessar staðreyndir en samt virðast þeir ekki seteja björgun heimilana sem forgangsmál hjá sér.
Offari, 27.4.2009 kl. 12:20
Heimilin þurfa á breyttri peningastefnu að halda og það þarf að gerast ekki seinna en STRAX. Það er forsenda fyrir efnahagslegum bata í landinu og stöðugleika bæði til skamms tíma og lengri tíma litið.
Það gerist ekki öðru vísi en með því að hefja aðildarviðræður við ESB og leggja síðan þann samning fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu.
Þetta er lýðræðislegt ferli og alveg ljóst að meirihluti er fyrir þessu á Alþingi eftir kosningarnar.
Hvað hafa menn að hræðast við þetta? Hvar er lýðræðisástin ef það á að leggja stein í götu þessa ferlis?
Helga Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:16
Þetta er rétt ályktun hjá þér Marinó. Raddir fólksins börðust fyrir utanþingsstjórn, ekki minnihlutamartröð VG og samspillingarinnar. Við fórum á fund forseta og kröfðumst þess að fá utanþingsstjórn.
Við fengum að vísu tvo utanþingsráðherra, dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra. Ég hygg að þjóðin sé nokkuð sammála um ágæti þeirra.
Núna þurfum við að ganga alla leið. Ef við fáum ekki utanþingsstjórn, þar sem skynsemi og réttlæti ræður ríkjum, en ekki einhver afdönkuð ESB umræða, þá hvet ég alla sanna Íslendinga til að fjölmenna á Austurvöll. Hittumst í júníbyltingunni.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:18
Ég er svo sammála þér Helga Sigurjónsdóttir
unnur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:47
Hvernig ætlið þið ágæta fólk að bjarga heimilum landsins án fjármagns? Til að endurreisa bankana þurfum við lán á alþjóðlegum lánamörkuðum. Við fáum hvergi lán! Því fyrr sem við áttum okkur á þeirri nöturlegu staðreynd því betra.
Aðildarumsókn að ESB með upptöku evru í huga myndi senda skýr skilaboð hvernig við ætlum að standa að endurreisn efnahagslífsins. Nánast allir fremstu hagfræðingar landsins hafa tekið undir þessa skoðun. Ákvörðun um aðildarumsókn er ekki flókin né myndi taka upp mikinn tíma í íslenska stjórnkerfinu næstu 6-8 mánuði. Á þeim tíma geta íslensk stjórnvöld unnið að þessum mikilvægu málum sem snerta heimilin í landinu með hjálp íslensku bankanna og yfirvalda.
Andrés Pétursson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 15:31
Andrés, ég hélt í einfeldni minni að við værum búin að fá lánin sem þyrfti til endurreisnarinnar. Það á bara ekki að nota þau!
Málið snýst líka um að hætta að horfa á og taka til óskiptra málanna. Ég er að stinga upp á utanþingsstjórn, svo stjórnmálamennirnir geti haldið áfram að gera það sem þeir eru bestir í, þ.e. að gera ekki neitt. Ég var að tala við bankann minn áðan. Hann er í limbó vegna þess að það vantar hugmyndir, tillögur og ákvarðanir. Þetta er saga siðustu 14 mánaða. Engar hugmyndir um úrræði, engar tillögur að lausnum og engar vitrænar ákvarðanir. Eina sem hefur verið gert var að setja 600 milljarða í að bjarga innistæðum og vel á þriðja hundrað milljarðar voru settir í peningasjóðina. Með fullri virðingu, Andrés og fleiri, ég vil fara að sjá öflugar aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu en ekki aðgerðir sem stefna heimilunum og atvinnulífinu í þrot.
Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 17:03
Sammála,sammála, sammála...og þakka þér fyrir skrifin þín. Þú ert búinn að vera í bookmarks hjá mér í langan tíma.
Guðrún Garðarsdóttir
Guðrún Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 17:40
Vandinn er m.a. að íslenskir EU-sinnar hafa hreinræktað með sér hegðunarmynstur New Labour: Light Touch, Hands Off.
Með öðrum orðum: Best er að geta ekki neitt og gera ekki neit. Þetta sér um sig sjálft!
Svo er þetta kallað framtíðarsýn!
Ólafur Ágúst Guðmundsson, 27.4.2009 kl. 18:49
hvað finnst mönnum þá um yfirlýsingar manna hjá Össur, CCP og Marel um að þeir hreinlega fara ef við sækjum ekki um aðild? Hvað verður um endurreisn fyrirtækja hér í 15,5 % vaxtastigi. 3% lækkun vaxta myndi þýða meira tekjutap en sem nemur fjárlagahallanum - hvernig n´kvæmlega á að gera þetta? Það vantar ekki yfirlýsingar hér en nákvæmlega ekkert nema gagnrýni - engar tillögur, ekkert af viti. Sorry - umsókn um aðild að ESB er það gáfulegast sem fram hefur komið.
Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 20:35
Sæll Ægir. Össur er farinn með meirihluta starfsemi sinnar úr landi, Marel er líka farið með meirihluta starfsemi sinnar samkv. fréttum í kvöld. Koma þeir til baka eða erlendir fjárfestar? Hver verður endurreisnin við inngöngu í ESB? Eru einhverjir sjóðir þar sem enginn þarf að nota? Er einhver að bjarga Írum? Eða Bretum? Spáni? Hver er að njóta góðs af því að vera í ESB? Er ekki allsstaðar kreppa? ASÍ er búið að keyra stéttarbaráttuna í klessu og hrópar á hópstjórn frá EB (Bretum, Frökkum Ítölum og Þjóðverjum) enda Samfylkingarframbjóðendur þar á ferð. SA er búið að keyra sig upp í klof í skuldbindingum, eins og útrásarvíkingarnir, blessaðir, og þarf að fela það í evrum og fylkir sér nú um Samspillinguna eins og sumir kalla flokkinn. Glætan að við getum tekið upp evru.Hverjar eru líkurnar í lottoinu? Eða spilakössunum?
Helga og Unnur. Er þetta ekki full kvenlegt viðhorf? Kíkja aðeins á ESB-útsöluna ef það skyldi vera eitthvað sem hægt væri að nota og spyrja svo aðra hvernig þetta passi? Eins og ekkert sé við tímann að gera og hann verðlaus meðan húsin brenna og fjölskyldur tvístrast.
Á ekki bara að krefjast þess að kjósendur Samfylkingarinnar axli ábyrgð og fari utan sjálf í 10 % atvinnuleysið sem er landlægt í mörgum löndum Evrópu. Það er nú að koma í ljós að það er ekki einu sinni hægt að treysta því að Sf svíki öll loforð því Jóhanna er staðföst og orðheldin kona.
Fyndnast finnst mér þegar það eru aðal rökin að Svíar séu að taka við stýrinu. Hvar er þá lýðræðið ef það skiptir máli.
Helga. Hjá mér er ástin meiri á landi og þjóð en lýðræðinu og mikill munur er á könnunarviðræðum og aðildarviðræðum.
Flottur pistill hjá þér Marinó. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 27.4.2009 kl. 23:11
Staðreyndin er sú að vandi heimila og fyrirtækja er orðinn bráðavandi, vandi sem eingungis verður leystur á næstu vikum og mánuðum ef að stór hluti heimila og fyrirtækja eiga að lifa þessa kreppu af. 79% fyrirtækja tæknilega gjaldþrota, eins má segja með 15 þúsund heimili í landinu, á þessum 15 þúsund heimilum búa 50-60 þúsund manns. Nú eru 20 þúsund manns atvinnulausir og ef einhver af þessum 79% fyrirtækja fer á hausinn endanlega þá á sú tala eftir að aukast stórlega. Og ef að við sogumst inn í fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja, þá er orðið of seint að grípa til einhverrra ráða.
Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af aðild að ESB, en ég er algerlega á móti því að aðild að ESB sé sett sem einhver lausn gegn kreppunni og þeim vanda sem að blasir við. Heimilin og fyrirtækin verða löngu farin á hausinn áður en við göngum inn í ESB. Svona aðildarviðræður taka mjög langann tíma og munu ekki skila okkur neinu fyrr en of seint. Þar fyrir utan er þjóðin algerlega klofin í afstöðunni til ESB. Það yrði skelfilegt ef að ríkisstjórnin setti allt sitt traust á að ESB bjargi okkur og svo hafni þjóðin aðild??? Í hvaða stöðu verðum við þá? Ég segi, leysum bráðavandann fyrst. Svo getum við gengið inn í ESB að undangenginni borgarastyrjöld.
Jóhann Pétur Pétursson, 27.4.2009 kl. 23:31
Kolbrún - ég skil þig ekki alveg. Já þessi fyrirtæki eru hægt og bítandi að færa sig frá Íslandi - finnst þér þetta góð þróun? Ég var að færa rök fyrir því að snúa þessari þróun við - vilt þú meina að það sé ekki hægt? Það er bara sorgleg uppgjöf að mínu viti.
Við getum vel tekið upp evru - það tekur okkur 4 ár að uppfylla þessi skilyrði - hafa menn ekki meiri trú á kraft í Íslensku hagkefi en þetta? Upptaka evru snýst ekki um líkindareikning eða lottó vinninga - þetta snýst um að vinna heimavinnuna sína og gera eitthað í hlutunum ístað þess að vera með upphrópanir og vonleysisvæl. Það mun enginn "bjarga" okkur - við verðum að gera það sjálf. Ég bara trúi því að það sé okkur auðveldara með stöðugan gjaldmiðil og algerlega opið aðgengi að 500 milljón manna markaði - sjá virkilega engir tækifærin í þessu? Hafa menn enga trú á að hægt sé að laga þetta ástand?
Þurfa íslenskt fyrirtæki enga fjármögnun til að vaxa og bæta við sig störfum? Er einhver dónaskapur að benda á að þau sjálf hafa sagt að ESB leiðin sé sú sem liggur beinast við og þess vegna ber okkur að láta áþetta reyna. Ég held að það sé auðveldara að rétt úr kútnum ef þessi stóru fyrirtæki halda áfram að bjóða störf á Íslandi í stað þess að fara alveg frá okkur
Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:19
Ægir, Marel er orðið alþjóðlegt fyrirtæki. Með sameiningunni við Stork opnuðust nýjar dyr fyrir fyrirtækið til að vaxa og þróast og alþjóðakreppan hefur þar meiri áhrif en nokkurn tíman málin hér á Íslandi.
Varðandi CCP þá var ég í sumarbústað um stl helgi og fann eintak af blaðinu Tölvuheimur frá árinu 2005. Á forsíðu blaðsins stóð stórum ógvekjandi stöfum: Flytur CCP úr landi? Ég er því ekki að sjá neitt nýtt þar.
Fyrirtæki geta náð ákveðinni stærð á Íslandi en ef þau stækka fram yfir það þá verða þau alþjóðleg og ég sé ekki að vera Íslands í ESB eða utan breyti þar neinu um. Alþjóðlegt fyrirtæki rekur sínar rekstrareiningar þar sem það er hagstæðast og fyrir framleiðsluhluta Marel er td mjög hagstætt núna hvað krónan er lág. Það sama hlýtur að eiga við um Össur.
Við erum 300.000 manna þjóðfélag og það breytist ekki við inngönguna í ESB. Við munum aldrei ná að binda niður alþjóðleg fyrirtæki og ég hef sjaldan sé fáránlegri rök fyrir ESB aðild Íslands en þau.
Kolbrún Heiða (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:49
Kolrún - nei þetta er ekki auðveld umræða. Það sem ég sé við ESb aðild er aðgengi þessara fyrirtækja og annarra að fjármagni til uppbyggingar og vaxtar. Getur þú nefnt mér hvaða fjárfestingar hafa átt sér stað í Íslensku hagkerfi undanfarin 20 ár sem ekki voru niðurgreidd af ríkinu (þ.e. álver)? Er eitthvað að því að líta til ESB sem eitt skref í átt til þess að auka hér (eða hefja) erlenda fjárfestingu í íslensku fyrirtækjum? Er það fáránlegt?
Við erum fá rétt er það - við bindum engann niður. Við getum hins vegar skapað hér hagkvæm skilyrði fyrir fyrirtæki til að þrífast. Tilrauni frjálshyggjumanna undanfarin 18 ár hafa skilað.....ástandinu í dag og engri fjárfestingu á Íslandi nema niðurgreiddum álverum - hvers vegna? Íslenska krónan - það vill enginn koma nálgæt henni og fyrirtæki hafa aldrei viljað fjárfesta hér nema sleppa við krónuna. Álver eru einmitt dæmi um þetta enda er sú verslun öll í dollurum (og niðurgreidd af ríkinu). Hvar ætlið þið að finna betri leið en aðild að ESB til að örva hér erlenda fjárfestingu? Eða viljum við frekar einangrun og nokkurs konar Kúbu norðursins?
Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 12:13
Sæll Ægir. Ekki ætla ég að fara að karpa við þig um þína skoðun, ég var einungis að tjá mína sem er að við ættum að beina sjónum okkar að öðrum hlutum en sölu eigna (auðlinda), nú þegar við höfum afar lítinn ávinning af samningum. Ég er auðvitað sammála því að við þurfum erlent fjármagn en ég legg áherslu á að við sköpum verðmæti hér heima og náum okkur í tekjur í gjaldeyri til að halda í horfinu. Við höfum komist vel af með krónuna þó hún sé vandræðagripur fyrir þá sem reka fyrirtæki á alþjóðavettvangi. Hún hefur nú fylgt okkur úr moldarkofunum í glæsihallir og alla leið á Heimskortið. Afsláttur sem þú ert að tala um í sambandi við álver er væntanlega ódýr raforka. Ég segi , það er betra að selja ódýra framleiðslu en auðlindina sjálfa og láta útlendinga ráðstafa henni til allrar framtíðar. Við erum að hafa atvinnu og afleidd störf af álverum, auk hafnargjalda og ég er alveg til í að stuðla að því að svo verði áfram t.d. á Bakka. Nú höfum við ekki efni á því að fara skyndileiðir til lausna. Ef við viljum auka erlenda fjárfestingu hér t.d. í sjávarútvegi þá getum við gert það án þess að ganga í ESB. Seljum frystihúsin, togarana og útgerðirnar en höldum í kvótaeignina og yfirráðin yfir henni. Það er það sem ég óttast að gerist ef við göngum í EB. Ég er ekki svartsýn á framtíð Íslands síður en svo. Nú er t.d. lag fyrir stóraukna ferðamannaþjónustu o.m.fl. Ég er alls ekki að segja að það sé neinn dónaskapur að tjá sína skoðun en finnst ESB aðild bara arfavitlaus eins og staðan er í dag. Kúba norðursins Halló. Með vinsemd og virðingu fyrir þínum skoðunum. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 28.4.2009 kl. 22:25
Nei nei það má vera rétt enda erum við alls ekki sammála hér. Ég er bara að reyna að skilja skynsemina á bak við fullyrðingar þínar. Það að útlendingar ráðstafi hér auðlindum - ertu að tala um að ef við förum í ESB þá gerist þetta? En þetta er rangt. ESB er ekki með neina auðlindastefnu - aðildarþjóðirnar eiga áfram sínar auðlindir - þetta er einfaldlega rangt hjá þér.
Það að krónan hafi þjónað okkur vel finnst mér heldur sérkennileg staðhæfing. Ég veit ekki betur en að við höfum þurft að fella gengið, klípa aftan af 2 núll og setja á verðtryggingu til að berjast við þennan gjaldmiðil sem hefur í raun aldrei staðið sig almennilega. Þessi fyrra um moldakofana og glæihallirnar - má ég benda þér á að þetta var allt tekið að láni? Þessi hugsunarháttur hrundi í október í fyrra.
Ég er sammála því að við getum vel aukið hér erlenda fjárfestingu án þess að ganga í ESB - en það er enginn fjárfestir sammála því. Af hverju heldur þú að einu fjárfestingarnar hér við land hafi einmitt verið álver? Er það ekki vegna þess að þessi fyrirtæki þurfa ekkert að koma nálægt krónunni? Ál er verslað í dollurum - sannar þetta ekki mál mitt?
Væri ekki skynsemi í því að láta á þetta með eign kvótans reyna í aðildarviðræðum? Ég er ekki viss um að Ísland passi inn í þessa sameiginlegu stefnu ESB manna sem snýst um SAMEIGINLEGA stofna. Okkar fiskistofnar eru ekki sameiginlegir með neinum örðum - eigum við ekki bara að skoða hvernig þetta fer í stað þess að afskrifa fyrirfam?
Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 11:02
Sæll Ægir. Þetta er nú að verða tveggja manna tal hjá okkur og að þessu sinni óska ég þess innilega að ég hafi rangt fyrir mér en veit þó að það er óskhyggja en ekki skynsemi. Hvað þurfa margir sérfræðingar að koma til landsins og segja okkur að við fáum ekki sérkjör? Hvað heldurðu að aðildarviðræður kosti? Hundruð milljóna? milljarð? Hrundi þessi hugsunarháttur í október samt ert þú enn að tala um að við þurfum lán og erlenda fjárfesta til landsins. Hagsmunum hverra þjónar það? Fjárfestanna sem tóku lán út á allt og alla? Sem betur fer voru allmargir sem notuðu góðærið til að greiða upp skuldir þannig að við megum ekki einblína á skuldara þó þeir eigi vissulega margir erfitt. Við getum deilt kjörum og komist í gegnum þennan skafl en það er vandaverk og ég vona að sátt náist um nýja stjórn sem fyrst. Með kveðju Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 29.4.2009 kl. 23:30
Sérkjör segir þú. Hafa engar þjóðir fengið sérákvæði í sína samninga við ESB? Það er nú einu sinni þannig að menn lýsa ekki yfir hverju þeir ætla að gefa eftir ÁÐUR en sest er niður við samningaborðið, skárra væri það nú. Það eru ekki embættismenn eins og Olle Rehn sem ráða þessu - heldur er valdið í höndum ráðherra aðildarríkjanna.
Ertu að segja mér að fyrirtæki og sveitarfélög í þessu landi geti rekið sig án fjármagns? Frábært, þá er þett allt á misskilningi byggt eða lifa bakar ekki á því að lána? Þurfum við ekki að endurreisa bankana? Hvar eiga þeir að fá fé til þess? Almennt séð held ég að nútímafyrirtæki þurfa jú lánsfé til rekstrar ekki síst til stækkunar. Þetta er ekki neinn dónaskapur frá 2007 - þetta er bara raunveruleiki. Án aðgengis að lánsfé þá fer þjóðfélagið ...... ja líttu í kringum þig - það er að gerast hér og nú. það má ekki blanda saman glannaskap bankamannanna við rekstur allra fyrirtækja á plánetunni - það er soldið eins og epli og appelsína.
Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.