Leita í fréttum mbl.is

Breyting á vaxtabótum - Allt að 500% hækkun hjá tekjuháum, en 30% hjá tekjulágum!!!

Ég get ekki annað en dáðst af þingmönnum.  Nú er komið nefndarálit vegna frumvarps um breytingar á vaxtabótum.  Ég fór á fund efnahags- og skattanefndar vegna málsins fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna og hlustaði þar meðal annars á fulltrúa fjármálaráðuneytisins leggja til breytingu á lögunum, sem hefði haft í för með sér allt að 55% hækkun vaxtabóta til hinna tekjulægri á kostnað þess að fyrr hefði verið skorið á vaxtabætur hinna tekjuhærri.  Hélt fulltrúi fjármálaráðuneytisins því fram að kostnaður ríkissjóðs væri hinn sami, þ.e. 2 milljarðar.

Nú hef ég sem sagt nefndarálitið fyrir framan mig og þar kemur fram að nefndin hafnar hugmynd fjármálaráðuneytisins.  Segir að hún muni kosta of mikið eða heila 4 milljarða.  Já, heila 4 milljarða!  Það er 2% af því sem greitt var inn í peningasjóði bankanna, 0,75% af því sem sett var í að verja innistæður í bönkunum og rétt rúmlega 1,6% af því sem greitt var inn í Seðlabankann.  Já, mikil er rausn þingmanna þegar kemur að heimilum landsins.  Svo má ekki gleyma því að minnst 2 milljarðar af þessari upphæð eiga að koma frá sköttum af útteknum séreignasparnaði.  Það er eins og mönnum sjáist alveg yfir að þessir peningar fara að mikluleiti í neyslu, sem gefur ríkissjóði skatttekjur og fyrirtækjum veltufé.

En þetta er kannski ekki það merkilegasta við nefndarálitið, heldur hitt að nefndi leggur til breytingar á frumvarpinu.  Í álitinu (sjá töflu í fylgiskjali 1) eru áhrif þessara breytinga útlistaðar.  Þar kemur m.a. fram að óbreytt hefði frumvarpið fært hjónum með 5 milljónir og minna í tekjur að hámarki kr. 78.534 í hækkaðar vaxtabætur og hjónum sem eru með 8 milljónir eða meira ekki neitt.  Breytingarnar sem nefndi leggja til valda aftur því að hjón með 7 milljónir eða minna í tekjur fá allt að 94.240 kr. hækkun vaxtabóta eða alls kr. 408.374.  Hinir tekjuhærri, þ.e. með á bilinu 7 - 14 milljónir í árslaun, fá aftur á móti allt að 150.000 kr. hækkun vaxtabóta eða 45.760 kr. meiri hækkun!  Hvers konar rugl er þetta?

Ég get vel skilið að hjón með heimilistekjur upp á 7 - 14 milljónir hafi lent í greiðsluvanda og þurfi einhverjar vaxtabætur til að fylla upp í útgjöldin, en að hjón með 3 milljónir í árstekjur eigi að fá allt að 94.240 kr. hækkun á vaxtabæturnar sínar meðan hjón með 12 milljónir í árstekjur eiga að fá allt að 150.000 kr. hækkun, það skil ég ekki.   Hér hefði átt að snúa hlutunum við.  Þeir tekjulægstu eru í mestum vanda!  Hinir tekjuhærri verða að bjarga sér sjálfir.  Eins og ég segi, þá hef ég fulla samúð með fólki með mikla vaxtabyrði, en menn verða að líta á þær sem hlutfall af tekjum.  Síðan get ég alls ekki skilið, að fyrst 2 milljarðar var svona himinhá upphæð, af hverju þá ekki að beina þeim allri til þeirra tekjulægri?  Mér finnst það skjóta skökku við að vaxtabætur hjóna með 12 milljónir í tekjur eru sexfaldaðar, þ.e. 500% hækkun, meðan hjónin með 3 milljónir fá 30% hækkun.  Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?

Eitt hef ég aldrei skilið varðandi vaxtabæturnar.  Af hverju er ekki tekið tillit til fjölskyldustærðar við úthlutun þeirra?  Það þykir sjálfsagt að taka tillit til þess þegar einn fullorðinn er á heimili, hvort viðkomandi sé einstætt foreldri.  En þegar kemur að hjónum, þá skiptir engu máli hvort börn séu á heimilinu eða ekki.  Ef nota ætti sama hlutfallsmun milli vaxtabóta til einstæðings og einstæðs foreldris og barnlausra hjóna og hjóna með barn/börn, þá ættu hámarks vaxtabætur hjóna með barn/börn að vera 28,6% hærri en þær eru, þ.e. kr. 525.200 miðað við breytingartillögu nefndarinnar samanborið við 408.374.  Mér finnst þetta vera bara enn eitt atriðið sem sýnir að skattkerfið gerir lítið til að auðvelda kjarnafjölskyldunni lífið.

Nú vísar einhver í barnabæturnar og telur þær bjarga öllu, en þær eru aumkunarverðar.  Hvaða snillingi datt í hug að setja skerðingarmörk barnabóta til einstæðs foreldris við 150.000 kr. á mánuði og hjóna við 300.000 kr. á mánuði?  Sýnið mér það einstætt foreldri sem er það vel statt með 151.000 á mánuði, að það megi við því að barnabætur skerðist.  Ég legg til að því foreldri verði veitt Fálkaorðan.  Það er bara með þetta eins og allt annað í löggjöf þessa lands, að þegar kemur að því að bæta hag heimilanna, þá er allt ómögulegt, en svo er hægt að henda sjöfaldri hækkun vaxtabóta í að klára tónlistahús án þess að blikka auga.  Og svona til viðbótar:  Af hverju hækkar skerðingarhlutfall barnabóta eftir því sem börnunum fjölgar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar.

Hvers vegna er svona mikið af vanhæfu fólki í vinnu hjá hinu opinbera ?

JR (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 01:18

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Kannski er svona mikið af vanhæfu fólki vegna þess að fólk er ráðið vegna flokksskírteina en ekki hæfni. Það er nauðsynlegt að koma hér upp alvöru verkferlum við ráðningar í stjórnsýslunni og að mínu mati ætti allur fyrirliggjandi niðurskurður að vera á þessa handónýtu stjórnsýslu okkar.

Þakka þér Marínó fyrir þessa samantekt ... 

Birgitta Jónsdóttir, 9.4.2009 kl. 08:26

3 identicon

Mér finnst nú eftirminnilegast úr þessum skrifum hjá þér samhengið:

             2% af því sem greitt var inn í peningasjóði bankanna, 0,75 af því sem sett var í að verja innistæður í bönkunum og rétt rúmlega 1,6% af því sem greitt var inn í Seðlabankann.

Það vantar skýr svör hjá Jóhönnu Sigurðardóttur af hverju hún tók þátt í að verja peningamarkaðssjóði en vill ekki verja sömu upphæð til að verja láglaunafjölskyldur.

Þeirri spurningu verður hún að svara til að geta haldið trúverðugleika?

Doddi D (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 08:38

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það er engu líkara að allir þeir bankastarfsmenn sem misstu vinnuna séu nú í nefndastörfum fyrir hið opinbera þannig að hagsmunir lánveitanda séu í fyrirrúmi. Maður er orðin hrykalega þreyttur á þessum slöppu úrræðum sem eru orðin að verkuleika. 

Haraldur Haraldsson, 9.4.2009 kl. 10:56

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Frábær samantekt...tek undir hvert orð!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.4.2009 kl. 12:59

6 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Tek undir allt sem þú segir "ég skil ekki þetta lið & hef reyndar aldrei skilið það....!"  Það er & hefur verið í langan tíma vitlaust gefið og maður spyr bara með hvaða liði er þetta lið að spila?  Láglaunafólk er alltaf einhver "afgangsstærð í íslensku samfélagi, ótrúlegt en því miður sorgleg staðreynd".

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 9.4.2009 kl. 14:19

7 Smámynd: Offari

Hér er margt sem skítur skökku við. Ég sótti eitt sinn um húsaleigubætur og fékk þá svarið að ég væri of tekjuhár til að geta fengið húsaleigubætur.

Ég hef líka prófað að sækja um íbúðarlán en þá fæ ég þær upplýsingar að ég sé of tekjulár  til að geta fengið lán. Einhverveginn hefur kerfið aldrei hentað mér til að þiggja ölmussu frá ríkinu.

Offari, 9.4.2009 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680019

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband