Í Morgunblaðinu í dag er birt undir stúfnum Skoðun grein eftir Henný Hinz, hagfræðing hjá ASÍ. Greinin ber yfirskriftina Greiðsluaðlögun er grundvallaratriði. Mig langar að birta þessa grein hér og vonandi fyrirgefur Morgunblaðið mér það.
Aðgerðir stjórnvalda í þágu heimilanna miða allar að því, með einum eða öðrum hætti, að gera fólki kleift að standa við skuldbindingar sínar, segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ. Þetta er kjarninn í flestum þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið. Það er hins vegar ljóst að það er ekki verið að gefa neitt eftir af skuldum fólks.
Henný segir að ASÍ hafi að undanförnu talsvert mikið skoðað þau mál er snúi að stöðu heimilanna. Hagdeild sambandsins hafi til að mynda sent frá sér skýrslur í síðasta mánuði um skuldir heimilanna
annars vegar og horfur í efnahagsmálum hins vegar.Niðurstaða okkar var meðal annars sú, að niðurfærsla á skuldum heimilanna, eins og lagt hefur verið til, sé engan veginn raunhæfur kostur þar sem kostnaðurinn yrði allt of mikill. Því yrði að beina aðgerðum í þágu heimilanna að þeim hópi þar sem þörfin er mest. Það þurfi að grípa til almennra aðgerða sem fólk í tímabundnum vanda, svo sem vegna tekjuskerðingar eða atvinnuleysis, geti nýtt
sér, þar til fram líða stundir og viðkomandi getur farið að greiða af lánum sínum með eðlilegum hætti
á ný.Eini raunhæfi kosturinn
Að sögn Hennýjar duga almennar aðgerðir í þágu heimilanna ekki öllum. Segir hún að ASÍ telji að greiðsluaðlögun sé nauðsynlegt úrræði þessum heimilum til handa.
Þeir sem þurfa á greiðsluaðlögun að halda eru þau heimili sem eru allra verst stödd og sem sjá ekki fram á að nokkuð muni lagast með þeim almennu aðgerðum sem boðið verður upp á, þó svo að aðstæður í þjóðfélaginu breytist til hins betra. Þetta eru heimilin sem eru komin í þá stöðu að það er fyrirséð að dæmið gengur ekki upp. Við metum það svo, að greiðsluaðlögun sé eini raunhæfi kosturinn fyrir þessi heimili.
Henný segir að ASÍ leggi ríka áherslu á að Alþingi samþykki lög um greiðsluaðlögun áður en þingi verður slitið. Það er mikið eftir áður en greiðsluaðlögun verður orðin að lögum. Við höfum lengi lagt áherslu á þetta úrræði og það er aldrei mikilvægara en einmitt nú, segir Henný.
Það eru nokkur atriði í orðum Hennýjar sem ég verð að fjalla um:
1. Því hefur aldrei verið haldið fram að niðurfærsla höfuðstóls muni ein og sér duga öllum. Með slíkri niðurfærslu mun þeim fækka sem munu þurfa viðameiri aðgerðir.
2. Að ætla að taka 30, 40 eða jafnvel 80 þúsund manns í gegnum greiðsluaðlögun mun taka mörg ár, ef ekki áratugi. Það er því ekki raunhæfur kostur. Mun betra er að koma með almennar aðgerðir sem taka kúfinn af hópnum og eingöngu þeir verst settu fara í greiðsluaðlögun.
3. Henný nefnir, eins og svo margir aðrir, kostnaðinn af niðurfærslunni en segir hvorki hver kostnaðurinn er né hver beri þann kostnað. Ég hélt í einfeldni minni að ASÍ væru hagsmunasamtök launþega, en ekki fjármálafyrirtækja. Ég hef greinilega eitthvað misskilið hlutina. Mér finnst það alveg út í hött, að hagsmunasamtök launþega telji það eðlilegra að launþegar greiði fyrir klúður fjármálafyrirtækja, en ekki öfugt. En burt séð frá þessum viðsnúningi í hagsmunabaráttu ASÍ, þá langar mig að fá að vita hver er þessi kostnaður. Samkvæmt bestu manna útreikningi eru húsnæðisskuldir landsmanna eitthvað á bilinu 1.300 - 1.500 milljarðar. 20% niðurfærsla, sem Framsókn hefur lagt fram (og ég tek fram eru önnur leið en Hagsmunasamtök heimilanna mælir með), þýðir þá 260 - 300 milljarða kr. Það vill svo til að gert er ráð fyrir að erlendir kröfuhafar þríburanna gefi eftir 2.800 milljarða af verðmæti innlendra lánasafna bankanna. Við skulum líka hafa í huga að ríkisstjórnin ætlar/er búin að borga 270 milljarða inn í Seðlabankann, ábyrgjast 1.100 milljarða vegna innistæðna í bönkunum og lagði 200 milljarða inn í peningasjóði. Af hverju á það þá að vefjast fyrir mönnum að nota 9,5 - 11% af 2.800 milljörðum, sem eiga að fara í afskriftir hjá bönkunum, til að færa niðurhúsnæðisskuldir heimilanna. Ok, hvað með lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð? Sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna er 10% af eignum. 20% niðurfærsla nemur því 2% af eignum sem er brotabrot af öðru tjóni sjóðanna. Þessi tala skiptir sjóðina engu máli. Gagnvart Íbúðalánasjóði, þá vill svo til að bankarnir eiga 135 milljarða í íbúðabréfum. Þar sem þeir eiga 2.800 milljarða til að afskrifa, þá er einfaldast að þeir afskrifi þessa upphæð.
4. Skoðum kostnaðinn fyrir húsnæðismarkaðinn og bankana af því að gera þetta ekki. Þurfi bankarnir að leysa til sín tugi þúsunda húseigna, þá mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir húsnæðismarkaðinn og stefna stórum hópi fólks í gjaldþrot. Ekki bara þeim sem eru í vanda núna, heldur mun bætast verulega í hópinn. Fólk verður bundið í átthagafjötra, þar sem skuldir þess verða mun hærri markaðsverð. Tap bankanna verður auk þess mun meira. Stór hluti niðurfærslunnar sem Framsókn er að leggja til, er þegar tapaður peningur fyrir bankana. Auk þess vil ég benda mönnum á að lesa tillögurnar áður en haldið er áfram að fullyrða um flatan niðurskurð fyrir hvern sem er. Hér hef ég klippt út fyrirsögn greinarinnar úr tillögum Framsóknar:
AÐGERÐIR TIL BJARGAR SKULDSETTUM HEIMILUM
OG FYRIRTÆKJUM
20% niðurfelling skulda (með hugsanlegu hámarki á heildarupphæð)
Hvað segir þarna? Á að bjarga öllum um allt? Nei, það er nefnt hugsanlegt þak á upphæðir. En ég ætla ekki að verja hugmyndir Framsóknar, heldur snýst þetta um það réttlæti að almenningur sitji ekki einn uppi með klúður í efnahagsstjórn, að almenningur sitji ekki einn uppi með fall krónunnar og afleiðingar þess í hækkun verðbólgu.
5. Hver er ávinningurinn fyrir samfélagið? Velta í einstökum geirum smásöluverslunar dróst saman í febrúar um allt að 56% (að mig minnir) samkvæmt frétt sem birtist í síðustu viku. Fólk er búið að skrúfa fyrir neyslu. Ég hefði nú haldið að ASÍ hefði meiri áhyggjur af því, þar sem slíkt er ávallt undanfari aukins atvinnuleysis. Slíkur samdráttur á neyslu bitnar líka á ríkissjóði og verður til þess að skera þarf niður útgjöld ríkissjóðs. Og þegar búið er að skera niður alla fitu, þá verður velferðarkerfið næst. Hefur ASÍ virkilega meiri áhyggjur af því að bankar og lífeyrissjóðir þurfi að færa niður húsnæðisskuldir, en að hér aukist atvinnuleysið enn frekar eða að skera þurfi niður í velferðarkerfinu. Ávinningurinn af því að fólk hafi meira milli handanna til að setja í neyslu er mun mikilvægari tala en kostnaðurinn af niðurfærslunni.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 21
- Sl. sólarhring: 51
- Sl. viku: 218
- Frá upphafi: 1679913
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 196
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Góð grein Marinó og hárrétt greining.
Það er nánast óskiljanlegt að stjórnvöld og hagræðingar á Íslandi skuli ekki sjá
að vandi landsins í dag er skortur á lausafé.
Almenningur hefur ekki neyslufé eða heldur krónunum fast á hávaxtareikningum í bönkum.
Niðurstaðan er sú að viðskipti fara allt of hratt minnkandi með auknum gjaldþrotum fyrirtækja og atvinnuleysi.
Það er eins og að menn haldi að það eina sem skiptir máli sé gjaldeyrir og útflutningur.
Svo er ekki, "massinn" kaupir íslenska vöru og þjónustu ef peningar eru til staðar.
Þess vegna verður að lækka vexti eins og skot, afskrifa eins mikið af skuldum neytenda og hægt er og eða lækka greiðslubirgði með öllum ráðum.
Sú stefna að hægt sé að endurvekja hagkerfi með innspýtingu fjármagns í banka er nú þegar komin í þrot.
Þetta geta menn kynnt sér með stuttum yfirlestri á blöðum eins og Finacial Times eða af fréttum frá BNA eða Kína.
Bankar eða ríkissjóðir geta ekki bjargað hagkerfi, hvorki hinu Íslenska né hinu Ameríska.
Það er fólkið, "massinn" einn sem getur ráðið við slíkt verkefni.
Til þess þurfa menn andrými.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 14:00
Hvort sem höfuðstóll íslenskra verðtryggðra lána verður afskrifaður að hluta eða verðtryggingin færð fram fyrir hrun þá tel ég alveg ljóst að þetta verður að gerast. Þessi kúfur á verðtryggingunni er ekkert annað en þjófnaður á eignarhluta fólks þar sem hún er ekki að mæla þennslu líkt og henni er ætlað heldur hrun gjaldmiðilsins. Skuldarar einir eiga ekki að greiða fyrir þetta hrun. Hvað erlendu lánin varðar líst mér ekkert illa á aðferð Íslandsbanka um að borga fasta krónufjárhæð td. líkt og í maí 2008 og halda henni þar til lánið er uppgreitt því ég trúi því að gengið lagist einhverntímann eða að skipt verði um gjaldmiðil. Ég sjálf er aðallega með erlend lán og ekki kemur til greina að breyta þeim yfir í íslenskt verðtryggt lán núna á þessu gengi hvað mig varðar. þá fengi ég kúfinn af verðtryggingunni ofan á gjaldmiðilshrunið. nei færum verðtrygginguna til 30. sept 2008 og frystum hana aðeins. Í löndunum í kringum okkur eru´jú engir vextir svo að bankavextir verða að duga fjármagnseigendum þar til það versta er gengið yfir.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 15.3.2009 kl. 15:47
Sammála þér Jóhann. Hér verður að þora að beita óhefðbundnum aðferðum til að fá hjólin til að rúlla. Ekki má gleyma að verðtrygging þekkist svo til hvergi annarstaðar og ekki heyrist mikil þörf á að setja hana á annarstaðar sem kreppan ríður yfir núna. Verðtryggingin er heimatilbúin vörn fyrir örsmáan gjaldmiðil sem nú er hruninn hvort eð er. Hann lagast ekki við að helmingur heimila og fyrirtækja fari á hausinn og allt lausafé hverfi. Það þarf að horfast í augu við það að það mun kosta mun meira að láta stóran hluta þjóðarinnar og minni fyrirtæki fara á hausinn til lengri tíma litið og við munum hægja á uppsveiflunni.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 15.3.2009 kl. 15:52
Ekki mín orð en áhugavert sjónarhorn:
,,Þessi leið Íslandsbanka er í sjálfu sér góðra gjalda verð, þó felst í henni sá dapri veruleiki að skuldaranum er gert að kyngja öllu því tjóni sem efnagagshrunið hefur valdið með lengri lánstíma og meiri vaxtakostnaði, hið eina sem bankinn er að gera er að létta greiðslubyrðina pr. mán. þannig að fólk eigi e.t.v. séns á að standa í skilum. Bankinn er ekki að fallast á að neitt af því tjóni sem hann sjálfur tók þátt í að valda (þ.e. gamli bankinn) verði látið ganga til baka. Það má því segja að ofbeldið eða nauðgunin sé keyrð áfram, en reynt að láta fórnarlambinu líða örlítið betur með því að spila rólega músík á meðan..."
Þórður Björn Sigurðsson, 15.3.2009 kl. 17:01
Algjörlega sammála þér.
(IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 18:32
730 milljarða, og þá er búið að taka tillit til þeirrar fjárhæðar sem fellur á erlendu kröfuhafana.
Þessi hugmynd er tómt rugl og það vita allir sem geta hugsað hálfa hugsun.
Framlag í afskriftarreikning gömlu bankanna er til að mæta RAUNVERULEGU útlánatapi. Þau útlán munu tapast flest þó að lántakendum verði veittur 20% afsláttur.
Það sem Frammararnir klikka á að taka til greina eru þær afskriftir í kerfinu sem eru fyrir UTAN ríkisvæddu bankana, þar eru engir gamlir bankar eða erlendir kröfuhafar til að taka við niðurfærslunni. Hún lendir á okkur.
Marinó, þessi tala - sá fjöldi króna sem myndi færast beint sem kostnaður á skattgreiðendur á Íslandi ef þessi leið yrði farin, hrein gjaldfærsla á einu andartaki, væri 730,000,000,000 sjöhundruðogþrjátíuþúsundmilljónir.
70% af landsframleiðslunni.
Í hreinan kostnað.
Þetta vilja bjánarnir í Framsókn.
Liberal, 15.3.2009 kl. 23:03
"Liberal", hvernig í ósköpunum geta það verið 730 milljarðar, ef heildarskuldir heimilanna vegna húsnæðislána er á bilinu 1.300 - 1.500 milljarðar. Þér er tíðrætt um bjána, en mér sýnist sem margur haldi mig sig.
Marinó G. Njálsson, 15.3.2009 kl. 23:38
Sigmundur Davíð sagði í Silfrinu að hann hefði áhyggjur af þjóðargjaldþroti okkar - en hvernig geta líkur á því minnkað með því að gefa, með 20% jöfnum afslætti á öll lán, janft auðmönnum sem ekki þurfa þá og fjölskyldum í greiðsluerfiðleikum hundruði milljarða króna?
Og dettur einhverjum í hug að lándrottnar gömlu bankanna sem fengið hafa þær fréttir að lánasöfn gömla bankanna hafi verið færð niður um helming sætti sig við að frétta svo að það hafi verið notað til að gefa hundruði milljarða króna til þeirra sem vel gátu borgað?
Sú ákvörðun að færa niður verðmæti lánasafnanna við flutning frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju yrði umsvifalaust dæmd ógild (af íslenskum dómstólum) ef við sönnuðum sjálf með slíkri aðgerð að það hafi verið óþarft.
Helgi Jóhann Hauksson, 16.3.2009 kl. 02:04
Það er grundvallarmiskilningur um hlutverk ASÍ
Þetta eru samtök sem snúast fyrst og fremst um það að rugga ekki skútunni og að halda launþegum á mottunni.
Og auðvitað þarf helling af silkihúfum þarna til að naga blýanta á kostnað launamanna.
Snilldin í öllu þessu brölti ASÍ og annarra félaga verkalýðs er blekkingin um raunveruleg hlutverk þeirra og að koma því inn hjá skrílnum um að félögin starfi í þágu launþega.
Sama leikrit og að segja að hinir kjörnu fulltrúar standi vörð um almannahagsmuni, eins og svo berlega hefur komið í ljós að ekki var neinn fótur fyrir.
Magnus Jonsson (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 07:53
Vegna þess, Marinó, að Frammarar hafa alltaf talað um 20% niðurfellingu af húsnæðislánum OG lánum til fyrirtækja...
Liberal, 16.3.2009 kl. 08:14
Helgi, mér finnst gæta ótrúlegs misskilnings hjá þér í því sem þú segir. Það er enginn að tala um að færa eitthvað frá gömlu bönkunum í þá nýju umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Það er eingöngu verið að tala um að bankarnir greiði skuldir sínar hér innanlands og noti afskriftarupphæðina sem þegar hefur verið ákveðin til að afskrifa skuldir í ákveðinni forgangsröð. Gömlu bankarnir skulda sumum smærri fjármálafyrirtækjum í formi skuldabréfa. Staðinn fyrir að smærri fjármálafyrirtækin þurfi að afskrifa skuldirnar, þá greiði nýju bankarnir skuldirnar á einhverjum árum. Gömlu bankarnir áttu íbúðabréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Þessi bréf verði framseld ríkissjóði í staðinn fyrir skuldabréfin sem ríkissjóður keypti af Seðlabankanum. Við skulum hafa í huga, að búið er að ákveða allt að 2.800 milljarða niðurfærslu innlendra lánasafna bankanna. Húsnæðislán bankanna eru í mesta lagi 605 milljarðar. 20% af þeirri tölu (svo ég noti viðmið Framsóknar) er því 120 milljarðar, sem er vel innan við 4% heildartölunni.
Að þetta snúist um mismunun kröfuhafa eru heldur veik rök, þar sem þegar er búið að mismuna kröfuhöfum. Það var gert með því að dæla 200 milljörðum inn í peningasjóðina. Það var gert með því að tryggja innistæður að upphæð allt að 1.100 milljörðum. En þegar að á að koma til móts við þá sem skulda húsnæðislán og hafa lent í lánasamningum, sem mér kæmi alls ekki á óvart að hægt væri að rifta á grundvelli 36. gr. í lögum nr. 7/1936, þá verður allt vitlaust.
Eitt í viðbót. Okkur vantar upplýsingar um það á hvaða "gengi" einstakir hlutar lánasafnanna verða fluttir yfir í nýju bankanna. Það er svo mikil leynd yfir hlutunum, eins og það komi almenningi sem eru eigendur nýju bankanna, ekkert við.
Liberal, þessi þráður er um húsnæðislán, ekki fyrirtækjalán. Hvernig væri bara halda sig við það er sem er verið að ræða? Viltu ekki bara tala um lán til erlendra aðila líka eða þjóðarskuldir Bandaríkjanna? Ég er viss um að þú gætir fundið eitthvað áhugavert sem stangast á við minn málflutning, ef þú bætir þeim vinkli við.
Marinó G. Njálsson, 16.3.2009 kl. 08:24
Það má líka skoða þetta frá réttlætissjónarmiði. Við vitum öll að verðtryggingin er ranglát það getur aldrei gengið til lengdar að innheimta verðtryggingu sem hækkar meira en launin og auk þess okurvexti ofaná, vextir ofan á verðtryggingu ættu að vera í mesta lagi 2% allt annað eru draumórar fjárglæframanna. Hækkunin vísitölunar frá bankahruninu umfram launahækkanir er meira en þessi 20% (25%) Þannig að fjármálastofnanir eru þegar búnar að taka þessa hækkun sem þeim bar ekki að fá í raun, ef við lítum á málið af sanngirni. Ég sé heldur enga glóru í því að erlendir kröfuhafar eigi að fá hlutdeild í ávöxtun sem varð í nýju bönkunum eftir hrunið. Þeir eiga kröfu í væntanleg þrotabú gömlu bankana og en ekki þá nýju.
Sigurjón Jónsson, 16.3.2009 kl. 11:50
Sigurjón,
Þú segir að verðtryggingin sé ranglát!
Af hverju? Krónan hefur einfaldlega rýrnað gríðarlega. Verðgildi krónunnar bæði sem "gengi gagnvart erlendum gjaldmiðlum, og sem tæki til að skipta á vörum hefur einfaldlega hrapað. Það mun lítið breytast.
Ég er einfaldlega ekki að skilja þig.
Hitt skil ég þó miklu betur að þú viljir að þjóðin gefi þér nokkrar millur Gemmmmm gemmm mér gemmm mér gogginn í!!!!!!
Jóhannes (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 12:52
Mér skilst að húsnæðisbréf séu meira og minna týnd í vafningum og vafningsvafningum um allar trissur. Er ekki bara málið fyrir fólk að hætta að borga og láta reyna á það hvort bréfið sjálft finnst?
Annars fyrir utan þetta, þá leist mér vel á Simma í Silfri Egils. Hann var sá eini, sem virtist vera að reyna að finna lausn á bráðavandanum, afleiðurruglinu öllu, sem er alfa og omega í þessu öllu. Það þarf að taka á því áður en þetta springur framan í okkur.
Ég myndi kjósa framsókn með hann í forsæti, en get aldrei treyst framsókn með gömlu kafbátana, Alfreð og Halldór á bakvið tjöldin. Þeir eru m.a. það, sem mun drepa flokkinn endanlega og þeir, sem nánas tókst að eyða honum. Hvað skyldu menn ætla að gera í því dilemma.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2009 kl. 13:05
Marinó, ég er ekki að tala um það mál að kröfuhöfum sé mismunað heldur að þeir séu beinlínis rændir og við sjálf sjáum um að sanna að svo sé með því opinberlega að úthluta „fengnum“ jafnt til þeirra sem ekki geta borgað sem þeirra sem vel geta staðið í skilum með sitt.
- Það yrði umsvifalaust stórmál sem óhjákvæmilega yrði dæmt á íslenska ríkið að þurfa annaðhvort að bæta að fullu niðurfærslu lánasafans eldri banakanna með ógildingu hennar eða standa sjálft að fullu straum af niðrurfærslu lána til okkar.
Þetta myndi ógilda allar forsendur fyrir niðurfærslu lánsafns gömlu bankanna.
Helgi Jóhann Hauksson, 16.3.2009 kl. 22:51
Helgi, mér dettur helst í hug að best sé að ræða við fulltrúa erlendu kröfuhafanna. Þú heyrðir Tryggva Þór Herbertsson taka 100% undir mínar hugmyndir með yfirlýsingu sinni í dag og í Kastljósi í kvöld. Ég sé hlutina nákvæmlega sömu augum og hann. Gæði lánasafna mun aukast með svona aðgerð, þannig að endanum mun koma meira í hlut erlendu kröfuhafanna. Gylfi Magnússon er þegar farinn að segja að ríkið þurfi ekki að leggja eins mikið eigið fé í bankana. Hvers vegna heldur þú að það sé? Það er vegna þess að menn hafa verið að leggja til meiri afskriftir en gæði innlendra lánasafna bankanna segja til um.
Ég lýsi því hér með eftir aðstoð við að komast í samband við fulltrúa erlendra kröfuhafa svo hægt sé að leggja þessa hugmynd fyrir þá beint. Ég vil óska eftir því við þá, að þeir hjálpi heimilum landsins að komast út úr þeim greiðsluvanda sem mörg þeirra hafa átt við að etja undanfarna mánuði. Ég geri mér grein fyrir að sum eru í fínum málum og að öðrum verður ekki bjargað með almennum aðgerðum. En ég geri mér líka grein fyrir því að við verðum að koma hjólum neyslunnar af stað sem fyrst. Þannig fá fyrirtækin tekjur til að halda rekstri sínum gangandi. Þannig fær ríkið tekjur til að halda uppi velferðarkerfinu.
Marinó G. Njálsson, 16.3.2009 kl. 23:22
Það eru að verða sex mánuðir síðan fallið varð. Það er athyglisvert að löggjafarvald og framkvæmdavald hafa ekkert gert fyrir heimili og almenning. Lesist hægt: Hafa ekkert gert fyrir heimili og almenning. Það eru engin lög komin fram það eru engar ráðstafanir komnar fram. Þær ráðstafanir ss. niðurfelling á múghandtökum austan fjalls vegna skulda hafa reynst lygi. Þó verður að viðurkenna að komið er fram frumvarp um "greiðsluaðlögun" fyrir skuldlausa Búskmenn sem fæddir eru á Íslandi fyrir 1890.
Núverandi ríkisstjórn er ekkert skárri en sú síðasta sem hrökklaðist frá, hún skilur hlutleysisheit Framsóknarflokksins sem svo að hún ætti að vera hlutlaus og gera ekkert.
Ríkisstjórnin leggur mikið kapp á að senda frambjóðendur sína út til að rakka niður þá tillögu sem Marinó heldur fram síðast í Kastljósinu í kvöld. Mig er farið að gruna að það sé ekki af því að tillagan er góð heldur vegna þess að þetta er tillaga sem er framkvæmanleg.
Þetta sama á við um ASÍ.
Efist nú einhver, má ég benda á vef Alþingis.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.3.2009 kl. 23:34
Kristján Sigurður, tvær athugasemdir:
1. Það er ár síðan að hrunið varð sem hratt öllu af stað. Fall bankanna í október hefur sáralítið með vanda heimilanna í dag að gera. Það er fall krónunnar í mars í fyrra og verðbólgan sem fylgdi sem hefur haft mest áhrif á stöðu heimilanna. Raunar gæti ég svo sem farið aftur til seinni hluta júlí 2007.
2. Ekki var ég í Kastljósi í kvöld, þó Tryggvi hafi sett fram sömu tillögu og ég hef haldið á lofti.
Mér fannst þessi málflutningur Sigríðar að "ekki væri hægt að gera þetta vegna þess að það hafi aldrei verið gert áður" vera svo aumkunnarverður, að ég á varla orð. Ætli Wright bræður hefðu komist á loft, ef þeir hefðu verið svona þröngsýnir? Það er allt hægt varðandi skuldamál heimila og fyrirtækja, ef vilji, geta og þor er hendi. Mér sýnist sem Samfylkinguna skorti nákvæmlega þetta.
Marinó G. Njálsson, 16.3.2009 kl. 23:50
Það átti að vera komma á eftir; Marinó heldur fram, síðast í Kastljósinu....
Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.3.2009 kl. 00:45
Hvernig væri að svara?
Kristján,
Hefur ekkert verið gert fyrir fólk. Jú, nú þegar er búið að gera mörgum betur kleyft að standa við skuldbindingar sínar af lánum!!
2) Vaxtabætur hafa verið auknar gríðarlega.
Bíddu átt þú við að það eigi að gefa fólki peninga, og láta skattborgara framtíðar borga fyrir þá sem skulda??! , og þó að það verði gert þá verður fullt af fólki í vandræðum og þá þarf að láta ennþá meiri skatt.
Síðan er verið að tala hvað það er hræðilegt að fólk þurfi mögulega að lengja um nokkur ár í láninu sínu. Þetta sama fólk var ekki mikið að hugsa um unga fólkið sem stóð frammi fyrir því að geta ekki keypt sér húsnæði núna á undanförnum árum.
Eitt það ógeðfelldasta við mannskepnuna er þegar hún biður um ölmusu í skjóli græðgi. Ég bið Íslendina að henda græðginni nú þegar. Hún er svo 2008
Jóhannes (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 11:42
Það er hægt að gera margt fyrir heimili. Á meðan á skoðun mála stendur er hægt að t.d. frysta verðtrygginguna svo að lánin hækki nú ekki meira en hefur nú þegar gert. Mörg mál er verið að skoða en ekkert er gert á meðan. Ég er því nokkuð viss að þegar niðurstaða mála lítur loksins dagsins ljós þá verða orðið svo margir gjaldþrota eða svo illa staddir að hlutirnir verða enn erfiðari í framkæmd. Það mun engin segja mér að ekki er hægt að gera eitthvað. Svo annað sem þú, Marinó varst að nefna er er hvort ASÍ er að vinna fyrir launþega eða fyrirtæki. Sannaði það sig ekki svolitið í máli HB Granda fyrir hvern er þessi hagsmunasamtök að starfa?
Hvernir stendur svo á þessu Marínó að þú ert ekki farin að vinna sem ráðgjafi ríkisstjórnar um aðgerðir í þágu heimilana? Hugmyndir þínar eru mjög góðar og raunhæfar og vinnan sem þú hefur lagt við ýmis kynningar er töluverð meiri en ég hef séð frá þeim sem "stjórna landinu".
Adriana Karolina Pétursdóttir (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 12:39
Adríana, ég þakka hrósið. Mínar tillögur fóru fyrst inn á borð félagsmálaráðuneytisins með bréfi frá talsmanni neytenda um miðjan október. Gísli Tryggvason bað mig þá um að vera tilbúinn að mæta á fund með stuttum fyrirvara, þar sem honum datt ekki annað í hug, en að ráðuneytið vildi ræða þær frekar. Síðan hefur nákvæmlega ekkert gerst í þessum málum. Af þeirri ástæðu bauð ég mig fram í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og er að vinna á þeim vettvangi. Nú eru stjórnmálamenn farnir að pikka upp hugmyndir okkar, fyrst Framsókn og síðan Tryggvi Þór Herbertsson. Dropinn holar steininn. Vonandi koma einhverjar raunhæfar tillögur frá stjórnvöldum áður en það verður um seinan. Vilji ráðamenn ræða við mig, þá vita þeir hvar mig er að finna!
Marinó G. Njálsson, 17.3.2009 kl. 12:50
Stundum held ég Marínó að þeir sem vinna fyrir ríkisstjórn og ýmsar nefndir eru of tengdir þeim sem hafa einnig eitthvað að tapa (eins og bankar). Og því er verið að hlusta töluvert á þá. Það er ljóst að ef heimili fara að missa allt sitt og atvinnuleysi eykst mun samdráttur vera meiri en spáð er og þetta mun vinda ofan á sér ný og stærri vandamál. Má því nefna að ef fleiri fara að hafa minna til munns mun það gera það að verkum að börn verða tekin af leikskólum, þá þarf að segja þeim upp og koll af kolli. Við verðum að minnka greiðsluálagið sem liggur á fjölskyldum til að þeir geta áfram keypt, fjárfest eða lagt til ýmsa þátta svo ekki verði meiri samdráttur en nú þegar er og verður.
Ég er einnig viss um það að atvinnuleysi eykst verulega við lok sumars meira en margir gera sér grein fyrir. Mörg minni fyrirtæki eru á barmi þrots og það er spurning um einhverja mánuði áður en þeim verður lokað. En svo ég fari ekki og mikið út af sporinu þá held ég að verkefni nr.1 hjá öllum þeim sem þetta mál kemur við er að verja heimili en ekki bara stór fyrirtæki (þetta virðist eitthvað vera að gleymast).
Nú ertu á vettvangi heimilana, hafið þið gert rannsókn um hvaða áhrif mun 100 gjaldþrot hafa á ríkið eða hversu mikill samdráttur getur orðið við skert laun og skertn fjármagn til innkaupa?
Adriana Karolina Pétursdóttir (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 16:10
Einhver Jóhannes beinir til mín spurningum. Ég skal lána þér kr.10.000.000.- til 10 ára á 5% vöxtum. Þegar lánasamningurinn er tilbúinn bæti ég við álagi sem nemur 300%. Ég lýsi þig ölmusumann ef þú ferð að rífa þig.
Já ég er sammála um pakkið sem bíður í biðröð hjá Mæðrastyrksnefnd það er ekki 2008 heldur 2007.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.3.2009 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.