Leita í fréttum mbl.is

Verð- og gengistrygging böl heimilanna - 760 milljarða skattur á 8 árum

Greining Glitnis, nei, Íslandsbanka birtir áhugaverðar tölur um þróun skulda heimilanna.  Gerður er samanburður við skuldastöðu heimila í öðrum löndum og er staða þeirra ekki jafn slæm.  En þessi samanburður er ekki sanngjarn.  Annars vegar eru skoðaðar skuldir sem eru með höfuðstól í mynt viðkomandi lands og bera ekkert annað en hreina vexti, en hins vegar eru skoðaðar skuldir sem breytast eftir stemmningu á gjaldeyrismarkaði þjóðarinnar og hversu vel Seðlabanka og ríkisstjórn tekst að halda jafnvægi.

Skoðum þessar skuldir íslenskra heimila, ef þær væru í samanburðarhæfum lánum.  Ég geng út frá því að af þessum 2.017 milljörðum séu 1.500 milljarðar í verðtryggðum lánum, 400 milljarðar í gengistryggðum lánum og rúmlega 100 milljarðar í óverðtryggðum lánum.  Skoðum nú hve háar þessar skuldir væru, ef hér væri hvorki verðtrygging né gengistrygging.  Þá fáum við forvitnilega niðurstöðum.

Ég setti upp smá líkan, þar sem ég geri ráð fyrir ákveðinni dreifingu verðtryggðra lána eftir lántöku ári.  Til að flækja málið ekki of mikið, þá geri ég ráð fyrir 20% verðtryggðra lána hafi verið tekinn fyrir árið 2000 og síðan 10% á ári eftir það, nema að nær ekkert hafi bæst í ný verðtryggð lán á síðasta ári.  Þá kemur í ljós að upprunalegur höfuðstóll þessara lána er líklegast í mesta lagi í kringum 930 milljarðar, en verðbætur að lágmarki um 570 milljarðar eða um 38% af heildartölunni.

Nú gagnvart gengistryggðu lánunum, þá geri ég ráð fyrir að um 10% þeirra hafi verið tekin á síðasta ári, fjórðungur hafi verið tekinn árlega 2005 - 2007 og 15% 2004.   Miðað er við gengisvísitölu um mitt ár á hverju ári og að öll lánin séu gengisvísitölulán. Til samanburðar er notuð gengisvísitala Glitnis frá 31.12.2008.  Í ljós kemur að upprunalegur höfuðstóll lánanna er líklegast um 225 milljarðar eða tæp 57% af heildarupphæðinni.

Miðað við þessa útreikninga, sem eru frumstæðir og ónákvæmir en gefa vísbendingu um þróun, þá er upprunalegur höfuðstóll lána heimilanna nálægt því að vera 100 + 930 +  225 = 1255 milljarðar eða 169% af ráðstöfunartekjunum.  Afgangurinn, þ.e. 760 milljarðar, eru skattar sem heimilin greiða fyrir ónýta peningamálastefnu, getuleysi Seðlabankans, óstöðugleika krónunnar, verðbólgu, glæfraskap bankamanna og menntunarkostnað fjármálakerfisins.  Það væri örugglega hægt að hækka þessa tölu, þar sem ég tek ekki inn í greiðslur lántakenda á þessum árum, sem að stórum hluta voru verðbætur á höfuðstól og svo mesta snilldin, verðbætur á vexti!


mbl.is Skuldir heimila hækka hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessar tölur eru athyglisverðar þó svo ég taki nú öllum tölum með varúð í dag.  Þeir eru margir talnaspekingarnir í dag, sérstaklega þeir sem reikna út skuldastöðu þjóðarinnar.

Hvað skeður ef við breytum þessum verðbótaþætti í  "alvöru seðla" ? Það verður "miklihvellur" þegar þessar bólur springa !

Mér finnst það fara dálítið saman að þeir hagfræðingar og aðrir "fjármálaspekingar"sem aðhyllast verðtryggingu, eru einmitt þeir hagfræðingar sem lítið hefur verið að marka í gegnum árin og bulla mest í hópi "talnaspekinga" í dag.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 16:34

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Páll, ég hefði alveg getað reiknað þetta upp í hærri tölu, en það er kannski ekki það sem skiptir máli.  Við erum alltaf að tala um tölu í þessum stærðar flokki.  Hvort hún plús eða mínus einhver prósent skiptir ekki máli.

Marinó G. Njálsson, 20.2.2009 kl. 16:54

3 identicon

Ég var ekki að gagnrýna þínar tölur og mér finnst þessi grein þín mjög góð.  Aðalmálið er að koma þjóðinni útúr þessari "verðtryggingu", ella að fara að "verðtryggja laun" sem þótti nú óðs manns æði.

Góð hugmynd sem ég sá hjá þér með 6 % markið og þannig mætti byrja á því að keyra niður í rólegheitum þessa "seðlaprentun" eða "loftbólu" eins og ég vil kalla verðtrygginguna.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 20:22

4 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Sæll Marinó

Skemmtilegir útreikningar hjá þér og eflaust hárréttir og frábær vettvangur hér hjá þér til að rökræða þetta lánaform. Ég hef samt áður bent á að við verðum að vita "Hvað kemur í stað" verðtryggingar og svo reikna hvað mismunur tveggja valkosta og/eða fleiri valkosta kostar okkur.  Þegar þú setur fram 760 Milljarða sem viðbótarskatt er ég ekki sammála þér því verðtrygging eru í eðli sínu vextir sem bætast við höfuðstól en eru ekki greiddir strax.  Án verðtryggingar hefðu við greitt hærri nafnvexti en líklega lægri raunvexti - háð hvaða vextir hefðu verðið í boði á óverðtryggðum lánum. 

Ég óttast að þeir sem vilja afnema verðtrggingu séu að vanmeta kostnað við þau óverðtryggðu lán sem munu leysa verðtryggðu lánin  af hólmi.   Verðbótaþátturinn mun verð setttur inní nafnvextina eins og kostur er.  Því tel ég fullyrðingu þína um 760 Milljarða skatt vera ofmat. 

Sjálfur er ég hlyntur því að verðtrygging verði afnumin en verð að viðurkenna þó og því aðeins að við fáum að vita hvaða lánakjör koma í staðin.  Annars gætum við farið úr öskunni í eldinn, þó ég búist ekki sérstaklega við að það verði raunin er sú hætta til staðar.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 20.2.2009 kl. 20:31

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sveinn, við eigum náttúrulega að vera með lánaumhverfi þar sem 2,5-4% nafnvextir eiga að vera á íbúðalánum alveg eins og það er í nágrannalöndum okkar.  Við eigum líka að vera með samanburðarhæfa vísitölumælingu, þ.e. án húsnæðisliðar.  Skoðaðu þessa færslu Verðbólga sem hefði geta orðið, þá skilur þú hvað ég á við.

Marinó G. Njálsson, 20.2.2009 kl. 20:37

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Marinó

Það er hægt að skoða þetta mál frá mörgum hliðum. Í september s.l.  mætti ég á fund þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sátu fyrir svörum. Setti þá fyrir spurn fyrir Bjarna Benediktsson hvort ekki ætti að skoða þann möguleika að skipta um gjaldeyrir. Bjarni svaraði því til e.t.v. væri gjaldmiðillinn ekki aðalvandamálið, þó skoða ætti þá möguleika. Efnahagsstjórn undanfarinna ára væri ámælisverð. Þetta svar vakti athygli og góðar undirtektir fjölda áhorfenda.  Þetta var fyrir bankahrun.

Vandamálið við verðtrygginguna er að með yfirþenslu eykst verðbólga og það liggur stór hluti vandinn. Þá er ákveðin fákeppni á fjármálamarkaði, sem þýðir hærri raunvexti hérlendis en í nágrannalöndunum.

Sigurður Þorsteinsson, 20.2.2009 kl. 20:47

7 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Gott mál Marinó

Þú ert núna búin að nefna drög að valkost 2,5% til 4% vexti óverðtryggða.  Meira djúsí getur það ekki orðið fyrír lántakendur.  Eigum við ekki að vona þetta gangi þá eftir. 

Gangi þér vel á morgun.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 20.2.2009 kl. 20:54

8 Smámynd: Njörður Helgason

Það verður að gera eitthvað til að afnema þessa himinháu kostnaðarliði á Íslenskum heimilum. Gengisráf og bévítans verðtrygginguna. Ef skattar væru laðir á landsmenn í samræmi við verðtrygginguna mundi heyrast hljóð úr horni. Eins og staðan er í dag er verið að skattleggja skuldir og afkomu fólksins sem er að reyna ða koma skjóli yfir öfuð sér. Því er hengt með verðtyggingu á lánum þess langt fram eftir ævinn, eða handa afkomendum eða ættingjum að greiða.

Njörður Helgason, 20.2.2009 kl. 22:09

9 Smámynd: Njörður Helgason

Mín grein:

http://nhelgason.blog.is/blog/nhelgason/entry/805823/

Njörður Helgason, 21.2.2009 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 222
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 200
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband