Leita í fréttum mbl.is

Að ósi skal stemma: Leynifélög á Tortola afhjúpa galla í lögum

Hún er sífellt að vinda upp á sig þessi saga um eyjuna Tortola sem skyndilega allir Íslendingar vita um.  Eigendur félaganna eru sagðir óþekktir, en ég held að við vitum hverjir flestir þeirra eru.  Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, en í mínum huga eru þetta stærstu gerendurnir í hruni íslenska hagkerfisins.  Þetta er fólkið, sem nýtti sér götótt íslensk lög til hins ýtrasta.  Hákarlarnir sem rifu netin meðan við smáfiskarnir komumst ekkert.

Með fullri virðingu, þá er ekki nema ein lausn á þessu máli.  Gera þarf upptækar allar eignir þessara félaga á Íslandi!  Eftir því sem meira er fjallað um þessi félög, þá bendir flest til þess að tilgangur þeirra sé að komast hjá því að greiða skatta af tekjum og koma þeim aftur í umferð með því að  fela eignarhald.  Í mínum huga er þetta peningaþvætti, þar sem óhreinum peningum er komið aftur í umferð í gegnum skúffufyrirtæki sem enginn veit hver á eða hvernig það aflaði tekna.

Þá er nauðsynlegt að breyta reglum um fjármálamarkað og Kauphöll, þannig að allar upplýsingar verða að liggja upp á borðinu, þegar viðskipti eiga sér stað, og upplýsingar um öll viðskipti verða að vera aðgengilegar.  Krafa fjármagnseigenda og fjárfesta um sífellt meiri leynd yfir viðskiptum er ein af orsökum fjármálahrunsins.  Ógagnsæi í viðskiptum hefur aukist, þrátt fyrir reglur sem áttu að tryggja gagnsæið og rekjanleikann.  (Þá er ég að tala um svo kallaðar MIFiD reglur um gagnsæi í fjármálafærslum.)  Nú verður að vinda ofan af fáránleika eignarhaldsfélaga sem eiga keðju eignarhaldsfélaga, þannig að raunverulegt eignarhald hefur verið grafið undir þykku pappírsfargi.  Setja þarf skorður á að eignarhaldsfélögum eigi eignarhaldsfélag.  Banna þarf að félag eigi sæti í stjórn annars félags.  Skilyrða þarf að minnst einn aðili úr hópi aðaleigenda sé skráður forsvarsmaður félagsins og nafn viðkomandi sé tengt öllum skráðum viðskiptum.  Það á sem sagt ekki að vera nóg að vita að félagið AA ehf. hafi keypt hlut í Glitni eða Kaupþingi, heldur skal fylgja skráningunni að forsvarsmaður félagsins úr hópi aðaleigenda sé Jón Ásgeir eða Ólafur Ólafsson eða hver það nú er.  Vissulega gæti aðaleigandi verið hlutafélag, en þá yrðu að liggja fyrir upplýsingar um 10 stærstu eigendur þess.  Þannig verði tryggður rekjanleiki upplýsinganna og ekki þurfi að fara í fyrirtækjaskrár í mörgum löndum til að finna út hver á hvað.

Ég geri mér grein fyrir að svona regluverk þarfnast nánari yfirlegu.  Einnig verða glufur í því til að byrja með, en þær er hægt að þétta.  Mikilvægast er að setja fyrir þetta bull sem hefur verið í gangi, þar sem fáeinir auðmenn hafa í skjóli bankaleyndar í Lúxemborg og með hjálp siðblindra einstaklinga tekist að blóðmjólka samfélagið og setja það í leiðinni á hliðina.


mbl.is Félög skráð á Tortola-eyju fluttu peninga frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Var málshátturinn ekki þannig "Á skal að ósi stemma"?  En annars er ég þér algjörlega sammála. Þetta Tortola skattaskjóls ævintýri er vonandi á enda. Og íslenskir skattgreiðendur  endurheimti peningana þaðan.  Og eigendur fjárins verði handteknir og eigur þeirra gerðar upptækar.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.2.2009 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband