Leita í fréttum mbl.is

Ástæðan fyrir því að bankastjórn Seðlabankans á að víkja

Burt séð frá öllu öðru, þá tel ég vera eina ástæðu fyrir því að bankastjórn og stjórn Seðlabankans hefðu átt að víkja til hliðar í einu lagi strax um miðjan október:

  • Bankastjórn Seðlabankans, með Davíð Oddsson innanborðs, og stjórn Seðlabankans settu Seðlabankann á hausinn á sinni vakt

Það virðist enginn átta sig á þeirri staðreynd.  Ég veit ekki um neinn bankastjóra eða stjórnarmann seðlabanka á Vesturlöndum sem hefur sett bankann sinn á hausinn. Hvað þá að viðkomandi sitji sem fastast þrátt fyrir þann gjörning.

Seðlabankastjórar geta ekki skýlt sér bak við það, að bankarnir hafi hrunið.  Það er nefnilega sama skýring og eigendur Stoða, Milestone, Samson og Exista hafa ekki fengið að nota.  Þau fyrirtæki, alveg eins og Seðlabankinn, stóðu ágætlega alveg þar til eignir þeirra í bönkunum urðu að engu á þremur svörtum dögum í október. 

Seðlabankastjórarnir settu bankann á hausinn, en eigandi bankans borguðu hann út úr klípunni með því að kaupa af honum verðlitla pappíra.  Það er nefnilega allt í lagi að stjórnvöld skipti sér að bankanum, þegar allt komið í óefni, en þau mega setja fram þá kröfu, að mennirnir sem settu bankann á hausinn stígi til hliðar.

Nú spyr ég bara hæstvirtan fjármálaráðherra:  Er búið að greiða 270 milljarðana inn í Seðlabankann?  Ef ekki, þá er bara að neita að borga nema að bankastjórar og stjórn bankans víki.  Einfaldara getur það ekki verið.  Ríkisstjórnin telur núverandi stjórnarherra í Seðlabankanum vera vanhæfa til að halda verkinu áfram og því er eðlilegt að svona krafa sé sett fram.

Bendið mér á einhver eiganda fyrirtækis, sem hefur leyft framkvæmdarstjóranum að halda starfinu sínu, eftir að hann tapaði á einu bretti 345 milljörðum.  Ég veit ekki um neinn.  Auk þess held ég, að ekki sjái fyrir endann á þessum afskriftum.

Þannig að burt séð frá skoðun fólks á Davíð og hvort hann hafi varað við fallinu eða ekki, þá fór Seðlabankinn í þrot á hans vakt.  Það er næg ástæða fyrir því að hann, Ingimundur, Eiríkur, Halldór Blöndal, Hannes Hólmsteinn og aðrir stjórnarmenn eiga að segja af sér.  Þetta kemur ekkert því við hvaða menntun menn hafa, í hvaða stjórnmálaflokki menn eru, hvort menn standist hæfisreglur eða hvað það er nú annað sem fólk hefur borið fyrir sig.  Þetta eru bara hreinar og beinar staðreyndir um að þeim tókst hrapalega til og eiga þess vegna að víkja.


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Svona einfalt er þetta nú. En það er ótrúlegt hvernig fólki tekst að fara með málið um víðan völl. Davíð segir hinsvegar aldrei af sér, það er fjallgrimm vissa fyrir því......

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 8.2.2009 kl. 20:46

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Yfirmaður Seðlabankans er Forætisráðherra og Davíð óskaði eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Sú ósk var hunsuð. Hver er sök Davíðs, aftur?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2009 kl. 20:50

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það fer eftir því hvaða verkfæri þú ert að tala um

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2009 kl. 21:04

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Davíð segist hafa varað Geir við bankahruninu.  Geir segist ekki muna eftir viðvörun um hrun bankanna. 

Annar þeirra segir ósatt.  Hvor ?

Góður pistill Marinó.

Anna Einarsdóttir, 8.2.2009 kl. 21:51

5 identicon

Sammála þér Marínó.

Davíð Oddsson er engu minni óreiðumaður en þeir sem hann gagnrýndi.

Traust á honum er við alkul.

Eigum við að borga skuldir óreiðumanna!

Nei takk, segi ég.

TH (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 22:02

6 Smámynd: AK-72

Langar til að benda á eitt atriði með Davíð, Seðlabankann og viðvaranir. Davíð segist hafa sagt við Geir, síðastliðið sumar, að 0% líkur væru á því að bankarnir myndu lifa af. Nokkrum mánuðum síðar þá lánar Seðlabankinn Kaupþingi hellings fé. Ef það voru 0% líkur, hversvegna er þá Seðlabankinn að lána fé til bankanna um haustið? Hversvegna var þetta ekki stöðvað? Er þetta ekki í hrópandi ósamræmi?

AK-72, 8.2.2009 kl. 22:04

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Enn sem fyrr dregur þú, Marinó, fram kjarna málsins á skýran og skilmerkilegan hátt!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 00:08

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er mjög góð samantekt hjá þér Marinó. - Seðalbankinn fór á hausinn 150 milljarða yfir strikið og bankastjórar hinna bankanna voru allir búnir að missa vinnuna um leið og bankinn þeirra rúllaði. - Að auki eru svo um 20-30 aðrar fullgildar brottrekstrarástæður.

Helgi Jóhann Hauksson, 9.2.2009 kl. 00:12

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar Th., ég dáist alveg að því hvað þú verð það "óverjanlega" aftur og aftur.  Það skiptir ekki máli hver er yfirmaður Davíðs (og þú hefur líklegast tekið eftir því að ég var ekki að fjalla um Davíð einan, heldur alla yfirstjórn Seðlabankans.  Davíð er samt kóngurinn og verður það alltaf.

En þrátt fyrir að Davíð hafi varað, að eigin sögn, við falli bankanna og sagt, að eigin sögn, að það væru 0% líkur á því að bankarnir hefðu þetta af, þá hækkuðu lán Seðlabankans til fjármálafyrirtækja um eitthvað í kringum 300 milljarða frá janúar og fram í september 2008.  Þessir 300 milljarðar eru nokkuð nærri þeirri upphæð sem þurfti síðan að afskrifa á kostnað okkar skattborgaranna.  Davíð og félagar hafa því kostað mig og þig og alla landsmenn um 1.000.000 kr. á haus umfram launakostnað og rekstrarkostnað þessa 9 mánuði þrátt fyrir að hafa varðað við og vitað að þetta væri vonlaust. 

300 milljarðar eru tæplega 1,1 milljarður á dag þessa 9 mánuði, 45 miiljónir á klukkustund, 750.000 á mínútu og 12.500 á sekúndu.  Svo eru menn að segja að Straumur hafi sett Íslandsmet í tapi.  Þeir komast ekki með tærnar þar sem Seðlabankinn er með hælana.  Og það er þess vegna sem bankastjórn og stjórn Seðlabankans eiga að víkja.  Allar aðrar ástæður skipta ekki máli.

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 00:29

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Karl, ég vil ekki svona orðbragð á þessari síðu og því eyddi ég athugasemdinni þinni.

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 00:31

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tek undir með Helga Jóhanni að auk þeirrar ástæðu, sem ætti að blasa jafnt við hverjum sem er, þá eru þær miklu fleiri ástæðurnar sem rökstyðja það að stjórn Seðlabankans víki. Davíð Oddsson hefur, hvort sem honum líkar betur eða verr, gert sig sekan um mun fleiri brot í starfi seðlabankastjóra en þeir hinir. Hundsunin og óvirðingin sem kemur fram gagnvart forsætisráðherra landsins í bréfinu hans er eitt þeirra.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 00:39

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Anna, seðlabankstjóri sem ekki ber fram með formlegum, skriflegum og skráðum hætti viðvörun sína til forsætisráðherra um að allar líkur séu á hruni bankakerfis landsins, svo ekki sé talað um ef hann í alvöru hefur talið 0% líkur á að bankarnir héldu velli, er fyrir þá sök algerlega að bregðast skyldum sínum.

Getur einhver í alvöru ímyndað sér seðlabankastjóra lands sem telur sig komast að því að bankakerfi landsins muni örugglega hrynja og gerir ekki ríkisstjórn sinni formlega með skráðum hætti grein fyrir slíku vandamáli.

Helgi Jóhann Hauksson, 9.2.2009 kl. 00:43

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Rakel, ég er alveg sammála því, en þessi ástæða sem ég nefni er ein og sér nægileg til að bankastjórar og stjórn Seðlabankans víki sæti.  Bréfið hans er náttúrulega kapituli út af fyrir sig og hafi Jóhanna gert eitthvað sem ekki tíðkast á Vesturlöndum, þá er bréf Davíðs í besta falli eitthvað sem maður hefði búist við frá Mugabe og hans fylgifiskum.  Í flestum löndum heims væri bréfið eitt og sér næg ástæða til að yfirgefa sviðið.  Og það sem meira er, menn hefðu misst öll sín eftirlaun.

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 00:47

14 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nákvæmlega en eins og ég sagði hér á undan þá dáist ég að hæfileika þínum við að draga alltaf fram mikilvægasta atriðið eða kjarna þeirra mála sem þú fjallar um hér á skýran og skilmerkilegan hátt.

Ég er enn þá hugsi út af þessu bréfi og þykist sjá að það hefur valdið þér vangaveltum líka. Velti því fyrir mér hvort ég á að skrifa eitthvað um þetta mál líka á mínu bloggi. Sýnist það reyndar vera að bera í bakkafullan lækinn þar sem svo margir eru þegar búnir að tjá sig um málið.

Ég held að ég bíði bara átekta og treysti Jóhönnu Sigurðardóttur til að leysa úr vandanum. En ef ég á að vera alveg heiðarleg þá vildi ég óska þess að ég gæti veitt henni einhvern raunverulegan stuðning í öllu þessu erfiða máli!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 01:06

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Rannsóknarnefndin mun skila niðurstöðum sínum í nóvember. Ég get alveg beðið rólegur þangað til, en vinstrimenn virðast logandi hræddir við niðurstöðurnar og vilja því drífa aftökurnar af áður en það er um seinan. Ég skil þá vel, þeir hafa engin úrræði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2009 kl. 01:10

16 identicon

Ég held að þegar í árslok 2007 hafi menn gert sér grein í hvað stefndi og Seðlabankinn hafi gert ráðamönnum grein fyrir þessu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir viðurkenndi í viðtali á RÚV rétt eftir hrunið að hún hefði átt 6 fundi vorið 2008 með Davíð Oddssyni. Heldur þú virkilega að þetta hafi verið eitthvað ”vinaspjall”? Hún vildi ekki láta uppi hvað hafi verið rætt á þessum fundum og fór reyndar í flæmingi þegar að þessu var spurt. Síðan þá hefur enginn spurt að þessu. Breytir það ekki málum ef svo væri að ríkisstjórninni hefði verið gerð grein fyrir þessu en þeir ekki gert neitt. Það hefði væntanlega þurft að setja lagabreytingar og bráðabirgðalög til að víkka heimildir Seðlabankans. Þessi staðreynd að fjármálakerfi landsins var að hruni komið tel ég að hafi þá orðin ljóst eða hefði átt að vera flestum lykilráðamönnum á Íslandi ljóst. Við þessu var ekki brugðist. Af hverju ekki. Hvað vissu menn/konur ? og af hverju var ekkert gert? Þetta eru lykilspurningarnar. Það þýðir ekkert að skýla sér á bak við skýrslugerð því þetta varð að fara með eins og mannsmorð.

Mér líst verr og verr á ástandið. Þessi umboðslausa minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstrigrænna með flugfreyjuna Jóhönnu í fararbroddi er hjákátleg að mínu mati. Mér fannst fyrri stjórn slæm en þessi er gjörsamlega ráðalaus. Enda fjallaði Spaugstofan um hana í þættinum ”Umhverfis kreppuna á 80 dögum” og er klárlega vísun í það að þeir eru gjörsamlega ráðalausir og það eina sem þeir gera er að sitja í stólunum fram til kosninga. Þeir draga til baka þær litlu sparnaðaraðgerðir fyrri stjórnar og koma engar með í staðinn.

Það eina sem þeir eru sammála er að reka Davíð. Því virðast þeir meira að segja vera verið að klúðrað á síðustu metrunum. Auðvitað ættu þeir fyrst að fá í gegn frumvarpið um breyting á Seðlabankanum og stjórn hans og slá saman Seðlabankanum og FME á Alþingi og þegar það væri samþykkt þá gætu þeir rekið Davíð ef hann hætti ekki þá sjálfviljugur. Í raun ætti hann að hætta fyrir löngu. Þetta átti að verða einhvert pólitísku ”stunt” frá flokkskrifstofu Samfylkingarinnar. Jóhanna birt uppsagnarbréf í fjölmiðlum samtímis því að þetta var sent heim til hans meðan hann var erlendis. Þarna er Davíð á heimavelli enda vanur mótlæti og verður ennþá þverari og erfiðari. Held raunar að Davíð ætli að þreyta þau enda skorti ríkiststjórn lagaheimild til að reka hann úr Seðlabankanum það veit Davíð og nýtir hann sér þennan klaufalega afleik Jóhönnu og Samfylkingarinnar til hins ýtrasta kemur væntanlega til með að sitja hvað fastast og líklega situr hann út allan hennar feril sem forsætisráðherra og segir af sér sjálfur þegar hennar tími er liðinn, það kæmi mér ekki á óvart.

Annars hefur Samfylkingin beinlínis verið staðin að lygum þegar vaxtahækkunin upp á 18% kom. Össur og ISG þóttust ekkert vita um þetta og kenndu Seðlabankanum um  meðan þetta stóð skýrum stöfum í samkomulagi því sem þau sjálf sem ráðherrar í ríkisstjórninni höfðu ritað undir.  Þetta sagði Davíð berum orðum í fyrirspurnartíma og við það fyrtust þau mjög.
Það var talað um að Davíð hefði komað af stað hryðjuverkalögum á Ísland og það hefur einnig reynst rangt.
En óháð því þarf að enduskipuleggja Seðlabankann og mikilvægast er að athuga að ef satt er að ríkisstjórn hafi ekki viljað bregðast við ábendingum Seðlabankans.  Það sem þarf að koma fram er hvað var vitað og hvers vegna var ekkert gert.

Gunnr (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 02:26

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hmmm... ég er að verða búin að setja inn svo margar athugasemdir hérna inn að þetta fer að jaðra við einelti en miðað við það sem kemur fram hér hjá Gunnr á undan verð ég að benda á skýrslu og sláandi myndir sem hennar og annars staðar af vef Seðlabankans sem Andrés Magnússon sýndi á borgarafundi hér á Akureyri í dag. Slóðin inn á skýrsluna er hér en myndina hér fyrir neðan má finna hérna líka.

Photobucket

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 03:03

19 identicon

Já Rakel,

Þetta var skuldastaða þjóðfélagsis og í raun var staða bankanna orðin mjög alvarleg þegar í 2007. í ársbyrjun 2008 tel ég að allir ráðamenn þjóðarinnar hafi vitað þetta en ekki gert neitt.  FME hafi verið nokkurs konar blaðafulltrúi bankanna og menn búið til Pótemkintjöld um íslenskan efnahag.  Ljóst er að það hefði mátt forða miklu ef gripið hefði verið til aðgerða fyrr.  Ljóst er að Seðlabankinn hafði ekki nauðsynleg tæki til að yfirtaka eða yfirstýra bönkunum.  Til þess hefði þurft lagabreytingu. Maður sá hvernig Glitnismenn vörðu sig með kjafti og klóm jafnvel þrátt fyrir að bankinn var hvínandi gjaldþrota.  Bæði gjaldþrota á lausafé og veð.  Man ekki betur en að þú Marínó áleist að það hefði hrundið af stað hruni bankanna að Glitnir var þjóðnýttur og gagnrýndir tap hluthafa Glitnis og ábyrgðarleysi Davíðs (!).  Mikið vatn er runnið til sjávar síðan þá og núna tæpum 5 mánuðum seinna líta flestir þetta öðrum augum.   Þeir sem gagnýndu Seðlabankann harðast fyrir að ekki lána bönkunum nóg eru núna að gagnrýna Seðlabankann fyrir að hafa lánað þeim.......hmmm.  Það sem er spurningin hvað vissu ráðamenn og í raun ættu að hafa vitað og af hverju var ekkert gert? Hvað fór fram á fundum Seðlabankastjóra með ISG og fleirri ráðamönnum.  Af hverju kemur þetta ekki fram?

Óháð því þarf að endurskoða lög um Seðlabanka og FME, lög um innherjaviðskipti og hlutabréfamarkað og þrengja eignarhald í gegnum skattaskjól.  Enda er sagt að 50 % af eignarhaldi í bönkunum var í gegnum skattaskjól.  Minni á orð forseta Bandaríkjanna um þetta.

"You've got a building in the Cayman Islands that supposedly houses 12,000 corporations. That's either the biggest building or the biggest tax scam on record." Barack Obama, Saturday, January 5th, 2008

Annars ætti Davíð ásamt fleirrum að kasta sér á sverðið og hætta, en það hugsa ég ekki gerist í bráð, því miður....

Gunnr (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 03:52

20 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Rólegur í blindri sjálfstæðisdýrkun þinni Gunnar Th. Opnaðu augun maður!

Páll Geir Bjarnason, 9.2.2009 kl. 03:54

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnr, ég hef aldrei áttað mig á þessu "umboðslaus".  Getur þú skýrt þetta út?  Af hverju er þessi ríkisstjórn "umboðslaus"?

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 07:23

22 identicon

Umboðslaus er kannski ónákvæmt.  það sem ég vildi árétta að þetta er minnihlutastjórn og minnihlutastjórnir geta ekki gengið að vísu að þeirra frumvörp komi í gegnum þingið. Hún hefur mjög veika stöðu til að setja bráðabirgðalög vegna þess að hún þarf að hafa þingstyrk til þess.  Þannig verður hún umboðslaus. Þingi verður slitið væntanlega mánuði fyrir kostningar og væntanlega verður erfitt að koma málum í gegn fyrir þann tíma. Auk þess virðist ekki eiga að gera eitt eða neitt.  Af hverju bíða eftir kosningar.  Núna hafa þeir möguleika á að spila út spilunum sínum.  En það er að verða hverjum manni augljóst. Keisarinn er ekki í neinum fötum.  Þeir vita í raun ekki sitt rjúkandi ráð.  

Í raun er þetta dæmi með Davíð dæmigerður pólitískur afleikur og algjör aulaháttur.  Þeir áttu að hafa tilbúið vandað frumvarp sem þyrfti að hraða í gegn og síðan losuðu þeir sig við kallinn.  Núna eru þau búin að skjóta sig í fótinn.  Pólitískir andstæðingar þar á meðal Framsóknarflokkurinn mun njóta þess að niðurlægja Samfylkinguna með þessu enda gefur hún höggstað hér á sér.  Þetta veit Davíð og kemur til með að sitja sem fastast. Hann verður miðpunktur athyglinnar enn eina ferðina.   Ég er enginn aðdáandi Davíðs og hef aldrei skilið þessa dýrkun og hatur á einum manni.  Annars held ég að menn hafi stórlega ofmetið þátt hans í þessu dæmi öllu saman. Hann er frekur karl í litlum Seðlabanka í litlu landi. Hann var nú búinn að þegja þunnu hljóði í næstum 3 mánuði sem var alveg ótrúlegt.  Þannig að ég skildi ekki þetta flaustur. 
Verst er að þessi umæða um DO tekur fókusinn frá því sem er höfuðatriðið að endurskipuleggja fjármálalífið með nýrri lagasetningu, slá saman FME og Seðlabankankan endurskoða lög um innherjaviðskipti, peningaþvott og skerpa á fjármálsiðferði með bættri reglugerð. Allt er þetta á eina leiðina Samfylkingin segir að við eigum að taka upp € og ganga í Evrópubandagið en þá þurfum við ekki seðlabanka ? Væntanlega gera þeir sér grein fyrir því að sú umræða er eins og annað gutl um að það væri fínt að hafa annan gjaldmiðil (sem því miður við ekki höfum og fáum ekki á næstunni), um að hefja aðildarumræður að Evrópubandalaginu (sem gæti verið skynsamlegt og fá það á borðið hvað við fáum en hjálpar okkur ekki) um endurskoðun á stjórnarskránni (Sem hefði átt að gera fyrir löngu og er allt annar handleggur og í raun ekki stjórnmálamanna að gera það). Það er eins og fólk vill frekar ræða en það sem þarf að gera núna og ætti að vera byrjað á fyrir löngu. Greina stöðuna hvað er til úrlausnar segja fólki sannleikann og leggja þetta undir þjóðina. Mér finnst við engu nær 4 mánuðum eftir hrunið.

Gunnr (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 08:40

23 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Slakt aðhald í peningamálum og hjá hinu opinbera síðustu ár ýtti undir sýndargóðæri, verðbólgu og viðskiptahalla.

Menn sem eru á vaktinni á þeim tíma sem þetta gerist eru ábyrgir.

Það hefði ekki borgað sig að skuldsetja þjóðina nema vegna þess hversu sterkt gengið var, innflutningur var á útsöluverði.  Innflutningur er alveg eins neysluvörur, fjárfestingavörur, erlendar eignir og skuldir.

Hækkandi verðbólga vegna þensluhvetjandi aðgerða Seðlabanka og ríkisstjórnar ollu því að hækka varð stýrivexti sem styrki gengi krónunnar langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Þessi kreppa er ekki bönkunum að kenna, heldur peningastefnu Seðlabankans síðust ár og hagstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu þurfa að axla ábyrgð og segja af sér.

Lúðvík Júlíusson, 9.2.2009 kl. 09:54

24 identicon

Bíddu við Lúðvik.  Valgerður Sverrisdóttir var bankamálaráðherra frá 2003 - 2006 og var fagráðherra einkavæðingarinnar þeas viðskiptaráðherra.  Finnur Ingólfsson var Viðskiptaráðherra 1995-1999. Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra frá 2004 til 2006.  Þannig á þessu tímabili hafa þeir haft bæði viðskipta forsætisráðherra. Síðan má lengi upp telja.  Þessi einfalda söguskoðun um að Sjálfstæðisflokkur einn beri ábyrgð stenst ekki en ljóst er að þeir beri mikla ábyrgð.

Sammála um slakt aðhald í útgjöldum hins opinbera síðustu árin og núna virðist ekkert að gerast í þeim málum ...

Ef maður lítur á hagstjórnartækin sem Seðlabankar hafa eru þau alls staðar þau sömu í flestum löndum.  Áhrif á vaxtastig. Vextir eru hækkaðir eru vextir til að minnka þennslu og kæla hagkerfið og þennslan hefur verið gríðarleg síðustu árin.  Það er lítill sparnaður á íslandi og mikil lánsfjársþörf. Framboð er lítið af lánsfé meðan eftirspurnin mikil.  Það þýðir að vextir verði háir.  Það að hafa neikvæða vexti er náttúrulega brot á allri hagfræði.  Vandamálið á Íslandi hefur verið ofskuldsetning.  Vaxtahækkanirnar sem áttu að draga úr þenslu hækkar krónugengið.  Á sama tíma var gríðarlegt offramboð af fjármagni í alþjóðahagkerfinu.  Bæði hið opinbera í gegnum Íbúðarlánasjóð og bankarnir svínuðu á Seðlabankanum og fluttu inn erlent lánsfé í stórum stíl.  Yfir 70% af skuldum fyrirtækja og yfir 20% af skuldum einstaklinga skilst mér að séu í erlendri mynt og fyrir þennan hóp hefur gengi krónunnar afgerandi þýðingu.  Vaxtaverkfærið virkaði ekki og í raun og gáfu aðilar Seðlabankanum langt nef.  Það sem ég hef í raun aldrei skilið af hverju Seðlabankinn afnam bindiskyldu bankanna það voru mestu mistökin að ég tel. Þetta snérist við þegar alþjóðlega lánsfjárþurð kom eins og við vitum.  Vandamálið varð augljóst  þegar gengi krónunnar hrapaði við hvert ársfjórðungsuppgjör frá 2008 þar til allt hrundi.  Það gerði náttúrulega ennþá erfiðara að lækka stýrivexti það myndi hleypa botnlokanum úr krónugenginu.  Síðustu stýrivaxtahækkanir hafa verið ákvaðnar af IMF sem núna heldur um stýrið og það er gert til að hækka krónugengið og það veldur náttúrulega þeim óæskilegu áhrifum að  kælingin í  hagkerfinu verður enn meira og er það komið langt niður fyrir frostmark.  Á hinn bógin mun vaxtalækkun með þessari verðbólgu sem nú er rýra gengi krónunnar auka á skuldabyrði lána í erlendri mynt og í gegnum verðtrygginguna sem ég hef alltaf haft óbeit á. Þetta mun auka á verðbólgu.  Þannig erum við komin út á jarðsprengjusvæði.  Allar ákvarðanir sem virka jákvætt í eina átt virka neikvætt í aðra átt. 

Í raun sýnir þetta hvað þetta er erfitt sérstaklega þar sem krónan var veikur fótur undir þetta gríðarlega stóra og óstöðuga fjármálkerfi.  Til viðbótar bætist við léleg lagaumhverfi og ekkert eftirlit og allt ávísun á algjört siðleysi og lögleysu eins og við erum núna að uppgötva. Það að halda að Ísland ætti og gæti orðið fjármálastórveldi var nátturulega hreinræktuð bilun enda dæmt til að mistakast.  Höfuðmistökin voru gerð við einkavæðingu bankanna og þar eru mistökin stærst. Einnig hafa björgunaraðgerðirnar fyrir og eftir hrunið verið ein samfelld sorgarsaga sem er að breytast í hryllingssögu.

Gunnr (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 10:50

25 identicon

Ofsalega áttu bágt herra Gunnr. Að þú skulir ekki að sjá að hlutirnar hafa einmitt verið að gerast síðan hin "umboðslausa" stjórn tók völdin. Björgvin sagði af sér fyrstur manna, rak FME, nýtt fagfólk komið í ríkistjórn, Davíð verður látinn fara-vittu til og svo verður fundur á morgun hjá Jóhönnu eins og þau töluðum um að gera. Við fáum að vita eitthvað og það gerir gæfumunin. Geir Hilmar var búinn að standa allt of lengi að klóra sér í hausnum. Allt þetta hefur gerst á einni viku og fyllir mann von og trú á að þetta verði hægt eftir allt saman. Einungis löng hvíld sjálfstæðismanna og hugsjónir(peningar og völd hugsjón)  þeirra koma okkur niður á botninn aftur. Því er mikilvægt að hugsjónir jafnaðarmanna fái nú að vinna þessi verk, vissulega skítverk, en öðruvísi förum við ekki í gegnum þetta.Jóhanna og hennar lið talar fyrir fólkið í landinu en ekki örfáa sem hafa peningavöld. Sá tími er liðinn, óþolandi hugsunarháttur sem verður að nú að fá langa pásu. Og þá meina ég langa. Annars er ég farin héðan. Og það viltu ekki Gunnr!

Lifið heil öll sömul

Kristín (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 11:00

26 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristín, hinn mjög svo góði bloggvinur minn, Gunnr, sér hlutina í úr fjarlægð frá Noregi.  Hann hefur það fram yfir okkur á klakanum að vera ekki á kafi í súpunni.  Mér finnast innlegg hans vera ákaflega forvitnileg út frá því.  Fyrir utan að oft ratast kjöftugum satt á munn!  Ég vil því biðja þig um að lesa innlegg hans út frá innihaldi ekki orðalagi og þá sérðu að í þeim er oftast sá sannleikur sem við hin erum ekki tilbúin að hlusta á.

Gunnr, það er rétt að hátt hlutfall lána eru gengistryggð, en á móti kemur að Nýja Kaupþing er búið að ákveða að setja 67,7% af skuldum viðskiptavina sinna á Íslandi á afskriftarreikning.  Það þýðir að bankinn getur gefið eftir allar þessar erlendu skuldir innlendra aðila og samt eftir nóg til að færa niður verðtryggð lán.  En þetta er umræða, sem á heima á þræðinum Heggur sá er hlífa skyldi - Nýi Kaupþingbanki í ham 

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 11:29

27 identicon

Sæl og blessuð Kristin. 

1) Björgvin var ráðherra í stjórn Geirs hann var aldrei ráðherra hjá Jóhönnu. Þannig að stjórn Jóhannu getur ekki eignað sér þetta.  Björgin lét sig falla á sverðið og ættu að mínu viti fleirri að hafa farið að hans fordæmi og það fyrir löngu síðan. Dýralæknirinn og fyrverandi fjármálaráðherra stjórn og bankastjórar Seðlabankans og mestur hluti þingheims.  Þá á ég einnig við þá sem mærðu Baug og Jón Ásgeir.

2) Eina sem eftir situr er þetta fjölmiðlabréf frá Jóhönnu sem virðist vera vanhugsaður afleikur. Hún ætlaði að skora pólitisk stig en þetta  virðist snúast í höndum hennar.  Ef faglega hefði verið að þessu staðið ætti hún fyrst að fá frumvarp um Seðlabankan í gegnum þingið fyrst. Síðan tala við Davíð. Sjórnin hefur ekki meirihluta á þingi. Davíð fullyrðir í sínu bréfi að þeir hafi ekki þingstyrk til að koma þessu frumvarpi í gegn. Sýnir hann þar í raun sitt rétta andlit sem stjórnmálamaður.  Hvernig veit hann þetta?  Eiginlega bjóst ég ekki við að hann myndi svara þessu bréfi.

Var ekki annars Davíð sem sendi Sverri Hermannssyni harðort bréf þegar hann var Landsbankastjóri ríkisbanka og Davíð þá forætisráðherra.   Já sagan er skrítin.

3) Annars virðist ekkert gerast neitt efnahagsmálum hja þessari ríkisstjórn sem virðist ráðlaus. Líkindin frá því fyrir 30 árum síðan þegar minnihlutastjórn jafnaðarmanna þá undir gunfána Alþýðuflokksins eru sláandi. Áratuga eyðimerkurganga Alþýðuflokksins var hlutskiptið eftir það. Núna virðist Samfylkingin vera að losna í límingunni.  Kvennalista-, Þjóðvaka-, Alþýðubandalags og Alþýðuflokksarmurinn.  Össur og Ingibjörg Sólrún virðast ekkert vera í neinu vinfengi og fyrrum varaformaður.  Ingibjörg er veik og hefur ekki viljað gefa frá sér keflið allt er þetta stór veikleikamerki á flokki.

4) Eignlega er mér nákvæmlega sama hvort þú Kristin býrð á Íslandi eða ekki enda bý ég þar ekki sjálfur og hef ekki síðustu 2 áratugi. 

Gunnr (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 11:43

28 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gunnr, þú segir: "Ef maður lítur á hagstjórnartækin sem Seðlabankar hafa eru þau alls staðar þau sömu í flestum löndum.  Áhrif á vaxtastig."

Þetta er akkúrat sá einkennilegi minimalismi í hagstjórn sem hefur komið okkur í þessi vandræði.

Það eru til ótal önnur hagstjórnartæki, td. aðhald útlánum, td. lækka veðhlutfall hlutabréfa og húsnæðis, skattabreytingar, aðhald í ríkisfjármálum og fleira.

Vextir geta aldrei verið eina tækið í hagstjórn.  Þó að hér hafi menn verið að gera sömu mistök í peningastefnu þá eru það mistök samt sem áður og menn verða að bera ábyrgð á því.

En auk þess er gjaldþrot Seðlabankans og lánveitingar hans til banka sem hann sagði að væru á leið í þrot vítaverð vanræksla og menn hafa verið látnir fara fyrir minni sakir.

Lúðvík Júlíusson, 9.2.2009 kl. 12:31

29 identicon

Einn smá punktur.

Það var fyrri ríkisstjórn sem skrifaði undir samninginn við IMF.

Svo hvurn skollan getur þá þessi ríkisstjórn gert þegar búið er að binda hendur hennar? Ætli það taki ekki tíma að finna smugur í samningnum sem hægt er að nýta?

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 14:35

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Davíð vildi breyta lögum um að háttsettir ríkisstarfsmenn fengju óhreifanlega ráðningasamninga. Ögmundur Jónasson VG og einhverjir kratar líka, stóðu í vegi fyrir því. Hversu hlálegt er það?!

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2009 kl. 15:09

31 identicon

Já þar er ég fyllilega sammála þér Lúðvík.  Það hafa verið gerð gríðarleg hafstjórnarleg mistök á Íslandi. Flestar Þessara aðgerða sem þú nefnir eru ekki á valdi Seðlabankans. Stærsta tel ég ábyrgð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og seinna Samfylkingarinnar í að stíga ekki á bremsurnar eins og þú réttilega bendir á.  Það er ríkistjórn á hverjum tíma sem afgreiðir ríkisfjármálin og það hefur verið stöðug þennsla í ríkisútgjöldunum. Það sem hefði náttúrulega átt að gera er að hækka álögur og skatta til að kæla ástandið niður það er gert í öðrum löndum.  Hér völdu menn þá leið að lækka skatta á matvörur og auka á lánveitingar til húsnæðiskaupa sem bjó til eignabólgu eins og bent hefur verið á með allt að 4 földun á eignaverði fra 1998 til 2008 og 3 földun síðustu 6 árin og þetta að mínu viti allt eftir að ganga til baka. Þar gekk ríkið sjálft fram auk þess sáu einkabankarnir um að auka aðgang að eyðslulánum.  Þessi eyðla jók tekjur ríkisins gegnum veltuskatta og ríki og einstakir þingmenn komu í gang all kyns framkvæmdir sem ennþá jók á þennsluna.  Alþingi ber ábyrgð á lagarammanum sem Seðlabanka og einkabönkum og viðskiptalífi ber að fylgja ekki gleyma því. Auk þess var einkavæðing bankanna skandall og ekki hægt að kenna Seðlabankanum en Davíð var þá í forsætisembættinu og málaflokkurnn var undir Valgerði Sverrisdóttir.

Íslenska hagkerfið keyrði fram á brúninni á fullum hraða meðan ríkið steig á bensíngjöfina með auknum framkvæmdum ofl meðan Seðlabankinn steig á bremsuna með því að hækka vexti og  reyna að kæla allt niður.  Bankarnir voru stjórnlausir og greinilega í höndum reynslulausra manna.  Það var geysilegt fjármagn í boði á lágum vöxtum og af skammsýni var þessu pumpað inn til landsins vegna þess að þeir græddu á vaxtamuninum og þetta allt saman tjakkaði upp krónunna sem síðan ennþá jók á eyðsluna og svona gekk þetta.  Þetta var eitt alsherjar klúður og ég man ég var að kommentera á þetta meðal annars oft um þetta m.a. á bloggið hans Marínós.  Meðan krónan var í hæstu hæðum var fólk talið á að taka lán bundið við erlendar myntir oft kallað myntkörfulán, sem er náttúrulega óðs manns æði að mínu viti á þeim tíma.   Væntanlega er enginn að bjóða myntkörfulán núna þegar það er kannski orðið eitthvað vit að taka það.
Auðvitað á Seðlabankinn sína sök að halda ekki betur ásam FME í eyrun á þessum bankamönnum. Því miður virðast menn ekkert hafa lært og kenna eingöngu Seðlabankanum um nánast allt.  Hagstjórnartæki Seðlabankans er vextir, bindiskylda sem af einhverjum ástæðum var afnumin.  Veit einhver af hverju hún var afnumin.  Það hefði verið kjörið verkfæri til að draga úr lánsfé úr umferð.

Gunnr (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 17:12

32 identicon

Eitthvað er líkt með ykkur Gunnar og Gunnr! Þið hugsið ekki lengra en nefið ykkar nær. Við þurfum breyttan hugsunarhátt. Það er allt og sumt. Við þurfum fólk sem þorir að taka skrefið fyrir hin venjulega almenning í landinu. Það er nú bara þannig að sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur eru gjörspillitir klíkuflokkar og sumir hinna almennu halda í fáfræði sinni að þeir tilheyri þessari vitleysu. Svo er ekki. Nú er það Jóhanna og Ingibjörg sem með aðstoð fagaðila sem þær hafa svo lystilega fengið til liðs við ríkisstjórnina sem geta með hæfileikum sínum komið þessari þjóð til hjálpar. Ingibjörg sem hefur talað um nýja mynt lengi, þessi kona er afburðaklár og hefði þurft að komast til valda fyrir löngu. Þá værum við ekki stödd svona illa í dag. Leyfum þeim að taka þetta að sér. Það fyllir mann trú á það góða og rétta í lífinu. Frjálshyggju fólk ef eitthvað er eftir fyrir utan þá Knoll og Tott(Gunnar og Gunnr) mega leggjast undir felld í allavega 12 ár.

Það yrði yndislegt líf. Lifið heil áfram.

kristín (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 23:01

33 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er gaman að sjá hvað umræðan er lífleg.

Mig langar að bæta við einu atriði vegna svarbréfs Eiríks til forsætisráðherra.  Eiríkur segist hafa unnið að fagmennsku og lagt sig allan fram.  Ég efast ekki um, að allar ákvarðanir Seðlabankans voru teknar í góðri trú og vihöfð voru þau bestu vinnubrögð sem bankastjórarnir kunnu.  Nú er niðurstaðan af því ljós og hún er ekki jákvæð.  Það þýðir að eitthvað hefur farið illilega úrskeyðis. Bestu vinnubrögð og fagmennska seðlabankastjóra var ekki nógu góð.  Viðfangsefnið var flóknara en menn réðu við.  Það er enginn maður minni fyrir það, þó viðfangsefnið hafi vaxið honum upp fyrir höfuð.  Nú eru bara tvær leiðir: 

A.  Að leita eftir ráðgjöf sér vitrari einstaklinga. 

B. Stíga til hliðar og hleypa öðrum að.

Í mínum huga er þetta ekki flókara.  Ekkert persónulegt.  Yfirstjórn Seðlabankans réð ekki við viðfangsefnið og hún mun ekkert frekar ráða við það þó hún horfi lengur á það.  Skaðinn er skeður og hann verður ekki aftur tekinn. Íslenskt fjármálakerfi fór á hliðina og tók Seðlabankann með sér í fallinu.  Og það sem meira var og það skiptir mestu máli:  Seðlabankanum hefur mistekist í yfir 70 mánuði af undanförum 94 að ná verðbólgumarkmiðum sínum.  Afleiðing af því er 43% verðbólga á þessum 94 mánuðum umfram markmið, 18% stýrivextir og gjaldmiðill sem á sér vart viðreisnarvon í alþjóðaviðskiptum.

Ef Seðlabankinn væri sjúkrahús, þá hefði honum aðeins tekist að halda 20% sjúklinga á lífi, umönnun verið ákaflega kvalarfull og tekið óheyrilegan tíma og hann hefði þurft að vísa flestum sjúklingum heim aftur þar sem þeirra beið hægur og kvalafullur dauðdagi.

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 23:40

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hér kemur ein ástæða í viðbót:  Umfjöllun um íslenska banka og viðtal við Davíð "ég varaði við" Oddsson þar sem hann segir m.a.:

These banks are so sound that nothing like that will happen.  If something like that will happen we will never be talking about the whole.  And even though that will happen the state is debtless and that would not be too much to swallow it. (Nokkurn veginn orðrétt haft eftir manninum sem varaði við.)

Marinó G. Njálsson, 11.2.2009 kl. 00:02

35 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Og hér bætist við innlegg frá Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings Afglöp Davíðs Oddssonar

Marinó G. Njálsson, 11.2.2009 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband