Leita í fréttum mbl.is

Greiðsluaðlögunarfrumvörp missa marks

Þingheimur vaknaði með sprengingu í dag, þegar þrjú frumvörp til greiðsluaðlögunar voru lögð fram.  Eftir að hafa kynnt mér efni þeirra lauslega, þá fæ ég ekki betur séð en þau lepji sömu vitleysuna hvert eftir öðru.  Tvær eru veigamestar:

  1. Einstaklingur sem er í atvinnurekstri getur ekki fengið greiðsluaðlögun, þó svo að engar ábyrgðir vegna rekstursins hvíli á viðkomandi eða greiðsluörðugleikarnir eigi ekkert skylt við afkomu rekstrarins.  (Framsóknarfrumvarpið er með leið framhjá þessu að hluta.)
  2. Veðlán sem rúmast á eigninni miðað við verðmæti hennar geta ekki fallið undir greiðsluaðlögun. (Frumvarp Framsóknar eingöngu)

Með þessu er í reynd verið að útiloka að stór hluti heimila geti nýtt sér greiðsluaðlögun og það er verið að tryggja að ekki verði gefinn nokkur afsláttur af veðskuldum.

Gríðarlegur fjöldi einstaklinga eru með sjálfstæðan rekstur á einu formi eða öðru.  Sumir hafa stofnað um reksturinn einkahlutafélag, meðan aðrir eru með reksturinn á eigin kennitölu.  Langflestir eru ekki með neinar eða ákaflega takmarkaðar fjárhagslegar skuldbindingar vegna rekstrarins, kannski yfirdráttarheimild í banka sem hugsanlega er tryggð með tryggingarbréfi á húseign viðkomandi eða tekið hefur verið lágt lán til koma rekstrinum af stað.  Öll frumvörpin þrjú gera ráð fyrir að þessir einstaklingar geti ekki óskað eftir greiðsluaðlögun.  Óskiljanlegt með öllu.  Og það sem meira er, það þurfa að líða 3 ár frá því að viðkomandi slítur sig frá rekstrinum, þar til hann/hún hefur rétt á að sækja um greiðsluaðlögun.  Mér finnst þetta fáránlega þröngt skilgreint og taka allt bit úr hugmyndinni.

Eingöngu má beita greiðsluaðlögun vegna veðlána, ef höfuðstóll þeirra er orðinn hærri en verðmæti eignarinnar sem lánin hvíla á.  Hér er önnur steypa á ferðinni.  Það á að vera grundvallaratriði í greiðsluaðlögun að miða við ráðstöfunartekjur heimilisins en ekki upphæð eða gerð lánanna.  Áhrif gengisfalls krónunnar á gengistryggð lán og verðbólgunnar á verðtryggð lán síðustu 18 mánuði hefur gert það að verkum, að fólk ræður ekki lengur við greiðslubyrði lánanna, þrátt fyrir að höfuðstóll lánanna sé vel undir verðmæti eignarinnar.  Fólk í þannig stöðu, þarf alveg jafnmikið á greiðsluaðlögun að halda og hinir sem skulda meira en veðrými eignarinnar segir til um.  Raunar hefur greiðsluaðlögun ekkert með upphæð lána að gera eða veðrými á eign.  Hún hefur fyrst og fremst með tímabundna greiðslugetu að ræða.  Ég segi tímabundna, þar sem fyrir flesta er ómögulegt að segja til um hvaða tekjur viðkomandi hefur eftir nokkra mánuði, hvað þá nokkur ár í því árferði sem nú ríkir.

Ég skora á þingheim að sníða þessa agnúa af frumvörpunum.  Ef þessum atriðum verður ekki breytt munu þau missa marks og nýtast fáum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Er þá ekki rétt að senda þeim öllum þessa færslu á tölvupósti, kannski að þjappa henni smá ef það rýrir ekki gildi hennar

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.2.2009 kl. 00:19

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú alveg vaktar mig, Hólmfríður, sem er frábært.  Jú, ætli það væri ekki viturlegt.  Ég vonast líka til að leitað verði álits Hagsmunasamtaka heimilanna á þessu og þá geti ég komið skoðun minni beint á framfæri við þá nefnd sem hefur málið til meðferðar.

Marinó G. Njálsson, 6.2.2009 kl. 00:24

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Alltaf svolítið sorglegt þegar vinstri stjórnir taka sig til og "gera eitthvað fyrir litla fólkið" niðurstaðan verður alltaf undir strikið þveröfug.
Já og tiil hamingju...Indriði Þorláksson setur brátt, sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, línurnar að hátekjumarkinu. Ætli það endi ekki í hans meðförum með hátekjumarkið við 250 þús. sérstaklega ætlað til að létta skattbyrði "litla fólksins"

Haraldur Baldursson, 6.2.2009 kl. 00:28

4 identicon

Hvers á fólk að gjalda sem er með eigin atvinnurekstur. Er allt í lagi að ganga harðar að því? Eru þetta 3ja flokks borgarar? Hafa skattarnir þeirra verið minna virði en annarra? Hvar er jafnræðið í þessu þjóðfélagi?

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 06:09

5 Smámynd: Offari

Að fara út í sjálfstæðan rekstur er form sem sumir vilja frekar. Mörgum hefur vegnað betur og öðrum hefur vegnað verr í sjálfstæðum atvinnurekstri. ég er búinn prófa sjálfstæðan rekstur og fyrstu árin vegnaði mér vel og allt gekk upp.

Svo kom tímabil þegar allt átti að sameinast í stærri einingum. Stór fyrirtæki fóru allt í einu að kaupa upp lítil fyritæki sem voru í þessum rekstri og sameina þau. Ég fékk tilboð í mitt fyrirtæki sem ég því miður hafnaði. Reksturinn fór að dala hjá mér. Og síminn að þagna.

Þega mér var ljóst að ég var hættur að geta borgað mér mannsæmandi laun og í raun gat fengið mun betri laun með því að vinna hjá öðrum ákvað ég að hætta þessum rekstri. Þá allt í einu byrjuðu skuldir að hlaðast upp því skattmann vildi fá skattinn af þeim tækjum sem ég átti en voru í raun verðlaus um leið og þau urðu verkefnalaus.

Ég þurfti að taka lán til að geta hætt starfsemini. Þetta hefur ekki hvatt mig til að fara aftur í sjálfstæðan atvinnurekstur.

Offari, 6.2.2009 kl. 09:48

6 identicon

Tek undir það sem Adda sagði. Það eru töluverðir fordómar í gangi í garð sjálfstæðra atvinnurekenda og það birtist í mörgu. Oft er fjallað um svokallað kennitöluflakk þar sem fólk nær í gamlar eignir aftur með nýrri kennitölu. Þessi gjörningur er fordæmdur án þess að fólk kynni sér aðstæður eða aðdraganda slíkra mála. Sjálfsagt er stundum um spillingu að ræða en ætti fólk ekki að kynna sér málið áður en það fer með sleggjudóma um allan einkarekstur.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1680022

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband