Leita í fréttum mbl.is

Gott hjá Þórunni

Ég veit ekki hvort að staðsetningin er nákvæm, en myndin efst á síðunni minni, sýnir svæðið þar sem lón Bjallavirkjunar er hugsað.  Svæðið er kannski ekki það fjölfarnasta, en það er ákaflega fallegt og tengist við mikilfenglegt umhverfi Langasjávar í norð-austur og Landmannalauga í suður.

Þær eru stórbrotnar hugmyndir Landsvirkjunar um framkvæmdir á svæðinu austan núverandi virkjana á Þjórsár/Tungnaársvæðinu.  Sem betur fer er fyrirtækið búið að afskrifa þann möguleika að nota Langasjó í hluta þessara framkvæmda.  Ég kom að nyrðri enda hans haustið 2003 og finnst frábært að þarna lengst inni í óbyggðum sé ósnortið svæði sem ekki allir hafa aðgang að.  Ekki það að Langisjór hefur örugglega einhvern tímann tengst vatnakerfi því sem nú rennur í Skaftá.  Rétt norðan við norður enda vatnsins eru jökulruðningar sem sýna hversu langt jökullinn hefur náð áður en hann byrjaði að hopa. Undanfarna áratugi hefur Langisjór verið laus við rennsli jökulsáa og hefur því breyst úr jökullóni (sem hann hefur örugglega verið fyrr á öldum) í bergvatnsvatn.

En í staðinn fyrir hugmyndirnar um að nota Langasjó, þá hefur mönnum nú dottið í hug að beina vatni úr Skaftá beint yfir í Tungnaá án viðkomu í Langasjó.  Er þá líklegt að það eigi að gerast rétt sunnan við Jökulheima.  Þetta má vafalaust gera með því að leiða vatnið neðanjarðar í gegnum holtin sem skilja Tungnaá frá Skaftá. 

Breytingar á Vatnajökli, þ.e. Tungnaárjökli annars vegar og Skaftárjökli hins vegar, undanfarna áratugi hafa gjörbreytt ásýnd svæðisins.  Þetta má sjá með því að bera saman Íslandskort frá 1945 við nýleg kort.  Þar sést að jökullinn hefur hopað fleiri kílómetra og hafa upptök annarrar meginkvíslar Skaftár nú færst mun norðar en áður var og þar með nær Tungnaá og Jökulheimum.

Það er margt sem vinnst við færslu á nyrstu kvíslum Skaftár yfir í Tungnaá.  Í fyrsta lagi eykst orkuvinnslugeta virkjana á Þjórsársvæðinu verulega.  Bæði gerist það, að virkjanirnar nýtast betur í núverandi mynd og eins væri hægt að bæta við aflvélum, þar sem nú verður nægt vatn til að knýja þær.  Í öðru lagi væri hægt að fjölga virkjunum, þar sem aukið rennsli gerir virkjunarkosti, sem áður voru óhagstæðir eða á mörkum þess að vera hagstæðir, fýsilegri.  Í þriðja lagi væri hugsanlega hægt að takmarka áhrif Skaftárhlaupa á svæði Skaftár.  Vissulega væri bara verið að tala um annan ketilinn sem hleypur úr, og síðan gæti þurft að veita einhverju af hlaupvatninu niður Skaftársíðu til að hlífa mannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Í fjórða lagi væri hægt að draga eitthvað úr sandburði niður í Eldhraun.

En er þetta þess virði?  Bjallavirkjun mun ekki verða stór, ef af henni verður.  Um 70 MW og með orkuframleiðslugetu upp á 430 GWstundir á ári.  Auk þess mun hún auka afkastagetu annarra virkjana um 280 GWstundir/ári.  Gott og vel, það er hægt að knýja einhverja atvinnustarfsemi með því.  En hvað tapast við þetta?  Tungnaársvæðið ofan Sigöldu er nokkuð ósnortið.  Fyrir utan nokkra vegaslóða, veiðihús við Veiðivötn og skálann í Jökulheimum, þá er fátt annað á svæðinu.  (Jú, það eru einhver hús við suð-vestur enda Langasjávar.) Þetta svæði er afskekkt og sannkölluð náttúruparadís.  Til að komast frá Jökulheimum suður að Langasjó, er farið yfir Tungnaá á vaði sem ekki er fyrir nema vel útbúna jeppa.  Þetta er því svæði með takmarkaðan aðgang. Vilji menn fara hinum megin frá að Langasjó, þá þurfa menn að fara torkennilega slóð, sem m.a. neyðir menn til að aka um kljúfur nokkurt eftir árfarveginum (þ.e. menn aka í ánni talsverðan spotta). 

Það eru ekki mörg svæði á landinu sem krefjast jafn mikils vilja (ef svo má segja) til að koma sér á staðinn og þetta svæði í kringum Langasjó. Það væri mikil synd, ef þessu svæði væri fórnað fyrir ekki stærri hagsmuni en 710 GWstundir/ári.  Vissulega er það gott fyrir þjóðarbúskapinn, að efla atvinnustarfsemi í landinu, en það gengur ekki að ganga sífellt á ósnortna náttúru landsins.  Ég er talsmaður hóflegrar nýtingar, en við verðum samt að leyfa náttúru landsins að njóta vafans.  Það þýðir samt ekki að segja, líkt og gert var um Þjórsárver, að þar sem þeim var hlíft, þá megi virkja á öðrum umdeildum stað í staðinn.  Að virkjun við Bjalla verði hafnað á ekki sjálfkrafa að hafa í för með sér að virkjað verið í neðri hluta Þjórsár eða í Brennisteinsfjöllum.  Þetta er ekki býttaleikur, þar sem Landsvirkjun eða OR benda á þrjá kosti og segja, að ef þau hlífi stað A (sem jafnframt er viðkvæmastur gagnvart almenningsálitinu), þá megi fyrirtækin sjálfkrafa virkja á stöðum B og C.  Þannig gengur þetta ekki.

Stóra málið í þessu, er að verkefnisstjórn Rammaáætlunar um virkjanakosti verður að fá að vinna sína vinnu.  Hún verður að fá tækifæri til að setja tillögur sínar fram og þær verða að fá umræðu í þjóðfélaginu.  Það skiptir engu máli hversu langt hönnunarvinna vegna Bitruvirkjunar eða Bjallavirkjunar er komin, þetta er forgangsröðin.  Þegar rammaáætlunin hefur verið sett fram og síðan samþykkt, þá vita orkuframleiðslufyrirtækin hvaða svæði eru aðgengileg og hver eru utan seilingar. Samkvæmt vefnum Náttúrukortið er verið að vinna að rannsóknum á 11 stöðum á landinu og 13 til viðbótar eru í sigtinu, eins og þar er komist að orði.  Þetta eru nokkuð margir staðir/kostir og hef ég á tilfinningunni að sumir séu þarna inni sem "býttakostir".  En ég bíð eftir niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar og mér finnst rétt að Landsvirkjun geri slíkt hið sama.


mbl.is Segir Bjallavirkjun ekki koma til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talsmaður hóflegrar nýtingar segirðu, já það er ég líka eins og vel flestir landsmenn. En þessi virkjunarkostur er að sjálfsögðu innlegg í rammaáætlunina og er reyndar eins og þú bendir á neikvæður.  En samt er dálítið fyndið með þessa umræðu, því hjá mörgum má einfaldlega hvergi virkja. Og náttúran að njóta vafans. Já einmitt, nýtur náttúran vafans þegar byggð í kringum höfuðborgarsvæðis þenst út ? Nei, aldeilis ekki.  Okkur er tamt að nota þetta vegna framkvæmda sem við teljum að skipti okkur ekki máli. 

Annars hef miklu meiri áhyggjur af óheftum ferðamannastraumi um þetta svæði sem og annars staðar á hálendinu en þessu lóni þótt ég sé á móti þessum virkjunarkosti. Sjáðu bara Landmannalaugar, já og Veiðivötn, ótrúlega gengið illa um það svæði með utanvegaakstri, bjórdósum og sígarettustubbu. Hreint hræðilegt að sjá það á svona fallegum stað. Mundu: Þetta er umhverfisvernd líka þó það fari ekki hátt hjá umhverfiselítunni.

Bestu kveðjur

Gísli (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 12:28

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gísli, það er alveg rétt að þessi kostur er innlegg í umræðuna, en hann er taktlaus, smekklaus, sem fleygur í umræðuna.  Það er nýbúið að stofna þjóðgarð í nágrenni Skaftár og talað hefur verið um að Langisjór eigi að bætast við þennan þjóðgarð.  Það verður ekki hægt ef búið verður að fara í miklar framkvæmdir milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Langasjávar.  Þessi tillaga er því hrein aðför að hugmyndum um náttúruvernd á svæðinu.

Ég tek heilshugar undir með þér að umgengni er víða mjög ábótavant.  Því miður má oftast kenna landanum um.  Hann er farinn að haga sér eins og Bandaríkjamenn í Ameríku.  "Þetta er mitt land og ég ræð hvernig ég haga mér í mínu landi."

Eitt í viðbót.  Virkjanirnar sjálfar eru oftast ekki aðalvandamálið.  Það eru fyrst og fremst raflínurnar.  Lónin sjást oft ekki nema úr lofti eða þegar komið er að þeim, virkjanirnar sjálfar eru oft neðanjarðar, en raflínurnar sjást um úr fjarlægð og valda því mestum sjónrænum "skaða".

Ég er sammála þér um þann skaða sem náttúran á höfuðborgarsvæðinu verður fyrir.  Ég er t.d. ekki viss um að hefði Reykjavík farið í nútímaumhverfismat árið 870, þá hefði ekki verið veitt leyfi fyrir henni.

Marinó G. Njálsson, 7.9.2008 kl. 12:49

3 identicon

Sammála erum við um umgengnina. Og jú ég get sammála að um að þetta sé taktlaust og kannski til að draga betur aðra virkjunarkosti. En það verður að segjast eins og að hjá mörgum má hvergi virkja. Sjáðu bara umræðuna um neðri Þjórsá. Svæði sem ekki er ósnortið en í byggð og þá er það orðið neikvætt.  Reyndar sé ég sjálfur eftir svæðinu í kringum fyrirhugaða Hvammsvirkjun. En ég sé líka eftir ýmsum öðrum svæðum sem er verið að raska. T.d. Héðinsfirði, Teigsskóg og sérstaklega á Fjarðarheiði sem hefur farið ótrúlega lítið fyrir í fjölmiðlum. Kannski vegna þess að þetta er einkaframkvæmd og þurfti ekki í umhverfismat vegna lítillar orkuframleiðslu. En jarðraskið og umgengin er alveg hrikaleg. Landsvirkjun og Orkuveitan standa miklu betur að verki, með virku eftirliti oþh.

Já það er rétt að það eru raflínurnar sem ber langmest á. Og í raun ætti að skikka framkvæmdaaðila til að fara um ákveðin svæði frekar en alltaf "stystu leið" skv. korti. Það því miður hefur verið lenskan.

Já þetta með byggð á höfuðborgarsvæði er mikið umhverfisvandamál og landgæði nýtt ótrúlega illa. T.d. þurfum við virkilega að fara raska skógartreflinum sem hefur verið í uppbyggingu síðustu áratugi.

Kveðja

Gísli (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband