5.8.2008 | 14:44
Ótrúlegur Geir
Á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, er alveg ótrúlegt viðtal við forsætisráðherra, Geir H. Haarde. Þar sem m.a.:
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það sé mikilvægt, við núverandi aðstæður í efnahagsmálum, að fólk gangi ekki með þær grillur í höfðinu um að hægt sé að leysa vandann með einhverjum örþrifaráðum. Hann vísar á bug fullyrðingum stjórnarandstöðunnar og bloggara um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.
„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna,“ sagði Geir í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
„Hagkerfið okkar hefur mikla aðlögunarhæfni og það er fljótt að snúa sér við þegar aðstæður breytast,“ sagði Geir enn fremur.
Ég segi bara: Ekki vildi ég þurfa skyndihjálp frá þessum manni. Það tæki hann marga daga að ákveða hvað ætti að gera!
Í þessari viku eru 5 mánuðir síðan að krónan snarféll. FIMM MÁNUÐIR. Það teljast vart örþrifaráð að hafa gert eitthvað af viti til að styrkja krónuna og hagkerfið á FIMM MÁNUÐUM. Og ekki bara þessir fimm mánuðir, heldur má segja að lækkunarferli hennar hafi byrjað í ágúst á síðasta ári. Á þessu tímabili hefur núverandi ríkisstjórn nánast ekkert gert annað en beðið. Og svo ber forsætisráðherra sér á brjósti og eignar núverandi ríkisstjórn heiðurinn af því að ,,viðskiptajöfnuður í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna."
Ég held að við séum í verri málum, en nokkurn hefur grunað. Forsætisráðherra þjóðarinnar, hagfræðingur að mennt, sér ekki að ástæðan fyrir jákvæðum viðskiptajöfnuði er vegna a) hruns krónunnar, en verðmæti útflutnings hefur hækkað af þeim sökum, b) mikillar aukningar á útflutningi áls, sem kemur aðgerðum eða aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar ekkert við, c) minnkandi innflutnings (í magni), þar sem algjör stöðnun hefur orðið í fjölmörgum þáttum efnahagskerfisins og eingöngu eru fluttar inn brýnustu nauðsynjar. Um leið og gengi krónunnar styrkist, þá má búast við að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á ný. Staða bankanna hefur heldur ekkert með aðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera. Þar er fyrst og fremst um að ræða vaxtatekjur vegna annars vegar verðtrygginga lán og hins vegar vegna þess að lágmarksvextir óverðtryggðra lána eru komnir vel yfir 15,5% stýrivextir Seðlabankans, og hins vegar má rekja hagnað bankanna til gengishagnaðar vegna sílækkandi krónu. Ég spyr bara: Hvað er sandurinn djúpur þar sem strúturinn hefur stungið hausnum í þetta sinn?
Vandi bankanna undanfarna mánuði hefur ekki tengst raunverulegri stöðu þeirra, heldur hefur verið um ímyndarvanda að ræða. Annars vegar bjuggu þeir sér sjálfir til ákveðið orðspor skjótra ákvarðana, áhættusækni og skuldsettra yfirtaka, þar sem það hentaði þeirra viðskiptamódeli. Síðan breyttu þeir um viðskiptamódel en náðu ekki að breyta þeirri ímynd sem aðrir höfðu af þeim. Erlendar fjármálastofnanir eru ennþá (eða þar til fyrir skömmu) með gamla viðskiptamódelið í huga þegar þær meta stöðu bankanna. Hins vegar snýr ímyndarvandinn að Seðlabankanum og ríkisstjórn. Það hefur ekki nokkur maður trú á að þessir aðilar hafi fjárhagslega getu til að styðja við íslenska bankakerfi, ef allt fer á versta veg. Seðlabankinn, sem meðal annarra orða á að styðja við gengi krónunnar og halda verðbólgu innan tiltekinna marka, hefur hvorki trúverðugleika né fjárhagslegan styrk í þessi tvö megin verkefni sín. Það eru ekki örþrifaráð að breyta þessari ásýnd Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Það er lífsnauðsynlegt.
Kannski er forsætisráðherra þjóðarinnar alveg sama um það að fjölmörg fyrirtæki séu að fara í gjaldþrot og þúsundir, ef ekki tugþúsundir, eru að missa vinnuna og þar með lífsviðurværið. Kannski líður honum vel með stöðuna, enda vafalaust umkringdur já-bræðrakór. Hann áttar sig kannski ekki á að fjölmargir rekstraraðilar og einstaklingar þurfa að velja á milli að "lengja eða hengja", eins og Orðið á götunni komst að orði um daginn. Mánaðarlegar greiðslur af lánum hafa hækkað um tugi prósenta meðan tekjur standa í stað eða lækka. Ef ekkert verður gert fljótlega, þá þarf að grípa til örþrifaráða, en á FIMM MÁNUÐUM hefði mátt gera eitthvað meira en nærri ekki neitt.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta er hjákátlegt að heyra í Geir. Er hann nú að eigna sér aukinn útflutning af áli. Hann getur já eignað sér heiðurinn af minni innflutningi vegna aðgerðarleysis síns. Á meðan að krónan fellur í verði, þá hækka allar innfluttar vörur sem veldur vísitöluhækkun verðlags sem fer beint inn í verðbótaþátt lána almennings sem bara hækkar og hækkar af þessum sökum.
Er maðurinn ekki í lagi??
Sigurpáll Arngrímsson (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 15:38
Hann virðist vera hættur að ljúga því að ríkissjóður sé "nánast skuldlaus" (hið sanna er að hann er í raun fallít) sem er vissulega ákveðin framför. Hins vegar þarf hann að sýna frekari framfarir og trend í sannsögli áður en mikið mark verður takandi á honum. Og hann er síður en svo einn um það þarna í vistunar- og förgunarúrræðum kringum Arnarhól.
Baldur Fjölnisson, 5.8.2008 kl. 16:39
Það er sorglegt að okkar kjörnu fulltrúar eru bara rétt hálfnaðir með sinn fimm og hálfan mánuð í sumarfríi. Auk þess fá þeir einn og hálfan mánuð í jólafríi. Þetta gera um það bil sjö mánuði sem ríkisstjórnin þarf ekki að hlusta á jarmið í stjórnarandstöðunni.
Ég tel að það ætti einhver nálægur að athuga hvort það sé yfirhöfuð púls hjá forsætisráðherranum okkar, svo dauður er hann í öllum málum.
Haukur Nikulásson, 5.8.2008 kl. 19:40
Hverju orði sannara hjá þér Marínó. Þegar ég ég heyrði orð Geirs í dag varð ég hreinlega að fullvissa mig um að hér væri Geir virkilega að tala, en ekki einhver grínisti sem næði honum svona lygilega vel slík var fásinnan. Bullið og þvælan sem að er borið á borð fyrir okkur er hreinlega móðgandi fyrir fólk með sæmilega greind. En þetta er okkar kjörni fulltrúi, við verðum bara að kyngja því að hann hefur umboð okkar til allt til 2011. Að öllum líkindum.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 20:33
Spurningin er þó líka hvað mun ríkisstjórnin gera, persónulega óttast ég að hún muni gera meiri skaða en hitt og þá kannski betra heima setið. Allavega ef marka má hvernig ráðherrar hafa haldið á málum undanfarin ár. Stóriðja virðist vera það eina sem kemst á borðið hjá þeim þegar þeir ættu að byrja á því að ná niður verðbólgunni, með minni handstýringu á hagkerfinu og hreinsa til í bankastjórn Seðlabankans. Gengisfall krónunnar var viðbúið og krefst engra annarra viðbragða frá ríkisstjórninni, við erum einfaldlega að gjalda fyrir slælega efnahagsstjórn undanfarin ár.
bjorn a (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 20:45
Mikið voðalega er þetta rétt hjá þér. Vildi að málum væri þannig fyrirkomið að hægt væri að mótmæla þér. En svo er ekki.
Gestur Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 21:54
"""stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu"""
þannig að Geir gerir réttilega ekki mikið með keypt þý á ruslveitum og uppfyllingarefni í eigin flokki, hvað þá talsmenn hagsmunadrifinna banka.
En ég skil ekki hvað hann á við með örþrifaúrræðum. Fyrir nokkrum vikum var hann að tala um að taka 500 milljarða lán til að redda málunum og ruslveiturnar tóku undir það og hans eigið uppfyllingarefni líka og það var alveg desperat ruglandi enda gufaði það fljótlega alveg upp.
Hvað með að einfaldlega reka Geir og uppfyllingarefnið og reyna eitthvað annað staff? Ég veit að þetta er byltingarkennd hugmynd enda hafa óhæfir menn verið reknir hér og þar forever nema auðvitað í pólitískum vistunarúrræðum. Geir og Björn og aðrir helstu spekingar íhaldsins væru örugglega fyrirtaks húsverðir í Washington og New York og uppfyllingarefnið gæti farið í símavörslu í Pentagon. Það er fyrir mestu að menn hafi starfa og félagsskap við hæfi, þá gengur allt vel og mest næst út úr hverjum einstaklingi. Krónískt og áralangt siðferðilegt og hugmyndafræðilegt taugaáfall hægrimennskunnar í heiminum hefur líka rústað mörgum nytsömum sakleysingjanum hér á landi. Aðeins erlendir andlegir sálufélagar og lærimeistarar þeirra og vinirgeta veitt þeim viðeigandi og nauðsynlegan stuðning úr þessu. Góðar stundir.
Baldur Fjölnisson, 5.8.2008 kl. 22:12
Það sem mér finnst merkilegast við þessa tilvísun til Geirs er hvernig hann jafnar bloggsamfélaginu við stjórnarandstöðu. Mætti ekki telja slíkt mat á valdi bloggara af jafn merkum manni til stórtíðinda?
Annars er þetta hárrétt athugað hjá þér Marínó, það er verið að grípa í síðustu hálmstráin. Í skákinni kallast þetta örvænting, en það er augnablikið þegar einhver hefur leikið af sér og sér svo eftir afleiknum að næstu leikir verða ennþá verri sé hann ekki meðvitaður um ástandið.
Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 00:11
Það er ekkert merkilegt við það, almenningur veit í rauninni alltaf sínu viti hvað svo sem ruslveitum og pólitíkusum og bloggurum líður. Almenningur myndar jú í raun pólitískt og efnahagslegt kerfi sem við erum eilíft að rífast um. Kerfi myndast af massa af fólki.
Og þar sem um síbreytilegt og dínamískt kerfi er að ræða er ekki á hverjum tíma hægt að tala um neinn ákveðinn sannleika. Hraðinn er gífurlegur. Hagfræðingar með gráður úr kornflekspakka renna út hraðar en nýmjólkin. Meira síðar.
Baldur Fjölnisson, 6.8.2008 kl. 00:24
Kannski er fjórða valdið að brjótast út á nýjan hátt. Hér erum við sem komumst ekki að kjötkötlunum að varpa fram okkar þöknum í staðinn fyrir að ræða þetta yfir glasi eða yfir grindverkið. Ég held að Geir og co eigi að hlusta því á blogginu heyrir hann m.a. hjartslátt þjóðarsálarinnar og það fer ekkert á milli mála að sá sláttur þyngist stöðugt.
Marinó G. Njálsson, 6.8.2008 kl. 00:29
Kosturinn við að geta spáð fyrir um liðna atburði af mikilli nálvæmni er sá að maður hefur alltaf rétt fyrir sér, eða svo kyldi maður halda.
1) Auðvitað átti hin alþjóðleg fjármálakreppa alls ekki að koma. Allir áttu að vita að forsætisráðherra Íslands væri orðinn það valdamikill í heiminum að hann gæti annaðhvort komið henni af stað, eða hindrað hana. Það að hann geti komið af stað alþjóðlegri verðbólgu, mestu hækkunum á hráefnum siðan 1973 og hæsta olíuverði allra tíma og svo komið bönkum á hausinn í Ameríku, Danmörku og Bretlandi og látið þá afskrifa 600-1000 miljarða dollara og startað þar með stærstu fjármálakreppu heims síðan 1930, er uggvænlegt. Mér finnst að einhver ætti að aðvara Bandaríkjamenn. Þetta er vægast sagt skuggaleg þróun í það minnsta. Svona valdamikill maður er stórhættulegur. Svo núna verður forsætisráðherrann að ýta á hinn takkan, stopp takkan. Auðvitað.
2) Auðvitað átti Seðlabanki Íslands ekki að hækka stýrivexti. Því þá væri verðbólgan jú enn lægri, er það ekki?, og gengið enn hærra, er það ekki? Með lágum stýrivöxtum, fyrir neðan verðbólgu, hefði Seðlabankinn náttúrlega getað unið sér alþjólegan trúnað og traust, og galdrað fram mikla lækkun verðbólgu vegna þess að þá hefðu jú allir hætt að eyða um efni fram, skuldsett sig enn minna, og Bankarnir gætu þá núna boðið uppá neikvæða galdravexti. Þetta hljóta allir að sjá á höndum og fótum sér.
3) Auðvitað áttu allir að vita að þegar umheimurinn skildi ekki Bankana þegar þeira "orðspor skjótra ákvarðana, áhættusækni og skuldsettra yfirtaka" var eitthvað sem enginn skildi í umheiminum að þá hlyti það að vera rétt. Og auðvitað áttu allir að vita að þegar umheimurinn skildi ekki hversu fljótir Bankarnir væri að aðlaga sig að nýjum aðstæðum að þá væri það ekki satt og rétt. Auðvitað!
4) Og auðvitað áttu allir að vita að þegar umheimurinn skildi ekki hversu stór eign íslenska hagkerfisins væri falin í því að geta aðlagast hratt að nýjum aðstæðum í gegnum frjálsan gjaldmiðil sinn að þá væri það alls ekki rétt. Væri allavega ekki rétt á meðan enginn skildi það þar til tölur um jávæðan vöruskiptajöfnuð stungust skyndilega eins og nál upp í augun á þeim.
5) Og auðvitað átti að fórna virkri peningamálastjórn Íslands með því að ganga í ESB í expréss hraðsendingu til Kaupmannahafnar á fundi með Meðalvaxtamála-Ráðherra Samfylkingarinnar í ESB. Því vér trúum jú ekki að virk peningamálastefna íslensku krónunnar sé núna að vinna verkið fyrir Ríkisstjórn Íslands alveg EINS OG HÚN Á AÐ GERA. Það þarf því ekki að hringja Kirkjuklukkum Ríkisafskipta og klukkum Meiri-Skattheimtumála og Refsiaðgerða Ríkisafskipta í Ríkis-Kirkju kassa-hugsunar.
6) Galdrabrennur Banamanna Peningamála Ríksins fóru sem betur ekki af stað. Virk peningamálastjórn myntar íslendinga sá fyrir því. En þeir bíða samt enn með fulla dúnka af bensíni til að hella á RíkisBrennuna, strax og tækifæri gefst.
Ó, Ríkið hvar ertu ? Af hverju ertu ekki úti að galdra ?
Kveðja
Gunnar Rögnvaldsson, 6.8.2008 kl. 06:20
Gott innlegg Gunnar, aðrir sem skrifuðu á undan gera sig seka um að vera bara "hjalarar" þú kemur þó með raunverulegt innlegg eða greiningu á stöðu mála. Umræðan um gengið er svolítið skrítin, er ekki í raun bara gengið að leiðréttast eftir sukk síðustu ára hjá OKKUR, þ.e. viðskiptalífinu og neysluglöðum neytendum.
Smá "reality check" á hagkerfið má ekki verða til þess að allt fari í panic. Þó svo að margir vilja aðgerðir til þess að lina þjáningar okkar þá mega menn ekki að skella bara skuldinni á Geir heldur líta líka í eigin barm. Þetta er jú frjálst hagkerfi ekki satt.
Gaman líka að heyra í þeim sem eru af eldri kynslóðinni sem hlæja að okkur og segja, "kallið þið þetta kreppu?!, haha þið vitið ekkert hvað kreppa er!".
kveðja
Helgi Már
Helgi Már Bjarnason, 6.8.2008 kl. 09:23
Ég verð að segja að ríkisstjórnin minnir soldið á það þegar Hitler var í bönkernum sínum, verð að segja það.
Þar situr hún öll með krosslagða fingur.
DoctorE (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 09:34
Gunnar, í tilefni þessarar umræðu, þá eiga athugasemdir þínar ekki við nema að litlu leiti. Við erum fyrst og fremst að ræða viðbrögð Geirs sem eru þannig að hverjum einasta manni hrís hugur. "Aðgerðir/aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar varð til þess að viðskiptajöfnuður varð jákvæður" Þetta er eins breska ríkissstjórnin hefði sagt eftir flóðin miklu í fyrra: "Aðgerðir/aðgerðaleysi okkar urðu til þess að bændur fengu ókeypis áveitu." Það er alveg rétt að viðskiptajöfnuðurinn er jákvæður, en það er falli krónunnar að þakka, auknum álútflutningi og minnkandi innflutningi í magni m.a. vegna lakari efnahagsástands. Minnkandi innflutningur og fall krónunnar eru að skilja atvinnulífið eftir sem sviðinn akur. Geir er í einhverjum Polly-Önnu leik nema honum tekst ekki að gleðja neinn.
Marinó G. Njálsson, 6.8.2008 kl. 10:29
Það er komið í ljós að Geir barði sér á brjósti of snemma. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var vöruskiptajöfnuður í júli NEIKVÆÐUR um 18,4 milljarða króna. Það er greinilegt að kaupa hefur eitthvað meira til landsins en nauðþurftir því innflutningur nam 52,4 milljörðum borið saman við innan við 40 milljarða í júní og síðan dróst útflutningur saman um hátt í 6 milljarða milli mánaða. Ætli Geir eigni aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þetta líka eða finnur hann einhvern blóraböggul.
Marinó G. Njálsson, 6.8.2008 kl. 11:46
Sæll Mainó. Ég skil.
Þú ert að fara framá að Geir H. Haarde sér gæddur yfirskilvitlegum hæfileikum ef hann ætti að hafa haft stærri og meiri framtíðarinnsæi en forsætismenn ríkisstjórna nánast alls heimsins til samans. Ef myntir geta hækkað í verði þá geta þær einnig lækkað í verði. Það er augljóst.
Allur heimurinn væri ekki staddur í þessu veseni ef allir hefðu fyrirfram séð fyrir hvað myndi verða. Það er jafn erfitt að koma í veg fyrir að menn verði fyrir gróða eins og þeir verða fyrir tapi. Með réttinum til að græða peninga fylgir hinn ófrávíkjanlegi réttur til að geta tapa peningum. Það er þó enn hagvöxtur á Íslandi, þó lítill sé.
Þetta er leiðinlegt, en alþjóðakreppur eiga það til að eiga við flesta, en þó samt á mismunandi hátt, allt eftir aðstæðum í hverju landi. Ef vandinn væri innlenskur aðeins, þá væri um aðra hlið málsins að ræða. En Ísland er orðið alþjóðavætt, og þá er ekki um annað að ræða en að taka þeim sveiflum sem koma. Það er því miður ennþá smá bensín eftir á gólfinu í hagkerfinu eftir að Ísland uppgötvaði og innleiddi heila nýja atvinnugrein, sem er nýr alþjóðavæddur fjármálageiri. En það fer þó þverrandi og logarnir eru að lognast útaf. Þá mun lækningin fara að sýna sig. En þetta skeður ekki á einni nóttu, en þó mun hraðar á Íslandi en í flestum örðum hagkerfum heimsins.
Viðskiptajöfnuður er eins og gengið. Það er ekki nóg að horfa á tölu eins mánaðar. Viðskiptajöfnuður fer hratt batnandi ef litið er á árið í heild. Fyrstu 6 mánuði 2007 var hann mínus 50.012.m og fyrstu 6 mánuði 2008 var hann mínus 24.407.m. Þetta er hvorki meira né minna en rúmlega helmingun hallans.
Kveðja
Læt hér fylgja með smá sax frá hálf fimm frá Kaupþing þann 31. júlí 2008 (vona að það sé í lagi)
=================================
Vöruskiptajöfnuður snýst í afgang
Vöruskiptajöfnuður hefur meira og minna verið neikvæður frá árinu 2004. Hinsvegar er útlit fyrir að vöruútflutningur Íslendinga verði meiri en vöruinnflutningur á næstu árum og misserum. Samkvæmt leiðréttum tölum frá Hagstofu Íslands var 2,3 milljarða króna afgangur á vöruskiptum í júní. Útkoman var því betri en bráðabirgðatölur höfðu bent til, en þær gáfu til kynna halla sem nemur tæpum milljarði. Veiking krónunnar og aukinn útflutningur á áli hafa einna helst valdið því að dregið hefur úr halla á vöruskiptum undanfarna mánuði. Einnig hjálpar minnkandi neysla landsmanna á innfluttum neysluvörum til við að snúa hallanum í afgang.
Álútflutningur þrefaldast milli ára
Það sem af er ári hefur verðmæti álútflutnings aukist um 50% milli ára á föstu gengi Aukningin helgast einna helst af því að fullri framleiðslugetu hefur verið náð í álveri á Reyðarfirði. Aukningin er meiri ef gengisveiking krónunnar er tekin með í reikninginn og má gera ráð fyrir að álútflutningur tvöfaldist að krónutölu á árinu.
Vísbendingar um einkaneyslu
Innflutningur lítt verðnæmra vara svo sem matar og eldsneytis hefur aukist í krónum talið á fyrri helmingi ársins vegna hækkana á heimsmarkaðsverði. Hins vegar hefur dregið úr innflutningi annarra vara sem gefur vísbendingar um samdrátt einkaneyslu. Má þar nefna varanlegar og hálf-varanlegar neysluvörur svo sem heimilistæki og fatnað. Innflutningur varanlegra neysluvara hefur dregist saman um 5,3% á árinu. Þá hefur innflutningur fólksbíla dregist saman um 10,2% og styðja þessar tölur við aðrar vísbendingar um samdrátt einkaneyslu á árinu.
Áframhaldandi bati vöruskiptajöfnuðar
Vöruskiptahalli undanfarinna ára hefur meðal annars átt rætur sínar í stóriðjufjárfestingu og innflutningi erlendra neysluvara. Nú þegar framkvæmdum er að mestu lokið í bili og útflutningur hefur hafist af fullum krafti má búast við að dragi úr hallanum. Veiking krónunnar mun styðja við aðrar útflutningsgreinar og er gert ráð fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða muni aukast í ár þrátt fyrir niðurskurð aflaheimilda í þorski. Spá Greiningardeildar gerir ráð fyrir að vöruskiptahalli muni nema 4% af landsframleiðslu í ár og snúist í afgang árið 2009.
Gunnar Rögnvaldsson, 6.8.2008 kl. 13:15
Gunnar, það er tvennt sem ég er að fjalla um í blogginu:
A. Geir vísar til þess að stjórnarandstaða og bloggheimur sé að krefjast þess að gripið sé til örþrifaráða.
B. Geir fullyrðir að það sé aðgerðum/aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar að þakka að viðskiptajöfnuður hafi verið jákvæður í júní og að ,,við fáum fína umsögn í Financial Times".
Við þessu tvennu segi ég að það teljist varla örþrifaráð að eitthvað sé gert á fimm mánuðum og að það komi aðgerðum ríkisstjórnarinnar ekkert við að viðskiptajöfnuður hafi verið jákvæður í júní eða að Financal Times hafiverið ánægt með uppgjör bankanna.
Ég geri mér alveg grein fyrir því að aukin framleiðsla á áli mun leiða til jákvæðs vöruskiptajöfnuðar, en það kemur ekki af verkum þessarar ríkisstjórnar. Að bankarnir hafi sýnt góðan hagnað kemur verkum þessarar ríkisstjórnar heldur ekkert við. Það kemur aftur verkum (eða verkleysi) þessarar ríkisstjórnar við, að fjöldamörg fyrirtæki og heimili eru að komast í þrot, að fjölmargir einistaklingar hafa misst atvinnuna og að fasteignamarkaðurinn er nær stoppaður svo fátt eitt sé nefnt.
Ég nefni hvergi í innleggi mínu að Geir hefði átt að sjá fyrir eða geta komið í veg fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Ég er bara að biðja um að ríkisstjórnin bregðist við ástandinu hér á landi áður en það er um seinan.
Gunnar, ég hef það á tilfinningunni að þú hafir kannski verið að svara innleggi mínu á blogginu hans Egils Helgasonar, en ekki þessu, því rök þín eiga mun betur við það en þetta innlegg. Ég er að reyna að tengja það sem þú segir við það sem ég segi á þessum þræði, en mér tekst það illa. Getur þú hjálpað mér? Þ, þú talar um ímyndarmál. Það er nefnilega munur á ímynd og raunverulegri stöðu. Ég hef hvergi sagt að bankarnir séu eða hafi verið skjótir til ákvarðana, áhættusæknir og í skuldsettum yfirtökum. Ég hef heldur hvergi sagt að Seðlabankinn gæti ekki stutt við bankana, raunar hef ég ítrekað haldið hinu gagnstæða fram. Málið er ekki hvað ég held eða trúi. Málið er hverju markaðsaðilar (hverjir sem þeir nú eru) og matsfyrirtækin (sem að mínu áliti eru rúin öllu trausti) trúa eða hvað þessir aðilar halda. Eitt af því sem þessir aðilar trúa er að íslensku bankarnir (þar með talinn Seðlabankinn) geti ekki fengið lán á góðum kjörum. Og þegar það tekst, þá trúa þessir aðilar því að það hafi verið glópalán og þeir geti ekki endurtekið leikinn. Þetta er sá ímyndarvandi sem verði er að glíma við og er að bitna á okkur viðskiptavinum bankanna, þar sem bankarnir þora liggur við ekki að lána krónu út, þar sem það skerðir lausafjárstöðu þeirra og gæti virkað neikvætt í næstu umsögn matsfyrirtækjanna.
Ímyndarvandinn snýst ekki um þá ímynd sem bankarnir og ríkisstjórnin vilja hafa og telja sig geta staðið undir. Hann snýst um þá ímynd sem markaðsaðilarnir og matsfyrirtækin hafa. Síðan er spurningin, sem enginn virðist geta svarað: Hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér?
Marinó G. Njálsson, 6.8.2008 kl. 17:40
Gunnar, ég hef það á tilfinningunni að þú hafir kannski verið að svara innleggi mínu á blogginu hans Egils Helgasonar, en ekki þessu, því rök þín eiga mun betur við það en þetta innlegg. Ég er að reyna að tengja það sem þú segir við það sem ég segi á þessum þræði, en mér tekst það illa. Getur þú hjálpað mér?
Sæll Marinó.
Því miður, og afsakaðu, en ég skil hvorki upp né niður. Ég gat fundið blogg Egils Helgasonar (sem ég hef aldrei séð áður) en get ekki séð að þar sé verið ræða þessi mál. Ég hef einusinni séð Egil Helgason í sjónvarpi en það var gott og skemmtilegt viðtal hans við Arthur Laffer. Ég biðst velvirðingar á að vera svona illa inni í staðar málum.
Annars skil ég vel hvað þú ert að fara og skil vel að margir séu ákafir í að það séu hafnar "einhverjar" aðgerðir í efnahagsmálum. En það er einmitt vandamálið að það er ekki hægt fyrr en verðbólga er komin niður úr þessum háu lofstlögum. Það væri óábyrgt að fara í það að hella bensíni á bálið á meðan svegjanleg mynt er að vinna það verk sem þarf að vinna með handafli þegar engin eign myntstjórn er, eins og til dæmis í myntbandalögum. Þú ert eiginelga að biðja um fiscal policy actions þegar monetery policty actions eru einmitt að vinna verkin á hverjum degi. Þetta eru aðgerðirnar, en þær taka tíma. En svo er hægt að stíga dálítið á bensínið aftur þegar peningastjórntækin hafa unnið á verstu verðbólgunni. En ekki fyrr. Annars munu vandræðin eingungis halda áfram að plaga alla áfram. Það munu koma betrir tímar og ný blóm í garðinn, sannaðu til. Verðbólgubarátta er alltaf slæm fyrir alla. En óðaverðbólga er þó 1000 sinnum verri fyrir alla. Það muna mjög margir alltof vel.
Kveðja
Gunnar Rögnvaldsson, 7.8.2008 kl. 10:13
Verðbólgan núna er amk. 20-25% (nei, verðbólgustigið fyrir 6-12mánuðum er ekki verðbólgan í dag þó Geir og aðrir álíka spekingar haldi það) sem er þetta 5-8 sinnum meira en í Evrópu og BNA og raunar meira en í flestum öðrum fallít ávaxtalýðveldum. Hér er sem sagt óðaverðbólga og ekkert sem bendir til breytinga á því ástandi næsta árið amk. Það er alvarlegt ástand. Nýlegir kjarasamningar voru lélegur brandari og því má reikna með amk. 30-40% launahækkunum í samningunum eftir áramótin enda kjaraskerðingin gífurleg.
Það er erfitt að sjá hvernig seðlabankinn á að geta verið með stýrivexti sem eru 5-10 prósentustigum undir verðbólgustiginu og því má búast við enn frekari vaxtahækkunum. Vextir hljóta alltaf að elta verðbólgu eins og gefur að skilja. Þannig erum við föst í vítahring vaxtaokurs, verðbólgu, gengisfalls, fáránlegra sovétstórframkvæmda, endalauss viðskiptahalla og brátt krónísks ríkissjóðshalla þar á ofan.
Baldur Fjölnisson, 7.8.2008 kl. 10:44
Sæll Gunnar,
Sú verðbólga sem er í gangi um þessar mundir, þ.e. sú sem mælst hefur frá mars og til dagsins í dag, er í megin atriðum af einni ástæðu, þ.e. 40% gengisfalli frá áramótum, þó vissulega komi þar líka inn í hækkun olíuverðs, matvæla og vaxta. En hækkun þessara síðustu þátta ýkist mikið vegna 40% lækkunar gengis. Besta leiðin til að berjast við þessa verðbólgu er því að beita aðferðum sem styrkja gengið.
Það var vissulega komið að því að gengið veiktist, en menn héldu að sú veiking væri yfirstaðin með veikingu þess frá ágúst 2007 fram í febrúar 2008. Raunar voru sumir sem héldu að sú veikingin væri orðin meiri en efni stóðu til. Þetta er sá hluti gengislækkunarinnar sem við getum flokkað undir "sveigjanlegt gengi", eins og þú orðar það. Það sem gerst hefur síðustu 5 mánuði hefur ekkert með sveigjanleika að gera. Ekki neitt. Það heitir ekki sveigjanleiki að gengisvísitalan hafi farið úr 131 (staðan marsbyrjun) niður í 168 (staðan um miðjan júlí) og þess á milli hafi hún rokkað fram og til baka. Ef þú værir með trjágrein sem þú reyndir að sveigja á sama hátt værir þú fyrir löngu búinn að brjóta hana og það er það sem við höfum í höndunum, mölbrotna mynt. Rusl. Rollu sem er ekki á vetur setjandi. Það eina sem við förum fram á, er að Seðlabankinn og ríkisstjórnin grípi til aðgerða til að verja og byggja upp myntina. Á meðan þessir tveir aðilar sýna ekki fram á getu sína til verksins með inngripi og skilvirkum aðgerðum í peningamálum, þá trúir enginn því í heiminum að þeir séu færir um að gera eitt eða neitt. Verðbólgan er afleiðing af getuleysinu og besta meðalið við henni er að krónan styrkist. Ég er bara hræddur um að það sé um seinan og að við fáum annað verðbólguskot núna í ágúst.
Það er engin verðbólgubarátta í gangi núna. Við erum bara að láta hana yfir okkur ganga. Ríkisstjórnin er ekki að gera neitt til að berjast við verðbólguna. Seðlabankinn er ekki að gera neitt til að berjast við verðbólguna. Þessir aðilar eru bara að bíða eftir því að hún gangi yfir. Þeir horfa þegjandi á fallandi krónu og varðar ekkert um alla þá sem hún tekur með sér í fallinu. Almenningur er ekki að berjast við verðbólguna í þeirri merkingu að ná henni niður. Hann er berjast við að lifa af og er því að berjast við afleiðingar verðbólgunnar. Það er engin barátta í gangi með það markmið að ná henni niður. Það er verið að bíða eftir því að þetta gerist að sjálfu sér, eins og alltaf áður.
Ég man eftir óðaverðbólgunni 1983, þegar hún sló í 134% eða hvað það nú var. Að ástandið hafi einhvern tímann orðið verra en það er núna þýðir ekki að ekki þurfi að bregðast við málunum. Þú hljómar eins og gamall karl sem man eftir ægilegum stormi fyrir mörgum áratugum og eftir það gerir aldrei vont veður, vegna þess að stormurinn ægilegi var svo miklu verri. Já, það gekk efnahagslegur ofurfellibylur yfir Ísland árið 1983, en það efnahagslega veður sem gengur yfir núna er alveg örugglega fellibylur af styrkleika 4. Tjónið sem það er að valda er raunverulegt og það þarf að kalla út björgunarsveitir. Vandamálið er að almannavarnir efnahagsmála eru óvirkar.
Marinó G. Njálsson, 7.8.2008 kl. 10:57
Gunnar, ég gleymdi einu. Bloggið hans Egils er á eyjan.is.
Marinó G. Njálsson, 7.8.2008 kl. 11:05
Og ? - áttu link á umræddan blogg eða umræðu ?
Gunnar Rögnvaldsson, 7.8.2008 kl. 11:18
Þú ferð bara inn á eyjan.is og smellir á Silfur-Egils uppi í hægra horninu. Síðan skoðar þú bara umræðuna sem þar er í gangi.
Marinó G. Njálsson, 7.8.2008 kl. 11:26
Árið 1983 var engin leið að finna vitleysinga sem héldu að td. verðbólgustigið í ágúst væri verðbólgan frá í febrúar eða jafnvel ágúst árið áður. Það hefði verið hringt í menn í hvítum sloppum til að athuga slíka rugludalla. En núna halda öll vistunarúrræði hins opinbera þessu fram og ruslveiturnar líka og bankarnir, allir halda því fram að verðbólgan núna sé um 13%.
Framreiknuð verðbólga þarna árið 1983 var á annað hundrað prósent framreiknað til ársgrundvallar eftir einum mánuði en þetta jafnaði sig síðan út í nokkurra tuga ársverðbólgu, 30-40% minnir mig. Núna er verðbólgan síðustu 3 mánuði reiknuð fram til ársgrundvallar um 25% og síðustu 6 mánuði um 19%, þannig að hún er á hraðri uppleið. Hún er líka að herða hratt á sér í BNA og Evrópu og víðar.
Það er greinilega mikið atvinnuleysi í pípunum hér því Kolbeinn hjá job.is sagði í Íslandi í dag í gær að 30 þús. manns væru skráðir í atvinnuleit aðeins hjá hans fyrirtæki. Fjárlögin verða því örugglega grátbroslegur brandari og hallinn þegar upp verður staðið gífurlegur. Sem óhjákvæmilega mun þrýsta krónunni niður sérstaklega með tilliti til þess að ríkissjóðurinn er vita fallít þegar áður en halli hans fer að koma fram. Og auk þess þarf hann víst að skaffa seðlabankanum 500 milljarða. Hefur einhverjum dottið í að athuga hvort dýralæknirinn og Geir og Halldór Blöndal og Davíð, við getum kallað það kardemommukvartettinn, hafa nokkurn einasta sens fyrir tölum af þessu tagi, Er Halldór Blöndal yfirleitt á lífi ennþá??? Er Davíð enn á meðal vor? Hvers vegna er ruslveita ríkisins ekki með þessa spekinga í kastljósinu? Það hlýtur að vera hægt að lífga þá við í allavega kortér með einhverjum sprautum.
Baldur Fjölnisson, 7.8.2008 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.