Leita í fréttum mbl.is

Það jákvæða við sameiningu REI og GGE

Hún er búin að vera fróðleg hin pólitíska umræða sem hefur átt sér stað undanfarna daga um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy.  Andstæðingar ákvörðunarinnar virðast hafa komist í feitt og hella sér yfir Vilhjálm borgarstjóra og Björn Inga og reyna eins og hver best getur að koma sem þyngstu höggi á þá.  Án þess að vera málið skylt á nokkurn hátt, þá finnst mér þess gagnrýni flest sýna litla víðsýni og ganga í berhögg við þá gagnrýni sem borin var á borð í einkavæðingarferli bankanna.  Þá var gagnrýnt að nokkrir vildarvinir hefðu fengið ríkisbankana á silfurfati og þjóðin orðin af hagnaðinum.  Nú er gagnrýnt að Reykvíkingar eigi að taka áhættu við uppbyggingu á orkufyrirtæki, sem á líklega sér engan líka á heimsvísu.  Það er gagnrýnt að Orkuveita Reykjavíkur skuli hafa eignast nær ókeypis 10 milljarða hlut í fyrirtækinu.  Hlut sem reiknað er með að þrefaldist hið minnsta í verði á næstu þremur árum.  Þegar menn svo áttuðu sig á því að þessi gagnrýni virkaði kjánalega, þá voru dregnar upp samþykktir um kaupréttarsamningar, reynt að níða skóinn af hugsjónarmönnunum bak við þetta og síðan byrjuð áróðursherferð sem minnir um margt á það þegar Þórólfur Árnason varð að víkja úr sæti borgarstjóra.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst hugmyndin bakvið sameiningu REI og GGE vera snilldargóður leikur.  Nú hef ég engar innherjaupplýsingar um þetta mál og lýsi því bara sem ég held. 

Orkuveita Reykjavíkur hefur byggt upp undanfarin ár mjög mikla þekkingu á sviði jarðvarmaverkefna sem nýtt hefur verið við að kynna möguleika á nýtingu jarðvarma víða út um heim.  Nokkrir starfsmenn fyrirtækisins eru í fremstu röð í heiminum á sínu sviði.  Þau verðmæti sem felast í þessari þekkingu hafa fyrst og fremst nýst fyrirtækinu í útrásarverkefnum sínum, en hafa á móti kostað fyrirtækið útgjöld.  Þeir starfsmenn, sem hér eiga í hlut, hafa þrátt fyrir ýmsar freistingar (sem m.a. gætu falist í því að fara sjálfir í samkeppni við OR) haldið áfram að starfa innan OR að þessari hugsýn fyrirtækisins.

Reykjavik Energy Invest er stofnað til að aðskilja útrásarhluta OR frá starfseminni á Íslandi.  REI sækir þekkingu á jarðvarmaverkefnum til starfsmanna OR og þar á bæ (þ.e. hjá REI) átta menn sig betur og betur á verðmæti umræddra starfsmanna.  Þar sem REI er meirihluta eigu OR, þá eru vaxtarmöguleikar REI takmarkaðir nema með framlögum frá OR eða með lánsfé.

Geysir Green Energy er stofnað af aðilum sem eru til í að leggja háa fjármuni í útrásarverkefni á svið jarðvarma.  GGE áttar sig á því að samlegðaráhrif af samvinnu við REI eru mikil, sem lýsa sér helst í því að annar aðilinn hefur mikla fjármuna til ráðstöfunar, en hinn mikla þekkingu.

Við sameiningu REI og GGE gafst OR tækifæri til að setja verðmiða á þá þekkingu sem byggst hefur upp innan fyrirtækisins.  10 milljarðar króna er líklegast hæsta upphæð sem greidd hefur verið fyrir þekkingu og viðskiptasambönd hér á landi til þessa.  Að starf örfárra einstaklinga í nokkur ár hjá borgarfyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur sé 10 milljarða virði umfram allt annað sem þessir einstaklingar hafa áorkað í sínu starfi, er náttúrulega bara stórkostlegt.  Það er ekkert athugavert við það, að verðlauna átti þessa einstaklinga með góðum kaupréttarsamningum.  Án þeirra væri sameiningin ekki eins góð hugmynd.  Án þeirra væri tækniþekking hins sameinaða fyrirtækis ekki eins mikil.

Það er mikill misskilningur að OR og Reykvíkingar séu að taka meiri áhættu með sameiningu REI og GGE en áður.  Áhættan er minni, þar sem hún dreifist á fleiri.  Það má ekki gleyma því að áður var Reykjavík ein í ábyrgð á útrásarverkefnum OR/REI.  Þá mótmælti enginn.  Í staðinn hreyktu menn sér af áhættusamri framtakssemi OR/REI.  En núna, þegar OR er óvænt búin að auka verðmæti eigna sinna um 10 milljarða, þá fara allir í panik.

Mér finnst vanta að menn spyrji sig af hverju þessi sameining er að ganga í gegn núna og af hverju þessir kaupréttarsamningar.  Ég hef mína kenningu og hún er að Orkuveitan hafi hreinlega staðið frammi fyrir samkeppni um mannauð, þ.e. þeir einstaklingar sem búa yfir þeirri þekkingu sem orðið hefur til innan OR, hafi hreinlega verið orðnir eftirsóttir.  Hugsanlega hafa einhverjir þeirra verið komnir með atvinnutilboð, sem erfitt var að hafna.  Ef ég væri stjórnarmaður hjá OR, þá hefði ég haft áhyggjur af yfirboðum samkeppnisaðila í þessa lykilstarfsmenn.  Ein leið til að tryggja starfskrafta þeirra áfram var með því að bjóða þeim kaupréttarsamninga sem þeir gátu ekki hafnað.  Það var eingöngu hægt að gera í fyrirtæki sem vinnur samkvæmt lögmálum almenns markaðar.  OR gat ekki sem borgarfyrirtæki farið að borga þessum mönnum himinháar greiðslur til að halda þeim.  Það hefði aldrei verið liðið.

Það getur vel verið að ýmislegt vitlaust hafi verið gert í þessu ferli, en það má ekki yfirskyggja þá staðreynd að hugmyndin er mjög góð og að Reykjavíkurborg hefur sjaldan hagnast eins mikið á eins stuttum tíma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Já ég sammála þessu og finnst ómaklega að Vilhjálmi og Birni Inga vegið í þessu máli.

Katrín Ósk Adamsdóttir, 10.10.2007 kl. 15:33

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Að fylgjast með þessu máli og hlusta á Vilhjálm, þá fæ dálítið þá tilfinningu að hann bergmáli síðasta ræðumanni og blakkti því eins og fáni í misvindasömum degi.  Björn Ingi er mun staðfastari og hreinskiptari.

En svona varðandi klúðrið í þessu máli, þá getur það varla þurft tilstilli dómstóla til að kalla aftur saman eigendafund í OR með formlegum einnar viku fyrirvara og það hlýtur að vera hægt að skilja eignarhlut OR í Hitaveitu Suðurnesja eftir í OR.  Ég sé að vísu engan mun á því að færa þann hlut frá OR yfir í REI hið fyrra og að færa núna þann hlut yfir í REI/GGE.  Sá sem heldur hinu gagnstæða fram ætti að drífa sig í að kippa höfðinu upp úr sandinum áður en hann kafnar. 

Marinó G. Njálsson, 11.10.2007 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband