Leita í fréttum mbl.is

Stóra loftlagssvindlið - sjónarhorn leikmanns

Mér finnst þessi umræða um hvort er meiri sökudólgur náttúruleg hitnun Jarðar eða hitnun Jarðar af mannavöldum, vera á vissum villugötum.  Ég held að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls og umræðan eigi ekki að fjalla um að halda með öðrum og þar með sjá hinum allt til foráttu.

Það eru tvær veigamiklar staðreyndir í þessu máli: 

1.  Hitastig Jarðar er breytilegt og þessar hitasveiflur geta valdið mikilli röskun á lífsskilyrðum á stórum svæðum og þróun lífs. 

2.  Maðurinn mengar andrúmsloftið eins og það sé einhver ruslafata og er með því að breyta lífsskilyrðum á afmörkuðum, en stórum, svæðum og hefur einhver áhrif á þróun lífs.

Bara á síðustu 100 árum höfum við upplifað talsverðar hitasveiflur, sem eru af báðum þessu ástæðum.  Spurningarnar sem við verðum að leita svara við eru:

1.  Hvað hefur hvor þáttur um sig lagt mikið til þessara sveiflna og hvert verður vægi þeirra á komandi árum og árhundruðum?

2.  Verða hitabreytingar af völdum mannkyns það miklar að þær hafi sjálfstætt veruleg áhrif á lífsskilyrði á Jörðunni?

3.  Hvað er það sem við getum gert til að sporna við óæskilegum áhrifum hitabreytinga af völdum mannkyns?

Það er mín skoðun, að hitabreytingar vegna mannkyns verða aldrei eins miklar og alvarlegar eins og náttúrulegar hitabreytingar.  Þetta sjáum við á hita- og kuldaskeiðum undanfarinna árþúsunda.  Raunar þarf ekki að fara lengra aftur en til um 1680 til að finna kuldaskeið, sem hefði fengið okkur í dag til að halda að ísöld væri að skella á.  Förum svo aftur til 1000 eða svo og við værum viss um að gróðurhúsaáhrifin væru í fullri virkni. 

Ég hef sagt að hitabreytingarnar séu ekki vandamálið heldur er það mengunin.  Við þurfum að leita leiða til að auka náttúrulega ljóstillífun, þ.e. náttúrulega bindingu kolefna og framleiðslu súrefnis.  Við þurfum að breyta framleiðsluferlum, þannig að þau mengi helst ekki neitt.  Við þurfum að breyta vélum bifreiða, þannig að þær spúi ekki út úr sér CO2 heldur bindi kolefnið í staðinn í fast efnasamband sem síðan er hægt að annað hvort farga á öruggan hátt eða endurnýta.  Nú önnur leið er að nota hreinni orkugjafa. 

Það er eitt sem við getum ekki gert:  Við getum ekki heft efnahagsþróun í Afríku, vegna þess að efnaðri þjóðirnar eru búnar að menga svo mikið.  Við verðum að leyfa þessum þjóðum að nota sömu tækni og við erum að nota, fá sömu tækifæri og við höfum.  Við getum ekki fárast út í fátækt þeirra og efnahagserfiðleikum, ef við ætlum að banna þeim að nota efnahagslega hagkvæmar leiðir til að koma sér út úr vanda sínum.  Ef við á Vesturlöndum viljum að þessar þjóðir noti ,,hreinni" aðferðir þá verðum við að ganga á undan og taka upp þessar ,,hreinni" aðferðir sjálf í jafn ríku mæli og við ætlumst til að aðrir noti þær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gæti ekki verið meira sammála.

Ef að við hefðum verið duglegri að taka upp vistvænni siði en raun ber vitni, værum við líka búin að þróa þá á þann stað, að auðveldara væri fyrir þróunarríkin að gera slíkt hið sama.

Ágæt samlíking er hvernig þróunarríkin hafa verið að taka stökk yfir landlínur og fara beint í þráðlaus samskipti.

-Arnþór Snær

Arnþór Snær (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 12:39

2 identicon

Takk fyrir pistilinn Marínó.

Mér þykir vænt um að þú hafir samúð með fátæklingum.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 19:20

3 identicon

Smá til íhugunar.

Íslendingar eiga 200.000 bíla og eyða 900.000 tonnum af olíu árlega.

Hvað þarf að auka stál og olíuframleiðslu mikið í heiminum til að ná þessu hlutfalli yfir alla heimsbyggðina? Hvað endast þekktar olíubyrgðir lengi miðað við slíka neyslu (ég reiknaði 10 ár).

Ég held að við þurfum að búa bílana og olíuna til með ljóstillífun til að leysa þetta vandamál.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 19:41

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er fróðlegt að skoða söguleg gögn um hitastig víða í heiminum, sem er m.a. að finna á vefnum World Data for Paleoclimatology og siðan Wikipedia undir Temperature record of the past 100 years.  Báðar þessar síður sýna að þó svo að hitahækkun síðustu áratuga, sé komin í hærri hæðir en síðustu 2000 ár, þá eiga þær fordæmi frá fyrri tímum.  En þessi gögn sýna líka að hitabreytingar eru tíðar og snarpar.  Þannig getur meðalhiti sveiflast til og frá um 0,5 gráður á örfáum árum/áratugum, sem er álíka og gerst hefur undanfarin 50 ár eða svo.  Við verðum að hafa í huga að kuldaskeiðum miðalda lauk ekki fyrr en um 1850, þannig að það einhver hluti hitahækkunar síðustu 150 ára er tilkominn vegna þess.  Á grafi sem sjá má með að smella hér, kemur t.d. í ljós að meðalhitastig er aðeins 0,2 gráðum hærra árið 2004 en þegar það var hæst í kringum 1000 (blágræn lína).  Þar má líka sjá að hitaækkunin frá um 1000 fram til um 1350 var tæplega 1 gráða.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2007 kl. 19:49

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðjón, fyrir 20 árum tók ég áfanga í skóla um orkumál og þá var sagt að olíuauðlindir myndu duga til 2025 - 2030.  Í vikunni sá ég frétt um að olíuauðlindir myndu endast í 40,5 ár til viðbótar (þ.e. 2048), en síðan birtist frétt um að fundist hefðu olíulindir úti fyrir Ghana sem væru álíka stórar og olíulindir Nígeríu.  Norðmenn hafa verið duglegir að rannsaka landgrunnið sitt og voru ekki Færeyingar að finna olíu.  Ég held að þó svo að þessa olíulindir séu ekki óþrjótandi, þá muni þær duga a.m.k. eitthvað út þess öld.  Ef við svo setjum þetta í eitthvað alheimssamband miðað við olíueyðslu okkar, þá má ekki gleyma því að þar sem við notum nær enga olíu til húshitunar, þá er olíunoktun okkar frekar hófstillt.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2007 kl. 19:59

6 identicon

Punkturinn minn er sá að þetta þvarg um hitun jarðar er óþarft. Vandamálin nógu mörg þó að jörðin hitni ekki neitt.

Ég sé ekki betur en að það þurfi að fimmfalda olíuframleiðslu heimsins til að ná sama hlutfalli og Íslendingar.

Það vantar 1.300.000.000 bíla, bara handa Kínverjum og Indverjum til að ná sama hlutfalli og á Íslandi.

Hitnun jarðar er mjög áhugaverð út frá fræðilegum grunni en ég mæli frekar með lestri Litlu gulu hænunnar og nokkrum praktískum dæmum í framhaldinu :) Þannig væri kannski hægt að ná árangri.

Nú skal ég ekki trufla þig meira.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 20:17

7 Smámynd: Sigurjón

Er ekki CO2 endurnýtanlegt?  Plöntur og þörungar sem ljóstillífa nota CO2.  Ef við myndum hefta algerlega alla framleiðslu CO2, myndu þessar lífverur deyja.

Það var athyglisvert að fylgjast með því í þætti sem sýndur var í sjónvarpinu á þriðjudaginn að úthöf Jarðar losa um 80 gígatonn af CO2 á ári hverju, meðan mannskepnan losar um 7 gígatonn.

Hættum að tala um CO2 sem einhverja mengun.  Sú lofttegund er ekki mengun, heldur hluti af eðlilegu efni Jarðarinnar og nauðsynlegur þáttur í lífkeðjunni.

Nær væri að keyra á blý, kvikasilfur og svo ekki sé minnst á kjarnorkuúrgang.  Það er raunveruleg mengun! 

Sigurjón, 22.6.2007 kl. 20:26

8 Smámynd: Sigurjón

...og já: Takk fyrir góðan pistil.

Sigurjón, 22.6.2007 kl. 20:26

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurjón, takk fyrir mig.

Mig langar að benda á að líta má á alla ónáttúrulega losun efna sem mengun eða aðskotaefni, þar sem losunin er umfram það sem náttúran gerir.  Þannig er losun CO2 frá bílum, flugvélum, skipum og verksmiðjum mengun.  En ég skil hvað þú ert að fara og það er nú einmitt þess vegna sem mönnum hefur dottið í hug að kolefnisjafna.

Gaui, ég er alveg sammála þér að það er af nægu  að taka, ef velja á vandamál.  Og á meðan við höfum ónefndar stórþjóðir, þá munu þær tryggja okkur óendalega uppsprettur þeirra

Marinó G. Njálsson, 22.6.2007 kl. 20:39

10 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Marinó, pistillinn þinn er það skynsamlegasta sem ég hef lesið um málið lengi.  Og lætin í fjölmiðlunum og fárið er óskiljanlegt, nema einhver einhvers staðar sé að græða á því.

  Takk fyrir góðan pistil,

  Kveðja S.

Sigríður Sigurðardóttir, 22.6.2007 kl. 21:22

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir mig, Sigríður.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2007 kl. 21:55

12 identicon

Góðir punktar. Við erum ótrúlega mikið á sömu línunni með þetta: http://hjalli.com/?p=268

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1673498

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband