3.1.2018 | 13:01
Stefnumótun fyrir Ísland
Ég birti þessa færslu fyrst fyrir þremur árum og hafði þá oft kallað eftir því að mótuð væri stefna fyrir fyrirtækið Ísland. Mig langar að birta hana aftur lítillega uppfærða, því lítið ber enn á þessari stefnumótun, en sífellt fleiri eru að kalla eftir henni.
Stefnumótun fyrir Ísland
Eftir hrun bankanna í október 2008, vonuðust margir eftir breytingum. Þær hafa að mestu látið bíða eftir sér og margt sem farið var af stað með endaði í sviknum loforðum. Núna ríflega 9 árum síðar er stjórnarskráin óbreytt, fiskveiðikerfið er óbreytt, ofríki fjármálakerfisins meira en nokkru sinni fyrr, heilbrigðiskerfið er í molum, möguleikar fólks til menntunar hafa verið skertir, bið hefur verið á fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu, þó ferðaþjónustan hafi vissulega verið í blússandi uppsveiflu. Ekki dettur mér í hug að segja að ekkert hafi verið gert, en árangurinn er minni en fyrirheitin gáfu til kynna.
Ef Ísland væri fyrirtæki, væri fyrir löngu búið að kalla til lærða sérfræðinga til að endurskipuleggja reksturinn. Búið væri að fara í stefnumótunarvinnu, endurgerð verkferla, greiningu á tekjustreymi, leggja pening í vöruþróun og endurskoða öll útgjöld. Málið er bara, að Ísland er ekki fyrirtæki og því er ekki búið að gera neitt af þessu. (Eða í mjög takmörkuðu mæli.)
Hver er stefna Íslands í menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum eða náttúruvernd? Hver utanríkisstefna Íslands, stefna í þróunarmálum, mannúðarmálum eða málefnum innflytjenda? Hvernig atvinnulíf viljum við hafa, hvað má kosta að örva atvinnulífið? Hvernig viljum við nýta auðlindir þjóðarinnar? Hvernig fáum við sem mest út úr auðlindum þjóðarinnar? Vissulega er hægt að lesa eitt og annað út úr stefnulýsingu ríkisstjórna hverju sinni, en málið er að fæstar ríkisstjórnir ná að fylgja slíkum skjölum. Og fljótt skipast veður í loft á pólitískum vettvangi.
Hluthafar fyrirtækisins Íslands kusu vorið 2013 nýja stjórn vegna fyrirheita um breytingar. Aftur var kosið haustið 2016 og enn aftur ári seinna. Með hverri nýrri ríkisstjórn koma fögur fyrirheit, en frekar litlar efndir. Sama fátið og skipulagsleysið blasir við, sama hver ríkisstjórnin er. Stjórnarformanninum, hverju sinni, gengur illa að skilja ábendingar sem til hans er beint og áttar sig alls ekki á þeim tækifærum sem felast í gagnrýni á störf hans og annarri í stjórninni. Væri Ísland fyrirtæki, þá myndu menn skilja að kvartanir og gagnrýni er besta uppspretta hugmynda fyrir endurbótavinnu sem hægt er að hugsa sér.
Ég held að ríkisstjórnir, hver sem er við völd, verði að fara að líta á störf sín sem einmitt stjórnarstörf fyrir fyrirtækið Ísland. Fyrirtæki, sem varð fyrir áfalli, og nú þurfum við samhentan hóp allra til ljúka endurreisninni (henni er ekki lokið meðan stórir hópar búa við verulega skert lífsskilyrði og þurfa að búa á tjaldstæðum allan ársins hring) og móta framtíðarsýn. Góða, hæfa leiðtoga til að leiða starfið, fjölbreyttan hóp í hugmyndavinnuna. Móta þarf skýra stefnu til framtíðar, stefnu sem þjóðin velur, en síðan verður það ríkisstjórnar, þings og embættismanna að framfylgja stefnunni. Þetta þýðir að stefna getur ekki verið til nokkurra ára, heldur langs tíma. Stefnan má ekki markast af stjórnmálaskoðunum, heldur á hún að vera skilgreining á því Íslandi sem við viljum hafa til framtíðar. Hver ríkisstjórn hefur síðan svigrúm til að ákveða leiðir til að fylgja stefnunni, en hún má því aðeins víkja frá markmiðum hennar að um það sé víðtæk sátt og ný markmið hafi verið skilgreind og samþykkt.
Svona stefna gæti haft svipað vægi og stjórnarskráin. Ég tel hana þó ekki eiga að vera hluti af stjórnarskránni. Stjórnarskráin er grunnlög samfélagsins og henni á aðeins að breyta í undantekningartilfellum, þó þurfi að gera verulegar breytingar á henni núna. Stefnuskrá Íslands verður hins vegar að taka reglulegum breytingum, því þannig og aðeins þannig verður fyrirtækið Ísland samkeppnishæft, eftirsóknarvert til búsetu og skilar eigendum sínum þeim ávinningi sem nauðsynlegur er til frekari uppbyggingar.
Ég ætla ekki að leggja aðrar línur hér um hver þessi stefna ætti að vera en að segja að ég tel æskilegt að tekið sé mið af norræna velferðarlíkaninu, eins og það hefur verið útfært í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Ekki eru allar þjóðirnar með nákvæmlega sömu útfærslu, en áherslurnar eru mjög líkar.
Meðan Ísland hefur ekki svona stefnu, þá er staða þess ekki ólík stöðu Lísu í Undralandi, þegar hún hitti Chesire köttinn, þar sem hann sat markindalega uppi í tré:
"Would you tell me, please, which way I ought to go from here?"
"That depends a good deal on where you want to get to," said the Cat.
"I don't much care where " said Alice.
"Then it doesn't matter which way you go," said the Cat.
Lísa er þó betur sett en Ísland, að hún þorði að spyrja til vegar.
Íslenska þjóðin og íslensk stjórnvöld horfa bara út í loftið án þess að velta slíkri spurningu fyrir sér. Síðan sest einhver í ráðherrastól og getur upp á sitt sjálfsdæmi ákveðið að setja vegtolla á allar leiðir út úr Reykjavík, einkavætt heilbrigðisþjónustuna, lokað framhaldsskólum fyrir 25 ára og eldri, ákveðið byggingu virkjunar sem eyðileggur stór landsvæði, samið við stóriðju með miklum skattaafslætti og jarðgöngum í bónus, o.s.frv. Menn geta þetta, vegna þess að þeir hafa fullt frelsi til að gera það sem þeim sýnist í leit að atkvæðum til að halda þingsæti sínu. Væri fyrir hendi skýr stefna í öllum þessum málaflokkum, þá væri jafnframt búið að stilla af rammann, sem unnið er innan. Allir vissu hvað mætti gera og hvað ekki. Kjósendur gætu þar með treyst því, að "sannfæring" frambjóðenda hafi ekki tekið u-beygju við það eitt að vera kosnir inn á þing, að þeir héldu sig við fyrirfram ákveðna meginstefnu og þjóðfélaginu yrði ekki snúið á hvolf bara af því að einhver lukkuriddari varð ráðherra. Hluthafar fyrirtækisins Íslands, þ.e. kjósendur, verða að vita fyrirfram fyrir hvað fyrirtækið stendur og treysta því að stjórnmennirnir (þ.e. ríkisstjórnirnar) fylgi þeirri sýn eftir.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marínó!
Ef að þú værir alvaldur í landinu; hver væru þá þin 3 stærstu áhersluatriði / stefnur inn í framtíðina?
1___________?
2___________?
3___________?
Jón Þórhallsson, 3.1.2018 kl. 13:10
Ísland, að mínu mati, á fyrst og fremst að vera land fyrir þá sem vilja leita sér nýrrar byrjunar. Hér á ég við fólk, sem vill kasta af sér kufli trúarbragða, trúarskoðanna, pólitíkur og annarra hafta sem gerir það að verkum að það vill "mótmæla" því sem gerist á erlendri grund, eftir að það hefur fengið hæli á Íslandi.
Ísland á að vera land fyrir Íslendinga, skiptir engu máli hvaða bakgrunn það fólk hefur ... svo lengi sem þetta fólk hefur Ísland í hjarta sínu, en gengur ekki um og kastar skít í látið fólk, sem engum hefur gert eitt eða neitt, í nafni erlendrar ofríkishyggju.
Örn Einar Hansen, 3.1.2018 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.