Leita í fréttum mbl.is

Er aðferðin röng

Þessi færsla er rituð áður en niðurstaða er komin í kosningu um stækkun álversins í Straumsvík.  Ég vil taka það fram að ég er ekki að taka afstöðu í málinu heldur bara að velta fyrir hvernig standi á því að málið sé komið í þann farveg sem raun ber vitni.

Það hlýtur að valda fjölmörgum atvinnurekendum áhyggjum, að íbúalýðræði geti ákvarðað hvort fyrirtæki þeirra eigi framtíð fyrir sér á núverandi starfsstöð eða ekki.  Það hlýtur líka að valda starfsmönnum fyrirtækja áhyggjum, að starfsstaður þeirra geti verið kosinn burt eða útilokaður með breytingu á skipulagi.  Á sama hátt er það ekki góð staða fyrir íbúa bæjarfélags að þurfa að sitja uppi með mengandi starfsemi árum og áratugum saman bara vegna þess að þetta hafi alltaf verið svona og geta ekki krafist umbóta vegna þess að reglurnar voru ekki eins strangar þegar starfsemin fékk starfsleyfi.

Kosningin í Hafnarfirði í dag kristallar þessa stöðu mjög vel.  Annars vegar eru við með fyrirtæki sem telur sig hafa fengið vilyrði fyrir stækkun þegar það keypti lóð af bæjaryfirvöldum fyrir nokkrum árum og hins vegar íbúa bæjarfélagsins sem vilja ekki stærra álver með tilheyrandi mengun innan bæjarmarkanna.  Báðir aðilar hafa eitthvað til síns máls og í slíkum tilfellum er í mínum huga skynsamlegt að fara samningaleiðina.  Álverið er þarna og það hverfur ekki svo léttilega af yfirborðinu.  Kröfur andstæðinganna eru skýrar og þær verða ekki svo auðveldlega hunsaðar.  Það verkur því furðu mína að Alcan hafi ekki reynt meira að koma til móts við andstæðinga stækkunarinnar til að finna út hvernig mætti ná lendingu.  Þetta hefði að sjálfsögðu þurft að gera með það löngum fyrirvara svo að áhrifa slíkrar málamiðlunar kæmi ekki fram sem örvæntingarfullt útspil á síðustu metrum kosningarbaráttu.  Nauðsynlegt hefði verið að setjast niður með andstæðingum stækkunarinnar til að finna út til hvaða aðgerða álverið gæti gripið til að sátt næðist í málinu.  Í staðinn myndu forsvarsmenn andstæðinganna draga úr andstöðu sinni.

Það getur svo sem vel verið að þetta hafi verið reynt.  En fyrir mig sem hef horft á málið úr fjarlægð, þá finnst mér þetta meira hafa verið sandkassaleikur, þar sem hvor aðili segir sig vita meira en hinn.  Ég get vel skilið að álverið telji sig eiga í viðræðum við Hafnarfjarðarbæ og það sé bærinn sem setji fram kröfurnar, en leikreglurnar breyttust um leið og tekin var sú ákvörðun að setja málið í hendur bæjarbúa.  Eftir það var nauðsynlegt fyrir forsvarsmenn álversins að ræða við grasrótarsamtök andstæðinga stækkunar og gera sitt besta til að mæta hugmyndum þeirra eins og kostur er.  Vissulega hafa kröfur andstæðinganna tekið ýmsum breytingum í tímans rás, en helgast það ekki m.a. af því að umræðan átti sér ekki stað milli aðila.  Ég hef, t.d., mikla trú á því að hægt hefði verið að fá stóran hluta andstæðinga stækkunar til að samþykja hana, ef Alcan hefði samþykkt ferkari ráðstafanir til að draga úr mengun.

Ég hef samúð með Alcan að vera hér í þessu máli í raun að borga fyrir andstöðuna við Kárahnjúka.  Ég læt mér ekki detta í hug að Alcan væri annars í þessari stöðu.  Það er því ákveðin kaldhæðni að Alcan sé að greiða, ef svo má segja, reikninginn fyrir Alcoa.  En af þessum sökum átti Alcan að sjá það fyrir, að fyrirtækið þyrfti að ganga lengra til móts við þá sem vilja minni mengun frá starfseminni.

Hver sem niðurstaða kosninganna verður, þá eru skilaboðin skýr.  Gera þarf meira til að draga úr mengun í umhverfi okkar.  Ég er sannfærður um að báðir aðilar í þessu máli eru sammála í því, en vandinn er að þeir eru ekki samstíga.   Fyrirtæki verða að sýna meira frumkvæði í að finna leiðir til að draga úr mengun sem kemur frá starfsemi þeirra.  Fyrirtæki verða líka að átta sig á því að kröfur reglna og laga eru alltaf a.m.k. einu ef ekki fimm skrefum á eftir almenningsálitinu og því þurfa þau að ganga mun lengra í sínum aðgerðum en ítrustu kröfur opinberra aðila segja til um.  Ef það þýðir bæði axlabönd og belti, þá verður bara að hafa það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1673443

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband