Leita í fréttum mbl.is

Fásinna að líkja saman Íslandi og Indlandi

Miklar hræringar eru á mörkuðum á Indlandi þessar vikurnar.  Þær hófust raunar snemma árs og mátti lesa um þær um líkt leiti og ég sótti Indland heim í febrúar á þessu ári.

Uppgangurinn í landinu hefur átt sér ýmsar birtingarmyndir.  Ein þeirra er hin mikla eftirsókn fjölþjóðlegra fyrirtækja í ódýrt innlent vinnuafl.  Lítið fer á milli mála, að óvíða í heiminum er jafn mikið til af velmenntuðu tæknifólki og á Indlandi, þó svo að það sé ekki stórt hlutfall af mannafla, þá er fjöldinn einfaldlega svo mikill, að mér kæmi ekki á óvart, að á Indlandi sé fleira hæft tæknimenntað fólk en allur íbúafjöldi landa á borð við Þýskaland, Frakkland og Bretland.

Ástæðan fyrir þessu, er að óvíða í heiminum áttar fólk sig betur á gildi menntunar, en þarna.  Að mennta sig er ekki bara leiðin úr fátæktinni heldur hjálpar hún fjölskyldum að rækja skyldu sína um framfærslu foreldranna, þegar fram líða stundir.  Og einstaklingar leggja mikið á sig.

Þessi aragrúi af hæfileikaríku tæknifólki, hefur orðið til þess að vestræn fyrirtæki hafa flutt stjórna hluta þjónustustarfsemi sinnar til Indlands.  Þurfir þú að hringja í banka í Bretlandi, er allt eins líklegt að sá sem svarar símanum sé staddur á Indlandi.  Þurfir þú tölvuþjónustu frá McAfee eða Microsoft, þá eru nánast helmingslíkur á því að viðkomandi þjónustuaðili sé staddur á Indlandi, Malasíu eða Indónesíu, hinn möguleikinn er Mexikó eða lönd Suður-Ameríku.

Ég vinn hjá Hewlett Packard og ber ábyrgð á því að veita tölvuöryggisþjónustu til danska fyrirtækisins A.P. Möller Maersk.  Fólkið sem sér um verkin, er allt staðsett á Indlandi og þar er líka stórhluti notendaþjónustunnar.  HP er með yfir 800 manns á Indlandi til að þjónusta APMM um allan heim.  Að indverska rúpían sé að lækka í samanburði við bandríkjadal mun bara gera landið meira aðlaðandi.

Ísland og Indland eiga ekkert sameiginlegt

Mér sýnist nú af orðum hinnar indversku Jayati Ghosh, að þetta yfirvofandi hrun í efnahagslífi Indlands sé fyrst og fremst tap fjárfesta sem ætluðu að græða heil ósköp og þegar það gengur ekki upp, þá er komin kreppa.  Eins og hún bendir á, þá eru það fjárfestingar í steinsteypu sem eru að fara út um þúfur.  Og slíkar fjárfestingar sá ég út um allt í þeim þremur borgum sem ég heimsótti á Indlandi í febrúar, þ.e. Pune, Chennai og Bangalore. 

Sérstaklega hefur uppbyggingin í Bangalore verið mikil, en hún er nokkurs konar Silicon Valley þeirra Indverja.  Alþjóðlegu tæknifyrirtækin sem þar hafa komið sér fyrir, munu bara fagna gengislækkun rúpíunnar, því það lækkar kostnað þeirra.  Kostnað sem greiddur er af fyrirtækjum um allan heim í dollurum eða evrum, en ekki rúpíum.  Þetta mun því frekar leiða til þess að fyrirtæki flytja meira af þjónustu til Indlands, en færa hana ekki úr landi.  Við þetta bætist síðan að húsnæðisverð mun lækka, sem lækkar rekstrarkostnaðinn enn frekar.

Ég hef enga trú á því að Indland verði nýtt Ísland.  Til þess eru aðstæður gjörólíkar.  Á Íslandi sóttu erlendir fjárfestar í vaxtaskiptasamninga, þannig að þeir bjuggu ekkert til, byggðu ekki húsnæði eða neitt annað sem hönd á festi.  Í Indlandi, samkv. Jayati Ghosh, þá fjárfestu menn í fasteignum og þær verða eftir, þegar þeir flýja með fé sitt.  Fjölþjóðleg fyrirtæki, eins og HP, IBM, Accenture, APMM og hvað þau nú öll heita, munu ekki færa sig frá Indlandi, þegar rekstrarkostnaður þeirra þar lækkar um 15-20%.  Slíkt væri fásinna.  Nei, nú er einmitt tækifærið fyrir þessi fyrirtæki að auka umsvif sín á Indlandi og færa þjónustu frá svæðum með hærri rekstrarkostnað.

Eina samlíkingin sem mér virðist ganga upp milli Íslands og Indlands er þetta með gjaldeyrishöftin, en þó ekki.  Á Íslandi tækju menn því fagnandi að geta flutt 75 þúsund dali með sér úr landi.

Ég vona bara að græðgi fjármálaaflanna gangi ekki út í öfgar í óðagát vegna vanda sem þessi sömu aðilar eru að búa til.  Þeir verða að hafa í huga að sumar grunnstoðir fyrirtækja út um allan heim eru á Indlandi og kippi þeir þessum stoðum niður, þá verða afleiðingarnar allt aðrar og verri, en að vera fastir með fé sitt í einhvern tíma í indverska efnahagskerfinu.


mbl.is Óttast hrun á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Mér sýnist líking á Íslandi og Indlandi vera mjög góð.

Sleggjan og Hvellurinn, 28.8.2013 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1673498

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband