Leita í fréttum mbl.is

Virðing fyrir náttúrunni

Áhugavert að opinberað sé að menn hafi gengið of harkalega að náttúrunni í tengslum við Hellisheiðavirkjun. Teygt sig lengra í nýtingu jarðvarmarýma, en þau leyfðu. Ekki tók það langan tíma.

Ómar Ragnarsson er ítrekað búinn að vara við þessu og menn úr orkugeiranum hafa afgreitt þá gagnrýni sem óþarfa áhyggjur. Nú kemur í ljós að hann hafði rétt fyrir sér. Ætli það sama eigi við um önnur svæði, þar sem Ómar hefur bent á svipaða hluti, sbr. Reykjanesvirkjun.

Þegar Ómar kom fram með sína gagnrýni á blogginu sínu, þá sagðist ég ekki hafa miklar áhyggjur af þessu, þar sem eina sem gerðist væri að menn hittu sig sjálfa heima, þ.e. orkuframleiðsla myndi minnka. Ef jarðhitageymirinn tæmdist alveg, þá einfaldlega legðist framleiðsla af í virkjuninni og hvíla þyrfti svæðið í ótiltekinn árafjölda með tjóni fyrir eigendur virkjunarinnar, þ.e. Reykvíkinga.

Vandi Hellisheiðarvirkjunar

Vandi Hellisheiðarvirkjunar er ekki að jarðhitahólfin standi ekki undir framleiðslugetu virkjunarinnar. Nei, vandinn er að virkjunin er of stór fyrir sjálfbærni jarðhitahólfanna sem eru notuð fyrir orkuframleiðsluna!

Á þessu eru bara tvær lausnir og getur hvor komið í veg fyrir að grípa þurfi til hinnar eða að hið óhjákvæmilega gerist annars:
1) Sækja í holur á öðrum svæðum, t.d. Hverahlíð.
2) Slökkva á hluta af aflvélum Hellisheiðarvirkjunar, þar til að framleiðslan er í takti við sjálfbærni svæðisins.

Ef önnur eða báðar leiðirnar verða ekki farnar, þá þurfa menn einfaldlega að lifa við það, að vinnslugeta svæðisins minnkar um 6% á ári næstu 16 ár og þá verður hvort eð er búið að fara leið 2). Eftir 16 ár snúa menn svo bara lyklinum i skránni og koma aftur eftir 50-100 ár.

Hvort er betra að slökkva á einhverjum aflvélum strax og stjórna þeirri aðgerð eða láta náttúruna um verkið?

Náttúran sem söluvara

Mér virðist stundum gæta þess misskilnings að náttúra Íslands sé öll þannig að hún endurnýi sig, ef af er tekið.  Vissulega mun náttúran líklegast endurnýja sig öll að lokum, en við verðum örugglega ekki til frásagnar um það.  Endurnýjunartíminn er nefnilega í milljónum ára hvað suma landshluta varðar.

Nýting náttúrunnar er gerð með þrennum hætti:

1.  Náttúruskoðun, fyrst og fremst ferðaþjónusta og ferðamennska, en einnig sem bakgrunnur eða leiksvið fyrir myndatökur, kvikmyndir og hljóðupptökur.

2.  Nýting afurða náttúrunnar, þess sem hún gefur af sér og endurnýjast, þ.e. gróður, vatn, jarðhiti, dýr, fiskur í vötnum og ám, fuglar í björgum og sjávarfang.

3.  Nýting þess sem ekki verður auðveldlega lagað, þ.e. byggingarsvæði, svæði undir samgöngumannvirki, efnisnámur, ruslahaugar, virkjanasvæði, uppistöðulón og fleira í þessum dúr.

Tveir fyrri flokkarnir eru eingöngu arðsamir, ef nýtingin er hófleg. 

Náttúruskoðun

Náttúruskoðun er einmitt það.  Skoðun á náttúru landsins.  Hún verður að vera þannig að henni fylgi ekki skemmdir á því sem verið er að skoða, að "sýningargripurinn" verði ekki að fórnarlambi sölumennskunnar eða mannmergðar.  Skoða þarf hvað hver staður ber mikla umferð/mikinn ágang.  Inni í því þarf að skoða hve margir þjónustuaðilar komast fyrir á hverju svæði, má þar nefna staði eins og Landmannalaugar, Jökulsárlón, Sólheimajökull og Svínafellsjökull. 

Orðin er leitun á því svæði á Íslandi, þar sem ekki er í boði skipulagðar ferðir á.  Ég hef verið að skoða þetta undanfarnar vikur í tengslum við uppbyggingu á vefnum Iceland Guide, www.icelandguide.is, (breytingin er komin í loftið).  Nánast sama hvert á land við förum, alltaf má finna aðila sem býður upp á skipulagða ferð þangað eða einkaleiðsögn.  Og hugmyndaflugið er óþrjótandi.  Spurningin er hvort allt sé æskilegt.

Vill fólk sem er á göngu yfir Fimmvörðuháls, að allt í einu lendi þyrla við hliðina á slóðanum eða að jeppi komi þar akandi?  Að skoða gervihnattamyndir af landinu fær mig stundum til að hugsa af hverju eru allir þessir vegaslóðar um hálendið.  Sums staðar liggja þeir svo þétt, að tilgangurinn fyrir fleiri en einum slóða er engan veginn skýr.  Því miður eru fá svæði eftir, þar sem ekki er búið að leggja slóða um svo ekki þurfi að nota tvo jafnfljóta.  Reiðleiðum fylgir oft sama rask og bílslóðum, þannig að þær þarf einnig að skipuleggja.

Náttúruskoðun þarf ekki að gera auðvelda.  Afviknir staðir missa sjarma sinn við að hætta að vera erfiðir aðgengis.  Lónsöræfi, Í Fjörðu, Víknaslóðir, gönguleiðin frá Eldgjá í Lakagíga og síðan áfram í Núpstaðaskóg, Torfajökulssvæðið og fleiri slík svæði hafa sitt gildi vegna þess að þar eru almennt ekki vélknúin ökutæki.  Þessu eigum við að halda. Svæði án vélknúinna tækja eru mikilsvirði.

Nýting náttúruafurða

Nýting þess sem náttúran gefur af sér, sem ég kalla hér náttúruafurðir, verður að vera sjálfbær.  Orkuveita Reykjavíkur er að komast að því hver afleiðingarnar eru af ósjálfbærri nýtingu virkjunarsvæðis Hellisheiðarvirkjunar.  Hvaða gagn er af tugmilljarða fjárfestingu, sem nærri setti fyrirtækið á hausinn, ef menn ganga svo hratt á auðlindina (þ.e. jarðhitageyminn) að hún eyðist upp á 25 árum eða svo.  Hvað þurfa menn að draga mikið úr notkuninni, svo hún verði sjálfbær?  En þetta á ekki bara við um jarðhitavirkjanir.  Landgæði, veiðivötn og ár, bjargfugl, fiskistofnar og hvað það nú er sem við nýtum.  Ég tiltók ekki vatnsafl, þar sem við erum ekki enn farin að stjórna úrkomu, leysingum og jökulbráð til að hafa áhrif á vatnsflæði í árnar sem nýttar eru í vatnsaflsvirkjunum.

Afurðir náttúrunnar halda bara áfram að vera þar sem þær eru meðan við meðhöndlum þær af virðingu.  Um leið og við göngum of nærri þeir, þá hætta þær að geta endurnýjað sig eða gera það hægar.  Ef ám er spillt, hverfur fiskurinn.  Ofveiði á nytjastofnum sjávar olli miklum aflasamdrætti, sem hafði í för með sér minni landsframleiðslu og útflutningstekjur en annars hefði orðið.

Hófleg nýting afurða náttúrunnar er þjóðinni til góða.  Höfum í huga, að núverandi kynslóð þarf að skila komandi kynslóðum landinu sjálfbæru.  Við höfum ekkert leyfi til að svipta náttúruna þeirri getu sinni að endurnýja sig jafnhratt og afurðir hennar eru nýttar.

Óafturkræft nýting náttúrunnar

Líklegast eru ekki margir sem líta á byggð sem óafturkræfa nýtingu náttúrunnar.  Ég tel það nú samt svo vera.  Ég hef oft sagt í gríni, að ef Reykjavík hefði þurft að fara í gegn um umhverfismat áður en þéttbýlið byggðist upp á svæðinu, þá er ég ekki viss um að hún hefði komist í gegn um það.

Í Garðabæ ætla menn að færa veginn út á Álftanes um nokkur hundruð metra vegna nánast nokkurra húsa.  Framkvæmdin mun skemma náttúruminjar og er fullkomlega óafturkræf.  Ástæðan er einhverjum datt í hug að leyfa byggð á svæði við núverandi veg og gera hann því "hættulega" fyrir börn í þessari byggð.  Með uppkaupum á 3-4 húsum hinum megin við götuna væri ekkert því til fyrirstöðu að hafa veginn þar sem hann er.  Nei, þarna á að fara í óafturkræfa, lúxus framkvæmd á náttúruminjasvæði. Ég segi lúxus framkvæmd, því eina sem þarf í reynd að gera þarna er að draga úr umferðahraða á stuttum kafla.  Nokkuð sem íbúar flestra byggðalaga á landinu þurfa að sætta sig, þegar ekið er út úr einu þéttbýlissvæði á leið til annars.

Ég tek þessa framkvæmd við veg út á Álftanes bara sem dæmi um óvirðingu okkar við náttúruna.  Tilflutningur Jöklu yfir í Fljótsdal er annað afrek sem ég get sem Íslendingur ekki verið stoltur af.  Þórustaðanáman í Ingólfsfjalli sést á loftmynd í hlutföllunum 1:1.000.000.  Keflavíkurflugvöllur sést ekki úr sömu hæð!  Rauðhólar við Elliðavatn og Seyðishólar í Grímsnesi eru síðan alveg gjörsamlega óskiljanlegar náttúruskemmdir, þar sem efnið sem tekið var/er af þessum stöðum er gjörsamlega handónýtt burðar- og uppfyllingarefni.  En gígarnir (þ.e. hólarnir) eru hins vegar náttúruminjar sem ættu að vera á heimsminjaskrá.  Efnisnámur eru nauðsynlegar, en þessar þrjár vera sjáanlegar hverjum sem framhjá fara um ókomna tíð.  Höfum í huga að Rauðhólar eru sams konar náttúrufyrirbrigði og Skútustaðargígarnir í Mývatnssveit.

Virkjanir eru út um allt land.  Margar eru litlar og í eins mikilli sátt við umhverfið sitt og hægt er að hugsa sér.  Get ég þar nefnt Grímsárvirkjun á Héraði, Smyrlabjargárvirkjun í Suðursveit, Sognsvirkjanirnar hinar neðri, Mjólkárvirkjun í Dýrafirði og ýmsar fleiri.  Dæmi eru líka um stórar virkjanir í sátt við umhverfið og kemur þar Blönduvirkjun fyrst í hug.  Aðrar eru ekki eins vel heppnaðar út frá sjónarhorni náttúrunnar og læt ég vera að nefna hverjar mér finnst þar skara upp úr.  Ég vil þó segja, að mér finnst í umræðunni um rammaáætlun gleymast, að virkjanir eru þegar út um allt.  Því væri kannski mikilvægt að bæta við einum flokki í áætlunina, þ.e. þegar starfræktar virkjanir.

Vegir eru síðan kapítuli út af fyrir sig.  Ég hef áður nefnt hálendisslóða sem eru út um allt.  Síðan er varla til sá dalur þar sem stutt er á milli sveita, að ekki sé slóði upp dalinn og yfir í næstu sveit.  Oft dugar ekki einn, heldur eru þeir fleiri.  Hvað ætli sé t.d. hægt að velja úr mörgum mismunandi leiðum milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar?  1) Héðinsfjörður og Strákagöng, 2) Lágheiði, 3) Upp úr Svarfaðardal yfir í Unadal, 4) Svarfaðardalur um Heljardalsheiði yfir í Seljadal eða Kolbeinsdal og þaðan í Hjaltadal, 5) Yfir Hjaltadalsheiði liggur slóði milli Hjaltadals og Hörgárdals, 6) Úr Hörgárdal liggur slóði yfir í Norðurárdal, 7) Öxnadalsheiði; 8) Upp úr Vesturdal í Skagafirði er hægt að fara tvær leiðir upp á hálendið og tengjast þar slóðum sem síðan tengjast þremur leiðum ofan í Eyjafjarðardal. Ýmsar hugmyndir um vegtengingar milli suðvesturhornsins og norðurlands vekja ekki hjá mér hrifningu, þar sem með því er verið að leggja til vegi um afvikin svæði sem eiga að fá að vera afvikin.  Sama á við um of miklar (mínu mati) vegabætur á hálendisvegum.  Hálendisvegir eiga að fá að vera hálendisvegir.

Við þróun byggðar og þjónustusvæða fyrir byggðir verður að taka tillit til náttúrunnar á margan hátt.  Horfa verður jöfnum höndum á áhrif náttúrunnar á byggðina og byggðarinnar á náttúruna.  Sem íbúi við Elliðavatn, þá finnst mér góð sú fjarlægð sem almennt er á byggðinni frá vatninu. 

Flest bæjarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru búin að nýta það byggingarland sem kemst fyrir á landi sem áður var undir jökli, þ.e. grágrýtissvæðin.  Garðbæingar og Hafnfirðingar eru komnir inn í hraunin hjá sér, þ.e. í Garðabæ eru það hin 7.200 ára hraun frá Búrfelli og í Hafnarfirði eru menn komnir út í Flatahraun sem rann fyrir um 1.000 árum og Kapelluhraun sem rann 1151. Víða annars staðar verður að gæta þess að virða sérstöðu bæjarstæða við þróun byggðar.  Það geta verið fornleifar á svæðinu, náttúruminjar, náttúruverndarsvæði, náttúruvár eða bara hreinlega landslag sem vert er að halda óbreyttu með útivistarlegu tilliti. Of langt mál er að telja slíka byggðakjarna upp.  Svo margir eru þeir.

Lokaorð

Græðgi í nýtingu náttúrunnar hittir menn heima. Hvort sem það er í ofnýtingu jarðhita, með of miklum straumi ferðamanna inn á viðkvæm svæði, umferð þar sem umferð á ekki að vera, óvarlegri efnistöku, rangri umgengni á vatnsverndarsvæðum eða einhverju öðru. Náttúran er okkar dýrmætasta eign sem minnkar að verðgildi, ef við förum illa með hana.  Sérstaða náttúru Íslands er mikli fjölbreytni hennar á litlu svæði.  Auðvelt er að skoða margar náttúruperlur á stuttum tíma.  Önnur sérstaða er að hér er hægt að ferðast um nánast ósnortin svæði.  Þetta tvennt mun færa landinu miklar tekjur um ókomna framtíð, en þá og því aðeins að við látum ekki græðgina ráða nýtingu náttúrunnar.


mbl.is Hafa áhyggjur af stöðu jarðhitasvæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Ekki ætla ég að dæma um hvort of nærri auðlindinni hafi verið gengið eða ekki. Um það vita aðrir meira og reynslan mun kveða upp óyggjandi dóm.

Hins vegar er ég dómbær um að þessar upplýsingar sem nú er skotið hátt á loft í fjölmiðlaflugeldasýningu eru gamlar og hafa birst áður, sumar fyrir meira en 10 árum. Ekkert nýtt er í þessu, þetta lá fyrir í framkvæmdaleyfum og matsskýrslum og var komið fram í fréttum fyrir um áratug mest af þessu nema etv varðandi Skarðsmýrarfjall.

Mikið er gert úr því nú að Skarðsmýrarfjall sé kaldara en gert var ráð fyrir. Það eru hins vegar upplýsingar sem lágu fyrir við umsókn um virkjunarleyfi fyrir 5. áfanga og þá lá jafnframt fyrir að Reykjafell var mun öflugra en gert var ráð fyrir og bætti Skarðsmýrarfjall upp.

Það er heldur ekki nýtt að menn bregði hart við og geri hávaða út af þessu. Það var líka gert í kjölfar eldri fréttanna, þannig að ekki aðeins eru fréttirnar gamlar og endurteknar, heldur viðbrögðin líka!

Eftir stendur spurningin: Hvað vakir fyrir forystumönnum OR með því að vekja þetta mál upp aftur og beita fjölmiðlana blekkingum (ótrúlega auðveldlega) til að sverta stöðuna?

 

Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.6.2013 kl. 22:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mikil er trú þín, Þórhallur, ef þú telur að upplýsingarnar nú séu blekkingar til þess að "sverta stöðun" en að fyrri fullyrðingar um þessa virkjun hafi verið sannleikur.

Þetta er þveröfugt. OR forráðamennirnir hafa árum saman þrætt fyrir veruleikann og reynt að fegra stöðuna fram í rauðan dauðann og sendu meira að segja frá sér yfirlýsingu í fyrra þar sem fjölmiðlaumfjöllun á grundvelli upplýsinga og mynda minna voru harmaðar!

Fyrir áratug flaug virkjunin í gegnum mat á umhverfisáhrifum vegna þess að fullyrt var að engin vandamál yrðu vegna loftmengunar, tæknileg lausn lægi fyrir. Líka fullyrt að engin vandamál yrðu vegna niðurdælingar eða affallsvatns. Aldrei var minnst á manngerða jarðskjálfta og fullyrt var að virkjunin stæðist kröfur um 50 ára endingu.

Síðast í fyrra var fullyrt að niðurdælingin gengi vel og affallsvatn væri ekkert, þótt nýjar tjarnir sýndu það. Sagt var langt fram eftir þurrkasumri að þær væru vegna vorleysinga!

Það var reynt að fegra stöðuna og "beita fjölmiðlana blekkingum" í því skyni.

Nú neyðast OR-menn til að viðurkenna að þetta gangi æ erfiðar.

Í fyrra neyddust þeir til að viðurkenna loftmengunina með því að óska eftir átta ára fresti til þess að skoða, hvort ráð fyndist við henni.

Þeir neyddust líka til að viðurkenna að jarðskjálftarnir vegna niðurdælingarinnar væru manngerðir og voru ekkert "vekja neitt mál upp aftur" því að þeir höfðu þagað yfir því að þetta gæti gerst eins og gerst hefur erlendis.   

Ómar Ragnarsson, 10.6.2013 kl. 23:11

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Einu er ég hjartanlega ósammála í þessum pistli og það er sú staðhæfing að aflasamdráttur á Íslandsmiðum hafi orðið vegna ofveiði. Við eigum eftir að sjá snúið ofan þeirri Hafróbábilju innan nokkurra ára, en þó helst mun fyrr. Þar er vannýtt auðlind sem auka má sókn í.

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.6.2013 kl. 08:18

4 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Trúlega hef ég ekki talað nógu skýrt, Ómar. Ég er ekki að deila við þig eða aðra um sjálfbærni eða hvort á annan hátt þessi virkjun stenst betur eða verr. Ég er aðeins að benda á að þetta fjölmiðlauppþot núna er undarlegt.

Allar þessar fullyrðingar sem nú koma fram um að virkjunin standist ekki væntingar byggja á upplýsingum sem voru löngu áður komnar fram. Þetta er aðalatriðið. Svo hitt líka: Við verðum að skoða hvers vegna þetta kemur fram núna. Hvers vegna talar stjórnarformaðurinn um það nú, að það kosti svo og svo mikið að ná viðunandi afköstum frá virkjuninni?

Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá lá það fyrir í upphafi að til að ná þessum afköstum þyrfti að bora fleiri holur. Það hefur ekki verið gert. Ég flutti á sínum tíma af því fréttir í Útvarpinu og Sjónvarpinu að Jarðboranir hf væru að pakka vélum sínum niður og undirbúa flutning til útlanda vegna þess að OR stæði ekki við áætlanir um að bora.

Nú kemur forstjórinn og segir að hætta verði við Hverahlíðarvirkjun til að fá orku í Hellisheiðarvirkjun. Ég felli enga dóma um ágæti þessara ráðstafana, Ómar, eða verndarsjónarmið eða neitt slíkt, ég einfaldlega velti fyrir mér hvað fyrir þeim vakir að rjúka upp nú og gera stórmál úr einhverju sem hefur lengi (amk 10 ár) verið vitað og opinbert. Þarna býr eitthvað undir og ég vil vita hvað!

Og - það veldur mér sannarlega vonbrigðum að sjá hve auðveldlega er hægt að hafa fjölmiðlana að fíflum!

Þórhallur Birgir Jósepsson, 11.6.2013 kl. 09:44

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórhallur, bara svo eitt sé á hreinu, þá er mér nákvæmlega sama gagnvart mínum málflutningi hvort átt hafi að bora fleiri holur eða ekki.  Það er heldur ekki punkturinn sem ég er að halda á lofti.  Ég er að benda á að eins og staðan er í dag, þá er verið að ganga meira á svæðið en endurnýjun þess ræður við.  Gott að menn hafi vitað það í upphafi, en þess frekar arfaheimskulegt að taka aflvélar í notkun sem í reynd var ekki næg orka til að knýja.  Þetta er óvirðing við náttúruna.

Marinó G. Njálsson, 11.6.2013 kl. 12:54

6 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Ég er ekki dómbær um þetta Marinó og reyni ekki að fella dóma um það. Þetta er hins vegar fróðleg lesning um jarðhitavirkjanir almennt: http://www.isor.is/frettir/athugsemdir-um-jardhitavirkjanir

Hitt er svo þekkt (þó að forsvarsmenn OR láti sem það sé alls ekki) að í byrjun var gert ráð fyrir að bora viðhaldsholur, eina á ári. Það var ekki gert. Ég veit ekki um neinar nýjar rannsóknir á þessu svæði sem rýra eða draga úr þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar þessum áætlunum.

Eftir stendur að uppþotið nú er skrítið og augljóslega verið að reyna að þyrla upp almenningsáliti á röngum forsendum, en ég veit ekki í hvaða tilgangi. Mér þykir ekki gott þegar nemm reyna að beita blekkingum og í húfi eru milljarða verðmæti í almanna eigu. 

Þórhallur Birgir Jósepsson, 11.6.2013 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband