Leita í fréttum mbl.is

Allt byggt á blekkingum og endurbirtur pistill

Nú hefur sérstakur saksóknari birt ákærur á hendur fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum tveggja hrunbanka, þ.e. Landsbanka Íslands og Kaupþings.  Hef ég þegar lesið að mestu í gegn um helming ákærunnar gegn Landsbankamönnum og verður ekki sagt annað en að hugkvæmnin í svikunum er ekki mikil.  Er hún raunar ákaflega aulaleg, svo ekki sé meira sagt.  Menn héldu í raun og veru að það væri í lagi, að bankinn seldi eignalausu eignahaldsfélagi hlutabréf og lánaði fyrir kaupunum og þar með væri bankinn laus við bréfin úr bókum sínum. Sigurjón Þ. Árnason lét meira að segja hafa eftir sér, að þetta hafi verið hluti af því að Landsbankinn var viðskiptavaki yfir sjálfum sér!

Ekki var nú þekking manna á lögum mikil, hafi þeir haldið þetta í lagi.  Ég hélt að það ætti að vera öllum ljóst að hlutverk viðskiptavaka er ekki að svindla með viðskipti, í annan stað þá er enginn viðskiptavaki yfir sjálfum sér og í þriðja lagi þá er það hlutverk viðskiptavaka að kaupa og selja á markaði, en ekki auka eftirspurn með kauptilboðum á markaði en selja síðan allt sem keypt er utan markaðar í sölum sem ekki eru tilkynningarskyldar.  Ég hef heyrt margt aulalegt koma frá fyrrverandi stjórnendum bankanna, en þessi skýring Sigurjóns er með þeim aulalegustu.  Eigum við að trúa, að bankastjóri viti ekki hvað má og hvað ekki, sérstaklega þegar maðurinn fór fyrir verðbréfasviði bankans og ætti því að vera með þekkingu á atriðum eins og viðskiptavaka.  Ég verð að viðurkenna, að ég hef alltaf litið svo á, að Sigurjón Þ. Árnason væri bráðgreindur maður.  Með skýringunni sem hann gaf í viðtali á Stöð 2 um daginn, þá fannst mér hann gera lítið úr sjálfum sér.  Er það kennt við háskóla á Íslandi og úti í hinum stóra heimi, að menn megi vaka yfir sjálfum sér?

Endurbirt grein 

Fyrir rúmum þremur árum (11.2.2010) birti ég pistil hér örlítið breyttan, sem mér finnst fullt tilefni til að endurbirta.  Þar lýsi ég sambærilegum hlutum og nú hefur verið ákært fyrir:

Tikk-takk-tikk, tímasprengjan tifar, almenningur er að springa

Ég hef aldrei upplifað eins ástand og núna er í þjóðfélaginu.  Hver afhjúpunin á fætur annarri veltur yfir landsmenn um viðskipti svo kallaðra auðmanna, þar sem í ljós kemur að þeir áttu ekkert nema að nafninu til.  "Auðmaður" A átti ekki einn aur í því sem notað var til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki.  "Auðmaður" B átti ekki einn aur í því sem notað til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki.  Framleiðslufyrirtæki keypti sölufyrirtæki og átti ekki einn aur af þeim peningum sem notaðir voru við kaup á félaginu.  Hinir svo kölluðu auðmenn voru upp til hópa menn án peninga eða að þeir hættu aldrei sínu eigin aur í þær fjárfestingar sem þeir tóku þátt í.  Veldi þeirra var loftbóla byggð á afleiðum og skuldsettum yfirtökum.

Hér á landi byggðust eignir "auðmanna" á hlutabréfum sem þeir höfðu "keypt" í bönkunum.  Kaupverðið hafði nánast alltaf verið að fullu tekið að láni hjá bönkunum sjálfum beint eða í gegn um eitthvað leppfélag.  Peningurinn kom úr bankanum, tók í versta falli tvo, þrjú hopp og skiluðu sér svo aftur inn í bankann, þar sem hlutabréfin voru oftast keypt af aðila sem notaði peninginn til að gera upp skuld við bankann.  Nú hlutabréfin í bönkunum voru svo notuð sem trygging fyrir lánum sem notuð voru til að kaupa önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir nýjum lánum, sem notuð voru til að kaup enn önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir enn öðrum lánum, o.s.frv.  Hvergi í allri keðjunni er lögð til ein króna af eigin fé.  Eins og allir vita, þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og fall bankanna haustið 2008 varð til þess að keðja brast.  Málið er að nær öll hlutabréfaeign "auðmanna" hékk saman í svona keðju sem er að leysast upp, eins og þegar lykkjufall verður.  Allir sem þekkja til prjónamennsku vita að nóg er að ein lykkja falli til að allar lykkjur fyrir ofan missa festingu sína og ef ekki er gripið í snarhasti til heklunálarinnar, þá getur flíkin eyðilagst.

"Auður" íslenskra "auðmanna" lítur núna út eins og peysa alsett lykkjuföllum.  Hann er að engu orðinn.  Hann var líklegast enginn allan tímann.  Það var allt fengið að láni.  Dapurleg staðreynd, sem margir af þessum mönnum munu þurfa að lifa við sem eftir er ævi sinnar.  Þeir skreyttu sig með stolnum fjöðrum og gengu um í nýju fötum keisarans.

Þetta var hin opinbera eignahlið á "viðskiptaveldi" þeirra, en hvað með hina óopinberu hlið.  Það runnu jú stórar fjárhæðir til þeirra út úr félögum "viðskiptaveldisins".  Þessar fjárhæðir virðast vera týndar nema þær hafi bara horfið í hítina.  Satt best að segja, þá held ég að stór hluti af þessum peningum séu löngu búnir í eyðslufylleríi "auðmannanna" og þegar sjóðirnir tæmdust, þá var eina leiðin til að tryggja meira aðgang að peningum að kaupa banka.

Ég sagði að ástandið í þjóðfélaginu væri viðkvæmt.  Það er allt við að springa.  Almenningur sér flett ofan af hverri svikamyllunni á fætur annarri.  Við þurfum að horfa upp á bankana leysa til sín hvert fyrirtækið á fætur öðru.  Fyrirtæki sem "auðmennirnir" og leppar þeirra áttu að nafninu til, en bankarnir áttu í raun og veru.  "Auðmenn" og leppar sem hafa lifað hátt á okkar kostnað og við eigum að borga reikninginn.  "Auðmenn" og leppar þeirra eru að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þeir kunnu á kerfið og höfðu her lögmanna á sínum snærum, en í almenning er kastað brauðmolum.  Jón Ásgeir fær meiri afskrift í einni færslu hjá einu af svo kölluðu fyrirtækjum hans, en öll heimili landsins fá af húsnæðislánum sínum!  Þess vegna er almenningur að springa.  Og eins og einn bankamaður komst svo snilldarlega að í dag, þá verður fólk "að sætta sig við það".  Ég viðurkenni það fúslega, að það sauð á mér við þessi orð sem viðhöfð voru í hópi fólks sem er að fást við vanda almennings alla daga, hver á sinn hátt.  Málið er að við þurfum ekki að sætta okkur við það og við eigum ekki að sætta okkur við það.  Það verður bankinn að sætta sig við.

En það var ekki bara viðskiptaveldi "auðmannanna" sem var svikamylla.  Eignasafn gömlu bankanna sem tengdist viðskiptum við "auðmennina" var ekki byggt á neinu.  Viðskiptalíkan gömlu bankanna byggði á afleiðuviðskiptum, þ.e. loftbólu eða sápukúlu.  Eða á ég að nota kunnuglega samlíkingu við lauk úr bíómynd.  Hvað er inni í lauk?  Maður flettir hverju laginu á fætur öðru af og innst er ekkert.  Það er enginn kjarni í lauk og þannig var það með kröfur bankanna á "auðmennina".  Það var ekkert þar að baki.  Ekkert.  Þrátt fyrir það mokuðu bankarnir peningum í "auðmennina", sem eru núna að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þessir sömu bankar hjálpuðu "auðmönnunum" að komast hjá því að taka ábyrgð.  Það sem meira er, verið er að aðstoða þessa sömu "auðmenn" við að eignast aftur fyrirtækin sem þeir stjórnuðu en áttu raunar aldrei neitt í.  Svo virðist sem "auðmennirnir" munu "eiga" meira eftir uppgjörið, en þeir áttu nokkru sinni áður.  Þess vegna er almenningur að springa. 

Tikk, takk, tikk, takk - búmm!


mbl.is Stórfelld og ólögmæt íhlutun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Marinó. Það verða ekki neinar tiltækar afsakanir, þegar vekjaraklukkan hringir næst, eins og að engum hafi nokkurn tíma dottið í hug að exelskjala-tölufalsbankar gætu í raun og veru orðið gjaldþrota!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.3.2013 kl. 23:54

2 Smámynd: Sólbjörg

Takk fyrir frábæran pistill.

Sigurjón Landsbankastjóri sagði i sjónvarpviðtali eftir að ákæran var birt að þá framkvæmdu eiginlega allir þessir gjörningar sig sjálfir.

Þeir bankastjórnendur vissu ekki neitt sagði Sigurjón "Þetta bara var svona viðskiptaferlið og engin vissi annað en þetta ætti að vera svona". Allir, voða, voða hissa!! Gúgú! Sigurjón snillingur.

Við munum öll að ofurlaun bankastjórnenda voru rökstudd með því að ábyrgðin væri svo mikill og stjórnendahæfnin einstök snilld.

Í viðtalinu var ekki hægt að greina snefill af því.

Sólbjörg, 26.3.2013 kl. 09:25

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir góðan pistil

Ásdís Sigurðardóttir, 26.3.2013 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1680016

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband