6.1.2013 | 23:42
Á ósvífnin sér engin takmörk?
Svipan birti frétt í gær laugardag undir fyrirsögninni Lánveitandinn reyndi að innheimta afborganir af skuldabréfi sem hann hafði selt. Í fréttinni er því haldið fram að a.m.k. eitt fjármálafyrirtæki og líklegast fleiri hefðu haldið áfram að innheimta lán, sem þau áttu alls ekki og höfðu því engan rétt á að innheimta. Fjármálafyrirtækin eru ekki nefnd á nafn, en sagt berum orðum að um banka sé að ræða.
Ásökunin sem sett er fram í frétt Svipunnar hljóðar upp á, að banki hafi selt lán til hollensks fjármálafyrirtækis, en þrátt fyrir það látið líta út gagnvart lántakanum að bankinn væri ennþá lögmætur kröfuhafi. Þegar lántakinn/greiðandinn óskaði eftir því að sjá frumrit skuldabréfsins, þ.e. gerði meira en óska eftir "staðfestu" afriti, þá tókst bankanum ekki að sýna fram á að hann hefði skuldabréfið í vörslu sinni. Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að viðkomandi skuldabréf hafði verið selt til hollensks fjármálafyrirtækis fyrir talsverðum tíma og að hollenska fjármálafyrirtækið hafði strax afskrifað bréfið til að nýta þarlend lög um skattaafslátt (eða lækkunar á skattskyldum tekjum/eignum). Eftir að það komst upp greiddi íslenski svikarinn, því þetta er ekkert annað en rakin fjársvik, háar upphæðir til að þagga málið niður.
Nú veit ég ekkert hvort umrædd saga sé sönn, en verð þó að viðurkenna, að ég hef haft veður af svona löguðu, en þó bara sem kjaftasögum. Þessi ásökun er samt svo alvarleg að hana verður að rannsaka. Þar sem viðkomandi banki er ekki nafngreindur þá liggja allir undir grun. Raunar segir í fréttinni, að fleiri en einn banki eigi í hlut.
Ég ætla ekki að fara að geta mér til opinberlega hvaða bankar eiga í hlut. Ég er þó þess full viss að Svipan hefði ekki birt þessa frétt sína nema vera með áreiðanlegar heimildir fyrir henni.
Traustið endanlega farið
Reynist þessi frétt sönn, þá er einfaldlega endanlega búið að rústa öllu trausti sem bankarnir endurreistu hafa mögulega náð að byggja upp. Staða lántaka er sú, að þeir hafa enga tryggingu fyrir því, að fjármálafyrirtækið sem er að innheimta lán þeirra hafi yfirhöfuð umboð til þeirrar innheimtu. Fyrirtækin sjálf, fyrirtæki sem þau tóku yfir eða jafnvel fyrirtækin sem hrundu gætu hafa selt kröfurnar til einhverra aðila úti í heimi (eða hér á landi) sem keyptu kröfurnar í þeim eina tilgangi að nýta til skattahagræðis.
Hvers vegna er skuldara ekki tilkynnt, þegar kröfuhafaskipti verða á kröfu en kröfuhafanum er tilkynnt þegar skuldaraskipti verða? Af hverju hefur skuldari minni rétt á að vita hver er kröfuhafinn hans, en kröfuhafinn að vita hver er skuldarinn? Af hverju fékk ég ekki tilkynningu frá mínum viðskiptabanka eða sparisjóði, þegar krafan á mig var færð frá einu aðila til annars? Fóru kröfurnar þessa leið eða eru þeir aðilar sem eru að innheimta lánin bara að gera það í umboði einhverra? Af hverju veit ég yfirhöfuð ekki hver er eigandi kröfunnar á mig og veit því ekki við hvern ég á að tala til að fá niðurstöðu í málin? Ég komst t.d. fyrst að því í maí 2012 að Arion banki átti kröfu sem ég var búinn að reyna að semja við Dróma um frá því 24. ágúst 2009! Samt hafði Arion banki ítrekað neitað að semja við mig um kröfuna, þar sem Drómi átti hana!
Ég hef raunar heyrt skýringuna á því af hverju skuldari fær ekki að vita af breytingu á stöðu kröfuhafa. Það er svo flókið og síðan vilja kröfuhafar oft vera nafnlausir! Einmitt, svo hægt sé að svindla á skuldurum eins og lýst er í frétt Svipunnar?
Ótrúlega auðvelt í framkvæmd
Hvort sem þessi frétt Svipunnar er rétt eða ekki, þá er þetta greinilega möguleiki. Upprunalegur kröfuhafi (og þeir sem á eftir koma) getur hvenær sem er selt kröfuna einhverjum andlitslausum aðila en samt haldið áfram að innheimta reglulegar greiðslur af henni, þó viðkomandi hafi engan rétt til þess, í þeirri trú að hinn nýi kröfuhafi sé fyrst og fremst að kaupa kröfuna til að nýta til afskrifta í skattalegu hagræði.
Málið er að þetta er svo auðvelt í framkvæmd. Íslenski svikarinn þarf bara að koma sér í samband við erlendan svikahrapp sem er til í að taka þátt í leiknum. Lánasafn er að nafninu til selt hinum erlenda aðila á fáránlegu undirverði sem strax afskrifar safnið til að nýta sér skattareglur í viðkomandi landi. Íslenski svikarinn fær í sinn hlut 10-15% af andvirði lánasafnsins og getur haldið áfram að innheimta það upp í topp, meðan erlendi svikahrappurinn gefur upp í sínu heimalandi, að lánasafnið sé óinnheimtanlegt, færir heildarupphæð safnsins til gjalda hjá sér og nýtur skattalækkunar sem nemur 20-30% (ef ekki meira) af heildarupphæðinni. Báðir svikararnir fá eitthvað í sinn vasa. Íslenski skuldarinn er hvorki að græða né tapa, en það gera íslenskir skattgreiðendur og skattgreiðendur í heimalandi erlenda svikarans. (Svo er náttúrulega spurningin hvort greiðslur skuldarans af láninu renni inn á reikning fjármálafyrirtækisins eða einhvers annars.)
Staðfest afrit sanna ekkert
Staðfest afrit skuldabréfa hafa hingað til þótt fullnægjandi sönnun fyrir eignarhaldi þess sem leggur afritið fram á kröfunni. Sýslumenn og dómstólar hafa raunar ítrekað látið duga að fjármálafyrirtæki leggi fram slík staðfest afrit. Miðað við frétt Svipunnar, þá eru þau ekki jafnörugg sönnun og ætla þætti.
Minnsta mál er að falsa slík skjöl. Einfaldlega er tekið afrit af skuldabréfi, sem hefur verið selt samverkamanni í svikunum og það geymt í skjalahirslu fjármálafyrirtækisins í staðfrumritsins. Slíkt afrit getur verið ótrúlega nákvæm eftirgerð frumritsins, t.d. ef frumritið hefur verið skannað inn og síðan prentað út. Þegar óskað er eftir staðfestu afriti, er tekið ljósrit af afritinu og á það skráðar upplýsingar um að um staðfest afrit sé að ræða. Jafnvel fyrir fagmann er erfitt að greina hvort ljósrit af skjali sé af frumriti skjalsins eða hvort útprentun innskannaðs skjals hafi verið ljósritað. Er því raunar með ólíkindum, að sýslumenn og dómstólar skuli láta duga að leggja fram staðfest afrit nema að fulltrúi sýslumannsins eða dómstólsins hafi verið viðstaddur þegar hið staðfesta afrit var útbúið og geti vottuð um að um ósvikið skjal sé að ræða. Hér á landi virðist það aftur í verkahring skuldarans að afsanna að skjal sé ósvikið fremur en kröfuhafans að sannað að svo sé.
Sé frétt Svipunnar rétt, þá er kominn upp ótvíræður vafi um hvort staðfest afrit af frumriti staðfesti nokkurn skapaðan hlut. Eins og fram kemur í fréttinni, þá sýndi bankinn lántakanum "allskonar pappíra stimplaða og undirritaða sem staðfest afrit af skuldabréfinu". Þetta reyndist allt vera ómerkilegt skjalafals eða löngu úrelt gögn. Spurningin sem þarf að svara er: Hversu algengt er þetta?
Ósvífni sem á sér engin takmörk
Því miður, þá verð ég að viðurkenna, að ég trúi þessari frétt Svipunnar fullkomlega. Þetta er bara enn eitt dæmið um þá ósvífni sem virðist viðgangast innan íslensku fjármálafyrirtækjanna. Ég hef orðið vitni að alls konar ósvífni og þessi gengur ekki meira fram af mér en margar aðrar. Ég þori til dæmis að fullyrða, að ekki eitt einasta fjármálafyrirtæki á Íslandi fer eftir ákvæðum laga 107/2009 í skuldaúrvinnslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Nánast alls staðar virðist gilda sú regla, að skuldi skuldari fjármálafyrirtækinu tiltölulega lága upphæði (undir 500 m.kr.) þá frýs fyrr í helvíti en að fjármálafyrirtækið gefi nokkuð eftir fyrr en búið er að strípa skuldarann af öllum eignum og eftir það er viðkomandi helst keyrður í gjaldþrot. Sé skuldin hins vegar yfir 500 m.kr., þá er eins og afskrifað sé hægri-vinstri og viðkomandi heldur öllum eignum sínum að auki. Alls staðar virðist gilda sú regla (fyrir þá sem skulda undir 500 m.kr.), að draga mál á langinn eins og hægt er og gæta þess að á þau hlaðist allur mögulegur og ómögulegur kostnaður og reyni skuldari að halda uppi mótrökum í málinu, þá eru stefnuvottar sendir með hótanir um uppboð og gjaldþrot.
Leið bankanna er allt of oft leið þvingunar frekar en leið umræðu. Því miður fyrir alla hafa bankarnir allt of oft haft rangt fyrir sér í túlkun laga, en það hefur enn ekki orðið til þess, að þeir hafi óskað eftir viðræðum við hagsmunasamtök lántaka til að fá botn í málin. Hversu mörg heimili og fjölskyldur verða svipt öllu sínu og lögð í rúst áður en bankarnir ná áttum? Hversu mörg dómsmál þurfa að falla bönkunum í óhag áður en þeir ná áttum? Hvers vegna láta stjórnvöld bankana vera einráða um svo kölluð úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki, þegar ljóst er að þetta eru úrræði fyrir fjármálafyrirtækin til að hafa sem mest af heimilunum og fyrirtækjunum en ekki úrræði í samræmi við ákvæði laga nr. 107/2009 um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldmiðilshruns. Ég veit ekki svörin, en í mínum huga er ljóst að almenningur mun ekki ná rétti sínum nema í gegn um dómstóla.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Heill og sæll Marinó; jafnan !
Þakka þér fyrir; þessa samantektina - sem ALLAR hinna, og fyrri.
Þetta; hefir mig verið búið að gruna, all lengi.
Ekki einleikin; tregða Bankanna, með upplýsingagjöf ýmsa, þegar fólk hefir þurft, eftir að leita.
Seint; mun eftirfylgni þín - sem samvizkusamleg eftirgrennzlan, fullþökuð verða.
Með beztu kveðjum; sem endranær, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 00:20
Ég á ekki orð yfir ósvífninni! Það sem mér finnst samt eiginlega verst er að ég er ekki hið minnsta hissa á þessari uppgötvun og ekki í neinum vafa um að hún sé sönn.
Við (þjóðin) erum eins og kona sem býr við ofbeldi af hálfu maka, lamin ítrekað en heldur samt áfram að borga og vonar að bankarnir verði góðir næst og lemji ekki jafn fast.
Bjarki Gudlaugsson (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 02:46
Takk fyrir góða samtekt á siðlausri framkomu banka við lántakendur. Ég get ekki tekið undir niðurstöðu þína um að "almenningur" muni aðeins ná fram rétti sínum í gegnum dómstóla. Dómstólar dæma út frá efnisatriðum einstakra mála en ekki með gildi eins og sanngirni og réttlæti í huga. Dæmi um þetta eru "gengistryggðu" lánin sem Giltnir veitti og dæmd voru lögleg.
Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 07:50
Það er í raun sama hvort fótur er fyrir þessu eða ekki Marinó, sagan er farin af stað og því nauðsynlegt að rannsaka málið nánar. Það liggur á hreinu að ekki er um einstakt mál að ræða, ef satt er. Þá hlýtur það fyrirtæki sem þetta gerði að hafa selt eitthvert safn lána.
Ef þetta er skröksaga munu bankar og fjármálastofnanir væntanlega leggja fram sönnun þess, það er varla að þeir vilji sitja undir slíkum ásökunum. Ef þeir eru saklausir munu þeir væntanlega krefjast rannsóknar til að hreinsa sig af áburðinum.
Bregðist bankar og lánastofnanir ekki við þessum ásökunum er ekki hægt að meta þessa sögu á annan veg en að hún sé sönn.
Nú hafa nokkrir dómar verið felldir um starfsemi banka og fjármálafyrirtækja. Dómar þar sem þessi fyrirtæki eru dæmd sek við íslensk lög. En hvar eru gerendur þeirra lögbrota? Fyrirtæki taka ekki upp hjá sjálfu sér að framkvæma lögbrot, þau hafa ekki sjálfstæðann vilja. Það hlýtur alltaf einhver gerandi að vera að baki. Hvers vegna hefur enginn þeirra þurft að svara til saka?
Þetta er eitthvað sem ég mun seint skilja!
Gunnar Heiðarsson, 7.1.2013 kl. 09:53
Ég veit ekki með aðra en ég ætla að krefjast þess að fá að sjá frumrit af lánum sem ég tók fyrir hrun og eru með minni undirskrift og á "orginal" pappír (ekki ljósriti) og finnist sá pappír ekki mun ég leggja fram kæru um þjófnað, takk fyrir þetta Marinó, þetta er alveg ótrúlegt.
Sævar Einarsson (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 10:24
Ég er hissa, en veit ekki af hverju. Maður á ekki að vera hissa á neinu lengur sem kemur í ljós með bankana.
Veistu, Marinó, hvort Hagsmunasamtökin munu fara með þetta mál inn á borð stjórnvalda/ríkisstjórnarinnar?
Billi bilaði, 7.1.2013 kl. 10:28
Lilja, ég tel a.m.k. alveg ljóst að ekkert réttlæti mun koma frá stjórnvöldum eða fjármálafyrirtækjum án atbeina dómstóla. Enginn gerir ráð fyrir að staða allra verði leiðrétt og jafnvel þó dómstólar taki fullkomlega undir kröfur um leiðréttingar lána, þá situr fólk uppi með gríðarlegt tap oft talið í tugum milljóna.
Gunnar, ég held að bankarnir munu þegja þunnu hljóði, þar sem þó svo þetta gæti verið skröksaga, þá held ég að þeir séu ekki áfjáðir í að hleypa einhverjum óviðkomandi í bækur sínar. Síðan er spurningin hverjir eru hæfir til að skoða bækur bankanna, þ.e. hafa þekkinguna og hafa ekki tekið þátt í svindlinu með þeim eða forverum þeirra fram til þessa.
Marinó G. Njálsson, 7.1.2013 kl. 10:43
Bugger The Bankers
http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=WSIUf2hD6Io
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 12:04
Þakk fyrir þín skrif Marínó. Þar sem þú ert með yfirburðaþekkingu á þessum gengismálum langar mig að spyrja þig að einu. Ég sá hér að ofan að Lilja Mósesdóttir nefnir að erlend lán Glitnis hafi verið dæmd lögleg af Hæstarétti. Þetta hefur eitthvað farið fram hjá mér, var með erlent lán hjá Glitni á sínum tíma og var búinn að fá leiðréttingu skv. Árna Páls lögunum svo kölluðu. Hvað þíðir þetta, munu þeir ekki leiðrétta þessi lán frekar skv. öðrum dómi Hæstaréttar eða á maður von á frekari leiðréttingu frá Íslandsbanka þegar þessum prófmálum er lokið?
Rúnar (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 13:21
Eiginlega finnst mér að fjármálafyrirtækin ættu að krefjast rannsóknar á þessu máli, þ.e. ef þeir eru saklausir. Því þetta verður ekki þvegið af þeim nema með heiðarlegri hlutlausri rannsókn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.1.2013 kl. 13:47
Það er eiginlega tvennt í þessu sem ég hnýt um:
1) Ótrúlegt hugmyndaauðgi fjármálafyrirtækja um tækifæri til tekjusköpunar, ef þessi flökkusaga er rétt.
2) Að umræddur lánþegi hafi virkilega látið bankann borga sér fyrir að þegja og þannig vera samsekur honum, ef þessi flökkusaga er rétt.
En sjálfsagt mun enginn stíga fram og viðurkenna eitthvað, þetta þarf að rannsaka. En það tekur væntanlega 4-6 ár eins og allt annað.
Árni Jón (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 13:58
Þessu trúi ég alveg og er eiginlega viss um að það er satt, ástæðan fyrir sannfæringu minni er sú að sonur minn var með bílalán sem á voru jafngreiðslur, en í byrjun okt 2008 var hann að skipta um bíl og var boðið gengistryggt lán, ég fór í bankann þar sem ég treysti ekki alveg því sem bílaumboðið var að bjóða( ég sé um fjármál sonar míns þar sem hann er fatlaður)þeir í bankanum töldu mig á að taka þessu þar sem þessi lán væru mun hagstæðari. Þegar bílaskiptin fóru fram þá þurfti að færa á milli eftirstöðvar af eldra bréfi þannig að þær greiðslur sem eftir voru á gamla bílnum færðust yfir á þann nýja, allt þetta var frágengið og undirritað en þegar ég fór fram á að þeir afhentu mér eldra skuldabréfið þá sögðust þeir senda mér alla eldri pappíra í pósti sem ekki var gert, og þegar ég var að ganga á eftir þessu sögðust þeir ekki finna bréfið og þannig standa málin enn í dag. Ég get því ekki verið viss um að ekki birtist annar aðili og ætlar að rukka eldra skuldabréfið aftur,þar sem því var aldrei aflýst.
Sandy, 7.1.2013 kl. 14:27
Fékk símtal frá manni sem þekkir til og hann staðfesti að þetta hafi verið gert í stórum stíl hjá fjármálafyrirtækjum fyrir hrun, þ.e. að selja lánasöfnin áfram og láta sem ekkert hafi breyst. Menn héldu áfram að innheimta lánin og er svo sem ekkert við það að athuga hafi fyrirtækin innheimtuleyfi. Hafi kaupandi lánasafnsins aftur selt það eða afskrifað, þá vandast málið.
Mjög líklegt er að sá sem hefur keypt lánasafn af fyrsta kaupanda löngu eftir hrun lánveitandans hafi keypt það til að nota í skattalegt hagræði. Því er líklegt að enginn samningur sé lengur í gangi milli eiganda lánasafnsins og þess sem innheimtir af því og þar af leiðandi um hrein fjársvik að ræða sé innheimtu haldið áfram. Það sem verra er, þegar upprunalegur lánveitandi, nýtt fjármálafyrirtæki eða þrotabú nota lán, sem viðkomandi hefur engin yfirráð yfir, til að komast yfir eignir skuldarans.
Hér skal ekki litið framhjá því, að meðan lánið er ekki uppgreitt, þá getur handhafi kröfunnar (þ.e. sá sem sannanlega er eigandi hennar á hverjum og þann eignarrétt verður annað hvort að sanna með frumriti skjalsins eða að dómstóll hafi viðurkennt kröfuna, þrátt fyrir að frumrit sé ekki til staðar) haldið áfram að krefja skuldara um greiðslu. Það getur viðkomandi gert, þrátt fyrir að hann hafi afskrifað kröfuna skattarlega. Tekjurnar sem þannig koma inn verða bara einfaldlega skattskyldar tekjur. Sé aftur á móti ekkert innheimt af kröfunni í tiltekinn tíma, þá getur hún fyrnst, en fyrst þegar þessi fyrningartími er á enda, er skuldarinn laus allra mála. Hollenski bankinn sem afskrifaði lánið gæti því hafið innheimtu af því aftur eða komið því í verð innan fyrningarfrestsins og skuldarinn gæti ekkert við því sagt.
Marinó G. Njálsson, 7.1.2013 kl. 16:26
Veit einhver hvernig aflétting áhvílandi veða fer fram hjá sýlumannsembættum þegar lán hafa verið uppgreidd. Er það kannski undantekninglaust gert að ósk banka sem leggur fram staðfest afrit af skuldabréfi hvort sem hann á það eða ekki?
MS (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 19:45
Það er eitthvað mikið að í lánakerfi nútímans ef fólk veit ekki hvernig lánum er aflýst.
Venjan var sú að við síðustu afborgun af skuldabréfaláni fékk lántakinn skuldabréfið sitt afhent við lokagreiðslu með ástimplaðri yfirlýsingu um fulla endurgreiðslu.
Síðan var það lántakandans að fara með bréfið til sýslumanns og aflýsa því. Ekki lánveitanda eða innheimtu-staðgengils hans.
Kolbrún Hilmars, 7.1.2013 kl. 20:45
Gott og vel hvað ef lántakin kemur með "staðfest afrit" til sýslumanns með yfirstimplaðri yfirlýsingu dugir það?
MS (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 21:10
Nei.
Kolbrún Hilmars, 7.1.2013 kl. 21:22
Það eru til lög sem kveða á um hvernig á að meðhöndla týnd og/eða glötuð frumeintök skuldabréfa. Lögmenn geta leiðbeint um það - nú eða sýslumannsembættið sjálft.
Enginn getur komið með "afrit" til sýslumanns og beðið um aflýsingu.
Kolbrún Hilmars, 7.1.2013 kl. 21:26
Marinó. Takk fyrir hvað þú stendur þig vel í að upplýsa almenning. Takk fyrir þitt frábæra vinnuframlag, einlægni og upplýsandi pistla.
Það er ekki möguleiki fyrir venjulegt heiðarlega stritandi fólk og heiðarleg fyrirtæki, að hafa nokkur viðskipti við banka/lífeyrissjóði á Íslandi. Eins gott að almenningur geri sér grein fyrir því.
Hér kemur smá reynslusaga frá mér, og mig grunar að margir hafi sömu sögu að segja, en þora kannski ekki að segja, af ótta við að missa vinnuna og fleira. Ég hef engu að tapa, því ég fæ ekki vinnu sem ég kann og ræð við.
Það væri óskandi að allir segðu frá öllu sem þeir hafa þurft að upplifa, vegna vestræns bankaráns/kerfisglæpa, í "siðmenntuðum" ríkjum.
Þegar blekkingarleikur bankanna hrundi og okrið náði nýjum hæðum, þá hætti ég að opna þau bréf sem voru líkleg til að vera rukkunarbréf bankaræningja/fjármála/glæpafyrirtækja/kerfissins, því ég hafði áttað mig á, að ég gæti aldrei borgað það sem ætlast var til.
Ég hætti líka að opna útidyrahurðina á íbúðinni sem ég leigi, fyrir þeim sem bönkuðu án þess að boða komu sína. Ég hætti líka að opna útidyrahurðina fyrir mörgum öðrum, vegna þess að ég treysti mér ekki til að heyra um allt það sem ég hefði átt að gera, og ætti að gera, (sem heilsa mín gerði mér ekki kleyft að ráða við).
Það síðasta sem maður þarf að heyra, þegar maður er skákaður og mátaður af raunveruleikafirrtu glæpa-kerfinu, er kerfis-þrýstings-fullyrðingar frá fólki, sem ekki hefur nokkra innsýn í, hvaða verkefni maður er að glíma við!
Ég hafði hreinlega ekki þrek til að standa í orðaskaki og afsökunar-vörnum við kerfið, þegar mér var ætlað að standa sem sterkur vikur yrki, þótt ég væri óvirkur öryrki.
Í dag er bjartasta vonin mín sú, að ég fái dóm fyrir að standa ekki í skilum við lífeyrissjóðs-stýrða bankaræningja-kerfið, því þá get ég kannski menntað mig í skuldafangelsinu, til þess að hafa efni á að vinna eitthvað annað en óviðráðanlega og nánast ólaunaða verkamannavinnu.
Ekki duga verkamannalaun atvinnulausra, óvirkra öryrkja, ásamt lífeyrisskertum/rændum bótum þeirra, fyrir kostnaðinum við að reka heimili, og halda því gangandi frá degi til dags, miðar við þær kerfis-kröfur sem gerðar eru.
Því síður duga þessar þrælabætur fyrir því, að vera til sem mannréttinda-einstaklingur, með tilheyrandi lyfja og heilbrigðiskerfis-kostnaði öryrkja, (það eru nefnilega ekki til fullfrískir og verkamanna-vinnufærir öryrkjar). Framlagið stjórnsýslu-krumpaða og samansaumaða dugar ekki fyrir einhverskonar menntun út úr stöðunni, fyrir marga þá seinlæsu og ólæsu.
Ég sé það sem lausn í stöðunni, að komast í skulda-fangelsi, svo ég fái nú endanlega tækifæri til að mennta mig. Litla Hraun eða Hólmsheiði er bjartasta vonin fyrir ómenntaða og illa læsa öryrkja. þetta er ekki áramótaskaup, þótt þetta sé álíka hárbeittur háðs-sannleikur og birtist í skaupinu.
Allt sem ég átti og stritaði fyrir síðustu áratugina, fór í að borga fyrir afleiðingar vangreinds vanda, og kosnað við bæði hefðbundnu og óhefðbundnu lækningarnar, sem hafa haldið mér gangandi síðustu áratugina.
Þetta sem ég er að skrifa hér, eru víst óskiljanleg geimvísindi fyrir þá sem stjórna á bak við öll þykku tjöldin, í reykfylltu og gullkrydd-steikar-bakherberjunum.
Eina leiðin fyrir almenning í heiminum, er að segja frá hvernig blákaldur raunveruleikinn er, og hafna mannréttindabrotum banka, stjórnsýslu og glæpafyrirtækja. Það er of seint að skrifa reynslu-ævisögu, þegar allt er endanlega fallið. Þess vegna segi ég frá þessu hér og nú.
Takk fyrir mig.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.1.2013 kl. 23:30
Anna Sigríður, takk fyrir greinargóða frásögn. Ég er því miður hræddur um að þú sért ekki ein um að vera í þessari aðstöðu.
Kolbrún, hvar átti fólk að læra þetta um aflýsingu skuldabréfa? Ekki eins og þetta sé kennt í grunnskóla eða skyldufögum framhaldsskólanna.
Marinó G. Njálsson, 7.1.2013 kl. 23:57
Marinó, það er alveg rétt, fjármálakennslu hefur verið ábótavant í skólakerfinu. Með þeim afleiðingum að ungt fólk kann margt annað betur en að takast á við fjármál heimilis síns.
Heiðarlegar innheimtustofnanir upplýstu venjulega lántakann um fyrirkomulagið en nú á rafrænum tímum eru stundum ýmis formsatriði sniðgengin, eins og t.d. að fólk eigi rétt á því að fá sundurliðaða greiðslukvittun, ásamt eftirstöðvum, við hverja afborgun lána.
Það er auðvitað þægilegt að fá kröfuna senda beint á heimabankann, þótt ósundurliðuð sé, en þar með hefur lántakinn misst yfirsýnina á lánið sitt.
Kolbrún Hilmars, 8.1.2013 kl. 12:59
Einmitt það eru til lög, lögfræðingar og sýslumenn ef upprunalega skuldabrtéfið finnst ekki eftir að það hefur verið að fullu upp greitt.
MS (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 17:56
Sæll Marínó.
Ég hjó eftir að lántaki ætti að fara með skuldabréf til aflýsingar hjá Sýslumanni, en ekki lánveitandi. Hvað er í gangi? Ég hef aldrei heyrt þetta og hefur þó nokkrum skuldabréfum verið aflýst hjá mér án þess að ég hafi komið þar nokkurs staðar nærri nema að borga bréfin upp.
Svo gott væri að heyra meira um þennan punkt. Er hægt að hafa hlutina hér á landi bara alla vega eftir geðþótta einhverra?
Svanborg Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 19:21
Svanborg, nú verður þú að snúa þér til Kolbrúnar Hilmars með þetta, þar sem það er hún sem heldur þessu fram. Mín reynsla er hin sama og þín.
Marinó G. Njálsson, 8.1.2013 kl. 20:06
Athyglisvert innlegg Kolbrúnar Hilmars um aflýsingu og meðferð skuldabréfa sem búið er að greiða upp.
Fjölmörgum skuldabréfum var aflýst vegna 110% úrræðisins sk. Aftur á móti efast ég um að allir lántakar hafi fengið skuldabréfið sitt afhent eftir að það taldist „uppgreitt“ eftir afgreiðslu bankans á 110% aðlöguninni.
Ef rétt reynist að lánveitandi hafi haldið áfram innheimtu á skuld sem hann hefur selt frá sér án þess að hafa umboð til þess frá nýjum skuldareiganda hlýtur það að varða lög. Hafi hann hann innheimt og stungið greiðslunum í eigin vasa hlýtur það að vera refsivert.
En þessi frásögn kemur ekkert á óvart. Bankarnir eru rúnir öllu trausti vegna óvandaðra vinnubragða og óheiðaleika. það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu. Ef það verður framhald.
Toni (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 20:15
Hef sömu reynslu og Svanborg og Toni. Málið er að ég hef verið að glíma við banka að aflétta veðböndum hjá sýslumanni vegna uppgreiddra veðskulda. Þegar maður rekst svo inn á svona blogg fer flugan í höfðinu á kreik og reyndar heilt flugnager við að lesa skýringar Kolbrúnar. Hef óþægilegan grun um að hún hafi rétt fyrir sér hvað lögformlegu hliðina varðar.
MS (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 21:22
Er ekki rétt að byrja á því að herða lög og reglur um þetta. T.d. Af hverju situr Sýslumaður enn með afrit af seldu og afskrifuðu bréfi? Plagg sem notað er til sönnunar því að bankinn eigi kröfuna?
Þessu verður að breyta, annars er hið opinbera óbeint samsekt eða í besta falli að auðvelda mönnum að komast upp með brotin.
Ef bréf er selt til þriðja aðila þá þarf þetta að vera þannig að það sé skylda að tilkynna það sýslumanni, rétt eins og um hverja aðra fasteign væri að ræða.
Sýslumaður tekur við tilkynningunni og skráir hjá sér eigendaskipti. Banka á að skylda til að tilkynna þetta um leið og sala fer fram.
Þannig þarf einstaklingur aðeins að fá staðfestingu sýslumanns um að innheimtan sé réttmæt. Komi upp grunur greiðanda um að bankinn sé að svindla, þá á hið opinbera að heimta frumritið til staðfestingar.
Allar endursölur á skuldbindingum á að vera skylt að tilkynna. Vafninginn allan sundurliðaðann.
Það á ekki að vera flókið mál að halda utan um þetta með tölvutækninsamtímans.
Hvaða flokkur ætlar að koma þessu frumvarpi í gegn?
Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2013 kl. 02:15
Það verður svo að sjálfsögðu að gera frumrannsókn á þessu. Einhverstaðar frá koma þessar flökkusögur og þær ber að rekja eftir fremsta megni. Ef minnsti grunur er á að þetta eigi sér stað, ber að kæra til efnahagsbrotanefndar eða bara lögreglu, því hér er náttúrlega um stórfelldan þjófnaðmað ræða.
Það að einver erlendur banki fái skattaaflætti út á slíkar afskriftir vekur einnig spurningar. Ber ekki yfirvöldum þar í landi að staðfesta að þessi afskrift nái alla leið? Getur banki sem starfar t.d. Í tveimur löndum eða í samvinnu við annan banka afskrifað haug af bréfum en samt haldið áfram að innheimta handan landamæra? Eru það ekki fjársvik gagnvart hinu opinbera?
Er lögjöf um bankastarfsemi virkilega svona laus í reipunum? Það setur sannarlega að manni hroll við tilhugsunina. Frumskógarlögmálið virðist á öllu vera ríkjandi þarna.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2013 kl. 02:27
Samkvæmt lögum nr. 1798 (íslensk lög 10. okt. 2011) er bankanum skylt að hafa bréfið við höndina og færa inn á það afborganir í viðurvist skuldara eða umboðsmanns hans og gefa út sérstaka kvittun. Ef ekki, "þá má skuldari fresta afborguninni og skal þá ekki borga vexti af þeim hluta höfuðstóls sem í gjalddaga var fallinn og boðinn var fram."
GB (IP-tala skráð) 9.1.2013 kl. 07:11
Semsagt, þá eru bankar að brjóta lög í hverju einastantilfelli þegar gjaldagi er á bréfi samkvæmt þessu GB?
Málið er þá líklega að upplýsa fólk um þetta svo það geri sér ferð í hvert skipti niður í banka til að uppfylla þessar kröfur og þá vera öruggt á því að um frumrit sé að ræða. Að öðrum kosti sýnist mér að bankinn geti ekki innheimt afborganirnar strangt til tekið, nema þá að eitthvað smáaletur afsali hann frá þessum prótokolli við gjaldfærslu. Þá eru þessi lög væntanlega ekki til neins nema sem tákrænt grunnprinsipp ef þá það.
Þetta sýnir að það þarf að endurskoða þennan prótokoll frá grunni og koma í veg fyrir slíkar gloppur.
Ég vil absolútt fá að vitanhvort menn hafa misnotað þetta eins og gefið er í skyn. Það hlýtur að vera algert forgangsmál sem veltur á milljarðatugum eða jafnvel hundruðum ef mark er takandi á öllu því vafningarusli, sem hefur gengið kaupum og sölum.
Er einhver almennur borgari sem er rukkaður af erlendum banka um skuld sem hann stofnaði til hjá innlendum banka? Ég held að það sé óhætt að fullyrða að svo er ekki. Allar viðvörunarbjöllur ættu að hringja við þá staðreynd eina.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2013 kl. 10:40
Þetta er einfaldlega of lygilegt til að vera satt. Ég hallast því að því að sannleikanum hafi verið hagrætt eitthvað í málinu.
Fyrir það fyrsta myndi ég vilja fá einhverjar staðfestar frásagnir lántakenda um svona gjörning, og þá á ég ekki við að einhver sendi inn söguna sína hér á bloggið, heldur að málið hafi verið kært til lögreglu og málinu ekki vísað strax frá sem einhverri vitleysu. Eða tilkynningu frá FME.
Ef einhver banki hefur selt lán til erlends aðila, hlýtur að hafa verið gerður samhliða því innheimtusamningur því þessi erlendi aðili er væntanlega ekki með leyfi til innheimtustarfsemi hér á landi. Ef innlendi bankinn heldur áfram að rukka lánið (skv. innheimtusamningi) og sendir allar greiðslur áfram til þess sem á lánið sé ég ekki hvert vandamálið er. Erlendi aðilinn telur þetta fram sem "innheimt lán, áður afskrifað" og borgar af því skatt.
Í frásögnin á Svipunni hefur væntanlega "gleymst" að segja frá einhverjum útskýringum í málinu. Ef útskýringarnar fylgja sögunni breytist sagan úr því að vera fáránlegt lögbrot í að vera stormur í vatnsglasi.
Maelstrom, 9.1.2013 kl. 17:11
Góða kvöldið,,mig langar að vita hvernig ég get þekkt í sundur frumrit og afrit af frumriti ef þau geta verið svona keim lík??ég fór nefnilega í bankann minn í gær til að sjá frumrit og mér var boðið að sjá ljósrit af frumritinu ég vildi það ekki,vildi fá að sjá frumritið sjálft.þá var mér boðið að sjá mynd af því og enn vildi ég fá frumritið sjálft,fór því í bæinn(bý útá landi) og í höfuðstöðvarnar og vildi fá að sjá frumritið en þar var mér enn og aftur boðið að sjá ljósrit en ég þverhausinn heimtaði bara frumrit,þá var mér sagt að það yrði sennt í pósti í bankann minn heima,og núna bíðum við spennt.finnst ykkur þetta í lagi?
Jóhanna Sigurðardóttir, 9.1.2013 kl. 21:19
Hér er nokkuð sem ástæða er til að gjalda varúð við. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/11/mikill_ahugi_a_rafraenum_thinglysingum/
Þegar þessar upplýsingar verða gerðar alfarið rafrænar, er hætta á að fjármálafyrirtæknin tryggi enn betur leynd yfir raunverulegum afdrifum bréfanna. Menn þurfa að blanda sér í þessa umræðu og tryggja það að allar breytingar á eignarhaldi bréfanna verði tilkynntar til sýslumanns að viðlögðum hörðum refsingum.
Verði bréf hluti vafnings sem seldur er, þá á að tilkynna það samstundis. Þegar þessu kerfi verður komið á þá mætti líka skikka þá til að tilkynna um öll eigendaskipti í gamla kerfinu.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.1.2013 kl. 05:05
Mál 10 2002
Úrskurðarnefnd LMFI
"3. Kærði sendi ljósrit af skuldabréfi með aðfararbeiðni sinni til sýslumannsins á R en frumrit bréfsins sendi hann áður en til aðfarargerðarinnar kom, eftir sérstakri ábendingu sýslumanns. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 skal frumrit viðskiptabréfs fylgja aðfararbeiðni ef krafist er aðfarar til fullnustu kröfu samkvæmt 7. eða 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu til laga um aðför er þetta fyrirkomulag talið nauðsynlegt vegna heimilda, sem fylgt geta handhöfn viðskiptabréfa samkvæmt almennum reglum. Vanræksla kærða að þessu leyti er aðfinnsluverð."
4. Kærandi vakti athygli sýslumannsins á því að samkvæmt áritun á skuldabréfið væri Búnaðarbanki Íslands eigandi þess en ekki M ehf., umbjóðandi kærða. Fallast má á það með kæranda að kærði hefði átt að gæta þess að umbjóðandi hans hefði fullnægjandi eignarheimild fyrir skuldabréfinu áður en hann hóf innheimtuaðgerðir gagnvart kæranda í nafni M ehf. Telur nefndin þessi vinnubrögð kærða aðfinnsluverð.
http://www.lmfi.is/urskurdarnefnd/urskurdir/nr/3763/
Helena (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 12:38
Mér hefur þótt áhugavert að fylgjast með umræðunni hér undanfarna daga og hygg ég að það egi við um fleiri ef marka má þær þúsundir heimsókna sem þessi umfjöllun fær hér á síðunni.
Ennfremur hefur verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum fjömiðla við þessum grafalvarlegu grunsemdum. Í helgarumfjöllun Morgunnblaðsins má t.d. lesa um myglusvepp sem þykjir áhugaverður í augnablikinu og allt kapp er lagt á að gera góð skil. Enda hefur grænn.is fengið 700 heimsóknir síðustu mánuði vegna fyrirbærisins.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/12/hafa_ahyggjur_af_myglu/
Magnús Sigurðsson, 12.1.2013 kl. 16:49
Líklega eru íslenskar fjármálastofnanir á fullu við að endurkaupa sem flest gengislán sem þau seldu fyrir hrun, eða reyna að fá innheimtusamning frá þeim aðilum sem þeir seldu til, því líklega hafa þeir ekki gert hann við sölu bréfanna.
Tek undir hugmyndir Jón Steinars hé að ofan um tilkynningaskyldu til lántakenda um eigandaskipti á lánum.
Eggert Guðmundsson, 14.1.2013 kl. 16:32
Ætla að láta vaða hér inn hugmynd sem ég hef hugsað talsvert í kjölfar þessarar umræðu. Væru mál af þessu tagi, ef sönn reynast, ekki úr sögunni ef skuldari væri forkaupsrétthafi á sínu láni? Þar myndi myndast í það minnsta tilkynningaskylda fjármálastofnunar gagnvart lántaka gengju skuldabréf kaupum og sölum. Svo ekki sé nú talað um önnur áhrif sem þetta myndi hafa.
Snorri G (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.