4.1.2013 | 00:50
Eldfjöll á Íslandi - Allt frá hurðasprengjum upp í stærstu bombur en ekki dómsdagssprengjur
Undanfarin tæp tvö ár hafa birst af og til fréttir um ógnir sem stafa af íslenskum eldfjöllum. Sjálfur ritaði ég ráðherrum núverandi ríkisstjórnar nokkra tölvupósta, þar sem ég hvatti þá til að fara í vinnu við áhættumat vegna eldfjalla. Sú vinna er núna komin í gang, en ég verð að viðurkenna að mér finnst 20 ár nokkuð langur tími til verksins.
Í rúma tvö áratugi hef ég á einn eða annan hátt unnið við áhættumat og áhættustjórnun. Stundum hafa viðfangsefni mín snert raunumhverfið og því hef ég viðað að mér upplýsingum um áhrif af eldgosum og jarðhræringum í kringum starfssvæði viðskiptavina minna. Langar mig vegna furðufrétta um að hér á landi gætu veirð dómsdagseldfjöll að birta hér mjög stutta samantekt af því sem ég hef viðað að mér í gegn um árin um ógnir af helstu virku eldstöðvum á landinu og áhrif sem gos í þeim hefðu á lífið í landinu. Þetta er mjög gróf samantekt, en ég held að hún endurspegli ágætlega staðreyndir þó líklega séu einhverjar villur í rökum mínum.
Eru dómsdagseldstöðvar á Íslandi?
Eldgosið í Eyjafjallajökli vorið 2010 hefur heldur betur dregið athygli fjölmiðla að landinu. Í fyrrdag, 2. janúar, lagði PBS sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum hluta dagskrár sinnar undir hættuna af eldfjöllum á Íslandi. Talað er um Ísland sem tifandi tímasprengju (en kannski er nær að tala um röð tifandi sprengja) og verði með dómsdagstengingu. Þar sem ógnir af eldfjöllum tengja saman tvö áhugasvið mín, þ.e. jarðfræði og áhættustjórnun, langar mig að fjalla aðeins um þessar meintu tímasprengjur.
Áður en lengra er haldið, þá er rétt að benda á, að víða um heim eru mjög virk eldfjöll sem hafa veruleg áhrif á líf þess fólks sem býr í nágrenni þeirra. Sum þessara eldfjalla eru mun nær þéttbýli, en hin íslensku fjöll og eru mun virkari. Þó vissulega hafi eldgos á Íslandi haft mikil áhrif á heimsvísu og komast inn á lista yfir tilkomumestu eldgos sem vitað er um, þá einoka þau ekki lista yfir slík gos. Rétt er þó að benda á, að tvö gos á Íslandi eru talin hafa leitt til mikilla samfélagsbreytinga, þ.e. H-3 Heklugosið frá um 1000 BC, en talið er að það hafi haft áhrif á lok bronsaldar, og síðan Skaftáreldar sem taldir eru hafa leitt til frönsku byltingarinnar.
Mælikvarði á stærð eldgosa
Þegar jarðfræðingar meta stærð eldgosa, þá er notaður VEI kvarðann, en hann er veldiskvarði líkt og Richterstigin fyrir jarðskjálfta. Hæst fer þessi kvarði í 8 og hafa ákaflega fá eldgos í heiminum mælst á því stigi. Eldstöðin í Yellowstone hefur sent frá sér þvílíkt gos minnst fjórum sinnum, tvö eru þekkt frá Nýja Sjálandi, tvö frá Suður-Ameríku og eitt frá Indónesíu (talið hafa stuðlað að því að mannkyninu fækkaði um minnst 60%). Síðasta þekkta gosið af þessari stærð varð fyrir um 26.500 árum.
Næsti flokkur VEI 7 er vel skipaður þekktum gosum, en ekkert íslenskt kemst í þann flokk. Aftur eru það annars vegar Yellowstone og Nýja Sjáland sem leggja til flest gosin í þessum flokki.
Stærstu þekktu gosin á Íslandi teljast vera af stærðargráðunni VEI 6. Má þar nefna á sögulegum tíma gosin kennd við Eldgjá, Veiðivötn og Skaftárelda. Heklugosið, H-3, nær ekki einu sinni þessari stærð.
Munurinn á gosum á Íslandi og flestum þessum ofurgosum er, að hér hefur stærstu gosunum fylgt mikið hraunrennsli. Er því talað um að Ísland sé eitt fárra svæði á jörðunni, þar sem mikið magn hrauns kemur upp á yfirborðið (Large Igneous Province). Hér á landi hafa t.d. komið upp nokkur af stærstu hraunum sem runnið hafa eftir ísöld og einnig á sögulegum tíma, þ.e. Þjórsárhraun, Eldgjárhraun og Eldhraunin sem runnu í Skaftáreldum. Þrátt fyrir gríðarlega stærð, þá rétt ná þau að komast inn í VEI 6 flokkinn.
Eldstöðvar komnar á tíma?
Án þess að hafa séð þessa þætti PBS, þá má á umfjöllun um þá ráða, að þeir vísindamenn sem rætt er við hafi áhyggjur af því að Ísland sé tifandi tímasprengja. Vissulega má búast við stórum gosum hér á landi í framtíðinni en ólíklegt er að stórgos með afleiðingum á við Skaftárelda verði á næstunni.
Skemmtum þó aðeins skrattanum og skoðum þá möguleika sem virðast vera í stöðunni á segjum næsta árþúsundi eða svo:
- Reykjaneseldar. Rétt er að halda því til hagar, að verið er að tala um eldvirkni á Reykjanesskaganum öllum, þ.e. úr eldstöðvakerfum kenndum við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krísuvík og Reykjanes. Þessi kerfi gjósa frekar reglulega og eru komin á tíma. Gæti eldvirkni hafist í þeim með litlum fyrirvara, en hvort það gerist á þessu ári, eftir 50 ár eða 150 ár, er ómögulegt um að segja. Biðin gæti verið stutt, en hún gæti líka orðið nokkur hundruð ár. Í síðustu goshrinu voru flest gosin eingöngu hraungos og lítil aska fylgdi með öðrum. Þau stóðu flest stutt, allt frá nokkrum dögum upp í fáeina mánuði. Nokkur stór hraun runnu og verði sama uppi á teningunum næst, má búast við að þeim fylgi samgöngutruflanir sem og skemmdir á raflínum og öðrum lögnum. Svo fremi sem hraun renni ekki í Heiðmörk, þá ættu vatnsból Reykvíkinga að vera örugg, en ekki víst að Hafnfirðingar verði eins heppnir og síðan Suðurnesjamenn. Á skala áramótavarningsins, sem ég vísa til í fyrirsögn, þá eru þetta allt frá hurðasprengjum og upp í litlar, fallegar skottertur. Ég sé fyrir mér, að verði hraunrennslið ekki ofsafengnara, að auðvelt verði að stjórna braut þess frá íbúðabyggð og öðrum mannvirkjum, þó vegir kunni að rofna.
- Hekla. Fram til 1970 var Hekla í takti sem gaf gos einu sinni til þrisvar á hverri öld. Þannig hafði þetta verið frá landnámi og jafnvel lengur. En 1970 brá Hekla út af vananum og fór að gjósa litlum gosum á um 10 ára fresti. Síðast gaus árið 2000 og því er spurningin hvort Hekla sé hrokkin í gamla farið aftur eða hún gjósi með nánast engum fyrirvara, eins og hennar hefur verið vaninn. Ef næsta gos verður líkt og síðustu fimm gos, þá má búast við frekar lítilli skottertu með umtalsverðum reyk, en fari hún í sama farið og 1947, þá verður tertan í stærra lagið, en jafnframt er líklegt að lengra sé í slíkt gos. Afleiðingar af litlu gosi eru, eins og gefur að skilja litlar, en veltur þó mikið á vindáttinni, þar sem margar mikilvægar virkjanir eru í nágrenni fjallsins. Afleiðingar af stóru gosi verða umtalsverð flúormengun, vatnsból spillast, rekstrartruflanir í virkjunum á svæðinu og aska gæti lagst yfir byggð á Hellu og Hvolsvelli. Ólíklegt er að Heklugos, hvort heldur á þessu ári eða síðar myndi, verði nokkru sinni dómsdagsgos.
- Sunnan við landið. Lítið fer á milli mála, að það á eftir að gjósa oft sunnan við landið. Þegar framlíða stundir mun Eyjumenn fá akbraut milli lands og Eyja, en ætli það taki ekki a.m.k. milljón ár. Fátt bendir til þess að hreyfing sé á þessu svæði núna, en næsta gos gæti komið upp í Vestmannaeyjahöfn eða þess vegna í Landeyjahöfn. Hér væri á ferðinni mögnuð flugeldasýning með tilkomumiklum sprengingum og ekki fyrir nokkurn mann að vera þar nálægt. Ólíklegt er að þetta gerist á næstu árum eða áratugum, en Surtseyjargos og Heimaeyjargos sýndu að ekkert má útiloka. Dómsdagsgos er ólíklegt, raunar nánast útilokað.
- Katla. Gos í Kötlu varð fyrir víst 1918, en grunur er uppi um að hún hafi bæði gosið litlum gosum 1955 og 1999. Fram að gosinu 1918 hafði Katla verið í mjög góðum takti. 30-60 ár á milli gosa, þannig að 1955 og 1999 geta alveg staðist út frá því. Gosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli gætu hafa létt þrýstingi af Kötlu, en þó er það ólíklegt. Hafi hvorki gosið 99 né 55, þá er núverandi goshlé Kötlu það lengsta frá Þjóðveldisöld (miðað við skráðar heimildir og vísindaleg gögn). Katla verður stór skotterta (eða röð skotterta) með stórbrotinni sýningu um mátt náttúrunnar. Rýma þarf nærsveitir í nokkrar vikur (2-3), en síðan fellur allt í dúnalogn aftur. (Nema að hún falli í sama far og 17. og 18. öld, þegar gos stóðu yfir í nokkra mánuði.) Líkurnar á gosi á þessu ári eru töluverðar, en það gæti líka dregist í nokkur ár eða áratugi. A.m.k. er á hreinu að verði gosið í Kötlu sjálfri, þá er ekki um neitt dómsdagsgos að ræða.
- Gos sunnan og/eða suðvestan Vatnajökuls. Ekki er á hreinu hvernig öll þessi goskerfi á Vatnajökulssvæðinu tengjast eða hvort þau tengist, en frá því Ísland byggðist, þá hafa komið þrjú risagos á svæðinu sunnan eða suðvestan Vatnajökuls. Er ég þá að vísa til Eldgjár (934), Veiðivötn (1477) og Skaftárelda (1783-4). Þessi gos, sem eru tengd við þrjú aðskilin kerfi, þ.e. Kötlu, Bárðarbungu og Grímsvötn (í þessari röð), náðu að skila upp á yfirborðið meira magni af hrauni en nútímamaðurinn hafði áður orðið vitni að. Tvö þeirra, Eldgjá og Skaftáreldar, eru tvö stærstu hraungos sem samtímaheimildir eru til um. Á milli þessara risahraungosa liðu annars vegar rúmlega 540 ár og hins vegar 405 ár. Frá Skaftáreldum til dagsins í dag eru síðan innan við 230 ár. Komi upp svona gos, þá er hægt að líkja því við flugeldasýningu, þar sem öllu er tjaldað til. Raunar sýningu þar sem allt gæti farið úr böndunum. Líkurnar á að svona gos verði á næstu ári, áratugum eða árhundruð eru hins vegar litlar og væri það fjandans óheppni, ef núlifandi Íslendingar og næstu kynslóðir upplifðu slík ósköp. Gæti hikstalaust falli undir að vera dómsdagsgos fyrir Ísland, þó því fylgi nú varla meiriháttar breytingar fyrir umheiminn.
- Grímsvötn. Taktfastasta eldstöð landsins (a.m.k. af þeim sem láta til sín sjást). Gos úr Grímsvötnum og nálægum eldstöðvum eru vel þekkt. Þau valda sjaldan búsifjum svo heitið getur, þó á því séu undantekningar. Er eins öflug skotterta og hægt er að finna, en meðan maður heldur sig í góðri fjarlægð, þá má njóta útsýnisins. Gaus síðast 2011 og því er líklegast að næsta gos verði ekki fyrr en 2014. Þetta er bara business as ususal, þ.e. pirringur og óþægindi, en líður hratt hjá.
- Öræfajökull. Völva DV spáir gosi úr þessu hæsta fjalli landsins. Þekkt gossaga jökulsins er ekki löng, en hún byrjar með ósköpum. Gosið árið 1362 var lengi vel mannskæðasta gos Íslandssögunnar og deila má svo sem um það hvort gosið í Lakagígum hafi orðið fleiri að aldurtila eða hvort að það flest dauðsföllin hafi orðið af afleiddum ástæðum. A.m.k. tilgreina margar heimildir gosið 1362 sem mannskæðasta eldgos Íslandssögunnar. En Litla-Hérað fór ekki bara í eyði, það grófst í ösku með manni og mús. Á það festist síðan nýtt nafn, Öræfasveit. Gjósi Öræfajökull, þá er okkur óhætta að biðja guð að hjálpa þeim sem þar eru nálægt. Hér væru á ferð allir öflugustu skoteldarnir í pakkanum og flugeldasýningin gæti varað góðan tíma. Dómsdagsgos verður þetta varla, en bæði mikil og langvarandi áhrif á nærsveitir og þó lengra væri leitað. Líkurnar á gosi í jöklinum á þessu ári eru hins vegar hverfandi, þó ekkert sé útilokað. Síðast liðu 365 ár á milli gosa og haldist það, þá er enn langt í næsta gos eða svo hátt í 100 ár.
- Bárðarbunga og nálægar/tengdar eldstöðvar. Finni gosefni sé leið upp á fyrirborðið í gegn um Bárðarbungueldstöðina, þá má búast við miklu sjónarspili. Raunar svo miklu að ásýnd landsins gæti breyst í kjölfarið. Kosturinn við eldstöðina er staðsetningin og því mjög ólíklegt að eldgosið sjálft með hraunrennslinu sem því líklega fylgir hafi mikil áhrif á lífið í landinu. Öskufallið mun hins vegar gera það og það verður mjög mikið meðan gígurinn er undir vatni. Grímsvötn verða hjóm eitt miðað við atganginn í Bárðarbungu (komist gosið í gegn um ísinn). Verði gosið utan jökuls, þá mun hraun flæða sem aldrei fyrr (eða nánast) og gosið standa í drjúgan tíma. Hér erum við að tala um risatertur og risabombur í hundruða vís. Tímaramminn er aftur ákaflega óljós og gæti gosið á svæðinu á næstu mánuðum eða alls ekkert í nokkur árhundruð. Þó er rétt að nefna, að á vefsíðu sem haldið er úti af Smithsonian stofnuninni, þá er Bárðarbungueldstöðin talin mjög virk um þessar mundir. Tilgreind eru 10 hugsanleg gos á svæðinu frá 1986. Ekkert af þessum gosum hefur þó verið staðfest. Kverkfjöll eru tekin með hér, en þau virðast taka kipp við og við.
- Askja og nágrenni. Síðasta Öskjugos var fyrir rúmu 51 ári. Milli þess og risagossins árið 1875 urðu 7 smærri gos. Jarðskjálftar og óútskýrð bráðnun íss á Öskjuvatni og kvikuhreyfingar í jarðskorpunni virðast benda til þess að Askja sé tilbúin að ræskja sig eða kvika leiti upp á yfirborðið ekki fjarri henni. Upptyppingar hafa verið á ratsjá jarðfræðinga í fleiri ár og hefur menn dreymt um að þar hefjist dyngjugos. Áhugi manna fyrir dyngjugosi er skiljanlegur, þar sem þau geta varað í tugi ef ekki hundruð ára, eins og sést vel á Hawaii eyju, þar sem dyngjugos er búið að vera í gangi í áratugi. Verði niðurstaðan dyngjugos, þá mun það án efa styrkja ferðaþjónustuna mikið. Verði niðurstaðan hamfaragos, eins og 1875, þá er fátt spennandi við gosið og best að vona, að það vari stutt. Munurinn á þessu tvennu er eins og á blysför og flugeldasýningu þar sem eldur komst óvart í birgðirnar! Gosið 1875 varð til þess að þúsundir Íslendinga fóru vestur um haf til Bandaríkjanna og sérstaklega Kanada.
- Kröflusvæðið og norður úr. Kröflueldar 1975-84 áttu margt skylt með stóru hraungosunum á sunnanverðu landinu. Munurinn var líklega hve stór hluti hraunrennslisins var undir yfirborðinu. Núna á aftur að fara að bora á svæðinu og hver veit nema menn reiti þann í neðra til reiði á ný. En öllu gríni sleppt, þá er þetta það svæði sem er ólíklegast er að gjósi á næstunni. Gjósi þarna, þá verður lítið um flugelda en þess meira um blys og kínverja. Gæti verið ein og ein lítil skotterta. Líklega þarf að bíða einhver árhundruð eftir næstu Kröfueldum, en hve langt er í gusu norðan við Kröflusvæðið er ekki ljóst. Land sem er sífellt að gliðna þarf á fyllingu að halda og hún berst bara neðan frá.
Aðrar eldstöðvar sem ekki má afskrifa, þó ólíklegt sé að þær valdi óskunda á komandi áratugum, árhundruðum og jafnvel þúsundum eru Hengill, Snæfellsjökull, Ljósufjöll, Hveravellir, Torfajökull og Esjufjöll.
Höfum í huga að minnst 28 eldstöðvar hafa gosið hér á landi síðustu 2000 ár eða svo. Þar af er talið að 16 þeirra hafi gosið frá árinu 1900 og 8 til viðbótar á sögulegum tíma. Margar hafa gosið oftar en einu sinni og úr mörgum ólíkum gígum eða sprungureinum. Gosið í Fimmvörðuhálsi sýnir okkur líka, að staður sem ólíklegur var til að gjósa getur við réttar aðstæður verið farvegur fyrir eldsumbrot. Loks er langur vegur því frá að þær 28 eldstöðvar sem hafa látið á sér kræla undanfarin 2000 ár séu þær einu sem við þurfum að óttast í framtíðinni. Bæði geta eldstöðvarkerfi legið í dvala og eins tekur jarðskorpan stöðugum breytingum.
Fá gos valdið miklum skaða
Hvernig sem á því stendur, þá eru áhrif eldgosa á mannlíf í landinu ótrúlega lítil, afmarkast nánast alltaf við nærumhverfi eldstöðvanna og takmarkast í tíma við þá stund sem umbrot eru í gangi og einhverja mánuði á eftir. Á þessu eru vissulega undantekningar, sem hafa reynst þjóðinni mjög dýrkeyptar. Eru þær helstar Heklugos 1104, gos í Öræfajökli 1362, Skaftáreldar 1783-4, Öskjugos 1875 og gosið í Heimaey 1973. Öll eiga þessi gos það sameiginlegt, að lítið var ráðið við áhrif þeirra, áhrifanna gætti varanlega í langan tíma og tjónið fyrir samfélagið var mikið. En þá eru þau nánast upptalin stórtjónagosin. Er ég þá ekki að gera lítið úr áhrifum nýlegs Grímsvatnagoss á sveitirnar sunnan Vatnajökuls eða gossins í Eyjafjallajökli á mannlíf undir Eyjafjöllum. En miðað við hin gosin, þá voru áhrifin smávægileg og viðráðanleg.
Vöktun takmarkar vonandi framtíðarskaða
Hér á landi er víðfeðmt net mælitækja sem horfa vakandi auga á hreyfingar landsins. Þessi mælitæki mættu vera fleiri, en samt er erfitt að kvarta. Vonandi verður þessi mikla vöktun til þess að takmarka má framtíðarskaða af eldsumbrotum. Ómögulegt verður samt að koma í veg fyrir slíkan skaða.
Út frá sjónarhorni áhættustjórnunar er fyrsta skrefið að tilgreina byggð, mannaferðir og eignir sem eru á hættusvæðum, hvaða ógnir steðja að þeim, mæla eftir bestu getu áhættuna og síðan átta sig á þeim aðgerðum sem hægt er að grípa til svo draga megi úr hugsanlegu tjóni eða nota þau tækifæri sem bjóðast í stöðunni. Í nokkrum tilfellum eru eldstöðvarnar einfaldlega þess eðlis, að forðast verður byggð nálægt þeim. Í öðrum eru líkurnar á hamfaraumbrotum svo litlar, að segja má að áhættan sé hverfandi. En þó áhættan sé hverfandi, þá getur stóra stundin runnið upp, eins og gerðist í Heimaey fyrir tæpum 40 árum. Þá verða neyðarviðbrögð að vera skilgreind og prófuð. Því þurfa öll byggðalög í nálægð eldstöðva, sem geta valdið hamförum, að vera með tilbúnar viðbragðsáætlanir um hvernig staðið skuli að rýmingu þeirra eða ákveða að fara sömu leið og í Súðavík og færa byggðina af hættusvæði.
Eldstöðvar sem ógna Reykjavíkursvæðinu
Þar sem stærsta byggðin í landinu er samanþjöppuðu á nánast lófastórusvæði við Sundin blá, þá er ekki úr vegi að skoða hvaða eldstöðvar geta skapað verulega hættu fyrir íbúa hennar. Í lýsingu minni að ofan, þá tel ég litla ógn stafa af eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga, þ.e. kerfin kennd við Brennisteinsfjöll, Krísuvík og Reykjanes. Hið sama á ekki við um Hengilskerfið eða öllu heldur Hengil sjálfan. Hann er hin mikla ógn sem vakir yfir íbúum svæðisins. Svo vill til að Hengillinn er megineldstöð og sem slíkur fer hann í gegn um ákveðið þróunarferli. Á einu stigi þess ferlis, þá mun hann springa með meiri hamförum en landið hefur upplifað í árþúsundir ef ekki milljónir. Fjarlægðin til Reykjavíkur mun ekki verja íbúa svæðisins og ekkert nema algjört skjól í landslagi eða nægileg fjarlægð mun verja fólk fyrir því sem þá dynur yfir.
Önnur eldstöð sem ógnar Reykjavíkursvæðinu er handan við flóann, þ.e. Snæfellsjökull (og hugsanlega önnur kerfi á Nesinu). Sú ógn birtist þó í öðru efni, þ.e. í formi flóðbylgju sem gengi yfir flóann. Hve há sú bylgja yrði, er ómögulegt að segja til um, en líklega allt að tugum metrar. A.m.k. nógu há til að færa neðstu hæðir byggðar við sjávarsíðuna í kaf.
Báðar þessar ógnir eru með svo stjarnfræðilega litlum líkum núna að óvíst er hvort rétt sé að örvænta yfir þeim. Hitt er annað mál, að þó nánast engar líkur séu á því að grípa þurfi til áætlunar um rýmingu höfuðborgarsvæðisins, þá er betra að hún sé til, ef óvæntir atburðir gerast, en að gripið sé í tómt. Vegna framangreindra tveggja ógna, þá þarf einnig að útbúa rýmingaráætlun fyrir Akranes. Hamfarir í Henglinum eru líka ógn við Hveragerði, Selfoss, Þingvallasveit og hugsanlega fleiri byggðir á Suðurlandi, meðan hamfarir á Snæfellsnesi ógna íbúum við allan Faxaflóa og Breiðafjörð.
Ítrekað skal, að ekkert bendir til þess að þessar tvær eldstöðvar séu nokkuð nálægt því að valda þeim óskunda sem ógnað gæti byggð nálægt þeim. Báðar gætu gosið mörgum minni gosum áður en kemur að því stóra. Rýmingaráætlun eða varnaráætlun fyrir svæðið er samt eitthvað sem gott er að hafa tilbúið, því þegar allt kemur til alls, þá gæti þörfin fyrir rýmingu verið af allt annarri ástæðu, t.d. vegna stórrar flóðbylgju utan af hafi eða af mannanna völdum.
Höfundur hefur unnið við áhættustjórnun meira og minna síðustu 20 ár. Hann starfar nú sem öryggisráðgjafi hjá Hewlett-Parkard ApS í Danmörku.
Engin tifandi tímasprengja hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Áhættustjórnun | Breytt 6.12.2013 kl. 00:07 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Flott samantekkt Marinó og hafðu þakkir fyrir, vonandi lesa sem flestir þessi skrif því að stinga haus í sandinn hvað varðar hættuna á stór gosi er fáránlegt.
Sigurður Haraldsson, 4.1.2013 kl. 02:43
En hljóta menn ekki alltaf að meta líkurnar á dauðsföllum af völdum eldgosa og hvað þeir eru tilbúnir í að setja mikla rísorsa í að koma í veg fyrir þau dauðsföll og þá í hlutfalli við annað?
Það hefur enginn dáið nema óbeint af völdum eldgoss á Íslandi síðan í móðuharðindunum og þar áður væntanlega á þjóðveldisöld.
Ef við vegum það á móti td. dauðsföllum í bifreiðaslysum, flugslysum, slysum á sjó og snjó- og vatnsflóðum þá erum við að setja mikla rísorsa í rannsóknir og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna eldgosa...ekki satt?
Og í raun og veru...ef við bara hugsum blákalt...eru ekki meiri líkur á dauðsföllum af völdum hryðjuverkja, loftsteina og eldinga en af völdum eldgosa?
Eða eignatjón?!?...það hefur orðið meira eignatjón og kostnaður vegna snjókomu...bara í vetur...en af Eyjafjalla- og Grímsvatnagosum....TIL SAMANS (þ.e. á Íslandi)...svona til að setja þetta í eitthvað perspective.
En...að lokum...þetta ætti að kæta einhverja: http://jardvis.hi.is/ofurstod_i_eldfjallafraedi_undir_forystu_islenskra_visindamanna
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 09:09
Magnús, eldfjöll hafa vissulega ekki orðið mörgum að fjörtjóni undanfarin árhundruð, en þó áhrifin séu óbein þá eru þetta mannslíf. 2010, 1973 og 1947 voru í öll skiptin dauðföll í tengslum við eldsumbrotin sem ekki hefðu orðið nema fyrir umbrotin. Gosið í Öræfajökli 1362 er nú 100 árum eftir lok Þjóðveldisins og síðan fylgdu dauðsföll Kötlugosi 1755.
Rétt er að staða Íslands á flekamótum hefur ekki kostað mörg mannslíf síðustu 220 ár. Veðurfar vegna hnattstöðu hefur verið mun kræfara. Kannski er það vegna þess að við höfum til lengri tíma umgengist eldfjöllin af virðingu, en bara hin síðari ár gert það sama gagnvart bröttum hlíðum fjalla við byggðir landsins.
Marinó G. Njálsson, 4.1.2013 kl. 10:48
Gerir þú ekki nokkuð lítið úr hættu á Höfuðborgarsvæðinu, það eru t.d. 5km frá gígaröðinni óbrinnishólum að íbúðabyggð í Vallahverfinu, af hverju ætti ekki að geta komið mikið hraunrennslisgos á svipuðum stað?
Ég hélt að Snæfellsjökulseldstöðin væri smám saman að deyja út?
Af hverju er ólíklegast að gjósi á næstunni í Kröflu, væri til í meiri upplýsingar, kvikuþró náð að tæma sig nokkuð vel frá því seinast og tekur langan tíma f. þrýsting að safnast aftur þarna?
Sigurður, hver hefur verið að stinga hausnum í sandinn, veit ekki um neinn.
Ari (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 14:14
Nei, Ari, ég tel mig ekki gera lítið úr þessu. Ég tel að reynslan frá Vestmannaeyjum sýna að hægt er að ráðskast eitthvað með hraunstrauma eða eins og ég segi í textanum:
Fæ ekki betur séð en að ég taki hættuna fyrir Vallahverfi, iðnaðarhverfið og álverið inn í mitt mat, enda er ég nýlega búinn að vinna áhættumat vegna starfsemi á svæðinu.
Þó Snæfellsjökull sé smátt og smátt að deyja, þá er hann ekki dauður að best er vitað.
Síðustu Kröflueldar voru frá 1975-84, þar á undan 1724-9. Tími milli gosa virðist vera minnst 200 ár og upp í um 400 ár. Það er einfaldlega of stutt frá síðasta gosi til að tími sé kominn á næsta. Án þess að vera neinn sérfræðingur um málið, þá held ég að helsta ástæða eldgosa víða um land sé gliðnun landsins vegna flekahreyfinga. Þetta sjáum við í hinum ýmsu kvikuinnskotum sem eru núna sjáanleg á yfirborðinu, en mynduðust hugsanlega hundruð og jafnvel þúsundir metra undir yfirborðinu. Þessi innskot verða þegar gliðnunin nær nógu langt niður eða kvikan hefur náð að leita nógu langt upp og finnur svona holur í jarðskorpunni. Í þeim tilfellum, þar sem kvikuinnskotanna nýtur ekki lengur við, þá fellur jarðvegur ofan frá í holrúmin og sigdalir myndast. Dæmi um slíka sigdali eru Þingvallasvæðið og Hjallarnir í Heiðmörk.
Marinó G. Njálsson, 4.1.2013 kl. 15:17
Takk fyrir svarið :)
Ari (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 12:06
Sæll Ari, veist þú hvar rýmingaráætlanir fyrir vatnasvæði út frá Bárðarbungu í norður eru faldar?
Þegar fer að gjósa í jöklinum getur það tekið aðeins fáeinar klukkustundir að brjótast uppúr jöklinum og vindátt að sunnan byrgir sýn öllum sem eru norðan jökulsins, hvert eiga þeir sem búa við fallvötn sem flóðið lendir í að fara og hvað hafa þeir langan tíma til að koma sér í burtu?
Sigurður Haraldsson, 5.1.2013 kl. 17:41
Nei, en myndi alveg trúa því að það tækist að forða einhverjum nokkrum bæjum í Kelduhverfi undan flóði því það er ca. eini staðurinn sem flóð kæmi. hvert eiga þeir að fara, íþróttahús, félagsheimili, hvað ertu að spyrja mig, almannavarnir vinna gott og skipulegt starf og vita hvað gera skal.
p.s. vindátt að sunnan byrgir sýn?, skil þetta ekki.
Ari (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.