9.7.2012 | 12:38
Skattaskýrsla SUS er vanhugsað plagg
Samband ungra sjálfstæðismanna hefur nokkur undanfarin ár gefið út skýrslu sem kölluð er Skattaskýrsla SUS og kemur hún út á svo kölluðum Skattadegi. Skýrslan kom út í dag og gengur undir heitinu: Forgangsröðum rétt - Fjárlagatillögur SUS fyrir 2012.
Ég hef nú alltaf litið á þetta plagg sem eitthvað grínrit, en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Það er einnig greinilega farið að festa sig í sessi og þá á fólk það til að taka það alvarlega. Langar mig því í þetta sinn að fara yfir nokkrar af tillögum ungra sjálfstæðismanna. Tekið skal fram að sumt af þessu er alveg ágætt, en annað svo vitlaust að það tekur vart tali, felur ekki í sér neinn sparnað bara tilfærslu móttakanda greiðslunnar eða hreinlega margfaldar útgjöld þeirra sem haldið er fram að muni njóta lækkunar skatta.
Vanhugsaðar hugmyndir SUS
Ég set spurningarmerki við þær "brilliant" hugmyndir SUS að taka eitthvað af fjárlögum svo við almenningur getum bara greitt fyrir það með öðrum hætti. Einnig átta ég mig illa á því að taka liði af fjárlögum sem er úthlutað fé af tekjum frá atvinnulífinu. Væri peningunum ekki beint þá leið í verkefnið, þá kæmu þeir beint frá atvinnulífinu. Það telst seint sparnaður fyrir mig sem skattgreiðanda, ef útgjöld eru ennþá til staðar.
Tillögur SUS eru enn og aftur talnaleikfimi sem sýnir hve lítinn skilning SUS hefur á því sem samtökin eru að tala um. Þær eru í flestum tilfellum samkvæmsileikur sem felur ekki í sér raunverulegan sparnaðar. Svo eru alls konar tillögur sem eru skot í myrkri. Ekki er tiltekið hvort niðurskurðurinn sé réttlátanlegur að nokkru leiti.
Hér fyrir neðan fer ég í gegn um tillögurnar ráðneyti fyrir ráðuneyti. Tek fram að ég nenni ekki að skoða hvert atriði fyrir sig og fjalla um þau oft mörg saman
Forsætisráðuneyti
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum - Hann á ekki að leggja niður heldur á að hann að útvega sér tekjur annars staðar frá. Sparnaður fyrir skattgreiðendur er því enginn, þó vissulega leggist upphæðin misjafnlega á fólk
Ýmis verkefni - Ekki er greint hver þessi ýmsu verkefni eru og því óljóst hvort hægt sé að skera þau niður
Vest-norrænt menningarhús í Kaupmannahöfn - Greinilegt er að skuldbindingar ríkisins skipta engu máli og ekki er skoðað hvor þessi starfsemi skili tekjum í ríkissjóð eftir öðrum leiðum.
Mennta- og menningamálaráðuneytið
Frómt sagt þá þola ungir sjálfstæðismenn ekki nýsköpun, rannsóknir og söfn. Tveir merkilegustu liðirnir eru þó:
Nám á framhaldsskólastigi v/aðstæðna á vinnumarkaði - Sé fólki ekki vísað í skóla, þá fer það á atvinnuleysisbætur. Ólíklegt að um sparnað sé að ræða, frekar kostnaðarauka.
RÚV - Halda ungir sjálfstæðismenn að RÚV reki sig á loftinu. Tekjustofninn er sérgreindur og eina sem gerist við að RÚV sé tekið af fjárlögum er að gjaldið er greitt beint til RÚV án viðkomu í ríkissjóði. Enginn sparnaður fyrir greiðendur.
Rannsóknarsjóðir - Það sem ríkið greiðir ekki í rekstur þessara sjóða kemur frá atvinnulífinu. Allur kostnaðarauki atvinnulífsins leggst með einum eða öðrum hætti á neytendur af auknum þunga. Hér er því ekki um neinn sparnað að ræða fyrir almenning, bara tilfærsla greiðslunnar.
Þekkingarsetur - Greinilegt er að ungir sjálfstæðismenn eru lítið gefið um fortíðina.
Þjóðminjasafn, Fornleyfavernd, Þjóðmenningarhús - Já, malbikum bara yfir menningu þjóðarinnar, enda stendur hún greinilega í vegi fyrir framförum, sem nota bene á ekki að leggja neinn pening í að skipuleggja.
Kostuleg eru rökin fyrir því að leggja eigi niður rannsóknarverkefni, þar sem þau eiga betur heima hjá menntastofnunum, þegar ýmist eiga engir peningar að fylgja með eða búið er að skera niður framlög til þessara sömu menntastofnana. Verð að viðurkenna að ég efast stórlega um rökhyggju þeirra sem setja svona niður á blað.
Ennþá kostulegri eru rökin fyrir því að ríkið eigi ekki að reka menningu. Hér er greinilegt að aldurinn er að há ungum sjálfstæðismönnum. Þessi söfn og menningarstarfsemi sem SUS ætlar að taka af fjárlögum snúast um menningararfinn og að við séum þjóð. Hvar í heiminum er þjóðleikhús einkarekið eða þjóðminjasafn? Þetta er einmitt haft undir hatti ríkissjóðs, þar sem ríkissjóður er að gæta hagsmuna þjóðarinnar.
Utanríkisráðuneytið
Mikill er metnaður ungra sjálfstæðismanna. Vilja leggja af alla aðstoð Íslendinga við lönd þriðja heimsins. Samt vilja þeir ekki gera það, heldur eru þeir bara að slá um sig með þessum sparnaði. Hvernig er hægt að skoða eitthvað sem sparnað, þegar endurhugsa á útgjöldin? Þeir ætla sem sagt ekki að leggja af þróunaraðstoðina, heldur hugsa hana upp á nýtt. Þetta ætla þeir að gera með því að beina meiri viðskiptum við þróunarlöndin. Á sem sagt að kaupa fleiri banana af þessum löndum af fyrirtækjum sem arðræna þessi lönd? Eða málma af því að við erum með svo mikla málmvinnslu hér. Staðreyndin er að þróunarlöndin þyrftu ekki á þessari aðstoð að halda, ef vestræn fyrirtæki straujuðu ekki yfir efnahag þessara landa eins og hann skipti þau ekki máli. Rétt er að betra væri að gera löndin sjálfbjarga, en þá verða þau að losna við fjölþjóðlegu fyrirtækin sem mergsjúga löndin.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið
Meginstoð tillagna SUS er að afnema framleiðslustyrki í landbúnaði. Hef ég verulegar áhyggjur af því að þetta séu framtíðarstjórnmálamenn þjóðarinnar. Margsannað er að fyrir neytandann er felst mestur sparnaður í því að greiða niður framleiðslukostnaðinn. Gera má ráð fyrir að 11 ma.kr. hækkun framleiðslukostnaðar muni leiða til um fjórföldunar á smásöluverði. Flott að spara 11 milljarða svo útgjöldin geti farið í 44 ma.kr. í staðinn. Er hægt að fara fram á að menn hugsi áður en þeir leggja svona vitleysu á borð fyrir fólk? Átta menn sig ekki á því að niðurgreiðslur til landbúnaðar eru a) hugsaðar til að draga úr launakröfum og þar með launakostnaði launagreiðenda og b) lækka vísitölu neysluverðs. 33 ma.kr. hækkun útgjalda heimilanna krefðist um 66 ma.kr. hækkun launa eða nærri hækkun 10% launakostnaðar. Dómínóáhrif slíkrar launahækkana yrðu gríðarleg, þar sem atvinnulífið yrði að hækka tekjur sínar til að eiga fyrir þessum kostnaði (eða fækka störfum sem fjölgaði á atvinnuleysisskrá).
Innanríkisráðuneytið
Hér er enn einu sinni verið að færa til útgjöld. Hvað sparast við að það leggja niður Vegagerðina og fela einkaaðilum verkið. Flest öll verk sem unnin eru á vegum Vegagerðarinnar eru unnin af einkaaðilum. Lækka útgjöld notenda vegakerfisins eitthvað við þessa aðgerð? Nei, ekki neitt og líklegast hækka þau, þar sem sannað er að viðhald samgöngukerfisins mun verða lakara á eftir og því meira tjón á þeim farartækjum sem um það fer. (Bretland er gott dæmi um hrapalegar afleiðingar einkavæðingar samgöngukerfisins.)
Af ríflega 21 ma.kr. niðurskurði hjá innanríkisráðuneytinu, þá telst mér til að 8,5 m.kr. myndu í raun og veru sparast, en allt annað kæmi fram sem kostnaður annars staðar. Halda SUSarar t.d. að kostnaður við flugvelli hverfi við það að annar en ríkið sinni þeim eða að trúfélög fái ekki sínar tekjur, ef þau eru ekki innheimt í gegn um skatta eða að útgjöld jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði ekki til staðar. Verð að viðurkenna, að ég geri meiri kröfur til þeirra sem stefna að því að stjórna landinu í framtíðinni, en þessi rökleysa.
Velferðarráðuneytið
Stærsti bitinn varðandi velferðarráðuneytið er fæðingarorlofssjóður. Í þennan sjóð er greitt samkvæmt kjarasamningi, þó síðan gildi lög um framkvæmd útgreiðslu. Maður hefði haldið að SUSarar væru einmitt á þeim aldri að vilja hafa þennan sjóð eins sterkan og hægt er. Komi þessir 655 ma.kr. ekki eftir þessari leið, þá þurfa þeir að koma beint frá atvinnulífinu, sem ratar þá út í verðlagið. Sem sagt enn ein tilgangslaus tilfærslu móttakanda greiðslunnar.
Fjármálaráðuneytið
Af um 7 ma.kr. útgjöldum ráðuneytisins, sem SUS vill leggja af eru 6 ma.kr. vegna sérstakra vaxtaniðurgreiðslu. Hér skortir greinilega á þekkingu SUSara og ættu þeir kannski að sækja sér menntun í einhverjar af þeim menntastofnunum sem þeir við skera niður hjá. Þessar sérstöku vaxtaniðurgreiðslur eru fjármagnaðar af fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Ekki er því rétt að allir skattgreiðendur séu að borga fyrir suma.
Iðnaðarráðuneytið
Kjarninn í tillögum SUSara er annars vegar að skera niður útgjöld með sértilgreinda tekjustofna og hins vegar að leggja af niðurgreiðslu til húshitunar með rafmagni sem mun mismuna landsmönnum eftir búsetu. Samanburðurinn á húshitunarkostnaði, þar sem ekki er jarðvarmi, og fasteignaverði í Reykjavík lýsir best því að mikilvægt er að fólk fari einhvern tímann út fyrir 101 Reykjavík. Sá sem býr í 101 Reykjavík getur fært sig í Vogana eða Árbæinn og fengið mun stærra húsnæði fyrir sama pening eða jafnstórt húsnæði. Sá sem býr á köldu svæði gerir það m.a. vegna þess að þar hefur viðkomandi atvinnu, á sína fjölskyldu o.s.frv. En gott er að sjá viðhorf SUSara til landsbyggðarinnar. Hún er samt það sem heldur uppi þessu þjóðfélagi.
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið
Aftur eru SUSarar fastir í því að búa í 101 Reykjavík. Leggja á af niðurgreiðslu sem hækkar útgjöld í staðinn mun meira en nemur niðurgreiðslunni. Þar á ég við jöfnun flutningskostnaðar.
Umhverfisráðuneytið
Ég skil ekki tillögur SUSara vegna ráðuenytisins. Greinilegt er að þeir þurfa að ferðast um landið og kynnast því. Orðið þjóðgarður þýðir einmitt að þetta er garður þjóðarinnar. Sem þýðir þá jafnframt að þjóðin ætlar að sjá um garðinn. Þjóðgarður verður aldrei sjálfbær tekjulega. Kannski er hægt að gera einhvern smá skika hans sjálfbærna, en hann er jafnframt sá sem er mest markaðsettur.
Legg til að SUSarar ferðist um landið og skýri síðan út hvernig þeir ætli að útfæra tillögur um sjálfbærni þjóðgarða.
Svo er það þetta með sértekjur Veðurstofunnar. Eigi þær að hækka um 700 m.kr., þá koma þær úr sömu vösum og greiða skattana í dag. Þ.e. þegar ég fer inn á vef Veðurstofunnar til að athuga með veðrið, þá þarf ég að greiða fyrir aðganginn og uppflettinguna, þar sem færri myndu gera það, þá hefði Veðurstofan minni tekjur og veitti þar með lakari þjónustu. Ekki má gleyma því að Veðurstofna er á jarðskjálfta- og eldgosavakt, þ.e. hluti af öryggisneti þjóðarinnar. Hvers vegna SUSarar vilja skerða framlög til þessar þáttar öryggisnetsins, en ekki annarra, veit ég ekki.
Tillögur þurfa að skila sparnaði
Ég get tekið undir hluta af tillögum SUS, en ekki mjög margt. Mér finnst mikilvægt, þegar svona tillögur eru lagðar fram að þær feli ekki bara í sér tilfærslu kostnaðar eða eins og í tilfelli greiðslna til landbúnaðarins, stórfellda hækkun útgjalda.
Við yfirferð á lista SUS, þá finnst mér helst eins og SUSarar hafi bara rennt fingrinum yfir fjárlagaliði og hugsað sem svo að hér væri gott að skera niður eða "mér líkar ekki við menningu og söfn, út með það allt". Mjög mörg atriði á lista SUS eru útgjöld með eyrnamerktar sértekjur, þ.e. tekjurnar eru innheimtar svo þær renni til þessa sérstaka verkefnis. Falli útgjöldi af fjárlögum, þá er ekki þar með sagt að hætt verði við verkefnið. Það færist bara til og kostar örugglega jafnmikið og áður.
Af alls um 71,6 ma.kr. "sparnaðartillögum" SUS telst mér til að 57,6 ma.kr. valdi bara tilfærslu útgjalda, þ.e. þeir sem greiða þetta í gegn um skatta í dag, m.a. sérstaklega afmarkaða tekjustofna, mun greiða beint fyrir þetta í staðinn oft í hærra vöruverði, í hærra útsvari til sveitarfélaga, hærri kostnaði eða beinni kostnaðarþátttöku. Þess fyrir utan, þá mun kostnaður neytenda af afnámi greiðslum til landbúnaðar verða líklega fjórfaldur á við lækkun skattanna með tilheyrandi hækkun launa og launakostnaðar fyrir launagreiðendur, hækkunverðlags til aðmæta kostnaði launagreiðenda og loks hækkun vísitölu neysluverðs.
Svo merkilegt sem það virðist hljóma, þá ganga tillögur SUS að nokkru út á innleiðingu anarkisma, þar sem leggja á af stóran hluta stofnana sem mynda innviði stjórnkerfisins. Á stundum er eins og tilviljun ein eigi að ráð í hvaða framkvæmdir verður farið. Örugglega mótmæla menn og segja að markaðurinn eigi að ráða, en "markaðurinn" er einmitt dæmi um anarkisma, þar sem sá frekasti fer sínu fram án tillits til vilja almennings.
Flokkur: Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:14 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.4.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 1673498
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- IT Governance Ltd. Einn staður fyrir allt vegna stjórnunar upplýsingatækni
- ISO 27001
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
- Fjármálaeftirlit
- Póst- og fjarskiptastofnun
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Fín samantekt.
Maður myndi halda að SUS krakkarnir hefðu lært eitthvað af hruninu, en þau virðast vera meira en lítið til í að einkavæði starfssemi sem við sem þjóðfélag getum ekki verið án eða viljum ekki vera án.
Arnþór S. Sævarsson (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 13:03
Þeir telja eflaust að þau trúfélög sem fólk hefur áhuga á, geti náð í tekjur í gegnum annað en skatta. T.d. efast ég stórlega um að ~75% landsmanna hefðu áhuga á því að borga ríkiskirkjunni pening ef þeir gætu kosið um það eða t.d. mánaðarlegar bíóferðir.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.7.2012 kl. 13:30
Eyjamönnum brá greinilega við þetta eins og sjá mátti í morgun:
Hehehehe....
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, segir að síendurtekin skrif Styrmis Gunnarssonar um leiðtogavanda Samfylkingarinnar sé liður í því að stýra flokknum í ógöngur. Hann vill að Jóhanna leiði flokkinn í gegnum næstu kosningar, en sjálfur er hann verið orðaður við formannsframboð í Samfylkingunni. Í nýjustu grein sinni á Eyjunni fjallar Stefán um skrif Evrópuvaktarinnar um [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Tillaga sem Róbert Marshall og Björn Valur Gíslason fluttu um þátttökurétt Palestínumanna í ÖSE þinginu var felld með sex atkvæða meirihluta á ársþingi ÖSE þingsins sem haldið er í Mónakó nú um helgina. Mikil andstaða var á meðal þingmanna Bandaríkjamanna og Ítala á fundinum en hún naut stuðnings frá fulltrúum norðurlandaþjóðanna auk Frakklands og Bretlands. [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Grunaður hryðjuverkamaður hefur í fmm skipti verið gripinn í grennd við Ólympíuleikvanginn í London. Sami maður er sagður hafa dvalið í þjálfunarbúðum hryðjuverkamanna í Sómalíu. Frá þessu er greint í Sunday Telegraph. Maðurinn er grunaður um tengsl við hryðjuverkasamtökin al Shabaab í Sómalíu. Öryggisgæsla í Bretlandi hefur verið stóraukin, enda ekki nema tvær vikur þangað [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Fáir ef nokkrir menn í heiminum hafa haft jafn gott tímakaup og William Johnson sem var forstóri Duke Energy í einn dag. Hann hafði hvorki meira né minna en 44 milljónir dollara upp úr krafsinu, eða sem nemur 5,6 milljörðum króna. Greint er frá málinu á vef Huffington Post. Johnson var forstjóri orkufyrirtækisins Progress Energy [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Kirkjan getur ekki borið ábyrgð á öllu sem starfsmenn hennar segja eða skrifa á einkabloggi sínu. Það gera þeir á eigin ábyrgð, segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Hún ætlar ekki að fylgja eftir kvörtun Guðna Ágústssonar vegna skrifa Davíðs Þórs Jónssonar. Eins og fram hefur komið gekk Guðni á fund biskups og krafðist þess [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Kristinn Hrafnsson, einn forsvarsmanna Wikileaks, segir samtökin í baráttu við illvíg öfl og þau hafi nú riðið á vaðið með birtingu upplýsinga sem snerta borgarastríðið í Sýrlandi. Upplýsingarnar eru birtar á vef Wikileaks og fjölmiðlar vitna til þeirra í skrifum sínum. Það mun taka einhverja mánuði að fullvinna úr þessum upplýsingum. Það eru ýmsar fréttir [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Hugmyndaráðstefna stendur nú yfir í Almedalen í Svíþjóð þar sem saman koma fulltrúar allra stjórnmálaflokka og ungliðahreyfinga og ræða hugmyndir á breiðum grunni. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, sækir ráðstefnuna fyrir hönd samtakanna. Stofnað var til hugmyndaráðstefnunnar á sínum tíma af Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, og að þessu sinni var fulltrúum Wikileaks boðið að taka [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Reykjavík stendur öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum að baki á flestum sviðum sem hafa áhrif á samkeppnishæfni borga. Þetta leiðir heildstæð úttekt alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins PwC á samkeppnishæfni norrænna höfuðborga glögglega í ljós. Skýrsla PwC, Northern Lights The Nordic Cities of Opportunity, verður birt í dag, föstudaginn 6. júlí. Þetta er í fyrsta sinn sem Reykjavík [...]
Skattadagur SUS: Í dag hætta Íslendingar að vinna fyrir hið opinbera
Það er semsagt hefndarhugur í loftinu eftir forsetakosningarnar, segir fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason. Tilefnið er reiði Guðna Ágústssonar í garð Davíðs Þórs Jónssonar vegna skrifa hans í
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.7.2012 kl. 15:33
Góð samantekt.
Jens Guð, 9.7.2012 kl. 18:52
Er ekki full langt gengið Marinó, að elta ólar við SUS. Formaður þeirra dæmdi sjálfan sig úr leik stjórnmálanna á kosninganótt. Þar opinberaði hann fávisku sína eftirminnilega.
Eins og þú segir í upphafi, þá er helst hægt að líta þessa "skýrslu" SUS sem grínrit. Þó er grínið ekki betra en svo að fáir nenna að lesa það og enn færri að henda gaman af því.
Sem betur fer mun einungis lítill hópur þeirra sem nú teljast til SUS ná framgangi í stjórnmálum. Margir munu að endingu lenda sem blíantsnagarar á vegum ríkissins og því verða þyggjendur þess sem þeir nú hallmæla.
Það fer best á því að vera ekkert að stugga við þessum krökkum. Flest munu þau vitkast þegar aldur færist yfir, hin falla í gleymsku!
Gunnar Heiðarsson, 9.7.2012 kl. 19:49
Ekki má nú vera heilagari en páfin! Bara er gott að SUS veki athygli á því sem betur mætti fara, þó ekki sé allt rétt hjá þeim er umræðan holl.
Ég er til dæmis algerlega sammála þeim með reksturin á Þingvöllum og mætti ná miklu meira fé úr vösum túristana (sem sumir eru erlendir) og mætti nota hluta þess til reksturs svæðisins.
Undanfarið hefur maður rekist á ferðamenn á völlunum með dollarana lafandi uppúr vösunum og engan stað til að eyða þeim á.
Mikill munur er á reisn Þingvalla frá því Tolli í Síld og fiski var vert á Valhöll, þá var gaman að skreppa á Þingvelli!
Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 21:40
Verð að viðurkenna, Jónas, að mér finnst Þingvellir líta mun betur út án Valhallar.
Marinó G. Njálsson, 9.7.2012 kl. 22:28
Marinó, þú virðist ekki skilja þá grundvallar hugsun að það sé réttlátt að sá sem notar eitthvað borgi fyrir það sjálfur, í stað þess að allir hinir borgi fyrir það (þarna er auðvitað ekki átt við kjarnastarfsemi eins og löggæslu, heilbrigðisþjónustu og menntun sem allir þurfa að hafa aðgang að óháð efnahag). Þingvellir eru gott dæmi. Auðvitað er réttlátara að þeir sem fara á Þingvelli greiði fyrir kostnaðinn sem af því hlýst í stað þess að hinn almenni skattborgari geri það. Sama má segja um beingreiðslur í landbúnaði. Auðvitað er miklu réttlátara, gagnsærra og einfaldara að sá sem kaupir sér lambakjöt borgi raunverulegt verð vörunnar í stað þess að hún sé niðurgreidd af öllum hinum.
Þetta er raunverulegur sparnaður fyrir ríkið sem hægt er að nota til að lækka skatta. Hvort það sé svo á endanum raunverulegur sparnaður fyrir hvert og eitt heimili er undir því komið hvað það heimili fer t.d. oft á Þingvelli eða kaupir mikið af lambakjöti, sem hlýtur að vera sanngjarnt og eðlilegt.
Það útskýrir þetta enginn betur en Milton Friedman gerir hér fyrir forseta Íslands: http://www.youtube.com/watch?v=7FCuWrxPg3o&
Davíð Þorláksson (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 23:10
Það er alltaf að verða augljósara og augljósara að okkur hægri mönnum vantar orðið hægri flokk til að kjósa Þau ummæli sem að komu fram á kostninganótt um það að fólk vildi ekki borga skuldir sínar voru ungum Sjálfstæðismönum ekki til framdráttar því það er alls ekki rétt en sínir hroka og virðingarleysi jafnvel vannþekkingu á málefninu eða í versta falli þá afstöðu að það sé allt í lagi að rústa heilu þjóðfélagi og leggja byrðarnar á álmúgann en afskriftirnar á þá sem nær standa. Því vantar að mínu mati orðið flokk sem að stendur fyrir þau gildi sem að Sjálfstæðisflokkurinn segist standa fyrir kannski að þjóðinn síni honum í næstu kosningum hver er skoðun hennar. Fylgi það sem flokkurinn hefur í dag segir ekkert um gæði stefnu hans það er að mínu mati miklu frekar vitnisburður um hvað stefna og aðgerðir hinna flokkana er arfa léleg. Takk fyrir færsluna Marinó
Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.7.2012 kl. 08:25
Davíð, að jafnaði nota allir þessa þjónustu yfir ævina í mismiklu mæli þó. Ef menn vilja eingöngu horfa á þetta frá því þrönga sjónarhorni þar sem rassinn þeirra er staðsettur hverju sinni, þá er hugsanlega hægt að skera eitthvað af þessu niður í útgjöldum ríkisins, en þá verður líka viðkomandi að vera tilbúinn að borga 10-falt verð, þegar honum/henni dettur í hug að nota þjónustuna.
Þig langar kannski að fara á listasafn eftir 5 ár, vegna þess að þá ertu með maka sem hefur áhuga á listum eða barn sem langar að kynnast listum. En, úps, það er ekkert listasafn vegna þess að rassinn þinn sneri í hina áttina, þegar listasafnið þurfti stuðning fyrir starfsemi sinni. Eða Þjóðminjasafninu var lokað, vegna þess að SUSarar höfðu ekki áhuga á þjóðminjum, en sem þroskaðir Sjálfstæðismenn hafa þeir það. Til þess að þjónustan geti verið til staðar, þegar þú hefur óvænt löngun til að fara, þá verður hún líka að vera til staðar áður en löngunin kviknar hjá þér, því sé svo ekki þá grípur þú í tómt og skrifar örugglega langa blaðagrein þar sem þú óskapast yfir skorti á þjónustu.
Barirnir sem þú sækir um helgar eru í húsum sem voru byggð á tíma þegar þeirra var þörf. Átti þá að rífa þau, þegar þeirra var ekki þörf, sbr. Hressó, sem var lengi olnbogabarn Reykjavíkur. Sama með Bernharðstorfuna. Átti að fjarlægja húsin þar sem engin var að nota þau fyrir réttum 30 árum?
Sem betur fer er samfélagsgerð Íslands ekki byggð á frjálshyggju Miltons Friedmans, en þeir sem vilja lifa í þannig samfélagi geta flutt til Texas eða Miami. Grunnur hennar er norrænt velferðarþjóðfélag og evrópskt menningarsamfélag.
En segðu mér eitt: Viltu frekar greiða 600 kr. fyrir mjólkurlítrann en að borga á að giska 100 kr. á lítrann í beingreiðslur og greiða 150 kr. fyrir lítrann? Ekki er gilt svar að flytja megi mjólkina inn nema að verð hennar sé reiknað á sama hátt, þ.e. án allra styrkja í upprunalandi. Nú ef þú drekkur ekki mjólk, þá getum við skipt þessu út fyrir einhverja íslenska landbúnaðarafurð sem þú neitir og sambærilega óniðurgreiddar erlenda afurð. Ég held nefnilega að menn haldi að óniðurgreiddar erlendar afurðir séu eitthvað ódýrari en óniðurgreiddar innlendar afurðir.
Þess fyrir utan, þá er svo mikið af einföldunum í blessuðum lista SUSara, sbr. Vegagerðina. Hver á að sjá um að ráða sjálfstæðu verktakana til að vinna verkið? Eða flugmálastjórn? Hver á að greiða fyrir þjónustuna sem felst í öryggi landsins? Nú ég benti á Veðurstofuna og jarðfræðideild stofnunarinnar. Hvað hefur Friedman sagt um að leggja niður FEMA, SEC og fleiri slíkar stofnanir?
Marinó G. Njálsson, 10.7.2012 kl. 11:05
Það er sjálfsagt að vera alltaf á varðbergi vegna skattahækkana og mér finnst þessi leið að reikna út skattadaginn hugvitsamleg og gegnsæ áminning. Þó samneysla sé nauðsynleg þá hafa umsvif hins opinbera aukist mikið síðustu áratugi óháð því hvers konar ríkisstjórnir hafa setið. Allir vita að of mikil og röng skattlagning dregur kraft úr atvinnulífinu og minnkar getu þess til að standa undir öflugu velferðarkerfi. Mér finnst gæði opinberrar þjónustu ekki hafa aukist sem nemur aukinni skattlagningu síðan ég fór að reka eigin fjölskyldu og heimili fyrir ríflega tveim áratugum eða svo.
Þorsteinn Sverrisson, 10.7.2012 kl. 11:35
Marínó, það er allt í lagi fara yfir rekstur hins opinbera og óþarfi að vera með hroka þótt allir séu ekki sammála þér um hve mikið eigi að vera undir rekstur ríkisins.
Staðreyndin er einfaldlega þessi að skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu er í dag allt og háir eða yfir 40%. Jú við getum svo sem borið okkur saman við hin Norðurlöndin og sagt að þau séu á svipuðu róli. En merkir það að kerfin þar séu að bera sig ?
Nei, fyrir utan Noreg þá hafa hvorki Danmörk né Svíar staðfastlega játað að hið svokallaða norræna velferðarkerfi gangi ekki lengur nema með enn hærri skattheimtu. Stjórnvöld í þessum löndum vita að það muni aldrei ganga upp og því ljóst að velferðarkerfin verða skorin niður beint og óbeint (neytandinn borgar fyrir þjónustuna eða einhverju leiti).
Og Maríno, það er alveg í lagi að spyrja sjálfan sig gagnrýnt hvort að þessi eða hin starfsemin eigi einfaldlega rétt á sér. Ef það er erftirspurn eftir henni þá verða einfaldlega til viðskipti í kringum hana.
Held að langflestir séu sammála um að menntun og heilbrigðismál séu lykilþættir sem ber að hlúa að. Þetta eru þeir þættir sem við getum flokkað undir velferð. Allt annað eru þætti sem skipta miklu minna mála. Eigum við að setja skattfé okkar í þá þætti ? Í mörgum tilvikum NEI.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.7.2012 kl. 12:20
Villa í fyrri pósti en þar stendur
Nei, fyrir utan Noreg þá hafa hvorki Danmörk né Svíar staðfastlega játað að hið svokallaða norræna velferðarkerfi gangi ekki lengur nema með enn hærri skattheimtu.
en á að vera
"Nei, fyrir utan Noreg þá hafa stjórnöld í Danmörku og Svíþjóð staðfastlega játað að hið svokallaða norræna velferðarkerfi gangi ekki lengur nema með enn hærri skattheimtu."
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.7.2012 kl. 12:24
Björn, í skýrslu SUS er ekki verið að taka á þeim málum sem þú nefnir nema að sáralitluleiti.
Rétt er að ekki á öll starfsemi undir ríkið, en á tilgangur að vera að lækka skatta eða lækka útgjöld almennings í landinu? Tillögur SUS í landbúnaðarmálum munu, t.d., leiða til mikillar hækkunar á útgjöldum almennings, útgjöldum atvinnulífsins og skattheimtuna af landbúnaðarvörum. Bara sá liður einn myndi auka skatttekjur ríkisins um líklegast á bilinu 25-35 ma.kr. (miðað við óbreytt skattkerfi) og teknu tilliti til hækkana á landbúnaðarvöru, annari vöru og þjónustu og launahækkunum sem þyrfti til að mæta þessum hækkunum.
Í mörgum tilfellum er það þannig, að detti framlag ríkisins út, þá leggst starfsemin af. Því er í reynd um að ræða niðurgreiðsla til starfseminnar. Í öðrum tilfellum, þá flytjast útgjöldin til, t.d. fiskvinnslufyrirtækið sem greiðir gjald vegna Rannsóknastofu fiskiðnaðarins greiðir gjaldið beint til stofnunarinnar. Í þeim tilfellum er því ekki um neinn sparnað fyrir ríkið að ræða þar sem tekjumissir fylgir með. Síðan eru það tilfellin, þar sem skattgreiðandinn hagnast en neytandinn tapar margfaldri upphæð. Málið er að skattgreiðandinn og neytandinn eru sami einstaklingurinn. Loks eru það tilfellinn, þar sem við kostum til peningum til að geta gengið að hlutunum síðar eins og þeir eru í dag. Þetta eru söfnin, forminjar, þjóðgarðar og fleira í þeim dúr. Ef markaðsöflin ættu að ráða hvað gert er við Þingvelli, væri búið að byggja stærra hótel í stað Valhallar og annað inni í Bolabás, þjónustuskála hér og þar, bryggju fyrir skemmtibáta og leyfa umferð þeirra á vatninu, stóra sumarbústaðabyggð við norð-vestur hluta vatnsins og svona mætti lengi telja. Í Skaftafelli væri komið hótel með neonljósum líkt og menn vilja setja við Grímsstaði. Dettifoss væri búið að virkja. Ég gæti haldið svona áfram endalaust. Þannig að ríkið er ekki að standa í rekstri þjóðgarða til að veita þeim sem þá sækja þjónustu, heldur til að tryggja vernd svæðanna.
Marinó G. Njálsson, 10.7.2012 kl. 12:44
Maríno,
Ég er lítið að velta fyrir mér hvað SUS er að leggja til heldur almennt hvernig við notuð skattfé. Held að það sé hollt fyrir okkur öll að hafa í huga að skattfé er ekki einhver peningur heldur að þetta fjármunir sem teknir er af tekjum fólks og fyrirtækjum til að standa undir samneyslu.
Legg áherslu á að menntakerfið og heilbrigðiskerfið er sá grunnur sem við eigum að hlúa að eins og tilgreint var í fyrra svari. Mér finnst hins vegar allt í lagi og skólarnir séu mun frjálsari í dag en þeir eru og hafi meiri áhrif við val á námsefni og starfsfólki.
Þess vegna er mjög mikilvægt að það sé farið vel þessa skattfé alveg eins og við gerum sjálf fyrir peninga okkar sjálfra.
Persónulega finnst mér að hið opinbera fari ekki vel með skattfé og í of mörgum tilvikum meðhöndli menn hugmyndina um skatta oft á tíðum á furðulegum forsendum.
Ætla aðeins að fara lið fyrir lið í athugasemdir þínar hér að ofan.
1) Landbúnaðarvörur: núverandi landbúnaðarkerfi á Íslandi þarf að vera samkeppnishæft. Búin eru enn of lítil þ.e. framleiðslukostnaður of hár. Þetta er nauðsynleg breyting þannig að íslenskur landbúnaður verði samkeppnishæfur við innlendan innflutning (sem er reyndar oft á tíðum ríkisrekinn en það er önnur saga). Vel rekin landbúnaður á að geta staðið undir sér. Besta aðhaldið er innflutningur (að gefnu tilliti til þess að sóttvarna sé gætt).
2) Rannsóknastofnanir í sjávarútvegi: sjávarútvegurinn á að standa straum af þessum kostnaði. Myndum örugglega fá jafngóða þjónustu. Það er hagur útgerðanna að hafa slíka þjónustu góða til að fá bestu ráðgjöf. Þannig sé ég ekkert að því að matvælaframleiðendur standi straum of kostnaði MATIS. Auðvita myndi þetta verða til þess að ákveðin starfsemi þessara stofnana yrði úti, en hver segir að slík starfsemi eigi þá endilega heima þar ? Þetta eru þjónustustofnanir og eftirlitsstofnanir við viðkomandi atvinnustarfsemi, punktur. Það er útfærsluatriði hvernig við gerum þær óháðar.
3) Varðandi söfnin og fornmunir: hver segir að þessu yrði ekki sinnt jafnvel þótt ríkið verið ekki eini aðilinn ? Við höfum ekki reynt ! Ég er ekki að kaupa þetta hjá þér með Þingvelli.
a) Það eru lög um Þingvelli
b) Ferðamenn sækjast eftir landslagi Íslands vegna fegurðarinna í einfaldleikanum. Sé ekki fyrir mér endilega að stórt hótel yrði reist á Þingvöllum bæði vegna skipulags sem og sá markhópur sem þú myndir vilja fá myndi ekki sækjast eftir fabrikerum hótelbyggingum.
4) Skaftafell: sömu rök og fyrir Þingvelli
5) Grímstaðir: er ekki búið að selja helminginn af landinu ?
6) Dettifoss: hver segir það ? Hins vegar á að selja inn á helstu ferðamannastaðina eins og Dettifoss, Þingvelli, o.s.frv. Þannig verður unnt að byggja upp viðkomandi staði o.s.frv. Hver segir að einkaaðili geti ekki séð jafnvel um að þjónusta almenning og hið opinbera í skjóli fyrirliggjandi reglugerða (það er jú meginhlutverk Alþingis). Það yrði þannig hagur rekstraraðilans að gera viðkomandi svæði sem mest og best úr garði þannig að unnt væri að bjóða ferðamönnum gott aðgengi og fræðslu um viðkomandi svæði. Sé ekkert hættulegt við þetta.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.7.2012 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.