Leita í fréttum mbl.is

Hugmynd um sæstreng er hættuleg skýjaborg við núverandi aðstæður

Mér finnst þessi hugmynd um rafmagnssæstreng til Bretlands eða meginlands Evrópu vera dæmi um ákaflega hættulegar skýjaborgir.  Sérstaklega við núverandi aðstæður.

Óhemju mikill kostnaður

Segjum sem svo að verkefnið verði talið hagkvæmt, þá þarf að reisa virkjanir hér á landi sem jafngilda allri þeirri raforkuframleiðslu sem fyrir er í landinu.  Kostnaðurinn við þessar virkjanir væri líklegast á bilinu 700 - 800 ma.kr., ef ekki meira, miðað við að þrefaldan kostnað við Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjun framreiknaður miðað við verðlagsþróun.  (Ætti kannski að nota fjórfaldan kostnað, þar sem orkuvinnslugeta Fljótsdalsvirkjunar er 4.800 GWst, en talað hefur verið um að afhenda 17.000 GWst sem miðað við orkutap á leiðinni krefst að framleiða þarf um 18.600 GWst.)  Síðan eru það raflínur frá þessum virkjunum að þeim mannvirkjum, þar sem strengurinn fer í hafið.  Vissulega mun lægri kostnaður en við virkjanirnar, en með kröfu um jarðstrengi á viðkvæmum svæðum og nálægt byggð, þá skulum við skjóta á 100 ma.kr.  Fer þó eftir því um hve langan veg þarf að leggja línurnar.  Loks er það tengivirkið sem kostar örugglega einhverja 50 - 100 ma.kr. án þess að ég hafi nokkra hugmynd um það.  Sé farið í hærri tölurnar, þá gerir þetta 1.000 ma.kr. eða um 60% af núverandi vergri landsframleiðslu. 

Ég geri ráð fyrir að kaupendur leggi sæstrengina ( reikna með tveimur því ekki er hægt að treysta á einn), en annars er kostnaðurinn við þá mjög líklega líka um 650 ma.kr. (Miðað er við 1m. EUR á hvern kílómetra og að lagðir verði 4.000 km af streng.) 

Miðað við að Íslendingar leggi strengina, þá verður kostnaðurinn við þetta ævintýri um 1.650 ma.kr.  Gerum síðan ráð fyrir að vextir af framkvæmdalánum verði um 5% og rekstrarkostnaður um 7% á ári.   Reiknum næst með því að afskrifa þurfi öll herlegheitin á 20 árum. 

Samkvæmt forsendum mínum væri heildarkostnaður á 20 árum 4.785 ma.kr.

Tekjuhliðin, auðlindagjald og arðsemiskrafa

Þá er það tekjuhliðin.  Gefum okkur að hægt verði að selja 17.000 GWst (gígawattstundir) á ári, þ.e. þetta er afhent orka á meginlandi Evrópu og því búið að taka tillit til orkutaps í sæstrengjum.  Miðað við 6% tap um sæstrenginn og 3% hér innanlands, þá þarf framleiðslan að vera um 18.600 GWst., eins og áður segir. 

Lagt verður auðlingagjald á orkusöluna.  Gerum ráð fyrir að það yrði hógvært eða 5% af heildartekjum.  Loks er rétt að gera ráð fyrir arðsemiskröfu Landsvirkjunar og notum það 8% (tala sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur nefnt).  Til að standa undir ofangreindum 4.785 ma.kr., greiða 5% auðlindagjald og skila 8% arðsemi, þyrfti þá 1 GWst að seljast á að minnsta kosti 16,0 m.kr. eða 1 KWst á 16 kr.  Samkvæmt rafmagnsreikningi fyrir notkun í mars 2012, þá greiddi ég 9,96 kr. á hverja KWst.  Munurinn er því um 60% og þá á eftir að reikna inn í flutnings- og dreifingarkostnað í Evrópu og álagningu orkusölufyrirtækisins, en þessi kostnaður er ríflega 50% af því sem ég greiði.

Önnur atriði

En það eru fleiri hliðar á þessu.  Mikilvæg landsvæði fara undir virkjanir, miðllunarlón og flutningslínur sem þá væri ekki hægt að nota í aðra tekjuöflun.  Næstu virkjanakostir vegna notkunar raforkunnar hér á landi yrðu dýrari, jafnt fyrir almenna notkun, notkun innlendra fyrirtækja og til fyrirtækja sem vilja setja upp starfsemi hér á landi.  Ímynd Íslands sem ósnortins lands mynd bíða hnekki og það myndi skaða ferðaþjónustuna.  Störfin sem sköpuðust við þetta yrðu flest tímabundin og eftir það vel innan við 1.000.  Hvert varanlegt starfs myndi því kosta vel á fimmta milljarð, ef ekki mun meira.  Dýr störf það.

Tekjur ríkisins/þjóðarinnar

Þar sem um útflutning er að ræða, þá verður auðlindagjaldið nánast einu tekjurnar sem ríkið fær eftir að framkvæmdum lýkur.  Árlegt auðlindagjald á föstu verðlagi væri 17.000 GWst * 16 kr./KWst * 5% = 13,5 ma.kr.  Á framkvæmdartíma, þá gæti hugsanlega 30% kostnaðar hér innanlands runnið til ríkisins, en það færi eftir því hve stór hluti vinnuafls greiðir skatta hér á landi og af hve stórum hluta aðfanga er greiddur virðisaukaskattur sem ekki fæst endurgreiddur.  Líklegt er að talan sé mun lægri, en miðað við 30% þá gerir það 300 ma.kr.

Vissulega eru í mínu mati tölur sem eru háðar mikilli óvissu, en gerum næmnisgreiningu á þeim.  Lækkum kostnað um 25%.  Þá þarf samt að rukka um 12 kr. á KWst.  Þar sem auðlindagjaldið er að gefa frekar tíkarlega upphæð miðað við alla áhættuna, þá væri kannski rétt að miða við 15%.  Þá færi verðið á KWst í 17,9 kr. miðað við framkvæmdakostnað upp á 1.650 ma.kr., en 13,4 kr. miðað við 25% lægri kostnað.

Virkjunarkostir

Loks er rétt að velta fyrir sér hvort mögulegt sé að virkja sem nemur 18.600 GWst á ári til viðbótar við það sem þegar hefur verið virkjað.   Þó ég taki allar virkjanir sem Landsvirkjun telur upp í ársreikningi sínum um virkjunarkosti sem voru til athugunar hjá fyrirtækinu á árinu 2011, þá er samanlögð orkuvinnslugeta þeirra "bara" rétt um 9.200 GWst á ári.  Margar þeirra eru auk þess ýmist mjög umdeildar eða orku frá þeim hefur verið lofað annað.  Sé skýrsla Rammaáætlunar skoðuð, þá sýnist mér að það þurfi 35 virkjanir (tók þær í röð eins og þær eru listaðar í töflu 7.2 sem hefst á bls. 143, þannig að mögulega eru einhverjar tvítaldar) til að ná 18.600 GWst ársframleiðslu.  Samkvæmt þingskjali 1165 um rammaáætlun (þ.e. upprunalega þingskjalið), þá eru 17 af þessum 35 virkjunum settar í nýtingarflokk, 13 settar í biðflokk og 5 í verndarflokk.  Fara þarf því lengra niður listann til að finna aðra virkjunarkosti í stað þessara 18 eða færa þá yfir í nýtingarflokk.

Vissulega eru fleiri kostir, eins og djúpborunarverkefnið.  En það er ekki komið nógu langt til að teljast raunhæfur kostur á næstu árum.


mbl.is Er rafmagnssæstrengur raunhæfur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðan er það fullyrðing út í loftið að "fólk" í evrópu sé tilbúið að borga meira fyrir græna orku.

Verð á vatni og rafmagni til almennings á Íslandi hefur verið að hækka og mun hækka enn meira.

Verði lagður sæstrengur þá mun verðið til neytenda á Íslandi verða að vera það sama og í Bretlandi þetta hefur forstjóri Landsvirkjunar næstum því sagt hreint út.

Grímur (IP-tala skráð) 29.6.2012 kl. 08:46

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þið skinsamir menn, krefjið sæstrengs orkusölumenn um rök fyrir sínu máli og skoðið og samþykkið eða hafnið. 

Það er ástæðulaust fyrir skinsamt fólk að eiða orku og tíma í að skoða svona bull frá A til Ö þar sem það verður aldrei notað nema að fjórðaríkið fá hér völd. 

En þá þarf heldur enga skynsemi þar eftir, svo sem dæmin sanna.

Hrólfur Þ Hraundal, 29.6.2012 kl. 09:20

3 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Bið forláts á að ég hef ekki tölur á takteinum. En, tvennt er það í prinsippinu sem fælir mig frá þessum hugmyndum: Í fyrsta lagi að virkja hér allt sem virkja má, án þess að skapa með því framleiðsluatvinnuvegi hér. Hitt er sú gríðarlega eigandaáhætta sem fylgir því að eiga strenginn.

 Svo miklar virkjanir gætu skapað nokkur þúsund vel launuð störf hér, ef orkan færi í að knýja starfsemi innanlands plús allmargar þúsundir afleiddra starfa, semsagt efnahagslega velsæld. Undarleg árátta að vilja skauta framhjá því.

Sá sem á strenginn þarf að selja rafmagnið frá honum. Ef Íslendingar bæði eiga virkjanirnar (orkuframleiðsluna)  og strenginn verður staða þeirra óhjákvæmilega veikari á hinum erlenda markaði, en staða kaupendanna sterkari í samningum um verð. Þess vegna - ef af lagningu slíks strengs yrði - er mun hagkvæmara og öruggara að eignarhaldið verði á höndum þeirra sem eru við hinn endann - það yrði þá þeirra hagur að bjóða betur til að fá orku í strenginn og frá honum aftur.

Þá er eftir að ræða önnur atriði eins og náttúrurask og ótal fleiri sem ég læt liggja hér. Drep þó á eitt: Þetta yrði að mínu mati of stór biti í einu lagi. Held að heilbrigðara væri að taka eitt og eitt skref í einu og þau smærri og á höndum fleiri og smærri gerenda. Risaprojekt eru ekki sérlega holl og sennilega mjög óholl ef þau eru af stærðargráðunni landsframleiðsla eða stærri.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 29.6.2012 kl. 09:50

4 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þessi hugmynd um Sæstreng er svo vitlaus að engum nema fjármálaspekúlöntum og Landsölumönum dettur í hug að framkvæma hana.

Sigurjón Jónsson, 29.6.2012 kl. 13:28

5 Smámynd: Jón Páll Haraldsson

Stóriðja lagðist af í Noregi þegar undanþága þeirra rann út til að mismuna kaupendum eftir því hvort þeir voru í Noregi eða utan. Einnig hækkaði rafmagn til almennra neytenda af sömu ástæðu.þ.e. að verð til Norskra neytenda mátti ekki vera lægra en t.d. til Sænskra. Ef við leggjum sæstreng til Evrópu þá yrðum við að selja rafmagnið á sama verði til Evrópu og við seljum hér á landi. Þetta er gjörsamlega óskiljanlegt að forstjóri Landsvirkjunar skuli tala um hærra verð fyrir rafmagnið með því að selja það úr landi án þess að hann útskýri afleiðingarnar fyrir núverandi kaupendur. Síðan er það málið um virðisaukann sem hverfur ef við seljum rafmagnið beint úr landinu.

Jón Páll Haraldsson, 29.6.2012 kl. 14:26

6 Smámynd: Tryggvi Helgason

Þessi hugmynd er mjög vanhugsuð. Ef þessi hugmynd kæmi til framkvæmda, þá væri öll framtíð raforkumála ofurseld þessu og frekari uppbygging innanlands til nýtingar raforku, yrði nánast óhugsandi.

Svona fyrirtæki myndi krefjast allrar raforku í landinu, og meira til. Það sjá allir hvernig það dæmi kæmi út. Og hvað ef eitthvað myndi nú bila, - hver er þá ábyrgur fyrir skaðanum, - íslendski bóndinn, íslendski sjómaðurinn, þjóðin öll, ... ???

Og til þess að gera þetta þá þyrfti sennilega rafsteng fyrir einnar til tveggja milljóna volta jafnstraum og tilheyrandi spennuvirki, og hvorugt er til, - að ég best veit, ... og hver ætti svo að borga allt það ?

Það eina af viti í stöðunni fyrir Breta ( og aðrar Evrópu þjóðir), er að setja upp tugi nýrra kjarnorkustöðva. Bandaríkin þyrftu að setja upp 200 nýjar kjarnorkustöðvar, til þess að leysa öll sín raforkumál til framtíðar.

Tryggvi Helgason, 29.6.2012 kl. 16:55

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tek undir. Var spennt fyrir sæstreng en eftir þvísem ég hugsa málið dýpra, er það fráleit hugmynd, alveg snargegguð.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.6.2012 kl. 17:30

8 Smámynd: Kristinn Pétursson

Einangrunarsinninn  kann að vera hættulegastur. 

Það er stutt til Grænlands - ef það finnst á annað borð  tæknilega hagkvæm lausn á orkuflutningi 1000 km+ þá er nóg vannýrr orka á A-Grænlandi og miklu styttra til Íslands þaðan - en til Evrópu...

Það voru líka úrtölumenn þegar síminn var lagður til Íslands með sæstreng 1906

Kristinn Pétursson, 29.6.2012 kl. 21:14

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

málið er núna 2012 að virkja ORKUNA TIL LANDSMANNA ekki útvegsmanna og útvaldra "íslendinga"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.6.2012 kl. 22:59

10 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég held að þetta sæstrengsdæmi geti aldrei gengið upp fjárhagslega.  Ég veit ekki hvað orkuheildsalar í Evrópu, sem væru væntanlega kaupendur orku frá Íslandi, eru reiðubúnir til að greiða fyrir orkuna.  Þessar 17Twh eru eins og dropi í hafið og íslendingar munu ekki hafa neina samningsaðstöðu varðandi verðið.  Samkvæmt http://epp.eurostat.ec.europa.eu/statistics_explained/index.php/Electricity_production_and_supply_statistics þá var raforkunotkun í Evrópu árið 2011 um 3.125 Twh - þessi 17Twh frá Íslandi væru því um 0,5% af orkunotkun álfunnar.  Orkunotkun í Bretlandi var um 410 Twh árið 2005 - fór minnkandi eftir það en ég hef ekki fundið nýlegar tölur.  Ísland gæti því uppfyllt um 4% af markaðinum í Bretlandi. 

Samkvæmt http://www.world-nuclear-news.org/C_EDF_wholesale_electricity_price_set_200411a.html þá var heildsöluverð á rafmagni í Frakklandi ákveðið EUR 42 pr. Mwh frá 1. janúar 2012 til 31. júlí 2012.  Samkvæmt genginu í dag þá eru það 6.664,14 IKR pr. Mwh, eða 6.664.140 IKR pr. Gwh sem mér reiknast til að myndi skila um 113,3 milljörðum króna árlega fyrir 17Twh. Mér sýnist þú reikna með 16 kr/Kwh meðan að mér sýnist að heildsöluverðið í Evrópu (a.m.k. Frakklandi og ég hef grun um að það sé svipað annarsstaðar) sé 6,66 kr/Kwh þannig að fjárhagslega held ég að dæmið sé enn verra en þú færð út. 

Ég er ekki sammála Kristni um að þetta séu úrtölur, þetta er bara einfaldar tölur.  Meðan raforkuverð er ekki hærra, þá sé ég ekki að það sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir útflutningi á raforku.  Til samanburðar má geta að útflutningsverðmæti sjávarafurða var 256 milljarðar 2011 og útflutningsverðmæti áls var um 245 milljarðar.  Það má því leiða að því líkum að með tvöföldun á raforkuframleiðslu mætti fá um 250 milljarða í auknar útflutningstekjur af áli eingöngu.  Raforkuverð í heildsölu þyrfti því að hækka um 60% eða svo til að það væri hagkvæmara að flytja það út heldur en nýta það innanlands til álframleiðslu, sem ég er ekkert endilega viss um að sé hagkvæmasta og arðsamasta nýting á íslenskri raforku. 

Kveðjur,

Arnór Baldvinsson, 30.6.2012 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2023
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband