Leita í fréttum mbl.is

Hvaða fyrirtæki eru góð fyrir Ísland?

Fyrir um mánuði birtist í Tíund Ríkisskattstjóra grein eftir Páll Kolbeins, þar sem hann fjallar um tekjubreytingar á fyrsta áratug aldarinnar.  Samkvæmt upplýsingum Páls þá hækkuðu tekjur einstaklinga um 62% frá 2001 til 2007, þ.e. úr 845 ma.kr. í 1.370 ma.kr., en lækkuðu síðan um 31% frá 2007 til 2010 eða í 945 ma.kr.  Þessar tölur eru á föstu verðlagi miðað við árslok 2010.  Þannig er hægt að reikna út að kaupmáttaraukning hafi numið 11,2% á þessum tíma eða 1% á ári.  Ekki eru allir að njóta hækkunarinnar jafnt og þannig er auðugasta 1% Íslendinga að fá meira í sinn vasa en aðrir.  Taflan hér fyrir neðan sýnir mörk tekjuhópa þessi þrjú ár:

 

2001

2007

2010

Lægstu fjórðungsmörk

1.998.660

2.414.915

1.905.602

Miðgildi

3.841.598

4.580.156

3.687.084

Efstu fjórðungsmörk

>7.267.118

>8.555.502

>6.956.287

Efstu 5%

>13.735.407

>18.004.696

>14.064.148

Efsta 1%

>21.935.357

>41.274.974

>22.485.271

Á þessum tölum sést að þrír fyrstu hóparnir höfðu árið 2010 lægri tekjur á föstu verðlagi en árið 2001, meðan þessu var öfugt farið hjá efstu 5%-unum í tekjuskalanum.  Vissulega eru sveiflurnar meiri hjá efstu 5%-unum, en sýnir kannski að tekjurnar byggðust meira á froðu en raunverulegum verðmætum.

Þrátt fyrir yfirþyrmandi tekjur árið 2007, þá var efst prósentið ekki að borga skatta í samræmi við það.  Norræna skattamódelið hefur gengið út á að þeir tekjuhærri greiði hærra hlutfall tekna sinna í skatt, en þeir tekjulægri.  Í grein Páls kemur fram að árið 2007 var meðalskattbyrðin 18,1% af tekjum.  Eðlilega þá greiddi þeir sem voru með lægri tekjur minni skatta hlutfallslega, en það gerðu líka þeir tekjuhæstu!  Tekjulægstu 40%-in greiddu að jafnaði 13,4% af tekjum sínum í skatta og efsta prósentið greiddi 13,8% af tekju í skatta eða nærri fjórðungi minna en meðalskattgreiðandinn.  Þarna koma áhrif fjármagnstekjuskattsins vel í ljós en hann fór niður úr öllu valdi á þessum árum.

Hvaða tekjur eru bestar fyrir þjóðfélagið?

Þetta leiðir mig að meginþema færslunnar, þ.e. er ein tegund tekna betri fyrir samfélagið en önnur.  Undanfarnar vikur hefur verið höfð uppi í fjölmiðlum umræða eða eigum við að segja áróður um tekjur og arð af sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst út í hött að halda því fram að fyrirtæki sem skili mestum arði til eigenda sinna séu farsælustu fyrirtæki fyrir land og þjóð.  Við sjáum bara hvað gerðist í undanfara hrunsins og afleiðingarnar.  Er ég hræddur um að við þurfum að hugsa þetta alveg upp á nýtt.

Eins og þetta snýr við mér, þá eru þau fyrirtæki best fyrir land og þjóð, sem borga hvað hæst hlutfall af rekstrarkostnaði sínum í laun og stærstan hluta af rekstrarhagnaði í uppbyggingu starfseminnar, en bara hóflegum arð til eigenda sinna.  Nú þarf ekki að fara saman að þessi fyrirtæki skili ekki góðri EBITU, en höfum í huga að EBITAn segir ekki til um hversu góð fyrirtækin eru fyrir þjóðfélagið.  Hún segir til um hversu gott fyrirtækið er fyrir fjárfesta og þar með eigendurna og ef menn vilja líta svo á, hve mikla fjármuni fyrirtæki hafi til innri vaxtar.  Vandinn er að menn hafa hingað til frekar litið til vaxtar í gegn um yfirtökur og hlutabréfakaup í óskyldum rekstri.

Hvort er betra fyrir þjóðfélagið, að milljarðar á milljarða ofan renna í vasa auðugra aðila eða að laun starfsmanna hækki?  Ekki spurning:  Betra er að laun starfsmanna séu góð og tryggi þeim rífalega það sem þeir þurfa til framfærslu.  Hvað er Warren Buffet að græða á því að eiga sand af seðlum?  Jú, ennþá stærri sandhrúgu af seðlum.  En til hvers?  Ekki notar hann seðlana alla, nei, ekki einu sinni brotabrot af þeim.  Warren Buffet er meira að segja farin að átta sig á því, að hann fer ekkert með auð sinn.  Þó hann fengi auðinn út í 1 milljón dollaraseðlum (ef þær væru nú til), þá kæmi hann þeim aldrei ofan í kistuna með sér.

Gleymum ekki, að peningur sem tekin er út úr fyrirtækjum í gegn um arð, fer almennt ekki inn í samneysluna og ekki heldur einkaneysluna.  Hann fer oftar en ekki til fjármálafyrirtækja og annarra fjármagnseigenda.  Síðast en ekki síst þá fer hann inn á bankabækur hinna ofurríku, sem koma ekki nema brotabroti af honum inn í neysluna í samfélaginu.  Þar sem fyrirtæki eru í ríkari mæli rekin með arðgreiðslur til eigenda í huga, þá er í sífellt verið að taka meiri og meiri pening út úr flæðinu sem rennur frá fyrirtækjum til launþega og þaðan aftur til fyrirtækjanna.  Haldi það munstur áfram, þá mun herða ennfrekar að fjárhag hins opinbera sem leiðir til meiri niðurskurðar í velferðarkerfinu.

Svo ég svari spurningunni, sem spurt er að í fyrirsögninni, þá eru þau fyrirtæki best fyrir landið sem greiða hátt hlutfall útgjalda sinna í laun og uppbyggingu fyrirtækisins, en aðeins hóflegan arð til eigenda sinna. Við eigum að koma þeim skilaboðum til fyrirtækjaeigenda/fjárfesta, að þetta séu fyrirtækin sem við viljum sjá hér á landi, þ.e. fyrirtæki sem taka stolt þátt í að viðhalda því velferðarþjóðfélagi sem hér hefur verið við líði.  Þeir sem ekki vilja ganga að þessu, geta bara farið eitthvað annað.

Græðgis- og valdafíkn

Maður þarf ekki að líta langt, til að sjá að auðæfi virka eins og fíkniefni, kallað græðgi.  Þau eru ávanabindandi og það sem verra er, að menn missa mjög oft dómgreind um leið og þeir auðgast.  Nóg er að lesa slúðurfréttir fjölmiðla til að sjá þetta.  Börn ríkafólksins er óþrjótandi uppspretta krassandi slúðurs.  En minna fer fyrir fréttum að ungu efnuðu fólki sem lifir hófsömu og góðu lífi.

Fjármálakreppan hefur einmitt leitt í ljós að græðgisfíknin er ein illskeyttasta fíknin sem mannskepnan glímir við.  Peningamenn um allan heim hugsuðu meira um að ná inn næstu milljóninni en hvaðan milljónin kom eða áhrifin sem hún hafði til framtíðar.  Hér á landi varð til hjörð hýena sem fór með landið eins og veiðilendur og reif í sig allt sem á leið þeirra varð.  Skipti þá engu máli hvort fyrir þeim urðu hinar vinnandi stéttir eða lífeyrisþegar.  Virtust þeir fá mesta fullnægingu að raka seðlunum af fólkinu sem hafði unnið lengst og harðast fyrir eigum sínum, þ.e. kynslóð foreldra sinna eða jafnvel foreldra þeirra.  Fólkð sem hafði búið til það velferðarsamfélag sem Ísland var og gert þeim kleift að menntast og komast í þá stöðu sem þeir voru í.  Og til hvers var þessi rányrkja?  Jú, til þess eins að geta sýnt hagnað og fá meiri völd, því systir græðgisfíknarinnar er valdafíknin og saman eru þær systur það hættulegasta sem mannkynið getur nokkru sinni staðið frammi fyrir að náttúrulegum ofurhamförum undanskyldum.

Breytinga þörf

Ljóst er að græðgi er ekki leið til velferðar.  Búið er að reyna það.  Tekið var það skref eftir hrun að breyta skattlagningu fjármagnstekna, þar með arðs, en fleiri skref þarf að taka.  Eitt er að skattleggja allar tekjur á sama hátt eða því sem næst.  Annað er að breyta reglum um að hægt sé að flytja tekjur úr landi til skattlagningar í hagstæðara skattaumhverfi.  Þriðja er að koma í veg fyrir að fyrirtækin innan sömu fyrirtækjasamsteypunnar, tengd í gegn um eignarhald eða fyrirtækjanet, geti átt viðskipti sín á milli á óeðlilegum kjörum og þannig flutt hagnað frá einu fyrirtæki til annars sem jafnvel er staðsett í skattaskjóli.

Allar tekjur skattlagðar eins

Skoðum það fyrsta.  Hvers vegna á óbreyttur launamaður að greiða allt að 45% af tekjum sínum í skatta, þegar sá sem hefur milljarða í fjármagnstekjur borgar alltaf sama auma hlutfallið?  Þetta er einfaldlega út í hött.  Ekki á að skipta máli fyrir einstakling hvernig tekjur hans eru til komnar, þær eiga að lúta sömu reglum.  Á sama hátt eiga allar tekjur fyrirtækja að lúta sömu reglum, þ.e. ekki á að skipta máli hvernig þær eru til komnar.  Í dag lúta fjármagnstekjur öðrum lögmálum en launatekjur og þó ég hafi reynt mikið til að skilja rökin bak við þetta, þá er ég ekki að ná þeim.  Ekki er það vegna vaxtakjara í landinu, þar sem allir stærstu þiggjendur vaxta hér á landi eru ýmist undanþegnir fjármagnstekjuskatti eða eiga möguleika á að draga fjármagnsgjöld frá tekjunum áður en til skattlagningarinnar kemur.  Þar á ég við lífeyrissjóðina, Íbúðalánasjóð og bankakerfið.

Nú mun einhver æmpta og kveina og segja að ekki gangi að einstaklingar með hundruð milljóna eða milljarða í fjármagnstekjur greiði hátekjuskatt af fjármagnstekjum yfir 704.000 kr. á mánuði, hvað þá að greiða útsvar til sveitarfélaga.  En þannig eru bara reglurnar varðandi aðrar tekjur. Er eitthvað réttlæti í því að tveir einstaklingar sem eru með 704.000 kr. á mánuði borgi misháa upphæð í skatt þar sem annar getur klætt tekjur sínar í búning fjármagnstekna, en hinn er með þær að öllu sem launatekjur?  Launamaðurinn borgar 39,29% skatt af tekjum sínum, en hafi hinn helming tekna sinna sem launatekjur og hitt sem fjármagnstekjur þá verður skatthlutfall hans 29,16%.  Þarna munar rúmlega 71.000 kr. á því hve mikið þessir tveir einstaklingar greiða í skatta eða eigum við að segja hve mikið þeir hafa til ráðstöfunar.  (Þegar búið er að taka tillits til persónuafsláttar, þá breytast prósentutölurnar, en mismunurinn er sá sami.)  Svo má ekki gleyma því að þessi með lægri launatekjurnar gæti átt meiri rétt til bóta en hinn og þannig skekkt myndina enn frekar.  Þessu verður að breyta, þar sem ekkert réttlæti í reglunum eins og þær eru.

Tvísköttunarsamningar

Atriði tvö er frelsi til að flytja tekjur sem arð úr landi svo hægt sé að nýta sér hagstæðara skattaumhverfi annars staðar.  Tvísköttunarsamningar voru fundnir upp svo launamaður (eða lögaðili) með lögheimili í öðru landi en því sem hann hefur sínar tekjur frá þyrfti ekki að greiða skatta bæði þar sem hann fær tekjurnar og þar sem hann er með lögheimili.  Markmið samninganna var ekki að viðkomandi gæti valið að greiða skattinn þar sem hann væri lægri eða sleppa alfarið við að greiða skatt.

Ég hef svo sem ekkert stúderað tvísköttunarsamninga, þannig að ég gæti verið að misskilja þá eitthvað.  Þeir sem ég hef lesið (þá er að finna á vef Stjórnarráðsins) ganga þó út á að viðkomandi launamaður getur valið hvar hann greiðir skattinn.  Í þessu er nákvæmlega engin lógík.  Nær væri að skatturinn væri annað hvort allur greiddur, þar sem launanna er aflað, eða það sem réttlátast er, að ríkin tvö skiptu skatttekjunum á milli sín.  Ef ég er með tekjur í Danmörku, hvers vegna á danska ríkið að fara á mis við skatt af þeim tekjum af því að ég er með heimilisfestu á Íslandi.  (Ekki er nóg að miða við lögheimilisskráningu.)  Sá tvísköttunarsamningur sem leyfir slíkt er einfaldlega rangur.  Á sama hátt, er eitthvert réttlæti í því að fjölskylda sem býr á Íslandi (og ég líka) njóti alls þess sem íslenskt velferðarkerfi býður upp á án þess að fyrirvinnan greiði tekjuskatt eða útsvar til ríkissjóðs og sveitarsjóðs í því sveitarfélagi þar sem fjölskyldunni þó býr.  Sé ég svo lánsamur að vinna í Dubai, þar sem engin tekjuskattur er af launum, þá ætti tvísköttunarsamningurinn samt að tryggja íslenska ríkinu og sveitarfélaginu, þar sem lögheimilið mitt er, eðlilegar tekjur til að mæta þeim kostnaði sem samfélagið hefur af búsetu minni og fjölskyldunnar í landinu.

Skattur af launatekjum er þó ekki stærsta vandamálið.  Nei, það er skattur, eða ætti ég frekar að segja skattleysi, fjármagnstekna sem er vandamálið.  Með því að vera með eignarhaldsfélag skráð í Luxemborg, þá losna menn við að borga skatt af arði, í öðru landi er skatturinn 15% meðan hann er 40% í því þriðja.  Eins og með launatekjurnar, þá er út í hött að upprunaland teknanna fari á mis við skatt af tekjunum vegna þess að einhverjir klókir menn hafa platað stjórnmálamenn til að semja af sér.  Upprunaland fjármagnstekna ætti, að mínu áliti, að eiga ótvíræðan rétt til skattlagningar á þeim fjármagnstekjum sem verða til í landinu.  Tvísköttunarsamningar ættu að tryggja slíkan rétt og möguleika þess, sem fékk tekjurnar, til að draga greiddan skatt í upprunalandinu frá skattkröfu af sömu tekjum í heimalandinu.  Staðreyndin er nefnilega sú að fjármagnstekjur eru mjög oft færðar á milli landa í skjóli tvísköttunarsamninga til þess eins að komast hjá skattgreiðslu.  Gott og blessað, að menn vilji stunda sína starfsemi í landi þar sem skattprósentan er lág, en þá verður það land einnig að skapa tekjurnar.

Aftur held ég að tvísköttunarsamningar eigi að tryggja, að upprunaland fjármagnstekna geti skattlagt fjármagnstekjur að lágmarki upp að helmingi skattprósentu fjármarkstekjuskatts og heimaland þess sem þiggur fjármagnstekjurnar skattleggi þá til helminga á móti.  Nú sé 0% fjármagnstekjuskattur í heimalandinu, þá liggur það í hlutarins eðli, að helmingur fjármagnsteknanna ber ekki fjármagnstekjuskatt.

Tekið skal fram, að hér er eingöngu verið að fjalla um þá stöðu, þar sem tekjur koma frá öðru landi en lögheimilið er.  Þegar heimilisfestan er í sama landi og tekjur koma frá, þá er gilda einfaldlega reglur þess lands.

Tilfærsla hagnaðar með sýndarviðskiptum

Þriðji þátturinn í þessu varðar skrípaleikinn sem settur hefur verið allt of víða á svið til að færa skattalegar tekjur frá einum hluta fjölþjóðlegs fyrirtækis, tengdra aðila eða neti fyrirtækja til annars sem statt er í landi þar sem skattar eru lægri (og helst engir).  Þannig tíðkast það, að gera fyrirtæki í háskattalandi himinnháa ráðgjafareikninga frá fyrirtæki í skattaskjóli og þannig er búinn til rekstrarkostnaður sem lækkar hagnað fyrra fyrirtækisins, en eykur rekstrartekjur þess síðara.  Niðurstaðan er að komist er hjá því að greiða skatta í báðum löndunum.  Flett hefur verið ofan af svona viðskiptaháttum í bananaviðskiptum, þar sem Ermasundseyjarnar eru notaðar til að skjóta gríðarlega miklum tekjum undan skatti.  Enron og WorldCom málin voru bæði skólabókardæmi um svona skattaundanskot.  Tekið skal fram að samkvæmt núverandi lögum í mörgum löndum heims, þá er teljast þetta löglegir viðskiptahættir, en gjörsamlega siðlausir.

Hvað þetta atriði varðar þarf að breyta skattalögum, þannig að þjónustuviðskipti milli fyrirtækja innan sömu samsteypu teljast ekki frádráttarbær frá skatti hjá því fyrirtæki sem greiðir fyrir þjónustuna eða a.m.k. að þak verði sett á hve háan hluta rekstrarkostnaðar megi rekja til þjónustuviðskipta við tengda aðila í fjarlægum löndum.  Stundum eru "ráðgjafarnir" ekki einu sinni staðsettir í hinu "fjarlæga" landi, heldur falla þeir bara bókhaldslega undir það þó þeir sitji á skrifstofu hjá greiðanda reikningsins, svo aftur sé vitnað í hina furðulegu viðskiptahætti bananafyrirtækja. Vissulega er auðvelt að komast framhjá þessu með því að opna pósthólf á Guernsey og telja það óskyldan aðila, en til að koma í veg fyrir slíkt yrði greiðandi slíks reiknings að sækja sérstaklega um til skattayfirvalda að þjónustureikningarnir teldust til útgjalda sem væru skattaleg rekstrargjöld.

Einhver heldur líklegast að ég sé að leggja til óhemju þungt skriffinnsku bákn.  Svo er alls ekki.  Ég er að leggja til heiðarleika í viðskiptum, því skriffinnskan verður eingöngu ofan á, þegar menn reyna undanbrögðin.

Fjölþjóðafyrirtæki með kverkatak á þjóðum heims

Fjármálahrunið hefur dregið huluna af því hvernig fjölþjóðafyrirtæki, flest á sviði bankastarfsemi, vogunarsjóðir og ofurstórir fjárfestingasjóðir eru í því að koma fjármagni undan réttmætri skattheimtu ríkja heims.  Lengi vel hélt ég að það væru ríki Afríku og rómönsku Ameríku sem væru að koma verst út úr þessu, en þegar dýpra er grafið, þá eru það líklegast Bandaríkin og ríki Vestur-Evrópu sem eru að koma verst út.  Svindlið og spillingin er orðin svo djúpstæð að mafíósar myndu ekki einu sinni láta sér detta í hug að vera svona óheiðarlegir.  Þeirra markmið hefur alla tíð verið að koma illa fengnu fé í umferð svo það yrði lögmætt, en þeir sem stjórna löglegu fyrirtækjunum, þeirra markmið er að koma öllum tekjum undan skatti.  (Ótrúlegt að þetta sé lögleg starfsemi.)

Meðan skattareglur ganga út á að ívilna fjármagnstekjum umfram launatekjur, þá mun þetta ástand vara við.  Meðan ofurríkir eigendur fjölþjóðlegra fyrirtækja geta flutt hagnað þeirra á milli landa til að komast hjá því að greiða skatta, þá mun þetta ekki breytast.  Því miður eru horfur á breytingum ekki góðar í bili, þar sem hinir ofurríku fjármagnseigendur munu nota peningana sína til að sveigja lausnir að sínum þörfum.  Þeir munu berjast hatramlega gegn öllum tilburðum ríkisstjórna heims til að gera kerfið réttlátara.  Ég heldu aftur að fljótlega muni rofa til, þar sem Occupy hreyfingunni hefur tekist að vekja almenning á Vesturlöndum til meðvitundar um óréttlætið og nú hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt til að hinir ofurríku verði skattlagðir sérstaklega.

Áður en þetta skánar munum við þó sjá fjölþjóðleg fyrirtæki reyna alls konar brögð til að ná sínu fram.  Kúganir á borð við að flytja höfuðstöðvar á milli borgarhluta verða barnaleikur einn, en vonandi sjá menn að sér og leyfa breytingunum að ganga í gegn.  Hinn kosturinn er að Róm brenni og keisarinn missi allt sitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 "Síðast en ekki síst þá fer hann inn á bankabækur hinna ofurríku, sem koma ekki nema brotabroti af honum inn í neysluna í samfélaginu."

Þarna væri snilldarráð að hafa vextina lága.  (Sjá t.d. hugmyndir Ólafs M. ,hvernig)Með því er fjármagnið rekið út af bankabókunum og í umferð.  Latt fjármagn.    Um leið þarf að reka þjóðarbúið af þeirri ábyrgð að verðbólga rýri ekki fé fólks. Ætti að vera auðveldara með réttlátara skattkerfi.  Fyrir verðtrygginguna þá töpuðu menn á því að spara og fjárfestu frekar í vitleysu en eftir að hún var tekinn upp þá magnaðist hér smámsaman upp sú villutrú að fjármagnið gæti ávaxtað sig sjálft og til varð arðsemisbóla sem sleit sig úr sambandi við raunveruleikann.  Slíkt endar alltaf með kreppu. Græðgin sem þú nefnir hefur alltaf verið til staðar en þetta dekur við fjármagnið hefur gefið henni byr undir báða vængi.              Þrátt fyrir okkar sérstöku verðtryggingu þá er þetta dekur þó greinilega ekki séríslenskt fyrirbæri og meðan ekkert lagast í okkar nánustu viðskiftalöndum þá er líklega lítið hægt að gera hér það sakar þó ekki að reyna.  Góð grein Marínó.

ps. ef farið yrði að þessum hugmyndum um sköttun þá held ég að engin þörf væri á sérstökum auðlindaskatti í sjávarútvegnum eða annarsstaðar.  Eign þjóðarinnar yfir auðlidinni væri nógsamlega virkjuð í gegn um skattkerfið.   

ps2 Efstu 5% hafa bætt stöðu sína frá 2001 þrátt fyrir hrun meðan hin 95% hafa tapað á öllum bægslaganginum.  Ef þessi efstu 5% eru með völdin er þá nokkur von um kerfisbreytingu?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 09:42

2 identicon

Góð grein Marinó! Í desember á síðasta ári lagði ég fram tillögu á þingi um hátekjuskatt á tekjur yfir 1.200 þúsund sem var kolfelld af m.a. þingmönnum sem tilheyra Samfylkingunni  - Jafnaðarmannaflokki Íslands og VG. Ég vildi tryggja að þeir tekjuhæstu greiddu hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en lágtekju- og millitekjuhópurinn. Það sem kom mér mest á óvart var andstaða millitekjuhópsins við að taka upp hátekjuskattinn.

Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 52
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 360
  • Frá upphafi: 1680498

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband