Leita í fréttum mbl.is

Lagt til að 26 atriði fari fyrir dóm, en ekki það mikilvægasta

Ég hef loksins komist í gegn um álitsgerð lögmannanna fjögurra um þau álitamál sem bera þarf undir dómstóla um áður gengistryggð lán.  Búið er að bíða lengi eftir þessu áliti og það segir okkur í stuttu máli að við þurfum að bíða lengur.

Í álitsgerðinni eru talin upp 26 atriði sem lögfræðingarnir fjórir telja að fá þurfi á hreint áður en hægt er að fara í endurútreikning áður gengistryggðra lána.  Ég hef tvennt við þetta að athuga:

1.  Fjármálafyrirtækin eru þegar búin að afskrifa í bókum sínum háar upphæðir vegna dómsins frá 15. febrúar 2012.  Þetta var fært til afskriftar á árinu 2011!  Hvernig, í fyrsta lagi, geta bankarnir yfirhöfuð vitað hver þessi tala er, þegar reka þarf allt að 26 sjálfstæð mál til að finna út hvernig á að endurreikna lánin, og í öðru lagi, hvernig geta þeir fært eitthvað sem afskriftir árið 2011, sem ekki er ljóst fyrr en í fyrsta lagi síðla árs 2012 og jafnvel mun síðar, hvernig endar?

2.  Hvers vegna er ekki spurt um gildi þess að Seðlabankavextir eigi yfir höfuð að gilda?  Ég hef nokkrum sinnum fært rök fyrir því að Hæstiréttur hafi í máli nr. 471/2010 verið leiddur að rangri niðurstöðu.  Að niðurstaðan um Seðlabankavexti hafi verið í andstöðu við lögin sem rétturinn dæmdi eftir.  Þá er ég að vísa til þess að 3. og 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 gilda þá aðeins að ekki sé kveðið á um annað í samningum, venjum eða lögum.  Staðreyndin er sú að samningarnir kveða á um vextina, venjan er að greiða vexti sem eru með álag ofan á fjármögnunarvexti og lagaákvæðin eru  nokkur sem fjalla um rétt neytenda.

Mér finnst atriði 2 vera mikilvægasta ágreiningsefnið sem skera þarf úr um.  Þ.e. var niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 röng.  Meðan úr því hefur ekki fengist skorið, þá skiptir niðurstaðan varðandi fjölmörg af þessum 26 atriðum engu máli.

Atriðin sem skoða þarf að mati lögfræðinganna

Mörg af þeim atriðum sem lagt er til að séu skoðuð er sparðatíningur.  Greinilegt er að fjármálafyrirtækin ætla ekki að nota heilbrigða skynsemi á nokkurn skapaðan hlut heldur skal allt fara fyrir dóm.  Gott og blessað, látið reyna á þetta allt.

En hér eru atriði eins og ég skil þau:

  1. Hvenær hætti skuldari að vera í góðri trú um að samningsvextir giltu.
  2. Hvort á að greiða samningsvexti af íslenskum höfuðstóli eða gengistryggðum höfuðstóli.
  3. Hefur neytendavernd verið borin til grafar eða virkar hún enn í íslenskum lögum.
  4. Hvenær telst skuldari í skilum, þegar hann hefur nýtt sér úrræði fjármálafyrirtækis.
  5. Telst það fullnaðarkvittun ef vöxtum hefur verið bætt á höfuðstólinn.  (Bara lögfræðingum fjármálafyrirtækja dettur í hug að svo sé ekki.)
  6. Eiga kúlulánþegar annan og minni rétt en aðrir.
  7. Breytist réttarstaða skuldara hafi hann lent tímabundið í vanskilum en síðan gert allt upp.
  8. Gilda ákvæði laga nr. 151/2010 um vanskil og ýmislget fleira.
  9. Þarf að eltast við upphæð hverrar einustu höfuðstólsgreiðslu og gera samanburð milli gengistryggðrar raungreiðslu og reiknaðrar greiðslu ógengistryggðs láns.
  10. Hvernig skal fara með lán sem voru í vanskilum áður en þau voru endurútreiknuð skv. lögum nr. 151/2010.
  11. Fordæmisáhrif fyrir lögaðila.
  12. Voru einhverjir skuldarar sem ekki misskildu að samningsvextir ættu ekki að gilda.  (Mönnum datt sem sagt í hug að einhverjir lántakar vissu fyrirfram að vextir lánanna sem þeir tóku væru lögleysa.)
  13. Gæti einhver kröfuhafi átt meiri rétt en aðrir vegna mismunandi lánstíma.
  14. Skiptir máli hver trygging lánsins var.
  15. Virka viðbótarhöfuðstólsgreiðslur eins og skuldarar reiknuðu með.
  16. Eru neytendur alltaf minnimáttar í kröfusambandinu.
  17. Eiga allir sem greitt hafa lánin upp endurheimturétt.
  18. Hvað með þegar greiddir samningsvextir eru hærri en reiknaðir vextir SÍ.  (Ég tel þetta atriði vera kýrskýrt miðað við að niðurstaða dóms nr. 471/2010 standist.  Reikna skal tvær vaxtalínur (önnur er raunveruleg) og á hverju gjalddaga gilda lægri vextirnir.)
  19. Möguleiki á skuldajöfnun inn á nýjan samning um upprunalega lánið/endurfjármögnun þess.
  20. Hvað á að gera við ofgreiddar höfuðstólsgreiðslur.
  21. Endurheimturréttur þegar Drómi á í hlut.
  22. Gilda ákvæði 12.gr. vaxtalaga um að eingöngu megi vaxtavaxtareikna ef meira en 12 mánuðir eru milli gjalddaga.
  23. Hvaða fyrningarsjónarmið gilda
  24. Hvað með réttmætar væntingar.  (Ég tel Hæstarétt svara þessu mjög greinilega í dómi 600/2011.  Fjármálafyrirtækið skal bera hallann á þessu.)
  25. Áhrif dóms 600/2011 á lög nr. 151/2010 um meðhöndlun dráttarvaxta og rétt til skuldajöfnunar.  (Hluta til sama spurning og áður.)
  26. Gildi endurútreiknings á innheimtu, ef hann leiðir til hærri eftirstöðva en upphafleg lánsfjárhæð.  (Um hvað snýst þetta eiginlega?  Endurútreikningur samkvæmt niðurstöðu dómsmála getur auðveldlega endað í hærri tölu en upphafleg lánsfjárhæð af mjög mörgum gjörsamlega skiljanlegum ástæðum.)

Í kafla IV er síðan fjallað nánar um málsástæður.

Hér eru 26 atriði og samt vantar.  Ég veit um minnst tvö, þ.e. þetta sem ég nefndi í upphafi og síðan um gildi gömlu 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 fyrir setningu laga nr. 151/2010.  Hún hljómaði nefnilega á annan hátt og gerði hreinlega ráð fyrir að ekki mætti vaxtareikna vangreiðslur, þ.e. skuldari átti aldrei að greiða lánveitanda vexti vegna rangrar greiðslu sem þó var í samræmi við það sem var rukkað.  Sú krafa var eingöngu á lánveitanda vegna ofgreiðslu.

Nokkrar áhugaverðar hártoganir

Greinilegt er á næsta atriði sem ég ætla að fjalla um, að fjármálafyrirtækin sendu inn til athugunar alls konar hártoganir.  

  1. Í hvaða röð á að ráðstafa greiðslu, þ.e. fyrst inn á vextina eða til lækkunar höfuðstóli.  (Ég hélt að greiðslutilkynning greindi mjög skýrt frá því hvort er hvað og því út í hött að breyta því .)
  2. Verða eftirstöðvar einungis leiðréttar til framtíðar. - Hæstiréttur er mjög skýr um þetta:    "Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar."
  3. Er gengistryggði hluti greiðslu ígildi verðbóta.  - Er ekki í lagi með ykkur?
  4. Er fullnaðarkvittun vaxta fullnaðarkvittun.  - Mikið geta menn teygt sig langt í að snúa út úr.  Meðan greiddir vextir eru lægri en reiknaðir SÍ vextir fyrir gjalddaganna, þá verður neytandinn ekki krafinn um hærri upphæð.  Sé hún hærri, þá á hann endurkröfurétt.

Framkvæmd endurútreiknings miðað við dóm 600/2011

Ég tel einfaldast og réttast að framkvæma endurútreikning þannig að á hverjum gjalddaga eru aðrar greiðslur en vextir dregnir frá eftirstöðvum höfuðstóls (sbr. ákvæði laga 151/2010).  Nýjar eftirstöðvar eru því eldri eftirstöðvar mínus mismunurinn á heildargreiðslu og vöxtum samkvæmt greiðslutilkynningu (og hugsanlega tilkynningargjaldi).  Á hverjum gjalddaga eru reiknaðir vextir samkvæmt vaxtatöflu SÍ fyrir viðkomandi gjalddaga miðað við eftirstöðvar fyrir greiðslu á ógengistryggðu láni.  Jafnframt er tilgreind vaxtaupphæð sem kom fram á greiðslutilkynningu.  Lægri vaxtatalan gildir alltaf fyrir hvern gjalddaga.  Þetta gildir þar til kemur að þeim gjalddaga, þegar SÍ vextir gilda sannanlega.  Eftir það gilda SÍ vextir.

Í nokkrum tilfellum mun það gerast að SÍ vextir á ógengistryggðan höfuðstól eru lægri en samningsvextir á gengistryggðan höfuðstól.  Í þeim tilfellum skal mismunurinn dagvaxtareiknaður til uppgjörsdags og uppsöfnuð upphæð allra slíkra tilfella dregin frá eftirstöðvum.

Vissulega eru einhverjir sem vilja reikna samningsvexti af ógengistryggðri upphæð. Dómur 600/2011 gefur ekki tilefni til slíks, þar sem hann segir að SÍ vextir eigi að gilda frá útgáfudegi, en þó megi ekki rukka lántaka um hærri vexti aftur í tímann en hann greiddi í samræmi við útgefnar greiðslutilkynningar.


mbl.is Bíða þarf niðurstöðu fleiri dóma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Sæll Marinó, ert þú búinn að skoða þetta út frá lögfræðiáliti Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem neytendaréttur og EES tilskipanir um neytendarétt eru meðal annars hugsuð út frá dómi 600/2011. http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=140&malnr=716&dbnr=2089&nefnd=am 

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 10.5.2012 kl. 00:41

2 identicon

Sæll.

Þessi "skýrsla" er upptalning á atriðum sem "flækjufætur" fjármálafyrirtækjana´ætla að nota til að tefja uppgjörin, lögfræðingarnir taka skýrt fram að ekki sé gerð nein tilraun til að meta hvort það standi stein yfir steini í upptalningunni..

Nákvæmlega eins og einhver "snillingur" fann út að endurreikna ætti vexti afturvirkt eftir fyrri dóma, Hlut sem engin lögfræðingur sem ekki var á spena fjármálafyrirtækis datt í hug að væri löglegt.

Ef það væri fulltrúi neytenda í samstarfshópnum eru aðeins ein rök sem ættu að heyrast í honum "borga og borga strax" það er búið að dæma gengistryggðu lánin ólögleg eins og hefur verið hefur í lögum frá 2001 og Fjármálafyrirtækjunum hefur alltaf verið ljóst. Þau brutu lögin viljandi og nú þegar upp um þau komst eiga þau einfaldlega að hafa manndóm í sér að gera upp við þá sem brotið var á án frekari flækjustigs.

Það ætti ekki að líta ´samtök fjármálafyrirtækja viðlits meðan þar eru en í vinnu sömu menn og hönnuðu lögbrotið í upphfi. Þeir eru ekki traustsins verðir.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 07:26

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Villi, nei, ég hef ekki gert það, en lögfræðingahópurinn gefur það í skyn með því að vitna strax í álit HH.  Ég sé aftur sé aftur frekar fá merki þess, þó betra sé að spyrja Magnús og co. að því.

Marinó G. Njálsson, 10.5.2012 kl. 07:53

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hefur það einhverntímann gerst í íslenskri réttarfarssögu að sá sem er dæmdur sekur í Hæstarétti, hafi komist upp með að neita að framfylgja dómnum? Af þeirri ástæðu að hann telji dóminn vera rangann og skapi "réttarfarsóvissu"?

Hefur það einhverntíman gerst í íslenskri réttarfarssögu að því hafi ekki verið fylgt eftir að dómi Hæstaréttar sé framfylgt?

Eru fjármálafyrirtækin kannski utan hins íslenska réttarkerfis?

Þegar dómur fellur í Hæstarétti er eðli málsins samkvæmt alltaf annar aðilinn óánægðari en hinn. En hingað til hafa þeir dómar verið endanlegir og aðilum gert að uppfylla þá. Sá sem telur sig vera rangindum beyttan fyrir Hæstarétti getur síðan reynt að leggja önnur mál fyrir dóminn e'a áfríjað honum til erlendra dómstóla, en á meðan gildir auðvita sá dómur sem fallið hefur.

Nú ber svo við að fjármálafyrirtækin, sem hafa nú fengið á sig nokkra dóma réttarins, vilja fá eins og 26 stk. í viðbót! Þeir taka niðurstöðu dómsins og teigja hann og toga á alla kannta og segjast svo ekki geta farið eftir henni!!

Mér er sem ég sæi einhvern annan komast upp með slíka framkomu gagnvart dómnum!

Svo er hitt, það hefur enginn verið dreginn til persónlegrar ábyrgðar. Enn eru sömu menn við völd í þessum fyrirtækjum og þar voru þegar brot voru framin. Það er eins og fjármálafyrirtækið sé sjálfstæð hugsandi persóna. Að stjórnendur þeirra séu bara upp á punt!

Það verður að sejast að það eru ágæt laun sem þeir fá, fyrir ekki neitt!!

Gunnar Heiðarsson, 10.5.2012 kl. 09:49

5 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Það er rétt að hafa það í huga að bankarnir bjuggu til erlendar eignir úr engu með því að lána gengistryggðu lánin. Þetta var partur af því að falsa efnahagsreikninga þeirra.

Alveg eins og hlutabréfa falsið, lána mönnum 100% til að kaupa bréf í bankanum. Og segja svo að eigið fé bankans hefði aukist. Þegar það jókst ekki neitt heldur rýrnaði gríðarlega, því á móti gátu bankarnir lánað til vina sinna 10 sinnum svokallaða hlutafjáraukningu.

Þetta var allt eitt stórt svindl og ber að meðhöndla sem slíkt.

Sigurjón Jónsson, 10.5.2012 kl. 10:26

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég hjó eftir því núna í hádegisfréttum RUV, að fjármálafyritækin telja mestu skipt hvenær einhver telst í skilum.

Hvað kemur það málinu við? Lánin eru dæmd ólögleg og skiptir þá engu hvort viðkomandi er í skilum. Það verður ekki löglegt við það að einhver fer í vanskil!!

Lánið á að endurreikna, burtséð frá því hvort lánið er í skilum eða ekki, eða hvort lántaki hafi fengið einhverskonar fyrirgreiðslu. Ef einhver er í vanskilum á að reikna það síðan sérstaklega og eins ef einhver hefur fengið einhverskonar fyrirgreiðslu. Það er bara allt annað og ótengt mál og kemur ekkert því við að lánin voru ólögleg!

Það er með ólíkindum hversu langt fjármálafyrirtækin geta gengið og ljóst að þeim hefur tekist að vefja fulltrúa skuldara um fingur sér!!

Gunnar Heiðarsson, 10.5.2012 kl. 12:36

7 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Tek undir þetta hjá þér Sigurjón. Þessi lán voru búin til úr engu og voru notuð til þess að fá erlenda fyrirgreiðslu erlendra banka.

Þetta var einungis "skam" hjá bönkunum til að belgja út lánafyrirgreiðslu sína. 

Þessi gjaldeyrislán voru / eru ekki  inni í efnahagsreikningi bankanna.

Því á að fella þau niður á neytendur alfarið.

Eggert Guðmundsson, 10.5.2012 kl. 12:45

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, voru þá erlendar skuldir bankanna, þessir þúsundir milljarða ef ekki tugþúsndir, bara þá feik. CGI eða?

Bullið alltaf í þjóðrembingsöfgamönnum tekur enga tali og vitleysan sem fylgir.

Almennt um efnið á verður auðvitað farið með þetta fyrir EFTA Dómsstól, þ.e. hvort ekki hafi átta bara greiða af höfuðstól ógengistryggðum og erlenda vexti.

það mun taka fjölda ára. þangað til verðu þessi sama hringavitleysa. Alveg fyrirséð.

EFTA dómsstóll mun sennilega hafna þessu uppleggi. Sennilega.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.5.2012 kl. 13:22

9 identicon

Lanin voru upphaflega ologleg og væri edlilegast ad breyta lanunum thann dag sem er dæmt og thu tekur gengisahættuna og lanin færd yfir i islensk med islenskum vøxtum , ekki breytt aftur timann . Bara svona "common sense" eda ....

Er ekki forsendubrestur hja theim sem toku hrein islensk lan. 1000 miljardar inn hagkerfid,verdbolgan,bolan i hlutabrefakerfinu og eignamarkadnum ....algjor forsendubrestur fyrir hina islensku lantekendur sem toku thessi lan. Kerfisahættan gifurleg ...

Hvad  med allt bankalidid sem var ad greida ser hagnad sem vard til vegna innspytingu "vegna 1000 milljarda inn i hagkerfid"

Their sem eru tapara i thessu eru their sem toku verdtryggd islensk lan, verdbolguskellurinn ( vegna 1000 miljarda) osv ...

En hvad med sækja tha til saka sem urdu thess valdandi ad thessi lan voru veitt ? Thetta hafa raskad gridarlega i hinu litla islenska hagkerfi. Engin vafi a gridarlegri eignafærslu sem thetta hefur orsakad og their sem veittu thessi lan hafa fengid himinhaa bonusa sem var ekkert annad en loft undir grodanum....

Kvedja flottamadur fra Rugludalalandi.....

Helgi (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 19:26

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

@ Ómar Bjarki: Já, voru þá erlendar skuldir bankanna, þessir þúsundir milljarða ef ekki tugþúsndir, bara þá feik.

Nei skuldir bankana voru ekkert feik heldur alvöru gjaldeyrir sem þeir tóku að láni frá erlendum aðilum og þeim tókst annaðhvort að tapa eða fela á Karíbahafseyjum eða bæði. Hinsvegar voru það tryggingarnar sem þeir lögðu fram gegn þessum lánum sem voru feik, það er að segja gjaldeyrisjöfnuður sem var sagður jákvæður og talinn þannig fram í opinberum hagtölum en í var í raun að miklu leyti samansettur úr gengistryggðum lánum í íslenskum krónum til íslenskra aðila sem þar að auki voru ólögleg (af nákvæmlega þessari ástæðu).

Þetta er betur útskýrt hér: Stórfelld fölsun þjóðhagsreikninga

And here's the CGI (part of it):

Eins og sést þá er sú uppgötvun að þessari "eignir" hafi "gufað upp" (vegna þess að þær voru aldrei til staðar) og bankahrunið nokkurnveginn sami atburður í opinberum hagtölum. 

@ Marinó lýsir samskonar einkennum af þessu bulli ágætlega:

1. Fjármálafyrirtækin eru þegar búin að afskrifa í bókum sínum háar upphæðir vegna dómsins frá 15. febrúar 2012. Þetta var fært til afskriftar á árinu 2011! Hvernig, í fyrsta lagi, geta bankarnir yfirhöfuð vitað hver þessi tala er, þegar reka þarf allt að 26 sjálfstæð mál til að finna út hvernig á að endurreikna lánin, og í öðru lagi, hvernig geta þeir fært eitthvað sem afskriftir árið 2011, sem ekki er ljóst fyrr en í fyrsta lagi síðla árs 2012 og jafnvel mun síðar, hvernig endar?

Með öðrum orðum, þá er ekki nokkur leið fyrir bankana að vita hver eiginfjárstaða sín er miðað við þessar upplýsingar, þó auðvitað viti þeir það eflaust en vilja bara ekki segja frá því heldur halda áfram að reyna að "hámarka endurheimtur" eins og hægt er.

Í millitíðinni höfum við engar upplýsingar við að styðjast nema það sem þáverandi forstjóri Gunnar Þ. Anderssen skrifar í formála ársskýrslu Fjármálaeftirlitssins 2011 varðandi tilmælin um seðlabankavextina:

Tilmæli þessi voru talsvert gagnrýnd þegar þau komu fram en reyndust í góðu samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar [471/2010] sem féll nokkru síðar. Hefði dómurinn fallið á þann veg að gengistryggð lán væru með öllu óheimil og að endurútreikningurinn byggði á erlendum vöxtum hefði það ógnað fjármálastöðug-leikanum og höggið á fjármálafyrirtækin hefði orðið allt að 350 milljarðar.

Með öðrum orðum, þá þýða samningsvextir 350 milljarða "högg" á fjármálafyrirtækin eða nóg til að þurrka út allt eigið fé þeirra og gott betur, velkomin í bankahrun II. Sem útskýrir margt um atburðarásina sumarið 2010 eftir á að hyggja og taugatitringinn sem hefur ríkt um fjármálakerfið síðan þá. Sannleikurinn er nefninlega sá að við erum í raun stödd í sambærilegu ástandi við vorið 2008 með hrun yfirvofandi og núverandi stjórnvöld virðast nákvæmlega jafn grunlaus (eða dugleg að þegja yfir því) og forverar þeirra.

Ég er nefninlega ekki sammála því að dómur 471/2010 hafi endilega rangur heldur hafi hugsanlega málatilbúnaðurinn verið rangur. Nú hef ég ekki kynnt mér efni dómsins með hliðsjón af því hvort í honum reyndi á lög um neytendasamninga, en mér skilst að svo hafi ekki verið. Ég þekki hinsvegar ágætlega þá uppfinningu sem með honum var skjalfest og er kölluð "órjúfanlegt samband vaxta og verðtryggingar".

Með því að taka þessa dóma alla bókstaflega er hægt að búa til raðspil úr þessu sem meikar alls ekkert sens, nema fyrr en þú hefur séð alla heildarmyndina. Ég tel nefninlega að dómur 471/2010 kunni að eiga eftir að reynast dulin blessun, því raðspilið er svona og það myndi ekki ganga upp án hans:

1. Bílalánadómarnir frá júní 2010: vaxtalög: gengistrygging dæmd ógild og þar með staðfest að slíkir samningar innihalda ólögmæt samningsákvæði, um annað gætir enn óvissu.

2. Dómur 471/2010: órjúfanlegt samband vaxta og verðtryggingar fundið upp og vextirnir þar með dæmdir ógildir líka, og aftur vaxtalög: þar sem samningur tilgreinir ekki lengur vexti skuli miða við seðlankavexti. Fleira var hugsanlega ekki hægt að dæma ef málatilbúnaðurinn bauð ekki upp á annað (t.d. neytendavernd) og um það gætir því enn talsverðrar óvissu, þrátt fyrir að bankarnir hafi verið fljótir að stökkva á þessa varnarlínu og hampa henni sem niðurstöðu.

3. Dómur 600/2011: almennur samningaréttur, fullnaðargildi kvittana: ekki má hnika vöxtum á gjalddögum sem þegar hafa verið greiddir í góðri trú. Um nákvæma úrlausn þess og sértæka endurútreikninga hefur ekki reynt á til hlítar að öðru leyti.

4. Mál sem á eftir að koma fyrir dóm: byggt á fordæmi dóms 471/2010 um "órjúfanlega" ógildingu gengistryggingar og vaxta, að viðbættum neytendarétti m.a. skv. 36. gr. samningalaga: samningur sem er án vaxta og verðtryggingar en sem er hægt að efna að öðru leyti skal gilda geri neytandi kröfu um það. Almennt má búast við að allir neytendur krefjist þess og þá eru lánin vaxtalaus!

5. Mál sem á líka eftir að koma fyrir dóm: lántakandi sem hefur fengið lán sitt uppreiknað án vaxta og verðtryggingar höfðar mál til endurkröfu þeirra fjárhæðar sem ofteknar höfðu verið á hverjum gjalddaga og ber fyrir sig vaxtalögum: endurkrafa lántakandans skal bera seðlabankavexti, sem leggjast á höfuðstól inneignar hans hjá lánastofnuninni eftir hvert 12 mánaða tímabil sem þeir hafa ekki verið til ráðstöfunar gegn lögmætri innheimtukröfu lánastofnunar á hverjum gjalddaga eftir lántakandi hætti að greiða af því.

6. Lánastofnun áfrýjar máli í tölulið 5. og gerir kröfu um skuldajöfnun. Samningalög og mannréttindaákvæði stjórnarskrár: eftirstöðvum á hverjum tíma í áðurgreindu samningssambandi skuli í endurútreikningi ráðstafað til skuldajöfnunar á hvorn veg sem er milli samningsaðila eftir því hvor á inneign hjá hinum á hverjum tíma. (Tvíhliða hlaupareikningur með sömu vexti á bæði plús og mínusstöðu.) Éftirstöðvar samkvæmt þeim reikningi skuldajafnist til að mynda raunverulegar eftirstöðvar dagsins í dag og kröfuhafa sé ekki heimilt að innheimta samninginn umfram þær forsendur (og án vaxta og verðtryggingar).

7. Neytandi sem hefur þegar ofgreitt umfram lögmæta fullnaðarkröfu á hendur sér höfðar endurheimtumál gegn lánastofnun og gerir kröfu um dráttarvexti frá þeim degi er hann hafði í reynd fullgreitt lánið upp miðað við útreikning skv. tölulið 6. Bankarnir þurfa að reiða af hendi stórar fjárhæðir í reiðufé til neytenda (ígildi "mini" bankaáhlaups).

8. Mál sem á enn eftir að koma fyrir dóm: neytandi (eða heildarsamtök þeirra;) höfða mál gegn lánastofnun til kröfu skaðabóta vegna þess tjóns sem ótímabær innheimta tilhæfulausra krafna hefur valdið.

Eins og sjá má er enn langt í land. En landið er fagurt.

Og svo er auðvitað almenna verðtryggingin alveg eftir líka...

Guðmundur Ásgeirsson, 10.5.2012 kl. 22:21

11 Smámynd: Kristján Bjarni Guðmundsson

Þarf ekki að fara að senda hæstaréttadómara í endurmenntun, svo þeir geti komið frá sér almennilegum dómaniðurstöðum sem eru ekki svo gríðarlega óljósar að enginn virðist skilja hver niðurstaðan er.

Kristján Bjarni Guðmundsson, 11.5.2012 kl. 15:09

12 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég ætla fá að halda fram því sjónarmiði mínu hér að hvað öll bílalán varðar eigi aðilar að sættast á að gera þau upp miðað við upphaflega greiðsluáætlun. Þar kemur fram hvað lánið átti að kosta og neytendur samþykktu þá tölu með undirritun sinni á samning. Þeir eiga ekki að greiða krónu meira en þar kemur fram enda er slík innheimta gagnstæð neytendarétti samninga- og neytendalánslaga, þegar samningi er breytt eftir á neytanda í óhag, en einnig meginreglu Evrópuréttar um upplýsingagjöf til neytenda við gerð lánasamninga þar sem gefa á upp hvað lán á að kosta. Þar eiga lögaðilar einnig að sitja við sama borð, sem og uppgreiddir samningar, þ.e. ef hallað hafi á neytandann og hann greitt umfram greiðsluáætlun skal endurgreiða slíkar ofgreiðslur með vöxtum samanber vaxtalög. Fjármögnunarfyrirtækin eiga ekki að fá bætur hafi þau innheimt of lágan lántökukostnað og gert samninginn upp þannig enda eru þau sterkari aðilinn í samningssambandinu og eiga að vita betur.

Eftir standa þá fasteignalán sem hugsanlega eru flóknari viðfangs en ég ætla ekki að tjá mig um uppgjör á þeim þar sem ég hef ekki sett mig inn í slíkt uppgjör.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.5.2012 kl. 14:12

13 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það voru gerðar greiðsluáætlanir fyrir íbúðalán  þar sem lántakandi skrifaði undir. Það hlítur að gilda það sama um þau lán.

Eggert Guðmundsson, 12.5.2012 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1681299

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband