Leita í fréttum mbl.is

Almannatryggingaflækjan og mannréttindabrot á lífeyrisþegum - Umbóta er þörf

Fyrir hartnær áratugi fékk ég það verkefni í vinnunni að greina allar breytur og stikur í lögum um almannatryggingar og reglugerðum sem Tryggingastofnun ríkisins vann eftir. Ástæða var að fyrirtækið sem ég vann hjá var að forrita nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir TR.  Ég átti að ljúka þessu af á dagsstund eða svo, þar sem mönnum datt ekki annað í hug en að það færi nú vart meiri tími í verkið.  Reyndin varð önnur.

Þegar ég var beðinn um að skila af mér, þar sem nauðsynlegt var að leggja afraksturinn fyrir fund, þá höfðu gott betur en 8 tímar farið í verkið og ástæðan var einföld.  Ég hafði þá þegar uppgötvað 239 breytur og stikur sem höfðu áhrif á útgreiðslur úr kerfinu.  (Breyta er stærð sem sett er inn einstaklingsbundið (oftast upphæð) eða eftir hópum meðan stika (e. parameter) er ýmist hreinn fasti eða föst tala byggð á útreikningi (oftast einhvers konar hlutfallstala.)  Já, 239 breytur eða stikur.  Er nema von að fáir, ef nokkrir átta sig á virkni kerfisins.

Það sem mér fannst vandasamast í greiningu minni voru atriði sem virtust gjörsamlega ósamrýmanleg eða svo vítavert ósanngjörn.  Mörgum þessara atriða er búið að breyta síðan, sumum til batnaðar, en ég held ég sé ekki að ýkja að flestum  hafi verið breytt til hins verra. 

Margt í almannatryggingakerfinu er sett þar inn af göfugum hug.  Þá á ég við barnabætur, makabætur, ekju- eða eknabætur, örorkulífeyrir, örorkustyrkir, ellilífeyrir, tekjutrygging o.s.frv.  en svo átta menn sig á því að ríkissjóður stendur ekki undir þessu öllu.  Við því er brugðist með tekjutengingum á alla kanta.  Slíkar tekjutengingar eru náttúrulega ekkert annað en jaðarskattar eða hreinlega aukaskattheimta á lífeyris- og bótaþega.  T.d. borga lífeyrisþegar tvöfaldan fjármagnstekjuskatt á við aðra.  Tekjuteningar gera það að verkum að um leið og persónuafslætti lýkur, þá tekur við kerfi, þar sem lífeyrisþegar fá ekki njóta aukinna tekna.  Þeir eru hreinlega skattlagðir hátt í 100% af öllum umframtekjum.

Margar óeðlilegar skerðingar

Margar af þessum skerðingum eru ekki óeðlilegar, en þó mætti færa skerðingarmörkin ofar.  Þá á ég við að viðkomandi njóti t.d. greiðslna úr lífeyrissjóði upp að vissu marki umfram lágmarksframfærslulífeyris, en skerðingin hefjist síðan og sé stigvaxandi.  Mér finnst alveg eðlilegt að sá sem hefur góðar tekjur úr lífeyrissjóði sé ekki líka að fá fulla tekjutryggingu.  Sama á við um húsaleigubætur.

Ein er sú skerðing sem ég skil ekki eða á ég að kalla skatt.  Það er skerðing vegna fjármagnstekna.  Fjármagnstekjur eru taldar sameiginlegar hjónum.  Þannig að sé annað lífeyrisþegi, þá skerða fjármagnstekjur hins lífeyrisgreiðslurnar sem nemur 25% af fjármagnstekjunum.  Ekki er einu sinni gert ráð fyrir fjármagnstekjuskattinum, sem þýðir þá að 25% af því sem er eftir skattinn skerði tekjurnar.  Nei, það er of flókið.  Fái hinn aðilinn 100.000 kr. í fjármagnstekjur, þá renna fyrst 20.000 í skatt og síðan dragast 25.000 kr. frá lífeyrinum.  Þannig að af 100.000 kr. eru 55.000 kr. eftir.  Maki lífeyrisþegar og lífeyrisþegi borga því 45% fjármagnstekjuskatt.  Og ég hélt að fjármagnstekjuskattur ætti að vera lægri en tekjuskatturinn!  Af þessari ástæðu, þá er ódýrara fyrir maka lífeyrisþegar sem er með eigin starfsemi (einyrki), að hafa starfsemina á eigin kennitölu því að öllum líkindum borgar þá viðkomandi ekki nema 42% skatt af hagnaði í staðinn fyrir 45%!

Lífeyrisþegum refsað fyrir að lenda í slysi

Annað dæmi er af lífeyrisþeganum sem er svo óheppinn að lenda í slysi.  Hann er óheppnasti maður á Íslandi þá stundina.  Í fyrsta lagi er honum refsað fyrir það í útreikningi á slysabótunum fyrir að vera lífeyrisþegi og síðan refsar TR honum fyrir að fá bæturnar!  Má hann bara þakka fyrir að skulda ekki TR pening eftir að hafa fengið hungurlúsina frá tryggingafélaginu.  Vissulega er búið að breyta einhverju af þessu, en eilíf skal vera skömm þeirra þingmanna sem létu glepjast af fagurgala tryggingafélaganna og samtaka þeirra á 10. áratug síðustu aldar.  Í fjöldamörg ár voru þeir sem lentu í slysum sviptir eðlilegum bótum vegna þeirra lævíslegu ákvæða sem sett voru inn í lög.  Og enn hörmulegra er að Alþingi hafi ekki séð sóma sinn í að leiðrétta hlut þeirra sem í því lentu.

Þekki þetta á eigin skinni

Tekið skal fram að konan mín er 75% öryrki vegna MS sjúkdóms og hefur því verulega skerta starfsorku.  Þekkjum við hjónin því margar af fátækragildrum almannatryggingakerfisins á eigin skinni.  Á sumum þessum skerðingum hef ég skilning, en aðrar eru settar inn, að því virðist, af hreinni mannvonsku.  Líklegast hafa menn komist að því að einn eða tveir einstaklingar hafa komist gegn um einhverja kjánalega glufu í kerfinu og ætlunin hefur verið að setja tappann í.  Æðubunugangurinn hefur síðan verið svo mikill, að breyting var ekki keyrð á allt kerfið heldur bara sýndarsafn eða að menn höfðu ekki fyrir því að skoða jaðartilfellin.

Mörg dæmi um hreina mannvonsku

Mannvonskutilfellin eru svo mörg að það mundi æra óstöðugan að telja þau upp.  Til mín kom um daginn maður sem heldur úti vefsvæði, þar sem vakin er athygli á mannréttindu lífeyrisþega.  Án þess að þekkja sögu hans neitt umfram það sem hann sagði mér á hlaupum, þá virtist mér sem kerfið væri markvisst að brjóta hann niður.  Öll sjálfsbjargarviðleitni er laminn til baka af fullri hörku.  Honum skal gert ókleift að lifa sjálfstæðu lífi.  Þannig er saga margra öryrkja.  Hrúgum þeim inn í sambýli, þar sem hægt er að fela þá fyrir umhverfinu.  Tölum niður til þeirra á opinberum fundum með því að segja "ástandið getur nú ekki verið svona slæmt", eins og ég hef heyrt nokkra ráðherra segja.  Jú, það er það og líklegast mun verra.

Aftur að mannvonskutilfellunum.  Þegar skattar á hátekjufólk voru hækkaðir um 5% sumarið 2009 fengu lífeyrisþegar á sig 27% skattahækkun!  Ljóst er hver eru breiðu bökin í samfélaginu!  Í liggur við hverjum einustu fjárlögum er bætt við nýrri breytu eða stiku í almannatryggingakerfið. Ekki til að hækka réttindi.  Nei, til að klípa af þeim sem minnst hafa!  Efnaðir Íslendingar geta alveg greitt 50-60% skatt af tekjum yfir 1 milljón.  Þeir eiga a.m.k. auðveldara með það en sá sem er á lífeyri.  Nei, það má ekki vegna þess að þessir ríku gætu farið eitthvað annað með peningana sína.  Vitiði hvað.  Þeir fóru annað með peningana sína meðan skattumhverfið hér var þeim eins hagstætt og hugsast getur, þannig að það getur ekki versnað.  Farið hefur betra fé!

Breytinga þörf strax

Framkoma hverrar ríkisstjórnar á fætur annarri við lífeyrisþegar jaðrar við mannréttindabrot, ef hún er það ekki.  Kerfinu verður að breyta.  Ég veit að  endurskoðun er í gangi, en það er með breytingar á almannatryggingakerfinu, eins og stjórnarskránni.  Vinnan gengur hægt og tillögur daga gjarnan uppi.  Nema náttúrulega þær sem eru til skerðinga.

Ég hef verið hlynntur því í mörg ár, að breyta áherslunum og fara frá því sem fólk getur ekki yfir í það sem fólk getur.  Ég hef margoft tekið þátt í umræðu um starfsorku.  Líklegast fyrir á árunum 2004 - 5, þegar ég vann að ráðgjöf um upplýsingaöryggi hjá flestum af stærstu lífeyrissjóðum landsins og síðan aftur þegar ég vann að ráðgjöf fyrir Starfsendurhæfingarsjóð.  En ég veit ekki hvort allir átti sig á því, að slíkt kerfi virkar ekki nema atvinnulífið taki þátt.  Hvaða gagn er af því að vera með breytilega 25-50% starfsorku, ef ekkert starf býður upp á breytilegt 25-50% starfshlutfall?

Annað sem þarf að gera er að taka almennilega til í lögum um almannatryggingar.  Einfalda fyrirkomulagið, fella út alls konar furðulegheita ákvæði.  Gera skerðingar sanngjarnar og réttlátar.  Afnema fullkomlega tengsl á milli tekna lífeyrisþega og maka.  Nauðsynlegt er að kerfið hvetji til atvinnuþátttöku, en letji fólk ekki með hugsunarlausum skerðingum.  Á ég þá sérstaklega við örorkulífeyrisþega.

Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd haustið 2007 til að endurskoða almannatryggingakerfið.  Fyrir þeirri nefnd fór Stefán Ólafsson.  Hvað varð um vinnu þessarar nefndar?  Af hverju var ekki haldið áfram?  Var þetta eins og alltaf, að þeim er fórnað fyrst sem eru í veikustu stöðunni!  Núna er Árni Gunnarsson í forystu fyrir vinnunni.  Hvað tefur orminn langa?  Stefánsnefndin átti að skila af sér í nóvember 2008.  Var sú vinna ekki nógu góð?

Ég hef sagt áður og vil endurtaka það:

1.  Skilgreinum kerfið eins og við helst viljum hafa það væru engar takmarkanir á fjármagni.

2.  Áttum okkur á því hverju við höfum efni á núna og hvernig staðan mun þróast næstu árin.

3.  Skilgreinum algjör grunnréttindi í kerfinu sem við erum ekki tilbúin að fórna, sama hvað.

4.  Forgangsröðum því sem ekki er hluti af grunnréttindum, en er inni í draumakerfinu.

5.  Bætum eins og við getum atriðum úr lið fjögur ofan á grunnréttindin.

6.  Setjum okkur tímaplan um hvenær  það sem eftir er gæti verið komið til framkvæmdar að gefnum efnahagslegum forsendum.

Almannatryggingakerfið á ekki að vera vandamál eða olnbogabarn.  Það á að vera verðugt viðfangsefni, þar sem unnið er eftir skýrum markmiðum.  Ég geri mér fyllilega grein fyrir að öllum markmiðum verður ekki náð, en séu þau ekki til staðar, þá vitum við ekki hvert við stefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Mikið er þetta góð grein hjá þér Marinó. Ég hef mikið fengis við þessi málefni líka og m.a. skilað ítarlegri úttekt á lögunum um almannatryggingar til ráðherra. Ég hef líka undanfarið ár átt sæti í starfshópi ÖBÍ sem í raun er bakhópur fulltrúa ÖBÍ í samninganefndinni sem Árni Gunnarsson stýrði. Það er svo sorglega rétt sem lesa má út úr skirfum þínum, að iðulega finni maður ekki annað en af ásetningiu sé reynt að skerða lífskjör og réttindi eldra fólks og öryrkja. Nánast vikulega, í altt sumar og fram á haust, var skilað útreikningum um breytingar á lífeyristekjum, án þess að búið væri að afgreina nauðsynlegar lagabreytingar. Ummæli þín um skerðingarnar og skattlagninguna voru afar skýrt talandi í öllum þessum útreikningum sem við fengum. Þar voru fyrstu 10.000 krónurnar í tekjuöflun látnar lækka lífeyrisfjárhæð um 8.000 krónur. Þá stóðu eftir 2.000 krónur sem þá voru skattlagðar, þannig að af 10.000 króna tekjum, hélt lífeyrisþeginn eftir rúmum 1.200 krónum, eða 12% af tekjunum. Þetta er líklega heimsmet í skattlagningu. Að skattleggja lífeyrisþega um 88%. Já þetta er tilboð hinnar HREINU vinstristjórnar okkar sem segist byggja störf sín á norrænum velferðargrunni. Þetta ásamt fleiri álíka gáfulegum atriðum er partur af ástæðum þess að samninganefnd ÖBÍ ákvað að taka sér hlé frá störfum í ráðherranefndknni.

Guðbjörn Jónsson, 10.2.2012 kl. 02:06

2 identicon

Takk Marinó. 

Mér hlýnar um hjartarætur að lesa þessi skrif þín.   Það sem við öryrkjar erum að reyna að senda frá okkur um þessi mál er ansi oft tekið sem dæmi um græðgi, kröfuhörku og að við öryrkjar séum ekki að gera okkur grein fyrir því að Ísland hafi lent í bankahruni. 

Takk, takk.    Það er líklegt að fólk trúi þér.Það trúir mér enginn þegar ég reyni að rekja svona dæmi fyrir ættingjum, vinum, kunningjum eða þeim  félögum mínum í sjúklingafélögum  sem þurfa ekki að lyfa á örorkubótum.   Þetta er oft svo ótrúlegt að fólk hafnar því að þetta geti verið satt. 

Ég hef verið í bakhópi ÖBÍ um breytingar á lögum um almannatryggingar.  Við áttum að vinna með fulltrúum ÖBÍ í nefnd Velferðarráðuneytisins um sama efni, breytingar á lögum um almannatryggingar.Í byrjun nefndarstarfsins var lagt fram vinnuplagg um hvernig ætti að fara yfir lögin en svo var strax farið út í talnaleikfimi TIL ÞESS AÐ KOMA Í VEG FYRIR VINNU VIÐ BREYTINGAR Á LÖGUNUM SJÁLFUM.   Þannig var þetta þangað til fulltrúar ÖBÍ gengu af fundi ráðuneytishópsins 13. janúar eftir að hafa afhent bókun ÖBÍ um að samtökin myndu ekki taka þátt í þeirri vinnu sem fram færi í hópnum á meðan ekki væri tekið tillit til sjónarmiða bandalagsins. 

 Í Mbl 25 Janúar segir Guðbjartur velferðsrráðherra.  Það er ekki sé hægt að setja upphæðir fyrirfram inn í kerfið. Þetta er einmitt það sem ÖBÍ sagði og vildi ganga útfrá en velferðarráðuneytið gekk alltaf útfrá óbreyttri upphæð.VELFERÐARRÁÐUNEYTIÐ FÉKKST EKKI TIL AÐ RÆÐA BREYTINGAR Á LÖGUNUM. 

Þakka þér Marinó fyrir að koma með svona velunna grein um mál almannatrygginga. 

Mannréttindabrot á lífeyrisþegum er svo alveg sér kapítuli sem enginn vill viðurkenna heldur. 

Takk aftur Marinó.  Kærar þakkir. 

Frímann Sigurnýasson (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 04:50

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hef bundið vonir við endurskoðun sem er í gangi og vil ekki trúa öðrum en að hún skili árangri. Góð grein um þetta risastóra mál Marinó !!

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.2.2012 kl. 07:33

4 identicon

Takk fyrir góða grein marinó,því miður lagast ekkert af þessu meðan þessi hryðjuverkakommar og samspillingin eru með stjórnarvaldið

magnús steinar (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1679457

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband