Leita í fréttum mbl.is

Margar aðrar hliðar á tapi lífeyrissjóðanna

Margt hefur verið rætt um tap lífeyrissjóðanna af hruni fjármálakerfisins í framhaldi af birtingu skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna.  Sitt sýnist hverju um hve mikið tapið hafi orðið, en eitt er víst að það er meira en sjóðirnir hafa viljað viðurkenna hingað til.

Fram að þessu hafa talsmenn sjóðanna ekki viðurkennt hærra tap en 150-200 ma.kr.  Skýrslan segir 480 ma.kr., í yfirlýsingu Landsamtaka lífeyrissjóða er nefnd tala 380 ma.kr. og mér sýnist hreinlega í morgun að Gyfli Arnbjörnsson hafi fullyrt í morgun að tala væri bara 8 ma.kr., en hann vill að hagnaður upp á 472 ma.kr. sé dreginn frá tapinu.  Ég ætla hér að nota töluna 480 ma.kr. sem ég held að sé of lág, þar sem ekki séu öll kurl komin til grafar.

Í þessum pistli ætla ég fyrst og fremst að horfa á tapið frá sjónarhorni ríkisins, sveitafélaga og skattgreiðenda, en í lokin vil ég leiðrétta villur sem ég tel menn halda fram.

Tapaðar skatttekjur og hærri útgjöld ríkisins

Lífeyrissjóðirnir geyma framtíðartekjulind fyrir ríkissjóð í tvennum skilningi.  Annars vegar er um að ræða skatttekjur og hins vegar greiðslu á þjónustu sem eldri borgarar njóta á sambýlum, þjónustukjörnum, dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum.  Þannig má gera ráð fyrir að framtíðarskattgreiðendur þurfi að taka á sig stærsta hluta tapsins í hærri útgjöldum ríkis og sveitafélaga til almannatrygginga og þjónustu við lífeyrisþega (örorku- og ellilífeyrisþega). 

Svo fáránlegt sem það er, þá munar það mjög oft engu fyrir lífeyrisþega hvort þeir eigi stæðileg réttindi í lífeyrissjóði eða engin.  Jöfnunaráhrif tekjutenginga í almannatryggingakerfisins eru slík að mismunandi réttindi svo nema hundruðum þúsunda á mánuði breyta sorglega oft engu eða litlu varðandi hvað fólk fær í hendur.  Skerðing réttinda (verði farin sú leið) vegna taps lífeyrissjóðanna mun því í allt of mörgum tilfellum lenda á ríkissjóði.

Miðað við að 25% af greiðslum úr lífeyrissjóði fari í skattgreiðslu, þ.e. tekjuskatt, þá er beint tap ríkissjóðs vegna 480 ma.kr. taps 120 ma.kr.  Gefum okkur svo að 2/3 af því eftir er hefði greitt fyrir útgjöld sem annars hefðu lent á ríkinu, þá eru það 360 ma.kr. sem beint lenda á okkur skattgreiðendum.  Eftir standa hugsanlega 120 ma.kr. sem samkvæmt núverandi kerfi lífeyrisþegar fá ennþá í sínar hendur, en framtíðin á alveg eftir að skera úr um hvort svo verði þegar þar að kemur.

Lágmarkstap skattgreiðenda er því 360 ma.kr. og hámarkið mögulega 480 ma.kr.

Gott að ríkið skuldaði LSR

Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt, þá mun vanta um 350 ma.kr. inn í LSR og LH (Lífeyfissjóð hjúkrunarfræðinga).  Í bókum LSR/LH er þetta fært sem skuld ríkisins við sjóðina.  Svo fáránlegt sem það nú er, þá sparaði þessi skuld skattgreiðendur um 100 ma.kr., ef ekki meira!

Eign LSR/LH er um 370 ma.kr. þrátt fyrir 101 ma.kr. taps.  Hefði ríkið nú staðið árlega við inngreiðslur í sjóðinn, eins og samningar gera ráð fyrir, þá hefðu eignir sjóðanna staðið í tvöfaldri tölu.  Tvöföld tala hefði líklega valdið tvöföldu tjóni.  Þannig að trassaskapur ríkissjóðs sparaði honum a.m.k. 100 ma.kr. og líklegast mun meira, þar sem líkur eru á að hærri eignir hefðu orðið til þess að hærra hlutfall hefði farið í meiri áhættufjárfestingar.

Niðurstaðan er því að það hafi verið lán ríkissjóðs og skattgreiðenda að ekki var farið eftir samningum.

Annars er merkilegt hvað lítið hefur breyst í tímans rás, því árið 1996 skrifaði ég grein um vanda LSR og má lesa hana hér.

Skiptir máli að ríkið geri upp við LSR/LH?

Næst er að velta fyrir sér hvort það skipti í raun máli að ríkið geri upp við LSR/LH.  Ég held hreinlega að svarið sé nei. 

Gefum ríkið greiði 8 ma.kr. á ári til LSR/LH til að leiðrétta stöðu sjóðanna og þessir 8 ma.kr. renni beint út til sjóðfélaga.  25% fer í tekjuskatt, þ.e. 2 ma.kr., 2/3 af því sem eftir er verður fórnarlamb jöfnunaraðgerða og tekjutenginga, þá eru bara 2 ma.kr. eftir.  LSR/LH eru þá orðnir hreinir gegnum streymissjóðir hvað þennan hluta lífeyrisgreiðslna varðar.  Einfaldast er því fyrir ríkið að greiða þessa 2 ma.kr. beint til lífeyrisþeganna, þegar þar að kemur í staðinn fyrir að treysta LSR/LH fyrir ávöxtun peninganna.  Reynslan sýnir nefnilega að miklar líkur eru á að þá þurfi ríkið, og þar með skattgreiðendur, bara að greiða þessa 2 ma.kr. tvisvar!

Auðvitað er þetta síðasta kaldhæðni.

Lífeyrissjóðir sveitafélaga

Mörg sveitafélög eru með sjóði fyrir sína starfsmenn.  Staða þeirra er ekki ólík stöðu LSR/LH, þ.e. halli er á eignum gagnvart réttindum/skuldbindingum.  Nú er misjafnt hve margir eru í hverjum sjóði og hver raunstaða þeirra er, en gróft litið, þá er hægt að færa rök fyrir því, sérstaklega eftir að málaflokkur lífeyrisþegar er að mestu kominn til sveitafélaganna, að ekki skipti megin máli hvort búið sé að greiða inn í sjóðina fulla upphæð eða nettótalan verði greidd út þegar þar að kemur.

Gróf mynd ekki vísindaleg nákvæmni

Ég vara fólk við að taka því sem hér er sagt alveg bókstaflega, því um gríðarlega einföldun er að ræða.   Hér hef ég dregið upp grófa mynd af stöðunni og er hún að tap lífeyrissjóðanna lendir að miklu leiti á skattgreiðendum framtíðarinnar, trassaskapur ríkisins gagnvart LSR/LH sparaði skattgreiðendum a.m.k. 100 ma.kr. og ekki víst að það sé skynsamlegt fyrir ríkið að gera upp við LSR, þar sem með því er tekin út úr málinu áhættan sem felst í fjárstýringu sjóðsins.

Ekki víst að gamla fólkið tapi

Ingólgur Ingólfsson fullyrðir í DV að "gamla fólkið" verði verst úti.  Ég vil nú leyfa mér að efast um þessa staðhæfingu.  Allir verða jafn illa út.  480 ma.kr. dreifast á alla sjóðfélaga jafnt.  Sá sem er núna að taka lífeyri er hvort eð er í tekjujöfnunarvítahring sem gerir það að verkum, að sé viðkomandi tekjulágur, þá leiðréttir almannatryggingakerfið kúrsinn.  Hinir sem eru tekjuhærri og taka ekki þátt í rekstri stofnunar, þjónustukjarna o.s.frv. þeir verða fyrir sama tapi og þeir sem yngri eru.  Þannig má færa rök fyrir því, að fjölmargt gamalt fólk verði ekki fyrir neinu tjóni nema í gegn um skattana sína.

Gylfa ekki sjálfrátt

Ég verð að viðurkenna, að Gylfa Arnbjörnssyni er ekki sjálfrátt í villu sinni.  Ég spyr bara:  Hvað fékk maðurinn í stærðfræði í barnaskóla?

Hann heldur því fram samkvæmt frétt á visir.is, að sjóðirnir hafi í reynd ekki tapað nema 8 ma.kr.  Vegna þess að aðrar fjárfestingar, sem hann segir ekkert hverjar voru, gáfu 472 ma.kr. í tekjur, þá sé bara allt í lagi að 480 ma.kr. á öðrum!  Þessir 472 ma.kr. koma að mestu frá erlendum eignum lífeyrissjóðanna sem nánast tvöfölduðust í virði við fall krónunnar.

Ég segi nú bara að eins gott er að Gylfi skuli ekki miða við evrur, en þekkt er hvað hann er hrifinn af þeim gjaldmiðli.  Nefnilega samanborið við gengi evrunnar, þá er tap íslensku lífeyrissjóðanna nálægt því 8 ma.EUR þegar búið er að taka tillit til greiddra iðgjölda eftir hrun.

Í árslok 2007 námu eignir lífeyrissjóðanna 1.697 ma.kr. á gengi 31.12.2007 jafngilti þetta 18,5 ma.EUR.  Um síðustu áramót námi eignirnar 1.909 ma.kr. tökum frá þessu inngreidd iðgjöld árin 2009, 2010 og 2011 upp á um 70 ma.kr. árlega, þá standa eftir 1.699 ma.kr. eða 10,8 ma.EUR, þ.e. mismunur upp á 7,7 ma.EUR eða 41,6%. 

Nei, Gylfi, sjóðirnir töpuðu gríðarlegum upphæðum á hruninu, hvernig sem á það er litið.


mbl.is Telja tapið vera 380 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

472 milljarða gróði Gylfa ASÍ er að mestu til komin vegna verðtryggingarinnar ekki erlendra fjárfestinga.

Allavega í tilfelli Sameinaðalífeyrissjóðsins dugði 30% erlend eign fyrir hrun rétt til að halda í horfinu eignin er ca. 30% í dag. Gengishagnaður uppá um 100% þurkaðist út vegna lélegra fjárfestinga erlendis.

Fólkið sem réð ekki við innlendar fjárfestingar réð ekki við þær erlendu heldur, er nema von.

Haustak verðtryggingarinnar er það sem sjóðirnir kunna.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 18:25

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jónas, 175 ma.kr. er vegna verðtryggingarinnar, en mér sýnist vel á þriðja hundrað vera á erlendum eignum.

Marinó G. Njálsson, 6.2.2012 kl. 18:53

3 identicon

sæll Marinó og takk fyrir pistilinn. Ein spurning frá þeim sem lítið þekkir til þessa: er rétt að miða við eignir sjóðanna í árslok 2007 þegar allt var uppblásið og falskt verðmæti á öllum sköpuðum hlutum. Væri ekki nær að skoða hvernig eignir voru t.d. í árslok 2006 þ.e. eignir vs framtíðarskuldbindingar) og kanna stöðu sjóðanna í dag miðað við það?  Veit ekki hvort það breytir nokkru en mér er ekki alveg ljóst hversu lengi sú þróun hefur staðið að eignir hrökkvi ekki fyrir skuldbindingum og hvort að hrunið breytti svo miklu þar um horft er lengra til baka en til haustsins 2008 ???

Kristján Sverrisson (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 20:47

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Í einhverju viðtalinu við Gylfa um helgina, vildi hann meina að tapið væri ekki svo stórt því hagnaður áranna á undan væri froða og því hefði hann bara verið skafinn burt.

Ég get svo sem tekið undir það. Hagnaður eða tap verður ekki til fyrr en 'kassað' er út.

En það vaknar önnur spurning. Er hagnaður vegna verðtryggingar þá annað er froða, sem má skafa eins burt?

Brjánn Guðjónsson, 6.2.2012 kl. 21:10

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marínó - í nýlegu Silfri Egils hélt Gylfi Arnbjörnss. því fram að krónan hefði fallið um rýflega 110% síðan 2008. Ég nenni ekki einu sinni að velta fyrir mér hvernig hann bjó slíka bull stærð til. En mér sýnist mism. milli gengis í dag og feb. 2008 vera kringum 40%.

Maðurinn er einfaldlega svo fullur af sjálfum sér, að hann virðist halda að hann geti sagt hvaða bull sem er í fjölmiðlum, komist upp með.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.2.2012 kl. 00:14

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, það væri nú ekki mikið eftir að krónu sem hefði fallið 110%.  Ég er alveg viss að efri mörkin á falli sé námundun við 100% meðan við erum ekki með neikvæðar krónur.

Marinó G. Njálsson, 7.2.2012 kl. 00:58

7 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Góð samantekt hjá þér Marínó og nauðsynlegt að minna Gylfa á að samanburðurinn á föstu gengi er miklu verri.

ESB sinninn Gylfi er hér að eignfæra fall krónunnar og þakka sér fyrir það.  Það gæti hann auðvitað ekki gert ef við hefðu verið með evru.

Hvar get ég nálgast upplýsingar um heildar eignir og skuldir sjóðanna?

Lúðvík Júlíusson, 7.2.2012 kl. 08:18

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Marinó G. Njálsson, 7.2.2012 kl. 08:23

9 identicon

Áhugaverður vinkill á umræðuna að benda á framtíðarskatttekjur.

Ég held að við verðum að stokka þetta allt saman upp. Við eigum að tvískipta lífeyrissparnaði okkar í tvennt. Hluti fer í sameiginlegan sjóð sem er þá örorkulífeyrir og þess háttar.

Hinn hlutinn á að vera okkar séreign sem við eigum að geta ávaxtað innan ákveðins ramma. Það má vel hugsa sér að það verði einhverskonar ,,heimabanki'' þar sem við förum inn og skráum okkur í mismunandi fjárfestingaleiðir innlend eða erlend. Síðan getum við breytt þessum áherslum okkar eftir fyrirframmótuðum reglum.

Með þessu þá sjáum við okkar stöðu strax í þessum ,,banka'' og höfum auk þess eins mikil áhrif og hver og einn kýs sjálfur.

Ég er ekki mótfallinn lífeyrissjóðshugmyndinni sem slíkri.

Pétur (IP-tala skráð) 7.2.2012 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680019

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband