Leita í fréttum mbl.is

Vita lífeyrissjóðirnir eitthvað sem aðrir vita ekki - Vextir af ríkisskuldabréfum og sjálfbært vaxtastig

Hún virðist ekki rökrétt sú ákvörðun lífeyrissjóðanna að ætla að breyta erlendum eignum í íslenskar krónur á þessum tímapunkti.  Hvort heldur ákvörðunin er skoðuð út frá sjónarhorni lífeyrissjóðanna eða ríkisins.

Líkt og Morgunblaðið bendir á, þá mun leið lífeyrissjóðanna með nýtt fé á erlendan markað vera erfið við núverandi gjaldeyrishöft.  Því geta liðið mörg ár, þar til það verður hægt.   Ég hef nokkrum sinnum rætt þetta við frammámenn innan lífeyrissjóðanna og hefur það alltaf komið skýrt fram hjá þeim, að aðganginn að erlendum mörkuðum verði að meta sem verðmæta eign.  Helgast það að því að gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að nýjar fjárfestingar í útlöndum og hve þrengir um fjárfestingar hér á landi.  Er því eðlilegt að spurt sé hvort lífeyrissjóðirnir viti eitthvað sem við vitum ekki, t.d. um að styttra sé í myntskipti, þeir muni fá að kaupa sig inn í Landsvirkjun, að nýtt stórt fjárfestingaverkefni sé í pípunum o.s.frv.

Lífeyrissjóðirnir vita ekki aura sinna tal

Höfum í huga, að lífeyrissjóðirnir eiga gnótt fjár á innstæðureikningum.  Frétt Morgunblaðstins segir 160 ma.kr.  Við þetta bætast um 5-6 ma.kr. á mánuði, ef ekki meira, að teknu tilliti til úrgreiðslna lífeyris.  160 ma.kr. verða því að 220 ma.kr. fyrir árslok opnist sjóðunum ekki leið til að fjárfesta með öðrum hætti.  200 milljónir evra er ekki merkileg summa í þessu samhengi eða ríflega 32,2 ma.kr. miðað við skráð gengi.  Gefum okkur að sjóðirnir fái 20% álag, þá gefur þetta vissulega góða ávöxtun, en lækki krónan á næstu mánuðum og árum, eins og útlit er fyrir, þá gætu sjóðirnir verið að skjóta sig í fótinn, jafnvel með slíkt aukaálag.  Ekki er heldur gild sú skýring að þeir séu að færa peningana í góða ávöxtun hér á landi, þar sem þeir eiga fimmfalda þessa upphæð sitjandi á bankareikningum sem líklegast bera ekkert rífandi háa vexti.

Gagnvart ríkissjóði, þá er spurningin hvers vegna ríkissjóður er svona áfjáður að bæta á skuldabyrði sína.  Og af hverju þarf ríkissjóður að kaupa lífeyrissjóðina til samstarfs um endurreisn heimila landsins?  Ég hélt í einfeldni minni, að lífeyrissjóðirnir væru sameiginlegir sjóðir, a.m.k. stórs hluta, landsmanna.  Þeir gegna því samfélagslegu hlutverki, en ekki sem fjárfestingasjóður.  En fyrst ríkissjóður þarf á annað borð að gefa út ríkisskuldabréf, þá er líklegast þjóðhagslega hagkvæmara að vextir þeirra fari til lífeyrissjóðanna, en erlendra vogunarsjóða.  Hin hliðin á peningnum er, að séu fleiri að keppa um að fjárfesta í ríkisskuldabréfum, þá ætti að vera hægt að þrýsta vöxtum þeirra lengra niður.

Er verið að halda uppi vöxtum?

Hér er kannski komin ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir vilja fara út í þennan gjörning.  Þeir eru að draga úr samkeppni á markaðnum og þannig verja ávöxtunarkröfu markaðarins.  Einn stærsti glæpur eftirhrunsáranna hefur einmitt verið ávöxtunarkrafa á markaði eða eigum við frekar að segja gjafmildi ríkissjóðs við útgáfu ríkisskuldabréfa.  Ég skrifaði færslu um þetta á vormánuðum 2009, þar sem ég taldi ávöxtun sem ríkissjóður bauð upp á á langtímabréfum vera hreinlega glæp gegn þjóðinni.  Í frétt um málið kemur fram að ríkið hafi tekið tilboðum í ríkisskuldabréf á gjalddaga 2010, 2017 og 2026 með ávöxtunarkröfu upp á 8,82-9,98%.  Látum vera að stystu bréfin hafi verið með slíka ávöxtunarkröfu, en að bjóða 17 ára bréf með slíkri ávöxtun lýsir ekki trú á þróun efnahagsmála og það hjá ríkisstjórn sem ætlaði að vera komin í faðm ESB og inn í skjól evrunnar löngu áður en bréifn væru á gjalddaga.

Vextir þurfa að lækka

Ríkissjóður á að fara fram með góðu fordæmi og lækka vaxtastigið í landinu.  Bæði heimili og fyrirtæki eru að kikna undan vaxtabyrðinni og eru búin að gera það áratugum saman.  Þess vegna flúðu þessir aðilar yfir í gengistryggð lán á árum áður.  Þar var boðið upp á viðráðanlega vexti, a.m.k. þar til að bankarnir sáu hagnað í því að fella gengið. 

Í mínum huga á ríkissjóður ekki að bjóða hærri vexti en hann kemst upp með.  Verðbólgumarkmið Seðlabankans má nota til að ákveða þetta vaxtastig.  Nú eru þau 2,5% og vilji ríkissjóður styðja við þau, þá á hann ekki fara með sína vexti meira en 0,5-1,0% upp fyrir það.  Ég heyri alveg fyrir mér sérfræðinga á markaði mótmæla þessu.  Höfum þá í huga, að þeir vinna nær allir fyrir fjárfesta sem vilja háa ávöxtun. 

Ekki ríkissjóðs að keppa um vexti

Það er ekki ríkissjóða að bjóða háa ávöxtun.  Raunar eiga ríkissjóðir að forðast eins og heitan eldinn að ýta vaxtastigi upp.  Þeir eiga ekki að keppa við aðra með hærra vaxtastigi.  Ríkissjóðir eiga eingöngu að taka lán á lægstu mögulegum vöxtum og fái þeir ekki lán á þeim vöxtum, þá verða þeir einfaldlega að sleppa lántökunni eða að bréf þeirra liggja óseld inni í fjárhirslum þeirra.  Verum alveg viss um, að þegar fjárfestar hafa ekki aðra kosti, þá munu þeir sætta sig við lægri vexti.  Hér á landi hefur sú staða einfaldlega aldrei áður verið uppi.

Ég vil að sett verði lög um hámark á vexti ríkisskuldabréfa.  Eygló Harðardóttir lagði, að mig minnir, fram frumvarp þess efnis 2010, en það fékk ekki hljómgrunn.  Ég tel þetta samt þurfa að gerast, þar sem atvinnulífið þarf almennt að greiða 2-3% hærri vexti en ríkissjóður og heimilin 1-2% hærra en atvinnulífið.  Sé ríkissjóður að bjóða 9-10% óverðtryggða vexti, þá liggur í augum uppi, að búið er að festa "markaðsvexti" í 12-14%. 

Markaðsvextir í sýndarheimi

Ég set markaðsvexti innan gæsalappa, þar sem ég tel þetta vera vexti sem verða til í sýndarheimi en ekki raunheimi. Þó ríkissjóður bjóðir ríkisskuldabréf upp á 15 ma.kr. með háum vöxtum, þá er ljóst að eingöngu útvaldir geta keypt.  Þeir sem ekki geta, liggja því með peningana sína í lægri ávöxtun.  Samt eru markaðsvextir stilltir inn á vexti af þessum örlitla hluta.  Í dag er t.d. stór hluti ávöxtunar á lágvaxta innstæðureikningum, nema náttúrulega þeir sem eru nógu stórir til að fá stýrivexti Seðlabankans á peninga sem hvergi komast í vinnu (annar glæpur gegn þjóðinni).

Þjóðfélagið verður að standa undir vöxtunum

Raunveruleiki vaxtastigsins er sú tala sem þjóðfélagið stendur undir.  Með neikvæðan hagvöxt, eins og var 2008, 2009 og 2010, þá var ljóst að þjóðfélagið stóð ekki undir jákvæðum raunvöxtum.  Slíkir vextir gerðu ekkert annað en að taka peninga úr þeirri vinnu sem þeir áttu að vera í, þ.e. uppbyggingu.  Fjármagnseigendur eru ekki í uppbyggingu.  Þeir eru bara að leigja út peningana sína, svo þeir fái meiri pening.  Fjármagnseigendur eru ekki í verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið, fjölga atvinnutækifærum, auka útflutning eða neitt það annað sem eykur hagvöxt.  Nei, er eitthvað er, þá virðast þeir halda að þeir eigi að blóðmjólka þá sem standa í þessu.

Fyrir mér er þetta einfalt reikningsdæmi.  Ef gjaldið fyrir peningana, þ.e. vextirnir, er hærra en verðmætaaukningin sem lánsféð leiddi til hjá mér framkvæmdaraðila, þá var verr af stað farið en heima setið.  (Eigið fé er hér tekið sem jafngilt lánsfé, þar sem ég vil líka fá ávöxtun af því.)  Vaxtastigið er ekki sjálfbært. Eins og stað er hér á landi í dag, þá efast ég um að vextir yfir 3% séu sjálfbærir.  Á öðrum tímum eða í einstökum framkvæmdum gætu vextir upp á 10% verið sjálfbærir.

Aftur að ríkissjóði.  Stjórnvöld verða að fara á undan og sýna gott fordæmi.  Þau verða að spyrna við fótum og hætta frekar við framkvæmd, en að fara í lántöku á of háum vöxtum.  Ekki má nota réttlætingu, eins og að þau nái fyrir kostnaðinum með skattlagningu eða þetta sé svo þjóðhagslega hagkvæmt.  Við sjáum bara hvers þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdirnar við Kárahnjúka enduðu á að vera.  Færa má rök fyrir því að þær hafi leitt til taps sem nemur fimmfaldri vergri þjóðarframleiðslu eða var það slökun á peningastefnu Seðlabankans sem olli því eða ákvarðanir FME eða "snilld" íslenskra bankamanna.  Hvernig sem litið er á það, þá er ég ekki enn búin að sjá hver þjóðhagslega hagkvæmni Kárahnjúkaframkvæmdanna var í raun og veru, en afleiðingarnar (beinar eða óbeinar) finn ég á eigin skinni í dag ásamt langflestum landsmönnum.


mbl.is Gengur í berhögg við lærdóm hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Í mínum huga á ríkissjóður ekki að bjóða hærri vexti en hann kemst upp með. Verðbólgumarkmið Seðlabankans má nota til að ákveða þetta vaxtastig. Nú eru þau 2,5% og vilji ríkissjóður styðja við þau, þá á hann ekki fara með sína vexti meira en 0,5-1,0% upp fyrir það."

Skemmtilegt nokk þá hefur þetta einmitt verið gert. Þegar Keynes hafði hvað mest áhrif á stjórn ríkisfjármála í Bretlandi bauð breska ríkið upp á ótakmarkað magn af ríkisvíxlum og löngum ríkisbréfum. Ríkisvíxlarnir voru með 2% nafnvexti, löngu ríkisbréfin (10 ára) voru með 3,5% nafnvexti.

Fjárfestar máttu kaupa eins mikið af hvaða bréfum sem þeir vildu, ríkið myndi alltaf selja þeim pappírana ("bonds on tap").

Áhrifin urðu þau að langtímavextir innan breska hagkerfisins lækkuðu úr 6% niður í 3% á 6-7 árum. Sumir segja að þessi vaxtalækkun hafi unnið stríðið gegn Þjóðverjum því Bretar gátu fjármagnað stríðsreksturinn á hlægilega lágum vöxtum miðað við áður.

Ólafur Margeirsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 10:54

2 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Getur verið að ráðning Þogeirs Eyjólfssonar fyrrv.forstjóra lífeyrissjóðs verslunarmanna til Seðlabankans sem ráðgjafi við afnám gjaldeyrishafta hafi eitthvað með þetta að gera?

Talið var að ráðning hans hafi verið vegna sterkra tengsla hans við lífeyrissjóðina. 

Þess má geta að Þorgeir tapaði milljarða tugum á gjaldeyrisbraski hjá lífeyrissjóðnum sem hann stýrði og ekki sér fyrir endan á þeim ósköpum sem verða að öllum líkindum leyst fyrir dómstólum. 

Fyrir 30 árum var krónunni skipt út fyrir nýja. Þá kostaði dönsk króna eina íslenska og amerískur dollar rúmar sex krónur. Í dag kosta þessir sömu gjaldmiðlar ríflega 20 falt meira en þeir gerðu árið 1981 þrátt fyrir gjaldeyrishöft í landinu. 

Erlendar eignir LV voru í árslok 2007 84,4 milljarðar og heildareignir sjóðsins 266,5 milljarðar. Iðgjöld í sjóðinn voru 16,3 milljarðar 2008 og útgreiðlur aðeins 4,8 milljarðar vegna mikillar söfnunar sem nú á sér stað innan kerfisins. Í því samhengi eru um 83% sjóðfélaga 49 ára og yngri sem þýðir að sjóðurinn þarf ekki að selja eignir til að standa undir skuldbindingum sínum næstu 18-20 árin eða á meðan iðgjöldin standa undir útgreiðslum.

Erlendar eignir LV voru á þessum tíma 32% af heildareignum og má því ætla að sjóðurinn þurfi ekki að losa erlendar eignir sínar næstu 30 árin að minnsta kosti eða yfir sama tímabil og erlendir gjaldmiðlar hafa 20 faldast í verði gagnvart íslensku krónunni þrátt fyrir gjaldeyrishöft.

Af hverju í ósköpunum gerði Þorgei Eyjólfsson fyrir hönd LV gjalmiðlasamninga rétt fyrir hrun upp á 93,2 milljarða króna eða mun hærri upphæð en erlendar eignir sjóðsins gáfu tilefni til?

Hvað og hverja var raunverulega verið að verja?

Braut forstjóri sjóðsins lög og samþykktir sjóðsins?

Tap sjóðsins vegna samninganna hleypur á tugum milljarða króna en hluta tapsins var skuldajafnað á móti kröfum sjóðsins í skuldabréfum bankanna en eftirstöðvar eru að mestu óuppgerðar í bókum sjóðsins og ríkir töluverð óvissa um endanlegt tap.

Þessi gjörningur, eins og þú bendir réttilega á Marinó, er því með öllu ókiljanlegur og er vísir að eitthvað miklu meira liggi þar að baki en við vitum.

Ragnar Þór Ingólfsson, 3.2.2012 kl. 13:34

3 identicon

Bendir þetta línurit, (sem ég "hnuplaði" úr grein eftir Ólaf Margeirsson og flíka í tíma og ótíma) til þess að við Íslendingar kunnum að fara út í arðbærar fjárfestingar?  Held ekki!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 13:42

4 identicon

Lífeyrissjóðirnir vita ekki neitt, allra síst um fjárfestingar.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 19:52

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég rakst á þennan hlekk á Facebook núna í morgun og datt í hug að pósta hann til þín þar sem þetta er um útgreiðslur úr lífeyrissjóðum.  Ef þessir útreikningar eru réttir þá getur maður ekki annað en velt ýmsu fyrir sér:

http://blog.eyjan.is/margrett/2012/02/02/hvad-vard-um-peningana-hans-afa/?fb_ref=.Tyw9TYpLsNt.like&fb_source=home_oneline

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 3.2.2012 kl. 20:23

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk, Arnór, ég var búinn að sjá hann.  Þessi saga sýnir bara hve illa hefur gengið að ávaxta sjóðina í gegn um tíðina.

Marinó G. Njálsson, 3.2.2012 kl. 20:47

7 identicon

Marinó.

,,Sögur"  segja að ,,stjórnarmenn"  í lífeyrissjóðum á almenna markaðnum séu með í höndunum neyðarboð frá íslenskum stjórnvöldum og íslenskum atvinnurekendum um afgreiðslu á gjaldeyrisbeiðni sem þú skrifar um, og þeir eiga að svara þessu fyrir mánudag  !

Þú ert magnaður að koma með það sem skiptir máli !

Hvar er allt fjölmiðlafólk að hugsa , það er endalaust verið að ræna úr lífeyrissjóðunum og það skrifar engin fjölmiðill staf um það !!!

Þetta sem er að gerast er eitt það síðasta áður en ríkið tekur alla peniga út úr almennalífeyriskerfinu og gerir það þar með ónýtt !

Það er verið að stela ,,lífeyrirnum"  frá þeim sem búin er að borga í áratugi !!!!

Svo er ,,lífeyrissjóðsskýrslan"  kapituli fyrir sig !

JR (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1680043

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband