Leita í fréttum mbl.is

Verðtryggður vandi í hnotskurn - 600 ma.kr. að láni, 685 ma.kr. í verðbætur á 14 árum

Framundan er borgarafundur í Háskólabíói undir heitinu Er verðtryggingin að kæfa heimilin? þann 23. janúar nk.  Verð ég þar með framsögu og mun fjalla bæði um fortíð og framtíð en einnig reifa hugmynd hvernig taka má á hluta fortíðarvandans.

Tilefni þessara skrifa er bæði fundurinn, en ekki síður póstur sem mér barst áðan.  Hann lýsir verðtryggðum veruleika allt of margra Íslendinga.  Í staðinn fyrir að endursegja efni póstsins, þá vil ég birta drjúgan hluta hans:

Ástæða þess að ég skrifa þetta e-mail til þín núna eru þessar undanfarandi vangaveltur mínar og til glöggvunar þá tók ég mið af eigin láni sem tekið er síðla árs 2004 þegar við hjónin keyptum eða stækkuðum við okkur íbúð og tókum 18.100.000.- íbúðalán með 4.2 % föstum vöxtum ásamt verðtryggingu. Lánið er tekið hjá Landsbanka Íslands.

Ég vil byrja á að taka fram að lánið er í skilum og hefur alltaf verið það. 

Það breytir ekki því að þegar ég skoðaði greiðsluseðil sem ég er með núna vegna greiðslu í janúar á þessu ári þá eru eftirstöðvar lánsins 29.600.000.- liðlega og hefur því hækkað um 11.500.000. á þessum 7 árum.

Til viðbótar þessu hefur verið greitt mánaðarlega í þessi 7 ár um 100.000,- kr að meðaltali (byrjaði í c.a 90 þús er nú í 109 þús) í þessi 7 ár eða c.a 8.400.000.-

Samanlögð hækkun ásamt greiddum afborgunum er því 19.900.000.- eða með öðrum orðum tvöföldun láns að viðbættum 1.800.000.- (þetta eru svona einfaldaðar og afrúnnaðar tölur allt saman ekki kr og aurar).  Skv. þessu þá er kostnaður minn við það að fá þessa peninga lánaða, um 19.900.000.- í þessi sjö ár eða með öðrum orðum þeir vextir sem hafa fallið á lánið frá 2004.  Og má því e.t.v. segja að vextir lánsins á þessum 7 árum séu 109 % (eða kostnaðurinn áf láninu er 109%). [Raunar 109,94%]

Hvernig getur svona lagað verið látið viðgangast?  Viðkomandi greiðir allar greiðslur eins og um er beðið, sem nema 46,4% af upprunalegri lánsfjárhæð og skuldar samt 63,5% umfram upprunalega lánsfjárhæð.  Eins og hann reiknar út, þá jafngilda afborganir, vextir og verðbætur fyrir þetta 7-8 ára tímabil 110% af upprunalegri lánsfjárhæð.

600 ma.kr. teknar að láni en 685 ma.kr. bæst á sem verðbætur

Verðtryggðar skuldir heimilanna við fjármálafyrirtæki voru um 1.285 ma.kr. í lok september á síðasta ári samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands.  Erfitt er að segja nákvæmlega til um hve stór hluti af þessari tölu er verðbætur (Seðlabankinn veit það, en gefur ekki upp), en hægt er að nálga töluna með einföldum hætti.  Seðlabankinn á tímaraðir sem sýna skiptingu lána heimilanna í verðtryggð lán, óverðtryggð og gengisbundin aftur til 31.12.1997.  Samkvæmt þeim voru verðtryggðar skuldir heimilanna 342 ma.kr. í árslok 1997 en komnar í 1.285 ma.kr. lok september 2011.  Hafa skal í huga að útlán nýju bankanna þriggja er á kaupvirði krafnanna úr gömlu bönkunum, þ.e. af frádregnum afslættinum sem bankarnir fengu, þannig að líklegast er verið að krefja lántaka um eitthvað hærri upphæð.  Til að reikna út hve háar verðbætur eru á hverju ári, þá tek ég stöðuna í árslok og margfalda með verðbólgu næsta árs.  Með þessari aðferð fæ ég út að verðbætur frá árslokum 1997 nemi rúmlega 685 ma.kr., þ.e. að af núverandi stöðu lánanna, séu 600 ma.kr. það sem tekið var að láni, en 685 ma.kr. eru verðbætur!

Nú væla einhverjir hagfræðingar og segja að fái maður einn hest að láni, þá eigi maður að skila hesti, eða hvernig þessi myndlíking er.  Mér sýnist aftur að ekki sé bara verið að skila einum hesti, heldur séu þeir ríflega tveir á 14 árum.  Sé farið lengra aftur í tímann versnar myndin.

Burt með verðtrygginguna

Í ótrúlega misheppnaðri skýrslu sem Gylfi Magnússon, þáverandi ráðherra, pantaði vorið 2010 um verðtrygginguna koma fyrir nokkrar kostulegar setningar.  Hér eru tvær:

Varðandi fjölbreytni fjárfestingarkosta þá má líta svo á að verðtryggð ríkisskuldabréf séu áhættulaus eign og að án þeirra sé enginn slíkur fjárfestingarkostur til staðar...

Fullyrða má að þau rök að verðtryggðir fjárfestingarkostir leiði til minni hættu á óviljandi eignatilfærslum sé rétt...

Skýrslan heitir "Verðtrygging á Íslandi - Kostir og gallar", en fjallaði bara um kosti hennar fyrir fjárfesta og ókostina fyrir fjárfesta, ef hún væri ekki til staðar.

Ofangreindar setningar segja allt sem segja þarf.  Lánveitendur vilja halda í verðtrygginguna vegna þess að þá þurfa þeir ekki að hafa fyrir lífinu og vegna þess að með henni á sér stað viljandi eignatilfærsla frá lántökum til lánveitenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo er það líka þannig að á meðan verðtryggingin er við líði er enginn hvati, og jafnvel þvert á móti, fyrir ríki og fjármálastofnanir að halda verðbólgu niðri.

Auðbergur Magnússon (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 16:42

2 identicon

bendi gjarnan á að við erum ekki að ganga í gegnum þennan "forsendubrest" í fyrsta sinn, síðla árs 1981 keypti maður á Akureyri hús og skuldaði í því um. 107.000kr.(ca. 65%) um mitt ár 1982 (ca. 7-8 mán. seinna) skuldaði hann yfir 500.000 lánið fimmfaldaðist á nokkrum mánuðum.....

ekki er ósennilegt að þetta hús seljist í dag á ca. 22 millur...... (fasteignamat)

í dag hefur verið greitt af láninu,

miðað við 500.000kr höfuðstól 1982,

10% verðbólgu að jafnaði síðan þá,

og 7% vexti,

tæpar 6 milljónir.....

EGB (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 17:06

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

EGB, að hlutirnir hafi einhverju sinni verið verri þýðir ekki að rétt sé að sætta sig við óréttlæti í dag.  Við þurfum miklu frekar að koma í veg fyrir að þetta óréttlæti endurtaki sig enn einu sinni.

Marinó G. Njálsson, 13.1.2012 kl. 17:11

4 identicon

Sem betur fer sættum við ekki okkur við allt sem okkur var boðið fyrir 30árum síðan.

Ég býð spenntur eftir svörum frá ESA varðandi þessi þjófakjör sem er verið að bjóða upp á hér á landi, bæði afturvirkar Árna Páls breytingar á gengistryggðu lánunum en ekki síður þrælahaldið sem þessi verðtrygging er.

Ég stórefast um að þetta þjófakerfi verðtryggingarinnar standist evrópureglur um neytendarétt þar sem lántakandi á rétt á að fá útprentaða greiðsluáætlun svo hann viti nákvæmlega hvað hann er að fara út í þegar hann tekur lán.

Hér á Íslandi er greiðsluáætlunin ekki pappírsins virði þar sem hún er orðiðn úreld strax og hún er prentuð út.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 17:22

5 identicon

Það er umhugsunarefni að fall fjármálakerfisins(hrunið) skuli ekki að neinu leiti rýra "verð" verðtryggðrar krónu.

Afturámóti eykst verðmæti verðtryggra króna geysilega miðað við kaupmátt launatekna.

Við það að fjármálakerfið féll eykst  virði verðtryggra eigna sem ættu í venjulegum markaði að rýrna.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 17:55

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Marinó. Skuldir heimilanna eru mjög áhugavert viðfangsefni á margan hátt, ekki bara upphæðirnar sem slíkar, heldur líka leyndin sem hvílir yfir því hvað þessar skuldir kosta. Eða ef maður lítur aðeins öðruvísi á þetta, leyndin yfir því hvað fjármálakerfið er að kosta heimilin í landinu mikið í gegn um verðtryggingu og vexti.

Ég lagðist í smá upplýsingaöflun og spurði nokkra aðila í tölvupóstum um verðbóta- og vaxtakostnað heimilanna á Íslandi og í ESB. Mig langaði að vita um hver þessi kostnaður er á Íslandi og sjá samanburð við ESB löndin. Þetta er ósköp hliðstætt við það hvernig haldið er t.d. utan um kostnað við ávexti og önnur matvæli og ýmislegt fleira. Slíkar upplýsingar er hægt að sjá hjá Hagstofu Íslands og Eurostat og víðar í upphæðum, prósentum af ýmsu tagi o.s.frv.

En þegar maður fer að athuga með fjármagnskostnað heimilanna eru litlar upplýsingar til. Ég spurði Hagstofuna, Seðlabankann, Alþjóðabankann, Samtök Fjármálafyrirtækja, Hagfræðistofnun Háskólans, Datamarket, London School of Economics og einhverja fleiri um þetta. Flestir hafa nú þegar svarið og vísað á að þeir safni ekki þessum upplýsingum eða bent mér á að þetta sé til á Hagstofnunni sem hins vegar er meðal þeirra sem segist ekki safna þessum upplýsingum.

Nú vitum við nokkurn veginn að verðbætur og vextir, kostnaður heimilanna vegna fjármálakerfisins, er með stærstu útgjaldaliðum heimilanna. Kannski sá stærsti í sumum tilvikum. Mér finnst mjög undarlegt að geta hvergi fengið réttar upplýsingar um þetta.

Miðað við það hve nákvæmum upplýsingum er safnað um útgjöld vegna útgjaldaliða sem skipta litlu sem engu máli, eins og t.d. ávexti, þá sýnist mér að þegar kemur að einum stærsta útgjaldaliðnum, fjármagnskostnaði, sé einhver spes leyndarhjúpur notaður til að byrgja okkur sýn á þann kostnað.

Þetta er bara enn eitt svínaríið í sambandi við fjármál, skjaldborgina, fjármálalæsið og hagsmuni heimilanna. Hvernig getur almenningur áttað sig á fjármálakerfinu og eigin fjármálum ef algjörlega er lokað fyrir upplýsingar og samanburð milli landa vegna útgjalda almennings til fjármálakerfisins?

Það þarf að gera eitthvað í þessu og reyna að fá tölurnar upp á yfirborðið svo hægt sé að tala um fjármagnskostnað út frá staðreyndum en ekki bara á fræðilegum nótum.

Jón Pétur Líndal, 13.1.2012 kl. 18:25

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

"@ EGB og Marió  

1980 - 1984  var hækkuna vísitölu aðalega vegna þenslu og laun hækkuðu í nokuð í takt við lánið og raunar meira . Þannig gekk ágætlega að bprga af þessum lánum þá.

2008 - 2012  Er hækkun vísitölunar aðalega vegna gengissigs krónunnar , laun fygja ekki með og veðinn lækka.

Þett er því ekki sambærileg á nokkurn hátt.

Guðmundur Jónsson, 13.1.2012 kl. 19:01

8 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

  Sælir. Er möguleiki að tengja verðtrygginguna við launastigann, t.d. við lægstu launin? Og síðan verði engar verðhækkanir nema eftir þeirri vísitölu.

Það er nú oftast verið að semja í kjaramálum til þriggja ára í senn, svo að ekki ætti að þurfa verða víxlverkanir á vísitölunni, eins og var upp úr 1980.

Jón Thorberg Friðþjófsson, 13.1.2012 kl. 20:06

9 Smámynd: Ívar Ingimarsson

Væri ekki besta búbót sem íslenskar fjölskyldur gætu fengið - lán á eðlilegum vöxtum án verðtrygginar?

Ef svo er og íslensk heimili hugsuðu bara um það sem væri best fyrir þau væri þá ekki innganga inn í Evrópusambandið auðveldasta leiðin af slíku takmarki?

Ívar Ingimarsson, 13.1.2012 kl. 22:50

10 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Frá jan 1997 til nóv 2011 hefur launavísitalan hækkað um 148%.  Það er því ljóst að verðtryggingin er ekki vandamálið.

Lúðvík Júlíusson, 13.1.2012 kl. 23:15

11 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ívar - það þarf ekki að vera samhengi á milli þessara 2 setninga sem þú skrifar hér. Þú skrifar þetta líklega án umhugsunar, gef ég mér.

Það eina sem vantar hér á Íslandi er ráðafólk sem hugsar- sýnir ráðdeild og ber hag allra fyrir brjósti.  Spilar úr því sem þjóðarbúið skilar af sér.-

Heiti á mynt skiptir engu máli - hún má heita"kartafla, tómatur eða hvað sem mönnum dettur í hug.

Eggert Guðmundsson, 13.1.2012 kl. 23:28

12 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Lúðvík. Hvað hefur neysluvísitala hækkað mikið á sama tímabili?

Eggert Guðmundsson, 13.1.2012 kl. 23:32

13 identicon

@Eeggert: Ca. 80%

hversemer (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 23:56

14 identicon

Það er gaman að sjá Lúðvík halda því fram hér að ofan að þar sem launavísitalan hafi hækkað meira en neysluverðsvísitalan frá 1997 þá sé verðbólgan ekki vandamálið. Vissulega er hún ekki eina vandamálið, þvi þegar við bætist ríkisstjórn eins og sú sem er við völd núna auk nánast ónýtrar stjórnarandstöðu og handónýts framkvæmdavalds að nánast öllu leyti þá er ástandið ekki björgulegt. Auk þess langar mig að benda Lúðvík á að lánastofnanir bæta áföllnum verðbótum við höfuðstól og verðbæta þær síðan aftur þannig að margföldunaráhrifin verða talsverð og prósentuhækkun vísitölunnar segir því ekki nema hálfa söguna. Vil ég því biðja varðhunda ríkisstjórnarinnar (eins og Lúðvík sem skrifar hér að framan)sem ekkert sjá nema flísarnar í augum Sjálfstæðis og Framsóknarflokanna að beina athyglinni að bjálkanum í eigin auga og setja ekki fram svona hálfsagðan sannleik.

Gott dæmi er lán eins og það sem nefnt er hér í póstinum sem hefur borið u.þ.b. 110% kostnað á 7 árum. Á þessum sama tíma hefur meðaltalsgildi vísitölu neysluverðs á ársgrunni farið úr 234,6 stigum í 377,7 stig sem er svona c.a. 60% hækkun og þá spyr ég hvar eru þessi 50% sem upp á vantar? Ég treysti því að Lúðvík sýni okkur fávísum sem  sjáum ekki birtuna sem HELferðarstjórnin boðar okkur, hinn rétta sannleika þannig að við getum farið að bera hina þyngdu skuldabagga okkar með brosi á vör.

kv. AK

Arnar (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 02:12

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það sem skiptir mestu máli í þessu öllu er kaupmáttaraukningin annars vegar og upphæð verðbóta hins vegar.  Upphæð verðbóta ræðst af verðbólgunni og hvernig gengur að greiða niður höfuðstól lánsins.  Þar sem flest verðtryggð lán eru þannig byggð upp, að upphæð afborgunarinnar er nánast á núlli fyrstu árin, þá leggjast mjög háar (hlutfallslega) verðbætur ofan á lánið.  Í mörgum tilfellum hefur fólk góða greiðslugetu, en verðbæturnar sem leggjast ofan á eru hærri en árslaun viðkomandi.  Eina sem getur vegið á móti þessu er kaupmáttaraukning.

Varðandi verðbólgu frá ársbyrjun 1997, þá er hún 116,4%.  Frá ársbyrjun 2000 er hún 97,4%.

Marinó G. Njálsson, 14.1.2012 kl. 02:25

16 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

AK... gaman að fá svona málefnalega gagnrýni.  Er málefnið ekki þess virði að það fái málefnalega umræðu?  Ég myndi halda það.

Eggert, eins og Marínó segir þá var verðbólgan frá ársbyrjum 19997 116,4%.  Þess vegna hafa laun hækkað umfram verðbólgu.

Ef einhver vill vita hver aðalástæða skuldavanda heimilanna er þá finnst hún hér frá 2004:

3. Að auki eru langtímaáhrif kerfisbreytinganna þau að skuldsetning íslenskra heimila eykst sem veldur því að hagkerfið endar á lægri neysluferli en ella. Þetta veldur áhyggjum í ljósi þess að skuldsetning íslenskra heimila er þegar orðin mjög há í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.


4. Fyrirhugaðar kerfisbreytingar gætu grafið undan fjármálalegum stöðugleika þar sem hækkun hámarksveðhlutfalls, sérstaklega við núverandi aðstæður tiltölulega hás húsnæðisverðs, getur aukið líkurnar á því að verðmæti húsnæðis sem hefur verið skuldsett að fullu lækki niður fyrir eftirstöðvar útistandandi lána þannig að eigið fé einstaklinga í eigin húsnæði yrði neikvætt. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga alvarleg vandamál sem af sams konar þróun hlutust í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar á flestum hinna Norðurlandanna og fólust m.a. í stórfelldum útlánatöpum lánastofnana. Yrði þróunin áþekk hér er líklegt að Íbúðalánasjóður yrði fyrir útlánatöpum og að reyna myndi á ríkisábyrgðina í skuldbindingum hans.

Lúðvík Júlíusson, 14.1.2012 kl. 08:28

17 identicon

Síðan ná ekki gleyma þeirri fölsun á víxitölunni sem viðgegst, vogunarsjóðir, íbúðalánasjóður, og ríkisbankinn, eiga ca. 2000 fullbúnar íbúðir, á höfuðborgarsvæðinu, sem þeir vilja ekki setja á markaðinn, til að forðast lækkun á fasteignamarkaðnum, þetta háttalag er náttúlega ekkert annað en fölsun á víxitölunni.

Haldór Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 10:18

18 Smámynd: Jón Þór Helgason

Lúðvik, þó að það hafi orðið 20%-25 kaupmáttaraukning frá 1997 en fasteignir hafa hækkað sennilega um 100% frá sama tíma. Og þegar verðbólguskotið kom fyrir 3 árum síðan miðastið greiðslugetan við þáverani verðlag. Kerfið var bara keyrt áfram á skuldsetningu.

Að horfa bara á verðbólgutölurnar og kaupmáttaraukninguna og segja að það sé allt í lagi er ekki rétt þar sem verðtryggininn hefur eyðilagt rekstargrunvöll heimilina.

1996 átti ég íbuð sem kostaði rétt um 3,8 milljónir. Mér sýnist að eg ég ætti hana í dag kostaði hún rétt um 9-10 milljónir.

Með laununum sem ég var með 1996 +30% gæti ég ekki greitt af henni í dag. Vaxtagreiðslurnar hækkuðu líka í samræmi við hækkun á höfuðstól.

Og að vísa í Íbúðarlánasjoð um ábyrgð hann í málinu er dálítill mikill kattarþvottur því að þú gast bara keypt þína fyrstu í búð með 100% fjármögnun. Fljótlega fóru bankarnir að bjóða lán fyrir aftan íbúðarlánasjóð til að fólk gæti keypt.

Það er eins og fjölmargir vilji gera íbúðarlánasjoð ábyrgan en ekki bankana.

ég man ekki eftir því að það væri talað um að bankarnir væru gagnrýndir fyrir að lána 80 í eignir sem voru verðmetnar á 40-60 milljónir.

Jón Þór Helgason, 14.1.2012 kl. 12:24

19 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Jón Þór, ég er ekki að segja að allt sé gott vegna þess að laun hafa hækkað meira en vísitalan.  Ég er að benda á að stjórnvöld tóku ákvörðun um að setja almenning í þessa stöðu sem hann er nú í vitandi hver áhrif verðtryggingarinnar væru.

Ábyrgðin er þess vegna ekki verðtryggingarinnar heldur stjórnvalda.

Ég er ekki að vísa ábyrgðinni á Íbúðalánasjóð heldur á stjórnvöld sem fara með hagstjórn í landinu og eru ábyrg fyrir henni en ekki Íbúðalánasjóður né bankarnir.

Lúðvík Júlíusson, 14.1.2012 kl. 13:10

20 identicon

Athyglisverð umræða. Mátti til með að henda inn nokkrum tenglum ;) Verðtrygging virðist valda óhóflegum launahækkunum og agaleysi því hún er sumpart ekkert annað en peningaprentun í sjálfu sér. Sennilega náum við ekki stöðugleika með krónu nema afnema verðtrygginu á neytendalánum og taka til í lífeyriskerfinu. Verðtrygging per se hjá fagfjárfestum og ríki er allt annað mál og bar OK.

Sjá nokkra tengla sem tengjast umræðunni að ofan: 

Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga
á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004. Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis:http://hallurmagg.blog.is/users/28/hallurmagg/files/a_dragandi_innlei_ing_og_ahrif_breytinga_-_prentlok_0.pdf

Ítarleg skýrsla IMF um húsnæðisbóluna. "Typical and average
LTV ratios on new loans are not representative for
guiding policies on financial stability purposes when
much higher LTV ratios are widely available." http://www.imf.org/external/pubs/ft/gfsr/2011/01/pdf/chap3.pdf

Húsnæðisverð hefur hrunið um allt að 60 % í Írlandi en þeir hafa evru ! BANKS will take back homes and tie struggling homeowners to years of repayments in return for writing off their mortgage debt:

http://www.independent.ie/business/personal-finance/latest-news/banks-will-take-back-homes-under-mortgage-writeoff-plan-2986613.htmlhttp://www.bloomberg.com/news/2011-10-06/irish-trophy-homes-lose-allure-as-property-millions-disappear.html

Og varla lagast þetta hjá Írum núna þegar vextir þeirra hækka !

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:29

21 identicon

Húsnæðisverð hefur hrunið um allt að 60 % í Írlandi en þeir hafa evru ! BANKS will take back homes and tie struggling homeowners to years of repayments in return for writing off their mortgage debt:

http://www.independent.ie/business/personal-finance/latest-news/banks-will-take-back-homes-under-mortgage-writeoff-plan-2986613.html

http://www.bloomberg.com/news/2011-10-06/irish-trophy-homes-lose-allure-as-property-millions-disappear.html

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 13:37

22 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ég hlustaði í gær á viðtalsþátt Jóns Magnússonar á Útvarpi Sögu. Þátturinn var endurfluttur, en ég skora á fólk að hlusta á þáttinn á heimasíðu stöðvarinnar. Gestur þáttarins var hagfræðingurinn Ólafur Ísleifsson sem fór mjög hörðum orðum um verðtrygginguna.... vonandi verður Ólafur einn frummælenda á  borgarafundinum í Háskólabíói þann 23. janúar  

Atli Hermannsson., 14.1.2012 kl. 14:31

23 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Atli, gerð var tillaga að Ólafi í pallborði, en niðurstaðan í bili varð önnur.  Hugmyndin er að halda fleiri fundi um svipað efni og er nafn Ólafs enn á blaði vegna þeirra.  Með því að smella á hlekkinn efst, þá getur þú séð hverjir flytja framsögu og hverjir til viðbótar eru í pallborði.

Marinó G. Njálsson, 14.1.2012 kl. 15:04

24 identicon

Takk fyrir ábendinguna Atli Hermannsson, afar góður útvarpsþáttur og góð greining á vandanum.

HA (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 20:38

25 identicon

Eggert - einmitt vegna þess sem þú skrifar;

 "Það eina sem vantar hér á Íslandi er ráðafólk sem hugsar- sýnir ráðdeild og ber hag allra fyrir brjósti.  Spilar úr því sem þjóðarbúið skilar af sér"

tel ég að auðveldasta leiðin fyrir heimili landsins til að losna við verðtryggingu og fá almennileg húsnæðislán sé að ganga inn í Evrópusambandið heldur en að bíða eftir þanni ráðafólki.

Ivar Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1681299

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband