6.11.2011 | 20:41
Er krónan vandamálið eða er hún birtingarmynd vandans?
Undanfarin á ár hafa ákveðnir hópar í þjóðfélaginu kappkostað við að lýsa krónunni sem mesta skaðvaldi þessarar þjóðar. Hafa menn horft dreymandi augum til evrunnar og inngöngu í ESB sem lausn á öllum okkar vanda. Nú síðast birtir Vilhjálmur Þorsteinsson, einn af æðstuprestum Samfylkingarinnar, opið bréf á ensku til "observer of Iceland". Þar vill hann skýra fyrir þessum aðilum það sem hann telur þá ekki vita.
Ég geri alvarlega athugasemd við eftirfarandi hluta af málflutningi Vilhjálms:
Our currency, the króna, has a dismal history of inflation and devaluation. Since the Icelandic króna was separated from its twin sister, the Danish krone, in 1920, it has depreciated by 99,95% against its counterpart. Yes, you read right: you now need 2200 (original) Icelandic króna to buy one Danish krone, coming from parity in 1920. (And it is not like the Danish krone has been a bastion of real value conservation in the meantime, either.) This trend is largely due to the tendency of politicians and economic policy makers to use the devaluation of the króna as a tool to subsidize exports by lowering domestic real wages and other costs. Again, this is caused by the closeness of the export especially seafood lobby to the political parties that have dominated our countrys government.
Mér finnst Vilhjálmur, eins og margir aðrir, lýsa krónunni, eins og hún sé hlutur með sjálfstæða hugsun. Vissulega talar Vilhjálmur um "stjórnamálamenn og þá sem móta efnahagsstefnu þjóðarinnar" og hann á að halda sig við það. Krónan er ekki vandamálið, frekar en bíllinn er vandamálið þegar ökumaður ekur of hratt. Vandamálið er að verður alltaf mannlegi þátturinn, þ.e. hagstjórnin.
Hvers vegna hefur krónan verið felld eins og Vilhjálmur lýsir? Jú, vegna þess að við höfum verið svo háð innflutningi og eina leiðin til að ná jöfnuði milli innflutnings og útflutnings hefur verið í gegn um vesalings krónuna. Vandamálið er því ekki krónan heldur viðskiptajöfnuður. Já, rétt er að nauðsynlegt hefur verið að fella krónuna til að gera útflutning samkeppnishæfan, en aftur er um einkenni að ræða, ekki sjúkdóminn.
Allt snýst þetta um getu hagkerfisins til að standa undir neyslu. Það gerist á tvo vegu: a) hægt er að nota innlendar auðlindir til að framleiða það sem þarf og koma því á markað; b) flutt er út innlend framleiðsla og þjónusta og hún látin greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu (til þjónustu telst fjármagnskostnaður). Ef hvorki innlend framleiðsla né útflutingur duga til að standa undir neyslu í hagkerfinu, þá verður meiri eftirspurn eftir gjaldeyri en framboð. Hefðbundið eftirspurnarlíkan segir okkur þá, að verð gjaldeyris hækkar, þ.e. virði krónunnar lækkar.
Vandamálið er sem sagt ekki krónan, heldur samspil innanlandsneyslu og innanlandsframleiðslu, þá fyrst og fremst ójafnvægi í vöruskiptum. Við eigum því að spyrja okkur, hvernig förum við að því að laga þetta ójafnvægi. Við gerum það eingöngu með því að auka verulega innanlandsframleiðslu um leið og við höldum aftur af innanlandsneyslu. Ég gæti svo sem reynt að lýsa helstu aðferðum við það, en læt það ógert.
Á árunum 1989 til 2008 voru vöruskipti neikvæð um 437 ma.kr. Það er margfaldur gjaldeyrisforði þjóðarinnar í lok september 2008. Síðustu tvo ár (þetta ekki tekið með) varð viðsnúningur upp á 210 ma.kr., þ.e. vöruskipti síðustu 22 ára voru neikvæð um 227 ma.kr. Það sem af er ári eru vöruskipti jákvæð um 81 ma.kr. Þjónustujöfnuður hefur líka verið jákvæður síðustu tæp þrjú ár sem nemur rúmlega 90 ma.kr. (tölur fyrir 3. ársfjórðung 2011 liggja ekki fyrir). Þá eru eftir afborganir lána og greiðsla vaxta, en þar hallar allverulega á.
Ef ójafnvægi verður áfram, eftir að nýr gjaldmiðill tekur við af krónunni, þá er eins gott að við verðum með góða peningaprentvél. Annars fækkar einfaldlega peningum í umferð ár frá ári, þar til að ekkert verður eftir. Ekki verður nóg að gefa út skuldabréf, því þau þarf að greiða.
Ég hef enga trú á því að krónan verði gjaldmiðill þjóðarinnar til langframa. Henni verður skipt út fyrir stærri gjaldmiðil innan 10 ára. Þangað til verðum við að gera það besta úr stöðunni, en fyrst og fremst verðum við að ná jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Annars fer fyrir okkur sem þjóð, eins og svo mörg heimili eru að upplifa. Skuldabyrðin verður meiri en tekjur standa undir. Leiðirnar út úr því er gríska leiðin eða leiðin sem Nýfundnaland fór.
Flokkur: Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 01:06 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 0
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þjóðir geta lent í vandræðum með hagkerfin sín hvort sem þau eru í ESB eða utan eða eru með eigin gjaldmiðil eða evru. Eina ályktunin sem hægt er að draga af því er sú, að Evra og ESB bjarga þjóðum ekki frá efnahagslegum ógöngum.
Í ljósi þessa er í raun ótrúlegt að hversu miklu leyti umræðan á Íslandi snýst um ESB og evru. Kjarni vandans liggur í efnahagsstjórninni og við komumst ekki hjá því að gera miklu, miklu betur í þeim efnum en við höfum gert, óháð því hvað gjalmiðillinn heitir.
Þórlindur Kjartanson var svo sem ágætur í Silfrinu í dag en rök hans fyrir því að ekki sé hægt að vera með krónu af því að við höfum brotlent með hana áður, duga ekki til þess að sannfæra mig um nauðsyn þess að taka upp aðra mynt. Með slíkum viðhorfum þá hefði mannkynið aldrei lært að fljúga eða að sigla. Og nú er svo komið fyrir okkur að við verðum að læra að "sigla" með krónuna því það er tæplega annað í boði í nánustu framtíð.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 21:38
Þórlindur þessi var með óskiljanlegar mótsagnir í málflutningi sínum og klikkti svo út með ví að segjast ekki vera neinn sérstakur talsmaður evru. Hann taldi að með einhverri ónefndri töframynt væri hægt að halda uppi háum kaupmætti á sama tíma og við værum í blússandi samkeppnishæfni á markaði. Taldi okkur geta verið að framleiða bíla og tölvur fyrir heimsmarkað, svona sem dæmi.
Þessi fyrrverandi SUS formaður var væntanlega að hugsa um Kínverska samkeppnishæfni í bland við Norskan kaupmátt. Það fylgdi þó ekki sögunni hvernig hann vildi koma þessu í kring. Hann var þó á því að krónan væri ekki besti vinur okkar í stöðunni, heldur þorskurinn.
Hvar finnur Egill þessa snillinga?
Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2011 kl. 21:54
Egill virðist raunar ekki lesa neitt annað en Eyjuna og velja viðmælendur sína þaðan.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2011 kl. 21:56
Það sem mér fannst unggæðingslegt í máli Þórlinds var þegar hann talaði um 90 ára reynslu af eigin gjaldmiðli sem væri slæm og þess vegna tímabært að skipta (eða e-ð í þá áttina).
Hér þarf að skoða söguna og þær stökkbreytingar sem orðið hafa á Íslensku samfélagi.
Íbúatala Íslands hefur þrefaldast frá því við tókum upp eigin gjaldmiðil. Þá var þjóðin ein sú fámennasta og fátækasta í Evrópu. Það tekur tíma að læra að vera ríki, læra að vera sjálfstæð. Að mennta menn til þeirra verka að reka samfélag.
Núna eru aðstæður allt aðrar. Aldrei hafa tækifærin verið meiri, menntunin fjölbreyttari eða veröldin minni. Bara netið er bylting. Fólk fer í þúsundum til annarra landa að sækja sér menntun, reynslu og almenna þekkingu.
Þótt fyrri kynslóðir hafi ekki kunnað önnur ráð en gengisfellingar og hrossalækningar gefur það okkur engan rétt til að svipta næstu kynslóð möguleikanum á að ráða málum sínum sjálf.
Ég hef mikla trú á unga fólkinu okkar. Að kynslóðin sem tekur við standi sig betur og sú næsta enn betur. Það má ekki setja komandi kynslóðir undir sama hatt og þingmenn á 5. og 6. áratugnum þegar starfstími þingsins var miðaður við sauðburð og réttir.
Það er bjargföst trú mín að framtíð Íslands sé miklu bjartari en bölmóður umræðunnar gefur til kynna ef við berum gæfu til þess að halda fullveldinu óskertu utan Evrópusambandsins.
Haraldur Hansson, 6.11.2011 kl. 23:43
Hvað með norsku krónuna? Ætti hún ekki að hækka upp úr öllu valdi vegna olíuúflutningsins?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.11.2011 kl. 23:44
Það er stór spurning hvaða tilgangi það þjónar að skrifa pistla fyrir útlendinga þar sem möguleikar Íslands til að stýra eigin gjaldmiðli eru endanlega afskrifaðir.
Það er nákvæmlega ekkert lögmál að hér verði sömu mistökin í peningamálum gerð aftur. Ef Íslendingar gætu ekkert lært af reynslunni, þá værum við enn í torfkofum.
Mistökin eru til að læra af þeim.
“I’ve missed more than 9000 shots in my career. I’ve lost almost 300 games. 26 times, I’ve been trusted to take the game winning shot and missed. I’ve failed over and over and over again in my life. And that is why I succeed.” — Michael Jordan
Frosti Sigurjónsson, 7.11.2011 kl. 00:05
Krónan er auðvitað ekki með sálfstæða hugsun , ekkert frekar er aðrir gjaldmiðlar. Það er alveg ljóst þegar texti Vilhjálms er lesinn. Krónan geymir verðmæti(nánar á að geyma verðmæti sem er ekki hægt er vextir eru raunkvæðir), krónan er reiknieining og hún er almennt viðkennd aðferð til að greiða skuld. Þetta stendur í öllum kennslubókum.Textinn sem Marínó vísar til er réttur svo langt hnn nær. Hann segir auðvitað ekki alla söguna. Ísland er lítið og opið hagkerfi. Fiskafurðir höfðu afgerandi vikt í útflutningi. Miklar sveiflur hafa verið í fiskverði og miklar sveiflur hafa verið í veiddu fiskmagni. Hér er að finna eina mikilvæga orsök verðbólgu. Við ytri áföllum eða offjárfestingum eða vitleysu í rekstri gátu Líú alltaf treyst á gengisfellingu. Þetta eru ekki beint aðstæður til að efla hagkvæmni og aga í rekstri.Þóðarbúið getur ekki eytt um efni fram(agaleysi) nema með því að taka erlend lán eða segja eignir. Fyrri leiðin hefur verið farin sem kunnugt er. Það er í lagi að taka erlend lán ef arður af fyrirhuguðum framkvæmdum borgar afborganir og eðlilegum hagnði. þetta dæmi verður landsvirku að reikna í hvert skipti sem farið er í virkanir.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 7.11.2011 kl. 08:11
Kristján Sigurður Kristjánsson: Norska krónan ER komin upp úr öllu valdi. Gengi hennar er orðið svo hátt að allar útflutningsgreinar, nema þær sem tengjast olíu- og gasvinnslu, dragast saman og það þarf ekki að minna á að olíuverð er með allra hæsta móti. Smásala stendur í miklum blóma og það hefur aldrei verið eins mikið að gera hjá fasteignasölum, byggingaverktökum og bílasölum. Fasteignaverð hefur rokið upp og almenningur hefur skuldsett sig ógurlega. Þetta er draumaástand fyrir okkur innflytjendurna sem ætlum okkur heim innan fárra ára, en Guð hjálpi þeim sem eru að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð.
Það má ekki gleyma því að gjaldmiðlar endurspegla ekki bara verðmætasköpunina í hagkerfinu. Þar spilar margt fleira inn í. Ég veit ekki hvort þú manst eftir deginum þegar tilkynnt var um 30% samdrátt í þorskveiðum/kvóta á Íslandsmiðum sumarið 2007. Þá hækkuðu hlutabréfavísitölurnar og krónan steig. Það mátti vera öllum ljóst að íslenska krónan var ekki í neinum tengslum við raunhagkerfið á Íslandi. Hinsvegar streymdu peningar inn í landið vegna þess að spekúlantar töldu sig geta grætt á vaxtamuninum á milli IKR lána og lána öðrum myntum. Þetta hækkaði gengi íslensku krónunnar langt upp fyrir það sem verðmætasköpun landsins stóð undir. Innflutningsverð lækkaði og útflutningsgreinunum blæddi.
Núna eru Norðmenn í svipaðri stöðu og við vorum á árunum fyrir hrun. Það streyma peningar inn í landið sem fyrst og fremst gagnast bankakerfinu en ekki raunhagkerfinu. Þessir peningar eru ekki notaðir til að fjárfesta í framleiðslu eða neinu sem skapar útflutningstekjur. Fyrst og fremst fjármagna innflutning og neyslu. Í því ástandi sem nú ríkir líta margir spekúlantar á Noreg sem öruggt stæði til að parkera peningunum sínum þangað til um hægist. Og þá er ekki gaman að vera seðlabankastjóri, lagsmaður. Hann ber ábyrgð á hagkerfi sem er ofhitnað og hagkerfi kælir maður niður með því að hækka vexti. En spekúlantarnir vilja dæla peningum inn í landið og þeim heldur maður í skefjum með því að lækka vexti.
Þetta ástand er náttúrulega tifandi tímasprengja. Það er erfitt að verja smámyntir gegn duttlungum alþjóðakapitalsins, hvað þá örmyntir.
Grímur Sæmundsson (Oslo) (IP-tala skráð) 7.11.2011 kl. 10:10
Vitið þið ekki hvað vandamálið er , hvort það er gjaldmiðill eða pólitík ?
Það er fólkið sjálft !!!
Það er sama hvað maðurinn er með miklar gráður úr háskólum, ef vinnan fer í það að skara bara undir eigið rassgat !!!
Hvers vegna er ástandið í íslensku þjóðfélagi eins og það er ?
Þar voru allir sérfræðingarnir, eins og Þórlindur, að skara undir eigið rassgat í boði Björgólfa en á kostnað okkar hinna !
JR (IP-tala skráð) 7.11.2011 kl. 20:18
Vandamálið við texta Vilhjálms er að hann hlutgerir krónuna sem geranda í hagstjórn. Bara "fyrirsögn" textans segir allt um þessa hlutgerningu.
Það hefur lengi verið talað um að við höfum farið leið verðbólgu í stað leið atvinnuleysis. Hefðu menn kennt krónunni líka um atvinnuleysið?
Eins og ég bendi á í mínum texta, þá eru hreyfingar krónunnar birtingarmynd peningamálastjórnunar annars vegar og hagstjórnar hins vegar. Það er því ákvarðanir á þessum tveimur sviðum sem hafa ákvarðað gengi krónunnar og valdið stórum hluta þeirrar verðbólgu sem við höfum mátt búa til í gegn um tíðina. Síðustu 20 ár sýna okkur að það er hægt að lifa við stöðugt verðlag og, ef við sleppum síðustu rúmum 16 mánuðum frá miðju ári 2007 til loka október 2008, stöðuga mynt. Ef krónan (og verðbólgan) hefði ekki þróast á þessum tíma, eins og hún gerði, þá værum við ekki að ræða þessi mál. Hvers vegna gerðist þetta? Jú, peningamálastjórnin og hagstjórnin kllikkaði gjörsamlega á árunum á undan. Samhliða stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar, þá ákvað Seðlabankinn að sleppa bönkunum lausum. Kárahnjúkavirkjun og álver var um 300 ma.kr. framkvæmd, en efnahagsreikningur bankanna blés út um hátt í 50 falda þá tölu frá 2003 til 2008. Þetta síðara er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að við erum hér að ræða um að krónan sé ómöguleg, þegar við eigum að beina sjónum okkar að Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnum Davíðs, Halldórs og Geirs.
Marinó G. Njálsson, 8.11.2011 kl. 12:14
Ég held, Marínó, að maður þurfi að setja á sig íslensku gleraugun til að geta talað um stöðugt verðlag og stöðuga mynt á árunum 87-07. Ég held að flestar aðrar þjóðir myndu kalla þetta ástand óstöðugleika. ;-)
En ef við hins vegar föllumst á að kalla þetta stöðugt gengi og verðlag, þá bendir þú sjálfur á hvað þurfti til að halda því gangandi og hverjar afleiðingarnar urðu að lokum!
Samt er ég ekki viss um að þetta geti verið neitt öðruvísi á Íslandi. Aðalatvinnuvegurinn er sveiflukenndur og við erum á fullu við að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið. Sumt lukkast og annað ekki, eins og gengur. Það býr svo til fleiri sveiflur. Í svona litlu hagkerfi verða allir atvinnuvegir sem eiga að geta spjarað sig í alþjóðasamkeppni óhjákvæmilega stórir á íslenskan mælikvarða.
Ég var að reyna að benda á það í innslaginu mínu á undan að það kemur fleira til en bara innlend hagstjórn þegar gengissveiflur eru annars vegar. Áhrif gjaldeyrismiðlara og annara miðlara og fjárfesta á afdrif smá- og örmynta má ekki vanmeta.
Grímur Sæmundsson (IP-tala skráð) 8.11.2011 kl. 14:08
Grímur, ég er að tala um 1991 - 2011. Árin 1987 til ársloka 1990 teljast til órólegudeildarinnar.
Ef menn skoða ýmsar myntir, sem teljast til hinna stóru, þá hefur óróleikinn í þeim verið engu minni en íslensku krónunni. Þannig hefur dollarinn sveiflast mjög mikið og sama á við um pundið, jenið og jafnvel evruna. Hvað varðar verðbólguna, að slepptu 2008 og 2009, þá er hún alveg hófleg, þó hún sé vissulega yfir meðaltali ESB landanna. Á þessum tíma skera þrjú ár sig úr, þ.e. 1991 (þannig að hægt væri að fá bjartari mynd með því að sleppa því), 2001 sem helgast af því að krónan var setta á flot og 2008 þekkjum við öll. Séu þessi 3 ár tekin út úr útreikning á meðalverðbólgu, þá reynist hún vera innan við 3,4% á ári, séu þau með er hún 4,6%. Mér finnst 3,4% verðbólga vera alveg þokkalegur stöðugleiki í íslensku sögulegu samhengi, meira að segja 4,6% er það.
Ef við skoðum samræmda vísitölu neysluverðs sem mæld er í öllum EES löndunum, Bandaríkjunum og Japan, þá kemur í ljós að á tímabilinu 1996 til 2005, þá var verðbólga á Íslandi sjö sinnum lægri en í Bandaríkjunum, þrisvar lægri en í Bretland og tvisvar sú saman, sjö sinnum lægri en í Grikklandi, Portúgal og á Spáni og sex sinnum lægri en á Írlandi. Vissulega er meðalverðbólgan hér fyrir þessi 10 ár hærri en í mörgum löndum í kringum okkur, en hún er lægri en í þremur af fjórum síðast töldu ríkjunum. Þannig að tal um stöðugleika hér á landi er ekki bara í sögulegu íslensku samhengi. Ljóst er að við erum ennþá ekki komin í hóp með Norðurlöndunum og mið-Evrópuríkjum á borð vð Þýskaland, Holland, Belgía og Frakkland, en á þessum árum vorum við nær þeim en flesta grunar.
Marinó G. Njálsson, 8.11.2011 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.