18.10.2011 | 11:22
Afslættir af lánum heimilanna og afslættir af íbúðalánasöfnum
Ennþá heldur hann áfram orða- og talnaleikur bankanna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa þráfaldlega spurt:
Hver var afslátturinn sem viðskiptabankarnir þrír fengu af lánasöfnum heimilanna þegar þau voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju?
Upplýsingar um þetta hafa verið margar og misjafnlegar. Skoðum hvað hefur verið sagt af mismunandi aðilum á mismunandi tíma:
1. Hagtölur Seðlabanka Íslands:
Samkvæmt upplýsingum sem Seðlabanki Íslands hefur safnað frá fjármálastofnunum í rekstri, þá lækkaði bókfært virði útlána innlánsstofnana um 447 ma.kr. milli talna í september og október 2008.
2. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir fyrstu endurskoðun, svo kölluð októberskýrsla:
Í skýrslunni er birt súlurit sem sýnir "gross and fair value of household debt" sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Ein súla sýnir "gross value" og önnur súla sýnir "fair value". Séu þessar súlur bornar saman, þá kemur í ljós að mismunurinn er rétt innan við 130 ma.kr. fyrir Íslandsbanka, rétt innan við 125 ma.kr. fyrir "New Kaupthing" og tæplega 113 ma.kr. fyrir "New Landsbanki". Alls gerir þetta ríflega 360 ma.kr.
3. Svari Árna Páls Árnasonar við fyrirspurn Árbjarnar Óttarssonar:
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, svaraði fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í byrjun október 2010 um yfirfærslu lánasafnanna. Þar greinir ráðherra frá því að bankarnir hafi fengið 90 ma.kr. afslátt af húsnæðislánum og 1.600 ma.kr. af lánum fyrirtækja.
4. Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna:
Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna kemur fram á blaðsíðu 30:
Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna..
Annars staðar í þeirri sömu skýrslu (bls. 21) segir að allar eignir hafi verið færð á milli bankanna með 45 til 53% afslætti en ekki er gefin sundurgreining á því hvaða afsláttur var gefinn af lánasöfnum sérstaklega.
5. Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar um afslætti á lánasöfnunm:
Í svari Steingríms J. Sigfússonar við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá því um miðjan september kemur fram að afsláttur sem Landsbankinn fékk var 79 ma.kr. á lánum heimilanna og 506 ma.kr. á lánum fyrirtækja. Íslandsbanki gefur bara upp heildartölu og er afslátturinn samkvæmt henni 425 ma.kr. Arion banki gefur ekki upp afsláttinn heldur bara virði lánasafna.
6. Kröfuhafaskýrslur slitastjóra Kaupþings:
Í Creditor Report Kaupþings voru framan af birtar upplýsingar efnahag nýja bankans. Eitt af því sem birt var voru upplýsingar um bókfært virði lánasafna sem færð voru frá Kaupþingi til nýja bankans og "impairments", þ.e. varúðarfærslu vegna lánanna. Lán viðskiptavina sem metin voru á 1.410 ma.kr. fengu á sig 954 ma.kr. "impairment" færslu, þannig að virði þeirra í nýja bankanum hefði því átt að vera 456 ma.kr. Í skýrslu fyrir september 2009 er hætt að birta þessar upplýsingar, en í staðinn greint frá því að lán að verðmæti 190 ma.kr. hafi verið færð til baka og af þeim hafi 90 ma.kr. verð óveðsett. Ekki er getið hver "impairment" hafi verið á þessum hluta, en gefum okkur að hlutfallið hafi verið hið sama þá gerir það128 ma.kr. og bingó við fáum 327,5 ma.kr. sem virði yfirfærðra lánasafna viðskiptavina, en það er nánast sama tala og gefin er upp í svari Steingríms til Guðlaugs Þórs.
7. Morgunblaðið 18.10.2011:
Í Morgunblaðinu í dag greinir Guðlaugur Þór Þórðarson frá því að afslættir bankanna á íbúðalánum hafi verið mjög mismunandi eftir bönkum, þ.e. 34% hjá Landsbankanum, 30% hjá Íslandsbanka og 23,5% hjá Arion banka. Þetta eru svo sem ekki nýjar tölur og voru m.a. birtar í fyrra sumar.
8. Fréttatilkynning Landsbankans 14.10.2011:
Landsbankinn segir í fréttatilkynningu sl. föstudag að bankinn hafi fengið 46 ma.kr. afslátt til að mæta útlánaáhættu af lánum heimilanna.
Hér er ég búinn að benda á átta mismunandi opinberar tölur um afslætti sem nýju bankarnir fengu eða virðast hafa fengið af lánasöfnum heimilanna (ýmist öll lán eða hluti þeirra) og fyrirtækjanna. Vandinn er að þessar tölur eru ekki samanburðarhæfar. Berum þær svo saman við "afskriftirnar" sem bankarnir segjast hafa framkvæmt á lánum heimilanna og þá vandast málið ennfremur.
Greinilegt er að fjármálafyrirtækin vilja ekki að starfshópur forsætisráðherra, þar sem ætlunin er að Hagsmunasamtök heimilanna eigi fulltrúa, taki til starfa. Af þeim sökum eru þau einstaklega viljug til að birta tölur einmitt núna. Málið er að tölurnar gera ekkert annað en að ýta frekar á að vinna hópsins fari í gang. Og hún væri farin í gang, ef ekki væri fyrir tregðu ráðuneytisins sjálfs að koma henni af stað. Ef allt er satt og rétt hjá fjármálafyrirtækjunum, þá er engin ástæða til að draga lappirnar lengur. Hefjum þessa vinnu strax og ljúkum henni svo fljótt sem auðið er.
Svigrúmið og hagnaður bankanna
Haft er eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, í Fréttablaðinu í morgun að svigrúmið sé búið. Ef svigrúmið er búið, hvernig skýrir bankanstjórinn þá út 163 ma.kr. hagnað bankanna?
Ég veit ekki hve margir vita það, en NBI hf. keypti haustið 2008 bréf af peningamarkaðssjóðum sínum fyrir um 50 ma.kr. Þar af voru 38 ma.kr. afskrifaðir strax. Ekki er hægt að líta á þennan gjörning á neinn annan hátt en gjafagjörning. Ef hann hefði ekki komið til þá hefði NBI hf. skilað 32 ma.kr. hagnaði fyrir fyrstu tæplega þrjá mánuði af líftíma bankans. Það gerir litlar 385 milljónir kr. á dag, hvern einasta dag frá 9. október til áramóta. Með þessum 38 ma.kr. þá væri hagnaður bankanna 201 ma.kr. frá stofnun til loka 2. ársfjórðungs á þessu ári.
Ég held að bankarnir séu ekki búnir með svigrúmið. Þeir þurfa bara að ákveða forgangsröðuina.
Loksins upplýst um afslátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.12.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 423
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Ég trúi ekki tölum bankanna, það hefur sýnt sig undanfarin ár að þeir ljúga ef þeir geta þannig að trú mín er engin.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.10.2011 kl. 12:29
Ef ég hef skilið Helga Hjörvar rétt í þingræðu í dag þá vill hann að Ríkisendurskoðun skoði allar tölur og upplýsi málið. Bankarnir njóta ekki mikils trausts( mildilega orðað) og þess vegna er nauðsynlegt að ábyrgur aðili taka málið að sér. Það er ljóst að stjórnvöld(Ríkisstjórn) hefur eða á að hafa allar tiltækar upplýsingar.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 14:26
Litlar líkur á því að ríkisstjórnin vilji segja satt og rétt frá.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.10.2011 kl. 14:37
Skill ekki hverja er verið að reyna að blekkja.
Bankarnir og ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru margsaga um þetta svigrúm.
Ef svigrúmið er búið, þá var greinilega ekki gert ráð fyrir að gengistryggingin væri ólögleg þegar þau lán voru metin yfir í nýju bankana, nema ríkisstjórnin hafi lofað nýju bönkunum ríkisábyrgð á rétta niðurstöðu fyrir dómstólum.
Síðan er það alveg vitað að hagnaður bankanna hingað til, sem er hátt í 200 miljarðar króna er nær eingöngu fenginn með því að meta lánasöfnin upp aftur, úr afsláttarverðinu og upp í það sem bankarnir ætla sér að innheimta af þessum lánum.
Þannig að bara í þessum froðu-exhel-bókhaldsbrellu ala 2007 hagnaði bankanna er strax 200 miljarða svigrúm til að koma lánamálum heimilanna í lag.
Síðan er það nú bara blákaldur raunveruleikinn að um 26 þúsund manns eru í alvarlegum vanskilum, og um helmingur heimilanna í landinu er tæknilega gjaldþrota, svo það er alveg tímabært að ræða hvaða svigrúm HEIMILIN hafa til að moka endalaust í þessa hít skipulagðra glæpasamtaka með ríkisábyrgð.
Það er nóg svigrúm eftir, bara spurning hvort það eigi að nota það til að hjálpa heimilunum að eindurheimta þýfið sem bankarnir stálu með skipulögðum glæpum frá degi 1 eftir einkavæðingu, eða hvort fólk ætli að sætta sig við fullyrðingar mútuþeganna á Alþingi að þýfi sé stjórnarskrárvarin eign glæpamannana og brotaþolinn eigi engan endurkröfurétt á eign sinni.
Ég tók 36miljón króna gengistryggt lán (50%) fyrir mínu húsi 2006, ég borgaði fullar greiðslur langt inn á árið 2009, yfir 300 þúsund á mánuði, lét svo frysta það og greiddi 170 þúsund á mánuði.
Ég fékk endurreikning á þessu láni í vor, lánið stendur eftir útreikninga samkvæmt þjófalögum Árna Páls í 54 miljónum og afborganir hafa þrefaldast, út 120 þúsundum á mánuði upp í 360 þúsund á mánuði.
Þetta er 80 miljón króna eign.
Ég hætti að borga í vor, enda sjálfhætt svosem, þar sem ég er ekki að fara að borga þrefaldar afborganir af húsinu í skaðabætur að upp komst um glæpi frjálsa.
Ég fékk svo nafnlaust bréf frá Dróma núna fyrir helgi að hann væri búinn að gjaldfella lánið, og ég hafi 10 daga til að millifæra á þá 54 miljónir ellegar gangi þeir að veðinu, sem er 80 miljón króna hús.
Ég hef sagt það hérna áður, og það stendur enn að ég mun rífa þetta hús ef enginn dómstóll hrindir þessum þjófnaði bankans og Árna Páls.
Ég ríf húsið, það er alveg á hreinu.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 16:26
Athyglisverð saga hjá þér Sigurður #1, sýnir vel veruleikafyrringu althingis þegar þeir samþykktu lögin.
Þessi lög, sem samin voru af samtökum fjármálafyrirtækja og lögð fram af Árna Páli "handbendi auðmanna"eru hrikalegur gjörningur, í krafti þeirra eru fjármögnunarfyrirtækin að rukka inn "skuldir" á samninga sem voru að fullu uppgreiddir árið 2007!
Það eru alltof mörg dæmi um hrikalegt óréttlæti til að svo megi standa!
Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 17:30
Ég sé að menn eru að velta fyrir sér hvers vegna afslættir bankanna voru svona mismunandi. Það liggur m.a. í hlutfalli gengistryggðra húsnæðislána í útlánum til heimila og ekki síður í því að Nýji Kaupþing alias Arion banki fékk bara hluta húsnæðislána í vöggugjöf. Hin komu ekki fyrir en tveimur mánuðum eftir 1 árs afmælið.
Mikið vildi ég að menn hættu þessari talnamengun og greindu satt og rétt frá. Ég er með lista af spurningum sem ég er alveg til í að leggja fyrir bankastjórana hver og einn og síðan birta samantekt svara þeirra hér á þessu bloggi.
Marinó G. Njálsson, 18.10.2011 kl. 19:26
Þessi umræða er öll afskaplega rugluð.
Bankarnir halda því fram að allur hagnaðurinn sé til kominn vegna endurmats fyrirtækjalána þrátt fyrir þær hrikalegu afskriftir sem fréttir hafa verið af undanfarin misseri í þeim flokki útlána.
Það virðist því vera að þeir sem mátu eignasöfnin yfir til nýju bankanna hafa ekki haft mikið vit á því hvað þeir voru að gera ef fullyrðingar bankanna um að allur afsláttur vegna einstaklingslánasafna sé búinn, og það án þess að varla sé hægt sé að finna nokkurn mann sem fengið hafi niðurfærslu sem talið getur.
Hér er margt sem þarf að útskýra.
gunnlaugur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 19:37
Skömmina er einvörðungu að leita hjá Hæstarétti. Það er engin von um að skömm fynnist hjá Árna Páli eða bönkunum.
Eggert Guðmundsson, 18.10.2011 kl. 22:05
Gunnlaugur, mér telst til að fjármálafyrirtækin hafi sett 33 ma.kr. í afskriftir og niðurfærslur aðrar en þær sem dómstólar skikkuðu þau í. Þetta væl í þeim er aumkunarvert. Ólafur Ólafsson fékk tvöfalda þá upphæð afskrifaða og hélt Samskipum! Geta þeir ekki alveg eins hengt út skilti þar sem segir: Almenningur er aular!
Marinó G. Njálsson, 18.10.2011 kl. 22:27
Eru menn búnir að gleyma því þegar Kjalar fékk afskrifaða tæpa 90 miljarða í fyrra (í eigu Ólafs Ólafssonar).
Þessi maður einn og sér er búinn að fá meira afskrifað af sínum skuldum en allur almenningur í landinu til samans.
Ekkert skuldaaðlögunargreiðslujöfnunar110prósentukjaftæði neitt á þeim bænum.
Bara skuldahreinsað, og ekki einu sinni reynt að sækja til hans arðinn sem hann tók út af bréfum sem hann borgaði aldrei fyrir.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 23:44
Nákvæmlega Marinó,
Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá að bankarnir eru að segja ósatt.
110% leið og aðrar leiðir sem tryggja að lán séu amk ekki færð neðar en þannig að tryggt sé að allar eignir séu teknar af fólki eru brauðmolarnir til almennings.
Er þetta matið sem bankarnir tóku íbúðalánasöfnin yfir á? 100-110% af eignavirðinu sem standa að baki tryggingu lánanna?
Gunnlaugur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 00:53
Nú þekkir þú þetta betur en ég, Gunnlaugur, en er það ekki rétt skilið að fjármálafyrirtæki má ekki fær til eignar kröfu sem stendur út af veðrými? Þ.e. það verður að færa varúðarfærslu vegna þess hluta kröfunnar sem eru umfram veðrýmið og þar með lækkar "eign" fyrirtækisins sem því nemur.
Marinó G. Njálsson, 19.10.2011 kl. 01:03
Það þarf ekki að vera, ef fjármálafyrirtæki metur sem svo að aðili sé fyllilega borgunarmaður fyrir kröfunni og efnasterkur að öðru leyti getur bankinn leyft sér að meta kröfuna hærra. Almennt séð í íbúðarlánum myndi ég samt sem áður ætla svo að tekið væri tillit til þess veðs sem að baki stendur og kröfur ekki metnar hærra en ákv. % af veðinu. Væntanlega tekið yfir einsleit lánasöfn frekar en að hvert lán sé sérstaklega skoðað.
það verður svo auðvitað að vera sanngjörn og eðlileg niðurfærsla á lánum og lánasöfnum.
Málið er það að 100 - 110% lán er ekki heilbrigt lán í lánasafni bankanna. Það er ekki alltaf eingöngu spurningin um veðið að baki láninu því það hlítur að skipta miklu máli hvort lántaki hafi greiðslugetu og greiðsluvilja. Slík lán þarf því væntanlega að færa meira niður vegna áhættu á greiðslufalli. Það þarf að færa lánin í þá stöðu að þau séu heilbrigð burt séð frá því hver afslátturinn var. Það má því ekki eingögnu missa umræðuna í það hvort afslættinum hafi verið skilað eða ekki.
Svigrúmið er alveg til staðar ef lánasöfnin eru réttilega niðurfærð miðað við eðlilega varúð sem maður skyldi ætla ef farið er að alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Ef svo er og miðað við birtan hagnað bankanna þá er umtalsverður slaki í því að færa niður lán einstaklinga, það getur bara ekki öðru vísi verið.
Lán sem er lækkað meira en sem nemur þessari svokallaðri 110% leið þarf minni niðurfærslu og er líklegra til að vera greitt. Svo einfalt er það.
Bankarnir ætla sér bara að hafa meira en það sem eðlilegt getur talist út úr lánunum og eru jafnvel búnir að gera samninga við gömlu bankana um skiptingu hagnaðar af umframinnheimtu og bónusa. Lykilatriði í því hlítur að vera að "segja ósatt" um það hvernig staða afsláttarreikninga er, þ.e. uppurnir, svo þeir geti óáreittir í framtíðinni náð markmiðum sínum. Reyna að standa af sér moldviðrið.
Gunnlaugur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 02:07
Sigurður #1
Getur þú haft samband við mig á hhs [at] hi.is ?
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.