Á síðustu dögum hafa birst fréttir um meintar afskriftir og niðurfærslur bankanna þriggja hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Samkvæmt efnahags- og viðskiptaráðherra þá hafa bankarnir þrír afskrifað 503 ma.kr. hjá fólki og fyrirtækjum og samkvæmt Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) hafa fjármálafyrirtækin fært niður skuldir heimilanna um 140 ma.kr. Samtals gerir þetta (þegar búið er að taka tillit til tvítalningar) 620 ma.kr. Þetta eru afskriftir og niðurfærslur frá því að nýju bankarnir voru stofnaðir (eða því sem næst). Á sama tíma hafa þessir sömu bankar skilað 120 ma.kr. í hagnað.
Það er aðeins til eitt orð um þessar meintu afskriftir: Skáldskapur. Eða ætti ég að segja: LYGI.
Þegar lán er afskrifað, eins og sagt er að bankarnir hafi gert, þá kemur það til gjalda í bókhaldi. Hafi bankarnir þrír afskrifað 620 ma.kr. og samt haft 120 ma.kr. í hagnað, þá þýðir það að þeir voru með 740 ma.kr. í hagnað fyrir afskriftir. Málið er að ekkert í bókhaldi fjármálafyrirtækjanna bendir til slíks.
Hvers vegna dettur Árna Páli Árnasyni að koma í ræðustól í Alþingi og leggja þar fram falsaðar upplýsingar? Eða hvernig dettur SFF að ljúga að almenningi um afskriftir sem hvergi sjást í bókhaldi bankanna þriggja? Er það kannski vegna þess, að flestir trúa öllu sem sagt? Mér misbýður stórlega háttsemi ráðherra og SFF. Logið er að fólki að nýju bankarnir séu svo góðir og séu að afskrifa í stórum stíl, þegar staðreyndin er að þeir eru óforskammaðir fjárplógar og eru að reyna að innheimta á hærra verði kröfur sem voru afskrifaðar í hrunbönkunum. Nýju bankarnir þrír keyptu kröfur, sem þegar höfðu verið afskrifaðar í hrunbönkunum. Nýju bankarnir þrír færðu kröfurnar til bókar hjá sér á hinu afskrifaða virði, en innheita þær eins og hrunbankarnir hafi ekki afskrifað þær.
620 ma.kr. afskriftir finnast ekki í bókhaldinu
Ekki þarf mikla hæfileika í að lesa ársreikninga til að sjá, að hvergi í ársreikningum bankanna þriggja er talað um 620 ma.kr. afskriftir. Eftir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar er ekki einu sinni að finna háar afskriftir vegna lækkunar lána. Nei, þegar betur er gáð, þá greina allir bankarnir frá því að afskriftir lána hafi farið fram í hrunbönkunum og að bókfært virði í nýja bankanum eigi ekkert skylt við bókfært virði fyrir afskrift í hrunbankanum.
Hvers vegna er þá verið að telja fólki trú um að bankarnir hafi afskrifað svona mikið? Jú, til þess að láta þá líta vel út, þegar fáránlegar hagnaðartölur líta dagsins ljós. Hagnaðartölur sem eru byggðar á því að bankarnir eru að færa til tekna að þeir eru hækka bókfært virði lána viðskiptavina. Sé þetta skoðað nánar, þá er þetta óheyrileg ósvífni og spurning hvort hér sé ekki um lögbrot að ræða. A.m.k. er þetta gjörsamlega siðlaust.
Dæmi um ósvífni bankanna
Hér er tilbúið en dæmigert dæmi um ósvífni nýju bankanna.
30/9/2008 er bókfært virði láns í einum af bönkunum þremur 40 m.kr.
9/10/2008 er þetta lán fært niður í bókum bankans í 20 m.kr. Sama dag er það fært yfir í nýja bankanna á 20 m.kr. og hann tekur á móti á sig 20 m.kr. skuldbindingar vegna innstæðna.
1. nóvember fær lántakinn sendan greiðsluseðil frá nýja bankanum og þar kemur fram að eftirstöðvar lánsins séu 40 m.kr., ekki 20 m.kr. eins og lánið er skráð í bókum bankans. Þessar 20 m.kr. sem þarna munar koma hvergi fram í bókhaldi bankans, a.m.k. er þær ekki að finna í ársreikningi vegna 2008. Hvernig getur bankinn innheimt það sem ekki er til í bókum bankans? Ef til væri varúðarfærsla þar sem 20 m.kr. mismunurinn væri færður, þá væri ekkert hægt að segja, en hún er ekki einu sinni til.
Við endurmat á láninu árið 2009 er metið að 24 m.kr. fáist greiddar af láninu. Bókfært virði lánsins er hækkað og hækkunin talin til tekna.
Við endurmat á láninu árið 2010 er metið að 28 m.kr. fáist greiddar af láninu. Bókfært virði lánsins er hækkað og hækkunin talin til tekna.
Árið 2011 fer viðkomandi lántaki í gegn um 110% leið bankans og fundið er út að 110% af eignum lántakans er 32 m.kr. Bókfært virði lánsins er hækkað og hækkunin talin til tekna. Jafnframt er mismunurinn á stöðu lánsins, sem núna er komið í 44 m.kr., og 32 m.kr. fært reiknað á einhverjum hliðarreikningi sem afskrift.
Þannig hefur bankinn fengið 12 m.kr. í hagnað af láninu, en segist jafnframt hafa afskrifað 12 m.kr. af sama láni (þó það komi ekki fram í ársreikningi).
Svona verður hagnaður bankanna til. Hann fæst með því að innheimta lán sem afskrifuð höfðu verið í hrunbankanum eins og þau hafi aldrei verið afskrifuð. Síðan er allt sem hægt er að fá aukalega út úr láninu, fært sem hagnaður. Til þess að hagnaðurinn líti ekki of illa út, þá er jafnframt greint frá því að restin hafi verið afskrifuð. Sem sagt í annað sinn eru sömu krónurnar "afskrifaðar" af sama láninu.
Afslátt skal skila til viðskiptavinarins
Dómstólar hafa komist að því, að svona hátterni brjóti í bága við lög. Fyrir nokkrum árum ætlaði kona nokkur að kaupa vöru af fyrirtæki, en verktaki sem vann fyrir hana bauðst til að kaupavöruna fyrir konuna. Verktakinn fékk góðan afslátt af vörunni, en lét konuna greiða fullt gjald, sem auk þess var hærra en það verð sem fyrirtækið hafði boðið konunni. Hún fór í mál og niðurstaða var að verktakanum bar að framselja afsláttinn til konunnar.
Margt er líkt í þessum málum. Hrunbankarnir afskrifuðu lán áður en þau voru flutt yfir í nýju bankana. Lántakinn er neyddur til að eiga viðskipti við nýja bankann, þó svo að hann hefði mögulega geta fengið hagstæðari kjör hjá hrunbankanum. Nýi bankinn telur sig eiga rétt á að innheimta lán á fullu verði, þrátt fyrir afskrift hrunbankans, afskrift sem kom nýja bankanum ekkert við, þar sem hún er framkvæmd í bókhaldi hrunbankans.
Nær ómögulegt er fyrir einstaka lántaka að höfða mál vegna lána sinna. Nýi bankinn getur alltaf borið fyrir sig, að þetta tiltekna lán hafi ekki verið afskrifað hjá hrunbankanum vegna þess að afskriftir fóru ekki fram lán fyrir lán, heldur eftir mun einfaldari forskrift. Eina leiðin til að hnekkja þessu væri, ef allir lántaka hvers banka fyrir sig tækju sig saman og færu í mál. Ólíklegt er að það gerist.
Hvers vegna ber Árni Páll lygar fyrir Alþingi?
Greinilegt er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er í slæmum málum. Hlutirnir hafa ekki gengið eins vel og hún og Steingrímur J. hefðu óskað. Þess vegna er farið út í það að bera á borð almennings og það sem verra er, þingsins alls konar skreyttar upplýsingar. 503,3 ma.kr. afskriftir er svaka flott tala, en málið er að hún er lygi. Þessar afskriftir fóru ekki fram 2009 og 2010, eins og efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrðir í svari sínu. Þær fóru að mestu fram í október og nóvember 2008 í bókum hrunbankanna. Langstærsti hluti upphæðarinnar rataði ALDREI inn á eignarhlið bókhalds nýju bankanna. Málið er að ráðherrann kemst upp með að bera þessa vitleysu fyrir þingið vegna þess að þar kveikir enginn á vitleysunni. Og ekki eru fjölmiðlar skárri. Þeir eru hættir. Búnir að gefast upp. Nenna ekki lengur að fletta ofan af lyginni og blekkingunum. Birta tölur gagnrýnilaust af því að þeir nenna ekki öðru eða vegna þess að annars verða þeir ekki lengur í náðinni hjá ráðherrum og ríkisstjórn. Meðan fjölmiðlar leyfa ráðherrum og SFF að vera bull og lygar á borð, þá halda þessir aðilar áfram að bulla og ljúga. Hættið þessari meðvirkni og segið hinum forföllnu lygurum að orð þeirra séu ekki marktæk, þar sem þau innihaldi bara blekkingar, hugaróra og lygar. Hversu oft sem einhver segir að svart sé hvít, þá breytir það því ekki að svart er ekki hvítt NEMA að við leyfum þeim að breyta staðreyndum og hliðra til sannleikanum.
Stjórnvöld og SFF komast upp með að beita blekkingum eða ljúga að okkur vegna þess að við sem hlustum erum meðvirk. Það er okkar að segja: "Stopp við tökum ekki meiru af þessu bulli, segið okkur sannleikann." Því meðan það er ekki gert, þá hættir hinn óforbetranlegi lygari ekki að ljúga að okkur.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 1681235
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta var mjög gott hjá þér Marinó. Ekki geta allir gert svona samanburð og komið þannig fram með staðreyndir.
Andrés.si, 9.9.2011 kl. 01:50
Ég furða mig líka á gagnrýnisleysi fjölmiðla yfir höfuð, hvernig á Alþingi virðist hægt að segja hvað sem er og komast upp með það.
Þetta er stórmál og það er hunsað af flestum fjölmiðlum.
Hvers vegna?
Hrannar Baldursson, 9.9.2011 kl. 05:30
Áhugaleysið gagnvart þessu er merkilegt og vert rannsóknarefni. Getur verið að fólk sé einfaldlega búið að gefast upp, finnst þessi mál leiðinleg og nenni þessu ekki lengur?
Ef þú kíkir á fyrirsagnir á öðrum bloggum, lítur út fyrir að ekki sé mikið um bloggara heldur sem kippa sér upp við þetta.
Þakka þér fyrir að halda baráttunni áfram gegn þessu vel falda, en jafnframt augljósa ranglæti, sem mig grunar að muni verða samfélaginu ansi dýrt á endanum sé ekki brugðist við strax.
Hrannar Baldursson, 9.9.2011 kl. 05:35
Eins og venjulega - mjög góð grein hjá þér Marinó!
Hrunið virðist engu hafa breytt í siðferði bankafólks, embættis- og stjórnmálamanna.
Sumarliði Einar Daðason, 9.9.2011 kl. 09:02
Sæll Marínó,
Varðandi afskriftir er mikilvægt að átta sig á því að rétt eins og þú segir þá er bönkum víst heimilt (hafa sérstaka lögbundna heimild) til þess að innheimta kröfur sem þeir hafa þegar afskrifað, ólíkt öðrum og venjulegum fyrirtækjum. Ef fyrirtæki A sér ekki fram á að fá kröfu greidda, t.d. vegna gjaldþrots skuldara, afskrifar fyrirtækið kröfuna og hættir jafnframt innheimtu. Þegar um banka er að ræða er krafan bæði afskrifuð eins og hjá venjulegu fyrirtæki en jafnframt heldur bankinn áfram að innheimta kröfuna (hvernig sem það er svo sem gert).
Ég gerði tilraun til þess að kæra einn bankann fyrir þetta til FME en FME neitaði að taka á móti kærunni. En benti mér hins vegar á að þessa sérstöku reglu fyrir fjármálafyrirtæki.
Skúli Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.9.2011 kl. 09:18
Þessari ríkisstjórn verður seint fyrirgefið hvernig hún hefur staðið að málum með blekkingum, lygum og svikum. Það sem er einna verst er hvað hún hefur gert þjóðina að mikilli doðahjörð. Öllum virðist slétt sama meðan það eru ekki þeir sem eru í línunni. Þessum doða fylgir held ég einnig doði í greiðsluvilja, hitti sífellt fleiri sem ætla sér bara að sjá hvernig þetta rúllar og koma sér svo úr landi.
Það verður að koma rétum skilaboðum áleiðis þann 1. október í fjöldamótmælum.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 9.9.2011 kl. 09:19
Góður pistill.
Hvers vegna er umboðsmaður skuldara ekki að bera þessar upplýsingar á borð almúgans? Ég bara spyr.
Kristján Kristjánson (IP-tala skráð) 9.9.2011 kl. 09:57
Skúli, en er fjármálafyrirtæki heimilt að innheimta afskrift sem annar aðili framkvæmdi? Þ.e. getur fjármálafyrirtækið hagað sér eins og hrægammur og keypt afskrifaðar kröfur annarra og rukkað þær. Þetta er spurningin. Ég efast ekkert um að fjármálafyrirtæki, eins og hver annar getur keypt kröfur á þriðja aðila með afslætti frá upprunalegum kröfueiganda, en samkvæmt öllum þeim opinberu gögnum sem ég hef séð um lán heimila og fyrirtækja, þá voru þau afskrifuð í bókum hrunbankanna.
Marinó G. Njálsson, 9.9.2011 kl. 10:01
Marínó eins og ég skil þetta þá er afskrift fyrst og fremst bókhaldsleg aðgerð. Krafan sem slík hverfur ekki við afskriftina, heldur er fyrirtækið (bankinn) einungis að viðurkenna að verðmæti kröfunnar sé ekkert (þ.e. að það muni ekki fá kröfuna greidda). Krafan sem slík hættir ekki að vera til við það að hún er afskrifuð (þó að öll umfjöllun fjölmiðla og annarra sé á þann veg). Hjá venjulegum fyrirtækjum lýkur því innheimtuferlinu þegar krafan hefur verið afskrifuð (enda telur fyrirtækið að það muni ekki fá kröfuna greidda).
Framselji fyrirtæki afskrifaða kröfu til annars aðila (væntanlega gegn greiðslu) yrði væntanlega að finna einhvern sem er tilbúinn til þess að kaupa hina verðlausu kröfu og tekjufæra kaupverðið.
Ég veit ekki til þess að það sé bannað að framselja kröfu og innheimta.
Framkvæmdin er hins vegar í hæsta máta óeðlileg. Kröfur á t.a.m. gjaldþrota einstaklinga eru dráttarvaxtareiknaðar daglega jafnvel þó að banki/nn sé búinn að afskrifa kröfuna. Það er jafnvel bætt innheimtukostnaði ofan á hina afskrifuðu kröfu á hinn gjaldþrotamann. Dæmi einstaklingur sem var gjaldþrota árið 2007 og skuldaði þá 22 milljónir er í dag sagður skulda 50 milljónir. Þ.e.a.s. krafa banka á hendur gjaldþrota einstaklingi er bókfærð í bankanum á 0 krónur, en bankinn er engu að síður að krefjast greiðslu upp á 50 milljónir. Og til þess að bæta gráu ofan á svart er bankinn sjálfur að innheimta kröfurnar og Motus er líka að innheimta hluta kröfunnar. Þeim ber svo ekki saman um það hver krafan (skuldin) er.
Ég er algerlega sammála því sem þú segir Marínó þessi framkvæmd bankanna og sérstaklega í ljósi víðtækra bókhaldsæfinga sem bankar og fjármálafyrirtæki sýndu hér fyrir hrun er algerlega ólíðandi.....en trúlega ekki ólögleg!
Skúli Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.9.2011 kl. 10:25
DIRECTIVE OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL
on credit agreements relating to residential property
(Text with EEA relevance) Brussels, 31.3.2011COM(2011) 142 final
2011/0062(COD)
http://www.europolitics.info/pdf/gratuit_en/291224-en.pdf
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 9.9.2011 kl. 10:43
ég held skv gjaldþrotalögum megi kröfugreiðandi kaupa á sama verði og hún er seld á til 3 aðila.
ég þekki þessi lög ekki nægilega vel til að útlista þetta.
Jón Þór Helgason, 9.9.2011 kl. 12:52
Það eru því miður of margir sem treysta á að Hagsmunsamtök heimilanna, Samtök lánþega með Guðmund Andra í fararbrjósti, Björn Þorri, Marinó, eða fleiri ónefndir aðilar klári málið. Það vantar fleiri á árarnar til að leita réttar síns, fara til lögfræðinga með sín mál, höfða mál, eða kæra til lögreglu og saksóknara framferði þessara fyrirtækja. Ég veit ofurvel hversu tímafrekt svona undirbúningur er því ég hef verið með rúmlega 20 blaðsíðna erindi í smíðum síðan í vetur vegna viðskipta minna við eitt fyrirtækið en gengur hálfilla að reka endahnútinn á svo ég sé 100% sáttur til að setja það frá mér. Og þá eru ótalin fylgigögn. Í skjalinu eru nafngreindir 17 aðilar sem ég tel að eigi sök á stöðunni eins og hún er í mínu máli, og vonandi get ég farið að koma því til sérstaks saksóknara.
@Hrannar: Það er alveg rétt að fjölmiðlar sýna þessum málum lítinn áhuga núorðið. Enda skiljanlegt því öllum leiðast sömu fréttirnar dag eftir dag. Og meðan stjórnvöld ætla ekkert að gera í málunum mun það ekki breytast. Ég held að til sé fjöldi fólks sem hefur áhuga að tjá sig um þetta en á meðan engar eru fréttirnar verður útbreiðslan minni. Ég þekki þetta af eigin kveinstöfum á mínu bloggi; ef þær tengjat ekki fréttum beint eru heimsóknir mun færri en annars.
@Skuli: FME er gagnslaust fyrirbæri því öll þessi brot fóru fram fyrir framan nefið á þeim. Stofnunin er því meðsek og óhæf með öllu að taka á málum. Ég sendi þeim ítarlegt erindi á apríllok 2010 og spurði hvernig SP-Fjármögnun hf. gæti átt viðskipti með erlendan gjaldeyri án þess að starfsleyfi þess sem fjármálafyrirtækis endurspeglaði slíka heimild eins og lög gera ráð fyrir. FME ýtti þessu erindi á undan sér um langa hríð, en eftir langa mæðu, ítrekanir með tölvupóstum, símhringingum og loks bréfi til stjórnarformanns FME kom stutt og órökstutt svar:
„Við nánari skoðun Fjármálaeftirlitsins á ábendingu yðar, sem vísað er til hér að framan, þótti ekki tilefni til þess að aðhafast frekar á grundvelli hennar.“
Þetta er lítið annað en yfirklór og hef ég nú kvartað til Umboðsmanns Alþingis og óskað mat hans á svona stjórnsýslu.
Erlingur Alfreð Jónsson, 9.9.2011 kl. 13:31
Ég tek undir orð þín Marinó og fleiri svo sem Erlings hér að ofan. Framferði fjármálafyrirtækja er með ólíkindum, framkoma Árna Páls er ólíðandi sem og ólögin sem hann setti fyrir jól og svona mætti lengi telja. Ljóstýran er hvað ESA muni segja um þann gerning. Hefur umboðsmanni alþingis verið spurður að hvort ólög ÁP standist? Mér er kunnugt um fleiri lántaka sem eru enn að bíða eftir ögn af réttlæti hvað varðar endurútreikning gengistryggðu lánanna. Sjálf hefði ég mikinn áhuga t.d. að komast í samband við fleiri sem hafa mótmælt gagnvart Frjálsa fjárfestingabankanum svo við gætum borið saman bækur okkar.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2011 kl. 14:22
Þ.e. getur fjármálafyrirtækið hagað sér eins og hrægammur og keypt afskrifaðar kröfur annarra og rukkað þær. Þetta er spurningin.
Svarið er einfalt: Já, þannig hafa fjármálafyrirtækin sýnt að þau geti hagað sér. Það þýðir hinsvegar ekki að þeim sé það heimilt.
ESA hefur úrskurðað að samkvæmt banni EES-samningsins var óheimilt að greiða hærra en markaðsverð fyrir lánasöfnin, og markaðsverðið á þeim tíma er skilgreint sem yfirfærsluverðmætið eða ca. 50%. Ef ríkið leggur blessun sína yfir og heimilar bönkunum að selja þær á dýrara verði en það er um ríkisstuðning að ræða sem er óheimill samkvæmt EES-samningnum.
Auk þess hlýtur það að vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár að bankinn fái að kaupa lánið þitt á hálfvirði en ekki þú sjálfur.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.9.2011 kl. 14:24
Fantagóð færsla Marinó!
Gunnar Skúli Ármannsson, 9.9.2011 kl. 18:19
Góð grein Marinó.
Það má kannski hnykkja á því að tilgangurinn með því að sýna hagnað í bókum bankanna er að gera þeim kleift að greiða út arð. Þannig ná kröfuhafar (eigendur bankanna) að flytja peninga löglega út úr þeim. Vegna þess að hagnaðurinn er ekki raunverulegur heldur bara léleg bókfærsla svipað og var með hagnað þeirra fyrir hrun þá stefna bankarnir hraðbyr í annað hrun og við almenningur verðum aftur að takka skellin.
Af hverju er þetta látið viðgangast ? jú það er einfaldlega vegna þess að þeir sem stjórna skilja þetta ekki.
Guðmundur Jónsson, 9.9.2011 kl. 21:13
Hér er spurt af hverju fjölmiðlar fjalli ekki um þetta mál ofan í kjölinn.
Hafa fjölmiðlarnir ekki þegið afskriftir hjá bönkunum í milljarða vís? Varla fara þeir þá að hrista rjáfur bankanna og styggja í leiðinni. Ömurlegt alltsaman og ekki síst það að ríkisstjórnin hafi neitað að leiðrétta skuldir þegar bankarnir sýndu vilja til þess!
Soffía Helgadóttir (IP-tala skráð) 9.9.2011 kl. 21:44
Alltaf góður Marinó en þessi skýra og frábæra úttekt á svikum bankanna ásamt lýsingunni á aðgerðarleysi fréttamiðla og aumingjaskap ríkisstjórnarinnar hittir svo beint í mark á svo skýran hátt að þetta blogg ætti að vera skyldulesning í öllum skólum landsins. Að ég tali nú ekki um að það þyrfti einhver að taka að sér að lesa þetta fyrir Jóhönnu og Steingrím áður en þau sofna á kvöldi þangað til þau skilja málið og alvarleika þess fyrir íslenska þjóð.
p.s. Skúli það getur ekki verið að það megi innheimta ólöglega kröfu eins og búið er að dæma gengislánin, við megum ekki gleyma því að það var ekki lagaheimild fyrir upprunalegu kröfunni og að öllum líkindum verður sá gjörningur að reikna afturvirka vexti frá lántökudegi líka dæmdur ólöglegur á endanum.
Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 9.9.2011 kl. 22:51
Nú skal tekið fram, að ég er ekki að saka bankana um að gefa rangar upplýsingar. Þeir eru einmitt mjög góðir í að gefa réttar upplýsingar í ársuppgjörum sínum og árshlutauppgjörum. Það eru stjórnvöld og SFF sem eru að skálda. Þessir aðilar eru að snúa tölum upp í andhverfu sína.
Bankarnir viðurkenna að lánasöfnin séu af tilteknu virði, þeir færa hóflegar upphæðir inn á varúðarreikninga og taka hóflegar upphæðir út af þeim sem eru gjaldfærðar. Bankarnir meira að segja tekjufæra þá virðisaukningu sem þeir telja vera á lánasöfnum. Í raun er aðdáunarvert hversu opinskáir bankarnir eru í uppgjörsskýrslum sínum. Það er einmitt út af þessari hreinskilni bankanna, sem ljóst er að SFF og Árni Páll eru ekki að greina satt og rétt frá.
Í svari Árna Páls segir að "Fjármálaeftirlitið, og eftir atvikum Seðlabanki Íslands, safna upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum" og er "í svarinu byggt á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu". Áfram segir í svarinu:
Með þessu afmarkar Fjármálaeftirlitið svörin við allar afskriftir tveggja banka árið 2008 og þriggja banka árið 2009-2010. Það er náttúrulega hámark aulaskapar FME að skoða ekki opinber gögn áður en svona svar er gefið. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra afskrifuðu hrunbankarnir lánasöfn sín um háar upphæðir. Á bls. 17 í skýrslu ráðherra er tiltekið að 21.10.2008 hafi lánasöfn Arion banka verið upp á 455,5 ma.kr., hjá Íslandsbanka var talan 15.10.2008 631,4 ma.kr. og 739,4 ma.kr. hjá Landsbankanum hinn 8.10.2008, alls gerir þetta 1.826,3 ma.kr. Á bls. 21 er síðan sagt að óháð mat á eignum yfirfærðum til nýju bankanna hafi verið á bilinu 1.880 - 2.204 ma.kr., sem er talsvert lægri talan en sú að ofan, þar sem hér eru allar eignir taldar með. Nafnverð þessara eigna hjá hrunbönkunum var 4.000 ma.kr. Á bls. 32 eru síðan birtir "endanlegir stofnefnahagsreikningar nýrra banka" og þá hafa tölurnar breyst í 324,7 ma.kr., 482,6 ma.kr. og 655,7 ma.kr. eða alls 1.463,0 ma.kr., lækkun um 363,3 ma.kr. Hvergi er í stofnefnahagsreikningum talað um varúðarfærslu vegna lána eða neitt sem gefur til kynna að einhverja duldar eignir séu til. Skoði maður síðan ársreikninga bankanna, þá er fullt samræmi á milli þeirra og skýrslu fjármálaráðherra.
Ef svör Árna Páls og upplýsingar frá SFF eru réttar, þá hafa lánasöfn bankanna þriggja verði afskrifuð um 623 ma.kr., þ.e. lækkað úr 1.463 ma.kr. plús ný útlán mínus það sem greitt hefur verið niður í 840 ma.kr. plús ný útlán mínus það sem greitt hefur verið. Þannig er það bara ekki. Samkvæmt árshlutauppgjöri Arion banka 30.6.2011 er staða lánasafna bankans 447,7 ma.kr. Lán Landsbankans til viðskiptavina stóðu í 593 ma.kr. í árslok 2010 og lán Íslandsbanka stóðu í 546 ma.kr. Samanlegt gera þessar tölur 1.586,7 ma.kr. eða aðeins 100 ma.kr. frá því að vera tvöföld sú tala sem ætla má af upplýsingum Fjármálaeftirlits og SFF að sé staða lánasafnanna. Nei, vandamálið er ekki að bankarnir séu að sýnast gera eitthvað sem þeir eru ekki að gera, a.m.k. ekki í fjárhagsuppgjörum sínum. Vandamálið felst í því að annað hvort gefa bankarnir FME og SFF rangar upplýsingar um afskriftir, niðurfærslur, leiðréttingar og færslu á varúðarreikninga eða að FME og SFF eigna nýju bönkunum hluti sem áttu sér stað í hrunbönkunum í trausti þess að fólk, að ég tali nú ekki um fjölmiðlar, létu blekkjast. Og vitið þið hvað: Þeim tókst það!
Marinó G. Njálsson, 10.9.2011 kl. 00:22
Góð barátta hjá þér Marinó.
Því miður er það rétt að fjölmiðlar hafa ekki áhuga á þessum málum lengur. Þeir eru nákvæmlega eins og fyrir hrun, éta allt hrátt sem bankarnir rétta þeim. Það er helst Bylgjan sem sýnir þessu áhuga. Harmageddon á X-inu fékk Höskuld bankastjóra í viðtal í dag en því miður var viðtalið ekki jafn gott og þátturinn er vanalega. Hann sagði reyndar þar að bankinn hefði ekkert uppfært (eða niðurfært) íbúðalán einstaklinga frá því að þau voru flutt til bankans. Það passar auðvitað ekki við það sem SFF segja eins og þú bendir á.
Hann sagði líka þar að afsláttur lána til einstaklinga hefði verið fullnýttur strax í upphafi og að það væri ekki hægt að gefa meiri afslátt þar núna nema "að láta einhverja aðra borga fyrir það" ef ég hef skilið hann rétt. Hann sagði líka að vanskil einstaklinga hefðu aukist, I wonder why.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 10.9.2011 kl. 00:39
Þessi setning finnst mér mjög eftirtektaverð:
Þetta er einmitt kjarni málsins!
Núverandi kerfi og aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins er ekkert annað en "lögvernduð" þrælasala. Samt er árið 2011 og við eigum ekki að líða svona mannréttindabrot.
Sumarliði Einar Daðason, 10.9.2011 kl. 15:15
Erlendis er markaðsverð á veðskuldum jafngilt raunviði þeirra eða hreinni eign á núvirði. Hér er löngu komin alþjóðleg staðfesting á að raunvrið hreinnar eignar sjóða er fölsuðu í kerfinu gagnvart almennum borgurum. Ljúga því að stjórnskrá á Íslandi feli í sér annan skilning á eignarétti en þær sem er í okkar elstu viðskiptaríkjum, er til alþjóðlegra skammar, enda sýpur stjórnsýslan seyðið af því. Samanburður sýnir að raunvaxtakrafa á grunni alls rekstra, eignaskattar eru föst krafa, étur upp raunhagvöxt. Leyfa slíkt er tilræði við efnhagslegt sjálfstæði Ríkis, og Ísland er engin undanteking. Þótt menn geti undir skilyrtum kringum stæðum staðið í skilum, þá er glæpurinn ennþá í grunni. Stjórnsýslan hér þarf að þvo hendur sínar. Heildarsamhengið skiptir meira máli en afskriftir til lögaðila á einstaklingsforsendum, rekstrleyfi má selja á markaði og líka þrotabú: nýr rekstur gerir ekki rekstralega eignir veðhæfar erlendis og ætti ekki að gera það hér. Aðalatriðið er að koma framtíðar rekstrakostnaði niður og fjarlægja ávöxtunarkröfuna. Banki sem lækkar lánhöfuðstóll allra sinna veðskulda niður í það sem samið var um á útgáfu degi það er miðar við raunvirði veðeignar hans í dag, lætur nafnvexti vexti vera t.d. um 4,5 % - 6,5% er að uppskera Prime AAA+++ reiðufjárs jafnstreymissöfn [hættir heilneyslu álagi á greiðlum] , og þá er ekki meira reiðufé bundið en þarf til útborganna á hverju ári. Þetta er einföld regla þegar veðsöfn er þroskuðu, þá gildir reiðfjástreymi er heildasýndarvelta framtíðar / aldri veðskulda safnsins. 3,33% fyrir 30 ára hrein jafgreiðslu lán, 2,22% bynding fyrir 45 ár. Þjóðverjar lögðu til að Grísk stjórnsýsla færi þýsku arðbæru öruggu leiðina almennt, þar eru svipað þorskhausar og hér. Hinvegar er þetta en auðveldara á Íslandi þar sem þá falla niðurgreiðslu í formi vaxtabóta einu sinni ári niður. Lækkar skattheimtu þörf á þeim líka sem er að borga neysluskattinn [verðbæturnar] sem rennur í fjármálgeiran í dag.
Júlíus Björnsson, 10.9.2011 kl. 15:42
Ég vil óska þér innilega til hamingju með frábæra frammistöðu í Silfri Egils í dag. Ég var afar hneykslaður yfir orðum þingmannsins og óskaði þess að ég væri þar til að svara fullum rómi, og þá gerir þú nákvæmlega það sem þurfti að gera, helltir yfir hann af skálum réttlátrar reiði og fékkst góðan stuðning frá Ölmu.
Það að þingmaðurinn skuli hafa reynt að flækja málið án þess að hafa siðferðileg viðmið á hreinu, og án þeirrar réttlætiskenndar að þjófnaður sé rangur, og þá sérstaklega ranglátur ef studdur af ríkisvaldinu, er hneyksli í sjálfu sér.
Vonandi þýðir þessi frammistaða þín að við komumst einu skrefi nær réttlæti.
Hrannar Baldursson, 18.9.2011 kl. 21:01
Hér er svo tengill í Silfur dagsins: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4611462/2011/09/18/
Hrannar Baldursson, 18.9.2011 kl. 21:02
Markaðverð eru skráð í kauphöllum á hverjum degi, sum bréf er með hefðbundin alþjóðleg marksverð sem auðvelt er reika út. Alþjóðleg lágmarkaverð á fermetrum liggja líka fyrir. Eignir sem seljast hvorki á frjálsum eða þvinguðum upp boðu innan 60 mánað, hafa ekkert raunvirði.Þ´r sem eru passivar og til ekki til sölu alls ekki. Þetta þarf ekki setja í lög því þetta eru hefðir allra sem hafa vit á fjármálum almennt. Uppgjörstíma bili er vigtin sem jafnvægis eignreikningur miðar við hverju sinni. Vextir umfram meðal hækkanir á mörkuðum í lok ársuppgjörs í eðli sínu skattfrjálsar tekjur sem er eðilegt er að greið út í arð svo geti fengið söluskatt stimpill [hagvaxtarnóta] til að eignafærast aftur á næsta uppgjörstímabili. Annað kallar á óþarf mikla reiði-fjár-útgáfu, sem kemur öllum í koll síðar. Allir eiga að uppfæra sitt eigið reiðu-fé, með rekstrar tekjum síðasta tímabils til að eiga fyrir útborgun á því næsta. Þá er miðað við staðalan CIP sem endurspeglar meðalverðhækkar á mörkuðum kaupahalla og í framhaldi neyt-endamarkaða: retail. Það þarf enga sérfæðinga í meta markaðsverð í fjámálheiminum, efast um markaðsverð er grunnsamlegt.
Júlíus Björnsson, 19.9.2011 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.