Leita í fréttum mbl.is

Hárrétt hjá Lilju - Lífeyrissjóðirnir eru of stórir miðað við fjárfestingar í boði

Við hrun bankakerfisins í október 2008 hvarf um þeið stór hluti af fjárfestingakostum hér á landi.  Um leið lokaðist á möguleika innlendra fjárfesta til að flytja fé úr landi til fjárfestinga erlendis.  Þetta bitnar ekki síst á lífeyrissjóðum landsins, þar sem stærð þeirra samanborið við fjárfestingakosti hér á landi eru einfaldlega allt of mikil.

Heildareignir lífeyrissjóðanna eru um 1.900 milljarðar króna. Þó örugglega megi deila um hvort þetta sé nákvæmlega rétt tala vegna ýmissa óuppgerðra mála vegna bankahrunsins, þá er hún óhugnalega stór samanborið við verðmæti verðbréfa í boði hér á landi.  (Þegar ég tala um verðbréf, þá eru það hlutabréf, skuldabréf og aðrir þeir pappírar sem ganga kaupum og sölu á fjármálamarkaði.)  Á hverju ári bætist við þessa upphæð hátt í 100 milljarðar vegna iðgjalda ársins, bæði í sameiginlega sjóði og séreignarsjóði.  100 milljarðar er gríðar há tala og má sem dæmi nefna að hún nemur ríflega tvöföldum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga á síðasta ári.  Meðan gjaldeyrishöft eru í gangi og líklegast á meðan gjaldmiðill landsins er ekki samþykktur á alþjóðafjármálamarkaði, þá eiga lífeyrissjóðirnir ekki aðra kosti en að ávaxta þessa fjármuni hér innanlands.

Lífeyrissjóðirnir eru risar sem gína yfir innlendum fjárfestingamarkaði.  Ég ætla ekkert að tjá mig um hvort hegðun þeirra á þessum markaði er góð eða slæm, en ljóst er að þeir hafa gríðarleg áhrif.  Fáir aðrir stórir fjárfestar eru á markaðnum og engir í sama stærðarflokki og lífeyrissjóðirnir.  (Kannski er rangt að tala um sjóðina sem eina heild, en þeir koma mjög oft fram sem slíkir og því erfitt annað en að líta á þá sem einn risa frekar en fjóra stóra sjóðir og helling af minni.)  Meðan lífeyrissjóðirnir geta komið svona fram sem heild, þá hverfur af markaðnum heilbrigð samkeppni.

Haldi lífeyrissjóðirnir áfram að vaxa líkt og þeir gera, verða þeir ennþá viðkvæmari fyrir óstöðugleika í íslensku efnahagslífi.  Höggið sem þeir urðu fyrir í hruninu var stórt af þeirri einu ástæðu hve víða fjárfestingar þeirra teygðu anga sína.  Ef eitthvað er, þá koma þeir við á fleiri stöðum. 

Hættulegasti hlutinn í þessu er þó líklega samþjöppun valds í íslensku atvinnulífi og íslensku efnahagslífi.  Nú þegar eru hlutirnir þannig að menn sitja hver í stjórn hjá öðrum eða eigum við segja fyrir aðra.  Fulltrúar atvinnulífsins sitja allt í senn í stjórnum sjóða, stjórnum ráða hjá Samtökum atvinnulífsins, í stjórnum fjármálafyrirtækja og jafnvel bankaráðum.  Ég skil ekki hvernig þetta fólk fer að því að gegna störfum sínum svo vel sé.  Þetta fólk situr þá allt sömu megin borðsins, sem er meira en hægt er að segja hina sem sitja með þeim í stjórnum lífeyrissjóðanna.  Fulltrúar verkalýðsfélaganna, fyrirgefið, sjóðfélaganna, eru allt í senn að verja kjör launafólks, verja lífeyrisréttindi þeirra og verja stöðu fyrirtækisins sem lífeyrissjóðurinn hefur fjárfest í.  Hvernig getur stjórnarmaður í fyrirtæki jafnframt verið í hatrammri kjarabaráttu gegn þessu sama fyrirtæki?  Hvernig getur stjórnarmaður í lífeyrissjóði verið í hatrammri kjarabaráttu, sem verkalýðsleiðtogi, gegn fyrirtækjum sem teljast mikilvæg fjárfesting fyrir lífeyrissjóðinn?  Ég fæ þetta ekki til að ganga upp.  Þess vegna virði ég þá afstöðu Vilhjálms Birgissonar á Akranesi að vera bara með einn hatt, hatt verkalýðsforingjans.


mbl.is Segir lífeyrissjóðina vera of stóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband