Leita í fréttum mbl.is

Framfærslulífeyrir öryrkja og ellilífeyrisþega er hneisa

Ég fjallaði um þetta mál í síðustu færslu minni Þróun sem átt hefur sér langan aðdraganda og á eftir að versna.  Því miður hefur þetta ástand ekki fengið nægan hljómgrunn í samfélaginu.  Líklegasta ástæðan er að þjóðfélagið hefur ekki efni á því að gera nauðsynlegar bragabætur.  Það breytir ekki því að það er hneisa að stór hluti landsmanna skuli vera skikkaður af ríkinu til að lifa undir fátæktarmörkum.

Staðreyndir málsins eru að íslenskt samfélag stendur ekki undir sér, a.m.k. ekki í bili.  Kostnaðurinn við að reka það er meiri en skatttekjurnar sem ríkissjóður getur haft án þess að skattarnir skerði lífskjör.  Bæði erum við of fámenn til að standa undir allri þeirri þjónustu og velferð sem við viljum að ríki og sveitarfélög bjóði upp á, og við erum of skuldsett.  Ástandið var lítið betra hér fyrir hrun þegar ríkissjóður var "nánast" skuldlaus.  Ég set "nánast" innan gæsalappa, þar sem skuldir hans við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var nokkur hundruð milljarðar, en það hafði láðst að geta þess í ríkisbókhaldi.

Mér hefur alltaf þótt það furðulegt, að fólk greiði skatta af tekjum sem eru undir framfærslumörkum.  Á hinn bóginn er persónuafsláttur ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði og er í raun enginn munur á persónuafslætti og beingreiðslum til bænda eða sjómannaafslætti, öllu er ætlað að greiða niður rekstrarkostnað viðkomandi launagreiðanda.

Er hægt að bæta kjör öryrkja og aldraðra?  Hversu harkalegt sem það er, þá efast ég um þjóðfélagið hafi bolmagn til þess í bráð.  Meðan atvinnurekendur eru berjast með kjafti og klóm gegn því að lægstu launataxtar nái skammtíma framfærsluviðmiðum vinnuhóps velferðarráðuneytisins, þá sé ég ekki fyrir mér að lífeyrir hækki.  Nú ekki getur ríkið séð af skatttekjum í bili (að því virðist) og núverandi fjármálaráðherra er fallinn í sömu gryfju og þeir sem hann gagnrýndi mest hér áður fyrr og segir landsmenn ekkert muna um þessar fáu krónur sem hann er beðinn um að slá af bensínlítranum.

Velferðarstjórn vinstri flokkanna ber ekki nafn með rentu.  Hún hefur gert allt annað en staðið vörð um velferðina og skjaldborgin um heimilin snerist upp í andhverfu sína.  Guðbjartur Hannesson á hrós skilið fyrir að hafa látið gera skýrsluna um neysluviðmiðin.  Hagsmunasamtök heimilanna voru búin að berja á Árna Páli meðan hann var félagsmálaráðherra að neysluviðmiðin væri skilgreind, en líkt og með annað hjá Árna Páli, ef það kom ekki fjármálafyrirtækjunum til góða, þá var það ekki framkvæmt. 

Guðbjartur mætti á fund um fátækt í haust og ljóst var eftir hann, að honum var brugðið.  Ég treysti honum til góðra verka.  Ég svo sem treysti Jóhönnu til góðra verka hér áður fyrr. Hún vann vel sem félagsmálaráðherra að málefnum þeirra sem minna máttu sín.  Núna er hún aftur komin í varðlið fjármagnseigendanna og þá gleymist lítilmagninn.


mbl.is Heldur fólki föstu í viðjum fátæktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum bara að misskilja þessa meintu vinstri og jafnaðarmennsku illilega.

Þetta er stjórn vinstri sinnaðra fjármagnseigenda og stjórn fjársterkra jafnaðarmanna.

Maður getur bara farið svo langt til vinstri með fjármagnið. Eftir sem áður þarf að loka skólum og sjúkradeildum, einhver þarf jú að borga innistæður fjármagnseigenda.

sr (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 14:16

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

sr, ég er viss um að hvergi í heiminum hefur Stalínisma og kapitalisma verið blandað eins vel saman, en samt haldið algjörlega aðskildu.  Almenningur er gerður að öreigum í anda stalínisma og fjármagnseigendum að auðmönnum í anda kapitalisma

Marinó G. Njálsson, 30.4.2011 kl. 14:24

3 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Marinó" Í guðana bænum ekki segja þetta! Það er eins og að skvetta bensíni á bál. Fólki líður nú nógu illa fyrir, það var ekki hægt að standa við gefin loforð þegar allt lék í lindi. Lífeyrisþegar líta á sig sem ómaga á þjóðfélaginu, og mér liggur við að segja að það væri best að leifa þeim sem vilja, að ganga í dauðan með lyfjagjöf. Svo mikil er eymdin!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 30.4.2011 kl. 15:40

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eyjólfur, hvað er það sem ég má ekki segja?

1.  Að upphæð lífeyrisins sé hneisa

2.  Að íslenskt samfélag standi ekki undir sér

3.  Að ekki verði hægt að rétt hlut lífeyrisþegar í bráð

4.  Að persónuafsláttur sé niðurgreiðsla á rekstrarkostnaði launagreiðanda

5.  Að Árni Páll hugsi bara um hag fjármálafyrirtækjanna

6.  Að núverandi ríkisstjórn vilji breyta almenningi í öreiga

Þú verður að vera nákvæmari svo ég viti hvað þú átt við.

Marinó G. Njálsson, 30.4.2011 kl. 15:49

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nokkuð góð grein hjá þér Marinó.

Ég hnaut þó við eina setningu, þar sem þú segir að atvinnurekendur berjist með kjafti og klóm gegn því að lægstu launataxtar nái skammtíma framfærsluviðmiðun. 

Vissulega berjast atvinnurekendur með kjafti og klóm gegn kröfum forustu launþega. En þær kröfur eru þó ekki nálægt skammtíma framfærsluviðmiðun vinuhóps velferðaráðuneytissins. Þarna er verið að krefjast í heildarlaun fyrir þá sem á lægstu launum eru,  þá upphæð sem vinnuhópurinn taldi þurfa í ráðstöfunartekjur til skammtíma framfærslu. Það er nokkur munur á heildarlaunum og ráðstöfunartekjum.

Þar að auki er þessi krafa um heildarlaun, ekki launataxta, þ.e. ef viðkomandi fær greitt fyrir að vinna vaktavinnu eða fasta langa vinnuviku, sem algengt er hjá vaktafólki, geta grunnlaun verið langt undir 200.000,- kr á mánuði.

Þetta er kanski tittlingaskítur hjá mér og kemur ekki efni greinar þinnar beint við, en þar sem málið er mér skilt, gat ég ekki annað en bent á þetta.

Gunnar Heiðarsson, 30.4.2011 kl. 16:57

6 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Þú talar um að ekki seu til peningar til að greiða þessum hópi -þ.e öldruðum og öryrkjum mannsæmandi kjör- eða laun.

  Það er nú svo að ráðherrar far til útlanda með heilar nefndir- þá vantar aldrei peninga.

 Það er með þetta eins og annað- ef viljinn er fyrir hendi eru peningar til.

 Eg fæ 127 þús til ráðstofunar á mánuði en árslaun mín eru lægri en mánaðarlaun bankastjóra og árlegum sukkferðum ráðamanna.

 Viljinn er allt sem þarf.

Berfætt kona !

Erla Magna Alexandersdóttir, 30.4.2011 kl. 17:30

7 identicon

ég er ör og hef umþab 152þ á mánuði takk velferðar stjórn fokk íou.

gisli (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 17:31

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég bið fólk ekki um að misskilja mig um það að bráðnauðsynlegt er að bæta kjör lífeyrisþega.  Ég hef farið fyrir nefndir Alþingis og gagnrýnt niðurskurð og skatthækkanir sem bitnað hafa á þessum hópum.  Þó til séu hópar öryrkja og aldraðra sem hafa það þokkalegt, þá eru allt of margir sem búa við ákafalega bág kjör.

Gunnar, ef atvinnurekendur berjast gegn hækkun í 200.000 kr., þá eru þeir örugglega ekki ginkeyptir fyrir meiri hækkun.  Yfirvinna er ekki mikil í dag. Síðan á eftir að taka skatta af laununum, en það sem eftir stendur þarf að duga fyrir framfræslunni.  Ég skil hvað þú ert að fara.  Tittlingaskítur, nei, en kannski tilraun til útúrsnúnings

Við skulum hafa það í huga að til að hækka bætur almannatrygginga nægilega mikið til þess að þær dugi fyrir skammtíma neyðsluviðmiðinu, þá þarf líklegast að hækka þær um 33% nettó.  Þ.e. hækkunin yrði meiri en síðan væri tekinn skattur af á móti, þannig að útgreiðslan vegna einstaklings væri rúmlega 201 þús.kr.  Gefum okkur að talan sé 50.000 á mánuði eða 600.000 kr. á ári. 1. desember 2010 þáðu tæplega 40.000 manns lífeyri frá almannatryggingum.  Segjum að allir þessir aðilar fái 600.000 kr. hækkun (nettó) á ári, þá er kostnaður af því 24 milljarðar kr. á ári.  Þetta nema um 10% af skatti ríkissjóðs á tekjur og hagnað.  Miðað við niðurskurð og skattahækkanir síðustu tveggja ára, þá er þessi peningur ekki til.  Þökk sé og allt í boði Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis.

Marinó G. Njálsson, 30.4.2011 kl. 18:07

9 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Áskorun á ASÍ, bæði varðandi lægstu laun og leiðréttingar lána - ef lægstu laun hækka töluvert, þá hækka bæturnar líka - en út í hött að heyra að lífeyrissjóðirnir séu að lækka greiðslurnar til ellilífeyrisþega þegar þeir eiga svona miklar eignir.

http://visir.is/section/MEDIA98&fileid=VTV1DCE79F3-BB1E-4C04-9DC1-7E9A1C455D11

Andrea J. Ólafsdóttir, 30.4.2011 kl. 23:43

10 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Marinó" Nei ég er svo sannarlega á sama máli og þú. En það er bara svo sárt að heyra það, að ekki sé hægt að laga þetta , en ég legg þannig skilning í þessa grein að svo sé í gr. no. 3. Það er alveg óþarfi að tíunda það á opinberum vettvangi, að þeyr sem svelta verði bara að halda áfram að svelta. Það var það sem ég meinti kannski svolítið ónákvæmt orðað hjá mér Marino minn. kv Bláskjár.

Eyjólfur G Svavarsson, 1.5.2011 kl. 13:55

11 identicon

Dæmigerð neysluviðmið einstaklings, samkvæmt útreiknuðum forsendum velferðarráðuneytisins eru bara dæmigerð neysluviðmið einstaklings. Þau eru mælikvarði á hver meðalneyslan er, ekki hver framfærsluþörfin er. Ef hæstlaunuðu einstaklingarnir auka enkaneysluna og bæta við utanlandsferð hækka dæmigerð neysluviðmið einstaklings, samkvæmt útreiknuðum forsendum velferðarráðuneytisins.

Það er einfaldlega röng framsetning að segja meðalneyslu allra einstaklinga vera það sama og framfærsluþörfin.

Vaskur (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 14:39

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vaskur, ég reikna ekki með að þú hafir lesið skýrslu faghóps velferðarráðuneytisins og hvet til að gera það.  Ekki stendur steinn yfir steini í því sem þú segir.  Í skýrslu segir:

Í fyrsta lagi er um að ræða dæmigerð viðmið sem er ætlað að vera leiðbeinandi um hver útgjöld fjölskyldna eru miðað við hóflega neyslu...

..Þá eru í öðru lagi reiknuð út skammtímaviðmið sem byggjast á sömu forsendum og hin dæmigerðu viðmið en gert er ráð fyrir að fólk geti bæði dregið úr neyslu og frestað kveðnum útgjaldaliðum til skemmri tíma eða allt að níu mánuði.

Viðmiðunartölur Íbúðalánasjóðs byggjast á rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna árin 2000–2002, og eru uppreiknaðar til verðlags í maí 2005 (Soffía Guðmundsdóttir, aðstoðarsviðsstjóri þjónustusviðs lána, munnleg heimild 26. janúar 2011). Framfærsla er reiknuð sem meðaltal þeirra 75% heimila sem höfðu lægst útgjöld í útgjaldarannsókninni. Lágmarksframfærsla getur þó aldrei orðið lægri en meðaltal þeirra 25% heimila sem höfðu lægstu útgjöldin samkvæmt útgjaldarannsókninni.

Ég fæ ekki betur séð en menn leggi að nokkuð að jöfnu lágmarskframfærlu og lægstu útgjöld, þ.e. neyslu.

Marinó G. Njálsson, 1.5.2011 kl. 15:12

13 identicon

"Jón Þór Sturluson, einn aðstandenda verkefnisins, lagði áherslu á að neysluþörf einstaklinga væri breytileg og að þetta væru því viðmið sem hægt er að styðjast við, en ekki nauðsynlegar tekjur til framfærslu."

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/02/07/vidmid_einstaklings_292_thus/

Svo virðist sem ég sé ekki einn um það að telja neysluviðmið ekki vera það sama og framfærsluþörf.

En með því að taka neysluviðmið í stað framfærsluviðmiðs þá er verið að blekkja hina fáfróðu í pólitískum tilgangi. Neyslan getur aldrei orðið mælikvarði á hver framfærsluþörfin er. Frekar en vindhraði mælikvarði á hvert hitastigið er.

Vaskur (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1680016

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband