Leita í fréttum mbl.is

Tímamótadómur í Héraðsdómi Reykjavíkur: Afturvirk vaxtabreyting ekki viðurkennd

Eins og ég fjalla um í síðustu færslu (sjá Kynnir Arion banki sér ekki dóma Hæstaréttar? - Eru mörg gjaldþrot byggð á svona vitleysu?) þá fór Arion banki sneypuför í Hérðasdóm Reykjavíkur í dag.  Var bankinn gerður afturreka með kröfu um gjaldþrotaúrskurð, þar sem krafan var byggð á ólögmætri gengistryggingu.  Þó maður sé nú orðinn nokkuð sjóaður i að lesa dóma, þá yfirsást mér mikilvægasta atriði dómsins.  Í niðurstöðukafla dómsins er líkalegast ein stærsta setning í hagsmunabaráttu heimilanna fyrir réttlæti varðandi skuldamál, a.m.k. hina síðari mánuði.  Er hana að finna í eftirfarandi texta:

Sóknaraðili lagði fram við munnlegan flutning málsins yfirlit um skuld varnaraðila.  Skjalið er ekki skilmerkilegt í tengslum við þau álitamál sem hér eru uppi.  Sóknaraðili hélt því fram í málflutningi að vextir hefðu ekki verið greiddir að fullu.  Nánari skýring var ekki gefin á þessu.  Ekki er reifað skýrlega hvenær vanskil urðu á láninu.  Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.  Er málið ekki reifað nægilega af hálfu sóknaraðila til að unnt sé að reikna skuld varnaraðila.  Verður að líta til þess að höfuðstóll nam 25.000.000 króna, en greiddar hafa verið samtals 4.435.659 krónur.  Skuldin er því sennilega ekki lægri en 20.564.341 króna.  Hversu mikið hærri hún með réttu er verður ekki reiknað út frá framlögðum gögnum.  Rétt væri að bæta við innheimtukostnaði, en þóknun sú sem sóknaraðili reiknar sér í gjaldþrotabeiðni er óhæfileg.

(Feitletrun er mín.)

Ekki vorum við fyrr búin að senda öll gögnin til ESA, en það kemur dómur á Íslandi sem staðfestir skoðun okkar um ólögmæti afturvirks vaxtareiknings.

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Tekið skal fram að þetta er ekki hluti af dómsorðum og gefur því ekkert fordæmi um það mun gerast.  Þetta er aftur sýnir að einhverjir dómarar efast um lögmæti afturvirks endurútreiknings vaxta.  Ég get ekki annað en dáðst af Jóni Finnbjörnssyni, héraðsdómara, en þetta er í annað sinn sem hann kemur með ákaflega áhugaverða niðurstöðu í dómsmáli.  Í fyrri dómnum sem féll 30. apríl 2010, kvað Jón mjög ákveðið á um að ekki eingöngu væri gengistrygging ólögmæt (með vísan í héraðsdóma Áslaugar Brynjólfsdóttur frá 12. febrúar 2010) heldur gekk lengra og sagði samningsvexti halda.  Hæstiréttur sniðgekk þá niðurstöðu þegar áfrýjunin var tekin fyrir og úrskurður kveðinn upp 16. júní í fyrra, sama dag og gengislánadómarnir féllu.

En núna segir Jón sem sagt að ekki sé heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef allt var gert eins og til var ætlast.  Bráðnauðsynlegt er að fá þetta atriði tekið fyrir í Hæstarétti, þar sem endurútreikningur fjármálafyrirtækjanna byggir á því að hægt sé að reikna vextina á ný.  Það sem Jón Finnbjörnsson er einfaldlega að segja er að afturvirkniákvæði laga Árna Páls Árnasonar nr. 151/2010, svo kölluð gengislánalög, standist ekki íslensk lög.  Því miður styður Jón þetta ekki með lagatilvísun og veikir það niðurstöðuna, en óhætt er að segja, að hann hendi risastórri sprengju inn í þessa umræðu.

Umfjöllun dómara í anda leiðbeininga Evrópudómstólsins um neytendavernd

Taka skal fram að Evrópudómstóllinn (ECJ) hefur ítrekað sagt að dómstólum beri að skoða atriði þar sem hugsanlega er verið að brjóta á réttindum neytenda, þó svo að þeirra sé ekki getið í skriflegri greinargerð eða málflutningi.  Raunar hefur snuðrað dómstóla fyrir að hafa ekki gætt réttinda neytenda, þegar fullt tilefni var til.  Þannig hefði, ef fylgt hefði verið fordæmi ECJ átt að vísa bílalánamálinu sem loksins felldi gengistrygginguna frá dómi í Reykjavík og vísa því til Héraðsdóms Norðurlands á Akureyri á þeirri forsendu að þar var varnarþing hins stefnda.  Reglan sé að sterkari aðili málsins eigi að sækja þann veikari heim.  Það sem meira er að í máli C-76/10 Pohotovost fékk slóvenskur dómari á baukinn fyrir að taka gilda ósanngjarna vaxtakröfu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Í annað sinn á stuttum tíma lendir banki í því.."

Fyrirtæki er bara fólk og það er banki líka !!!!

Vandamálið er, það eru sömu andlitin enn í bönkunum og voru fyrir hrun !!!

Hvenær ætlar fólk að vakna upp og koma því til skila , að þessi andlit fari út úr bönkunum ???

Ef til vill þarf að nota stóra samtaka máttinn okkar , verkfallsvopnið, og gera ráðamönnum grein fyrir stöðunni ?

Núna væri lag þegar samnigar hafa ekki tekist ?

Fara af stað með massífan áróður inn í verkalýðsfélögin og gera öllum ljóst um hvað málið snýst ?

JR (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 03:07

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Var ekki minnst á "Skjaldborg um heimilin" hér um árið??

Þráinn Jökull Elísson, 16.4.2011 kl. 05:58

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta er mjög athyglisvert og þarft að fá þetta sjónarhorn fram í dagsljósið nú. Þessir afturvirknireikningar bankanna eru farnir að nálgast algjöra fyrringu.  Ég man ekki betur en í staðfestingu Hæstaréttar á "Áslaugardómnum" um gengistryggðu lánin, segði Hæstiréttur að skuldabréfin væru að öllu öðru leiti gild, nema hvað varðaði verðtryggingarákvæðið. Það var það eina sem fellt var úr gildi. Ég óttast að fólk sé að tapa heildarsýn vegna þessara stöðugt fjölgandi dóma, sem eiginlega eru um sama efnið. Ég vona því að Hæstiréttur taki skýrt og greinilega afstöðu til sjónarmiða Jóns Finnbjörnssonar í þessu gjaldþrotamáli, svo hægt verði að ljúka þessu þrátefli sem bankarnir stunda. 

Guðbjörn Jónsson, 16.4.2011 kl. 09:45

4 identicon

Sæll Marinó,

Þetta er geysilega áhugaverð niðurstaða, önnur áhugaverð niðurstaða er sú sem kynnt var við málsvarnir misserisverkefna við Háskólann á Bifröst í gær. Þar kemur nefnilega í ljós að vaxtaákvörðun Hæstaréttar stenst engan veginn í ljósi skuldbindinga íslenska ríkisins vegna EES-samningsins og þá sérstaklega í ljósi tilskipana EB nr. 87/102 og 93/13. Það er enginn efi í mínum huga að það er algerlega óheimilt að innheimta hærri vexti eða kostnað heldur en samningurinn kvað á um í upphafi.

Í ljósi þess er athyglisvert að skoða stöðu þeirra sem samþykktu lög nr.151/2010 sem að mínu mati eru lögleysa og einnig þeirra sem gáfu út tilmælin um Seðlabankavextina s.l. haust.

Hver er staða þessa fólks sem braut gegn skuldbindingum ríkisins vegna EES til þess að skera glæpamenn niður úr snörunni?

Arnar (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 11:38

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Arnar, þú sást að ég vitnaði aðeins í ritgerðina .  Ég hefði viljað nota meira, en gerði það ekki af kurteisi og tillitssemi við ykkur.

Annars finnst mér merkileg þögn fjölmiðlanna yfir þessu.

Marinó G. Njálsson, 16.4.2011 kl. 11:46

6 identicon

Hver sendi innheimtuseðilinn upphaflega? Var það skuldarinn? - Nei það var BANKINN. Bankinn gerði þá kröfu í hvert sinn sem hann sendi innheimtuseðil fyrir skuldinni að greitt væri miðað við uppgefnar forsendur samningsins (hvort sem hann var löglegur eða ekki).

Sendi bankinn leiðréttingaseðla, hafi hann gert mistök við innheimtuna? -  Örugglega ekki. Þess vegna er ekki við skuldarann að sakast. Ef það er tilfellið að skuldarinn eigi að taka á sig klúður lánadrottins, þá verður einfaldlega hægt að heimta að öll lán verði reiknuð afturvirk áratugi aftur í tímann með þeim geðþóttaákvörðunum sem lánadrottnum dettur í hug...

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 14:49

7 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég tek undir ummæli Arnars að það sé algerlega óheimilt að innheimta hærri lánskostnað en uppgefinn var við samningsgerð.

Þannig er það skoðun mín að upphæð heildarlántökukostnaðar á greiðsluáætlun sé þak slíks kostnaðar enda hækkar árleg hlutfallstala kostnaðar ef slík heildarupphæð er hærri og það er óheimilt. Eina breytingin geti í raun verið breytingar á afborgun á hverjum tíma með tilliti til vaxtabreytinga, og að sjálfsögðu ekki afturvirkt.

Ég hef dæmi frá SP, fyrirtæki okkar allra, vegna míns samnings þar sem hlutfallstalan er nú 12,19% eftir endurútreikninga, en var 5% á greiðsluáætlun við samningsgerð. SP ætlar sér að innheimta 1,5 milljónum hærri heildarlántökukostnað en greiðsluáætlun segir til um. Við þá get ég ekki talað lengur og mér er vísað til Umboðsmanns skuldara vilji ég frekari upplýsingar um endurútreikninga eða minn samning. SP neitar í raun að hafa frekari samskipti við mig.

Ég rakst einmitt í lok febrúar á þennan úrskurð Evrópudómstólsins, sem þú vísar til Marinó, og fannst hann MJÖG athyglisverður þegar ég las hann. Kom honum í beinu framhaldi til BÞV og fagna því að hann sé kominn á jafnvíðlesinn vettvang og bloggið þitt er. Ég vil meina að hugsanlega sé hann fordæmisgefandi að því leyti að hann styrkir fyrrnefnda túlkun Arnars. Dómurinn þessi segir nefnilega að sé árleg hlutfallstala ekki tilgreind í samningi megi ekki innheimta neinn kostnað af láninu. Vextir og lántökukostnaður sé enginn! Þar með segi ég að sama skapi, ef árleg hlutfallstala er tilgreind í samningi eða við samningsgerð sé hún takmarkandi á upphæð heildarlántökukostnaðar, alveg eins og lögin um neytendalán segja. Breyting vaxta breyti því aðeins afborgun á hverjum tíma en ekki heildarlántökukostnaði.

Að auki innheimtu flest fyrirtækin svonefnt vaxtaálag en tóku það ekki alltaf fram í samningum hversu hátt það væri. Slík innheimta er óheimil enda hefur Neytendastofa úrskurðað svo í slíku ágreiningsmáli, og ég segi því að allar greiðslur sem voru fyrir svonefnt vaxtaálag eigi því að reiknast sem innborgun á höfuðstól. Það er þó við andskotann að eiga að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjunum um hversu há slík upphæð var hverju sinni.

Ég vona bara að sem flestir neytendur kæri forsvarsmenn fjármálafyrirtækjanna fyrir fjársvik eða tilraunar til þeirra, sem og hlutaðeigandi starfsmenn sem vitorðsmenn enda er slíkt framferði hegningarlagabrot, og allir verði látnir bæta neytendum tjón sitt úr eigin vasa. Fyrr lýkur þessu óréttlæti ekki.

Erlingur Alfreð Jónsson, 17.4.2011 kl. 00:21

8 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

það er kominn tími til að ákæra alla sem komið hafa nálægt þessari skipulögðu glæpastarfsemi í kringum lánamál íslendinga, hvort sem þeir vinna í banka, alþingi, hræsnarétti eða annarstaðar í kerfinu.

Þetta er svo krimminalt að það nær engu tali.

Axel Pétur Axelsson, 17.4.2011 kl. 10:54

9 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Ég átti samtal við einn af yfirmönnum innan lánadeildar eins bankanna í gær, sá var algjörlega sannfærður um að rétt væri að reikna vexti skv seðlabanka vöxtum frá upphafi hvers samnings, og vísaði til dóms hæstaréttar sem kom síðasta haust, og sagði að í honum væri klárt kveðið á um að svona mætti hafa útreikningum, - mig grunar að fjármálafyrirtækin séu að gleyma að horfa á heildarmyndina og einblíni á það sem þeim best hentar.

Steinar Immanúel Sörensson

Steinar Immanúel Sörensson, 17.4.2011 kl. 12:11

10 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Þar sem þú Marinó ert nú einstaklega vel að þér í þessum málum, gætirðu dregið saman í stuttu bréfi, þá dóma sem hafa komið að svona málum, og einnig lagaákvæði sem þú veist um sem kunna að hafa áhrif á þessi mál. ?

kv Steinar

Steinar Immanúel Sörensson, 17.4.2011 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 211
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 192
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband