Leita í fréttum mbl.is

Kynnir Arion banki sér ekki dóma Hæstaréttar? - Eru mörg gjaldþrot byggð á svona vitleysu?

Í annað sinn á stuttum tíma lendir banki í því að vera sendur frá Héraðsdómi Reykjavíkur með skottið milli fótanna.  Síðast var það NBI hf., en núna er það Arion banki.  Málsástæðan er í bæði skiptin sú sama - "lögin eiga ekki við mig".

Í dómum Hæstaréttar nr. 30/2011 og 31/2011 snupraði rétturinn NBI hf. fyrir að halda sig hafinn fyrir lögin, þegar bankinn reyndi að halda fram gengistryggðri kröfu eins og dómar Hæstaréttar í málum 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingar hafi aldrei fallið.  Til að gera málið ennþá sneypulegra fyrir NBI hf. þá var útivist í málunum, þ.e. ekki var tekið til varnar í munnlegum málflutning, þó greinargerð hafi verið send inn. 

Maður hefði haldið að lögmaður Arion banka kynnti sér dóma Hæstaréttar og hagaði málflutningi sínum eftir því.  Kannski fær hann bara svo góða þóknun frá bankanum fyrir að flytja mál, að hann gerir þetta þess vegna, honum finnst svona gaman að eyða tíma réttarins eða hefur ekkert annað að gera.  Svona að öllu háði slepptu, þá var líklegast verið að reyna á lánsformið, en hefði ekki mátt gera það með öðrum hætti.

Fjármálafyrirtæki eru á fullu að fá dómstóla til að segja fyrirtækjunum hvaða lánsform eru með ólöglega gengistryggingu og hver ekki.  Þegar dómar Hæstaréttar féllu 16. júní sl., þá man ég að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, stakk upp á því að kallaður væri saman nokkurs konar gerðardómur, sem fengi það hlutverk að vinna þetta verk.  Þannig að í staðinn fyrir að eyða dýrmætum tíma dómstóla í að skoða öll allt of mörg lánaform, þá væru formin flokkuð og eingöngu þau sem teljast á gráu svæði færu fyrir dóm.  Kannski var það gert og þetta er eitt af þessum formum, sem vafi lék á um, en einhvern veginn hljómar það eins og vafinn hafi ekki verið mikill.

Hvenær verða vitleysur fortíðarinnar leiðréttar?

Hin hliðin á þessu og allri þessari lönguvitleysu með ólögmætu gengistrygginguna er, hvað ætli hafi farið fram mörg fjárnám, vörslusviptingar, árangurslaus fjárnám, uppboð, árangurslaus uppboð og gjaldþrotaskipti vegna innistæðulausra krafna þar sem mál voru byggð á ólögmætri gengistryggingu?  Hvað ætli það séu margir dómar, úrskurðir, pappírar í hirslum dómstóla og sýslumanna um allt land sem byggja á ólögmætri gengistryggingu?

Ég geri ráð fyrir að einhver fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hafi verið lýst gjaldþrota vegna krafna, sem dómstólar senda núna með umvöndunum aftur til föðurhúsanna.  Fólk hefur orðið fyrir tjóni vegna þessa og líf hafa týnst.  Hver er bótaskylda fjármálafyrirtækjanna? Eru þau byrjuð að fara í gegn um skjalasöfn sín til að finna tilfelli þar sem þau beittu fólk og fyrirtæki rangindum?

Um daginn var ég á kynningu hjá NBI hf., þar sem bankinn var að kynna slagorðið "Þinn banki" eða hvað það nú var og samfélagssátt.  Þetta var um svipað leyti og Hæstiréttur vandaði um fyrir honum að vera að sóa tíma dómskerfsins í tilhæfulausar dómskröfur.  Mér finnst að NBI hf. kannski átt að segja lögfræðisviði sínu og lögmenn frá þessum samfélagsgildum sínum.  Að ég tali nú ekki um nýju siðareglurnar, ekki það að ég kannist við að hinar gömlu hafi verið til.

Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin fari sér hægt í að rústa lífi fólks og fyrirtækja meðan óvissunni er eytt?   Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin bæti fyrir tjónið sem þau hafa valdið?  Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin biðjist afsökunar á offorsi sínu og misgjörðum? Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin sýni auðmýkt?

Aðeins þrír sparisjóðir á landsbyggðinni stóðu allt af sér.  Geta þeirra til að taka fólk og fyrirtæki í viðskipti hjá sér er takmörkuð. Hvort sem okkur almenningi og fyrirtækjum í landinu líkar það betur eða verr, þá getum neyðist stór hluti almennings og fyrirtækja að leita til að sprengja þeirra fjármálafyrirtækja sem orsökuðu hrunið.  Það verður því að nást sátt á milli aðila, en hún næst ekki ef fyrirtækin ætla að haga sér eins og þeim komi fortíðin ekki við.


mbl.is Kröfu um gjaldþrotaskipti hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hversu lengi þarf að bíða eftir að einhverjir af hinum seku verði settir í fangelsi? Eftir því sem það dregst lengur aukast bara líkurnar á því að málin verði útkljáð með kyndlum og heykvíslum.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.4.2011 kl. 20:53

2 identicon

,,Í annað sinn á stuttum tíma lendir banki í því.."

Fyrirtæki er bara fólk og það er banki líka !!!!

Vandamálið er, það eru sömu andlitin enn í bönkunum og voru fyrir hrun !!!

Hvenær ætlar fólk að vakna upp og koma því til skila , að þessi andlit fari út úr bönkunum ???

Ef til vill þarf að nota stóra samtaka máttinn okkar , verkfallsvopnið, og gera ráðamönnum grein fyrir stöðunni ?

Núna væri lag þegar samnigar hafa ekki tekist ?

Fara af stað með massífan áróður inn í verkalýðsfélögin og gera öllum ljóst um hvað málið snýst ?

JR (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 211
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 192
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband