Leita í fréttum mbl.is

Ruglið í kringum endurútreikninga gengistryggðra lána - Kvörtun á leið til ESA

Endurútreikningar fyrrum gengistryggðra lána hafa verið nokkuð í sviðsljósinu á Bylgjunni þessa vikuna.  Heimir og Kolla í þættinum Í bítið hafa fengið til sín hvern gestinn á fætur öðrum til að ræða þessi mál.  Sjálfur hef ég nokkuð ritað um þetta efni, eins og lesendum hafa vafalaust tekið eftir. 

Nú er liðinn sá tími sem fjármálafyrirtækin fengu til að ganga frá endurútreikningunum.  Flest hafa sent útreikningana til viðskiptavina sinna, þó enn þá séu brögð á því að svo sé ekki.  Yfirleitt fylgir upplýsingunum skilaboð um að lántaki tilgreini hvaða leið hann velji, þ.a. verðtryggt eða óverðtryggt lán, jafnar afborganir eða jafnar greiðslur, o.s.frv.  Nokkur fjármálafyrirtæki tilkynna svo að verði ekki valið fyrir tiltekna dagsetningu, þá velji það sjálfkrafa þá leið sem gefur lægstan höfuðstól miðað við endurútreikninginn.

Ég hef verið spurður af mörgum hvað eigi að gera varðandi þessa endurútreikninga.  Fyrst vil ég nefna að fjármálafyrirtækin eiga að senda upplýsingar um útreikninga, þannig að lántakinn geti sannreynt aðferðir fyrirtækisins.  Tölur á blaði (eða í excel-skjali) með engum skýringum um hvernig einstakar tölur eru fengnar eru eins og sjálfval í Lottó.  Handahófsvaldar tölur sem hafa enga þýðingu fyrir þann sem fær þær í hendur nema þær leiði til þess að stóri vinningurinn falli viðkomandi í skaut.  Líklegast er þó að peningurinn renni til einhverra annarra.  Á vef Hagsmunasamtaka heimilanna er skapalón að bréfi sem hægt er að senda vilji menn hafna útreikningunum.  Ég hvet fólk til að nýta sér það.  Ég hvet fólk einnig til að bera við aðildarskorti nýju bankanna vegna þess tíma sem lánin voru í eigu gömlu bankanna.  Loks hvet ég fólk til að framkvæma sína eigin útreikninga, senda bankanum og bjóða upp á samning í samræmi við þá útreikninga.  

Rétt er að benda lántökum á, að nýr samningur kemst ekki á með einhliða tilkynningu fjármálafyrirtækis.  Meðan lántaki hefur ekki skrifað undir og undirskriftin vottuð af bærum aðilum, þá er ekki kominn á samningur.  Svo einfalt er það.  Dómar Hæstaréttar í málum 30/2011 og 31/2011 segja að fjármálafyrirtækið getur ekki haldið áfram að innheimta gengistryggðan höfuðstól, eins og gengislánadómarnir frá 16. júní 2010 (93/2010 og 152/2010) hafi ekki fallið.  Það eina sem fjármálafyrirtækið getur gert er að innheimta lánið eins og það hafi verið án gengisviðmiðunar frá upphafi og með samningsvöxtum.

Ég er í hópi fólks sem hefur undirbúið kvörtun til ESA vegna setningar laga 151/2010 og túlkana fjármálafyrirtækjanna og dómstóla á úrskurði Hæstaréttar í dómi 471/2010 um vexti áður gengistryggðs bílaláns.  Kvörtunin sjálf verður kynnt af Hagsmunasamtökum heimilanna og Samtökum lánþegar, þegar hún hefur verið send sem verður á allra næstum dögum.  Kvörtunin er upp á yfir 50 blaðsíður og fylgiskjöl bæta svo um 500 blaðsíðum við.  Að mínu mati hefur verið vandað vel til verksins, sem allt er unnið í sjálfboðavinnu.

Umsagnir um gengislánafrumvarpið

Margt er athugavert við lög 151/2010 sem samþykkt voru á Alþingi 22. desember sl.  Nægir bara að líta til fjölmargra óvenju harðorðra umsagna um frumvarpið (mál 206 á 139. löggjafarþingi), þegar það var til meðferðar í efnahags- og skattanefnd.  Því miður skorti verulegu á sjálfstæði Alþingis í því máli og lét nefndin greinilega undan vilja ráðherra og fjármálafyrirtækjanna í þeim efnum, en gaf lítið fyrir vel ígrunduð rök aðila sem vöruðu við því að í frumvarpinu fælist hugsanlegt brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti skuldara. Vil ég m.a vekja athygli á umsögn frá LOGOS lögmannsþjónustu, en fyrirtækið er í hópi kröfuhafa til ráðgjafar.  Í umsögninni segir: 

Hins vegar er frumvarpið ekki nægilega skýrt um lögmæti gengistryggðra lánssamninga lögaðila í kjölfar dóma Hæstaréttar, um hvort ákvæði 1. gr. frumvarpsins gildi afturvirkt, um hvernig verði greint milli einstaklinga og lögaðila, og um hver séu mörk milli stöðu einstaklinga og lögaðila vegna samfærilegra lánssamninga, t.d. svokallaðra bílalána.  Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er það sett fram til að draga úr óvissu og þörf á miklum fjölda dómsmála.  Verði frumvarpið að lögum er ólíklegt að það verði til að setja niður deilur.  Nær öruggt megi telja að það muni leiða til fjölda dómsmála milli fjármálastofnana og skuldara til að fá skorið úr óvissu, sem fyrirsjáanlegt er að muni taka langan tíma.  Slík dómsmál verði kostnaðar- og orkufrek fyrir alla aðila svo og stofnanir samfélagsins sem þurfi að skýra réttarástandið með fullnægjandi hætti.  Þó réttur löggjafans sé fyrir hendi til að bregðast við réttaróvissu, auk þess að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika, verður það best gert með víðtækari sátt allra aðila, þ.á m. þeirra sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta í nýju bönkunum, og þa´bæði með hagsmuni einstaklinga og lögaðila að leiðarljósi.

(Feitletranir eru mínar)

LOGOS varar sem sagt við því að frumvarpið leiði til sátta og hefur áhyggjur af afturvirkni.  Þá hvetur fyrirtækið til þess að leitað verði víðtækari sáttar allra aðila.  Ekki var nú hlustað mikið á þessi varnaðarorð, sem er furðulegt í ljósi þess að þetta er umsögn frá ráðgjöfum kröfuhafa gömlu bankanna.

Ása Ólafsdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands með samningsrétt sem sérsvið og aðstoðarmaður Rögnu Árnadóttur meðan hún var dómsmálaráðherra, segir m.a. í sinni umsögn:

..Nú er komið að uppgjöri gengislánasamninga.  Þar er því uppi spurning um hver eigi að bera halla af því við uppgjörið, að neytendum var boðið upp á lánasamninga þar sem í voru ákvæði um ógilda verðtryggingu.  Þar sem gerð er rík krafa til fjármálafyrirtækja um sérfræðiþekkingu og um vandvirkni í viðskiptum við lántakendur, auk þess sem neytendur voru í góðri trú um að þeir hefðu greitt réttilega af lánum sínum, taldi ég að komast mætti að þeirri niðurstöðu að fjármálafyrirtæki ættu hér að standa við og efna þær tilkynningar sem þau hefðu gefið út við framkvæmd lánasamninganna, allt fram til þess að gengistryggingin var dæmd ólögmæt.

Við uppgjör lánasamninga milli neytenda og lánveitenda, þ.e.a.s. ef neytandi hefði greitt af lánum sínum samkvæmt ákvæðum upphaflegs lánasamnings, mætti því a.m.k. ekki líta svo á að neytendur hefðu vangreitt hluta afborgana...

PricewaterhouseCoopers Legal (PwC) sendi líka inn umsögn og er hún ákaflega áhugaverð, svo ekki verði meira sagt.  Þar sem fjallað er almennt um frumvarpið segir m.a:

Hins vegar telur PwC Legal að gallar frumvarpsins séu mun fleiri en kostir þess.  Það er mat okkar að frumvarpið geti að miklu leyti brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár, þá aðallega reglum um eignarrétt neytenda og fyrirtækja.  Þá er einnig líklegt að meginefni frumvarpsins feli í sér íþyngjandi afturvirka lagasetningu.  Telur PcW Legal að neytendur hafi ríkari neytendavernd með stoð í gildandi löggjöf en með nýja frumvarpinu..

(Feitletranir eru mínar.)

Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins verður gagnrýnin enn þá harðar.  Hér er hluti umsagnar um 2. gr. frumvarpsins (breytingu á 1. mgr. 18. gr. vxtl., þ.e. að samningur skuli bera seðlabankavexti):

PwC Legal telur ákvæðið samræmist ekki neytendasjónarmiðum sem fram koma m.a. í 1. mgr. 36. gr. b. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og í 2. og 3. mgr. 36. gr. c. sömu laga.  Ákvæðið getur verið mjög íþyngjandi fyrir neytendur.

Í athugasemd við 2. gr. (breyting á 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga, um að "vangreiðsla" bætist á höfuðstól) segir m.a.:

..Er það álit umsagnaraðila að þessir útreikningar brjóti í bága við gildandi meginreglu kröfuréttar.  Sú meginregla gildir í kröfurétti að skuldari á ekki að greiða vexti eða aðrar vanskilagreiðslur af kröfu ef honum er ekki um að kenna að rétt greiðsla fór ekki fram.  Þessi meginregla er meðal annars lögfest í 7. gr. vxtl. hvað varðar dráttarvexti...

..Það er skoðun PwC Legal að löggjafinn ætti að kveða skýrt á um þá meginreglu i ákvæðinu að ekki skuli reiknast nokkurs konar vextir á van- og ofgreiðslur í þessum tilvikum heldur miða við það þegar [...] að uppgjör fór fram á samningi eða að annar aðili samningssambandsins, lántaki eða lánveitandi, sannarlega krafði gagnaðila sinn að samningnum um rétta greiðslu.

Í athugasemdum við 2. gr. (breyting á ákvæði 6. mgr. 18. gr. vaxtalaga) hnýtir PwC Legal í höfunda frumvarpsins:

..PwC Legal bendir á að orðalagið "ávinningur" sé mjög óheppilegt en umræddur ávinningur sem talað er um eru fjárhæðir sem fjármálafyrirtækin höfðu af skuldara með ólögmætum hætti.

Og loks vil ég vitna í athugasemdir við 2. gr. (breytingar á ákvæði 8., 9. og 10. mgr. 18. gr. vaxtalaga, um aðila- eða skuldaraskipti):

..Þessi regla getur verið mjög íþyngjandi og telur PwC Legal að reglan sé mjög líklega brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar og reglum um bann við afturvirkni sem meðal annars eiga sér stoð í eignarréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu..

Umræða undanfarinna daga og vikna eru nánast endurómun af umsögn þessara tveggja aðila, en það er fleira sem ég vil benda á.

Fyrst vil ég byrja á 8. - 10. mgr. sem vísað er til hér beint fyrir ofan um aðila- eða skuldaraskipti.  Þessi grein fór sýnist mér óbreytt inn í lögin.  Í henni er hvergi minnst á aðilaskipti á kröfuhafahliðinni, en í mörgum tilfellum hafa þau átt sér stað, þ.e. lán var gefið út af Kaupþingi, fluttist til Seðlabankans, var keypt af skilanefnd/slitastjórn og fært inn í Arion banka; lán var gefið út af Glitni og fært yfir í Íslandsbanka; lán var gefið út af Landsbanka Íslands og flutt yfir í NBI hf.; og lán var gefið út af BYR og flutt yfir í Byr sparisjóð.  Þar sem ekki minnst á hvað gerist við þessi aðilaskipti, þá hljóta ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup eiga þar við, en í 81. gr. laganna segir:

Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.

Samkvæmt þessu þarf nýr eigandi kröfu að greiða fyrir áfallna en ógreidda vexti, þ.e. vexti sem fallið hafa á kröfu frá síðasta gjalddaga eða rekja má til vanskil sem þá er vitað um, við uppgjör.  Aðra vexti á hann ekki á skuldara nema vegna síðari gjalddaga.

Þessar þrjár umsagnir, sem eru frá þremur mjög ólíkum aðilum, eru nokkuð samhljóða um margt.  Efnahags- og skattanefnd kaus að hunsa þær alveg vegna þess að hún var að fylgja fyrirmælum frá ráðherra.  (Fyrirmælin komu kannski ekki beinum orðum, en formenn nefnda hafa sínar leiðir til að sækja línuna.)

Eina umsögn vil ég nefna til viðbótar.  Ekki vegna þess að hún sé svo gagnrýnin á frumvarpið.  Nei, hún talar eiginleg mest lítið um það.  Um er að ræða umsögn Viðskiptaráðs Íslands, en í því taka samtöku á hlið atvinnurekenda í fyrsta sinn, svo ég viti til, undir þann málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna síðustu rúmlega tvö ár og það sem ég hef ítrekað fjallað um hér, að forsend hagvaxtar er að lausn fáist á skuldavanda heimilanna.  Eða eins og segir:

Skuldaúrlausn heimila er ein forsenda þess að efla eftirspurn í hagkerfinu og styðja við fyrirtæki landsins enda eru hagsmunir heimila samtvinnaðir hagsmunum atvinnulífs með  margvíslegum hætti.  Atvinnulífið er nauðsynleg forsenda atvinnusköpunar og aukinna lífskjara og heimilin eru undirstaða þeirrar verðmætasköpunar sem gerir fyrirtækjunum kleift að halda uppi hagvexti.  Eftir því sem lífskjör heimila batna og tekjur fyrirtækja aukast, þeim mun betur gengur að standa undir sameiginlegri þjónustu og velferðarkerfi sem Íslendingar sækjast eftir.

Heimilli og fyrirtæki eru í sameiningu uppspretta þeirrar eftirspurnar sem er lífæð hagkerfisins.  Skuldavandi eftirspurnar dregur þrótt úr hagkerfinu og veikir þann efnahagslega bata sem er nauðsynlegur nú og á næstu  misserum.  Hagvöxtur er allra hagur og markvissum skrefum stjórnvalda og fjármálakerfisins sem miða að því að draga úr óvissu sem enn er til staðar um meðferð skulda heimila og fyrirtækja má leysa mörg af þeim afleiddu vandamálum sem nú er glímt við.  Ekki er nægilegt að taka einungis á skuldavanda fyrirtækja eða heimila.  Taka verður á vanda beggja stoða eftirspurnarinnar.

Aðildarskortur nýju fyrirtækjanna

Arion banki bar fyrir til aðildarskorti í máli Sjómannafélags Íslands gegn bankanum (sjá mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-5215/2010).  Héraðsdómur tók undir þann málflutning.  Ég tel að þetta gildi í báðar áttir og því sé nýi bankinn aðeins aðili að vaxtakröfum vegna þess tíma sem lánið var í eigu bankans.  Vilji gamli bankinn heimta af mér vexti vegna tímans sem hann var starfræktur, þá er honum velkomið að setja fram kröfu um slíkt.  Ég vil aftur benda honum á, að samkvæmt bókum bankans og kvittunum sem hann hefur sent mér, þá stóð ég skil við hann á öllum gjalddagagreiðslum í samræmi við heimsendar tilkynningar, þó vissulega hafi það komið fyrir að ekki væri greitt nákvæmlega á eindaga.

Óskiljanleg krafa um afturvirkni

Mér er ómögulegt að skilja þá túlkun fjármálafyrirtækjanna á dómum Hæstaréttar, að hægt sé að senda mér rukkun vegna gjalddagagreiðslu sem ég framkvæmdi í júní 2004.  Ég gerði ekki ágreining um þá greiðslu og bankinn sendi mér kvittun fyrir henni.  Sama gildir um greiðsluna sem framkvæmd var í september 2008 og allar þar á milli.  Í tilfelli þess láns, sem ég vitna til, þá eru upphæðirnar ekki ýkja háar, en munurinn á útreikningum mínum og bankans telst þó í hundrað þúsund köllum.  Varðandi annað lán, þá erum við að tala um nokkrar milljónir.  Samkvæmt umsögn Ásu Ólafsdóttur, sem er vel að merkja sérfræðingur í samningarétti, þá deilum við túlkun á þessu atriði.

Kvörtun til ESA

Kvörtunin til ESA verður ekki stöðvuð úr þessu.  Þar mun hún vonandi fá sína umfjöllun og bráðabirgðaálit stofnunarinnar mun líklegast liggja fyrir innan tveggja til þriggja mánaða.  Gæti þó dregist.  Alltaf eru einhverjar líkur á að ESA hafni því að taka hana til meðferðar, en samkvæmt samtali mínu við starfsmann ESA bæði sl. sumar og á haustmánuðum, þá tel ég ekki miklar líkur á því.  Af hverju hefur kvörtunin ekki farið fyrr spyrja einhverjir.  Ástæðan er einfaldlega sú að það var alltaf eitthvað í gangi sem gat gert kvörtunina óþarfa.  Fyrst var það biðin eftir dómi Hæstaréttar, þá boðaði ráðherra frumvarp, endurútreikningar bílalána voru að koma, gerð var krafa um að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins í nokkrum málum, frumvarpið var lagt fram og gert að lögum, beðið var ákvörðunar Hæstaréttar um að leita til EFTA-dómstólsins og loks var beðið útreikninga fjármálafyrirtækjanna.  Þegar ljóst var að hvergi var virtur réttur neytenda, þá fór í gang vinna við kvörtunina og verður hún, eins og áður segir, kynnt af fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna og Samtaka lánþega á næstu dögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Billi bilaði, 15.4.2011 kl. 17:39

2 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Vilja afnema lög um gengislán

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram lagafrumvarp sem felur í sér að tilgreind ákvæði laga um vexti og verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 falli brott. Umrædd breytingalög voru samþykkt 22. desember 2010 í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 sem lýstu gengistryggingarákvæði í tilgreindum bílalánasamningum ógilt.

...

http://www.svipan.is/?p=23421

Þórður Björn Sigurðsson, 15.4.2011 kl. 19:50

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég gleymdi alveg að nefna, að dómarinn setti ofan í við lögmann Arion banka um tvennt í viðbót:

  1. Skuldarinn sendi bankanum bréf þar sem hann mótmælti kröfu bankans og bankinn sá ekki ástæðu til að svara því
  2. Bankinn ætlaðist til þess að skuldari sannaði gjaldfærni sína gagnvart blanco upphæð.
Örlaði í dómnum á hneikslan dómarans á því að bankinn skyldi ekki virða bréf skuldara viðlits, eins og það hafi aldrei verið vilji hjá bankanum að semja.  Sama átti við um sönnunina á greiðslufærni.  Taldi dómarinn það fráleitt að skuldari ætti að sanna færni sína til að greiða ótilgreinda upphæð.

Marinó G. Njálsson, 15.4.2011 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 211
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 192
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband