Leita í fréttum mbl.is

Nýr blóraböggull fundinn - Kröfuhafar eiga að koma í veg fyrir að lán séu leiðrétt

Fréttablaðið og Eyjan hafa verið fylgja eftir umræðu um hagnað bankanna og hlut endurmats lána í þeim hagnaði. Frétt á Eyjunni byrjar með þessum orðum:

Hinn aukni hagnaður íslensku bankanna mun ekki nýtast heimilum landsins til frekari skuldaleiðréttinga en orðið er eins og Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur kallað eftir. Ástæðan sú að kröfuhafar bankanna telja sig hafa verið hlunnfarna við færslu lána yfir í nýju bankana og arður af rekstri þeirra sé lágmarkskrafa þeirra.

Er nú verið að finna nýjan blóraböggul fyrir því að heimilin og atvinnulífið fá ekki eðlilega leiðréttingu lána sinna. Ég hef nú séð betri leikfléttu en þetta. Staðreyndir málsins eru að það eru starfsmenn og stjórnendur bankanna sem ákveða hvernig afslátturinn af lánasöfnunum er nýttur. Mark Flanaghan hjá AGS sagði í nóvember 2009 að eitt helsta viðfangsefnið þá hafi verið að sjá til þess að lífvænlegir lántakar fengju viðeigandi leiðréttingu lána sinna. Í staðinn fyrir að fara út í slíka vinnu, hafa bankarnir farið út í að yfirtaka fyrirtæki í stórum stíl, þ.e. í staðinn fyrir að nýta afsláttinn til að hjálpa eigendunum að endurreisa fyrirtækin, þá eru þau færð inn í eignarhaldsfélög bankanna. Þetta heitir eignaupptaka. Sama á við þegar heimilin eru annars vegar. Fyrsta skrefið virðist allt of oft vera að ná eigninni af fólki. Það fær að heita eigendur á pappírunum, en skuldsetningin er skilin eftir í 100 - 110% af matsverði. Ráði fólk ekki við þetta, þá getur það góðfúslega fengið 70% skuldsetningu í 3 ár. Í desember 2007 var skuldsetning sömu eignar miðað við sama mat kannski 60%.  Það hefur sem sagt misst allt sitt eigið fé og gott betur.

Já, bankarnir geta reynt að blekkja fólk og kenna hinum "vondu" kröfuhöfum um. Staðreyndin er að kröfuhafar vildu ganga mun lengra í leiðréttingu lána heimila og fyrirtækja, en gert hefur verið. Það er rétt að þeim fannst afslátturinn vera mikill sem fór á milli, en í þeirra huga voru það samt smámunir. Mismunurinn á hugmyndum þeirra og þess sem kom fram í mati Deloitte var kannski mikill fyrir okkur almenning, en mínar heimildir herma að þeir hafi sætt sig við það með því skilyrði að afslátturinn rynni í staðinn til lántakanna og þá fyrst og fremst heimilanna. Þetta var í ágúst 2009. Síðan varð kröfuhöfum ljóst að ekki stóð til að veita afsláttinn áfram. Hann átti að nota til að byggja upp eigið fé bankanna þriggja (eins og ég spáði fyrir í febrúar 2009) og þannig gera þá seljanlegri. Það vildu kröfuhafarnir ekki sætta sig við og þess vegna ákváðu þeir að koma sem stórir hluthafa inn í Íslandsbanka og Arion banka.  Fram að því höfðu þeir ekki viljað það. Trixið hans Steingríms misheppnaðist. 200 milljarðarnir sem ríkissjóður hefði lagt í þessa tvo banka voru smámunir miðað við væntan hagnað næstu ára.

Upplýst var í morgun að 80% af endurmati lánasafna Arion banka renni til kröfuhafa. Þetta verður ekki há upphæð samanborði við hina bankana, þar sem lánasöfnin voru færð með minnstum afslætti til Arion banka. Tölurnar verða stærstar hjá Íslandsbanka. En þó lánasöfnin hafi verið flutt yfir með einhverjum tilteknum afslætti, þá var það bara bráðabirgða gjörningur. Uppgjörið milli bankanna verður tekið upp á næsta ári. Þá verða allar tölur og prósentur endurskoðaðar. Slík endurskoðun getur leitt til þess að afslátturinn á lánasöfnunum eykst, en líklegast lækkar hann. Nema að dómstólar á Íslandi, ESA eða EFTA-dómstóllinn verði búnir að komast að því að ekki megi breyta vöxtum fyrrum gengistryggðra lána afturvirkt. Mér sýnist það geta rýrt verðmæti lánasafna bankanna um 30-40%, ef ekki meira.

Enn og aftur, ekki hlusta á þann málflutning að allt sé erlendum kröfuhöfum að kenna. Í fyrsta lagi er ekkert vitað hverjir þessir kröfuhafar eru í raun og veru. Í öðru lagi, þá er uppi þrálátur orðrómur um að innlendir aðilar hafi keypt umtalsverðan hluta af kröfunum. Í þriðja lagi, þá hafa einhverjir þegar fengið skuldatryggingar sínar greiddar út og hafa sætt sig við tjón sitt. Í fjórða lagi, þá koma kröfuhafar ekkert að rekstri bankanna og hafa því ekkert með það að gera hvernig bankarnir deila út afslættinum til réttlátra og ranglátra.  Skilanefndir og slitastjórnir eru á milli kröfuhafa og bankaráða.

Mér finnst þessi málflutningur heldur aumur og ekki sýna vilja bankanna að koma hér að raunverulegri endurbyggingu þjóðfélagsins. Mér finnst bankarnir gleyma uppruna sínum og hvernig lánasöfnin sem um ræðir bólgnuðu út vegna svika, lögbrota og pretta fyrrverandi stjórnenda og eigenda hrunbankanna. Vilji bankarnir byggja upp traust aftur, þá er þetta EKKI rétta leiðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður

Í praksis er það reyndar þannig að kröfuhafarnir hafa ansi mikið um mál að segja þar sem þeir geta gengið lagalega að slitastjórnum, reyndar eftirá. En í millibilsástandinu er það ríkisstjórnin og slitastjórnir sem hafa endanlega orðið.

Og þá vaknar spurningin ... hverjir eru raunverulegu kröfuhafarnir. Hverra hagsmuna er í raun verið að gæta ?

Slitastjórnir og ríki beita röksemdinni um hagsmunagæsluna fyrir kröfuhafa og vanmátt ríkisstjórnarinnar vegna þess að bankarnir séu eign kröfuhafa.

Sem er búið að vera algert kjaftæði því verið er að halda því fram að slitastjórnir og ríkisstjórn viti ekki hverjir séu eigendur. Ó já, það eru íslensk nöfn í hópnum.

Og þar sem slitastjórnir eru greinilega ekki með í okkar raunveruleika þar sem þær skilja ekki einu sinni skilaboðin sem Glitnir fékk í N.Y. er besta leiðin að gera hvað ?

Ríkisstjórnin ber við kröfuhöfum, slitastjórnir bera við kröfuhöfum, bankar bera við kröfuhöfum .... svo eigum við ekki að pönkast aðeins í kröfuhöfum. Ef þeir hafa völdin þá bregðast þeir við ... ef ekki þá láta þeir í sér heyra. Hinum þremur til mikils áfalls.

Svo þá er ljóst að hagsmunir kröfuhafa eru bundnir við afstöðu slitastjórna og ríkisstjórnar og öfugt ... sem segir okkur að menn hafa ræðst við og án vafa er í gangi þegjandi samkomulag.

rolf.kiefer@deka.de ... blaðafulltrúi Dekabank.

Prófaðu að spyrja hann um afstöðu Dekabank ?

Paranoid ? Kannski ...

Og tímasetning Serious Fraud ... umtalið um Edge .... þegar þú stendur í reykjarkófi ... eru ekki allmiklar líkur á eldi ?Og fenginn reynslu af bretum ... hvert heldur þú að reikningurinn verði framlengdur ?

Það er allavega meiri líkur á að menn séu hreinlega að ljúga að þjóðinni en að allar kannanir Capacent séu 100 % facta.

Hið skondnasta mál ... varð kannski ekkert hrun og engin spilling ?

"Ég vinn bara hérna og veit ekki neitt og ræð ekki neinu" eru auðvitað ósamþykkjanlegar yfirlýsingar þeirra sem eiga að vera meðhöndla málin.

Hlynur Jörundsson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 17:07

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er augljóst af hverju SFO er að grípa til aðgerða núna.  Skýringuna er finna í frétt m.a. visir.is og Eyjunnar um KaupthingEdge kostnað sem fellur á tryggingasjóðinn breska.  Er þetta ekki sams konar rannsókn og er í gangi hér á landi varðandi Icesave, þ.e. hvað var gert við peningana?

Marinó G. Njálsson, 10.3.2011 kl. 17:18

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já það er merkilegt þetta leynifélag...þ.e. kröfuhafar bankanna.

Stóru alþjóðabankarnir settu skuldabréf íslensku bankanna á uppboð og seldust þau á 2 til 7% af nafnvirði. Mikil leynd hvílir yfir því hverjir keyptu. Ýmsir útrásarvíkingar forðuðu milljörðum úr landi fyrir hrun. Ekki er ólíklegt að krumpaðir Icesave peningar hafi ratað úr buddum einhverra þeirra sem keyptu kröfurnar á íslensku bankanna.

Það er mjög merkilegt að því sé borið við að leynd hvíli yfir því hverjir eigi kröfur í bankanna þegar sífellt er látið upp hverjir séu helstu kröfuhafar í öll önnur fyrirtæki í landinu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.3.2011 kl. 18:17

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég held að almenningur þurfi að gefa skít í bankakerfið og hætta að borga af lánum. Það verður kannski til þess kröfuhafar koma úr felum og þá komumst við að því hverjir þeir eru. Mér er þar að auki slétt sama þó bankakerfið fari á hausinn aftur. Almenningur á enga peninga inni í bönkunum hvort eð er.

En ef einhverjir af þessum útrásarvíkingum sem settu hér allt á hvolf eru í hópi kröfuhafa bankanna verður mér öllum lokið.

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.3.2011 kl. 20:58

5 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Látum berast. Hér er raunveruleikinn á mannamáli sem allir ættu að skilja.

http://wonderwoman.blog.is/blog/wonderwoman/entry/1149363/

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 11.3.2011 kl. 00:47

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það þarf að aflétta bankaleyndinni og upplýsa hverjir kröfuhafarnir séu, sem virðast hafa öll völd í höndum sér.  Samt má enginn vita hverjir þeir eru.  Er þetta ekki grunsamlegt? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.3.2011 kl. 02:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 1681235

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband