Leita í fréttum mbl.is

Seðlabankinn snuprar starfsmenn sína og firrir sig ábyrgð á störfum þeirra

Ég fæ ekki betur séð, en aðstoðarseðlabankastjóri sé með ummælum sínum:

að skýrslan endurspeglaði skoðun þeirra starfsmanna sem unnu hana, fremur en Seðlabankans

að snupra starfsmennina sem unnu skýrsluna.   Ekki veit ég hvort þetta er almenn venja hjá Seðlabanka Íslands að gangast ekki við gagnavinnslu og rannsóknum starfsmanna í vinnutíma. Þetta hljómar frekar undarlega svo ekki sé meira sagt.  Ég átta mig alveg á því að Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, hefur líklegast ekki haft færi á að sannreyna upplýsingarnar, en til þess hefur hann þessa sérhæfðu starfsmenn.

Fyrst yfirstjórn Seðlabankans telur vafa leika á sannleiksgildi upplýsinga um erlenda stöðu þjóðarbúsins, þá er næst að spyrja hvaða upplýsingar aðrar yfirstjórnin treystir sér ekki til að styðja við.  Njóta upplýsingar um eigna- og skuldastöðu bankakerfisins stuðnings yfirstjórnarinnar?  Eru upplýsingar um utanríkisviðskipti traustsins verðar?  Hafa menn efasemdir um gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins?  Hvort telur yfirstjórn bankans tölurnar um erlenda stöðu þjóðarbúsins vera ofmetnar eða vanmetnar? 

Síðan má spyrja: Hvers vegna treystir yfirstjórn Seðlabanka Íslands sér ekki til að standa með gagnavinnslu- og rannsóknarstörfum starfsmanna sinna?  Er það vegna þess að yfirstjórnin veit að starfsmennirnir eru ekki hæfir til starfans?  Er það vegna þess að yfirstjórnin veit að upplýsingum var haldið frá starfsmönnunum?  Eða er það vegna þess að þessar upplýsingar áttu að fara leynt og aðrar "heppilegri" upplýsingar áttu að birtast í staðinn?

Mér finnst vera himinn og haf á milli þess að túlkun starfsmanna á gögnum sé ekki endilega skoðun yfirstjórnar Seðlabanka Íslands, en að gefa í skyn að

[o]pinberar tölur Seðlabanka Íslands um erlenda stöðu þjóðarbúsins, sem birtar eru reglulega á heimasíðu bankans, geta verið villandi og síst til þess fallnar að skýra hina raunverulegu stöðu

er allt önnur Ella. 

Ég hef svo sem heyrt þennan fyrirvara yfirstjórnar SÍ áður.  Það var á tveimur málstofum eða þremur um skuldastöðu heimilanna og skuldakreppur.  Munurinn þar var að verið var að vinna flóknar upplýsingar um skuldir, tekjur, gjöld og eignir sem kölluðu á mikla túlkun á hvað ætti að taka með og hvað ekki.  Margra mánaða vinna með SQL-fyrirspurnum í samsetta gagnagrunna frá ýmsum áttum.  Ég benti sjálfur strax á vafasamar túlkanir hagfræðinga Seðlabankans þá og þegar fram liðu stundir kom í ljós að túlkun þeirra stóðst ekki nánari skoðun.  Hér er ekki um slíkt að ræða.  Hér er um það að ræða að næsta auðvelt er að safna saman þessum gögnum.  Það sem meira er, það er hlutverk Seðlabanka Íslands að safna þessum gögnum og halda utan um þessar upplýsingar.  Treysti yfirstjórn Seðlabankans sér ekki til að styðja við álit og vinnu sérfræðinga sinna, þá er ekki nema um eitt að ræða.  Fá verður óháða sérfræðinga til að fara ofan í vinnu starfsmanna SÍ og út frá niðurstöðu þeirrar rannsóknar verði skipt um fólk í yfirstjórn SÍ eða starfsmennirnir finni sér ný störf.

Yfirstjórn Seðlabanka Íslands getur ekki firrt sig ábyrgð á störfum starfsmanna sinna.  Efni sem birt er í nafni Seðlabanka Íslands er skoðun bankans og hann ber ábyrgð á innihaldi þess.  Haldi Arnór Sighvatsson, að einstakir starfsmenn hafi völd til að koma með yfirlýsingar eða skoðanir í efni útgefnu af bankanum án þess að bankinn sé ábyrgur fyrir því, þá veður hann í villu.  Telji Seðlabankinn sig ekki geta stutt við vinnu starfsmanna sinna, þá er út í hött að sú vinna sé unnin í nafni Seðlabankans og ennþá fáránlegra að niðurstöður hennar séu birtar í nafni Seðlabankans.  En þetta er kannski hin nýja stjórnsýsla, sem byggir á því að yfirstjórn beri ekki ábyrgð.


mbl.is Opinberar tölur eru villandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hélt að það væri starfsregla í bankananum að taka svona til orða um skýrslur,greinargerðir, og svo framvegis. Fjölmargar stofnanir og fræðitímarit hafa svipaðar starfsreglur.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 09:16

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hrafn, ég skil vel að fræðitímarit geri það, enda hafa ritstjórar þeirra ekki sérþekkingu á efni greina heldur útgáfustarfsemi.  Seðlabankinn er stofnun sem hefur m.a. það hlutverk að gefa út hagtölur.  Hann getur ekki firrt sig ábyrgð á réttleika þeirra talna nema með almennum fyrirvara um að séu villur í tölunum, þá verði þær leiðréttar við næstu útgáfu talnanna.  Yfirstjórn hans getur ekki afneitað upplýsingunum sem skoðun starfsmanna.

Marinó G. Njálsson, 10.3.2011 kl. 09:22

3 Smámynd: Kristinn Pétursson

Orðalagið virðist töluverð ofanígjöf til einhverra i sem "unnu skýrsluna"  - og hugsanlega þess yfirmanns sem ber ábyrgð á því hverjir unnu skýrsluna.... -  alla vega ekki aðstoðarbankastjórinn....

Vinnumórallinn er sem sagt hugsanelga "köfnunarefnisstigi" mínus 79°C ..  einhver að kafna úr skítamóral  innanhúss....  

Kristinn Pétursson, 10.3.2011 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680053

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband