7.3.2011 | 22:44
Icesave - Á að borga og þá hver á að borga?
Egill Helgason er með skemmtilega pælingu um Icesave á Eyjunni. Mér finnst hann aftur ekki taka á kjarna málsins.
Að mínu áliti, eftir að hafa stúderað lögin um innstæðutryggingar og tilskipun ESB, þá eru kjarnaspurningar tvær. Sú fyrri er: Er greiðsluskylda fyrir hendi? Ef svarið við henni er já, þá er næst að spyrja: Hver ber þessa greiðsluskyldu? Að flækja inn í þessa umræðu hvort dómsmál vinnist eða lán fáist er hreint aukaatriði meðan við höfum ekki svarað þessum kjarnaspurningum. Að því loknum getum við velt öllu hinu fyrir okkur.
Ég held að það sé alveg öruggt að greiðsluskyldan sé fyrir hendi. Hún hvílir fyrst og fremst á Landsbanka Íslands, enda voru innstæðurnar í bankanum. Að Bretar og Hollendingar hafi tekið upp á því hjá sjálfum sér að greiða mun hærri tryggingu, en íslensk lög kveða á um, kemur íslenskum skattgreiðendum ekkert við meðan við hugsum þetta eingöngu út frá lögunum um tryggingasjóð innstæðueigenda. Að hluta til er þetta málefni íslenska tryggingasjóðsins sem fékk ekki tækifæri til að grípa inn í á sínum tíma, þar sem Bretar og Hollendingar voru fljótari til. Samkvæmt íslenskum lögum og tilskipun ESB, þá skal tryggingasjóður innstæðueigenda greiða innan 6 mánaða komi upp staða eins og haustið 2008. (Raunar er það þannig, að hann hefur 3 mánuði og getur síðan tekið sér aðra 3 mánuði.) Neyðarlögin breyttu engu um það. Eins og áður segir þá fékk hann ekki tækifæri til að standa við skuldbindingar sínar. Hann hafði svo sem ekki neina burði til þess, enda ekki nægilega digur til að reiða út fleiri hundruð milljarða á allt að 6 mánuðum.
Hafi tryggingasjóðurinn ekki fjármuni til þess að greiða út kröfurnar, þá ber aðildarfyrirtækjum sjóðsins, samkvæmt lögum og tilskipuninni, að leggja honum til meiri fjármuni. Hver eru þessi aðildarfyrirtæki sjóðsins? Jú, það eru þær innlánsstofnanir sem tóku við innlánum hér á landi. Meðal þeirra eru/voru Landsbanki Íslands Glitnir, Kaupþing, Straumur-Burðarás, SPRON, BYR, MP banki og sparisjóðirnir. (Seðlabankinn tekur einnig við innlánum, en hann er ekki aðili að sjóðnum.) Þessir aðilar hefðu því átt að leggja tryggingasjóðnum til þá peninga sem vantaði upp á 20.887 EUR lágmarkið svo hægt væri að greiða þá út innan 6 mánaða, svo fremi sem Landsbankinn hafi ekki sjálfur verið búinn að greiða þessa upphæð út. Spurningin er hvort slitastjórn Landsbankans hafi ekki átt að grípa sterkar inn í þetta ferli og byrja endurgreiðslur fyrr líkt og Kaupþing og Glitnir gerðu. Hvers vegna höfðust menn þar ekkert að (kannski ósanngjarnt að segja þeir hafi ekkert gert) eða a.m.k. hófu útgreiðsluferlið? Glitnir og Kaupþing biðu ekki eftir að kröfulýsingarfrestur var útrunninn eða að búið væri að taka tillit til krafna. Innstæðueigendur lýstu kröfum í bú þessara banka, en það kom ekki í veg fyrir að innstæður væru greiddar út. Hvers vegna var ekki sami háttur hafður á varðandi Icesave? Líklegast er sökin Breta og Hollendinga, þar sem ríkisstjórnir þessara landa þurftu að slá pólitískar keilur á kostnað Íslendinga.
Pökkurinn er því kominn aftur til íslenska tryggingasjóðsins. Eins og áður segir hvílir sú ábyrgð á aðildarfyrirtækjum sjóðsins að leggja honum til fjármuni standi sjóðurinn ekki undir kröfum sem á hann eru gerðar. Nú vill svo til að ríkið er búið að taka yfir sum þessara fjármálafyrirtækja og eingöngu vegna þess leggst greiðsluskylda á ríkissjóð, þ.e. sem eiganda fyrirtækjanna, en ekki vegna ríkisábyrgðar á tryggingasjóðnum. En tryggingasjóðurinn fékk aldrei tækifæri til að rækja skyldur sínar og svo má spyrja sig hverjar voru þessar skyldur sjóðsins.
Samkvæmt tilskipun ESB og íslenskum lögum ber tryggingasjóðurinn ábyrgð á öllum innstæðum upp að 20.887 EUR. Upphæðir umfram þessa upphæð eru ekki tryggðar að íslenskum lögum né samkvæmt tilskipun ESB. Lögin segja einnig að sjóðurinn skuli gera kröfu á viðkomandi fjármálastofnun um endurgreiðslu á öllu því sem hann leggur út fyrir. Hvernig sem ég horfi á þetta mál, þá skil ég ekki hvernig hægt er að semja um að kröfur breska tryggingasjóðsins og þess hollenska séu gerðar jafnréttháar kröfum þess íslenska í þrotabú Landsbankans. Þetta er það atriði sem stendur fastast í mér, enda brýtur þetta gegn allri rökhugsun.
En burt séð frá kröfuröðinni í þrotabú Landsbankans, þá er greiðsluskylda íslenska tryggingasjóðsins alveg klár í mínum huga upp að 20.887 EUR. Einnig er í mínum huga alveg klárt að sjóðurinn er ekki nógu stöndugur til að greiða þá fjárhæð út. Samkvæmt lögunum og tilskipunni, þá eiga aðildarfyrirtæki sjóðsins að hlaupa undir bagga og þar með fjármálafyrirtæki, sem eru komin í eigu ríkisins. Síðasta spurningin er því (í mínum huga) hvort þessi greiðsluskylda vegna eignar ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé hærri eða lægri en samkvæmt Icesave samningnum. Ekki hef ég hugmynd um það, en mig grunar að hún sé eitthvað lægri. Á móti kemur, að mörg þeirra fyrirtækja sem ættu að leggja tryggingasjóðnum til peninga eru farin á hausinn og því mun krafan á hin hækka og þar með á ríkissjóð.
Ef neyðarlögin hefðu ekki komið til, þá hefði pökkurinn endað hjá gjaldþrota fjármálafyrirtækjum og eigendum þeirra. Þar með hefði hann ratað til ríkisins, ekki í formi ríkisábyrgðar á tryggingasjóðnum, heldur vegna eignarhalds á stórum hluta innlánafyrirtækja. En neyðarlögin eru þarna og þau segja að innlán séu forgangskröfur. Þannig ætti pökkurinn enda hjá Landsbanka Íslands hf. svo fremi sem hann hefur efni á að borga. Þá kemur að ákvörðun FME um stofnefnahagsreikning NBI ehf.
Við mótun stofnefnahagsreiknings NBI ehf. gleymdist, að því virðist, að taka tillit til þess að eignir Landsbanka Íslands dygðu hugsanlega ekki fyrir öllum innstæðum. Ólíkt Glitni og Kaupþingi voru innstæður hjá Landsbankanum meiri en raunvirði eigna bankans á þeim tímapunkti. Það var því hreint og beint glapræði að flytja allar innstæður innlendra aðila yfir í NBI ehf. Hið rétta hefði verið að flytja eingöngu innstæður í sama hlutfalli og þá leit út fyrir að eignir næðust upp í forgangskröfur. Þetta atriði er í mínum huga stærstu mistökin sem gerð voru í kjölfar hruns Landsbankans og er eina ástæðan fyrir því að Icesave er eitthvert vandamál. Hefðu menn haft vit á því að setja þak á flutning innstæðna og gætt með því jafnræðis á milli innstæðna hér á landi og á Icesave reikningum, þá snerist Icesave deilan bara um það hvenær íslenski tryggingasjóðurinn gæti greitt út að hámarki 20.887 EUR vegna hvers Icesave reiknings. Höfum í huga, að þegar Kaupþing greiddi innstæðueigendum út innstæður sínar á KaupthingEdge, þá greiddi bankinn enga vexti. Tilskipun ESB gerir ekki kröfu um slíkt, að ég fæ best séð. Hún snýst bara um að greiða höfuðstól innstæðunnar upp að tryggðu lágmarki. Íslenski tryggingasjóðurinn hefði sjálfkrafa orðið forgangskröfuhafi í þrotabú Landsbankans, þar sem hann hefði orðið eigandi að forgangskröfum innstæðueigenda upp að EUR 20.887 og sjóðurinn hefði auk þess komið á undan hollenska sjóðnum og breska sjóðnum, þar sem þeir tóku yfir kröfur sem voru umfram EUR 20.887.
Þetta klúður, eins og ég vil kalla það, við stofnun NBI ehf. verður í mínum huga til þess, að aukin greiðsluskylda leggst mögulega á ríkissjóð. FME hugsaði málið ekki til enda og mismunaði innstæðueigendum. Annar hópurinn átti að fá allt sitt strax meðan hinn átti að fá sitt eins og erlendar eignir Landsbanka Íslands dugðu til og eftir dúk og disk. Til að tryggja, að fyrri hópurinn fengi allt sitt strax, lagði ríkissjóður NBI ehf. meira að segja til aukið fé. Er nokkuð óeðlilegt að hinn hópurinn geri kröfu um það líka. Það sem meira er, innlendir aðilar með það sem kallað er heildsöluinnlán fengu allt sitt, en erlendir aðilar með heildsöluinnlán eiga ekki að teljast forgangskröfuhafar. (Í einhverjum tilfellum er þó deilt um þetta fyrir innlendum dómstólum.)
Nú segi ég, að mögulega muni þetta "klúður" FME leiða af sér hærri greiðsluskyldu ríkissjóðs. Það veltur allt á því hvort dómstólar meti, að íslenskum stjórnvöldum hafi verið heimilt að verja íslenska innstæðueigendur betur en erlenda. Fyrstu vísbendingar gefa slíkt til kynna, en niðurstaða Hæstaréttar er ekki komin og síðan geta erlendir aðilar leitað til dómstóls ESB eða EFTA-dómstólsins. Þar til niðurstöður fást frá þessum æðri dómstólum, þá leikur vafi á því hver greiðsluskylda ríkisins er vegna Icesave.
Síðasti kubburinn í púslið er að mínu mati að fá allar tölur upp á borðið. Þær eru á reiki og í því erfitt að henda reiður á eða reikna út hvaða leið er hagkvæmust. Stundum getur verið betra að taka samningi strax frekar en að láta reyna á niðurstöðuna fyrir dómstóli. Þetta snýst um að reikna út vænta niðurstöðu og velja þá leið sem gefur hagkvæmustu væntu niðurstöðu. Tökum dæmi: Ef kostnaður við eitthvað er 100, en það eru 30% líkur á að tekjur séu 10, 50% að þær séu 100 og 20% að þær séu 200, þá er væntur hagnaður -7 eða tap upp á 7. (0,3 * 10 + 0,5 * 100 + 0,2 * 200 - 100 = 7). Miðað við þetta, er það slæmur kostur að framkvæma það sem hér um ræðir. Breyttar líkur geta síðan gert niðurstöðuna hagstæða. Í tilfelli Icesave, þá þarf að vega tvær hliðar á talsvert flóknari jöfnu og finna út hvort vænt útkoma hallar til hægri eða vinstri. Ég hef ekki hugmynd í hvora áttina vænt útkoma vísar, þar sem tölurnar liggja ekki fyrir og óháð mat á líkum hefur ekki verið framkvæmt. Mér kæmi aftur ekki á óvart, þó vænt útkoma segi að betra sé að samþykkja lögin og virkja núverandi samning, en að fella þau og taka áhættuna í dómsmáli. Helgast það eingöngu á tilfinningu minni um hver versta hugsanlega niðurstaða kynni að verða og líkunum á því að hún verði ofan á. Það er aftur mín skoðun, að ekkert í tilskipun ESB eða íslenskum lögum setji þá kröfu á ríkissjóð að hann ábyrgist tryggingasjóð innstæðueigenda og vil raunar ganga svo langt að segja, að slíkt væri brot á samkeppnistilskipun ESB. Kaldhæðnin er meira að segja sú, að írsk stjórnvöld voru kærð til ESB fyrir að veita írskum bönkum 100% ríkisábyrgð á innstæðum og mig minnir einhvern veginn að málið hafi fallið Írum í óhag.
Svo ekkert fari á milli mála, þá hef ég ekki gert upp hug minn í málinu, og á hvorn veginn sem atkvæði mitt fellur, þá viðurkenni ég aldrei að kröfur erlendu tryggingasjóðanna í þrotabú Landsbankans séu jafnréttháar þess íslenska eða að ríkissjóður beri einhverja bakábyrgð á íslenska tryggingasjóðnum, enda álít ég það brot á samkeppnistilskipun ESB.
(Tekið skal fram að ég er með bæði mastersgráðu og verkfræðigráðu í aðgerðarannsóknum með ákvörðunarfræði sem sérsvið.)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 19
- Frá upphafi: 1681234
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Takk fyrir að vera ein af þeim fáu röddum sem koma sér að kjarna málsins, ræða málið málefnalega og af skynsemi.
Mig grunar samt að skynsemin eigi lítið í áróðurinn sem felst í því að fullvissa Íslendinga um hvað þetta sé leiðinlegt mál, því verði að ljúka og að þess vegna verði að samþykkja samninginn.
Hrannar Baldursson, 7.3.2011 kl. 22:54
Góð og málefnaleg umfjöllun. það er mikilvægt að sitja ekki fastur í gömlum skotgröfum og þylja upp gamlar tuggur.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 23:18
Nákvæmlega svona málefnalega framsetningu er það sem ég kalla eftir frá stjórnvöldum vegna þessa máls. Hvort ég er sammála öllu sem að ofan er sagt er annað mál, en framsetningin er góð. Stjórvöld eiga ekki að þvæla í þessu sambandi um atriði sem tengjast málinu ekki beint, á ég þar við fjármögnunarmöguleika fyrirtækja eða ríkissjóðs, skuldatryggingarálag, endurskoðun AGS, samfélag þjóðanna, o.fl. Ég vil bara fá að vita skýrt og skorinort hvað í þessu máli segir beint að íslensk þjóð eigi að borga þessa peninga, hverjum og af hverju! Og að sama skapi af hverju íslensk þjóð á ekki að borga og af hverju! Ég óttast að viðhorf fólks þessa dagana til þessa máls mótist fyrst og fremst af leiða á því en ekki staðreyndum. Sumir muni segja já því það nennir ekki að ræða um Icesave lengur og vill losna við það úr umræðunni.
Erlingur Alfreð Jónsson, 7.3.2011 kl. 23:39
Brilljant nálgun. það eru allir bankarnir sem eru ábyrgir.
Björn Jónasson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 01:02
Marínó - ertu alveg viss, að það hefði verið praktísk að setja slíkt þak. En, skv. áliti Eftirlitsstofnunar EFTA þá er það þeirra niðurstaða, að engin vægari úrræði hafi verið praktísk og því telja þeir Neyðarlögin standast jafnræðisregluna.
Sbr.: Neyðarlög standast
En þeir virðast telja að eina leiðin til að fá innistæður til að tolla í bönkunum, í kjölfar endurreisnar hafi verið að ábyrgjast 100%.
Annars hefði verið of mikil hætta á að peningar hefðu verið teknir út við fyrsta tækifæri með hruni þeirra fljótlega í annað sinn.
Tek fram þetta er skoðun Eftirlitsstofnunarinnar sem ég er að vísa í.
Þ.e. auðvitað engin leið að vera viss. Mín skoðun er að stærstu mistökin, hafi verið í yfirfærslu lánapakkanna, sérstaklega yfirfærsla gengirtryggðra lána þrátt fyrir aðvaranir í tengslum við þau lán.
Ég geri ekki lítið úr þeim vanda, hve stór upphæð þessi innlán eru.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.3.2011 kl. 02:54
Varðandi Icesave, þá ég ætla raunverulega að bíða með að taka ávkörðun af eða á. En, þ.e. ástæða til. Hún er sú, að leiðtogar Evrusvæðis ráða ráðum sínum og sú fundalota á að ljúka fyrir næstu mánaðamót, þegar til stendur að kinna til sögunnar nýjan sáttmála um Evruna - hvorki meira né minna.
En, miðað við viðbrögð hinna og þessa, þá óttast margir að sá sáttmáli muni ekki ganga nægilega langt, sbr. Jean Claude Trichet "
Trichet er beinlínis að þrýsta á Evrópuþingið, að segja "Nei" og senda Ráðherraráðinu pakkann aftur til baka.
Það yrði saga til næsta bæjar.
Ég get einnig bent á orð Romano Prodi og Jacques Delors, sem hvetja leiðtoga Evrusvæðis til dáða í grein í Financial Times í sl. viku, og leggja þeim lífsreglurnar um það, hvað þeir tveir fyrrum forsetar Framkvæmdastjórnarinnar telja að nýr sáttmáli skuli innihalda.
Ég er að segja, að næstu vikur verði mjög spennandi. Hver útkoma leiðtoga Evrusvæðis verði, og hvaða dóm hún fær frá alþjóðlegum mörkuðum - geti skipt verulegu máli.
Þannig séð, að ég er feginn að ÓRG sagði "Nei" og gaf okkur þennan frest til 9. apríl því þann dag, ættu fyrstu viðbrögð markaða og annarra að liggja þegar fyrir, og því hvort að lausn leiðtoganna virðist raunverulega vera lausn eða hvort að krýsan taki þá flugið.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.3.2011 kl. 02:56
Einar, neyðarlögin setja innstæður í forgangskröfur. Eigi þrotabúið ekki upp í forgangskröfur, þá er ekki hægt að greiða þær allar út. Svo einfalt er það. Fái menn bara upp í 80% af forgangskröfum umfram lágmarkstryggingu, þá nær það ekkert lengra. Í þessu tilfelli þá á Landsbanki Íslands sem stendur, hvað sem síðar verður, upp í forgangskröfur og það er því brot á jafnræði forgangskröfuhafa að sumir, þ.e. innlendir, fái allt sitt greitt meðan aðrir, þ.e. Icesave reiknings eigendur, þá bara hluta af sínu. Þetta kemur því ekkert við hvort neyðarlögin standast eða ekki. Neyðarlögin snúa aftur að því hvort að stjórnvöld hafi mátt mismuna kröfuhöfum með því að færa innstæður úr almennum kröfum í forgangskröfur. Búið er að staðfesta að það hafi mátt.
Marinó G. Njálsson, 8.3.2011 kl. 08:27
Ok, en þú svaraðir eiginlega ekki spurningu minni, sem var beiðni til þín um að þú rökstyddir af hverju að þínu mati það væri óhætt að ríkið setti þak á þ.s. ríkið ábyrgðist er það var að endurreisa bankana.
Að mati Eftuirlitsstofnunarinnar er líklegt að eina leiðin til að lágmarka möguleika á flótta innistæðna þegar í kjölfarið hafi einmitt verið, að ríkið ábyrgðist allt þ.e. 100%.
Þess vegna telur Eftirlitsstofnunin að neyðarlögin standist einnig jafnræðisregluna.
Vegna þess, að þú talaðir um að það hefði átt að setja þak, þá er ég að fiska eftir því hvaða rökstuðning þú hefur fyrir því, að vera annarrar skoðunar en Eftirlitsstofnunin um að ríkið hafi ekki haft val um annað en að tryggja allt þ.e. 100%.
---------------------
Síðan leiðir maður auðvitað frá þeirri niðurstöðu að mismunun sé réttlætanleg, ergo að ekki sé líklegt að Bretar og Hollendingar geti sótt mál gegn okkur á þeim grunvelli þ.s. mismununin hafi verið nauðsynleg til að verja lögmætt og báðnauðsynlegt markmið, þannig að mál gegn okkur þurfi að sækja á öðrum grundvelli en grundvelli ólöglegrar mismununar.
Þetta þíðir, að ef Efta Dómstóll er sammála Eftirlitsstofnuninni að ekki er hætta á að krafa um nokkuð umfram 20þ. € nái fram að ganga. Þannig, að spurningin sé einungis um 20þ. € eða ekki.
Þannig, að áhætta af dómsmáli sé ekki nálægt því eins alvarleg og sumir vilja láta.
Merkilegt hve þeir sem þannig vilja láta, minnast aldrei á niðurstöðu Eftirlitsstofnunarinnar þess efnis að neyðarlögin standist, því skv. henni er ekki neinn möguleiki til að sækja kröfu um neitt meir en 20þ. € því einig mögulegi lagagrundvöllur slíkrar umframkröfu væri ólögleg mismunun sem þá fellur um sjálft sig ef mismunun var nauðsynleg til að uppfylla löglegt og nauðsynlegt markmið.
Svo að dómsmál er klárlega ekki mjög áhættusamt, ef við erum sammála Eftirlitsstofnuninni ath. að mismunun hafi raunverulega verið nauðsynleg, og að ekki hafi verið líklegt að vægari leið hefði skilað jafn góðri niðurstöðu.
------------
Þess vegna bið ég um rökstuðning frá þér, því þetta er mikilvæg spurning. Því ef þú telur þig geta rökstutt að ríkið hafi geta nýtt vægari leið, þá mun því verða beitt gegn okkur af Bretum og Hollendingum.
Þess vegna byð ég þig að íhuga fullyrðingu þína um að hægt hafi verið að setja þak, því þetta er mjög mikilvægur punktur. Eftirlitsstofnunin telur, að það hafi ekki verið praktísk leið.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.3.2011 kl. 12:05
Ath. Eftirlitsstofnunin var ekki einungis að fella mat á Neyðarlögin heldur aðgerðir ríkisstj. "in general" við endurreisn bankanna.
Þ.e. neyðarlögin séu réttlætanleg og að auki að trygging innistæðna 100% sé réttlætanleg.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.3.2011 kl. 12:10
Svo matið er á Neyðarlögunum og aðgerðum ríkisstj. við endurreisn bankanna.
Þetta er mjög mikilvæg spurning, því ef mismunun var réttlætanleg þá ætti ekki að vera hægt að vinna mál gegn okkur á grundvelli ólöglegrar mismununar.
Þá er einungis eftir önnur álitamál. En, Eftirlitsstofnunin í áliti sínu þess efnis að Ísland eigi að greiða, byggist á því að TIF hafi ekki uppfyllt skilyrði Directive 19/94/EC.
Þeir meina, að TIF hafi orðið að vera fært um að greiða - og þannig að ef TIF getur ekki greitt lögbundið lágmark þá sé TIF ekki að uppfilla skilyrði reglugerðar.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.3.2011 kl. 12:16
Einar, ég hef ekki kynnt mér álit ESA fyrir utan það sem hefur birst í fjölmiðlum og svo skrif þín. En rökstuðningur minn er eftirfarandi:
ESA samþykkir neyðarlögin, en spurningin er hvort ekki hafi jafnframt verið gert ráð fyrir að ALLAR innstæður væru 100% tryggðar, ekki bara sumar. Þegar ég segi ALLAR, þá líka Icesave.
Miðað við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, þá samþykkti ESA grundvallaraðferðina, þ.e. að færa innstæður fram fyrir í kröfuröð og gera þær að forgangskröfum, en ég reikna með því að fyrir þá hafi verið lagt að eignir dyggðu fyrir forgangskröfum og það sé forsenda niðurstöðunnar. Þar sem svo var ekki í tilfelli Landsbanka Íslands, þá lagði ríkissjóður NBI til það fé sem upp á vantaði. Spurningin er hvort ríkissjóður verði þá ekki að leggja Landsbanka Íslands það fé sem uppá vantar til að standa straum á forgangskröfum í þrotabú hans. Koma hefði mátt í veg fyrir þetta með því að gera aðgengilegar innstæður sem nam eignum Landsbankans og þar með færa ekki allar innlendar innstæður yfir í NBI.
Marinó G. Njálsson, 8.3.2011 kl. 16:39
Það er tvennt ólíkt að "tryggja" innstæður sem eru til eignir fyrir og "tryggja" þær óháð því hvort eignir séu fyrir hendi. Í fyrra tilfellinu er tekur ríkið ekki á sig neinar ábyrgðir, en í seinna tilfellinu er það augljóslega að gangast í ábyrgð fyrir því sem eignir duga ekki fyrir.
Marinó G. Njálsson, 8.3.2011 kl. 16:42
OK, sjálfsagt rétt að munar um hvort eignir standi á bakvið eða ekki.
Annars var ég með álit ESA - hérna: Neyðarlög standast
Ef þú hefur ekki lesið það, hve ég þig til þess. Vel þess virði ef þú getur fundið tíma.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.3.2011 kl. 23:14
Sæll Marinó,
Ég pældi svolítið í gegnum lögin um Tryggingasjóðinn, nr. 98 frá 1999.
í 10. gr. 3. mgr. segir:
"Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum."
og 4. mgr.:
"Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi."
(sjá http://www.althingi.is/lagas/137/1999098.html)
Ég get því ekki séð að lögin kveði á um að aðildarfyrirtækjum sé skylt að leggja honum til meira fé. Ég skil þetta þannig að ef sjóðurinn er blankur þá geti hann slegið lán til að borga skuldir. Er þetta ekki það sem Icesave snýst í raun um? Ríkisábyrgð á láni fyrir Tryggingasjóðinn svo hann geti greitt Bretum og Hollendingum?
Það kemur auðvitað hvergi fram hver geti eða eigi að gangast í ábyrgðir fyrir þessum sjóði, en ég held að engum hafi dottið í hug að nánast allir viðskiptavinir bankakerfisins á Íslandi þyrftu einn slæman veðurdag að sækja innistæður sínar í þennan sjóð:(
í 3. grein, 1. mgr. segir:
"Þessi fyrirtæki, hér eftir nefnd aðildarfyrirtæki, bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans [sjóðsins] umfram lögbundin framlög til sjóðsins"
Síðan kemur í 19. grein rulla um öryggissjóði, m.a. "Til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og í því skyni fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka eða sparisjóðs getur öryggissjóður veitt lán eða yfirtekið vissar eignir, gengið í ábyrgðir, bætt sérstakt tap og kostnað sem viðskiptabanki eða sparisjóður verður fyrir"
Voru þessir "öryggissjóðir" einhvern tíma til?
Stóðust og samræmdust þessi lög tilskipunum ESB - m.ö.o. voru þau viðurkennd af ESB? Mér sýnist hvorki Bretar né Hollendingar hafi treyst þeim nógu vel til þess að íslendingar gætu tryggt greiðslur á þessu rugli þegar allt fór í hund og kött haustið 2008.
Allar tölur í þessu eru svo á reiki að það er afskaplega erfitt að henda reiður á hvað er raunverulegt, að svo miklu leyti sem þessar tölur geta verið raunverulegar, því mikið af þessu byggist á því hvað skeður á næstu árum. Það þarf að gefa upp allar forsendur fyrir útreikningum, sem mér finnst vera gert í lögunum um Icesave - renndi í gegnum hluta af þeim um daginn, nennti ekki að lesa þetta allt!;)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 9.3.2011 kl. 07:46
Arnór, í 6. gr. segir:
Tilskipunin segir aðili að sjóðnum, íslensku lögin nota orðin "viðskiptabankar og sparisjóðir".
Marinó G. Njálsson, 9.3.2011 kl. 07:53
Marinó,
Þetta með Hollensku og Bresku tryggingasjóðina: Varð ekki að gera þetta vegna þess að Bretar og Hollendingar tóku á sig að borga út til Icesave eigenda og tryggingasjóðirnir þeirra koma nú í raun sem innistæðueigendur á Icesvae? Í stað nokkur þúsund, þá koma tveir.
Fyrir mér þá bjuggu Bretar og Hollendingar til þetta Icesave vandamál. Ef þetta hefði farið eðlilega leið, þá hefði Landsbankinn hafið útgreiðslu til þeirra sem áttu inni á Icesave, sennilega hálfu til einu ári eftir hrunið og þetta hefði sennilega gengið nokkuð eðlilega fyrir sig. Þetta mál var klúður frá upphafi og það verður klúður til enda hvernig sem þetta veltur.
Ég er á móti því að ríkið taki á sig ábyrgð, EN ég er alls ekki viss um að dómsmál myndi enda Íslendingum í vil. Það er að vega og meta. Ef Ísland tapaði slíku máli má þá búast við að sóttir yrðu vextir af Icesave til íslenska ríkisins? Vextir af 5 eða 6 hundruð milljörðum í a.m.k. rúm tvö ár (frá október 2008 til Apríl 2011) er sæmileg summa... Í prinsippinu er ég algjörlega á móti þessum samningum, en ef maður skoðar þetta fjárhagslega, þá hallast ég helst að því að samþykkja þó mér sé mein illa við það.
Hvað ef þessu verður hafnað? Er það eitthvað vitað mál að Bretar og Hollendingar fari í dómstóla? Landsbankinn hefur verið að sanka að sér peningum og ætti að geta farið að ryðja þessu úr sér. Er það hagkvæmara fyrir Breta og Hollendinga að láta þetta bara hafa sinn gang ef samningnum verður hafnað? Ég bara hef ekki tilfinningu fyrir þessu dæmi, búinn að vera of lengi í burtu - aldrei botnað í Bretunum hvort sem var!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 9.3.2011 kl. 08:06
Arnór - góð spurning hvort B & H myndu nenna þessu. En ljóst er að ESA mun halda fram sinni kæru. En, eins og ritari EFTA dómstóls útskýrði (sjá síðasta Silfur Egils) þá kveður sá dómur ekki upp á neinar bætur, fjallar einungis um sekt/sakleysi ríkisstj. Íslands gagnvart EES samningnum. Þetta er sem sagt samningsbrotsmál. B & H geta á hinn bóginn, nýtt sér hugsanlega hagstæða niðurstöðu fyrir ísl. dómstólum. En, ef þeir eru ekki ánægðir með niðurst. ísl. dómstóla, geti þeir kvartað við Framkvæmdastj. ESB sem getur komið kvörtun áleiðis til ESA, sem þá getur tekið málið fyrir á nýjan leik, og kært ríkisstj. ísl. á nýjan leik. Ef EFTA dómstóll þá telur niðurst. ísl. dómstóla ranga í samræmi v. kvörtun B & H, þá komi til álita að beita svokölluðum gagnaðgerðum. Ef til vill hluti EES felldur niður gagnvart okkur sennilega kaflinn um frelsi um fjármagnshreyfingar og um fjármálastofnanir, réttindi þeirra til athafna í öðrum ríkjum EES.
Skv. þessu ef ég hef ekki misskilið Ritara, þá er þetta mjög tafsamt ferli. Spurning hvort við getum nýtt okkur þá töf, hið minnsta fer sala eigna fram og óvissan um virði þeirra hverfur. Síðan, kemur í ljós hef framvinda efnahagsmála verður.
Það helsta sem ekki gerist, verður að aðildarferli landsins að ESB óhjákvæmilega mun rekast á vegg, svo lengi sem deilan við B & H viðhelst.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 9.3.2011 kl. 12:07
Sæll Marinó,
Þakka kærlega ábendinguna með 6. gr. En það sem þú vísar til ("Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki...") vísar til fyrri hluta sömu málsgreinar: "Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári"
Nú hef ég ekki hugmynd um hvort þessu lágmarki var náð eða ekki, en hvort þessi heildareign er 0.5% eða 1% held ég að skipti ekki öllu máli í sambandi við Icesave þar sem við erum að tala um miklu stærra hlutfall af heildareignum. Eða er ég að misskilja þetta?
Ég þakka Einari líka fyrir upplýsingarnar um ESA og ESB:)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 9.3.2011 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.