5.2.2011 | 13:22
Gróf sögufölsun
Það er bull að bönkunum hafi verið leyft að falla. Hér rembdust ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Seðlabanki Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar eins og rjúpan við staurinn í hátt í ár við að halda þessum svikamyllum gangandi. Leyfðu þeim á meðan að mergsjúga almenning og fyrirtæki í landinu. Bankarnir féllu þegar úrræði stjórnvalda og Seðlabanka þrutu. Þegar það kom í ljós að svikin og prettirnir voru svo mikil að þeim var ekki bjargað. Eftir að stjórnendur og eigendur bankanna höfðu ákveðið að það skipti meira máli að bjarga eigendunum og vildarvinum en ekki bönkunum sjálfum. þeir féllu út af meðvirkni stjórnvalda, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits sem köstuðu sér fyrir fætur fjárglæframönnunum í hvert sinn sem þeir opnuðu munninn og vegsömuðu þá, fóru með fagurgala um grundir til að lýsa snilld þeirra. Þeir væru misskildir snillingar. Hefðu fundið töfrauppskriftina sem reyndari bankamenn kunnu ekki vegna þess að þeir væru ekki nægilegir snillingar.
Að Ólafur Ragnar Grímsson komi núna fram í erlendum fjölmiðlum og segi að við hefðum leyft bönkunum að falla er að núa salti í sár almennings sem þarf að bera stríðskostnaðinn á herðum sér. Stjórnvöld leyfðu þeim vissulega ýmislegt. Svo sem að vaða yfir almenna viðskiptavini sína á skítugum skónum, að tæma sjóði Seðlabankans, brjóta lög og reglur hægri vinstri, að fella krónuna, að ræna eigin banka innan frá og svona mætti lengi telja. En að ein vanhæfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi leyft bönkunum að falla er fáránlegasta söguskýring sem ég hef heyrt og sýnir að annað hvort er Ólafur Ragnar ekki í neinum tengslum við raunveruleikann eða að hafin er áróðurherferð á alþjóðavísu til að fela fyrir umheiminum vanhæfi allra þeirra sem áttu að gæta þess að bankarnir gerðu ekki það sem þeir gerðu. Hvítþvotturinn er hafinn, moka á yfir spillinguna og vanhæfið. Ætli þetta verði líka vörn Geirs H. Haarde fyrir Landsdómi.
Höfum það alveg á hreinu, að bankarnir féllu ekki af því að einhver leyfði þeim það. Stjórnvöld hefðu ekki getað komið veg fyrir það október 2008, þó þau hefðu reynt. Vil ég rifja upp orð Geirs H. Haarde sem höfð eru eftir honum á mbl.is í frétt sem birtist kl. 23:17 5. október 2008:
Þessi helgi hefur skilað því að við teljum núna ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum..
Og svo segir í fréttinni:
Geir sagði að ekki yrði gripið til neinna sérstakra ráðstafana hér og nú og hann teldi heldur ekki ástæðu til þess. Hann neitaði því að búið væri að útvega 500 milljarða lánalínu frá Seðlabanka Evrópu. Hann vildi ekki gefa upp hvort von væri á tilkynningu fyrir opnun markaða í fyrramálið.
Fundi ríkisstjórnarinnar er nú lokið og sagðist Geir vera á leið á fund með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Svo ætla ég heim og vonast til að geta fengið smá hvíld. Það er varla að ég sé búinn að borða morgunmat.
Já, blessaður maðurinn hafði áhyggjur af því að hafa varla borðað morgunmat. Hann hefur kannski ekki fengið morgunkaffið heldur eða hvernig var þetta hjá Hobbitunum: "Hvað með morgunmat? En morgndegismat? Hádegismat og kaffi? Seinna kaffi og kvöldmat ásamt seinni kvöldmat, kvöldnasli, kvöldnarti og te fyrir svefninn?" Var það nema von að hann tók rangar ákvarðanir hafandi verið sveltur allan daginn!
Ber þetta allt vott um að stjórnvöld hafi haft eitthvað val, hvað þá getu? Nei, hér sat vanhæf ríkisstjórn og hún lét bankana falla á heimilin í landinu en ákvað að bjarga þeim sem áttu innstæður í bönkum.
Leyfðum bönkunum að falla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Það er ótrúlegt að menn reyni að breyta sögunni eins og forsetinn, ásamt fleirum, virðist reyna að gera.
Hann ætlar sér greinilega ekki að læra neitt af henni.
Lúðvík Júlíusson, 5.2.2011 kl. 13:31
Ólafur er að selja ákveðna mynd af gangi mála hér og mér finnst það í lagi bara. Auðvitað vitum við alla söguna hér heim en... það þarf að markaðssetja okkur á ný. Ólafur stendur sig ágætlega.
Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 13:39
Lúðvík, það er "eðlilegt" en ekki "ótrúlegt" að menn reyni að breyta sögunni. Sumir setjast í ritstjórnarstól, aðrir eru forsetar.
Annars er ég sammála síðustu setningunni hjá þér, viljinn til að læra af reynslunni er svo sannarlega ekki til staðar.
Marinó, þínar greinar hjálpa til að halda réttri sögu til staðar fyrir komandi kynslóðir.
Valgeir (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 13:55
Nákvæmlega það sem ég hugsaði þegar ég horfði á viðtalið við ÓRG í morgun.
Bankarnir féllu afþví að um annað var ekki að ræða. Enginn erlendis vildi setja meiri peninga inn í þessa botnlausu hýt.
Tækifærissinninn á Bessastöðum hefur ekkert breyst. Talandi um að auðvitað hafi fólk þurft að taka á sig skell vegna falls krónunnar! Ætli mikið hafi breyst hjá honum við það?
Séra Jón (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 14:07
Það er úbreiddur misskilningur erlendis, að við höfum heimilað bönkunum að falla. Meira að segja nafnkunnir hagfræðingar 2, hvor með sinn nóbelinn misskilja þetta.
Forseta vorum, hefur allta líkað hólið, stór veikleiki. Hann er allt í einu farinn að skinja, að menn erlendis eru allt í einu að líta til Íslands - fyrir misskilning - sem vissa fyrirmynd.
Þá hleypur honum kapp í kinn. Fer í gamla gírinn, að allt sé stórkostlegt hér.
Ólafur er ekki slæmur maður.
En, hann er veikgeðja, sem sést á því hvað hann er viðkvæmur fyrir hóli.
Stjórnvöldum hér heima, stjórnmálastétinni líkar örugglega einnig, þessi hin nýja söguskýring.
-----------------
Það má samt alveg íhuga, hvort það geri okkur nokkuð til, að útlendingar haldi að við höfum verið snillingar?
Hvað segið þið - er það skaði fyrir okkur?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 5.2.2011 kl. 14:46
Engu við að bæta Marinó, frábær pistill!
Jón Þorvarðarson (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 15:04
Það er sem sagt í fínu lagi, að Ólafur Ragnar ljúgi að útlendingum. Makalaust ! Stjórnmálamaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson umgekkst sannleikann afar frjálslega (pent orðað) Því miður tók hann það vinnulag með sér til Bessastaða.
Eiður Svanberg Guðnason, 5.2.2011 kl. 16:00
Ólafur Ragnar er gott dæmi um hvað ríkishyggjan er mikil helstefna. Þá verður bara til enn fámennari, valdameiri og spilltari yfirstétt en í kapítalísku þjóðfélagi.
Það er allavega oft hægt að segja um þá sem komast til efna í kapítalísku þjóðfélagi að þeir komist þangað á eigin verðleikum, en þar sem ríkið gín yfir öllu, komast menn til áhrifa með því að sleikja réttu rassana.
Þeir sem veljast þangað verða persónuleikar í samræmi við það. Velta sér um í spillingunni og virða að vettugi neyðaróp þeirra sem eiga erfitt. Þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar um annað.
Annars er ég sammála greininni.
Theódór Norðkvist, 5.2.2011 kl. 16:45
Ég fékk nánast sjokk þegar ég las hvað forsetinn var að segja. Hundruðum MILLJARÐA var eytt úr Seðlabankanum og þar með ríkissjóði okkar í alltof stóra glæpabanka sem voru tæmdir að innan af stórþjófum. Og hverjir munu borga það? Og bæði fyrir og eftir fall bankanna hafa þeir fengið að ræna okkur með hjálp stjórnvalda.
Elle_, 5.2.2011 kl. 17:00
Við getum auðvitað einnig tekið þann pólt í hæðina, að rétt skuli vera rétt. Farið í auglýsingaherferð erlendis, til að koma réttum upplýsingum til skila.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 5.2.2011 kl. 17:49
Já, Guðjón, förum endilega út í heim og ljúgum að fólki. Það er góð byrjun á Nýju Íslandi. Ef menn geta ekki sagt sannleikann, þá eiga menn einfaldlega að þegja. Höfum orð Ara Fróða í huga, að hafa það sem sannara reynist.
Marinó G. Njálsson, 5.2.2011 kl. 18:51
Sú kolsvarta en skýra mynd, sem dregin er upp í Rannsóknaskýrslu Alþingis er smám saman að dofna, - umræðan um hana er að fjara út - og í kjölfar þess er að myndast jarðvegur fyrir skekkta eða beinlínis ranga greiningu á því sem gerðist. Tilgangur þess er augljós. Það auðveldar vafasama gjörninga eins og Triton málið sem er partur af og kristaltært dæmi um ,,baráttunni um Ísland". Pistill Marínós G. eru orð í tíma töluð.
mbk.
Gunnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 22:35
Þetta er nú ekki sögufölsun Marinó því stór hluti sögunnar fór aldrei fram vegna þeirra leiðar sem valin var.
Íslenska ríkið hefði getað farið sömu leið og það írska. Það hefði með ríkisábyrgðum og betli á lánamörkuðum getað haldið bönkunum (tveim að minnsta kosti) gangandi með life support frá skálkaskjóli ríkissjóðs og með veði í tekjum skattgreiðenda um ókomna framtíð, en þó í nokkuð styttri tíma en Írar gátu og gerðu.
Bankapakki I hefði komið fyrst en svo hefði komið í ljós að hann dugði ekki og þá hefði Bankapakka II verið nauðgað í gegnum þingið. En það hefði heldur ekki verið nóg svo þá hefðu menn staðið í þeim sporum að segja þyrfti C fyrir búið vað að segja A og B. Svo hefði Bankapakka III og svo framvegis verið nauðgað í gengum Alþingi, en auðvitað ekki heldur dugað, eins og hefur sýnt sig á Írlandi. Svo hefði ríkisgjaldþrotið komið. En á meðan hefði bankakerfið að nafninu til verið ógjaldþrota.
En þessi leið var sem sagt ekki farin. Það var hins vegar ákveðið að láta bankana fara í þrot.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 5.2.2011 kl. 22:47
Gunnar Rögnvaldsson, 5.2.2011 kl. 23:13
Gunnar, þú ert greinilega ekki að skilja mína röksemdarfærslu. Hvorki ríki né Seðlabanki gátu á nokkurn hátt komið í veg fyrir að bankarni færu í þrot á þeim tíma sem þeir fóru í þrot. Samþykkt voru lög í mars eða apríl sem heimiluðu ríkissjóði miklar lántökur til að efla gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans, ekki ósvipað því sem Írarnir gerðu þó það kallaðist ekki gjaldeyrisvarasjóður. Málið er að enginn vildi lána Seðlabankanum eða ríkissjóði þessa peninga. Þrír öflugir seðlabankar höfuðu nokkurri aðstoð nema AGS væri fenginn að málum.
Þetta snýst því ekkert um að ríkið eða Seðlabanki hafi leyft bönkunum að falla. Það var ekkert val. Þeim þraut örendi, ef svo má segja, í tilraunum sínum. Voru skák og mát. En áður en að því kom tókst bönkunum að blóðmjólka Seðlabanka Íslands og í raun draga nokkur önnur fjármálafyrirtæki með sér í fallinu og misnota sér lánaleiðir útibúa/dótturfyrirtækja í Luxemborg til að fá himin há lán frá Seðlabanka Evrópu. Þetta hefði átt að duga, ef stjórnendur bankanna hefðu notað peningana til að verja bankana sjálfa, en þeir ákváðu að bjarga eigendum sínum og vildarvinum.
Það er hugsanlega rétt að íslenska ríkið sé ekki gjaldþrot, en það er eingöngu vegna þess að það getur velt skuldabyrði sinni yfir á skattgreiðendur. Bankahrunsskuldir ríkissjóðs eru víst eitthvað um 1.350 milljarðar. Bara 5% vextir af þeirri tölu er 67,5 milljarðar. Þessi skuld á að greiðast niður á einhverjum árum, vonandi ekki minna en 10 - 15 árum. Fyrir mér hljómar þetta eins og ríkissjóður standi höllum fæti.
Marinó G. Njálsson, 6.2.2011 kl. 02:13
Ég skil vel hvert þú ert að fara Marinó.
En ríkisábyrgðir, sú leið sem ekki var farin, hefði getað haldið bönkunum á floti sem zombie-bönkum í ákveðinn tíma. Ef sá vilji hefði verið fyrir hendi þá hefði það komið fram a.m.k ári áður en bankarnir voru króaðir upp við vegg. En sú leið var sem sagt ekki farin. Þetta er sagan sem aldrei fór fram. Þetta var pólitísk ákvörðun, meðvituð sem ómeðvituð. Allir vonuðu að þessi svo kallaða lausafjárkreppa myndi ganga yfir og að bankarnir væru það sem kom fram í ársreikningum þeirra og í ömurlegu eftirliti Fjármálaeftirlitsins með þeim. Menn, allir nema Davíð Oddsson, trúðu á það sem bankamennirnir sögðu stjórnmálamönnum og almenningi.
Enginn, ég endurtek, enginn sá fyrir þá þróun sem síðar varð og það gildir um alla seðlabanka og ríkisstjórnir heimsins. Engum datt þá í hug hveru illa verk fjármálageirans voru unnin. Hvorki hér heima né annars staðar. En mikið af því sem við vitum núna um íslenska banka er það sama og menn vita ekki ennþá um banka sína erlendis. Það er fyrst við sjálft gjaldþrotið að maginn með innstu innyflum bankanna opinberast almenningi. Þessum ósóma er hægt að halda leyndum á meðan banki er ekki enn kominn í hendur skiptaráðanda.
Athugaðu vinsamlegast að írska ríkisstjórnin veitti ríkisábyrgð á bæði innlánum og á öllum skuldbindingum írska bankakerfisins við aðra banka (millibankamarkaði) og allri skuldabréfaútgáfu bankanna. Þetta kostaði ríkið ekki neitt þegar þessi ábyrgð var gefin út. Það var ekki fyrr en síðar að það kom í ljós að þetta hafði kostað írska ríkið lífið. Það er gjaldþrota nú.
Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2011 kl. 02:42
Af þessu sést ágætlega að ríkisábyrgðir eru blanco cheque. Það er þetta sem Icesave málið snýst um. Ríkisstjórnin og formaður Sjálfstæðisflokksins vilja nú feta í fótspor írsku ríkisstjórnarinnar og gefa út óútfyllta handhafa-ávísun á hendur íslenskum skattgreiðendum. Þetta er framhald af bankahruninu. Þetta má ekki gerast.
Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2011 kl. 02:51
Fróðlegt að lesa skrif þín, Marinó og ekki síður röksemdafærslu Gunnars Rögnvaldssonar. Svona eiga rökræður að vera.
Kristinn Dagur Gissurarson (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 09:19
Upprifjun
2007 var sett í gang vinna á vegum seðlabankans og einverra ráðuneyta fjármála og viðskipta minnir mig sem laut að því að skipta bönkunum í innlendan og erlendan hluta, þannig hægt væri að láta erlenda hluta falla án þess að allt myndi stöðvast hér. Á miðju ári 2008 var það sem við köllum neyðarlöginn tilbúið og þeim síðan beitt í október það ár.
Ertu að segja mér að þetta hafi allt verið gert fyrir einhverskonar mistök eða tilviljun ?
Guðmundur Jónsson, 6.2.2011 kl. 10:56
Kostnaður íslenskra banka og ríkisins við erlendar lántökur frá feb. 2005 til okt. 2008. Þessi kostnaður er kallaður skuldatryggingarálag eða „CDS“ á ensku. Álagið er hér í prósentum og þýðir hversu hár kostnaður leggst ofan á venjulega millibankavexti á alþjóðlegum markaði. Dæmi: banki tekur lán á 5% vöxtum, svo bætir þú við álaginu t.d. 5% sem þýðir að bankinn er að fá lánað á 10% vöxtum. Bankinn þarf síðan að lána féð út á hærri en 10% vöxtum annars tapar hann. Líklegast voru ekki mörg erlend fyrirtæki sem vildu lán íslensku bankanna á þeim okur vöxtum. Íslensku bankarnir voru í mun meiri viðskiptum erlendis en á Íslandi og þá þarf nú ekki að spyrja að leikslokum.
1) Janúar 2006: FL verður annar stærsti hluthafinn í Glitni
2) 10. okt. 2006: Icesave stofnað í Bretlandi
3) Maí 2007: Bjarni Ármannsson rekinn frá Glitni og Lárus Welding
tekur við bankastjórastöðunni. Þorsteinn M. Jónsson verður
stjórnarformaður
4) veðkall frá Morgan Stanley v/Glitnis hlutabréfa Þáttar ehf.
5) 7. feb. 2008: Davíð Oddsson skýrir ríkistjórn Geirs H. Haarde frá
alvarleika ástands bankakerfisins og fyrirsjáanlegu hruni ef ekkert
verður að gert
6) Íslenskir bankar og stjórnvöld hefja stórsókn erlendis í „PR“ fegrunaraðgerðum og tala upp gengi íslensku bankanna
7) Maí 2008: Icesave í Hollandi stofnað
8) 15. maí 2008: Gjaldeyrisskiptasamningar gerðir við norðurlanda
þjóðirnar og loforð um að minnka bankakerfið gefnar af stjórnvöldum
ásamt að koma böndum á Íbúðarlánasjóð
9) Byrjun júlí 2008 spáir Bert Heemskerk bankastjóri Rado Bank
gjaldþroti Landsbanka Íslands
Nokkrir þingmenn hafa að undarförnu verið iðnir við að koma tveimur alhæfingum á framfæri við kjósendur 1) að enginn hefði séð hrunið fyrir og 2) að ekki hefði verið hægt að gera neitt til þess að bregðast við hruninu í tæka tíð. Báðar þessar alhæfingar eru rangar. Undirritaður fylgdist með hruni íslenska bankakerfisins erlendis frá. Ég hafði engan sérstakan aðgang að upplýsingum innan úr kerfinu og notaði því skuldatryggingaálag bankanna sem mælistiku á framgang þeirra og efnahagslíf landsins. Skuldatryggingaálagið þ.e. kostnaður bankanna við að taka erlend lán eru opinberar og flestum var í lófa lagið að nálgast þær á netinu. Það var öllum erlendum bönkum, lánastofnunum og öðrum áhugasömum deginum ljósara að íslenska bankakerfið var komið í veruleg vandræði þegar skuldatryggingaálagið „CDS“ fór yfir 100 punkta eða 1%. í janúar 2006. Ágætlega gekk þó að kveða niður hrundrauginn næstu 18 mánuði en svo gerist eitthvað fyrir mitt ár 2007. Eftir mitt ár 2007 var hrunið óumflýjanlegt . Það þýðir samt ekki að það hefði ekki verið hægt að gera neitt. Miklu hefði mátt bjarga . Líklegast hefði verið hægt að bjarga þúsundum milljarða ef varnaðarorð Seðlabankans hefðu verið tekin alvarlega í febrúar 2008. Veðkall Morgan Stanley vegna Glitnis bréfa Þáttar ehf. vegur mjög þungt. Ef veðkallið hefði farið rétta braut og bréfin seld á markaði eins og hefði verið æskilegt þegar veðkallið kom hefði hrunið komið í mars 2008 en ekki október sama ár.
Hjálmar Gíslason hjá Data Market að útbjó þetta graf og á því má finna skuldatryggingaálag Glitnis, Landsbankans, Kaupþings og Íslenska ríkisins. Þetta er í rauninni mynd af íslenska bankahruninu og er mjög gott að nota með lestri Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Guðmundur Franklín Jónsson
Viðskiptafræðingur
Gudmundur Franklin Jonsson (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 11:13
Gott innlegg hjá Guðmundi Jónssyni.
Þegar því er haldið fram að menn hafi vitað hvað þeir voru að gera þá er gott að rifja þetta upp einnig:
Seðlabankinn hafði greinilega ekki hugmynd um hvers virði bankinn var og hversu góðar eignir hans voru.
Þetta finnst mér afsanna þá tilgátu að stjórnmálamenn hafi einhvern tíman verið með frumkvæðið síðustu mánuði fyrir hrun bankanna.
Lúðvík Júlíusson, 6.2.2011 kl. 11:23
Þar sem einhvrejir virðast ekki skilja orð mín nægilega vel, þá ætla ég að setja þetta upp á eins einfaldan hátt og hægt er:
Ríkisstjórnin og Seðlabanki reyndu fjölmargt af veikum mætti til að halda bönkunum gangandi, þegar vandamálið óx þeim úr böndum þá féllu bankarnir hver af öðrum. Bönkunum var ekki leyft að falla bara af góðmennsku stjórnvalda og Seðlabanka. Bankarnir féllu vegna þess að hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki réðu við vandann. Hvorki Seðlabanki né ríkisstjórn höfðu burði til að bjarga bönkunum. Það er mergur málsins og í slíku samhengi er ekki hægt að tala um að "leyfa bönkunum að falla".
Marinó G. Njálsson, 6.2.2011 kl. 13:50
Að segja að ríkisstjórnin hafi leyft bönkunum að falla, er eins og að segja að ríkisstjórnin hafi leyft Eyjafjallajökli að gjósa.
Marinó G. Njálsson, 6.2.2011 kl. 14:41
Marinó, þú hittir nalgann beint á höfuðið í þessum pistli eins og oft áður. Bankarnir voru orðnir alltof stórir, íslenska ríkið gat ekki "bjargað" þeim. Kv, Sveinn
Sveinn Valfells (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 14:45
Rosalega góð grein. Núna vilja margir Lilju kveðið hafa. Pólitíkusarnir voru meira og minna á mála hjá bankaráðsmönnunum.
Sigurður Þórðarson, 6.2.2011 kl. 17:05
Því er hægt að bæta við hér að á evrusvæðinu, þar sem ég ól þá manninn, reyndu bankar að bjarga sér allt hvað af tók. Illa gekk og fór leikurinn þannig að fyrst kom ríkisstjórn X með tilboð um ríkisábyrgð vegna þess að hún óttaðist áhlaup á fjármálastofnanir lands síns og stórfelldrar útskipunar fjármagns til staða sem menn þóttust þá sjá að væru eitthvað öruggari.
Í kauphöllum geisaði þrumustormur og um leið og fyrsta ríkið fór að impra á ríkisábyrgð þá hófst eins konar fjármálaleg borgarastyrjöld á milli landanna. Ríkisstjórnir neyddust til að yfirbjóða hverja aðra með ríkisábyrgðum til þess eins og sporna við að gengi bréfa í fjármálastofunum lands þeirra hryndi það mikið niður í gólfið að bankar landsins yðru instant insovent og að innstæður myndu pakka saman og fara.
Þessi borgarastyrjöld á fjármálamarkaði evrusvæðis var svo römm að bara ein illa orðuð fréttatilkynning um windig up procedures á þeim mekanisma sem átti að taka sig af ríkisábyrgðinni gat þýtt það að markaðurinn tók ekki mark á ríkisábyrgðinni og þá var leikurinn búinn.
Hér var um að ræða þá leið sem ákveðið var að fara ekki á Íslandi. Ákveðið var að láta bankana falla. Neyðarlögin voru sett til þess, og undir sama þrýstingi og við sáum erlendis. Danmörk var nokkrum mínútum frá algeru hruni, Bretland hafði nokkrar klukkustundir og svo framvegis.
Eflaust eiga menn eftir að rannsaka þetta ennþá nánar.
Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2011 kl. 17:13
Ég er ekki sammála því að menn hafi séð kreppuna/hrunið koma.
Að óttast eitthvað er ekki það sama og að vita eitthvað. Seðlabankastjórar og forsætisráðherrar mæta ekki í vinnuna einn daginn og segja, "góðir hálsar, ég óttast (en veit það ekki) að allt sé að fara til helvítis og við rúllum því samfélaginu saman og gröfum okkur niður" - þingið á að gera X Y og Z og allir fjölmiðlar haldi kjafti".
Hlutirnir gerast bara ekki þannig.
Þeir sem mæta í vinnuna með svona stjórnun í nestispokanum yrðu fjarlægðir frá völdum og settir inn á klepp.
Eðli áfalla er að þau koma óvænt. Annars væru þau ekki áföll heldur daglegt amstur.
Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2011 kl. 17:31
Lexía alls þessa er sú að fjármálamarkaðurinn setti ríkisstjórnum dagskránna. Þær gátu valið að láta bankana falla eða fara eftir því sem markaðurinn heimtaði. Á Íslandi tókst hið ótrúlega og undir ótrúlega erfiðum aðstæðum, nefnilega það að forðast að taka á sig skuldbindingar bankanna til þess eins að halda þeim gangandi dauðum á einn eða annan hátt. Menn geta svo deilt um hina ýmsu atriði þeirra leikþátta sem urðu í sjálfu hruninu. En þetta er útkoman.
Þið þekkið öll eftirleikinn: enn eru bankarnir á framfræi ríkisins í Evrópu. Í Svíþjóð er t.d. sænska ríkið enn ekki komið út úr bankarekstri þeim sem það fór inn í fjármálahruninu þar árið 1992. Þar eru liðin tæplega tuttugu ár.
Lærdómurinn er: fjármálamarkaðurinn má aldrei verða í standi til að stýra stjórnmálum, stýra fjölmiðlum, stýra gagnrýni, eða stýra samfélaginu. Hann á að þjóna því. Og stjórnmálamenn og ríkisvaldið á aldrei að koma nálægt bankarekstri.
Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2011 kl. 18:43
Gunnar, miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér eða verið sendar mér, þá er ljóst að hrunið var óumflýjanlegt á haustdögum 2007. Ég hef upplýsingar um það að Bjarni Ármannsson, sem (Guðmundur Franklín sérstaklega fyrir þig) var ekki rekinn heldur á hvert stefndi með nýja eigendur bankans og ákvað að forða sér áður en hann var dreginn ofan í svaðið með JÁJ og HÞS, ráðlagði Lárusi Welding að selja allt seljanlegt á því verði sem fengist síðsumars 2007. Ekki er hægt að líta á framgöngu Landsbankamanna á gjaldeyrismarkaði nema sem barnalega einfeldni, þar sem þeir mokuðu Icesave peningum inn á gjaldeyrismarkaðinn til að fá krónur í staðinn! Lækkun krónunnar gerði bankann því í reynd fallít fyrir áramót 2007/8. Kaupþing fór í massívar björgunaraðgerir fyrir helstu viðskiptavini sína og eigendur strax í nóvember 2007, þar sem menn áttuðu sig á því að bankinn var kominn út í ógöngur sem hann ætti líklegast ekki afturkvæmt úr. Yfirtaka Kaupþings á hollenska bankanum var banabiti þess vegna hinna breyttu aðstæðna á markaði og líklegast líka vegna þess að Kaupþing hafði aldrei efni á yfirtökunni.
Já, hrunið var fyrirsjáanlegt, en því miður var íslenskt samfélag blindað af meðvirkni og ekki var hlustað á þá sem vöruðu við. Sjálfur fór ég ekki varhluta af þeirri meðvirkni, en á mér þær málsbætur, eins og margir aðrir, að þar sem við vorum fóðruð af lygum, hálfsannleika og afbögun sanninda, þá áttum við ekki færi á að komast að annarri niðurstöðu en að hér væri allt í stakasta lagi. "Rubbish in, rubbish out".
Marinó G. Njálsson, 6.2.2011 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.