Leita í fréttum mbl.is

Fróðlegt verður að sjá þessa útreikninga

Ég ætla ekki í augnablikinu að bera brigður á þessa útreikninga, en skora á fjármálaráðuneytið að leggja fram upplýsingar sem styðja þessa útreikninga.  Vil ég í þessu samhengi benda á, að Hæstiréttur hefur þegar úrskurðað gengistryggingu ólöglega.  Það þýðir að lán sem falla undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar eiga ekki að telja til þess kostnaðar, sem hér um ræðir.  Vissulega segir í frumvarpinu:

Fjármálaeftirlitið gerir ráð fyrir að vænt tap lánastofnana vegna gengistryggðra bíla- og íbúðalána geti orðið allt að 108 milljarðar kr. og þar af eru 50 milljarðar kr. vegna einstaklinga og 58 milljarðar kr. vegna fyrirtækja.

(Áhugavert er að í fréttinni segir að fjármálaráðuneytið áætli þetta "tap", en í frumvarpinu segir að það sé fjármálaeftirlitið.)

Svo má spyrja sig hvort áhrif lögbrota fjármálafyrirtækjanna teljist "tap".  Er illa fenginn hagnaður sem þarf að skila tap?  Það skiptir engu hvort menn gerðu það viljandi eða ekki, lögbrot er lögbrot og ágóða af lögbroti á að skila.

Mér finnst alveg lágmark að menn skilji að áhrif dóma Hæstaréttar, þar sem fjármálafyrirtækjunum er bent á að landslög gildi líka um þau, og áhrifin af frumvarpinu.  Þau áhrif taka nefnilega bara til þeirra lána sem ekki falla undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.  Að skella hér fram tölu, sem þessari, er óábyrgt og eingöngu gert til að mála myndina svartari eða mikla þá leiðréttingu sem verið er að gera.  Afleiðingar lögbrota fjármálafyrirtækjanna á  nákvæmlega ekkert erindi inn í skýringar eða athugasemdir með frumvarpi.  Nær væri að slíkt efni væri í innihaldi kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu.

Áhugavert er síðan að bera saman þessar tölur, þ.e. 108 milljarða, og tölur FME frá því í lok júlí.  Þá fullyrti FME að þessi sömu áhrif væru rúmlega 134 milljarðar eða um 25% hærri.  Þá reiknaði FME líka út að kostnaður lántaka af því að farin væri leið frumvarpsins í staðinn fyrir að samningsvextir giltu væri rúmlega 213 milljarðar.  Mínir útreikningar sýna aftur að hér er líklegast um mjög mikið ofmat að ræða og hljóti að ganga út frá því að LIBOR vextir verði lágir um allan aldur í samanburði óverðtryggða íslenska vexti og síðan virðast menn gleyma vaxtaálaginu sem leggst ofan á LIBOR vexti.  

Ég get ekki annað en furðað mig á því að nær engir útreikningar fylgja frumvarpinu.  Þeir litlu útreikningar sem eru birt koma án skýringa.  Nauðsynlegt er að þeir séu bæði skýrðir og ekki síður að gerð sé næmnigreining á þeim.  Hvernig breytast þessar tölur miðað við tilteknar vaxtaforsendur, bæði LIBOR vaxta og seðlabankavaxta, er eitthvað sem er mikilvægt að vita.  Hvaða gengisþróun eru menn að miða við, þar sem hún er lykilstærð í þessu.

Ég hef annars ekki kynnt mér efni frumvarpsins nægilega vel til að geta sagt til um öll áhrif þess á gengisbundin lán.  Vil ég þó koma þrennu á framfæri:

1.  Ég tel mjög mikilvægt að uppgjör mála verði einfaldað eins og kostur er m.a. með því að láta gjalddaga fram til 1.1.2008 eða jafnvel 1.4.2008 halda sér, en láta endurreikninginn bara ná til gjalddaga eftir það.  Ástæðan er sú, að með því er ekki verið að taka upp gjalddagagreiðslur sem lántaki greiddi í samræmi við greiðslukröfu.  Það er óréttlátt gagnvart greiðanda að vaxtareikna eigi upp á nýtt langt aftur í tímann og síðan dagvaxtareikna mismuninn á raungreiðslu og útreiknaðri greiðslu, en sá mismunur er oftast greiðanda í óhag, þ.e. að um vangreiðslu hafi verið að ræða.

2.  Skora ég á Alþingi, að leita álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á þessu máli.  Ég held að Alþingi megi ekki við því að afgreiða frá sér lög, sem síðar kæmi í ljós að stönguðust á við tilskipanir sem falla undir EES samninginn.  Ef ESA gefur grænt ljós á frumvarpið, þá er það bara hið besta mál og þeirri lagaóvissu er eytt.  Komi ESA með einhverja aðra skoðun, þá getur Alþingi tekið á því áður en frumvarpið verður að lögum.

3.  Ég tel að mjög mikilvægt sé að allur vafi sé tekinn af um hvernig reikna eigi vexti af lánum.  Í þeim gögnum sem lögð voru fyrir Hæstarétt 6. september og voru notuð í dómnum sem kveðinn var upp 16. september voru vextir á mánaðarlegum gjalddagagreiðslum fundnir með því að taka gildandi lægstu óverðtryggða vexti Seðlabanka og finna tólfturót af ársvöxtum, en í útreikningum sem ég hef séð frá fjölmörgum fjármálafyrirtækjum er deilt í 12 í ársvextina.  Á þessu tvennu er talsverður munur, eins og ég sýndi fram á í færslu hér um daginn.  Í mínum huga er rétta aðferðin að finna tólfturótina og margfalda með henni og rökstyð ég það með því haldist vextir óbreyttir í 12 mánuði, þá eigi margföldun á vöxtum allra tólf mánaðanna að gefa ársvextina.  Dæmi:  Vextir eru 12,7%, tólftarótin er 1%.  Þegar ég hef (1+0,01) upp í tólftaveldi, þá fæ ég 12,7% vexti.  Ef ég aftur deili í með 12 og hef (1 + 0,127/12) upp í tólftaveldi, þá fæ ég 13,5%.  Munurinn er 6,3% (þ.e. 13,5/12,7 = 1,063) sem eru þá ofreiknaðir vextir.  En þetta er kannski of tæknilegt mál fyrir flesta.


mbl.is 108 milljarða tap banka vegna myntkörfulána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég er sammála þessu Marinó og er það hulin ráðgáta hvernig hægt er að tala um tap þegar um er að ræða það að skila illa fengnu fé. Fjölmiðlar virðast gleypa þessa orðræðu athugasemdalaust og sjá greinilega ekki ástæðu til að setja sig vel inn í málið.

Í fyrstu grein frumvarsins er lagt til að gera svonefnd gengistryggð lán lögleg þegar lögaðilar og aðrir aðilar í atvinnurekstri eiga í hlut. Ekki virðist þá skipta máli hvort að viðkomandi lögaðili hafi tekjur í erlendum gjaldeyri eða ekki.

En hvers vegna á nú að leyfa gengistryggingu skulda í íslenskri mynt? Hafa einhverjar forsendubreytingar átt sér stað sem réttlæta það? Í athugasemd um 1. gr. á bls. 16 segir: “Vandséð er hver efnislegi munur sé á því að taka lán í erlendri mynt eða taka lán í íslenskri mynt sem bundin er við gengi erlendra gjaldmiðla”. Ef svo er, hvaða ástæða er þá til að leyfa gengistryggingu sem eitt form verðtryggingar?

Í því sambandi hlýtur að þurfa að velta fyrir sér ástæðum þess að gengistrygging lána í íslenskum krónum hefur verið ólögleg fram að þessu. Og hvernig hafa hin ólögmætu gengistryggðu lán verið bókfærð hjá fjármálastofnunum? Voru þau ekki bókfærð sem eign í erlendum gjaldmiðli þrátt fyrir að vera í raun lán í íslenskum krónum? Er með fyrirhugaðri breytingu verið að skjóta stoðum undir vafasamar bókhaldsaðferðir sem geta gefið kolranga mynd af raunverulegri eign viðkomandi aðila í erlendum myntum og þ.a.l. gjaldeyrisforða þjóðarbúsins?

Sigurður Hrellir, 12.11.2010 kl. 11:05

2 Smámynd: Friðrik Jónsson

Það er orðið alveg ljóst að það á að gera allt sem hægt er til að þetta lendi á almenningi í landinu og að fjármálastofnanir sleppi með skrekkinn.Það verður aldrei viðurkennt að fjármálastofnanir hafi stolið af fólkinu og það verður áfram komið fram við okkur sem töpuðum eins og fjárglæpamenn ef við samþyggjum ekki skuldafangelsi og lúffum eins og kúgaðir hundar.

Það er ekki ásættanleg lausn finnst mér að tapa öllu mínu og byrja á núlli,það eru engin rök til sem venjulegt fólk skilur að allar innistæður séu tryggðar hjá auðvaldinu og að okkar fjárfestingar í steinsteypu séu glataðar.

Og ef það verður útkoman sem ég sé fyrir mér að verði,þá vona ég svo innilega að fólk taki sig saman og það verði alvöru bylting,því ef það gerist ekki verður þetta land ekki þess virði fyrir stóran hluta af fólkinu að lifa í og það verður fjöldaflótti.

Friðrik Jónsson, 12.11.2010 kl. 12:14

3 identicon

Góðan dag.

Mér er fyrirmunað að skilja afhverju menn halda enn í þá von að stjórnmálamönnum sé treystandi til að finna leiðir útúr þeim vanda sem fyrirtæki og almenningur eiga við að glíma á Íslandi. Eins og allir vita auðvitað er ógæfa íslendinga fyrst og fremst runnin undan rifjum stjórnmálamanna.

Lausnin fyrir þjóðina hlýtur að felast í þvi að skuldarar taki málin í sínar eigin hendur og þar með úr höndum ógæfuskapandi fólksins á Alþingi, því hér þarf nefnilega sterkan samningsaðila. Sannleikurinn er nefnilega sá að núverandi eigendur bankanna eru nauðbeygðir til þess að tapa en treysta hinsvegar á stjórnmálastéttina til að lágmarka eigin skaða og til að koma sem mestu yfir á almenning. 

En hversu sterkur aðili er samstillt félag skuldara í samningum við bankana ? Félag með það að markmiði að ná hagstæðum samningum fyrir félagsmenn og þjóðina ellegar einhliða fjöldagjaldþrot skuldara. Hversu sterk hótun er það ? Þeir sem eiga peninga hræðast ekkert meira en að tapa þeim. Hversu miklu vilja þeir tapa ? Hvað ætla þeir að gera með húsin og bílana ef gjaldþrotin verða að veruleika ?

Núverandi eigendur bankanna verða auðvitað að fara að skilja að með kaupum sínum tóku þeir áhættu !! Íslendingar láta þá auðvitað ekkert komast upp með að rukka inn lán byggð á sviksamlegum forsendum bóluhagkerfisins (sem notabene voru ekki reiknuð inní kaupverðið) og halda þessu þjóðfélagi á heljarþröm. Hér þarf að koma þjóðfélaginu af stað strax og rétta leiðin til þess er auðvitað að eigendur bankanna borgi þjóðinni rétt verð fyrir þá !

Áekkikrónu (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 13:05

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara svona 2 atriði:

  • Er frumvarpið ekki að taka á öllum gengistryggðum lánum. Bæði lánum sem enn er deilt um hvort að séu lögleg. Og eins þeim sem dæmd hafa verið lögleg.
  • Er sá sem tekur við ölöglegum lánum/vörum ekki að brjóta lög líka? Er ekki þannig ef að fólk hefur tekið við illafenginni vöru að hún er gerð upptæk án þess að fólk fái bætur fyrir.  Veit reyndar að sekt bankana eru mikil? Og áttu að ganga úr skugga um þetta.  En hvað með fólk sem græddi á þessu fyrir 2008. Á það þá að skila aftur hagnaði sínum af því að hafa tekið svona lán?

Og kannsi eitt enn hvað með þá sem samt tóku þessi lán þrátt fyrir viðvaranir manna um að gengið gæti fallið hvenær sem er og þá sæti fólk með gengistryggð lán í súpunni? Þetta var nú almenn vitneskja 2004- 2006 og margir friðuðu sig með því að gera ráð fyrir sveiflu upp á kannski 10% þrátt fyrir að sérfræðingar vöruðu við að krónan væri allt of hátt skráð.

Magnús Helgi Björgvinsson, 12.11.2010 kl. 18:22

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, ég er ekki alveg viss um hvaða lán falla undir frumvarpið, en ég held að þinn skilningur sé réttur, að öll gengisbundin lán, þ.e. gengistryggð, lán í erlendri mynt og það sem kallast erlend lán, falli undir þetta.

Samningaréttur er þannig að fyrirtæki mega bjóða betri kjör en lög tryggja, en ekki lakari.  Þannig virka kjarasamningar þannig að ekki má greiða starfsmanni lægra en taxtinn segir til um, en ekki er hægt að banna fyrirtæki að greiða hærri taxta.  Bónus var sektað fyrir að brjóta samkeppnislög með því að gefa mjólk, en neytandinn var ekki sektaður fyrir að þiggja hina ólöglega verðlögðu mjólk.  Ég verð þó að viðurkenna, að ég vissi alveg að Bónus var líklegast að brjóta lög.  Út frá þessu finnst mér ekki sjálfsagt að neytandinn geti verið ábyrgur fyrir því að hafa þegið þjónustu sem brýtur í bága við lög, nema að alveg hafi verið ljóst að hann mátti vita að um ólöglega vöru væri að ræða.  Þannig eiga flestir að vita að kaup á smygli er ólöglegt, þannig að taki ég þátt í viðskiptum við aðila sem ég má vita að sé með smygl undir höndum, þá gæti ég þurft að taka afleiðingunum.  Fari ég aftur á veitingahús og það selur mér smyglað áfengi, þá er ekki hægt að refsa mér ef áfengið er smyglað (nema náttúrulega að ég viti að um smygl sé að ræða).

Varðandi aðvaranir, þá er ég alveg tilbúinn að taka á mig þá sveiflu sem ég gat búist við eða hafði verið varaður við, þ.e. um 20% fall krónunnar, sem gengi að jafnaði til baka á 12 - 18 mánuðum.  Besta mál.  En ég get ekki vitað að bak við tjöldin hjá sumum fjármálastofnunum var verið að skipuleggja aðför að krónunni.  Ekkert mál að skipta þessu milli þess sem búast mátti við og hinu sem varð.  Notum spár greiningardeilda bankanna og Seðlabanka Íslands, en allt umfram það falli á bankana. 

Marinó G. Njálsson, 12.11.2010 kl. 18:42

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Endurreisn bankanna virðist misheppnuð!

Ég sé ekki neina betri leið til að snúa þessu við - en almenna afskrift!

  • En þ.e. einmitt málið, að almenn afskrift virkar best, vegna þess að hún afskrifar mest hjá millitekjuhópum.
  • En, það eru millitekjuhópar, sem eru kjarni neysluþjóðfélagsins - þannig að afskriftir hjá þeim skila mun meira til hagkerfisins, en afskriftir hjá lágtekjuhópum eingöngu.
  • En, áhersla vinstrimanna á afskriftir nær eingöngu hjá lágtekjuhópum og síðan þeim sem eru í óleysanlegum vanda, mun staðfesta hagkerfis stöðnunina - því slíkar afskriftir munu ekki skila aukningu neyslu eins og hin aðgerðin gerir, þ.s. lágtekjuhópar eru mun minna virkir þátttakendur í neysluþjóðfélaginu!
  1. Það má vera að þetta kosti minna í dag - þ.s. afskriftir lágtekjuhópa eru klárlega ódýrari vegna þess að þeir skulda lægri upphæðir.
  2. En, á móti fær ekki ríkið til sín þá tekjuaukningu, sem aukning neyslu getur skilað - sem er þá hreint tap á móti.

Því miður virðist ríkisstjórnin vera föst í feni skammtímasjónarmiða!

Niðurstaðan verður þá; hagvöxtur næsta árs langt undir væntingum!

Kostnaður vegna skuldavandræða mun þá fara stig vaxandi áfram og hætta á uppþotum magnast enn!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.11.2010 kl. 21:36

7 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sigurður Hrellir Er með fyrirhugaðri breytingu verið að skjóta stoðum undir vafasamar bókhaldsaðferðir sem geta gefið kolranga mynd af raunverulegri eign viðkomandi aðila í erlendum myntum og þ.a.l. gjaldeyrisforða þjóðarbúsins?

Góður punktur. Bankarnir geta þá væntanlega endurskilgreint gengistengd lán fyrirtækja, sem erlend gjaldeyrislán. Tekjur af þeim séu þá gjaldeyristekjur þeirra, sem komi á móti bókhaldslegu tapi vegna núverandi misræmis í gegni krónu og annarra gjaldmiðla. En bankarnir sytja enn uppi með nokkuð af eignum í erlendum gjaldmiðlum og þeir hafa því tapað töluverðu fé í krónum talið, þegar krónan hefur verið að hækka að undanförnu.

Kannski eru þeir að hugsa að laga þessa stöðu með þessu bókhaldsfiffi. Þá allt í einu minnka krónueignir á sama tíma og gjaldeyriseignir aukast. Misræmið minnkar - í bókhaldinu.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.11.2010 kl. 21:46

8 identicon

Hvað varðar tap/bókhald fjármálafyrirtækja þá er erfitt að sjá að þeir séu að tapa á alla vega gengistryggðum fasteignalánum til t.d. 25 ára þar mun t.d. 15 m.kr. lán  skila gróflega allt að 16-20 m.kr. meiri ávinning á ávöxtum fyrir kröfuhafa ef reiknað er með líklegri þróun gengis og vaxta á Íslandi er frumvarp verður að lögum en yfir þessu virðist þagað þunnu hljóði. Hvernig má það vera jú, kröfuhafi er á að fá afturvirkt 4 ár á veittu láni tekið 2006 mjög hagstæð vaxtakjör og einnig mjög hagstæð vaxtakjör 20 ár fram í tímann svo kröfuhafi er í bullandi hagnaði. Það hallar verulega á hlut neytenda þar sem neytandi samdi um allt önnur vaxtakjör. Þess ber að geta að ég las grein um að gengið hefði 40% áhrif að neysluvísitölu veit ekki hvort það sé rétt eða ekki en alla vega þá var gengistrygging dæmd ógild í Hæstarétti og Kröfuhafa fær bæði langt framyfir vaxtakjör og 100% neysluvísitölu endurgreitt hann er klárlega að fá miklu meira ávinning (tapar engu/fær hagnað) á skjön við öll sanngirnis sjónarmiðum. Varðandi gengislánafrumvarpið þá finnst mér verið sé að ýta undir mikið ójafnræði og ósanngirni milli lánþega sem leiðir til mismunum við skuldauppgjör þ.e.a.s ef ekki á að miða uppgjör gengistryggða lána við sömu dagsetningu fyrir alla t.d. miða við hrun 1.okt. 2008. Ég kalla eftir jafnræði og sanngirni við endurútreikning og ekki sé verið að mismuna eftir því hvenær lán var tekið en eins og allir vita þá myndaðist ekki stökkbreyttur höfuðstóll fyrr en á árinu 2008 hjá fólki og það er gjörsamlega alveg út úr korti að ætla sér að gefa lánveitenda óréttmætan ávinning á kostnað neytenda á skjön við lög um samningsrgerð og neytendarétt. Lög 1936/71 segja í:36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.]1Það er alveg ljóst að slík ráðstöfum um að rukka allt að 10 ár aftur í tíman (held að það sé 10 ára fyrningartími á skuldabréfakröfum) er gríðarlega íþyngjandi fyrir þann hóp sem tók lán 2007 og fyrr og frumvarpið gerir það að verkum að lánþegi sem á að skulda gengistryggt fasteignalán t.d. 12.7 m.kr. höfuðstól fær 6 m.kr. bakreikning sem vangreiðsla og 2.5 m.kr sem eru vaxtavextir sem leggjast á höfuðstól samtals 8,5 m.kr. í vangreiðslur sem síðan leiðir til 20 ára framtíða þyngri greiðslubyrði  þ.e.a.s ef sú leið er farin við endurútreikning en frumvarpið er frekar óskýrt varðandi endurútreikning en mér virðist að verið sé að ýja að þeirri leið.Varðandi dæmið sem er í athugasemdum frumvarps er reyndar hreinlega ótrúlegt dæmi, en þar er gert ráð fyrir að óverðtryggðir vextir Seðlabanka séu svo lágir (ættur frekar að vera 80 þús. kr. ekki 10 þús. ) að dæmið er algjörlega úr takti við raunveruleikan. Þar segir: Höfuðstóll í upphafi..                                                                       1.000.000 kr. Innborgun þremur mánuðum síðar afborgun + vextir                              (60.000 kr.) Áfallnir vextir skv. 4. gr......................................                  10.000 kr. Nýr höfuðstóll..............................................                                     950.000 „á uppgjörsdegi eru áfallnir vextir á höfuðstól 10.000 kr. að teknu tilliti til innborgana. Eftirstöðvar skuldarinnar á innborgunardegi verða þannig 950.000 kr.“hugtakaruglingur virðist vera í frumvarpi þegar verið er að útskýra endurútreikning.Bkv.Helga S. Sigurðardóttirrekstrarhagfræðingur

Helga S. Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.11.2010 kl. 14:05

9 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þetta dæmi sem sýnt er í frumvarpinu er fjarstæðukennt og greinilega sett þar til að gefa fegraða mynd af endurútreikningum lána. Sumir þingmenn lesa frumvörp bæði hratt og illa og því hlýtur þetta dæmi eiga að slá ryki í augu þeirra sem ekki kynna sér innihaldið í þaula.

Ég er hins vegar með raunverulegt dæmi um greiðslubyrði á blogginu mínu.

Sigurður Hrellir, 13.11.2010 kl. 18:54

10 identicon

Í s.k. gengislána frumvarpi þar segir að hægt sé að semja við lánveitenda og gera ólöglega Erlenda lánið lögleg Erlent lán þetta hljómar ekki vel að mínu mati en eitt er ljóst það verður að vera gulltryggt að fjármagnseigendur geti undir engum kringumstæðum breytt skilmálum sér í hag og neytenda í óhag. Í frumvarpi segir í Ákvæði c-liðar:, sem verði ákvæði til bráðabirgða XII, miða að því að veita þeim skuldurum sem telja sér hag í því heimild til að semja við lánveitendur sína um að breyta lánum með gengistryggingu yfir í gild erlend lán. Heimildin er tímabundin og veitt í ljósi þess að þeir sem tóku gengistryggð lán áður en gengi krónunnar styrktist eftir miðjan fyrsta áratuginn, eða eftir að krónan tók að veikjast, geta talið sér hag í að halda sínum lánum með óbreyttum skilmálum, einkum í ljósi þeirra hagkvæmu vaxta sem gjarnan var samið um. Þykir eðlilegt að skuldarar hafi um þetta val og geti þannig breytt ólögmætum lánum sínum í gild erlend lán. Get ekki séð að gengislána frumvarpið fjalli nægilega skýrt um aðferðafræðina að gera Erlenda ólöglega lánið að löglegu Erlendu láni og hvernig eigi að tryggja það að neytendur verði ekki hlunnfarnir. Margir verða að tvennu illu að halda áfram að greiða af Erlendu láni og reyna þreyja þorrann vegna þess að hættan á greiðsluþroti er jafnvel meiri við að skipta yfir í ISK lán á okur kjörum frumvarpsins og í báðum tilfellum er talsverð hætta á greiðsluþroti.Brotinn trúnaður hefur orðið á milli fjármálafyrirtækja og neytenda.  Þetta er svipað eins og þjófurinn sem stelur aleigunni vilji síðan gæta peninga þinna,  hver treystir því að það fari vel?  Bankarnir þurfa að koma til móts við fólk ef þeir vilja endurheimta traust í Þjóðfélaginu.Bkv.Helga S. SigurðardóttirRekstrarhagfræðingur

Helga S. Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.11.2010 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband