Leita í fréttum mbl.is

Neytendavernd á Íslandi - Minningarorð

Til grafar var borin í dag neytendavernd á Íslandi.  Banamein hennar var dómur Hæstaréttar 16. september sl.  Hinstu líkræðu hélt Héraðsdómur Reykjavíkur 28. september 2010 og sami dómur sá um greftrun 29. september.  Blóm og kransar skulu lagðir við dyr Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands.  Þeir sem vilja minnast neytendaverndar á Íslandi er líka bent að senda erindi til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og EFTA dómstólsins, þar sem framferði dómstóla er mótmælt.

Neytendavernd á Íslandi, í þeirri mynd sem hér er borin til grafar, var sett í lög með lögum nr. 14 frá 6. mars 1995 sem gerðu breytingu á lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Hún náði því að verða 15 ára, sex mánaða og 10 daga.  Á þessum tíma var hún hunsuð og fótum troðin af flestum þeim sem áttu að fara eftir henni eða vernda. Varð hún því neytendum aldrei sú vernd sem tíðkast í siðmenntuðum þjóðfélögum.  Enginn vildi heldur kannast við krógann og þannig afneitaði Neytendastofa honum ítrekað í undanfara og eftirmála hruns hagkerfisins og á síðustu 13 dögum gengu dómstólar svo að henni dauðri.

Með neytendaverndin verður einnig borin til grafar réttlæti í fjármálaviðskiptum, fjármálasiðferði og heiðarleiki í viðskiptum.  Bæði Hæstiréttur 16. september og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa komist að því að þessir þættir eru til óþurftar í íslensku samfélagi.  Hægt er að stunda svik og pretti, setja heilt hagkerfi á hliðina, en halda samt öllum ávinningi af svikunum með hóflegri 30% álagningu sem dómstólar hafa ákveðið sem rættmætar bætur til lögbrjóta fyrir að brjóta lög.

Þeir sem vilja njóta neytendaverndar til jafns við það sem gerist í siðmenntuðum þjóðfélögum, er bent á að flytja lögheimili sitt til slíkra þjóðfélaga.  Þeim er bent á að snúa baki við samfélagi sem telur fórnarlömbin eiga að greiða gerandanum bætur fyrir að láta þá svíkja sig og pretta.  Hér er ekkert réttlæti að fá og þó svo að ESA eða EFTA-dómstólinn komist að gagnstæðri niðurstöðu, þá er því miður hefð fyrir því að hunsa slíkt.

Þar sem neytendavernd á Íslandi reis aldrei til hárra metorða verður hennar ekki minnst fyrir mikil afrek.  Hún var ítrekað hrakin, hædd og spottuð af fyrirtækjum og stofnunum sem töldu hana standa í vegi næstu græddu krónu eða koma í veg fyrir að stjórnsýslan hefði sinn gang.  Reykjavíkurborg hefur t.d. hunsað neytendavernd við skil lóða í Úlfarsárdal, bílaumboð hafa hunsað neytendavernd þegar kemur að ábyrgðarviðgerðum, tryggingafélög fengu stuðning löggjafans og dómstóla til að hafa af viðskiptavinum sínum tryggingabætur og svona mætti lengi telja.  Lífsþróttur neytendaverndar á Íslandi var því orðinn lítill, þegar Hæstiréttur veitti henni náðarhöggið 16. september sl. þar sem tekist var á um hvort mikilvægari væri forsendubrestur fjármálakerfisins eða neytenda.  Niðurstaða Hæstaréttar var stórfurðuleg og Héraðsdómur Reykjavíkur gekk ennþá lengra í líkræðu sinni í gær.  Refsa skal neytendum fyrir að fjármálakerfið bauð upp á ólöglega gengistryggingu með því að hækka skuld þeirra við fjármálakerfið um tugi prósenta.  Þetta minnir mann á sögur frá bananalýðveldum Karabíska hafsins og til marks um það, að við viljum setja okkur á stall með þeim.

Þrátt fyrir allt hefur neytendavernd á Íslandi haldið á lífi vonarglóð í brjóstum margra landsmanna og vonandi verður ótímabært fráfall hennar ekki til einskis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessuð sé minning hennar, þó svo ég hafi aldrei kynnst henni.

Hvaða saga úr Karabíska hafinu er svona svört?

Magnús Sigurðsson, 29.9.2010 kl. 14:17

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er kannski rétt, Magnús, að jafnvel neytendur í Karabíska hafinu búa við meiri rétt en við Íslendingar.

Marinó G. Njálsson, 29.9.2010 kl. 14:33

3 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- enda eru líka mörg ár síðan "vísitölufjölskyldan" var jarðsett í kyrrþey - :o))

Vilborg Eggertsdóttir, 29.9.2010 kl. 15:28

4 identicon

Eitt (ef til vill óinteressant smáatriði). Hvað er eftir af lánasamningi ef hvort tveggja höfuðstólsviðmiðið og vaxtaútreikningurinn hefur verið núllaður sem ólögmætur? Jú, það sem eftir er, er að fara í skaðabótamál við lánastofnunina sem olli lántaka verulegum skaða með viðskiptunum. En lánveitandinn er því miður ekki lengur solvent, þar sem hann seldi þessa skaða-samninga áfram í nýtt fyrirtæki. Þetta er einsog ef bílasali seldi þér ónýtan bíl og þú greiddir með skuldabréfi. Þú ferð í mál við bílasalann en hann er farinn á hausinn. Hann náði í millitíðinni að selja skuldabréfið áfram til Jóns Stóra, sem rukkar hart. Hver er réttarstaða þín í þessu tilfelli? Hvað segir Gísli Tryggason um þetta?

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 16:16

5 identicon

Þetta smáatriði hjá þér Björn, er reyndar alveg gríðarlega mikilvægt og áhugavert.

Á þessu verður m.a. tekið í komandi hópmálsókn Samtaka lánþega gegn fjármálakerfinu, en skipulag á þeirri málsókn er vel á veg komið og hafa hátt í 900 manns skráð sig til þátttöku.

Skaðabótamál gegn bæði bönkunum og yfirmönnum þeirra vegna þess skaða sem við verðum fyrir vegna þess sem á undan er gengið ásamt því sem á eftir kemur verði íbúðalán dæmd til sömu vaxta og skammtímalán.

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 17:15

6 identicon

Amen !!

Er svo ekki rétt að síðasti einstaklingur úr landi slökkvi ljósin.

Arnar (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 18:23

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Arnar, hafðu engar áhyggjur, það verður fullt eftir af bankamönnum og svo þessir 238 auðkýfingar (eða hvað þeir eru margir) sem eiga 90% af öllum innstæðum í landinu.  Fyrri hópurinn verður í því að innheimta óinnheimtanleg lán, sá síðar mun valsa á milli húsanna sem hann hefur keypt ýmist á uppboðum eða af vinum sínum í bönkunum.  Það verða sem sagt um 20 þúsund manns eftir til þess að líta með ljósunum og öllu hinu.

Marinó G. Njálsson, 29.9.2010 kl. 20:45

8 identicon

Gott að heyra það Marinó.  En var ekki neytendavernd á Íslandi í raun andvana fædd og við aðeins látin halda að hún væri á lífi. Ég bendi á það að stærsti hluti laga um neytendalán var saminn af Jónasi Fr. Jónssyni þáverandi lögfræðingi Verslunarráðs undir handleiðslu Vilhjálms Egilssonar sem nota bene var bæði formaður efnahags- og viðskiptanefndar leikhúss fáránleikans (lesist: Alþingi) og framkvæmdastjóri Verslunarráðs. Athugasemdir sem framangreindur Jónas undirritaði voru felldar nánast óbreyttar inn í frumvarpið og þar með var neytendaverndin úti.

Ein setning sem ég man vel eftir úr athugasemdum Jónasar er svohljóðandi: "Hér gengur neytendaverndin allt of langt". Og hvaða ákvæði skyldi hann hafa verið að nefna hér??  Nefnilega það að ekki væri hægt að ganga að öðru en andlagi veðs ef lán væri í vanskilum.

Segið mér svo að neytendavernd hafi einhvern tíma verið til á íslandi.

Tek fram að ég byggi ályktun mína um störf Vilhjálms Egilssonar á upplýsingum um hann fengnum af heimasíðu framangreinds leikhúss.

Arnar (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:49

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Arnar: Ég fæ velgju af að heyra minnst á þennan Jónas! Hef meira að segja setið á móti honm við fundarborð í eitt skipti, hann kom mér ekki fyrir sjónir sem mjög merkilegur snáði.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.9.2010 kl. 00:58

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það þarf ekki að undra þó ég og fleiri hafi aldrei kynnst "neytendaverndinni" í lifandi lífi víst hún var andvana fædd. 

Það sem verra er að um leið og dómstólar lýðveldisins Ísland gáfu út dánarvottorð neytendaverndarinnar nauðguðu þeir réttlætiskenndinni.

Magnús Sigurðsson, 30.9.2010 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband