Leita í fréttum mbl.is

FME framlengir frest til lögbrota - Bílalánamál fyrir Hæstarétti 6. september

Ég skil ekki tilgang FME með því að lengja frest fjármálafyrirtækja til að brjóta lög.  Þrátt fyrir skýringar Seðlabanka og FME á lagaskilyrðum fyrir því að setja tilmælin, þá féllu þær skýringar um sjálft sig, þegar í ljós kom, að Seðlabankinn hafði komist að þeirri niðurstöðu í maí 2009, að gengistrygging lána væri ólögleg.  Á þeim tíma mátti vera ljós áhrif þessara lána á fjármálastöðugleikann og dómur Hæstaréttar breytti engu um það.  Fyrst Seðlabankinn brást ekki við í maí 2009, þá var nákvæmlega engin ástæða fyrir hann að bregðast við í lok júní 2010.  Ekkert breyttist með dómi Hæstaréttar varðandi skoðun Seðlabankans á lánunum.  Gengistryggingin er ólögmæt, en ennþá er vafi um hvaða lán teljast gengistryggð.

Málin hefðu litið öðruvísi við, ef lögfræðiálitið sem Seðlabankinn hafði undir höndum og minnisblað aðallögfræðings Seðlabankans, Sigríðar Logadóttur, hefðu  ályktað í hina áttina.  Þá hefði dómur Hæstaréttar gengið þvert gegn skoðun Seðlabankans.  En svo var ekki.  Afstaða Seðlabankans til lánanna breyttist því ekkert við dóm Hæstaréttar og mat Seðlabankans á stöðugleika fjármálakerfisins átti því ekki að taka neinum breytingum.  Hafi Seðlabankinn talið að ólögmæti gengistryggingarinnar gæti valið fjármálafyrirtækjum vanda, þá hefði bankinn átt að grípa til ráðstafana strax í maí 2009.  Að hann hafi ekki gert það verður að túlka sem bankinn hafi ekki talið þetta vera vandamál (nema hér hafi verið um afglöp bankans að ræða).  Nú dómar Hæstaréttar tóku ekki á vöxtum lánanna og þar með var þeim ekki breytt hvort sem FME, SÍ eða Gylfa Magnússyni þótti það sanngjarnt eða ekki.  Nýlegt dæmi, þar sem lögreglan varð að skila 1 m.kr. með vöxtum vegna þess að það gleymdist að gera kröfu um það fyrir dómi að gera féð upptækt sýnir að það sem ekki er dæmt um breytist ekki.

Útspili SÍ og FME 30. júní sl. var ætlað það eitt hlutverk að hafa áhrif á niðurstöðu dómstóla og aftur er FME að reyna að hafa áhrif á dómstóla.  Á mánudaginn 6. september kl. 09.00 verður tekið fyrir í dómsal I í Hæstarétti mál Lýsingar gegn Guðlaugi Hafsteini Egilssyni, þ.e. bílalánsdómurinn sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. júlí sl.  Talsmaður neytenda hefur óskað eftir því við Hæstarétt að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins.  Slíkt gæti talið málið um nokkra mánuði, en í staðinn tryggt að túlkun EFTA dómstólsins á neytendaverndartilskipun ESB liggi fyrir áður en Hæstiréttur fellir sinn dóm.  Eins og flestir vita líklega, þá ákvað héraðsdómari að dæma í samræmi við tilmæli SÍ og FME, þrátt fyrir að langflestum tilfellum þurfi lántakar að greiða háar upphæðir ofan á þegar greiddar afborganir vegna gjalddaga fyrir 1.1.2008.  Telja þeir lögmenn sem ég hef rætt við, slíkt vera skýlaust brot á tölulið c í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EEC.  Það geti ekki staðist, að lántaki sem greitt hefur í samræmi við útsenda greiðsluseðla verði dæmdur hafa vangreitt þá gjalddaga sem um ræðir.  Landsbankanum tókst nú að sýna fram á fáránleika tilmæla SÍ og FME við útsendingu endurútreikninga í ágúst, þar sem í mínu tilfelli, þá skuldaði ég bankanum 161% ofan á þær greiðslur sem ég hafði staðið skilvíslega greiðslur af frá miðju ári 2004 til ársbyrjunar 2008. Hvernig FME og SÍ geta fengið það út að þetta sé sanngjarnt og réttlátt er mér ómögulegt að skilja.

En gat héraðsdómari komist að annarri niðurstöðu en að dæma vexti Seðlabankans?  Já, hann gat gert það, en var ekki í aðstöðu til þess.  Fyrst skulum við horfa til þess, að kröfur og varakröfur málsaðila takmörkuðu möguleika dómarans.  Hugsanlega gerði verjandinn mistök með því að vera ekki með fleiri varakröfur sem buðu upp á að lántaki greiddi hærri vexti, en samningsvexti.  Sækjandi gekk lengst að bjóða vexti samkvæmt tilmælum SÍ og FME.  Þetta varð til þess að stór gap myndaðist milli vægustu krafna/mestu eftirgjafar hvors aðila.  Vissulega fannst mér furðuleg sú afstaða héraðsdómara að dæma lánveitanda forsendubrest, en staðreyndin er einfaldlega sú, að málið var of stórt fyrir héraðsdóm og því var það bara hlutverk dómsins að opna málinu leið til Hæstaréttar.  En aftur að því hvort héraðsdómari hefði getað dæmt annað en vexti Seðlabanka. A.m.k. tvö dómafordæmi eru fyrir því að Hæstiréttur hafi dæmt vexti sem rétturinn ákvað sjálfur að væru sanngjarnir.  Vissulega eru þau dæmi gömul, en það gerir þau hvorki gleymd né grafin.  Bæði málin eru vexti á bætur, þar sem Hæstiréttur ákvað að viðmiðunarvextir væru ósanngjarnir.  Í raun sams konar deila og vextir áður gengistryggðra lána snúast um.

En hvað er sanngjarnt varðandi gengistryggð lán?  Höfum fyrst í huga að sanngirni gengur í báðar áttir.  Hafi lánþegi óskað eftir að njóta sanngirni, þegar innheimtur voru í gangi, þá verður hann að vera tilbúinn til að þiggja/veita þá sanngirni í dag, þó staðan hafi hugsanlega breyst honum í hag.  Vandamálið er að dómstólar eiga ekki að dæma um sanngirni, þeir eiga að dæma um réttlæti.  Kröfur málsaðila þurfa því að byggðar á lagalegum grunni.  Niðurstaðan gæti því endað í ökla eða eyra eftir því hve vel lögmönnum tekst að sannfæra réttinn.  En víkjum frá lagalegum rökum og förum yfir í staðreyndir málsins:

  • Samningar voru gerðir í frekar stöðugu umhverfi og þó krónan hefði sveiflast talsvert, þá tóku sveiflurnar fljótt af.
  • Eigendur Lýsingar tóku mjög grófa stöðu gegn krónunni og stuðluðu þannig í reynd að hruni hennar eftir að hafa lánað út gríðarlega háar upphæðir í gengistryggðum lánum.
  • Ekkert bendir til þess að undirliggjandi fjármögnun Lýsingar hefi verið í erlendum gjaldmiðlum
  • Lánin voru veitt með milligöngu ófaglærðs einstaklings,s en hafði ekki kunnáttu til að leiðbeina lántaka um innihald og ákvæði lánasamningsins og hefði því í raun aldrei átt að hafa milligöngu um lánið.  Efast má um réttindi bílasala til að hafa þessa milligöngu og hvort það hafi verið í samræmi við starfsleyfi Lýsingar.
  • Gengistryggð lán stuðluðu að aukinni verðbólgu og Seðlabankinn hækkaði því vexti sína verulega til að vinna gegn verðbólgunni sem lánin m.a. voru völd af.
  • Ekki er sannað að lántaki hefði tekið lánið, ef honum hefðu bara staðið til boða óverðtryggt lán sem Lýsing bauð upp á.
Hvernig er hægt að leysa þetta mál þannig að allir gangi sæmilega sáttir frá borði?  Það verður ekki gert með milligöngu dómstóla.  Svo mikið er víst.  Það er ekki hlutverk dómstóla að miðla málum heldur túlka lög.  Eðlilegasta lausnin er fjármálafyrirtæki og lántakar setjist niður og leysi málin í sameiningu.
mbl.is Fjármálafyrirtæki fá lengri frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Sæll Marinó!

Það er annað sem undrar mig við þessa frétt, nefnilega það að þessir eftirlitsaðilar lögðu á það þunga áherslu, væntanlega í ljósi gagnrýni sem á þá kom vegna þeirra aðkomu, að þetta væru einungis "tilmæli" , engin kvöð á fjármálafyrirtækin að fara eftir þeim!

Hvernig má þá vera að þessi sömu apparöt þykist geta gefið einhvern "frest" til að fara að þeim.  Óskiljanlegt að sé hægt að setja einhvern frest um að verða við óskuldbindandi TILMÆLUM , eða hvað?

Kristján H Theódórsson, 2.9.2010 kl. 13:35

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Er eitthvað vitað hvernig afstaða Umboðsmanns Alþingis stendur vegna tilmæla SÍ og FME? Hefur hann lokið sinni rannsókn?

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.9.2010 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband