Sama er hvar litið er til í íslensku efnahagslífi, alls staðar blasa við sömu staðreyndir. Yfirskuldsetning vegna falls krónunnar og yfir 50% verðbólgu síðustu ára er að kafsigla öllu. Bæjarfélög eru á heljarþröm, orkufyrirtæki eru sokkin í hyldýpi skulda, rekstrarfyrirtæki eru skuldsett upp í rjáfur og heimilin sjá ekki til sólar vegna himin hárra lána. Hvenær ætla stjórnvöld og fjármálakerfið að átta sig á því að aðeins eitt er til ráða. Fara þarf í gagngera og róttæka endurskipulagningu, leiðréttingu og niðurfellingu skulda.
Veruleikinn er grákaldur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjanesbæ. Báðir aðilar tóku þátt í stóriðjuævintýri sem virðist ekki hafa góðan endi. Hvað er til ráða? Annar aðilinn vill hækka gjaldskrá og varpa skuldunum yfir á saklausa almenna viðskiptavini fyrirtækisins, hinn heldur á í höndunum skuldabréf sem kann að vera verðlaust og á því þann kost einan að auka álögur á íbúa sveitarfélagsins sem berjast við mesta atvinnuleysi á landinu. En álögur verða ekki auknar endalaust, auk þess sem Orkuveita Reykjavíkur getur líklegast ekki lögum samkvæmt varpað þessum byrðum yfir á almenna orkukaupendur.
Hvað er þá til ráða? Svarið er það sama alls staðar: Stilla þarf skuldum í viðráðanlegt horf og annað hvort geyma það sem umfram er þar til betur árar hjá viðkomandi skuldurum eða fá skuldirnar felldar niður. Íslenskt hagkerfi er of skuldsett sem nemur fleiri þúsund milljörðum. Þó svo að við sleppum skuldum hrunsbankanna, þá eru þær skuldir sem eftir eru einfaldlega of miklar. Fjármálafyrirtæki, hvorki innlend né erlend, munu hagnast á því að yfirtaka skuldsettar eignir. Reykjanesbær getur ekki sameinast öðru bæjarfélagi og þannig komist undan skuldum sínum. Ekkert annað bæjarfélag mun vilja taka við þeim eiturbikar sem skuldastaða þeirra suður með sjó er. Fyrir utan að 20-30 sveitarfélög eru í viðlíka vanda. Hvaða gagn er að vara sveitarfélög við vanda sem þau bæði vita af og sjá ekki fram úr að geta leyst?
Stjórnvöld verða að taka af skarið. Þau verða að fá fjármálafyrirtæki hér innanlands og utan til að taka þátt í alsherjar endurskipulagningu skulda heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga. Ef þessir aðilar eru ekki tilbúnir í slíkt, þá verður einfaldlega að setja lög sem verja lántakendur fyrir því að gengið sé að eigum þeirra meðan þeir eru að vinna sig út úr vandanum. Best er að lánadrottnar sýni lántakendum sínum skilning og taki þátt í endurskipulagningunni. Nauðsynlegt verður að afskrifa háar upphæðir, en þær eru mjög oft hvort eð er tapaðar eða að viðkomandi fjármálastofnun tók þær yfir á mun lægra bókfærðu virði, en krafan hljóðar sem verið er að innheimta.
Ég talaði fyrir því strax 30. september 2008, að nauðsynlegt væri að skipta skuldum lántakenda (þá horfði ég fyrst og fremst til heimilanna, en sá fyrir mér að fyrirtæki og sveitarfélög væru í svipaðri stöðu) upp í "viðráðanlegar" skuldir og síðan þær sem væru "óviðráðanlegar". Lánadrottnar yrðu að sætta sig við að innheimta "viðráðanlegu" skuldirnar, en frysta þær sem væru "óviðráðanlegar". Ég held að ég hafi haft rétt fyrir mér og mér sýnist einmitt staða Reykjanesbæjar, Álftaness og Orkuveitu Reykjavíkur ber þess skýr merki.
En hvenær voru skuldir "viðráðanlegar" og hve lengi þarf að geyma hinar "óviðráðanlegu"? Við viljum halda að skuldir hafi verið viðráðanlegar í upphafi árs 2008. Að minnsta kosti voru lántakar almennt ekki farnir að æmta undan skuldabyrðinni þá. Frá þeim tíma hafa verðtryggðar skuldir hækkað um tæp 30% og gengistryggðar og skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað að meðaltali um 75% og allt að 152% séu lánin í jenum. Ekki þarf snilling til að sjá, að erfitt er að ráða við svona stökkbreytingu skulda.
Ekki er þó sanngjarnt að sleppa lántökum við alla hækkunina sem orðið hefur og þess vegna verður að finna einhverja sanngjarna niðurstöðu. Vil ég í því samhengi benda á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna, sem lagt hafa til að sett verði 4% þak á árlegar verðbætur og að gengistryggð lán og lán í erlendum gjaldmiðlum yrðu færð yfir í verðtryggð lán miðað við stöðu þeirra 1.1.2008 og fengju því 4% þakið á sig frá þeim tíma. Hvort erlendir lánadrottnar væru tilbúnir að fallast á þetta er ólíklegt, en því ekki prófa. Ástandið fer stig versnandi. Fleiri og fleiri heimili, fyrirtæki og sveitarfélög eru að komast í óviðráðanlegan vanda og voru nógu margir fyrir í þeim hópi. Álögur verða ekki auknar og ekki verður hægt að láta lífeyrissjóðina hlaupa alls staðar undir bagga.
Satt best að segja, þá sé ég ekki margar leiðir út úr þessum vanda. Einn er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki yfir allar þær eignir sem þeir eiga veð í og eignist stóran hluta eigna í landinu. Annar er að lífeyrissjóðirnir gerist björgunarsjóður Íslands, sem er í reynd óbein þjóðnýting á lífeyrissjóðunum eða a.m.k. hluta eigna þeirra. Einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum verði gefinn kostur á mjög ódýrum lánum (og afborgunarlausum til margra ára) frá lífeyrissjóðunum fyrir hinum "óviðráðanlega" hluta lána sinna, en héldu áfram að greiða af "viðráðanlega" hluta lánanna. Þriðji kostur og sá sem ég held að sé óumflýjanlegur, er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki á virkan hátt þátt í endurreisn hagkerfisins með því ýmist að fella niður eða frysta á lágum eða engum vöxtum hinn stökkbreytta hluta lána heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga.
Spilaborg hins íslenska efnahagsundurs hrundi í októberbyrjun 2008. Líkja má afleiðingunum við að íslenskt efnahagslíf hafi lent undir þykkri aurskriðu. Við höfum verið að vinna okkur í gegnum skriðuna og reynt að bjarga því sem bjargað verður. Eftir því sem við komumst neðar í skriðuna, sjáum við betur hve tjónið er mikið. Það, sem virtist heilt, er meira að segja stórlega skaddað og geta okkar til að endurreisa það sem sópaðist í burtu er takmörkuð. Nýtt upphaf verður ekki nema skuldir verði stilltar af þannig að fólk og fyrirtæki geti skilað af sér sköttum og arði til samfélagsins. Eins og staðan er, vantar bæði getuna og hvatann. Hvaða tilgangur er að greiða af lánum, þegar ekki sér högg á vatni? Hvaða framtíð býður þetta þjóðfélag upp á, ef álögur á fólk og fyrirtæki eru svo þungar að enginn stendur undir þeim? Mér sýnist því miður, sem óveðursskýin séu enn og aftur að hrannast upp við sjóndeildarhringinn og munu koma í veg fyrir að geislar vonarglætunnar berist til okkar.
Óvissa um eignina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 52
- Frá upphafi: 1681299
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó.
Stórfínt alveg. Furðulegt finnst mér stundum hvernig þér tekst að koma góðum, en oft að sama skapi flóknum niðurstöðum, til skila í örfáum línum. Langsótt sannindi glápa allt í einu á mann af 50cm færi og maður þarf ekkert að gera nema vista!
Ansi hreint, er ég hræddur um að "peningana verðir" verði tregir í taumi að sanngjarnri niðurstöðu. Ég tala nú ekki um ef hún kemur frá skuldurunum sjálfum.
Alla tíð hafa þeir sett skilmálana. Reynist þeir síðar, vegna breytinga í umhverfinu, lántakanum í hag þá breyta þeir bara samningnum! Löglegt eða ekki hefur ekkert að segja. Fundin er upp Barbabrella, oftast í samvinnu við yfirvöld, og þeir fá það sem þeir vilja.
Allra best er auðvitað, að láta annan banka lána sér peninga á 2% vöxtum og endurlána þá t.d. til bílakaupa á 20% vöxtum, verðtryggðum og gengistryggðum líka ef svo á við!! Innlán almennings og fyrirtækja má þá skjótast með í spilavitið, gusa smá slatta á nokkur borð og sjá til hvort ekki hafist gróði einhversstaðar. Þar sem verður hagnaður þá er hann þinn, en á borðunum sem tap verður á greiðir þú skuldina með stolnum gróða okurvaxta sem lagðir eru á lántakendur akkúrat í þessu skyni.
Fari mjög illa vegna óheppni, þá gerir það ekkert til sosum. Sótt er ein af Barbabrellunum góðu og heimsfræg endurfölsunarskrifstofan passar að hún sé lögleg, færir þá til smá klink úr einu í annað ef þarf.
Með opið skotleyfi á viðskipavinina og lipra samvinnu við ráðherra, þingmenn og í mörgum tilfellum einræðisherra, er sparibaukurinn verndaður í bak og fyrir. Slys verða sárasjaldan en þá redda stjórnvöldin þín skemmdunum með prentvélum fyrir lítið. Kannski lækkar gengið smávegis um tíma, ef ekki er góðri barbabrellu smellt á borðið meðan almenningur borgar lækninguna.
Dauðaslys verða bara einu sinni á öld. Þrátt fyrir það er til sérstök viðbragðsáætlun sem bjargar vinum og vandamönnum, og er ekki flókin. Með Barbabrellu no.1 eru allir plataðir í ca. ár og á meðan er hverri einustu krónu sem inn kemur eða hægt er að svíkja út með öðrum hætti safnað og þegar allt er orðið tómt er stokkið um borð bankaþotunnar og flogið til Súmötru.
Það er því eins og þú sérð ekki auðvelt að ná af þeim þýfinu.
Blekið er búið í bili, en reyni að finna ráð meðan fyllt er á.
Dingli, 1.9.2010 kl. 03:33
Ég man að við ræddum þetta úti á götu eftir fund HH í febrúar 2009. Þá var þessi hættulega staða orðin skýr fyrir okkur. Ég gerði einfalt áhættumat fyrir mig og mína fjölskyldu og komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti ekki búið á Íslandi, nema ég gæti treyst á ríkisstjórn til að taka skynsamlegar ákvarðanir.
Ég ákvað að flytja úr landi eftir kosningar þegar hrunflokkur sem engan lit hafði sýnt komst aftur til valda. Ekki fór ég þó með glöðu geði, en þótti það skynsamlegra en að sjá fram á að drukkna í skuldum vegna stökkbreyttra lána, og verri greiðslustöðu vegna gjaldeyrishafta, nauðsyn þess að hækka skatta og gjaldskrár.
Þetta hefur verið erfiður tími, en mun erfiðara hefði verið að sitja heima og geta ekkert gert.
Hrannar Baldursson, 1.9.2010 kl. 06:13
Án róttækra aðgerða liggur fyrir að það sem mun gerast á Íslandi er að þeir fara sem geta. Þeir sem geta eru fyrst og fremst ungt fólk og bæði bók- og verkmenntað fólk með "markaðshæfa" getu. Það er svo aftur sama fólkið og landið mun helst þurfa á að halda við enduruppbygginguna þ.a. þetta mun auka við hinn neikvæða spíral sem landið virðist því miður fast í.
Með kveðju frá Kabúl.
Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 07:41
En við höfum það svo gott miðað við Haíti skv vel tengdum vinstri bróður. Sama hlýtur að gilda fyrir heimilin og stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki. Engin ástæða til að vera þetta kvabb alltaf hreint, borgiði bara!
Nýtt ísland, ný viðmið.
sr (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 09:12
Það er fáranlegt að hæstiréttur skuli ekki vera búin að koma og dæma í þessum málum sem tengjast hruninu.
Annars átti ríkisstjórnin að mínu mati að taka alla lánasamninga sem tengjast heimilum, hvaða tegund sem það kallast og færa höfuðstóll aftur til byrjunar 2008 áður en hrunið verður og breyta öllum lánum í kannski í 4-5%vexti og frysta verðtryggingu, þannig að hún geti aldrei verið meira en 3-5%.
þetta óvissuástand er fáranlegt.
albert (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 09:57
Hvenær rætist draumurinn um nýtt Ísland ? Er hann í augsýn ?
Allt uppi á borðinu og öllu skipt af sanngirni þ.m.t skuldunum ?
Vonarglætan sem maður eygði við síðustu ríkisstjórnaskipti var fljót að deyja út. Ekkert af þessu fólki sem tók við hefur aðrar eða nýrri hugmyndir um hvernig leysa skuli vandann. Hjakkað áfram í sama gamla farinu sem leiðir á sama stað og leið fyrri stjórnar. Allt endar uppi á borði hjá almenning sem skal blæða með góðu eða illu.
Okkur sárvantar nýja hugsun ínn í hagkerfið íslenska. Hagsmunasamtökin hafa verið óþreytandi við að benda á aðrar leiðir en þær hafa þann ókost að mati stjórnvalda og fjármálafyrirtækja að tapið færist að hluta yfir á fjármagnseigendur og það er bara ekki að gera sig.
Það nálgast óðfluga sú stund að við almenningur þurfum að svara þeirri spurningu sem brunnið hefur lengi á vörum okkar, er núverandi stjórnmálamönnum treystandi til að leiða okkur út úr þeim vítahring sem aðgerðir og eða aðgerðaleysi þeirra sjálfra hafa komið okkur í ?
Við þurfum að svara fyrr en seinna.
Hjalti Tómasson, 1.9.2010 kl. 10:44
sr, aðstæður í mannheimum eru svo ömurlegar víða um álfur, sérstaklega í Afríku, að fyrir mörgum væri Haiti sem frelsun. Flóttafólk t.d. býr við misjafnar aðstæður, en tugir milljóna lifa við þvílíkar hörmungar að til hvaða staðar annan í heimi færi það fegið, bara komast burt. Íbúar Darfur létu sig varla dreyma um betri stað en Haiti, en eilífðar flóttafólkið um miðbik Afríku t.d Ruanda-Uganda-Kongo myndu óska sér þess að komast til Darfur.
Svo eru þið að kvarta undan Jóku og Steina!
Dingli, 1.9.2010 kl. 10:56
Einhvern tíman var talað um þolinmótt fjármagn. Nú þurfum við þolinmóða innheimtu. Því skuldastaðan mun beitast á næstu 5árum skuldurum í hag. Gengið hækkar laun munu hækka og allt umhverfið mun blómstra.
Kristján Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 14:25
Það er fjölmörgum spurningum ennþá ósvarað auk þeirra sem þið veltið upp.
Hvers vegna er ekki upplýst hversu stórri fjárhæð Geir H. Haarde stal handa fjarmagnseigendum með yfirlýsingu rétt eftir hrun að allt sparifé væri verndað upp í topp?
Ef kröfuhafar Landsbankans fá ekkert, af hverju njóta þá að fá hluta af "þýfinu" fellt niður úr skuldunum okkar?
Svarið er reyndar augljóst: Við eigum að borga það sem stolið var fyrir fjármagnseigendur og lífeyrrissjóði. Líklega er stolna upphæðin þarna 1700 milljarðar. Það fæst hins vegar enginn til að gefa upp mismunin á þeirri fjárhæð sparireikninga sem átti að vernda að hámarki 1.7 milljón pr. reikning og öllu sparifénu sem skv. gildandi lögum var ekki verndað og átti að tapast væri allt eðlilegt. Það er af þessari ástæðu sem erlendir kröfuhafar fá ekki neitt í sinn hlut.
Það virðist heldur ekki fara mjög hátt í skilningi almennnings að bankastarfsfólkið sem fékk kúlulánin sín felld niður eru einmitt fólkið sem hjálpuðu aðal bankabófunum að skrúfa upp hlutabréfaverð bankanna og er þannig meðábyrgt í þeirri botnlausu fjármálafölsun sem átti sér stað á Íslandi. Þetta fólk er allt saman hvítþvegið og fer aldrei á vanskilaskrár þrátt fyrir allt að margra milljarða niðurfellingu lána á meðan við aumingjarnir getum ekki fengið ræstingarstarf í banka vegna vanskila sem bankaliðið ber í raun alla ábyrgð á.
Tveimur árum eftir hrun er núverandi ríkisstjórn ekki búinn að gera neitt af viti og við eigum ennþá langt í botn hrunsins. Sumum finnst jú mjög merkilegt að banna súludans og sólbaðstofuráp ungmenna.
Hvenær höfum við sameiginlega nægilegt skap til að bylta þessari vitleysu og koma fjármálasóðum og vinunum þeirra í stjórnkerfinu burtu?
Haukur Nikulásson, 1.9.2010 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.