30.8.2010 | 11:36
Umræða sem þörf er á - Sósíalisti ver auðvaldið
Ég var beðinn áðan um umsögn í nafni Hagsmunasamtaka heimilanna vegna greinar Sigurðar. Mig langar að birta hana hérna ásamt því að ræða grein Ármanns Jakobssonar á Smugunni.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að líf sé að færast í lögfræðilega umræðu um forsendubrest verðtryggðra lána. Fyrst gerðist það með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli ÍAV vegna íþróttamannvirkjanna á Álftanesi og núna fjallar Sigurður G. Guðjónsson um þetta í grein sinni. Það hefur verið skoðun Hagsmunasamtaka heimilanna frá stofnun samtakanna að verðbætur umfram 4% á ári valdi brotnum forsendum vegna verðtryggðra lánasamninga. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands voru 2,5% á árunum 2001 fram á haust 2008 með efri vikmörk 4%. Samtökin telja því að verðbólga umfram efri vikmörk sé frávik frá því sem lántakar gátu búist við og valdi því forsendubresti. Sigurður G. Guðjónsson lýsir þessum forsendubresti vel í grein sinni og það gerði fjölskipaður dómur héraðsdóms líka. Krafa Hagsmunasamtaka heimilanna er að þessi forsendubrestur verði leiðréttur afturvirkt til 1.1.2008. Við höfum ekki farið fram á meira, en vissulega varð einnig forsendubrestur á árunum þar á undan. Við erum tilbúin að láta þann forsendubrest kyrrt liggja verði orðið við kröfu okkar um leiðréttingu til 1.1.2008, en Sigurður ætlar lengra með sitt mál.
Fjármálafyrirtækjum var boðið á síðasta ári til samninga vegna gengistryggðra lána. Þau hunsuðu sanngirniskröfur Hagsmunasamtaka heimilanna þá og fengu í staðinn yfir sig dóma Hæstaréttar. Þau hlupu grátandi í pilsfald FME og SÍ og báðu um að verja sig fyrir hinum illa Hæstarétti sem gert var með því að brjóta gegn neytendaverndartilskipun ESB. Vilja fjármálafyrirtækin taka áhættuna á því að næst verði forsendubrestur dæmdur á verðtryggð lán aftur til 2005 og stór hluti af 50% verðbótum verði dæmdur ólöglegur?
Hagsmunasamtök heimilanna eru tilbúin til viðræðna við fjármálafyrirtæki um lausn á skuldavanda heimilanna. Samtökin hafa enga trú á að stjórnvöld muni taka upp hanskann fyrir heimilin vegna þeirra fjárhagslegu áfalla sem yfir þau hafa riðið. Skjaldborgin góða náði ekki einu sinni að verða tjaldborg og öll úrræði stjórnvalda hingað til hafa gengið út á að tryggja að eins mikill peningur streymi frá fjárvana heimilum til fjármálakerfisins. Ekkert skal afskrifað nema það sé sannanlega tapað og fólk annað hvort búið að tapa eigum sínum (á nauðungarsölu eða vegna gjaldþrots) eða það flúið land vegna þess skuldafangelsis sem felst í úrræðum stjórnvalda. Samtökin fagna því öllum rökum sem geta opnað augu fjármálafyrirtækja fyrir því að viðræður eru af hinu góða. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað boðið fjármálafyrirtækjum upp á slíkar viðræður, nú er það þeirra að bregðast við og þiggja þær. Hægt er að leysa þessi mál utan dómstóla, en þá verða fjármálafyrirtækin að þora að stíga það skref.
Þá er það kostuleg grein Ármanns Jakobssonar á Smugunni. Greinin ber fyrirsögnina Fátækt, sjálfbærni og hanttræn hugsun. Í henni fjallar hann m.a. um fátækt á Íslandi og ber að hluta saman við fátækt á Haiti af öllum stöðum í heiminum. En ég ætla ekki að fjalla um þann hluta greinar Ármanns, heldur pilluna sem hann sendir Hagsmunasamtökum heimilanna. Í grein sinni segir hann:
Eftir hrunið hefur borið nokkuð á því að snúið væri úr fátæktarhugtakinu. Ég þekki sjálfur dæmi um manneskju sem lýsti sér sem fátækri þó að hún ætti bæði veglegt húsnæði, nokkra bíla og hefði farið nokkrum sinnum til útlanda á nýliðnu ári. Sjálfsagt vegna mikilla skulda sem eru sannarlega alvarlegt vandamál. Þess ber þó að gæta að boðið hefur verið upp á úrræði sem hin svonefndu Hagsmunasamtök heimilanna kalla að lengja í hengingarólinni. Það merkir á mannamáli að létt er á afborgunum þannig að ráðstöfunarfé eykst. Skuldin hverfur ekki og fólk á erfiðara með að finnast það eiga húsnæðið, er vissulega í allt annarri stöðu en það taldi sig vera. En fátækt?
Ég verð nú að segja það furðulegan sósíalisma þegar sósíalistinn fer að verja auðvaldið fyrir sanngjörnum kröfum almennings um að auðvaldið skili því sem það hefur ranglega tekið. Sýnist mér þá sem það sé sósíalistinn sem er "svo nefndur" sósíalisti og að flokkur svo nefndra sósíalista sé "svo nefndir" Vinstri grænir. Þegar stuðningsmenn þess flokks, sem telur sig lengst til vinstri í íslenskri pólitík telja sig þurfa að verja arðrán auðvaldsins meðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að lengra þurfi að ganga til móts við skuldsett heimili, þá fer maður að velta fyrir sér hvort ekki hafi orðið endaskipti á hlutunum.
"Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti", mælti Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Laxness. Koma þessi orð mér sífellt oftar í huga þessa mánuði. Þegar sósíalistar Íslands geta af flokkshollutu ekki staðið með almúganum gegn auðvaldinu, þá vil ég frekar "ranglæti" kapitalistanna en "réttlæti" sósíalistanna.
Telja væntanlega 21% vexti sanngjarna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Það var annað hvort Ármann eða hinn bróðir menntamálaráðherra sem kallaði þá sem ætluðu að taka þátt í greiðsluverkfalli HH, vanskilafólk (sá þetta á facebook). Þetta var skömmu eftir að hin svonefna norræna velferðarstjórn tók við. Það er áhugavert að fygljast með því hvað hið svonefnda vinstrifólk þegir um málefnin sem það áður hafði sterkar skoðanir á, aðþví að litla systir er orðinn ráðherra, o.s.frv. Aumkunarvert.
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 30.8.2010 kl. 11:50
Þú fyrirgefur vonandi, en mér finnst eftirfarandi setning þín frekar skrumkennd:
"Ég verð nú að segja það furðulegan sósíalisma þegar sósíalistinn fer að verja auðvaldið fyrir sanngjörnum kröfum almennings um að auðvaldið skili því sem það hefur ranglega tekið."
Gott ef satt væri, að hægt yrði að knýja "auðvaldið" til að skila einhverju. En ég sé ekki fram á að það verði. Það sem heimili í kröggum kunna að fá í bætur mun að mestu leyti koma úr vösum skattborgaranna, þ.e. almennings. Þau heimili, fóru illa út úr hruninu að ósekju, eiga alla samúð mína. Og ekkert óeðlilegt að samfélagið komi illa stöddum heimilum til hjálpar. En kannski ekki öllum. Það má ekki gleyma því, að í þessum hópi er líka fólk, sem hagaði sér glannalega og hefur ekki við aðra að sakast en sjálft sig. Og ég er ekki viss um að almenningur sé svo örlátur að hann vilji endilega bjarga því líka.
Það er villandi að halda því fram að þetta sé barátta við hið illa auðvald. Baráttan snýst einfaldlega um að hve miklu leyti tjóninu skuli jafnað meðal almennings. Því miður.
Kristján Bjartmarsson (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 13:52
Grein Sigurðar G er mjög góð og varpar skýru ljósi á málið. Henni ættu allir að geta fagnað. Vonandi er að fleiri lögfræðingar tjái sig um málið. Það er brýn nauðsyn að vinda ofan af verðtryggingunni. Hins vegar er afar ósmekklegt og setur leiðinlegan blett á góðan málstað að vera með skítkast út í Ármann, Jakob og Katrínu.
hrafn arnarson (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 13:58
Hrafn, ekki segi ég styggðaryrði um Jakob (sem ég veit nema hafi átt að vera Sverrir) og Katrínu og ekki eru orð mín "skítkast" út í Ármann. Ekki vissi ég til að Ármann talaði fyrir hönd systur sinnar, en kannski veist þú eitthvað um það Hrafn. Ekki er það skítkast að velta fyrir sér hvernig sósíalismanum er snúið á hvolf með orðum Ármanns, en þetta er bara það sem bent hefur verið á áður, að vinstri "velferðarstjórnin" á Íslandi er hægra megin við AGS þegar kemur að þvi að gera eitthvað fyrir heimilin. Ég ber fulla virðingu fyrir Ármanni Jakobssyni sem synsömum manni, en finnst honum hafa orðið fótaskortur á sósíalismanum í þessari pillu sinni gagnvart Hagsmunasamtökum heimilanna.
Marinó G. Njálsson, 30.8.2010 kl. 14:34
Átti náttúrulega að vera "(sem ég veit ekki nema hafi átt að vera Sverrir)"
Marinó G. Njálsson, 30.8.2010 kl. 14:35
Kristján bendir réttilega á hér að ofan að það er ekki spurningin um að "auðvaldið" komi til móts við kröfur hagsmunasamtakanna heldur almennir skattgreiðendur.
Í því sambandi ber að hafa í huga líka að þó að íbúðaverð hafi lækkað mikið að undanförnu og sé í lágmarki núna þá kemur það til með að hækka aftur og til lengri tíma litið hækkar það meira, frá því sem það er í dag, en vísitlan kemur til með að hækka um.
Ef almennir skattgreiðendur eigendur lífeyrissjóðanna eiga núna að taka á sig að hluta tapið sem hlýst af því að íbúðaverð fylgir ekki vísitölunni, er þá ekki sanngjarnt að þeim verði tryggður hluti af ágóðanum þegar þetta snýst við?
Landfari, 30.8.2010 kl. 15:01
Varla er það skítkast að rifja það upp að annar bróðirinn (rétt, það var Sverrir) hafi kallað þá sem taka þátt í greiðsluverkfalli, vanskilafólk?
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 30.8.2010 kl. 15:06
Sósíalisti?
Auðun Gíslason, 30.8.2010 kl. 15:44
Er ekki ordid "KÚVENDINGUR" (Med stólaáráttu) nokkud gott um thá sósálista sem nú sitja á thingi?
Halldór Egill Guðnason, 30.8.2010 kl. 15:53
Landfari, það er ekkert sem bendir til þess að almennir skattgreiðendur þurfi að borga fyrir fjármálafyrirtækin sem mest hafa verið í umræðunni. Staða Íbúðalánasjóðs verður aftur ekki leyst nema með aðkomu ríkisins.
Marinó G. Njálsson, 30.8.2010 kl. 17:01
Það að vera sósíalisti er ekki það sama og taka undir hvaða bull sem er. Grein Ármanns var íhugul og skynsamleg. Í henni benti hann á að fátækt er ekki sama og tímabundið peningaleysi.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 17:30
Óborganlegt hjá honum, "hin svonefndu Hagsmunasamtök heimilanna", eða eins og lagatæknafélagið kallaði það svo eftirminnilega, "svokallað bankahrun".
Hafi hinir tæknilegu jafnaðar og vinstrimenn ævarandi skömm fyrir.
sr (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 19:48
Marinó, veistu hvað stóran hluta af íbúðalánmarkaðnum Íbúðalánsjóður, lífeyrissjóðir og Landsbankinn eru með?
Þar til viðbótar eru lífeyrissjóðirnir stórir kröfuhafar í hinum bönkunum.
Landfari, 30.8.2010 kl. 23:40
Ég hef líka undrast þessi skrif sem þú nefnir Marínó í ljósi þess hvað búið er að níðast á lántakendum í mörg ár. Hélt að jafnaðarmenn að ég tali nú ekki um vinstri menn væru hlynntir hugmyndinni um jöfnuð og réttlæti, þó ekki væri nema í orði.
Mér finnst eins og margir bíði núna með öndina í hálsinum hvað Hæstiréttur mun dæma með vexti myntkörfulánanna. Ég er sjálf búin undir það versta og finnst flest benda því miður í þá átt því hreðjatakið sem fjármálastéttin hefur á stjórnvöldum er með ólíkindum sterkt.
Vildi að ég væri bjartsýnni en mér finnst fátt gefa tilefni til þess.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2010 kl. 08:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.